145. löggjafarþing — 16. fundur
 6. október 2015.
sérstök umræða.

viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

[14:09]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að eiga orðastað við hæstv. innanríkisráðherra vegna þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi þann 16. maí 2014. Þá samþykkti Alþingi í félagi við innanríkisráðherra að láta yfirfara viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri samhliða vinnu við heildarendurskoðun umferðarlaga með það að markmiði að fækka slíkum tilvikum. Í þingsályktunartillögunni sem samþykkt var er fjallað um að skoða skuli sérstaklega fjórar leiðir:

1. Lækka refsimörk ölvunaraksturs úr 0,5 prómillum niður í 0,2 prómill með samsvarandi mælingu öndunarsýnis.

2. Halda námskeið um alvarleika ölvunar- og vímuefnaaksturs.

3. Hækka sektargreiðslur vegna ölvunar- og/eða vímuefnaaksturs og að hluti þeirra renni í forvarnasjóð.

4. Skoða ný, gagnleg úrræði við ölvunar- og/eða vímuefnaakstri.

Við atkvæðagreiðslu um tillöguna var hún samþykkt með 54 greiddum atkvæðum, einn hv. þingmaður greiddi ekki atkvæði og átta hv. þingmenn voru fjarverandi við atkvæðagreiðsluna.

Markmið tillögunnar er að leitast við að fækka þeim tilvikum þar sem ökumenn aka undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna. Í gögnum sem lögð voru fram við vinnslu tillögunnar kemur fram, og má þar m.a. nefna skýrslu Samgöngustofu og gögn frá rannsóknarnefnd samgönguslysa, að áfengis- og/eða vímuefnaakstur sé orsök þriðjungs banaslysa í umferðinni og einnig alvarlegra umferðarslysa.

Í þinglegri meðferð kom jafnframt fram að umferðarlög væru í heildarendurskoðun. Árið 2007 og á nokkrum þingum eftir það hefur frumvarp til umferðarlaga verið lagt fram en ekki náð fram að ganga. Umrædda tillögu átti að afgreiða í tengslum við frumvarpsvinnu að umferðarlögum, þ.e. mál 284 sem lagt var fram þingveturinn 2013–2014. Í öðrum gögnum sem meðal annars upplýsingadeild Alþingis safnaði saman vegna vinnslu málsins og varðar lagabreytingar vegna ölvunar- og/eða vímuefnaaksturs á Norðurlöndunum kemur fram að Svíar voru fyrstir þjóða til að lækka hámark leyfilegs áfengismagns í blóði. Það var úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill. Í skýrslu sem kom út í kjölfarið og gefin var út af hálfu sænskra umferðaryfirvalda kom fram að öllum umferðarslysum fækkaði um 4% og öllum banaslysum um 8%. Auk þessa var framkvæmd samanburðarrannsókn í kjölfar lagabreytingarinnar. Hún staðfestir að fjöldi þeirra sem hættu við að aka undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna hafi þrefaldast frá fyrri rannsóknum sem voru fyrir umrædda lagabreytingu. Í ljósi þessa má draga þá ályktun að umrædd lagabreyting hafi haft jákvæð áhrif á umferðaröryggi og umferðarmenningu þar í landi.

Í Danmörku voru einnig gerðar breytingar þar sem hámark leyfilegs áfengismagns í blóði var lækkað úr 0,5 prómillum í 0,25 prómill vegna áfengismagns í útöndunarlofti. Þar kemur fram að fjöldi látinna í umferðarslysum vegna ölvunar hafði lækkað um 75% eftir breytinguna.

Mig langar í þessu samhengi að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort endurskoðun umferðarlaga sé í gangi. Ef endurskoðun er í gangi, er tekið tillit til umræddrar þingsályktunartillögu um hert viðurlög við ölvunar- og/eða vímuefnaakstri? Ef endurskoðun er ekki í gangi, hvenær er fyrirhugað að hún fari í gang og að við fáum að sjá nýtt frumvarp um umferðarlög eða aðra tillögu sem snýr að því að markmið þessarar umræddu þingsályktunar nái fram að ganga?

Ég vil segja að lokum að mikilvægt er að við horfum í það sem vel er gert í kringum okkur. Mikilvægt er að við reynum að minnka líkurnar á því að fólk lendi í slysum vegna ölvunar- og/eða vímuefnaaksturs. Þau slys sem önnur hafa mikil áhrif á þá sem í þeim lenda, hvort sem um er að ræða þann sem veldur slysinu eða þann sem fyrir því verður.

