145. löggjafarþing — 21. fundur
 15. október 2015.
sérstök umræða.

atvinnumál sextugra og eldri.

[11:43]
Erna Indriðadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þeir sem missa vinnuna um sextugt, einhverra hluta vegna, eiga erfitt með að fá aftur starf. Stundum missir fólk vinnuna vegna hagræðingar eða vegna skipulagsbreytinga en ástæðan í uppsagnarbréfinu er aldrei sú að fólki sé sagt upp vegna aldurs. Stundum sýnist manni þó hreinlega sem verið sé að ýta eldra fólki út af vinnumarkaðnum, ekki sé áhugi á að nýta sér reynslu þess og þekkingu, og það gildir bæði um einkafyrirtæki og ýmsar opinberar stofnanir. Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, sagði í viðtali að nánast væri útilokað fyrir fólk sem er fætt um 1960 að fá vinnu ef það hefði verið atvinnulaust í ár eða lengur og væri fólk orðið sextugt væri orðið mjög þungt fyrir á vinnumarkaði. Þetta er þeim mun undarlegra þar sem það fólk er góðir starfsmenn, þeir hafa mikla reynslu og þekkingu, eru samviskusamir og trúir sínu fyrirtæki eða stofnun og eru ekki frá vegna veikinda barna. Komið hefur fram í rannsóknum að það er hreint ekki þannig að eldra fólk hræðist nýja tækni eða breytingar eins og margir vilja halda fram. Þvert á móti hefur það áhuga á að tileinka sér nýjungar og læra meira og það á líka auðveldara en þeir sem yngri eru með að taka ákvarðanir. Þetta hefur sést í rannsóknum.

Atvinnuleysi í landinu hefur sem betur fer minnkað og var skráð atvinnuleysi í síðasta mánuði einungis 2,4% og hefur ekki verið jafn lítið síðan fyrir hrun. Það er ástæða til að fagna því. Konur á atvinnuleysisskrá voru ívið fleiri en karlarnir og samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar voru fimmtugir og eldri 26% hópsins og langtímaatvinnuleysi var mest í þeim hópi, en langtímaatvinnulausir eru þeir sem hafa verið á atvinnuleysisskrá í ár eða lengur.

Virðulegi forseti. Ég stórefa að þær tölur sýni raunverulega stöðu þessa eldri hóps á vinnumarkaðnum. Fyrir því eru nokkrir ástæður. Ég hef rætt við fjölda kvenna og karla um sextugt og jafnvel yngri sem fá ekki vinnu þótt þau séu í fullu fjöri. Þess eru dæmi að fólk hafi sótt um, ég hef séð lista yfir umsóknir þar sem viðkomandi hafði sótt um 80 störf, hvaða störf sem er en ekki einu sinni verið boðaður í viðtal þótt hann hafi haft góða menntun og langa starfsreynslu.

Það er líka þekkt til dæmis á Norðurlöndunum að langvarandi atvinnuleysi fylgja alls konar vandamál, heilsan bilar og félagsleg staða fólks versnar. Þegar fólk hefur misst heilsuna fer það á örorkubætur og það vekur athygli að öryrkjum 55–66 ára fjölgaði hér á landi um 20% á árunum 2009–2013 en Tryggingastofnun ríkisins hefur ekki haft bolmagn til að greina ástæðurnar fyrir því. Ekki er ólíklegt að ein af ástæðunum fyrir þeirri fjölgun sé langvarandi atvinnuleysi og svo eru líka margir á þessum aldri sem veigra sér við að láta skrá sig atvinnulausa.

Þegar fólk í kringum sextugt er síðan dottið út af atvinnuleysisskrá er úr vöndu að ráða. Þeir sem eru í sambúð láta sér ef til vill duga einar tekjur til að lifa af og konur sem eru sendar heim af vinnumarkaði fara að sinna fjölskyldunni og jafnvel passa barnabörnin ef þær fá ekki aftur starf. Þeir sem ekki hafa þessa framfærslumöguleika þurfa að leita á náðir sveitarfélaganna en fram hefur komið að fjárhagsaðstoð þar hefur aukist mikið.

