145. löggjafarþing — 21. fundur
 15. október 2015.
um fundarstjórn.

viðvera heilbrigðisráðherra.

[12:21]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þann 24. janúar birtist eftirfarandi á vef Stjórnarráðsins, með leyfi forseta:

„Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020. Á grundvelli hennar verða skilgreind mælanleg markmið og sett fram áætlun um aðgerðir til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.“

Síðan eru tilgreind yfirmarkmið stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020:

Að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.

Að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa.

Hæstv. forseti. Er til of mikils mælst að ætlast til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra verði viðstaddur þessa umræðu eins og margoft hefur verið óskað eftir? Það var gert í síðustu viku þegar þetta þingmál var til umfjöllunar, hann er ekki á staðnum og ég krefst þess að þessi umræða hefjist ekki nema að viðstöddum hæstv. heilbrigðisráðherra í salnum.



[12:22]
Forseti (Róbert Marshall):

Forseti mun gera ráðstafanir til að kanna viðveru hæstv. heilbrigðisráðherra.



[12:22]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek eindregið undir þær ábendingar sem koma hér fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Það gengur ekki að haldið sé áfram umræðu um svo umdeilt mál sem hér er undir og virðist ekki einu sinni njóta stuðnings meiri hluta þingsins. Hér hafa framsóknarmenn hver á fætur öðrum lýst því yfir, þó að þeir hafi ekki gert það í þessari lotu enn þá en munu væntanlega gera það, að þeir séu ósammála þessari nálgun. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur ítrekað skrifað um það, bæði á Facebook-síðum sínum og annars staðar, að hann sé andsnúinn þessu máli enda er það engan veginn í samræmi við samþykkta heilbrigðisstefnu Íslands, að ég tali ekki um ábendingar á alþjóðavettvangi sem við höfum gert að okkar, alþjóðaskuldbindingar og svo framvegis.

Forseti. Það gengur ekki annað en að hæstv. heilbrigðisráðherra taki þátt í þeirri umræðu sem hér er lagt upp í og ég legg til (Forseti hringir.) að við látum þessa umræðu duga fyrir matarhlé og freistum þess að ná heilbrigðisráðherra í hús áður en lengra verður haldið.



[12:24]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er undarleg forgangsröðun hjá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni á þessum degi þegar lögreglumenn standa og mótmæla stöðu lögreglunnar fyrir utan þinghúsið og margvísleg alvarleg mál þarf að taka á dagskrána, að þá sé brennivín í búðir áfram í fullum forgangi í þinginu.

Ég hélt að ræða ætti forgangsmál af hálfu heilbrigðisráðherra í dag, um staðgöngumæðrun, en það er greinilega fullur ásetningur heilbrigðisráðherra og Sjálfstæðisflokksins að brennivín í búðir sé í fullum forgangi á dagskránni. Þess vegna sjáum við ekki staðgöngumæðrunina, stjórnarfrumvarp sem alla jafna nyti forgangs hér sem 1. mál á dagskrá. Ég held hins vegar að þótt það sé auðvitað heimilt fyrir heilbrigðisráðherrann að hafa brennivín í búðir sem sérstakt forgangsmál í þinginu verði að gera þá kröfu með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að heilbrigðisráðherrann sé viðstaddur umræðu um það heilbrigðismál sem klárlega er á ferðinni. Sama hvort menn eru með því að selja brennivín í búðum eða á móti því (Forseti hringir.) held ég að allir séu sammála um að það er mikilvægt lýðheilsumál og eðlilegt að ráðherrann taki þátt í umræðunni, ekki aðeins í útvarpssal heldur líka hér.



[12:25]
Forseti (Róbert Marshall):

Þeim skilaboðum hefur verið komið til hæstv. heilbrigðisráðherra að nærveru hans sé óskað í þingsal.