Minnkum þær hörmulegu afleiðingar sem hafa orðið og geta orðið vegna þessara slysa fyrir alla aðila.



[14:14]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir að hefja umræðu um þetta mikilvæga mál og jafnframt það að hafa haft þetta mál á dagskrá á þessu þingi. Við vitum auðvitað öll að ölvunar- og vímuefnaakstur er alvarlegt mál sem mikilvægt er að komið sé í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum. Það er að sjálfsögðu fortakslaus krafa að ökumenn neyti ekki áfengra drykkja áður en þeir setjast undir stýri. Því miður stendur fjöldi fólks í þeirri trú að neysla takmarkaðs áfengismagns skerði ekki aksturshæfi. Þó er ljóst að ökumenn geta ekki undir neinum almennum kringumstæðum vitað hversu mikil áhrif neysla áfengis hefur á líkama þeirra og dómgreind, hvorki almennt né í einstökum tilvikum.

Ég tel nauðsynlegt að bregðast við þessum alvarlega vanda, akstri undir áhrifum áfengis, með því að reyna að eyða óvissu meðal ökumanna hvað þetta varðar og þá þarf að sjálfsögðu að taka það fram að akstur undir áhrifum vímuefna er einnig algerlega óásættanlegur.

Það er brýnt að ökumenn leggi sitt af mörkum í þessum efnum og auki umferðaröryggi, hvort sem það er í eigin þágu eða annarra, og komi þannig með ábyrgum hætti í veg fyrir þau fjölmörgu dauðsföll og alvarlegu umferðarslys sem árlega verða vegna ölvunaraksturs eða aksturs undir áhrifum fíkniefna. Ökumaður þarf ávallt að vera vakandi og allsgáður til að geta brugðist rétt við því sem upp getur komið við akstur. Áhrif áfengis og vímuefna draga verulega úr hæfni ökumanns til að greina merki um ýmsar hættur en stærsta ógnin sem við stöndum almennt frammi fyrir varðandi umferðaröryggi felst í fjölda þeirra ökumanna sem telja sig færa um að stýra vélknúnum ökutækjum eftir að hafa neytt áfengis eða vímuefna. Sú staðreynd felur í sér alvarlega áminningu til okkar allra, áminningu sem ekki má gleyma.

En varðandi fyrirspurn hv. þingmanns þá hefur ráðuneytið uppi tvenns konar áform þegar kemur að umferðarlöggjöfinni. Í fyrsta lagi er á þingmálaskrá tæknilegt frumvarp sem ég ætla svo sem ekki að fara mörgum orðum um hér. Það er vegna tilskipana og slíkra þátta. Það frumvarp er nokkuð langt komið og ég hef kosið að reyna að koma tilskipunarmálunum öllum sér inn í þingið svo hægt sé að ljúka afgreiðslu þeirra. Síðan er efnislegt frumvarp í vinnslu í ráðuneytinu, sem er frumvarp um breytingu á umferðarlögum. Það hefur verið um langa hríð meiningin að gera breytingu á umferðarlöggjöfinni. Það hefur gengið afar hægt og verið torsótt að koma því í gegn þannig að við mátum það svo að það þyrfti að fara aftur í gegnum það mál. Við munum í því sambandi hafa til hliðsjónar þá þingsályktunartillögu sem hv. þingmaður nefndi. Þar verður að finna efnislegar breytingar á umferðarlögunum sem eru taldar nauðsynlegar til að auka umferðaröryggi.

Við erum sem sagt í þessari vinnu núna í ráðuneytinu og hún snýr að ýmsum ákvæðum núgildandi umferðarlaga sem ekki eru talin nægilega skýr eða þarfnast breytinga af einhverjum ástæðum. Ég nefni sem dæmi ákvæði vegna hjólreiðamanna, vegna þokuljósa, vegna aksturs við tilteknar aðstæður, forgangsaksturs og ýmislegs og svo eins og hér er gert að umtalsefni hugsanlegar breytingar vegna ölvunaraksturs. Það mál er á því stigi núna að ég taldi óþarft að leggja það til á þessu haustþingi. Það er bara ekki komið nógu langt og það er betra fyrir okkur að vinna málið betur þannig að líklegra sé að við komum því í gegnum þingið. Við munum freista þess að leggja fram frumvarp af þessum toga á vorþingi.

