145. löggjafarþing — 20. fundur
 14. október 2015.
þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, 1. umræða.
stjfrv., 156. mál. — Þskj. 156.

[15:40]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en hlaut ekki endanlega afgreiðslu. Frumvarpið er nú endurflutt með tveimur breytingum sem gerðar hafa verið með hliðsjón af breytingum sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis lagði til á síðasta þingi. Í grunninn er frumvarpið hins vegar byggt á þingmannafrumvarpi Silju Daggar Gunnarsdóttur o.fl. sem Alþingi samþykkti á fundi sínum 16. maí 2014 að vísa til ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Með frumvarpinu er lagt til að rýmkaðar verði heimildir til notkunar á íslenska þjóðfánanum við markaðssetningu á vöru og þjónustu og er lagt til að heimilt verði án sérstaks leyfis að nota fánann við markaðssetningu á vöru og þjónustu sem er íslensk að uppruna.

Orðalagið „íslensk að uppruna“ er nýtt í lögunum og er nánar skilgreint í 2. gr. frumvarpsins hvað felst í því. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er meginreglan sú að varan telst íslensk að uppruna ef hún er framleidd hér á landi úr innlendu hráefni að uppistöðu til. Með innlendu hráefni er átt við hvers kyns hráefni sem ekki er innflutt, svo sem íslenskar landbúnaðarafurðir, íslenskar sjávarafurðir, þ.e. afurðir af Íslandsmiðum sem landað er hér á landi, eldisfisk, íslenskt grænmeti og aðrar jurtir sem ræktaðar eru hér á landi, einnig hvers kyns jarðefni sem numin eru hér á landi, íslenskt vatn o.s.frv.

Auk meginreglunnar getur vara samkvæmt frumvarpinu talist íslensk að uppruna samkvæmt þremur sérreglum. Í fyrsta lagi ef um er að ræða hefðbundna íslenska matvöru eða vöru sem á sér langa framleiðslusögu hér á landi. Í öðru lagi vegna hönnunar vöru og í þriðja lagi vegna hugverka.

Hvað varðar hefðbundna íslenska vöru og vöru með langa framleiðslusögu hér á landi þá er lagt til að varan teljist íslensk að uppruna í skilningi laganna ef hún hefur verið framleidd hér á landi í a.m.k. 30 ár undir íslensku vörumerki jafnvel þótt hún sé framleidd úr innfluttu hráefni að stórum hluta eða öllu leyti og að sama skuli gilda um matvöru sem framleidd er samkvæmt íslenskri hefð, t.d. kleinur, laufabrauð o.fl.

Hvað hönnunarvörur varðar þá er lagt til að slík vara teljist íslensk að uppruna ef hún er hönnuð af íslenskum aðila undir íslensku vörumerki jafnvel þótt hún hafi verið framleidd erlendis úr erlendu hráefni. Þetta á þó ekki við ef um er að ræða hráefni sem er eðlislíkt innlendu hráefni sem telst hafa séríslenskan uppruna, einkenni eða eiginleika. Dæmi um slíkt hráefni væri íslenska ullin. Þannig væri ekki nægilegt samkvæmt þessari reglu að snið og munstur lopapeysu, svo dæmi sé tekið, sé hannað af íslenskum aðila heldur getur lopapeysa aðeins talist íslensk að uppruna ef hún er framleidd úr íslenskri ull.

Loks er kveðið á um að hugverk teljist íslensk að uppruna ef þau eru samin eða sköpuð af íslenskum aðila. Með íslenskum aðila í frumvarpinu er átt við einstaklinga og lögaðila með íslenskar kennitölur.

Virðulegur forseti. Þau sjónarmið sem búa að baki frumvarpinu lúta fyrst og fremst að því að neytendur geti, þegar um er að ræða vöru sem merkt er íslenska þjóðfánanum, treyst því að hún sé í raun íslensk að uppruna í þeim skilningi sem kveðið er á um í frumvarpinu. Enn fremur að þeir sem setja slíka vöru á markað og vilja koma íslenskum uppruna vörunnar á framfæri með skýrum hætti, t.d. til að ná athygli erlendra ferðamanna, geti merkt hana þjóðfána Íslendinga. Má ætla að slíkar merkingar geti þjónað mikilvægu hlutverki við markaðssetningu bæði hér heima og erlendis.

Eins og áður segir er lagt til að almenn leyfisskylda fyrir notkun fánans í markaðsskyni verði aflögð en í stað þess verði byggt á eftirliti sem fram fari með þeim hætti sem lýst verður hér á eftir. Samkvæmt 8. gr. núgildandi laga um þjóðfánann og ríkisskjaldarmerkið fer um rannsókn mála vegna ágreinings um rétta notkun þjóðfánans að hætti sakamála en úrskurðarvaldið er hjá forsætisráðuneytinu. Í frumvarpinu er lagt til að annar háttur verði hafður á varðandi eftirlit með notkun fánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu samkvæmt 12. gr. laganna og er lagt til að Neytendastofu, sem starfar samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, verði falið eftirlit á því sviði. Þykir verkefnið falla vel að eftirlitshlutverki stofnunarinnar. Mikilvægt er að eftirlit verði skilvirkt þannig að einungis þeir sem með réttu er heimilt að nota þjóðfánann í markaðsskyni komist upp með þá notkun. Er talið að Neytendastofa sé best til þess fallin að halda uppi slíku skilvirku eftirliti og er lagt til að sömu reglur gildi um eftirlit stofnunarinnar að því er varðar málsmeðferð, úrræði og viðurlög sem og kærurétt til áfrýjunarnefndar neytendamála og almennt gildir um eftirlit stofnunarinnar, samanber ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Virðulegi forseti. Við samningu frumvarpsins var haft samráð og óskað umsagna frá innanríkisráðuneytinu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Neytendastofu, Sambandi garðyrkjubænda, Samtökum iðnaðarins, Bændasamtökum Íslands, Einkaleyfastofu, Íslandsstofu, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Félagi atvinnurekenda og Hönnunarmiðstöð Íslands. Af niðurstöðu samráðs og umsagna sem borist hafa er ljóst að það er almennur stuðningur meðal hagsmunaaðila við breytingar í þá veru sem lagðar eru til í frumvarpinu. Þá liggur fyrir jákvæð afstaða Neytendastofu til þess aukna eftirlitshlutverks sem henni er falið samkvæmt þessu frumvarpi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að lokinni þessari umræðu.