[12:25]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir þær óskir að fá hæstv. heilbrigðisráðherra hingað til að fylgjast með þessari umræðu. Eins og komið hefur fram er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar lögð mikil áhersla á að lýðheilsu- og forvarnastarf sé forgangsverkefni. Það er líka öllum ljóst að áfengissjúkdómar flokkast undir heilbrigðismál. Það var ágætt viðtal við Kára Stefánsson lækni í morgunútvarpinu á RÚV í morgun þar sem kom vel fram að það aukna aðgengi sem verið er að boða í þessu frumvarpi mun leiða til aukinnar áfengisneyslu með þeim afleiðingum að tíðni áfengissjúkdóma eykst. Mér finnst það sjálfsagður hlutur, þar sem verið er að tala um afleiðingar sem varða heilbrigðiskerfið okkar, að hæstv. heilbrigðisráðherra komi og sýni þessu máli (Forseti hringir.) þá virðingu að vera viðstaddur umræðuna.



[12:26]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vitnaði í orð sem birt voru á vef Stjórnarráðsins í janúar 2014 og höfð eftir heilbrigðisráðherra landsins. Ég vil taka hæstv. heilbrigðisráðherra alvarlega, en mér leikur líka forvitni á að vita hvort hæstv. heilbrigðisráðherra taki sjálfan sig alvarlega og hvað hann meinar með þeim orðum sem ég vitnaði hér til um áfengisstefnuna og hvort þau rími við það frumvarp sem er til umfjöllunar í þinginu. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að gera ráðstafanir til að fá hæstv. heilbrigðisráðherra til að koma hingað til umræðunnar. Vandinn er sá að þessu var líka heitið síðast þegar við ræddum málið, í síðustu viku, en hann skellti skollaeyrum við og hafði óskir okkar að engu. (Forseti hringir.) Mér finnst að Alþingi geti ekki látið koma svona fram við sig. Þetta er heilbrigðisráðherra landsins og við erum að ræða hér mjög brýnt heilbrigðismál.



[12:28]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að búið sé að koma boðum til hæstv. heilbrigðisráðherra um að hans sé óskað við þessa umræðu, svo langt sem það nær. Ég tek undir að það er gríðarlega mikilvægt að hæstv. ráðherra sé hér, hlusti á umræðuna og taki helst þátt í henni eftir atvikum, því að líkt og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á hefur hæstv. ráðherra sett fram ákveðna stefnu í áfengismálum. Hann hefur oft talað þannig úr þessum ræðustól eins og honum sé annt um lýðheilsumál, og meginþunginn í röksemdafærslu þeirra hv. þingmanna sem tekið hafa þátt í umræðunni hér snýst um lýðheilsumál, um mál sem eru á verkefnasviði hæstv. ráðherra. Þess vegna tek ég undir (Forseti hringir.) tillögu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur; tökum matarhlé núna og sjáum hvort ráðherrann verður þá ekki kominn þegar við erum búin í mat.



[12:29]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Enn einn dagurinn sem við ætlum að ræða forgangsmál sjálfstæðismanna. Gott og vel, það er í sjálfu sér allt í lagi þannig að þá hlýtur líka að teljast í lagi að sá sem fer fyrir málaflokki sem þarf að taka við afleiðingum þess sem þetta getur haft og lýst er ágætlega í frumvarpinu sé viðstaddur þessa umræðu, a.m.k. að einhverju leyti. Það var kallað eftir honum síðast þegar þetta mál var rætt. Hann varð ekki við því þá. Mér finnst eðlilegt að hann geri það að einhverju leyti þótt hann þurfi ekki endilega að vera viðstaddur alla umræðuna, en hér hafa verið færð fram rök fyrir því hvers vegna hans er óskað. Það á að beina til hans spurningum sem skiptir máli fyrir mann í hans stöðu sem heilbrigðisráðherra þessa lands.

Ég tek undir það að sjálfsögðu að við frestum fundi og tökum vonandi hádegishléið í að sjá til þess (Forseti hringir.) að ráðherra komi hér í hús.



[12:30]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Þegar rýnt er í ýmiss konar stefnuskjöl ríkisstjórnarinnar ætti að vera þar í fylkingarbrjósti samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna þar sem áhersla er lögð á lýðheilsumál. Síðan ber svo við að hæstv. fjármálaráðherra talar sérstaklega um mikilvægi þess að koma áfengi í almennar verslanir undir dagskrárliðnum stefnuræða forsætisráðherra. Hann gerir það væntanlega sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins og þar með er það mál orðið sérstakt baráttumál Sjálfstæðisflokksins í samstarfi við Framsóknarflokkinn og þá væntanlega ekki hefðbundið þingmannamál, sem hér eru allmörg og fá mismunandi afdrif eins og við þekkjum, heldur er þetta orðið mál sem hæstv. fjármálaráðherra sjálfur, Bjarni Benediktsson, setur í spíss í málafylgju sinni. (Forseti hringir.) Þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. heilbrigðisráðherra komi hér og geri grein fyrir afstöðu sinni og ráðuneytis síns (Forseti hringir.) til svo stórs máls sem varðar lýðheilsu í landinu.