Þau atriði sem hv. þingmaður nefnir eru auðvitað öll til skoðunar um það hvernig hugsanlega væri hægt að herða á viðurlögum við ölvunarakstri. Hér hefur verið nefnt áfengismagn í blóði o.s.frv. Allt eru þetta hlutir sem eru núna í skoðun og ekki efni fyrir mig að fara ítarlega ofan í einstaka þætti hvað það varðar. Ég held að við þurfum fyrst og fremst að kynna til sögunnar úrræði sem eru best fær í þessu sambandi til að sporna við ölvunar- og vímuefnaakstri. Um leið og löggjöfin skiptir gríðarlega miklu máli og þörf er á því að þróa hana er algerlega ljóst að við þurfum líka að standa okkur betur í því sem ég gat um í upphafi og hlýtur að vera alfa og ómega í svona umræðu að menn skilji hvað það þýði að ögra svo samfélaginu og sjálfum sér að telja sig færa um að aka bíl eða vélknúnum ökutækjum eftir að þeir hafa neytt áfengis. Það hlýtur að vera meginverkefnið að menn átti sig á þeim veruleika en löggjöfin þarf að sjálfsögðu að styðja þar vel við.



[14:19]
Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu hér og þessa fyrirspurn. Það má finna í mörgum skýrslum rannsóknarnefndar umferðarslysa, síðar rannsóknarnefnd samgönguslysa, miklar upplýsingar um það hver áhrif ölvunaraksturs eru. Það er alveg sama hvort menn eru greina útafakstur, veltur, framanákeyrslur, hvaða tegund umferðarslysa sem er, alltaf er ölvunarakstur allt of stór breyta í málinu og hefur kostað okkur allt of mikið.

Varðandi þyngingu refsinga eru til ýmsar rannsóknir í samfélagi eins og við búum í sem mæla með eða draga úr sérstaklega þungum refsingum. Vissulega þurfa að vera refsingar en það er alltaf matskennt hvernig þær eiga að vera. Hvort þynging refsinga hjálpar okkur í þessum málaflokki skal ósagt látið. Ef þungar refsingar leiða sjálfkrafa til minni brotatíðni ættu náttúrlega engin brot að vera framin í ýmsum löndum sem eru með fáránlega þungar refsingar á okkar mælikvarða, en það er ekki svo. Brotatíðni er mjög há í mörgum samfélögum sem búa við mjög þungar refsingar, þannig að orsakasambandið þar á milli er ekki alveg skýrt.

Það er einn mjög mikilvægur þáttur varðandi ölvunarakstur sem ég vildi nefna og það eru störf lögreglu. Í morgun komu fulltrúar lögreglu fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og ræddu málefni sín. Þar kom meðal annars fram að á umliðnum árum, fyrir ýmissa hluta sakir, hafa störf lögreglu færst af vettvangi inn við skrifborð. Fjárvöntun er ein af ástæðunum, eðlisbreytingar í samfélagi og verkefnum er önnur. Það vantar að efla hina sýnilegu löggæslu úti á vegum sem er, sérstaklega um helgar, í stanslausu eftirliti með ölvunarakstri. Ég tel að frá árinu 2007 hafi niðurskurður á þessu starfssviði verið svo mikill og ekki hafi náðst að vinna það til baka. Ég hvet innanríkisráðherra til að hugleiða það vandlega. (Forseti hringir.)



[14:22]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í skýrslu um ölvunaraðgerðir og áfengislás sem var hluti af þeirri þingsályktunartillögu sem fyrst var hér lögð fram og þessu tengd kemur ýmislegt fróðlegt fram, m.a. þegar kemur að forvarnaaðgerðum, námskeiði og fræðslu. Þar er rakin sagan þegar við breyttum lögunum 2007 til að bæta akstur ungra ökumanna. Þá var sett inn ákvæði þegar ökumenn fengu fjóra punkta að þeir þyrftu að sækja sérstakt námskeið og taka ökupróf að nýju. Þá var farin sú leið að beita ekki lengur bara sektum og sviptingum heldur að reyna að fá unga ökumenn til þess að sækja námskeið til að bæta stöðu sína.