[15:47]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem aðallega hingað upp til að fagna því að þetta frumvarp sé komið fram. Íslenskir bændur hafa beðið lengi eftir ákvæði um að fá að merkja vörur með íslenska fánanum og að betri skilgreining komi á það hvað sé íslensk vara að uppruna og ég fagna því ákvæði sem þarna kemur inn í lögin.

Ég fagna því líka að hæstv. ráðherra hafi leitt eftirlitsmálið á þann hátt að Neytendastofa skuli taka á því og legg þunga áherslu á að eftirlit með þessu þarf að vera í lagi. Vörur þurfa að vera úr efni sem framleitt er hérlendis, þær þurfa að vera framleiddar hérlendis en ekki vera úr innfluttu efni eins og kom fram í umræðum þegar hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir lagði frumvarpið fram.

Ég er mjög ánægð að sjá þetta loksins koma hingað inn og fagna þessu mjög.



[15:48]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa athugasemd og fæ að nota tækifærið til að taka undir það með hv. þingmanni að við höfum skynjað mikinn stuðning og eftirspurn eftir því að innlendir framleiðendur, og ekki hvað síst matvælaframleiðendur, gætu merkt vörur sínar á þennan hátt, þ.e. notað þjóðfánann til að draga það fram að um íslenskar vörur væri að ræða. Við sjáum það reyndar líka að margir erlendir gestir hér á Íslandi og erlendir kaupmenn vilja gjarnan geta merkt íslenskar vörur, matvörur og aðrar íslenskar vörur, á þennan hátt, einfaldlega vegna þess að eftirspurn er eftir íslenskum vörum umfram margt annað. Ísland hefur skapað sér þá ímynd að þær vörur sem hér eru framleiddar, matvara ekki hvað síst, séu í háum gæðaflokki og eftirsóknarverðar og því er það bæði í þágu seljenda og kaupenda að geta merkt vöruna á þennan hátt.



[15:50]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að beina því til hæstv. forsætisráðherra að í tildrögum þessa frumvarps fékk ég spurningar um það hvort eftirlit yrði með því á matsölustöðum hérlendis að þeir mundu merkja sérstaklega við það hvað á matseðlinum væri íslenskt kjöt o.s.frv. til að auglýsa það hvaða matvæli, sem þeir selja og framleiða, eru framleidd hérlendis. Ég bið forsætisráðherra að svara því hvort komið sé inn á það í frumvarpinu; þá er ég ekki endilega að tala um að skylda veitingastaði til að minnast á uppruna þeirrar vöru sem þeir hafa á boðstólum heldur beina því til þeirra að þeir geri það.



[15:50]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að það muni skapa aukinn hvata fyrir veitingastaði að merkja uppruna þeirra matvæla sem þar eru seld. En reyndar hefur þróunin verið mjög í þá átt að þeir sem selja íslenska matvöru eru farnir að draga það fram í matseðlum og með öðrum hætti að varan sé íslensk, því að bæði innlendir viðskiptavinir og ekki síst þeir erlendu sækjast eftir því að kaupa vöru sem er framleidd á Íslandi. Vonandi mun þetta hvetja menn til þess að gera enn meira af því að merkja vörurnar á þann hátt og að sjálfsögðu að selja enn meira af íslenskum vörum á veitingahúsum.



[15:51]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég styð þetta frumvarp og tel löngu tímabært að frumvarp af þessum toga verði samþykkt. Ég veit ekki hvort það hefur farið fram hjá hæstv. forsætisráðherra í þeim miklu önnum sem á hans þó styrku herðum hvíla að ég hef á umliðnum missirum skrifað nokkrar greinar þar sem ég hef sett fram þá skoðun að markaðssetja þurfi Ísland og íslenskan hreinleika eins og hann birtist í íslenskri framleiðslu, bæði landbúnaðarvörum og sjávarafurðum, en líka þeirri þjónustu og vöru sem felst í því að selja aðgang og upplifun innan lands með samhæfðari hætti. Ég kann ekki íslenska orðið, en leyfi mér að nota, með leyfi forseta, enska orðið „branding“ sem hefur skort á þessu sem einni heild. Ég tel að þetta sé einn liður í því, eða það gæti orðið það. Þess vegna fagna ég þessu.

Ég tel að Ísland hafi mjög margt fram að færa einmitt út frá þeim þáttum sem hæstv. forsætisráðherra nefndi. Ég hef verið þeirrar skoðunar, þótt mörgum finnist það kannski skrýtið, en þó ekki endilega þeim sem eru í flokki með hæstv. forsætisráðherra, að Íslands bíði töluvert gullin framtíð sem framleiðslulands á sviði matvæla, ekki aðeins sjávarafurða heldur líka á sviði landbúnaðar. Mér finnst oft að menn hafi horft fram hjá þeim tækifærum sem þarna liggja. Þau liggja og hvíla öll á hreinleika landsins, þeirri staðreynd að íslensk framleiðsla er nánast mengunarlaus. Hún er af allt öðrum gæðaflokki en samsvarandi erlend vara. Þess vegna finnst mér tilvalið að þjóðfáninn verði notaður sem kjölfesta í slíka markaðssetningu, sem þó er ekki endilega rétta orðið.

Spurning mín til hæstv. forsætisráðherra er þessi: Er gert ráð fyrir því að þjóðfáninn í þessum tilgangi verði notaður með stöðluðum hætti, þ.e. allir noti hið sama (Forseti hringir.) tákn eða útfærslu á honum til þess einmitt að þrýsta heim því tákni sem hann á að vera fyrir íslenska framleiðslu?