Nú þegar rætt er um að hækka eftirlaunaaldurinn upp í 70 ár er nauðsynlegt að hugsa um þennan hóp. Á þessi hópur að fara á atvinnuleysisbætur eða segja sig til sveitar á meðan hann bíður eftir því að komast á eftirlaun eftir kannski tíu ár? Hefur samfélagið efni á því að fullfrískt fólk sitji heima með hendur í skauti? Hafa stjórnvöld hugað að þeim möguleika sem er til dæmis fyrir hendi á Norðurlöndunum en þar tíðkast svokölluð „førtidspensionering“ sem gerir fólki kleift að fara á eftirlaun fyrr en ella ef það stendur uppi atvinnulaust um sextugt?



[11:48]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ernu Indriðadóttur kærlega fyrir þessa umræðu. Hvað varðar þær spurningar sem er beint til mín — kannski ég fái aðeins að byrja á jákvæðu punktunum sem snúa að atvinnuþátttöku eldra fólks hér á Íslandi. Atvinnuþátttaka hér á landi er lægst meðal fólks á aldrinum 55–74 ára, um 65%. Við sáum að á árinu 2014 mældist atvinnuþátttaka meðal fólks á þessu aldursbili 67,2%. Þrátt fyrir þetta þá er atvinnuþátttaka eldra fólks, þ.e. 60 ára og eldri, er sú mesta sem gerist á Vesturlöndum. Það hefur sýnt sig í okkar samfélagi að við þurfum einfaldlega á því að halda að fólk sem er komið yfir sextugt sé virkt hér á vinnumarkaðnum þannig að aðstæður á Íslandi eru að einhverju leyti frábrugðnar því sem gerist í þeim löndum sem við berum okkur almennt saman við. Þetta held ég að sé líka ein af ástæðunum fyrir því að við mælumst tiltölulega há þegar kemur að efnahagslegri stöðu eldra fólks í samanburði við önnur lönd.

Við höfum ýtt undir þátttöku eldra fólks á vinnumarkaði. Eitt skýrasta dæmið á undanförnum missirum er virk þátttaka hv. þingmanns og ráðherra Sigrúnar Magnúsdóttur, sem ég tel til mikillar fyrirmyndar þó að hún sé úr mínum flokki. Ég heyri það frá henni að fólki í kringum hana finnst það vera ákveðin fyrirmynd og skilaboð til annarra í samfélaginu um mikilvægi þess að nýta þá miklu þekkingu sem er til staðar hjá eldra fólki og oft mun meiri starfsorka en hjá okkur sem erum nokkrum tugum árum yngri en viðkomandi.

Tölur sýna að skráð atvinnuleysi meðal miðaldra og eldra fólks er ekki meira en hjá öðrum aldurshópum hér á landi. En eins og hv. þingmaður benti á þá virðist vera, þegar fólk á annað borð missir vinnuna, erfiðara að komast aftur inn á vinnumarkaðinn.

Eitt af því sem við sjáum líka er aukin krafa á vinnumarkaðnum varðandi það að fólk viðhaldi stöðugt starfsfærni sinni, en gögn starfsmenntasjóða sýna hins vegar fram á að upp úr fimmtugu dregur úr þátttöku fólks í sí- og endurmenntun. Það hefur líka komið fram í samanburði við aðrar þjóðir í hinu svokallaða „old ages index“ að það sem dregur okkur í rauninni niður í samanburði við aðrar þjóðir er menntun eða aðgengi eldra fólks að menntun og menntunartækifærum. Þetta virðist vera eitthvað sem við gætum hugað sérstaklega að.

Ég líka tek undir að það er mikilvægt að fara yfir þessar tölur og greina hugsanlegar hindranir í tengslum við þátttöku eldra fólks á vinnumarkaðnum. Eitt er einfaldlega viðhorfið, eins og var nefnt hér, en við sjáum hins vegar líka í tölunum að viðhorfið hér virðist almennt mun jákvæðara gagnvart atvinnuþátttöku eldra fólks en í flestum öðrum samanburðarlöndum.

Það sem þingmaðurinn kom inn á varðandi hækkun lífeyrisaldurs í 70 ár, þá er búið að vera að ræða hækkun lífeyristökualdursins í tveimur nefndum sem annars vegar hafa fjallað um endurskoðun almannatryggingakerfisins og hins vegar um endurskoðun lífeyrissjóðakerfisins. Það byggist einfaldlega á því að meðalævilengdin er sífellt að lengjast. Fólk er hraustara, það lifir lengur. Ég er að minnsta kosti þeirrar skoðunar að við eigum að sjálfsögðu að reyna að njóta krafta þessara einstaklinga sem allra lengst á vinnumarkaðnum. Við þurfum einfaldlega á því að halda.