Námskeiðið er byggt á hugmyndafræði sem kennd er við GADGET-líkanið sem segir svolítið til um að hvernig ábyrgur ökumaður mótast. Þar er ekki verið að miðla bara þekkingu um umferðarlögin heldur er svolítið verið að stýra inn á akstur, tilgang hans, áhættu, ákvarðanatöku og ábyrgð og af hverju yfir höfuð ungir ökumenn séu á slíku námskeiði.

Þetta hafði mikil forvarnaáhrif og brotlegum nýliðum fækkaði um 60% á milli áranna 2006 og 2007 og 2007 og 2008. Á árunum 2007–2010 sóttu 617 einstaklingar sérstakt námskeið, 80% karlar og 20% konur. Um mitt árið 2011 var ökuferillinn svo kannaður í framhaldinu hjá þeim sem höfðu sótt námskeiðið og 50% þeirra höfðu engin skráð brot eftir að hafa setið námskeiðið, 11% vegna ölvunar- og fíkniefnaaksturs, 33% vegna hraðaksturs og 6% önnur brot.

Þetta væri líka hægt að sjá fyrir sér þegar kemur að eldra fólki með einhverri tiltekinni útfærslu. Ég held að það sé eitthvað sem við eigum að huga að nú þegar við tölum um hert viðurlög. Hvaða aðferðir og aðgerðir getum við notað frekar en bara (Forseti hringir.) beinhörð viðurlög?



[14:24]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Hún er mjög þörf og á að fara reglulega fram í þingsal og í samfélaginu öllu því að ölvunarakstur er háalvarlegt mál. Það er verið að tala um þyngingu refsinga og annað. Ég er svolítið efins um það, og það kom fram hjá hv. þingmanni, hvort rétta leiðin sé að þyngja refsingar. Það er náttúrlega mjög vandasamt þótt alltaf verði að koma til refsingar.

Ég held að eitt af lykilatriðunum sé að auka fræðslu og forvarnir í þessum málum strax á unga aldri í skólum. Það er gríðarlega mikið atriði að kenna börnum og þeim sem eru að fara að taka bílpróf hvaða ábyrgð þeir þurfa að bera. Einn stærsti hlutinn í því er að kenna börnum að maður keyrir ekki ökutæki undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Það á að vera lykilatriði. Svo þarf líka að auka nám og kröfur til þeirra sem eru að taka bílpróf.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi í gær að sitja fyrirlestur austur í Vík í Mýrdal hjá Ólafi Kr. Guðmundssyni sem er einn af lykilmönnum í umferðarmálum og mikill baráttumaður þess, sem hann lagði einmitt áherslu á, að við Íslendingar förum að setja okkur skýra stefnu í umferðarmálum. Hann sagði að við hefðum enga stefnu í þeim málum. Við værum með lélega vegi og hegðun ökumanna væri ábótavant. Það sem við þyrftum að gera væri að einbeita okkur að því að efla þetta og vera með það sem hann kallaði fimm stjörnu vegi á Íslandi og fimm stjörnu ökutæki og síðan með fimm stjörnu fræðslu sem gerði það að verkum að við værum með fimm stjörnu ökumenn. Inni í þeim pakka væri það að þegar maður hefur smakkað áfengi sest maður aldrei undir stýri.



[14:26]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er mikið talað um refsingar. Það er gott vegna þess að það er mikilvægt að ræða þær. Ég vil halda því til haga að tillaga hv. þingmanns sem hér er málshefjandi fjallar einnig um lækkun refsimarka ölvunaraksturs úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill, námskeið um alvarleika ölvunar- og vímuefnaaksturs og í fjórða lið er kveðið á um ný úrræði í viðurlögum við ölvunar- og vímuefnaakstri. Það er mjög mikilvægt að líta til þess þegar við ræðum þetta mál vegna þess að markmiðið er auðvitað ekki að refsa heldur að fækka ölvunaraksturstilvikum.

Fólk hefur almennt tilhneigingu til þess að hafa oftrú á refsingum. Ég, eins og margir aðrir sem hér hafa talað, er alls ekkert viss um að þyngri refsingar skili endilega tilætluðum árangri. Það er mikilvægt að rannsaka það sérstaklega. Það getur verið að það virki, en það á ekki að þykja augljóst. Oft og tíðum felst aðalforvörnin í því að viðkomandi verði yfir höfuð gómaður óháð því hversu mikil refsingin reynist síðan vera. Til þess að ná því markmiði, ef það hefur meiri áhrif en þyngri refsingar, þá er mikilvægt að efla eftirlit með umferðinni. Það þýðir að fjölga þarf lögreglumönnum og bæta almennt starfsskilyrði þeirra, nokkuð sem ég er algjörlega hlynntur.