[12:32]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur óskað eftir nærveru hæstv. heilbrigðisráðherra. Hæstv. forseti hefur upplýst að boð hafi verið send til ráðherrans og jafnframt hefur hann síðar staðfest að ráðherrann hafi fengið boðin. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi með þeim boðum líka fengið upplýsingar um hvort hæstv. heilbrigðisráðherra hyggst verða við þessum óskum.

Ég tel að hv. þm. Vilhjálmur Árnason hafi fullan rétt til þess að leggja fram þau mál sem hann telur brýnust hverju sinni. Ég hef ekkert á móti því að ræða þetta mál. Hins vegar tel ég mikilvægt að hæstv. heilbrigðisráðherra komi hér og skýri ákveðin sjónarmið sem hann hefur í málinu. 24. janúar í fyrra gaf hann út áfengis- og vímuvarnastefnu. Markmið númer eitt er að takmarka aðgengi að áfengi. Við þurfum þess vegna að heyra það hjá hæstv. ráðherra hvort það markmið samrýmist þessu frumvarpi vegna þess að sú afstaða hlýtur að vera mikilvægt innlegg í málið.



[12:33]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er venjulega ekkert endilega þeirrar skoðunar að hæstv. ráðherra eigi að vera viðstaddur öll mál sem hann varða, en ég verð að segja að þetta mál tel ég vera mikilvægara fyrir umræðuna en fólk áttar sig á. Hér takast á sjónarmið sem snúast ekki einfaldlega um það hvort þetta er góð hugmynd eða slæm, í þessu máli tökumst við meðal annars á um gildismat. Mér þætti mjög áhugavert að hafa hæstv. ráðherra hér, sér í lagi vegna þess hv. flokks sem hann er í og auðvitað vegna málaflokksins.

Ég óska einnig eftir því að hæstv. ráðherra komi hingað og ræði við okkur, ekkert endilega vegna þess að honum beri einhver sérstök skylda til þess heldur bara vegna þess að það væri mjög áhugavert fyrir okkur öll og ég held hann sjálfan.



[12:34]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna og athyglina sem þetta mál vekur. Það sýnir að þingmönnum finnst málið mikilvægt og að taka þessa umræðu. Hæstv. heilbrigðisráðherra sat töluvert undir umræðunni þegar málið var rætt á síðasta þingi. Ég vil upplýsa að málið hefur lítið breyst síðan þá og umræðan hefur ekkert breyst heldur þannig að hæstv. ráðherra hefur verið viðstaddur þetta. Hér hefur verið komið inn á yfirstandandi verkföll þannig að ég veit ekki hvort hann er að sinna þeim núna og tel brýnna að hann sé að því.

Varðandi dagskrá þingsins vil ég bara bera það upp hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að hún sé ákveðin af forseta þingsins í samstarfi við forsætisnefnd og þingflokksformenn. Það er fyrirkomulagið sem er sett þannig að ef þetta mál væri ekki á dagskrá núna væru önnur þingmannamál á dagskránni, jafn mikilvæg. Ég vil benda á að aðrir dagskrárliðir til að ræða mál sem eru uppi í þjóðfélaginu fara fyrr fram, eins og sérstök umræða og fyrirspurnir (Forseti hringir.) til ráðherra sem hafa verið hér fyrr á dagskrá.



[12:36]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þótt fram hafi komið hjá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi setið drjúga stund undir umræðunni í fyrra minnist ég þess ekki að hæstv. ráðherra hafi nokkru sinni gefið upp skoðun á því hvernig þetta frumvarp samrýmist hans eigin áfengis- og vímuvarnastefnu. Það er mikilvægt fyrir okkur að sá sem er æðstur framkvæmdarvaldsins á þessu sviði gefi okkur það álit sem hann hefur væntanlega og byggir á áliti sinna sérfræðinga. Það er gagn í málinu.