Hugsunin hefur verið sú að reyna með einhverjum hætti, en við teljum það skynsamlegt, að taka lífeyris hefjist við sama aldur í báðum lögbundnum lífeyriskerfum. Það hefur verið rætt um að hækka lífeyristökualdurinn í áföngum úr 67 ára aldri til 70 ára aldurs. Svo erum við jafnframt með önnur viðmið gagnvart opinberum starfsmönnum sem er líka mikilvægt að huga að hvernig við getum samræmt sem best.

Víða á Norðurlöndunum hefur verið tekið upp kerfi þar sem tekið er jafnt og þétt tillit til þróunar svokallaðra ólifaðrar meðalævi. Ævilíkur þeirrar sem stendur hér er þá önnur en þeirra sem eru tíu árum eldri og yrði þá tekið tillit til hvenær fólk hæfi lífeyristöku.

Það sem við sjáum er aukin áhersla á að hvetja fólk til að vinna lengur og að lífeyrisaldur sé sveigjanlegur. Menn hafa hins vegar verið að fara til baka frá hugmyndum sem kallaðar voru „førtidspension“ og frekar lagt áherslu á aukinn sveigjanleika varðandi starfsgetu samhliða hækkun lífeyristökualdursins.

Það sem ég vil líka leggja áherslu á og er með á minni þingmálaskrá snýr einmitt að þessum viðhorfum og að tryggja að ekki sé verið að mismuna fólki, m.a. á grundvelli aldurs. Það hefur sýnt sig að í nánast öllum öðrum Evrópuríkjum en okkar hefur verið innleitt bann við mismunun, þar á meðal á grundvelli aldurs. Algengasti þátturinn þar sem er verið að mismuna fólki í Evrópu er vegna aldurs. Aðrir þættir sem er kannski rætt meira um, eins og fötlun eða kynhneigð, eru óalgengari. Algengustu málin sem koma upp er mismunun vegna aldurs. Við verðum náttúrlega öll á endanum gömul. (Gripið fram í: Ef guð lofar.) — Ef guð lofar, ef við lifum lengi þá verðum við gömul. Þar af leiðandi getum við staðið frammi fyrir því að verða fyrir mismunun á grundvelli (Forseti hringir.) aldurs.

Ég hef lagt áherslu á að auðvelda fólki að vinna lengur með auknum sveigjanleika, að við getum notað úrræðin til þess að styrkja heilsu fólks, auk þess að leggja (Forseti hringir.) meiri áherslu á sí- og endurmenntun svo við hættum ekki að afla okkar aukinnar þekkingar og að samfélagið horfi áfram til (Forseti hringir.) þess hversu mikilvægir aldraðir eru.



[11:54]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vona að ég fái líka að setjast að hér í ræðustól. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ernu Indriðadóttur fyrir þessa mjög svo mikilvægu umræðu. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að við tökum þá umræðu í þinginu núna því að líkt og fram kom í máli hæstv. ráðherra eru nefndir í gangi sem eru að ræða um hækkun á lífeyrisaldri. En eins og hv. þm. Erna Indriðadóttir benti á eru rosalega margir fletir á því og þess vegna er mjög mikilvægt að við tökum ítarlega og góða umræðu um það í þingsal.

Breyting á aldurssamsetningu þjóðarinnar kallar að mínu mati á viðhorfsbreytingu á vinnumarkaði. Hlutfall eldra fólks er að aukast í samfélaginu og það eru alltaf fleiri og fleiri aldraðir sem búa við góða heilsu og getuna og viljann til þess að vera lengur á vinnumarkaði. Svo er það hin hliðin að það er hópur fólks á vinnumarkaði þar sem nýgengi örorku er mjög hátt og er þá oft sérstaklega vísað til kvenna sem eru komnar yfir 55 ára og þurfa hreinlega að hætta að starfa vegna slits og álags í vinnu.

Þetta eru atriði sem mér finnst mjög mikilvægt að við tökum öll í samræmi. Við getum ekki bara breytt lagabókstafnum um lífeyristökualdurinn heldur verðum við að skoða samfélagið í heild og hvaða áhrif þetta hefur og hvort það sé hreinlega gerlegt. Þótt eitthvert tryggingafræðilegt mat segi okkur að við verðum að hækka aldurinn til þess að fá bótakerfið til að ganga upp verðum við líka alltaf að hugsa um samfélagið og hvaða áhrif (Forseti hringir.) þetta hefur inn í samfélagslegu dínamíkina.