Það er ýmislegt fleira sem ég held að sé alveg þess virði að ræða í þessari umræðu en það er kannski erfitt að koma því fyrir í tveimur mínútum, jafnvel þótt ég tali tvisvar. Ég hlakka til að eiga mun ítarlegri umræður um þetta mál þegar frumvarpið verður lagt fram. Að því sögðu hlakka ég til að sjá það frumvarp og fagna því að þetta mál sé hér til umræðu.



[14:28]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, fyrir umræðuna. Ég vil koma hérna aðeins inn á tengingu milli þingsályktunartillögunnar sem hv. þingmaður ræðir hér um og tillögu um norræna lýðheilsustefnu í áfengis- og tóbaksmálum sem Ísland hefur tekið þátt í og ætti að vinna eftir. Þar kemur einmitt fram að takmark allra þjóða á Norðurlöndum ætti að vera að lækka refsimörk ölvunaraksturs niður í 0,2 prómill. Þar er einnig komið inn á ný gagnleg úrræði, svo sem áfengislása í bifreiðar atvinnubílstjóra og einstaklinga sem dæmdir hafa verið fyrir ölvun við akstur. Við verðum bara að viðurkenna að sumir einstaklingar eiga það til að stunda ítrekuð brot á ölvunarakstri.

Árið 2014 var sögulegt á Íslandi því að aldrei höfðu færri slasast vegna ölvunaraksturs miðað við tíu ár á undan. Talan var 31 einstaklingur, þeir höfðu aldrei verið færri. Það ár lést enginn vegna ölvunaraksturs í fyrsta sinn samkvæmt gögnum Samgöngustofu svo langt sem gögn þeirra ná aftur. Þessum árangri náðum við ekki fyrr en 2014.

Virðulegi forseti. Ég tel að tillaga sem er samþykkt með 54 greiddum atkvæðum sé merki um samstiga þing. Þessi málaflokkur er það mikilvægur að þótt við náum að fækka tilfellum slysa þar sem áfengi er áhrifavaldur þá þurfum við einmitt að taka þessa umræðu reglulega. Ég tek undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni að við megum ekki bara horfa á refsingarnar, við þurfum líka að huga að forvörnum. Við þurfum að uppfræða og leita lausna til að hjálpa því fólki sem er á þeirri braut að brjóta endurtekið af sér á þennan hátt.



[14:30]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Elsu Láru Arnardóttur, kærlega fyrir að hefja þessa umræðu um þetta mikilvæga og alvarlega málefni sem ölvunarakstur er. Umferðarslys eru algengustu banaslys á Íslandi og ölvunarakstur er ein helsta orsök banaslysa í umferðinni. Í kjölfar slíks harmleiks fer gjarnan fram umræða um aukin viðurlög vegna ölvunaraksturs.

Þegar kallað er eftir auknum lagasetningum um þyngri refsingar og hert viðurlög er mikilvægt að hafa nægar upplýsingar til að það liggi ljóst fyrir að slíkt muni ná markmiðinu um aukið öryggi í umferðinni. Ákvað ég því í lokaverkefni mínu í laganámi að rannsaka ölvunarakstursmál samkvæmt gögnum lögreglu yfir eins árs tímabil, greina þau gögn sem til staðar voru og skoða þannig eðli ölvunaraksturs. Niðurstöðurnar gefa upplýsingar um hversu margir ökumenn hafa verið teknir fyrir ölvunarakstur og þeir greindir eftir kyni og aldri, hvenær þeir voru teknir og vínandamagn í blóði. Þessar niðurstöður hafa verið bornar saman við önnur gögn sem liggja fyrir um ölvunarakstur. Þá voru tekin viðtöl við einstaklinga sem höfðu verið staðnir að ölvunarakstri.