[15:54]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið og ágæta spurningu. Í frumvarpinu er fyrst og fremst verið að opna á notkun þjóðfánans eins og hann birtist og hangir hér fyrir aftan virðulegan forseta, þótt það verði eflaust einhver blæbrigðamunur á því hversu stórt merkið er eða hvort fáninn verður sýndur blaktandi eða ekki. Ég tek hins vegar undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að margt mælir með því að menn búi til tákn, eitthvert „logo“, nú lendi ég í vandræðum eins og virðulegur þingmaður áðan. Hvað köllum við „logo“ á íslensku? Merki, hv. þingmaður skilur hvað ég á við, eitthvert merki sem menn geti notað til þess að merkja ekki aðeins vöru heldur líka til dæmis sölu ferða til Íslands, svona heildarmarkaðssetning út frá einu sameiginlegu merki. Það er þá til viðbótar við þetta.

Eins og hv. þingmaður eflaust þekkir hafa verið í gangi heilmiklar vangaveltur um slíkt. Framleiðendur íslenskrar vöru og þjónustu hafa verið að velta því fyrir sér hvort hægt væri að koma slíku á og hver væri besta leiðin til þess. Stjórnvöld vilja gjarnan sjá það gerast, hafa fylgst með þeirri vinnu og munu taka undir og stuðla að því að af þessu geti orðið.



[15:56]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra er áreiðanlega kunnugt að þetta mál hefur komið til umræðu hér mörgum sinnum á umliðnum áratugum. Það hefur alltaf verið sérkennileg tregða á hinu háa Alþingi gagnvart því að nýta þjóðfánann með þessum hætti, alveg eins og það var mikil tregða að veita heimild til þess að hengja íslenska fánann upp í Alþingi. Ég hafði reyndar, svo ég komi fram með mína persónulegu skoðun, allt aðrar hugmyndir um það hvernig ætti að nýta fánann inni í þessum þingsal heldur en í dag. Það er nú önnur saga.

Ég tel að hægt væri að gera úr íslenska þjóðfánanum staðlað merki sem gæti orðið tákn fyrir allan þann hreinleika sem á að tengja Íslandi, íslenskri framleiðslu og heimsóknum til Íslands. Þess vegna hvet ég hæstv. forsætisráðherra til þess að velta því fyrir sér hvort hann ætti ekki að taka frumkvæði að því að slíkt merki verði búið til og síðan verði lagt atgervi og fjármagn í það að koma því á framfæri gagnvart umheiminum. Alveg eins og Neytendastofa er kjörin til að fylgjast með því að menn fari ekki út fyrir reglur sem settar verða um notkunina finnst mér alveg koma til greina að Íslandsstofu, sem er það tæki sem ríkisstjórnin hefur til þess að koma Íslandi á framfæri, verði falið að markaðssetja hið nýja merki sem mundi þá hvíla á þjóðfánanum. Þetta er að minnsta kosti hugmynd sem ég tel að sé einnar messu virði fyrir hæstv. forsætisráðherra að sofa með undir litla heilanum.



[15:57]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hvatninguna. Það vill svo til að ég mun fljótlega eiga fund með manni sem hafði frumkvæði að því að fá fund til þess að ræða þetta mál. Sá hefur verið að skoða möguleikann á því að koma á slíku samstarfi og átt heilmikil samtöl við aðila í matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og fleiri greinum til þess að kanna hversu mikill grundvöllur væri fyrir slíku. Það verður mjög áhugavert að heyra af því.

Ég hefði nú gjarnan viljað heyra hv. þingmann lýsa því hvernig hann hefði viljað nota íslenska fánann hér í þingsal, bara fyrir forvitnissakir. Já, nú sýnir hv. þingmaður mér það með höndunum hvernig hann hefði viljað hafa þetta. Það er hugsanlegt að það hefði komið ágætlega út. Við getum velt því fyrir okkur, ég og hv. þingmaður, kannski fengið okkur köku einhvern tímann þegar ég fæ aftur leyfi til þess og kaffibolla og spáð í þetta sem og kynningu Íslands og íslenskrar framleiðslu út á við með sameiginlegu vörumerki.



[15:59]
Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að rýmka beri reglur um notkun íslenska fánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu. Hvað það varðar þá fagna ég þessu frumvarpi. Þessar reglur hafa verið þrengri hérlendis en víða annars staðar þar sem fyrirtæki og félög hafa getað nýtt sér gott orðspor landsins til markaðssetningar. Oft er merking með fána viðkomandi lands ákveðinn gæðastimpill sem tryggir sölu á viðkomandi vöru eða þjónustu. Ljóst er að aukin notkun íslenska fánans í þessu skyni mun styrkja íslenska framleiðslu og þar með atvinnulífið í heild sinni. Þetta er gott og blessað. Við höfum í raun verið kaþólskari en páfinn þegar kemur að notkun íslenska fánans, bæði hvað varðar fánatíma og almenna notkun. Íhaldssemi okkar hefur haldið aftur af nauðsynlegum breytingum þannig að ég efast ekki um að fjölmargir fagna þeim breytingum sem hér eru lagðar til.

Þetta frumvarp er þó engan veginn hafið yfir gagnrýni og má gera athugasemdir við ýmis ákvæði þess. Það er líka ýmislegt í því sem er háð óljósu mati sem er ekki gott. Fyrst og fremst þarf að skoða vandlega 4. mgr. 12. gr. Þar segir að heimilt sé að nota hinn íslenska þjóðfána í merki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu sé sú vara eða starfsemi sem í hlut á íslensk að uppruna og fánanum ekki óvirðing gerð. Þessi grein er nokkuð skýr og getum við flest verið sammála um hana þó að matskennt sé hverju sinni hvenær fánanum er sýnd óvirðing. Hvenær er óvirðingin orðin svo mikil að ekki megi nota fánann á vöru eða þjónustu og hvað flokkast undir óvirðingu við fánann? Í frumvarpinu er engin skilgreining á því. Ég geri hins vegar ekki athugasemdir við að heimila notkun á fánanum á vöru sem er íslensk að uppruna.

Næsta málsgrein frumvarpsins vekur athygli og hana ber að skoða nánar. Þar segir að vara sé íslensk að uppruna og þar með megi nota fánann ef hún er framleidd hér á landi úr innlendu hráefni að uppistöðu til. Í athugasemdum við frumvarpið er ítrekað að hér þurfi varan að uppfylla þessi tvö skilyrði, annars vegar að vera framleidd hér á landi og hins vegar að vera búin til úr íslensku hráefni að uppistöðu til. Væntanlega þarf meiri hluti hráefnisins að vera íslenskur. Sérstaklega er tilgreint að hér sé átt við íslenskar landbúnaðarafurðir, íslenskar sjávarafurðir, íslenskt grænmeti og jurtir, auk t.d. vatns. Hér geta komið upp álitamál og spurningar vaknað um uppruna hráefnis. Hvenær er það að uppistöðu íslenskt? Svar er ekki í frumvarpinu.