[11:57]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég vil taka upp þráðinn hjá hv. þingmanni sem talaði hérna áður því að það er mjög mikilvægt að við ræðum svona mál alltaf dálítið heildstætt. Við höfum tilhneigingu til þess þegar kemur að velferðarmálunum að ræða einstakar breytingar eða einstök frumvörp og einblína á mjög sérstök atriði sem eru hluti af stærri heild og kannski orðin mjög tæknileg.

Atvinnuþátttaka aldraðra er hluti af atvinnuþátttöku, af atvinnulífinu. Það er mikilvægt að við tölum ekki um atvinnuþátttöku aldraðra án þess að taka tillit til atvinnulífsins alls. Hluti af því að hafa mjög sterka atvinnuþátttöku þeirra sem eldri eru er að það minnkar að einhverju leyti hreyfinguna og möguleikann á nýgengi. Eins og tölurnar sýna núna er því miður talsvert erfiðara um atvinnu hjá yngstu aldurshópunum. Þar erum við farin að banka upp á svipað „trend“ og við höfum séð hjá Evrópuþjóðum þar sem aldurshópurinn 18–25 býr við helmingi meira atvinnuleysi en aðrir. Ég vildi benda á þetta vegna þess að ég held að lausnin í báðar áttir sé ekki endilega að festa atvinnuþátttöku aldraðra við ákveðið ár og segja fram til sjötugs eða hvað, heldur akkúrat að auka sveigjanleika þannig að aldraðir geti tekið þátt í atvinnulífinu en ekkert endilega í fullu starfi, ekkert endilega í hálfu starfi, þess vegna í 15% starfi og ekkert endilega bara til sjötugs heldur kannski til 77 ára aldurs.

Ég held að við höfum öðlast meiri og betri getu til þess að einstaklingsmiða hluti og réttindi. Við eigum endilega að horfa í þá áttina. (Forseti hringir.) Kannski getum við notað kerfi eins og tryggingagjaldið, sem við notum til að stýra atvinnumarkaði, eins og í gegnum Fæðingarorlofssjóð og VIRK, (Forseti hringir.) í þessum tilgangi.



[11:59]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Þegar ég sá þessa umræðu, sem hv. þm. Erna Indriðadóttir hóf, þá datt mér í hug járnkanslarinn Otto von Bismarck sem ákvað árið 1889 að almannatryggingar skyldu miðast við 70 ár. Allar götur frá 1889, í 126 ár, hefur öldrun miðast við töluna sem Bismarck ákvað án þess að hafa nokkra læknisfræðilegar forsendur fyrir því. Í dag er ástandið þannig að þeir sem verða sjötugir geta vænst þess að lifa í 14,5–16,7 ár eftir kyni. Þeir sem verða sextugir geta vænst þess að lifa í 22–25 ár eftir kyni. Það að afskrifa þennan hóp af vinnumarkaði er býsna illa farið með ágætisauðlind sem er vinnuafl fólks.

Vinnan er í langflestum tilfellum sú birtingarmynd sjálfsmyndar sem fólk þarf að búa við og það að afskrifa fólk á þessum aldri, á mínum aldri, er býsna harkaleg ráðstöfun. Ég tel að þeir sem hafa aflað sér þekkingar, reynslu og ýmissar aðlögunar á býsna löngum starfsaldri og verða sextugir séu ágætisstarfskraftur.

Ég verð líka að láta þess getið hér í ræðustól að mér finnst illa farið með kollega mína, þingmenn, því að þeir eru taldir til alls ónýtir eftir að þingsetu lýkur.

Ég tel að þessi umræða sé býsna mikilvæg en hún er allt of stutt. Það eru ýmsar starfsstéttir sem geta lagt mikið af mörkum. Mér detta nú í hug kollegar mínir, háskólakennarar, sem eru skyldaðir til að láta af kennslu sjötugir. Þeir hafa gífurlega þekkingu sem er allt of dýrt að leggja frá sér.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu, en óska þess að þetta mál verði hugsað hér á þingi oftar.



[12:01]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka fyrir umræðuna og hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu mjög svo mikilvæga og áhugaverða máli.

