145. löggjafarþing — 21. fundur
 15. október 2015.
áhrif verkfalla á heilbrigðisþjónustu.

[10:41]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á miðnætti hófu 5.500 opinberir starfsmenn verkfallsaðgerðir. Það hefur gríðarleg áhrif, eins og kom fram í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur hér áðan, þegar kemur t.d. að lögreglunni vegna þess að þar eru menn ekki með verkfallsrétt og sitja ekki við sama borð. Lögreglumenn eru því ekki í verkfalli en engu að síður eru þeir hér fyrir utan og taka undir með þeim sem hófu aðgerðir í dag.

Í þriðja skipti á rétt tæplega ári eru hafnar alvarlegar aðgerðir í heilbrigðiskerfi okkar. Við sjáum hundruð einstaklinga sem lagt hafa niður störf innan heilbrigðiskerfisins, innan Landspítalans — í þriðja skipti á einu ári. Það hefur gríðarleg áhrif á spítalann, það hefur gríðarleg áhrif á heilbrigðisstofnanir og það hefur gríðarleg áhrif á þjónustu við sjúklinga í landinu.

Á sama tíma er þessi ríkisstjórn að skera niður framlög til spítalans að raungildi í því fjárlagafrumvarpi sem fyrir liggur. Á sama tíma er þessi ríkisstjórn að lækka skatta á þá sem hæstar hafa tekjurnar og skilar til baka tekjum af veiðigjöldum. Þetta eru ekki skilaboð til þeirra sem starfa innan opinbera geirans og eru lægst launuðu hóparnir en það eru þeir sem mótmæla kjörum sínum í dag. Þessi ríkisstjórn hefur ekki hlustað á þessa hópa og þess vegna erum við í þessari stöðu.

Ekki hefur náðst að vinna niður biðlistana vegna fyrri verkfalla innan heilbrigðiskerfisins og nú er komin önnur hrina. Hvað hefur heilbrigðisráðherra gert til varnar heilbrigðisstarfsfólki og kjörum þess? Hvað hefur heilbrigðisráðherra gert til að grípa til varnar fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi sem líður vegna þessa ástands og vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki hlustað á réttmætar kröfur þessara hópa um bætt kjör?



[10:43]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar hér er fullyrt að framlög til rekstrar Landspítalans séu skert að raungildi í fjárlögum fyrir árið 2016 þá er það ekki rétt. Ef tækjakaupaliðurinn er hins vegar lagður við rekstrarframlögin þá kann ég að nálgast þá sýn sem hv. þingmaður setur hér fram, en framlög til rekstrar Landspítalans aukast að raungildi um 300 millj. kr. á milli ára.

Ef við lítum til framlaga til Landspítalans á síðustu tvennum fjárlögum, fjárhagsárum, þá held ég að við getum alveg verið sammála um það, ég og hv. þingmaður, að í ljósi þess svigrúms sem heilbrigðismálum hefur verið skapað í fjárlagagerðinni þá getur Landspítalinn vel unað við sinn hlut þar í samanburði við aðra heilbrigðisþjónustu í landinu.

Ég hef áður ítrekað það hér í umræðum að það eru fleiri heilbrigðisstofnanir í landinu en Landspítalinn einn og sér. Ég tek undir og deili með hv. þingmönnum áhyggjum af stöðu heilbrigðismála í landinu, að teknu tilliti til þeirrar þjónustu sem heilbrigðiskerfið á að veita, í ljósi þeirra verkfalla sem dunið hafa yfir á sl. ári. Það er rétt að núna er þriðja hrinan að ganga yfir. Þetta er ömurleg staða. Það hef ég margítrekað úr þessum ræðustóli undangengið ár. Ég hef hvatt þingmenn jafnt sem ríkisstjórn og verkalýðsfélög til að reyna að ná saman og búa til einhverja eðlilega sátt. Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin hafi meðal annars farið að ágætri tillögu stjórnarandstöðunnar til að höggva á ákveðna hnúta í kjaradeilum sem ríkisvaldið hefur átt við einstaka starfshópa. Því miður skilaði það ekki árangri. (Gripið fram í.) Það er réttur stéttarfélaganna að knýja á um kjarabætur og hann skal virtur. — En af því að hér var skotið (Forseti hringir.) inn í og sérgreinalæknar sérstaklega nefndir skal ég taka glaður (Forseti hringir.) sérstaka umræðu við hv. þm. Össur Skarphéðinsson um það mál.



[10:45]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það þarf enga sérstaka umræðu um það. Menn geta bara flett upp í fjárlagafrumvarpinu og séð að framlög til sérgreinalækna hækka um 32,6% á meðan við erum að sjá raungildislækkun til Landspítalans um 90 millj. kr. Hægt er að fara í einhverjar æfingar hér og segja: Jú, það er hægt að ná þeirri niðurstöðu ef við tökum tækjakaupin frá. Er ríkisstjórnin þá búin að ákveða að búið sé að kaupa nóg af tækjum á Landspítalann? Þar höfum við það frá yfirmanni heilbrigðismála í landinu. Þetta er auðvitað ekki boðlegur málflutningur.

Hæstv. ráðherra er yfirmaður heilbrigðismála hér á landi og á hans vakt hafa þrjú alvarleg verkföll skollið á með þeim afleiðingum sem við höfum horft upp á í heilbrigðiskerfinu. Að auki er öll stefnumörkun ítrekað sett í uppnám innan ríkisstjórnarinnar varðandi framtíðarsýn um byggingu nýs spítala. Þess vegna eru 1.600 manns sem starfa við Landspítalann og fleiri sem eru í heilbrigðiskerfinu annars staðar í verkfalli í dag. Það er vegna þess að ekki hefur verið hlustað á það fólk, sem er á skammarlega lágum launum sem ríkið skammtar því á sama tíma og það tekur þá tekjuhæstu í kerfinu og hækkar þá um 33%.



[10:47]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þá ósk mína til hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur og Össurar Skarphéðinssonar að taka sérstaka umræðu um sérgreinalækna, því að hér (Gripið fram í.) er hlutunum snúið algjörlega á hvolf. Hlutdeild (Gripið fram í.) sem vinstri stjórnin síðasta hækkaði úr 29% upp í 40% var lækkuð úr 40% niður í 30%, þess vegna færist þessi kostnaður inn.

Hér er líka fullyrt að stefnumörkun mín í byggingaráformum nýja spítalans sé í uppnámi. Það er rangt. (Gripið fram í: Hvað segir forsætisráðherra?) Það er rangt. Stefnan liggur fyrir í samþykktum Alþingis, hv. þingmaður. Það er mjög einfalt fyrir fólk að kynna sér það. Eftir því er unnið. (Gripið fram í.) Það eru að koma tilboð í byggingu sjúkrahótelsins núna eftir nokkra daga. Ég vænti þess að ef þau verða innan skynsamlegra marka þá hefjum við framkvæmdir við það í nóvember o.s.frv. Það er langur vegur frá því, svo að það sé leiðrétt líka, og það er röng staðhæfing að verið sé að lýsa því yfir að búið sé að kaupa nóg (Forseti hringir.) af tækjum á Landspítalann. Ég undrast slíka staðhæfingu, að þannig sé lagt út af orðum manna.