Helstu niðurstöður eru þær að ógnin vegna ölvunaraksturs skapast helst af tveimur hópum: Annars vegar ungum ökumönnum sem ekki hafa gert sér grein fyrir þeim alvarleika sem fylgir ölvunarakstri og eru oft hvattir af félögum sínum til aksturs og hins vegar þeim sem eiga við áfengisvandamál að stríða og viðurlög virðast ekki hafa áhrif á. Í ljós hefur komið að viðurlögin virðast ekki hafa næg varnaðaráhrif þar sem ökumenn segjast ekki eiga von á að lögregla hafi afskipti af þeim yfir höfuð. Mikilvægt er því að hafa áhrif á viðhorf samfélagsins til ölvunaraksturs, auka þarf skyldu þeirra sem taka þátt í umferðinni til að koma í veg fyrir ölvunarakstur með því að tilkynna hann til lögreglu auk þess sem eftirlit lögreglu þarf að vera markvissara svo að ökumenn eigi hvar og hvenær sem er von á því að þeir verði stöðvaðir við ölvunarakstur.

Það kom fram við gerð umferðaröryggisáætlana að hægt væri að koma í veg fyrir fjögur af hverjum fimm umferðarslysum vegna ölvunar- og hraðaksturs með öflugra eftirliti lögreglu.



[14:32]
Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra. Ég hef trú á því að sú menning, viðhorf og gildismat sem við búum við sé mikilvægasti þátturinn. Stór breyting sem við gerðum á ökunámi okkar var að taka upp svokallað æfingaakstursár. Við æfingaaksturinn flyst menning, viðhorf og gildismat foreldra yfir á nýjan ökumann. Ég hef trú á því að á undanförnum árum á Íslandi hafi viðhorf almennings breyst og þar af leiðandi sé sú yfirfærsla sem þarna á sér stað langmikilvægasti hluti ökunámsins, að börnin læri af foreldrunum almenna þekkingu um það hvernig best sé að komast af í umferðinni. Ég vil styrkja það verkefni foreldra svo að tryggt sé að það sem við erum að ræða hér komist til skila, þ.e. mikilvægi þess að allir ökumenn verði fyrir þeirri félagsmótun að ölvunarakstur sé fullkomlega fráleitt fyrirbæri.

Ég vil enn fremur geta þess að ég sakna gríðarlega áhrifaríkra auglýsinga á vegum Umferðarstofu, sem voru fyrir nokkrum árum að ég hygg, um ölvunarakstur og afleiðingar hans. Ég hef trú á að ef Umferðarstofa fær tækifæri til að hefja þær að nýju og ef lögreglan fær tækifæri til að hefja virkt og sýnilegt eftirlit með þessu þá muni þessir þrír þættir saman, að það sé skýrt í þeim viðhorfum sem við miðlum til ungu kynslóðarinnar, að við rekum ákveðinn áróður og að lögreglan fái tækifæri til að vera sýnileg í virku umferðareftirliti, verða til þess að við náum árangri.



[14:34]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni. Svo ég haldi áfram að vitna til skýrslunnar sem ég var fór yfir áðan, þ.e. um námskeið og aðrar leiðir en bara beinar refsingar, þá eru það vissulega viðurlög. Aðrar þjóðir fara þessar leiðir í auknum mæli þar sem refsingar og sviptingar duga takmarkað og talið er nauðsynlegt að leita nýrra leiða til að auka öryggi í umferðinni og um leið þá kannski lífsgæði þátttakenda með því að beina þeim sem brjóta af sér á réttar brautir. Vitnað er til þess að í Danmörku var lögunum breytt árið 2002 þannig að öllum sem fengu skilyrðislausa sviptingu vegna ölvunaraksturs var gert að sækja námskeið um akstur og áfengi áður en þeir fengu bílprófið aftur. Síðan skilaði DTU 2009 skýrslu þar sem var búið að meta árangurinn. Niðurstaðan varð sú að námskeiðin voru talin minnka líkur á því að þeir gerðust aftur sekir um ölvunarakstur.

Ég tek undir með hv. þingmanni sem hér talaði á undan mér og lögreglan kom til okkar í morgun en það eru engin ný sannindi að við höfum séð hana færast af götunum. Það er mun minna af henni, hvort sem er úti á þjóðvegum landsins eða í þéttbýli. Það skiptir máli. Þeir sem hafa einbeittan brotavilja vita þetta og nýta sér frekar færin. Áfengislásar einir og sér duga kannski takmarkað en allir geta tengt fram hjá sem það vilja. Við erum að hugsa um margar tegundir af aðgerðum en það skiptir samt líka máli að hafa þær fjölbreyttar.