Mér finnst oft mjög sorglegt að sjá hvernig komið er fram við eldra fólk. Því virðist stundum vera sagt upp af því að það er komið nálægt eftirlaunaaldri. Því er ekki einu sinni sýnd sú lágmarkskurteisi að bíða í tvö, þrjú ár eftir því að það komist á eftirlaunaaldur, eins og gerðist t.d. með hv. skúringarkonur í Stjórnarráðinu hérna um árið. Þeim var sagt upp þrátt fyrir að þær ættu bara nokkur ár eftir í eftirlaunaaldur. Annars staðar, í hinum siðmenntaða heimi í Evrópu, er einfaldlega beðið eftir slíku. Ef það eru þrjú, fimm, sex ár í að viðkomandi komist á eftirlaun er fólki sýnd sú kurteisi að fá að halda áfram að vinna fram að því. Það virðist ekki vera við lýði hér.

Ég held að þetta sé fyrst og fremst spurning um viðhorf. Það er líka annað sem maður sér þegar maður ferðast um Evrópulönd svo sem Þýskaland og Frakkland, að þar er hátt hlutfall eldra fólks í þjónustustörfum, á kassa í verslunum og því um líkt. Hér virðist þetta vera unglingastarf. Það er kannski fyrst og fremst vegna þess að unglingar sætta sig við lægri laun og þurfa heldur ekki að framfleyta heilli fjölskyldu.

Þetta er bara spurning um hvernig vinnumarkaðurinn á Íslandi er. Af hverju erum við komin á það stig að ráða frekar unglinga í vinnu? Það er auðvitað bara gott og blessað, en þetta er vinna. Mér finnst alla vega að svona vinna eigi fyrst og fremst að vera fyrir fólk sem þarf að framfleyta sér. Þótt unglingar þurfi vissulega stundum að taka þátt á vinnumarkaðnum er þetta spurning um forgangsröðun og virðingu við fólk sem þarf á vinnunni að halda.



[12:04]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Erna Indriðadóttir á þakkir skyldar fyrir að hafa tekið þetta mál hér upp og sömuleiðis fyrir þá alúð sem hún hefur lagt þessum málaflokki með því að halda úti merku vefriti, Lifðu núna, sem helgar sig eingöngu málefnum eldra fólks. Staðreyndin er sú að eldra fólk er afskipt. Það er sjaldgæft að málefni þess séu tekin til umræðu hér á hinu háa Alþingi. Á vinnumarkaði er það líka afskipt. Þær tölur sem komu hér fram í máli hv. framsögumanns um að atvinnuleysi 60+ væri 26% verða ekki til af sjálfu sér. Staðreyndin er sú að á Íslandi skortir fyrirtæki á almennum markaði samfélagslega ábyrgð og það á því miður líka við meðal opinberra fyrirtækja, bæði bankastofnana sem ríkið á stóran hlut í og Ríkisútvarpsins.

Svo virðist sem fólki sem er farið að halla í og yfir sextugt sé skipulega rutt út af vinnumarkaði. Til skamms tíma var staðan þannig í bönkunum að hver einasta kona sem vann þar og var farin að halla í sextugt fékk skjálfta í hnén þegar nálguðust mánaðamót. Bankarnir virtust um tíma vera skipulega að koma frá sér konum sem höfðu jafnvel unnið þar áratugum saman og skipta þeim út. Ég tel að það sé lágmark að fyrirtæki sem hið opinbera á einhvern hlut í taki upp eigendastefnu sem markast af samfélagslegri ábyrgð þar sem fyrirtækið stendur með þeim sem hafa staðið með fyrirtækinu.

Í þessu efni, herra forseti, þá hryggir það mig að þurfa að segja að ég tel að Alþingi Íslendinga hafi ekki gengið á undan með góðu fordæmi í þessum efnum. Það er hægt að gera þetta með ýmsum hætti. Eitt af því er þingmál sem ég hef lagt fram um það að þegar kemur að því að lækka tryggingagjald þá verði það gert aldurstengt (Forseti hringir.) þannig að kostnaður fyrirtækja vegna starfsmanna sem eru 60+ verði minni en annarra. Í því felst fjárhagslegur hvati.



