145. löggjafarþing — 19. fundur
 13. október 2015.
afsláttur erlendra kröfuhafa slitabúa bankanna.

[13:42]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Fréttir bárust af því í síðustu viku að til stæði að ljúka afgreiðslu mála er vörðuðu stöðu slitabúanna og að ríkisstjórnin væri komin á fremsta hlunn með ákvörðun um að veita gríðarlegan afslátt frá stöðugleikaskatti gegn greiðslu stöðugleikaframlaga frá slitabúunum. Eins og við munum öll voru samþykkt hér í sumar lög um álagningu stöðugleikaskatts sem átti að skila um 680 milljörðum í ríkissjóð en samkvæmt fréttum stóð til að leyfa slitabúunum að komast fríum út úr landi gegn greiðslu 330 milljarða. Það átti að veita meira en helmingsafslátt af skattinum.

Forsendur þessa afsláttar og þessarar eftirgjafar ríkisstjórnarinnar til erlendra kröfuhafa voru hins vegar ekki ljósar. Svo bar það við að kynnt var að útgáfu fjármálastöðugleikarits Seðlabanka Íslands hefði verið frestað um óákveðinn tíma. Ég óskaði hér á miðvikudaginn í síðustu viku eftir fundi formanna flokkanna til að fara yfir forsendur þessara ákvarðana því að mér þykir eðlilegt að ríkisstjórnarflokkarnir og forustumenn þeirra útskýri hvaða forsendur liggi til grundvallar ákvörðun þeirra um að veita erlendum kröfuhöfum þessa miklu afslætti.

Við þeirri beiðni minni um fund hefur ekki verið orðið. Hæstv. forsætisráðherra tók vel í slíkan fund hér í fyrirspurnatíma á fimmtudaginn var en ekkert hefur gerst. Það hefur ekki verið boðað til fundar í samráðsnefnd um afnám hafta þar sem fulltrúar allra flokka eiga sæti og hæstv. forsætisráðherra hefur ekki haft frumkvæði að því að kalla saman formenn flokkanna.

Ég vil þess vegna ítreka spurninguna til hæstv. forsætisráðherra: Stendur ekki til (Forseti hringir.) að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar útskýri fyrir fulltrúum annarra stjórnmálaflokka þær efnislegu forsendur sem eru fyrir afslætti til erlendra kröfuhafa? Og þykir ekki hæstv. forsætisráðherra eðlilegt að þær forsendur verði gerðar opinberar þannig að hægt sé að svara eðlilegum athugasemdum, m.a. Indefence, um að verið að sé að ganga of langt?



[13:45]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég svaraði þessari fyrirspurn hv. þingmanns í síðasta fyrirspurnatíma en þá barst hún frá tveimur öðrum þingmönnum, formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og varaformanni Samfylkingarinnar. Hv. þm. Árni Páll Árnason virðist hafa misst af þeim umræðum og hefði getað sparað sér þessa fyrirspurn núna og notað hana kannski í eitthvað annað, t.d. spurt mig um verðtrygginguna sem ég heyrði ekki betur hér áðan en að lægi mjög á að ræða, en hv. þingmanni liggur greinilega ekki það mikið á og frekar kýs hann að spyrja aftur um það sem búið var að svara hér síðast.

Hann bætti þó við ítrekun á beiðni um fund í samráðsnefnd um þessi mál. Ég tel enga ástæðu til þess að bíða með það umfram það sem menn telja æskilegt, en mér hafði skilist að sameiginlegt mat manna hefði verið að þeir vildu bíða þess að fjármálaráðherra gæti hitt nefndina. Vilji menn ekki bíða eftir því held ég að það hljóti að vera hægt að kalla saman fund í þessari nefnd með skömmum fyrirvara því að það er ekkert að vanbúnaði að upplýsa stjórnarandstöðu og aðra um gang þessara mála. Það er greinilega ekki vanþörf á miðað við fyrirspurn hv. þingmanns sem virðist, eins og ég segi, líka hafa misst af umræðum í þinginu í síðasta fyrirspurnatíma.



[13:46]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að ítreka þá fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra hvort hann vilji gangast fyrir því að gera opinberar allar forsendur afsláttarins sem hann hyggst veita erlendum kröfuhöfum áður en ákvörðun er tekin þar um. Það er bein spurning sem hæstv. forsætisráðherra hlýtur að geta svarað. Fyrst hæstv. forsætisráðherra getur komið hér og skensað aðra þingmenn um verðtrygginguna og umræður þar um finnst mér hann ætti að sýna manndóm til að verða við eðlilegum óskum þingmanna um málefnalega umræðu um það mikilvæga hagsmunamál. Hann horfði sjálfur í augun á þjóðinni fyrir síðustu kosningar og sagði að það væri enginn vandi að afnema verðtryggingu. Hann sagði reyndar líka að það væri enginn vandi að taka fullt af peningum af erlendum kröfuhöfum. En hann hefur ekki afnumið verðtryggingu og hann getur ekki komið hreint fram og sagt að hann vilji gera opinberar forsendurnar fyrir afslættinum sem hann er að fara að veita erlendum kröfuhöfum.



[13:48]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður virðist vera algjörlega á byrjunarreit í þessu máli. Hann hefur ekki einu sinni tekið eftir þeirri kynningu sem fram fór í Hörpu þegar upphaflega var sagt frá því með hvaða hætti yrði ráðist í það að aflétta höftum, losa höft. (Gripið fram í.) Þá þegar kom fram að það væru …(Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Er hægt að hafa hemil á hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur sem kallar hér fram í í hvert einasta skipti sem ég reyni að svara formanni hennar ágæta flokks?

Þar kom fram þá þegar að til stæði að hafa þessar tvær leiðir mögulegar þannig að það að tala um einhvern afslátt er algjörlega út í hött, virðulegur forseti, og hreinlega rangfærslur. Það hvaða skilyrði þarf að uppfylla liggur jafnframt fyrir. Stöðugleikaskilyrðin liggja fyrir og þau felast ekki bara í greiðslu peninga eins og kom fram í einhverjum fréttum í síðustu viku þar sem menn höfðu gleymt öllum hinum liðunum, þau felast í mjög mörgum atriðum, m.a. afhendingu ýmiss konar eigna sem í öllum tilvikum (Forseti hringir.) eiga að gera sama gagn, ná sama markmiði, takast á við sömu upphæð og ef skattaleiðin er farin.