Frumvarpið girðir ekki alfarið fyrir að vara teljist íslensk þó að hún sé framleidd hérlendis úr erlendu hráefni að stórum hluta. Þar er þó sett fram 30 ára reglan, þ.e. að varan geti aðeins talist íslensk ef hún hefur verið framleidd hérlendis í 30 ár undir sama vörumerki. Sama á síðan að gilda um matvöru sem er framleidd hérlendis samkvæmt íslenskri hefð og er þar t.d. átt við kleinur og laufabrauð.

Í stuttu máli er því almenna reglan þessi: Það má nota íslenska fánann á vöru sem framleidd er hérlendis ef hún er framleidd að uppistöðu úr íslensku hráefni. Ef hún er framleidd að verulegu leyti úr innfluttu hráefni þurfa framleiðendur að bíða í 30 ár eftir að fá að stimpla vöruna með íslenska fánanum.

Nú eru fjölmargar vörur, sem flest okkar mundu telja íslenskar, búnar til úr erlendu hráefni. Það verður að teljast nokkuð blóðugt ef framleiðendur slíkrar vöru þurfa að bíða í heil 30 ár áður en þeir mega nota íslenska fánann í markaðsskyni. Hvers eiga þeir að gjalda?

Í frumvarpi um sama mál sem vísað var til ríkisstjórnarinnar var upphaflega gert ráð fyrir 50 ára reglu, hálfri öld. Ef hráefni var erlent þurftu framleiðendur að bíða í hálfa öld áður en varan teldist íslensk. Blessunarlega er búið að lækka þröskuldinn niður í 30 ár, en ég tel að hann sé enn þá allt of hár.

Sérstaklega er fjallað um hönnunarvörur í þessu frumvarpi. Þar segir að hönnunarvara teljist íslensk að uppruna ef hún er hönnuð af íslenskum aðila undir íslensku vörumerki þó að hún sé framleidd erlendis úr erlendu hráefni, enda sé ekki um að ræða hráefni sem er eðlislíkt innlendu hráefni sem teljist hafa séríslenskan uppruna, einkenni eða eiginleika, eins og þar er orðað. Ef við reynum að þýða þetta yfir á mannamál þá þýðir þetta t.d. að leyfilegt er að nota fánann á fatnað sem íslensk fyrirtæki framleiða í Kína svo framarlega sem þau geta sýnt fram á að um íslenska hönnun sé að ræða. Hér kemur upp smávandamál því að íslensk hönnun og hönnun yfirleitt er teygjanlegt hugtak svo að ekki sé meira sagt, ekki síst þegar kemur að fatnaði. Oft dugar að gera smávægilegar breytingar á útliti vöru til að hægt sé að stimpla hana sem íslenska hönnun. Það er því hætt við því að fjölmargar hönnunarvörur sem hafa í raun sáralítil tengsl við Ísland önnur en þau að kaupandinn er íslenskur muni bera íslenska fánann í framtíðinni. Þetta er umhugsunarefni.

Sérstaklega er tilgreint að hráefnið sem notað er í framleiðslu á þessari hönnunarvöru erlendis megi ekki vera eðlislíkt innlendu hráefni sem telst hafa séríslenskan uppruna, eiginleika og einkenni, eins og ég sagði áðan. Þar er t.d. átt við íslensku ullina, segir í athugasemdum við frumvarpið. Hvenær er erlent hráefni orðið of eðlislíkt innlendu hráefni? Ég hef ekki hugmynd um það. Væntanlega þýðir þetta að ekki má nota íslenska fánann á lopapeysur framleiddar í Kína ef lopinn er frá öðru landi en Íslandi. En hvað ef peysurnar eru úr blönduðu efni, úr efni sem er allt annað en lopi en líkist honum þó? Hvar verða mörkin dregin? Hvenær er hráefnið orðið of líkt íslensku hráefni? Ég hef ekki hugmynd um það, en það er alveg ljóst að fjölmargir framleiðendur munu láta reyna á þetta ákvæði, bæði hvað varðar hvað teljist íslensk hönnun og hvenær hráefnið sé orðið of líkt íslensku hráefni.

Svo má spyrja: Má nota fánann við sölu vöru sem er íslensk, t.d. íslensk uppfinning eða uppfinningar, verndaðar með einkaleyfi en eru framleiddar úr erlendum hráefnum? Svo virðist sem hönnunarákvæði þessa frumvarps taki fyrst og fremst til útlits vara. Við framleiðum hins vegar ýmsar vélar í sjávarútvegi og fyrir matvælaframleiðslu, auk t.d. lyfja, svo fátt eitt sé nefnt. Flokkast hráefni hér eða varan yfirleitt sem íslensk eða ekki?

Í athugasemdum við þetta frumvarp, um notkun íslenska fánans við markaðssetningu vöru og þjónustu, segir að þau sjónarmið sem liggi að baki frumvarpinu lúti fyrst og fremst að því að neytendur geti, þegar um er að ræða vöru sem merkt er íslenska þjóðfánanum, treyst því að hún sé í raun íslensk að uppruna. Enn fremur að þeir sem setji slíka vöru á markað og vilja koma íslenskum uppruna vörunnar á framfæri með skýrum hætti, t.d. til að ná athygli erlendra ferðamanna, geti merkt hana með þjóðfána Íslendinga. Þetta eru góð og göfug markmið. Það verður hins vegar að setja ákveðið spurningarmerki við það hvort frumvarpið sé í samræmi við þessi markmið.