[12:06]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ernu Indriðadóttur fyrir að bera þetta mál hingað inn. Undanfarin ár hefur einn stærsti hópurinn sem hefur verið langtímaatvinnulaus, eins og rétt kom fram hjá hv. þingmanni, verið 55 ára og eldri. Sá sem hér stendur er á móti sóun í hverri mynd sem hún birtist. Ég lít þannig á að með því að við viðhöldum nokkurri æskudýrkun erum við að kasta á glæ reynslu og þekkingu sem fólk hefur safnað sér upp í áranna rás. Ég tel reyndar að á þeim hópi sem nú gengur atvinnulaus, sérstaklega þeim sem er langtímaatvinnulaus, þurfi frekari greiningu, t.d. á menntunarstigi o.s.frv., til að hægt sé að grípa til sérstakra ráðstafana hvað þetta varðar.

Ég tel reyndar að í þessu máli sé sérstaks átaks þörf og tel að slíkt átak eigi að vera leitt af ríkinu, ríkisstofnunum og sveitarfélögum. Ég segi aftur að við höfum ekki efni á því að kasta á glæ þekkingu þeirrar kynslóðar. Fyrir utan það náttúrlega, eins og fram hefur komið hér, að þetta er samviskusamt fólk upp til hópa og vel fært.

Annað er hitt að við þurfum að sjálfsögðu líka að gæta að meiri endurmenntun fyrir þann hóp. Rétt er að taka fram að nú þegar rætt er um í nefnd á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra hækkun ellilífeyrisaldurs hafa þær hugmyndir einnig verið á kreiki að ellilífeyrisaldur geti farið allt upp í 75 ár en hann verði jafnframt sveigjanlegur þannig að hugsanlega geti menn farið á eftirlaun 65 ára (Forseti hringir.) en þá með ögn skertum réttindum. Allt þetta þurfum við að taka til athugunar vegna þess að þessi hópur er allt of mikilvægur og verðmætur fyrir okkur til að geta verið án krafta hans.



[12:09]
Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Herra forseti. Stór hluti fólks sem komið er á sjötugsaldurinn er í raun í dag kornungt fólk. Við lifum lengur og við erum ung lengur. Það eru ákveðnir fordómar samt í samfélaginu sem tengjast þessum aldurshópi sem fær til dæmis ótrúlega litla umfjöllun í fjölmiðlum og litla athygli. Á margan hátt er hópurinn ósýnilegur en hann er gríðarstór. Í honum eru tugir þúsunda á Íslandi og hann fer stækkandi án þess þó að verða meira sýnilegur. Fólk á aldrinum 60+ á oft erfitt með að fá vinnu, og það á ekki síst við um konur, sem veldur því að fólk þorir ekki að breyta. Það þorir ekki að flytja og þorir ekki að segja upp atvinnu sem það er kannski ekkert sérstaklega sátt við. Það býr því við ákveðna fjötra. Fólk veigrar sér við að flytja á milli staða vegna þess að það hefur fengið einhverja viðurkenningu á staðnum sem það er á en fær kannski stimpil vegna aldurs þegar það kemur á nýjan stað. Það er með ólíkindum hvað atvinnulífið metur lítið þekkingu og reynslu þeirra sem eldri eru. Hugmyndir um sveigjanlegan eftirlaunaaldur eru mjög spennandi. Er það ekki í raun galið að alltaf sé horft á lífaldur þegar við ættum að horfa á heilsu, áhuga og getu til atvinnuþátttöku? Er það ekki í raun galið að fullfrískt fólk sé hrakið af vinnumarkaði sökum aldurs? Ég hef setið í velferðarnefnd síðan ég kom til starfa á þinginu og þar hafa málefni aldraðra verið til umfjöllunar. Það hefur komið skýrt fram að gríðarlega mikilvægt er fyrir fólk á efri árum að fá tækifæri til þess að vera virkt í samfélaginu og hreyfing er þar grundvallarþáttur. Fólk getur hægt verulega (Forseti hringir.) á öldrunarferlinu með því að hreyfa sig reglulega. Það er gott fyrir heilann og kroppinn og það er gott fyrir samfélagið allt. Að vera þátttakandi í atvinnulífinu hlýtur að virka á svipaðan hátt og hreyfing.



