145. löggjafarþing — 21. fundur
 15. október 2015.
löggæslumál.

[10:33]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er óhætt að segja að deilur og átök á vinnumarkaði hafi einkennt líftíma þessarar ríkisstjórnar, bæði á hinum almenna vinnumarkaði en ekki síður á hinum opinbera. Þegar ég gekk yfir Austurvöll í morgun var þar mættur fjöldi fólks að mótmæla frá SFR, frá Sjúkraliðafélaginu og frá Landssambandi lögreglumanna.

Mig langar að beina fyrirspurn minni til hæstv. innanríkisráðherra, ráðherra lögreglumála. Lögreglumenn geta ekki farið í verkfall en þeir mótmæla eigi að síður kjörum sínum. Það liggur fyrir og hefur lengi gert að það þarf að styrkja löggæsluna í landinu. Það blasir við almenningi í landinu að verulega hefur verið þrengt að rekstri hins opinbera á öllum sviðum, þar á meðal lögreglunnar, en á sama tíma blasa við stóraukin verkefni. Nægir þar að nefna eitt sem er auðvitað stóraukinn fjöldi ferðamanna hér á landi.

Þessi þörf hefur verið greind af hálfu stjórnvalda, m.a. í þverpólitískri nefnd sem vann að greiningu á fjárþörf lögreglunnar. Hún lagði til ákveðnar aðgerðir og ákveðna forgangsröðun í þeim verkefnum. Þrátt fyrir að sú þverpólitíska samstaða hafi náðst þá stöndum við frammi fyrir þeirri stöðu að ríkið og Landssamband lögreglumanna ná ekki saman. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um mat hennar á þessari stöðu. Enn ein átökin á milli hins opinbera og starfsmanna hins opinbera, þeirra sem vinna að samfélagslegum verkefnum í þágu almennings. Hvernig getur hæstv. ráðherra beitt sér fyrir því að leysa þennan hnút þótt samningsumboðið sé auðvitað á hendi hæstv. fjármálaráðherra, sem er ekki hér í dag? Það skiptir máli fyrir almenning í landinu að staða löggæslunnar sé tryggð, að við þurfum ekki að horfa á þessi átök sem hafa auðvitað áhrif á allt samfélagið og allan almenning í landinu. Hvernig getur hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) beitt sér fyrir því að þessi mál leysist sem fyrst þannig að áhrifin á öryggi almennings og hag almennings í þessu landi verði sem minnst?



[10:36]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það þarf ekkert um það að deila að á löggæslunni í landinu hvílir gríðarlega mikilvægt hlutverk. Ég held að við getum verið sammála um það og ég hef talað mjög skýrt fyrir því að nauðsynlegt er að efla löggæsluna í landinu. Það má alveg taka undir að gera þarf miklu betur í þeim efnum. Ég held að ég hafi margoft sagt í þessum stól að þar þurfi margt að vinna, bæði vegna þeirra þrenginga sem við gengum í gegnum og lögreglan varð að sjálfsögðu vör við eins og allir aðrir, og vegna þeirra verkefna sem hafa aukist hjá lögreglunni og hún þarf bolmagn til að sinna.

Á vettvangi okkar í innanríkisráðuneytinu hvílir auðvitað umgjörðin um starfsemi lögreglunnar. Þar höfum við að sjálfsögðu verið að berjast fyrir auknum fjármunum. Okkur hefur miðað áfram þótt að sjálfsögðu mundi ég vilja sjá okkur miða hraðar áfram, en þó er okkur að miða áfram. Við þurfum að gera betur, bæði þegar við lítum til framlaga til lögreglumála og til fjölgunar lögreglumanna þar sem líka skortir á. Gerð var skýrsla árið 2013 þar sem var farið yfir ýmis mál sem varða löggæsluna í landinu. Þar stóðu fulltrúar allra þingflokka að málum, m.a. fulltrúi úr mínum þingflokki. Þannig að ég held að stefnumörkunin og viljinn sé fyrir hendi.

Við getum deilt um það hversu hratt eða hægt hlutirnir ganga fyrir sig, en það getur stundum verið þannig og menn þurfa bara að horfast í augu við að hlutir geta tekið tíma. Það skiptir máli í þessu að sígandi lukka sé fyrir hendi. En af minni hálfu þarf ekkert að efast um stuðning minn og vilja til að bæta aðstæður löggæslunnar. Því hef ég margoft lýst yfir, bæði hér í þessum stól og eins rætt það við lögreglumenn um að sá vilji sé skýr af minni hálfu. Þá finnst mér skipta máli almenn umgjörð lögreglunnar og líka möguleiki lögreglumanna til náms, að bæta úr lögreglunámi. Allt er þetta liður í því að bæta almennan aðbúnað lögreglunnar. Þar getur þetta ráðuneyti að sjálfsögðu orðið að liði.



[10:38]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Einhvern tímann var sagt: Vilji er allt sem þarf. Vilji þingsins liggur fyrir. Sú skýrsla sem hæstv. ráðherra vitnaði til með þingmönnum úr öllum flokkum eða fulltrúum allra þingflokka er sú sama skýrsla og ég vitnaði til, en þeirri skýrslu hefur ekki verið fylgt eftir nema að litlu leyti og henni er ekki fylgt eftir í fjárlagafrumvarpi ársins í ár. Það sýnir að viljinn dugar ekki til, hann nær ekki nægjanlega langt. Við hljótum auðvitað að gera þá kröfu að við fylgjum eftir þessari samstöðu.

Hvað varðar kjörin vil ég segja að við finnum fyrir mikilli reiði í röðum lögreglumanna. Það er ekki síst vegna þess að möguleikar þeirra á að mótmæla kjörum sínum eru mjög takmarkaðir. Þeir hafa ekki verkfallsrétt.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess að hér liggur fyrir frumvarp þriggja þingmanna, og jafnvel fleiri, um að lögreglumenn fái verkfallsrétt eins og aðrar stéttir: Styður hæstv. ráðherra það? Ef ekki, er þá ekki enn brýnni þörf á að koma til móts (Forseti hringir.) við kröfur lögreglumanna þannig að hér (Forseti hringir.) verði tryggður stöðugleiki og öryggi almennings?



[10:39]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er þannig í fjárlagagerðinni núna að búið er að setja fast inn í ramma innanríkisráðuneytisins 0,5 milljarða til viðbótar til löggæslunnar. Vissulega er það árangur. Fjárlagafrumvarpið er náttúrlega í vinnslu á Alþingi og auðvitað er það Alþingi sem ákveður endanlegar fjárveitingar til verkefna og undir því hlutverki mun Alþingi rísa, veit ég.

Varðandi verkfallsrétt lögreglumanna er það mín skoðun að starf lögreglumanna sé með þeim hætti að betra sé að hagur þeirra sé tryggður með samningum en að þeir fái aftur verkfallsrétt. Það þýðir náttúrlega — og ég skal vera sú fyrsta til að viðurkenna og skilja það — að því þarf að mæta í samningum við þá. Ég held að það sé alveg vafalaust að ef menn hafa ekki verkfallsréttinn þarf að mæta því í kjarasamningum. Ég held að afar brýnt sé að það verði gert.