Við skulum tala skýrt. Ég sé ekki betur en fjölmargar vörur, sem fæst okkar mundu telja íslenskar, verði skreyttar með íslenska fánanum í framtíðinni og þar með gefið í skyn að þær séu íslensk framleiðsla. Ég sé ekki annað en fatnaður, minjagripir og fleira, t.d. framleitt í Kína og selt til útlendinga í verslunum á Laugaveginum, t.d. lundarnir í lundabúðunum, muni væntanlega bera íslenska fánann í framtíðinni. Þetta gæti verið íslensk hönnun. Það er hægt að skreyta vörurnar með íslenska fánanum eins og þær séu íslensk framleiðsla. Það sama gildir um peysur og annað slíkt sem selt eru hérlendis en jafnvel framleitt í stóru magni erlendis. Það er ekkert sem kemur í veg fyrr að peysurnar beri íslenska fánann í framtíðinni og verði seldar sem íslensk vara.

Það getur vel verið að ég sé gamaldags í þessu máli. Það er nú einu sinni svo að ég tel að við höfum flest okkar nokkurn veginn sama sjónarmið á því hvað teljist vera íslensk vara. Auðvitað getur okkur greint aðeins á um það. En ég lít til dæmis ekki á fjöldaframleiddar vörur erlendis sem íslenskar vörur þó að þær séu seldar hérlendis og ég mun ekki gera það. Mér finnst það ekki rétt. Ég held að flestir kaupendur slíkrar vöru séu sama sinnis, hvort sem það eru erlendir ferðamenn eða Íslendingar yfirleitt. Vara er í mínum huga ekki íslensk þó að einhver íslenskur hönnuður hafi komið að því að teikna á blað útlit vörunnar.

Við skulum átta okkur á því að þetta getur líka þýtt að skynjun okkar á hvað er íslenskt og hvað ekki muni brenglast. Við þurfum því að stíga varlega til jarðar í þessu máli. Við viljum ekki skaða íslenskan iðnað, ekki síst smáiðnað sem á í erfiðri samkeppni við ódýra framleiðslu sem streymir inn í landið. Við þurfum líka að gæta að einyrkjum sem eru að berjast fyrir tilveru sinni.

Ég mun styðja þetta frumvarp þar sem ég tel afar mikilvægt að íslensk fyrirtæki geti notað íslenska fánann í markaðsskyni. Ísland er orðið verðmætt vörumerki um allan heim. Það hefur ekki gerst af sjálfu sér. Á bak við það liggur mikil vinna og miklir fjármunir. Við verðum hins vegar að gæta að þeim verðmætum sem við höfum í höndunum. Það að skreyta vörur sem sannarlega eru erlendar en ekki íslenskar með íslenska fánanum gerir okkur ekki neitt gagn þó að einstakir framleiðendur og söluaðilar hagnist á því. Margra ára markaðsstarf varðandi íslenskar vörur hefur skilað miklu. Við megum ekki setja það í hættu. Við eigum að heimila notkun á íslenska fánanum við markaðssetningu, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, en við verðum að gæta að þeim skrefum sem við erum að taka. Neytendur verða að geta treyst því að um íslenska vöru sé að ræða, ekki að blekkingum sé beitt.

Ég tel að við eigum að senda þetta mál til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég vona að þar verði gerðar nauðsynlegar breytingar til að tryggja að þær vörur sem merktar verða sem íslenskar séu í raun íslenskar en ekki í dulbúningi.

Í þessu frumvarpi þarf hugtakanotkun að vera skýr. Hún er of matskennd eins og hún er sett upp. Það er ekkert sem er ekki hægt að breyta í meðförum þingsins. Á heildina litið erum við að fara í jákvæða átt með þessu frumvarpi.



[16:11]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra lauk máli sínu áðan með því að bjóða mér, yfir þetta ræðupúlt, til fundar þar sem fram færi næringarnám og hann ætlar að bjóða mér upp á köku eða tertu. Þetta er viðkvæmt mál fyrir okkur báða, það vitum við báðir tveir, enda sló hann ákveðinn varnagla, sagði að það yrði þó einungis gert næst þegar hann fengi leyfi. Nú veit ég ekki hvar hæstv. ráðherra á að fá leyfi til þess, en ef hann á við hv. þm. Helga Hjörvar skal ég hafa milligöngu um það.

Að öðru leyti ítreka ég stuðning minn við frumvarpið. Mér fannst þau orð sem hv. þm. Karl Garðarsson fór með áðan vera athyglisverð. Ég lít nú ekki svo á að hann hafi gamaldags skoðanir þó að hann vilji ganga hægt um dyr í upphafi. Ég tel að þegar menn eru að feta sig út á þá slóð sem við höfum aldrei farið áður eigum við að vera íhaldssamir. Við eigum að meta reynsluna af því hvernig til tekst og alltaf er hægt að breyta lögum í framtíðinni ef menn sjá einhverja skavanka á þeim. Ég hallast frekar að því að vera á sömu íhaldssömu nótunum og hv. þingmaður, að minnsta kosti hvað varðar upphaf þessarar vegferðar.

Fleira vakti athygli mína í ræðu hv. þingmanns. Hann orðaði það svo að Ísland væri orðið verðmætt tákn eða vörumerki. Það kann að vera. Ég vil hins vegar leyfa mér að fullyrða að Ísland hafi áður fyrr, að því er varðaði markaðssetningu á matvælum, verið enn verðmætara. Það var á þeim tímum þegar hér voru sterk sölusamtök sem einbeittu sér að því að selja fyrir mörg fyrirtæki á Íslandi með sameinuðu afli íslenska framleiðslu sína. Þá var það Ísland sem var verið að selja ekki síst og það var Ísland sem var í öndvegi. Á þeim tíma hefði verið mjög þarft að geta haft eitt sameiginlegt tákn sem byggði á þjóðfánanum til þess. Við vitum síðan að þróunin hefur klofið markaðssetninguna upp og þó að harkan í íslenskum sölumönnum, sérstaklega að því er varðar sjávarafurðir, sé slík að við höfum meira en haldið sjó, til dæmis gagnvart mikilli framleiðslu til viðbótar úr Barentshafi og stundum undirboðum af hálfu frænda okkar Norðmanna, þá er það eigi að síður svo að í dag eru menn til dæmis að selja íslenskar sjávarafurðir fyrst og fremst frá tilteknu fyrirtæki en miklu síður sem íslenska vöru. Þetta er mín skoðun.