[12:11]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu sem er mjög þörf og nauðsynleg í samfélaginu í dag. Eins og kom fram í máli hv. þm. Ingibjargar Þórðardóttur er þemað hjá okkur í velferðarnefndinni málefni eldri borgara. Það er gríðarlega spennandi og skemmtilegt verkefni að ræða þau mál og líka mjög nauðsynlegt. Ég tel að eitt af því sem þurfi að gerast á Íslandi sé að það verði hugarfarsbreyting gagnvart eldra fólki. Hér áður fyrr var fólk talið gamalt þegar það var orðið 50 ára, en hlutirnir hafa breyst gríðarlega á síðustu árum. Við fengum til dæmis kynningu á því í gær í velferðarnefnd að sú heilsuefling sem á sér stað hjá eldra fólki gerir það verkum að það er sprækara langt fram eftir. Það er líka vinna í gangi í þinginu og í nefndum um að auka sveigjanleika við starfslok, sem er gríðarlega mikilvægt eins og hefur verið komið inn á, og gefa þeim kost á því sem eru sprækir og heilsuhraustir að starfa áfram. Á sama tíma megum við ekki gleyma þeim hópi sem getur það ekki, því að það er náttúrlega stór hópur á Íslandi sem er slitinn og illa farinn af mikilli vinnu mjög snemma. Það er hópur sem við verðum líka að hugsa um.

Ég tel að lykilatriðið fyrir okkur öll sé sú hugarfarsbreyting að eldra fólk sé bráðnauðsynlegt á vinnumarkaði og ekki síst þegar maður fer að horfa á alla þessa uppbyggingu sem er fram undan — (Gripið fram í.) já, á þinginu líka — því að þá vantar fólk til starfa. Eldra fólk býr yfir gríðarlegri starfsreynslu og þekkingu sem fyrirtæki mega ekki missa. Það var gerð könnun á veikindaleyfi fólks í fyrirtækjum fyrir nokkrum árum síðan og í ljós kom að eldra fólk í fyrirtækinu var nánast aldrei veikt á meðan það yngra var mjög oft veikt. Við verðum því að halda í þennan mannauð, eins og komið hefur fram.



[12:13]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að við þessa umræðu þá fyllist ég skelfingu því það er nú þannig að á næsta ári þá öðlast ég þann rétt að verða eldri borgari, (Gripið fram í: Enginn sér það.) verð 67 ára gömul. Mér þykir eiginlega með ólíkindum, virðulegi forseti, að allt frá því að Bismarck ákvað það, 1894 held ég að það hafi verið, að við þann aldur yrði maður gamall og þreyttur og það ætti að setja mann til hliðar, sé það enn þá við lýði. Ég held að fyrst og síðast í allri þessari umræðu þurfi að velta því fyrir sér hvort 67 ára gamalt fólk sé orðið eldri borgarar og það þurfi að setja það til hliðar eða jafnvel um sextugt. Það mætti hugsa um þann hóp sem nær jafnvel níræðis- og tíræðisaldri í ákveðnum hólfum, t.d. 60–70, 70–80, 80–90. En fyrst og síðast þarf að horfa til þess að leyfa fólki að hafa val um hvort það vill halda áfram að vinna eða ekki og draga úr þeim mörkum sem eru sett. Ef maður starfar hjá ríkinu hættir maður sjötugur. Þú getur farið á 95 ára reglu um sextugt ef sameiginlegur starfsaldur og lífaldur er fyrir hendi.

Gefum fólkinu val, horfum til þess að nýta reynslu og þekkingu allra á öllum aldri til þess að koma að því að byggja upp það samfélag sem við viljum og margir kalla eftir samfélagslegri ábyrgð. Val fólks til þess að halda áfram að vinna, val fólks til þess að velja sér tíma til að fara á eftirlaun sé á þess höndum en ekki rígbundið lögum á vinnumarkaði eða viðhorfi einstaka atvinnurekanda og þar á meðal ríkisins. Ég legg til að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því hið fyrsta að ljúka því verkefni sem er í gangi og koma á sveigjanlegum lífeyrisaldri þannig að fólk á mínum aldri hafi val.



[12:16]
Erna Indriðadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir að hafa tekið þessa umræðu við þá sem hér stendur og fyrir skýr svör. Ég þakka líka öllum þeim sem tóku til máls í umræðunni. Það er ánægjulegt að verið sé að skoða þessi mál í þinginu og nefndir að störfum. Mér finnst líka gleðilegt að heyra að ráðherra telur að auka megi sveigjanleika við starfslok og bæta endurmenntun þeirra sem eldri eru. Sveigjanleiki og val er nokkuð sem allir eru sammála um að eigi að vera fyrir þá sem eru að eldast á vinnumarkaðnum. Ég fagna því sérstaklega að ráðherra ætlar að beita sér fyrir því að tryggja að fólki sé ekki mismunað vegna aldurs. Menn hafa rætt það hér að horfa þurfi heildstætt á þetta mál og ég er algjörlega sammála því.

