145. löggjafarþing — 18. fundur
 8. október 2015.
fjárhagsvandi tónlistarskólanna.

[10:57]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Tónlistarskólarnir í Reykjavík eru í miklum vanda. Í vor var gengið frá samkomulagi á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins sem fólst meðal annars í því að við hér á Alþingi samþykktum að greiddar yrðu 30 milljónir úr jöfnunarsjóði til að hjálpa til við að leysa þennan vanda. Ríkið ætlaði að koma með 60 milljónir og Reykjavíkurborg ætlaði að leggja til 90 milljónir.

Nú heyrist það að ríkið ætli ekki að standa við þennan samning um að greiða þær 60 milljónir. Þegar hefur kennurum við tónlistarskóla í Reykjavík verið sagt upp. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra mjög einfaldrar spurningar, já eða nei, vegna þess að ég veit um lögin frá 1980, ég veit um samkomulag frá 2011, en spurningin er þessi: Hyggst ráðherrann leggja sitt af mörkum til þess að vandi tónlistarskólanna í Reykjavík, og þá sérstaklega nemendanna við þessa skóla, verði leystur samkvæmt því samkomulagi sem undirritað var í vor eða gengið var frá í vor? Bara já eða nei, ég þarf engan langan fyrirlestur, virðulegi forseti.

Í annan stað hefur staðið yfir vinna lengi um það hvernig á að koma þessum málum fyrir í framtíðinni. Nú skilst mér að í vor hafi sú vinna verið sett í uppnám og einhverjar nýjar hugmyndir á reiki. Mig langar til að spyrja ráðherrann hvort hann hyggist ekki gera okkur í þinginu grein fyrir þeim hugmyndum áður en þær verða bara lagðar fram í fjárlögum eins og ráðherranum er títt vegna þess að þetta (Forseti hringir.) skiptir okkur öll miklu máli.



[11:00]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir áskorun hv. þingmanns um að svara bara með jái eða neii þá verð ég að segja að ég ætla mér að nota þessar mínútur sem ég hef til að reifa málið að nokkru.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður nefnir, í gildi eru lög í landinu um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Það kemur alveg skýrt fram í þeim lögum að ábyrgðin á þessum málaflokki liggur hjá sveitarfélögunum. Ríkið aftur á móti gerði það árið 2011, þá undir forustu þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, að bæta við fjármagni þar. Viðbrögð Reykjavíkurborgar voru þau að draga til baka allt sitt fjármagn sem hafði farið til þessara mála á þeim tíma og afleiðingar þeirrar ákvörðunar eru nú komnar í ljós þar sem er stórkostlegur rekstrarvandi tónlistarskólanna í Reykjavík.

Hvað varðar meint samkomulag sem átti að hafa verið gert í sumar og spurt hvort ég ætli að standa við, þá vil ég bara benda hv. þingmanni á það að ekkert slíkt samkomulag var gert. Fundir voru haldnir þar sem mættu annars vegar fulltrúi frá Reykjavíkurborg og hins vegar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og á þeim fundum sátu líka, alveg hárrétt, með áheyrnarstöðu áheyrnarfulltrúar frá fjármálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Ekkert samkomulag hefur verið undirritað og þar af leiðandi er ekki uppi sú spurning að standa við eitthvert samkomulag sem var gert. Þó að einstakt sveitarfélag komist að þeirri niðurstöðu að það vilji gjarnan að ríkisvaldið leysi þau vandamál sem upp á það standa þá er það ekki þannig gert að búinn sé til einhvers konar listi eða drög að samkomulagi og sagt: Heyrðu, þið eigið að standa við það, þegar engin undirskrift er þar undir og ekkert samkomulag hefur verið gert, virðulegi forseti. Þetta er alveg fráleitur málatilbúnaður. Það var ekki, eins og hv. þingmaður sagði áðan, undirritað í vor — ég hjó eftir þeim orðum hv. þingmanns — það var ekkert samkomulag undirritað.