Ég hef þess vegna eins og ég gat um áðan sett fram viðhorf mín á þessu máli, bæði í ræðum hér í þinginu en ekki síður í ítarlegum og löngum greinum í hinu merka blaði Morgunblaðinu. Ef hæstv. forsætisráðherra fær ekki leyfi til að borða köku með mér þá tel ég að við getum alveg leyst það mál með því að senda honum síðasta langhund minn sem ég birti fyrr í Morgunblaðinu. Hann gæti hugsanlega orðið margs vísari.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að Íslendingar hafi mikla möguleika til að hafa ákveðið forskot á samkeppnisþjóðir hvað varðar sjávarafurðir. Það er vegna þess að sjávarafurðir okkar eru mjög hreinar. Þær koma úr mjög hreinu hafi og það er auðvelt að selja íslenskar afurðir sem hreina vöru, menn nota stundum orðið „vistvæna“ sem er dálítið loðið hugtak. En ég tel að með einbeittri markaðssetningu af Íslands hálfu þar sem Ísland er vörumerkið og tákn þess einhvers konar staðlað form á þjóðfánanum, þá geti það orðið mjög verðmætt vörumerki í framtíðinni. Að sama skapi tel ég að einmitt gæðaímyndin sem fer af íslenskum sjávarafurðum sem hafa rutt brautina hvað þetta varðar geti gagnast mjög auknum útflutningi á landbúnaði. Það er alltaf tabú að tala um útflutning á landbúnaði af því hann er lítill, hann framleiðir ekki mikið og hann er niðurgreiddur, þó að það sé að vísu svo að á þeim tíma sem ég hef setið á Alþingi hafi niðurgreiðslur á íslenskum landbúnaðarvörum minnkað úr því að vera 4,5% af landsframleiðslu niður í það að vera hálft prósent. Þróunin er því öll í rétta átt. Ég gæti svo sem farið með dýpri ræðu um það af hverju ég held að hún muni halda áfram í þá átt.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að útflutningur á landbúnaðarafurðum eigi framtíð fyrir sér. Það er út af tvennu. Í fyrsta lagi vegna þess að hægt er að selja vörur úr íslenskum landbúnaði sem nánast hreina vöru vegna þess að það er alveg sama hvar maður ber niður þá notar íslenskur landbúnaður miklu minna af áburði á ræktaða einingu, hann notar miklu minna af lyfjum, varan er miklu hreinni. Svo er líka hitt að við höfum verð laus við ýmsa sjúkdóma sem hafa nánast lagt í rúst tímabundið að minnsta kosti heilar búgreinar, eins og nautakjötsframleiðslu á meginlandi Evrópu. Í fyrsta lagi er það hreinleikinn. Í öðru lagi mun þar njóta ljómans af því orðspori sem fer af íslenskum sjávarafurðum.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að grípa utan um allan útflutning Íslands á matvælasviði og sömuleiðis taka þar inn ferðaþjónustuna og markaðssetja það allt í krafti hreinleika Íslands sem er að verða mjög eftirsóttur. Mér finnst sjálfsagt eftir að frumvarpið er komið fram og eftir að búið er að samþykkja það, þá verði það gert með þeim hætti að í öndvegi slíkrar markaðssetningar verði staðlað merki sem byggist á þjóðfánanum.

Hvað gera aðrar þjóðir? Ef maður fer inn í búðir á meginlandinu sér maður í hillum þar í fyrsta lagi danska skinku með danska fánanum, maður sér norska laxinn með norska fánanum og svona mætti telja hverja vörutegundina á fætur annarri sem er með einhverjum hætti einkennandi fyrir viðkomandi land. Við eigum með því móti að byggja upp okkar eigið vörumerki þar sem hæstv. forsætisráðherra, af því honum varð orðs vant eins og mér, kallaði „logo“. Það er svona, þetta skiptir máli, en tekur langan tíma. Það getur vel verið að þetta verði dýrt, en það er fjárfesting sem mun borga sig ef menn ráðast í það til dæmis að fá Íslandsstofu það verkefni að markaðssetja Ísland með þessum hætti.

Ef okkur tekst að hasla okkur völl fyrir útflutning á landbúnaðarafurðum, til dæmis á þeim syllum þar sem menn eru reiðubúnir á markaðnum að greiða hátt fyrir vöru sem er nánast hrein, þá sjáum við að ákveðin tækifæri eru fyrir hendi. Í dag framleiðum við 8–9 þús. tonn af lambakjöti. Jú, við höfum átt í erfiðleikum með að selja það vegna þess að heldur hefur dregið úr innanlandsneyslu. Ríkisstjórnin var að feta ágæta slóð um daginn sem leiddi til þess að skrifað var undir samning sem eykur möguleika á tollfrjálsum útflutningi á lambakjöti á Evrópumarkað upp í 4.500 tonn. Við framleiðum 8–9 þús. tonn, en við höfum land, við þurfum ekki að brjóta nýtt land þó að við mundum fara í það að auka framleiðslu á lambakjöti upp í 15 þús. tonn. Við þurfum ekki að brjóta neitt land. Land er fyrir hendi. Við þurfum að rækta það. En við nýtum það ekki í dag.

Það sem ég á við er að ákveðin tækifæri eru fyrir hendi varðandi útflutning á því sem við getum flokkað sem hefðbundnar landbúnaðarafurðir. Það þarf ekki að ráðast í rosalegar fjárfestingar til þess að nýta það sem er fyrir hendi.

Það bjargar náttúrlega ekki þjóðarhag þó að við flytjum út kannski 6 þús. tonn til viðbótar af lambakjöti. En það getur bjargað mörgum byggðum sem við köllum jaðarbyggðir í dag. Þetta eru byggðir á tilteknum stöðum á Suðurlandi, á Vestfjörðum, á Norðvesturlandi og Norðausturlandi. Það getur vel verið að það streymi ekkert sérstakt fé í ríkiskassann, en það skellir nýjum stoðum undir þær byggðir. Það skiptir bara svo miklu máli vegna þess að við erum mörg í þeim hópi sem telur að Ísland eigi að vera í byggð. Ég er þeirrar skoðunar að ef það kostar með einhverjum hætti af hálfu hins opinbera og þar með skattgreiðendur, þá er ég sem skattgreiðandi reiðubúinn til að axla þann kostnað. Vegna þess að þetta er hreinlega sýn mín á Ísland og partur af lífsskoðunum mínum, enda er ég í fararbroddi fyrir landbúnaðarvæng Samfylkingarinnar.