En sú skoðun sem kemur stundum fram að ekki megi taka vinnu frá yngra fólki, ég veit ekki alveg hvort hún sé endilega alveg rökrétt vegna þess að ef fram heldur sem horfir, að eldra fólki muni fjölga svona mikið í þjóðfélaginu, þá eru skýrslur sem sýna það að nú eru fimm til sex manns á bak við hvern eftirlaunamann en verða tveir árið 2050. Það þýðir að unga fólkið sem er að vinna þarf þá að borga stöðugt meiri skatta, nema þetta verði leyst eins og margar Evrópuþjóðir hafa gert með innflytjendum, að þeir komi hingað og vinni störfin sem þarf að vinna og greiði skatta til ríkisins. Það þarf að horfa heildstætt á það líka, ég er svo sannarlega sammála því. Ég tel að þær tölur sem fyrir liggja um atvinnuþátttöku og atvinnuleysi segi alls ekki alla söguna um stöðu þessa hóps og brýnt sé að skoða málið betur og það þurfi jafnvel að fara í sérstakt átak til að (Forseti hringir.) koma til móts við það fólk.

Svo tek ég undir með hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni hér að lokum að við höfum bara alls ekki efni á þeirri sóun sem felst í því að nýta ekki krafta og þekkingu þeirra sem eldri eru.



[12:18]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Ég tek líka undir þau orð að það væri þvílík sóun að nýta ekki krafta eldra fólks eins og yngra fólks. Það sem hefur skilað okkur áfram er hin mikla atvinnuþátttaka á íslenskum vinnumarkaði þar sem bæði konur og karlar, ungir sem aldnir fá störf. Það er ástæðan fyrir því, eins og ég fór í gegnum, að atvinnuþátttaka þeirra sem eru 60 ára og eldri hér á landi er sú mesta sem um getur á Vesturlöndum. Það er eitthvað sem er virkilega dýrmætt fyrir íslenskt samfélag og við eigum að halda í með öllum mögulegum ráðum.

Ég vil líka ítreka að tölur sýna að skráð atvinnuleysi meðal miðaldra og eldra fólks er ekki meira en hjá öðrum aldurshópum hér á landi og sveiflur hvað varðar skráð atvinnuleysi eru minni milli árstíða hjá þeim sem eru eldri en annarra hópa sem skráðir eru án atvinnu. En eins og kom líka fram í mínu máli þá er það hins vegar svo að þegar fólk sem komið er vel yfir miðjan aldur missir vinnuna þá virðist það eiga erfiðara með að fá vinnu aftur. Það er eitt af því sem við þurfum að huga sérstaklega að.

Ég ítreka mikilvægi þess að við innleiðum löggjöf sem tekur á mismunun á vinnumarkaðnum. Það er hluti af þeirri tillögu sem liggur fyrir varðandi mótun nýrrar vinnumarkaðsstefnu. Það er mikilvægt að tryggja að eldra fólk hafi möguleika á því að viðhalda starfsfærni sinni eins og allir aðrir sem eru á vinnumarkaðnum og eitt af því sem við þurfum sérstaklega að benda á hvað varðar starfsmenntasjóðina er að fólk haldi áfram að viðhalda starfsfærni sinni alla ævi. Það er jákvætt þegar fólk sækir sér menntun en í samanburði við önnur lönd mætti það vera jafnvel meira en er nú þegar.

Síðan eru það þessar stóru ákvarðanir sem við erum að ræða hér og höfum verið að ræða töluvert í þinginu og nefndum sem hafa verið (Forseti hringir.) starfandi sem snúa að breytingum á lífeyristökualdrinum. Við þurfum náttúrlega að horfa bæði á almenna vinnumarkaðinn og opinbera vinnumarkaðinn því að þar eru (Forseti hringir.) menn ekki endilega að tala um 70 eða 75 ára þegar kemur að opinberum starfsmönnum. Í mínum huga er lykilatriðið að samræma þetta svo (Forseti hringir.) að við sóum ekki hinum mikilvægu starfskröftum þeirra sem eru 60 ára og eldri.