Mér finnst hins vegar mikilvægasta einstaka aðgerðin, sem við ræðum hér seinni partinn í dag, aðgengi að áfengi. Við erum að fara að ræða áfengissölu í búðum. Ég tel mikilvægasta forvarnamálið að við sjáum til þess að áfengi verði áfram í sérstökum verslunum.



[14:36]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Hún er mjög áhugaverð, miklu áhugaverðari en ég hélt að hún mundi verða þannig að ég er mjög ánægð með að hafa setið hérna og hlustað á hana. Ég er enginn sérfræðingur í þessum málum en mér finnst sjálfsagt, eins og hefur komið fram, að við horfum til þess sem hefur verið gert í öðrum löndum og þess sem hefur reynst vel. Mér finnst erfitt að segja til um hvort varnaráhrif eru af þeirri aðgerð að þyngja refsingar. Ég held að það sé eitthvað sem ráðherra verður að meta. Ég mundi frekar halda að það væri fræðsla og eftirlit, ég held að máli skipti að lögreglan sinni eftirliti. Ég man eftir því að hafa verið stoppuð einhvern tíma þegar Íslendingar féllu alveg fyrir jólaglöggshátíðunum. Þá var eitt slíkt jólaglöggskvöld í nóvember og allir stoppaðir sem voru á Miklubrautinni og maður þurfti að fara í gegnum síu. Ég veit ekki hvort það er endilega rétta leiðin en það þarf að vera vakandi fyrir því þar sem geta verið einhver vandamál.

Ég verð að segja að ég er alveg spennt fyrir hugmyndinni með áfengislása. Ég segi það fyrir mig að ég mundi ekki kunna að tengja fram hjá, ég vissi ekki einu sinni að það væri hægt. En þegar menn eru ítrekað staðnir að verki og eru beinlínis sjálfum sér og öðrum mjög hættulegir finnst mér sjálfsagt mál að settar séu einhverjar kvaðir á þá, ef þeir eiga bíl sé hann gerður upptækur, ef þeir hafa ekki stjórn á þessu sé settur áfengislás. Það finnst mér ekki vera eitthvað sem við eigum að bíða eftir. Það fyndist mér vera aðgerð sem við gætum vonandi farið í sem fyrst. Annars þakka ég fyrir áhugaverða umræðu.



[14:38]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að henda inn einum punkti í viðbót um refsingar. Hann er úr umsögn lögreglustjórans á Reykjanesi frá því í fyrra og kom fram við meðferð málsins sem hv. þingmaður lagði fram á sínum tíma. Sá lögreglustjóri sagði, með leyfi forseta:

„Reynsla lögreglustjórans á Suðurnesjum er sú að þau viðurlög sem helst hafa áhrif séu ökuleyfissviptingar en ekki sektarfjárhæð og er það ítrekað sem fyrirspurnir berast um hvort unnt sé að greiða sig frá ökuleyfissviptingu.“

Þetta vekur áhuga minn vegna þess að við þurfum líka að íhuga hvers eðlis refsingin er, ekki aðeins að hún sé þung heldur hvaða áhrif hún hefur og hvaða áhrif hún hefur á hegðunina.

Nóg um refsingar í bili. Nú liggur fyrir að það er mikið uppnám meðal lögreglunnar vegna kjaramála og aðbúnaðar og fleiri þátta. Mér finnst mjög mikilvægt að þegar við lítum til áfengisneyslu og aksturs hugsum við ekki einungis um það hvernig við getum kennt afbrotamönnum lexíu heldur líka hvernig við getum styrkt okkar eigin innviði til þess að berjast hvað mest gegn vandamálinu. Það þýðir auðvitað að ef við ætlum að taka þetta mál alvarlega, sem mér sýnist allir hér gera, verðum við að taka málefni lögreglunnar alvarlega og gera henni kleift að sinna störfum sínum sem best.

Það hefur margoft komið fram hérna að þetta er heldur algeng dauðaorsök. Flest banaslys í umferðinni verða af þessum völdum og því mikilvægt að eftirlitið sé í lagi, ekki aðeins hvað gerist í kjölfar eftirlitsins.

Síðast en ekki síst má nefna að gríðarlegur árangur hefur náðst í baráttunni gegn vímuefnaneyslu ungmenna á síðustu 15 árum. Við eigum að líta í þá átt. En þá vil ég nefna í sambandi við áfengi, sem margir telja vera vægt vímuefni en það er það ekki, að það hefur þá hvimleiðu blöndu að draga úr dómgreind, sljóvga miðtaugakerfið verulega og auka sjálfstraust, sem er hræðileg blanda. Ég hef ekki tíma fyrir meira, virðulegi forseti, og lýk því máli mínu.