Herra forseti. Þetta eru sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri. Ef rétt er spilað úr þeim möguleikum sem felast í frumvarpinu getur það leitt til töluverðra heilla fyrir útflutning frá Íslandi.

Svo er annað mál líka. Við förum von bráðar að taka á móti tveimur milljónum ferðamanna á hverju ári. Það er gríðarlegur fjöldi. Þetta er fólk sem sækir Ísland heim og kannanir sýna að 95–98% þess fer mjög ánægt til síns heima. Það man eftir Íslandi. Við þurfum að rifja upp Ísland í minni þess í hvert skipti sem það fólk fer út í búð til að kaupa sér vörur í matinn vegna þess að þar á að vera vara frá Íslandi, hvort heldur er kjöt eða fiskur, sem fólkið sér undir eins að er íslensk, því að þar væri íslenska táknið, sem byggir þá á fánalitunum og íslenska fánanum. Svona sé ég þetta fyrir mér. Svona á að vinna þetta.

Ég hvet hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn, þegar frumvarpið verður samþykkt, að skoða hvort ekki eigi að vinna á þeim grundvelli og fá þá Íslandsstofu, með því fjármagni sem hún hefur úr að spila núna eða með aukafjármagni, til að markaðssetja þetta merki og markaðssetja Ísland og hreinleika Íslands í heild.



[16:22]
Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef sjaldan verið jafn sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og í dag, ég get nánast tekið undir hvert orð sem hann sagði.

Það er alveg rétt hjá honum að vörumerkið Ísland varð til fyrir alllöngu síðan. Ég man eftir því í minni tíð þegar ég var blaðamaður, fréttamaður, fyrir 20–30 árum, að þá voru einmitt þessi stóru sölusamtök til sem hann minntist á, sem notuðu orðið „Iceland“ og „Icelandic“ á vörur sínar. Grunnurinn að því sem við höfum í dag er miklu eldri, það er alveg rétt. Þess vegna er mjög mikilvægt að skemma hann ekki.

Það sem hv. þingmaður einblíndi svolítið á var markaðssetning á matvöru. Það er hárrétt hjá honum að gríðarlega mikilvægt er að nota til dæmis íslenska fánann og sérstakt merki fyrir íslenskar matvörur sem eru markaðssettar erlendis og það yrði mikil lyftistöng fyrir landbúnaðarvörur, sjávarútveg o.s.frv. Við erum algjörlega sammála um þetta. Það þarf að fara í og má ráðast í stórt markaðsátak til viðbótar við það sem gert hefur verið til að koma þessum vörum á framfæri.

Það er ekki vandamálið sem ég minntist á í ræðu áðan. Ég var að tala um aðra þætti frumvarpsins þar sem frumvarpið sem slíkt nær ekki aðeins til matvara heldur líka allra annarra vara og þjónustu líka. Það er veiki hlekkurinn í frumvarpinu sem við þurfum að skoða betur.

Ég ætla að taka undir það sem hv. þingmaður sagði áðan. Það er gríðarlega mikilvægt að hægt sé að nota íslenska fánann og hann mun nýtast okkur gríðarlega vel á mörgum sviðum. Við þurfum bara að passa okkur á því að falla ekki ofan í þær holur sem eru á leiðinni.



[16:24]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að minna okkur á þann tíma þegar hann var hér einn helstur fréttahauka. Það voru ógleymanlegir tímar í íslenskri fréttamiðlun og ýmsir menn honum eigi allfjarri sem áttu þátt í þeirri gullöld líka.

Hv. þingmaður mátti ekki misskilja ræðu mína. Ég var ekki að andmæla því sem hann sagði. Ég var sammála í fyrsta lagi ýmsum varnaðarorðum sem komu fram í máli hæstv. forsætisráðherra. Hv. þm. Karl Garðarsson gekk lengra. Ég hef fulla samúð með því sem hann sagði. Ég held ekki að það sé endilega tilgangurinn með þessu frumvarpi að selja meira af vöru sem er fjöldaframleidd í Kína af íslenskum fyrirtækjum. Við skulum skoða það í framhaldinu. Fyrst skulum við ganga hægt um gáttir og vera íhaldssöm í því hvernig við nýtum þá möguleika sem þarna kunna að opnast. Hv. þingmaður þarf því ekki að taka ræðu mína þannig að ég hafi verið að gagnrýna hann. Þvert á móti lýsti ég því yfir — og það hefur sennilega hljómað eins og sírenusöngur í eyrum hv. þingmanns og fyrrverandi formanns Lögmannafélagsins, Brynjars Níelssonar — að ég tæki undir með hv. þingmanni um að við ættum að vera íhaldssamir í þessum efnum.

Það breytir ekki hinu að ég er þeirrar skoðunar að samþykkt þessa frumvarps opni leiðir til þess að taka þéttar utan um heildstæða markaðssetningu á Íslandi. Það er þó ekki orðið sem ég er að leita að. Ég hef ekki íslenska þýðingu á orðinu „branding“, sem sagt að koma Íslandi sem heild á framfæri þannig að þegar menn sjá merkið, heyra minnst á Ísland þá sprettur upp tiltekin mynd sem vekur í huganum hugsanir um hreinleika. Það er svo dýrmætt í þessum heimi sem við lifum í núna, sérstaklega ef við ætlum að halda áfram að vera á mælikvarða a.m.k. Evrópu verulega mikilvægt matvælaframleiðsluland.