Ég á erfitt með að trúa því að hæstv. heilbrigðisráðherra, sem er kjarkmenni eins og hann hefur oft sýnt, skuli vera á flótta undan því að gefa upp afstöðu sína. Það er skylda hans að veita forustu í öllum þeim málum sem varða heilbrigðismál landsmönnum til heilla. Nú liggur fyrir opinber stefna frá honum um að takmarka eigi aðgengi að áfengi og við þurfum þess vegna að fá að vita afstöðu hæstv. ráðherra. Það er erfitt að halda þessari umræðu áfram nema vita (Forseti hringir.) hana til þess að hægt sé að taka málefnalega afstöðu til málsins sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason hefur flutt, (Forseti hringir.) hvort frumvarp þingmannsins samrýmist hinni opinberu stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.



[12:37]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek líka undir það sem hér var sagt og ég vil benda hv. málshefjanda á það að þrátt fyrir að heilbrigðisráðherra hafi setið hér þegar málið var flutt síðast eru hér inni þingmenn sem eiga kannski eftir að taka til máls, sem voru ekki þá, og hafa ekki haft tækifæri, óski þeir þess, til að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra og spyrja hann út í tengingu við lýðheilsustefnu eða hvaða aðrar þær spurningar sem þeir þingmenn mundu kjósa að spyrja ráðherrann.

Við hv. þingmaður höfum átt samtal um þessi mál og ég hef sagt að þetta snúist um hvort tveggja, lýðheilsumál og aðgengismál. Mér finnst mjög mikilvægt að ráðherra heilbrigðismála — við stöndum frammi fyrir því í dag að við ráðum ekki við afleiðingar áfengis og vímuefna — segi okkur og sýni fram á það (Forseti hringir.) hvernig hann telur að svona mál sé til framdráttar lýðheilsustefnu landsins.



[12:38]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði bara að taka fram að ég geri enga athugasemd við það að þetta mál sé á dagskrá, mér þykir þetta mál áhugavert. Það er ekki bara spurningin um það hvort áfengi eigi að vera í búðum eða ekki sem mér finnst áhugaverð og mikilvæg, mér finnst umræðan um þetta mál mikilvæg. Ég þekki ekki annað þingmál sem nýtur jafn góðs af þinglegri meðferð og umræðu.

Þess vegna mundi ég helst vilja hafa hæstv. ráðherra hér. Ég lýsi ekki neinni hneykslun yfir því að hann sé ekki hér, mér þykir bara leiðinlegt að hann taki ekki þátt í þessu með okkur vegna þess að það væri áhugavert. Þetta er áhugavert. (Gripið fram í.)

Það sem mér finnst í raun hneysklanlegra eða leiðinlegra öllu heldur er það að hér séu ekki fleiri þingmenn, og sér í lagi þingmenn stjórnarmeirihlutans, að ræða þetta áhugaverða mál. Mér finnst eins og málsmeðferðin, þegar kemur að þessu máli, sé brengluð og gölluð að því leyti hvernig Alþingi virkar almennt.

Ég held að við getum bætt málið heilmikið ef við sýnum þinginu þá virðingu að taka eins mikinn þátt í umræðunni og mögulegt er.



[12:40]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason kom upp áðan og sagði að það hefði kannski ekki mikið breyst í þessu máli, þetta væri sama málið og hefði verið rætt hér á síðasta þingi. Það sem hefur breyst er að hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur lagt málinu mikla vigt í stefnuræðu sinni. Það hefur vakið undrun líka að fyrst þetta er svona mikið forgangsmál af hverju það er ekki flutt af ríkisstjórninni, af hverju þetta er þingmannamál. Svo skarast þetta á við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um áherslur í áfengis- og vímuvarnamálum. Mér finnst ofur eðlilegt að fá hæstv. heilbrigðisráðherra hingað til að fá fram skoðanir hans í þessu máli og hvort það plagg, sem vísað var til áðan, sem hann lagði fram um áherslur í vímuvarnastefnu (Forseti hringir.) standist eða ekki eða hvort búið sé að draga það til baka.