[14:40]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. innanríkisráðherra og hv. þingmönnum fyrir mikilvæg innlegg þeirra í umræðuna. Umræðan hefur svolítið mikið verið eins og markmiðið sé eingöngu að þyngja refsingar. Mig langar aðeins að rifja upp þau fjögur atriði sem þingsályktunartillagan fjallaði um.

1. Að lækka refsimörk ölvunaraksturs úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill og með samsvarandi mælingu öndunarsýnis. Þar er vitnað í góðan árangur annars staðar á Norðurlöndum þar sem þetta hefur gefið góða raun.

2. Að halda námskeið um alvarleika ölvunar- og vímuefnaakstur. Þarna kem ég inn á svipaðan þátt og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þar sem markmiðið er að nýta svipaða leið og hefur verið notuð fyrir unga ökumenn sem eru að læra undir bílpróf, að tala um fræðslu og auka skilning þeirra á alvarleika þess að setjast undir stýri ölvaðir.

3. Að hækka sektargreiðslur vegna ölvunar- og vímuefnaaksturs og að hluti þeirra renni í Forvarnasjóð. Með auknu fjármagni í Forvarnasjóði getum við farið í átök eins og Samgöngustofa og fleiri aðilar hafa farið í, í vitundarvakningu um alvarleika málsins.

4. Að skoða ný gagnleg úrræði í viðurlögum við ölvunar- og vímuefnaakstri. Það sem liggur þar á bak við eru til dæmis áfengislásar.

Auk þess er mjög mikilvægt, sem hv. þingmenn hafa komið inn, að auka sýnileika lögreglunnar. Það er unnið markvisst að því að reyna að bæta þar úr veit ég.

Að lokum vil ég þakka mjög svo fyrir þá góðu umræðu sem hefur átt sér stað og ég hlakka til að sjá þau frumvörp sem snúa að þessum málum koma inn í þingið og taka umræðuna.



[14:42]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir umræðuna sem er auðvitað mikilvæg fyrir okkur í innanríkisráðuneytinu vegna þessa málaflokks og annarra. Það er alltaf gott að vita þegar maður hefur líka stuðning í þinginu í þeim verkum sem fram undan eru.

Ég vil vegna þeirrar umræðu sem hér hefur verið lýsa þeirri skoðun minni að ég skil bæði þingmál hv. þingmanns og umræðuna svo að menn líta fyrst og fremst til þess hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir eins og hægt er að ökumenn aki undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Í því efni er augljóst að forvarnir skipta gríðarlega miklu máli og það er áhugaverður punktur sem kom fram áðan um að við foreldrar höfum miklu hlutverki að gegna. Ég er til dæmis núna í því að vera aukaökumaður fyrir dóttur mína og það hvílir á okkur foreldrum öllum sú skylda að greina börnunum frá því að í raun og veru eru þau að aka um á tæki sem getur drepið. Það er ekkert flóknara en það. Sú er ábyrgðin sem hvílir á ökumönnum. Ungir krakkar vilja ekki endilega heyra þetta en það er okkar hlutverk að koma þeim í skilning um það og að sjálfsögðu hins opinbera almennt líka.

Ég tek því undir það sem hefur komið fram að forvarnir skipta gríðarlega miklu máli og einnig sýnileiki, að þetta sé nokkuð sem ekki er látið viðgangast. Það sem ég held að mikilvægt sé fyrir okkur að hugsa um er að það veit enginn hvaða áhrif hálft vínglas hefur á færni manna til að keyra bíl. Menn eiga bara að sleppa þessu alveg. Það væri best. Við höfum verið að ræða prómill o.s.frv.

Mig langar svo rétt í lokin að segja, af því að nefndar voru tölur um dauðsföll í umferðinni, að því miður höfum við á þessu ári tapað ellefu mannslífum í umferðinni, að hluta til vegna þess að ekki voru notuð bílbelti. Það er annar angi af þessu máli sem er mjög brýnt að sé reglulega til skoðunar, að alveg ljóst sé að allir sem aka bíl og sitja í bíl þurfa að nota bílbelti.