Af því að spurt var hvort ég vildi styðja við málið hef ég sagt alla tíð: Já, ég vil gjarnan gera það en það þarf þá að gera það þannig að ekki myndist nýtt vandamál aftur næsta ár. Það skiptir miklu máli til dæmis að Reykjavíkurborg falli frá nálgun sinni hvað þetta varðar. Hitt sem ég mun koma að í seinna svari mínu, hvað varðar kynningu á því framtíðarfyrirkomulagi sem hv. þingmaður kallaði eftir, þá vil ég (Forseti hringir.) nefna það við hv. þingmann að ég átti fund í morgun með allsherjar- og menntamálanefnd þingsins þar sem farið var sérstaklega yfir það og ég fór yfir þær hugmyndir mínar um það framtíðarskipulag sem gæti verið þar á ferðinni.



[11:02]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég bið afsökunar ef ég hef sagt að undirritað hafi verið samkomulag, ég trúi náttúrlega ráðherranum að það hafi ekki verið gert. En við erum sum þannig innréttuð að við teljum að ef samkomulag sé gert þá sé það nú ekki endilega undirskriftin sjálf sem skipti máli, heldur það að samkomulag hafi verið gert og við slíkt samkomulag ber að standa. Ég vil segja að mér finnst ráðherrann hafa þann einstaka hæfileika að gera alla hluti að pólitísku ágreiningsefni. Við erum að tala um vanda tónlistarskólanna í Reykjavík. Það er vandi, sérstaklega fyrir það fólk sem stundar þar nám. Ég treysti því að ráðherrann skilji ábyrgð sína á því að eyðileggja ekki það mikla verk sem unnið hefur verið í tónlistarskólum undanfarin ár. Ráðherrann getur náttúrlega ekkert verið að æsa sig yfir því að ég viti ekki um það að gerð hafi verið grein fyrir þessu í morgun. Hann hefði getað sagt mér það í rólegheitum (Forseti hringir.) og ég hlakka til að fá frekari fregnir af því.



[11:03]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það var ekki svo að þetta hafi verið sagt í einhverjum æsingi, ég var bara að segja frá því að þessi fundur hafi átt sér stað í morgun og þar hefði þetta verið reifað.

Virðulegi forseti. Þetta er alveg fráleit nálgun að fyrir liggi eitthvert ígildi samkomulags sem hefði þá verið með munnlegum hætti búið að ganga frá en ætti bara eftir að skrifa nöfnin og þess vegna ættu menn að standa við það. Þetta er algerlega fráleitur málatilbúnaður. Ekkert slíkt samkomulag hefur verið gert. Fundirnir áttu sér stað, en fulltrúar frá Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og áheyrnarfulltrúar frá bæði mínu ráðuneyti og fjármálaráðuneytinu bjuggu ekki til neitt samkomulag sem síðan hefur ekki verið staðið við. Mjög mikilvægt er að þetta komi fram alveg skýrt.

Virðulegi forseti. Ég ætla að nefna svona til glöggvunar hvaða álitamál munu koma upp ef ríkisvaldið ákveður að bjarga málum þessa einstaka sveitarfélags hvað þetta varðar. Hvaða ákvarðanir munu önnur sveitarfélög taka ef Reykjavíkurborg hefur ákveðið að draga sitt fjármagn til baka varðandi tónlistarkennslu á framhaldsstigi og mynda þennan mikla vanda? Ríkisvaldið kemur og borgar í staðinn. Hvað munu önnur sveitarfélög í landinu þá gera? Hvaða skilaboð eru fólgin í þeirri lausn gagnvart þeim? Eiga þau að halda áfram eins og þau eru að gera núna, borga í framhaldsnámið? Eða munu þau segja: (Forseti hringir.) Heyrðu, við erum bara hætt því líka eins og Reykjavíkurborg og ríkið á að hreinsa þetta upp. (Forseti hringir.) Þetta er eitt dæmið um það flækjustig sem í málinu er. Og þegar kemur að ábyrgðinni, virðulegi forseti, þá ætla ég ekki að skjóta mér undan henni. En skýrt er kveðið á um ábyrgðina (Forseti hringir.) í lögum, það eru lög sem segja að þetta skólastig sé á ábyrgð (Forseti hringir.) sveitarfélaganna. Þau bera þá ábyrgð.