[16:26]
Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla líka að vona að menn misskilji mig ekki. Ég er mikill stuðningsmaður þessa máls. Ég tel að það hefði átt að fara í gegn í þinginu fyrir löngu síðan. Því miður hefur það ekki orðið vegna íhaldssemi okkar Íslendinga og þingmanna. Þess vegna fagna ég því að þetta mál sé fram komið. Það eina sem ég er að segja er að ég vona að það fái góða umfjöllun í nefnd og þar líti menn hlutlaust á þessi mál og kalli endilega til hagsmunaaðila. Þá er ég líka að tala um fulltrúa lítilla fyrirtækja og annarra sem eiga hagsmuna að gæta í þessu, ekki einungis fulltrúa stórra samtaka, vegna þess að það er að mörgu að hyggja. Yfir heildina litið er auðvitað stórkostlegt framfaraspor að gera þetta og það er stórkostlegt fyrir flest íslensk fyrirtæki sem geta nýtt sér Ísland og íslenska fánann í markaðssetningu. Það segir sig sjálft að þetta er gífurlega jákvætt hvað það varðar. Við megum samt ekki loka á allt annað í umræðunni. Það er það eina sem ég er að benda á.



[16:27]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Nei, ég misskildi ekki hv. þingmann, herra forseti. Ég túlkaði orð hans alls ekki með þeim hætti að hann væri andsnúinn frumvarpinu. Ég veit að hv. þingmaður er með kjarkaðri þingmönnum en ég tel ekki að hann sé orðinn svo dreissugur að hann leggi í það við 1. umr. að leggjast gegn frumvarpi sjálfs hæstv. forsætisráðherra um íslenska þjóðfánann, þó ekki væri.

Ég trúi í fyrsta lagi á verkaskiptinguna og er þeirrar skoðunar að betur sjái augu en auga. Af því að hv. þingmaður hefur velt upp margvíslegum spurningum sem allar eiga rétt á sér og allar er vert að skoða þá fyndist mér alveg eðlilegt í svona máli, sem þrátt fyrir allt varðar grundvallarþátt í íslensku lífi, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mundi líka senda þetta mál til umsagnar til dæmis hjá atvinnuveganefnd og eftir atvikum utanríkismálanefnd. En ég ætla ekki að gera neina sérstaka kröfu um það.

Ég treysti nefndinni alveg til þess að fara í þau mál sem hv. þingmaður benti á að þyrfti að skoða. Þetta er 1. umr. Þingmál koma hingað misjafnlega vel úr garði gerð og menn hafa oft og tíðum, margvíslegar skoðanir, ég tala nú ekki um á málum sem varða þjóðfánann, og sjálfsagt er að skoða það allt saman út í hörgul. Það er best gert með því að fá fleiri nefndir, eins og er alsiða í vinnu þingsins, til þess að skoða svona mál undan ýmsum hornum.



[16:29]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið hér fram. Ég held að í því felist mörg tækifæri og ég þakka ágæta umræðu um málið. Mér sýnist alveg einboðið þegar kemur að íslenskum landbúnaði að þar liggi alveg gríðarleg tækifæri og tek undir það sem hér hefur komið fram að við leggjum áherslu á hreinleika náttúrunnar og hreinleika íslenskra afurða. Fiskafurðirnar okkar eru þekktar fyrir hreinleika vegna þess hvernig við höfum tekið á öllu framleiðsluferli, hversu vandað það er og vegna þess hversu miklar hreinlætiskröfur og kröfur í framleiðsluferlinu eru gerðar.

Það á líka við um landbúnaðinn og á að vera í öllum greinum þar. En ég vil einnig benda á í þessu sambandi hversu dýrmætt það er að við notum lítinn áburð miðað við margar aðrar þjóðir og lítið af lyfjum í skepnur í framleiðslunni. Ég hef orðið vör við það þegar ég hef farið til Bandaríkjanna að fólk talar um að við neytum kjöts af skepnum sem fóðraðar eru á heyi og grasi. Stór hluti mannkyns neytir aldrei kjöts sem er framleitt við þær aðstæður. Það eru mikil verðmæti sem við eigum hér og við eigum að halda þeim á lofti. Auðvitað þurfum við að stiga varlega til jarðar. Við þurfum að vanda okkur þannig að hér verði til merki og staðlar sem við nýtum sem standa fyrir það sem við viljum vera þekkt fyrir, t.d. hvað varðar hreinleika í framleiðslu og annað slíkt.

Ég fagna því fram komnu frumvarpi og lýsi yfir stuðningi mínum við það. Ég vona að það fari eftir góða umræðu í gegnum þingið og að við náum að afgreiða það eftir margar tilraunir til að koma því hér í gegn.



[16:31]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég kem upp hér í lokin til þess að þakka þeim sem tóku þátt í umræðunni fyrir ágætar ábendingar sem þar komu fram. Hvað varðar áhyggjur manna til dæmis af því að misnotuð verði ákvæði um að hönnun teljist íslensk jafnvel þótt vara sé framleidd erlendis er mikilvægt að hafa hugfast að í frumvarpinu er sérstaklega vísað til skilgreiningar á hönnun og hönnunarrétti eins og hún kemur fram í lögum nr. 46/2001, um hönnun. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hönnunarréttur getur einungis tekið til nýrrar og sérstæðrar hönnunar.“

Svo segir:

„Hönnun telst eins og önnur hönnun ef einstakir þættir hönnunar eru aðeins ólíkir í óverulegum atriðum. Hönnun telst sérstæð ef heildarmynd sú sem hún veitir upplýstum notanda er frábrugðin heildarmynd hans af annarri hönnun sem hefur verið gerð aðgengileg almenningi fyrir umsóknardag …“ o.s.frv.

Það er sem sagt verið að draga það fram að til þess að hlutur geti talist ný hönnun og þar með notið þeirra réttinda sem því fylgir þurfi að vera um að ræða vöru sem er augljóslega töluvert frábrugðin því sem fyrir er. Það breytir því þó ekki að það er sjálfsagt að taka til athugunar þær athugasemdir sem fram hafa komið hér og skoða málið allt gaumgæfilega í störfum nefndarinnar.

Svo tek ég undir þá umræðu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson stóð að hér og minnti á að mikilvægt væri að við legðum áherslu á það sem við getum kallað ímyndarsköpun til bráðabirgða. Ég skil hvað hv. þingmaður á við þó að við séum kannski ekki alveg komnir með rétta orðið yfir það, en að við vinnum að ímyndarsköpun fyrir Ísland og þær vörur og þá þjónustu sem við seljum og tengjum þá ímynd tilteknu merki.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til stjórnsk.- og eftirln.