145. löggjafarþing — 21. fundur
 15. október 2015.
háhraðanettengingar.

[11:00]
Erna Indriðadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Háhraðatengingar eru í dag jafn nauðsynlegar og síminn var áður og samgöngur milli manna almennt. En það vantar mikið upp á að fólk á landsbyggðinni sitji þar við sama borð og aðrir. Þetta er alvarlegt mál þar sem rætt er um að ný tækifæri fyrir landsbyggðina muni einmitt felast í fjarvinnslu ýmiss konar og fjarkennslu en það stoðar lítið ef efnið kemst ekki til skila.

Þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir hinar dreifðu byggðir í landinu og í þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar, um bráðaaðgerðir í byggðamálum, var einmitt lagt til að innanríkisráðherra legði fram áætlun um byggingu háhraðatengingar um allt land og hringtengingu ljósleiðarans. Fyrir ári voru svo kynntar tillögur stjórnarflokkanna um leiðir til að koma háhraðaneti um landið allt. Þær komu fram í skýrslu sem heitir Ísland ljóstengt, landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða. Um er að ræða útfærslu á markmiðum ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Í skýrslunni kom fram að aðgangur að háhraðafjarskiptatengingu væri grunnþjónusta sem öllum ætti að standa til boða óháð búsetu. Markið var sett á að þetta yrði að veruleika fyrir árið 2020. Heildarkostnaður við verkefnið er talinn nema 5 til 7 milljörðum kr. og til að borga fyrir framkvæmdina átti að skipta kostnaði við tenginguna jafnt milli þriggja aðila, Mílu, sem skyldi greiða 250 þús. kr. fyrir hverja heimtaug, notandans, sem átti að greiða sömu upphæð, og 250 þús. kr. áttu að koma úr svokölluðum Jöfnunarsjóði alþjónustu en hann er í vörslu Póst- og fjarskiptastofnunar.

Síðan hefur lítið heyrst af þessu máli og margir bíða úti um allt land eftir úrbótum. Ég spyr hæstv. innanríkisráðherra: Hver er staða þessa verkefnis og hvert verður beint framlag ríkisins í Jöfnunarsjóð alþjónustu á næsta ári, 2016?



[11:02]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður hreyfir hér mikilvægu máli. Það er rétt að það er skýr stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að fara í stórátak í fjarskiptainnviðum. Og ég get tekið undir það sem hv. þingmaður segir að örugg fjarskipti um landið eru eitt það mikilvægasta sem hægt er að fara í til að jafna búsetu í landinu og auka frelsi íbúa landsins til atvinnuþátttöku hvar sem er.

Ríkisstjórnin hefur núna til meðferðar þá skýrslu sem hv. þingmaður vék að og unnið er að því að koma þessu verkefni á koppinn. Í því efni er náttúrlega verið að leita leiða til að ljúka við það hvernig búa skuli um þetta mál. Það er ekki einfalt að gera en stefnumörkun liggur fyrir og viljinn er skýr.

Við höfum líka velt fyrir okkur hvort hægt sé að nýta samlegðaráhrif þegar litið er til þessarar fjarskiptauppbyggingar og þá sérstaklega þegar litið er til uppbyggingar veitufyrirtækja, þ.e. þar sem er hægt að laga þetta verkefni að því þegar veitufyrirtæki er að leggja jarðstrengi sína og slíka hluti, það mundi hafa jákvæð áhrif á niðurstöðu þessa verkefnis þegar litið er til fjárframlags ríkissjóðs. Þeir útfærsluþættir eru núna í vinnslu. Það er ekki hægt á þessu stigi að leggja mat á það hvernig niðurstaðan úr því verður nákvæmlega, þótt skýrsluhöfundar hafi haft ákveðnar sviðsmyndir uppi um það hvernig hægt er að leysa úr þessu þá eru ýmis önnur atriði sem þarf að taka til athugunar í því sambandi. Það stendur yfir núna og við höfum unnið það í utanríkisráðuneytinu í nánu samstarfi við þá sem koma að skýrslugerðinni til að geta haldið áfram með þetta mál. En ég ítreka að unnið er eftir þeirri stefnumörkun sem liggur fyrir og þeim vilja sem þar birtist.



[11:04]
Erna Indriðadóttir (Sf):

Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svarið. Ég veit að áformin eru góð og stefnan hefur verið mörkuð, en það virðist svo lítið vera að gerast í málinu. Það eru mjög margir sem hafa áhyggjur af því víða um land, enda er löngu tímabært að gera eitthvað í þessu máli. Mér sýnist að menn hafi verið að ræða í að minnsta kosti ein tíu ár hvað þetta sé nauðsynlegt verkefni. Mörgum finnst biðin orðin ansi löng, enda er þetta farið að hamla starfsemi á landsbyggðinni þar sem nettengingar eru ekki nógu góðar. Fólk talar um að það geti ekki tekið þátt í fjarkennslu o.s.frv.

Það verður að setja meiri kraft í þetta verkefni. Ég hvet innanríkisráðherrann til allra góðra verka í því, því að ég veit að hún hefur góð áform. Fólk í dreifbýlinu þarf að fara að finna að það sé hluti af upplýsingabyltingunni og geti notfært sér þau tækifæri sem í henni felast.



[11:05]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það getur nú verið þannig að jafnvel þótt menn telji að ekkert sé að gerast þá sé ýmislegt að gerast. Hlutirnir þurfa bara að fá að vinnast. Sumir hlutir þurfa bara að gerast á bak við skrifborð og milli manna og síðan kemur afraksturinn og þá er hægt að ræða það. Ég hef ekki mikla trú á því að það sé endilega betra að tala látlaust um það sem verið er að gera meðan það er í þeirri vinnslu sem það er.

Ég ítreka bara það sem ég sagði hér áðan að það er verið að vinna eftir þessari stefnumörkun, sem er þó ekki nema eins árs gömul, eins og hún birtist hér. Það er nú ekki langur tími þótt ég þekki það mætavel á eigin skinni að menn hafa kallað eftir þessu afar lengi.

Þetta er verkefni sem er töluvert metnaðarfullt. Þannig viljum við gera þetta. Ég held að það sé ekki eitthvað sem við þurfum að deila um hér á milli flokka. Þetta er bara eitthvað sem við viljum gera sameiginlega. Við erum að gera það sem við getum til að gera þetta eins vel úr garði og hægt er þannig að þetta þjóni þeim hagsmunum og því sem við ætlum okkur að mæta og líka þannig að það fjármagn sem ríkissjóður setur í þetta nýtist sem best.