145. löggjafarþing — 22. fundur
 19. október 2015.
afsláttur af stöðugleikaskatti.

[15:07]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er hefur undanfarnar vikur staðið glíma ríkisstjórnarinnar við að komast að niðurstöðu um það hvernig eigi að ákveða hvort veittur verði afsláttur af stöðugleikaskatti með móttöku stöðugleikaframlaga frá slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja eða hvort skatturinn skuli leggjast á um áramót, eins og gert er ráð fyrir samkvæmt lögum þeim sem samþykkt voru hér í sumar.

Það hefur gætt mjög misvísandi upplýsinga að þessu leyti. Í frétt frá Bloomberg-fréttaveitunni í morgun er sagt að til standi að hafna tilboðum um stöðugleikaframlög frá slitabúunum, sem er athyglisvert vegna þess að af hálfu stjórnvalda var lýst sérstakri ánægju með þau tilboð þegar þau komu fram í vor og ekkert hefur verið upplýst opinberlega um forsendur þessara mikilvægu ákvarðana. Við höfum ítrekað óskað hér eftir fundum um þau mál á vettvangi formanna flokkanna eða í samráðsnefnd um afnám hafta. Ég met það við hæstv. fjármálaráðherra að hann hefur gert viðvart um það að við eigum að vera viðbúin fundi í samráðsnefnd um afnám hafta í dag eða á morgun, en ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort það sé ekki algerlega ljóst að allar upplýsingar um forsendur ákvörðunar um að taka við stöðugleikaframlögum frekar en að láta skattinn leggjast á verði gerðar opinberar áður en slík ákvörðun verði tekin.

Ótti okkar er auðvitað sá að í bakherbergjum forustumanna stjórnarflokkanna verði þessum málum ráðið til lykta á óljósum forsendum og kröfuhöfum veittur afsláttur upp á hundruð milljarða án þess að efnislegar forsendur slíkrar ákvörðunar verði þjóðinni ljósar. Ég hlýt þess vegna að spyrja hæstv. ráðherra: Megum við ekki treysta því að allar þessar forsendur verði gerðar opinberar áður en ákvörðun verður tekin af hálfu ríkisstjórnarinnar?



[15:09]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Jú, það er skrifað í lögin að ferlið við undanþágubeiðni sé þetta: Slíku erindi er beint til Seðlabankans. Seðlabankinn fer yfir slíka beiðni. Ef fallist er á hana er hún send til fjármála- og efnahagsráðherra sem ber að leggja sjálfstætt mat á undanþágubeiðnina, að fenginni þessari niðurstöðu Seðlabankans, og kynna efni málsins fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í þinginu. Við erum í sjálfu sér með ferli byggt inn í lögin þar sem Seðlabankinn kemur að málinu, fjármála- og efnahagsráðuneytið kemur að því og kynning fer fram fyrir efnahags- og viðskiptanefnd. Það er því alveg ljóst að við munum, ef til þess kemur, ræða málið hér í þinginu.

Ég vil annars segja um það orðaval hv. þingmanns „að gefa afslátt af stöðugleikaskattinum“ að mér finnst það ekki vera rétt nálgun. Vissulega geta þeir sem eiga að greiða skattinn fengið afslátt af 39% skattinum með því að gera ákveðnar ráðstafanir og lækka þannig skattinn. Hin leiðin til að eyða greiðslujafnaðarvandanum er að fara leið stöðugleikaframlags og það eru stöðugleikaskilyrði sem birtast annars vegar í beinum framlögum, í öðru lagi í lengingum á lánum sem eru til staðar í dag og í þriðja lagi með endurgreiðslum á erlendum lánum sem Seðlabankinn veitti á sínum tíma.

Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er í raun og veru ekki sú hvernig þetta kemur út miðað við krónutölu skattsins, heldur hvort við séum að leysa hinn undirliggjandi vanda sem er greiðslujafnaðarvandinn. Það þarf að fara rækilega yfir það. Í því liggur verkefnið og hefur gert allan tímann. Það var til þess að leysa greiðslujafnaðarvandann sem við lögðum fram frumvarpið í sumar (Forseti hringir.) og það var til þess að leysa greiðslujafnaðarvandann sem við höfum verið að vinna í þessu máli núna allt kjörtímabilið og við ætlum ekki að gefa neinn afslátt af því.



[15:11]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað þessi upptalning hæstv. ráðherra sem vekur okkur ugg, m.a. að hægt sé að komast undan greiðslu skatts upp á 39% með því að lengja í einhverri hengingaról. Færðar hafa verið fram ítarlegar athugasemdir, t.d. af hálfu Indefence, um að það eigi eftir að greina til fulls greiðslujafnaðaráhrifin á þjóðarbúið, eða langt fram í tímann. Það er auðvitað varhugavert ef sleppa á erlendum kröfuhöfum við greiðslu skatts, sem menn telja að geti staðist fullkomlega í dag, út á það að minni framlög þeirra séu mögulega nægjanleg en felist fyrst og fremst í lengingum í hengingaról frekar en í alvörulausn vandans.

Ég hlýt þess vegna að spyrja hæstv. fjármálaráðherra aftur: Ef það er bjargföst skoðun hans að stöðugleikaframlögin séu jafngild stöðugleikaskattinum og skili sama árangri, af hverju eigum við að vera að taka við stöðugleikaframlögunum upp á helming (Forseti hringir.) fjárhæðarinnar miðað við það sem skatturinn gefur? Er þá ekki miklu tryggara og réttara að láta skattinn falla á búin?



[15:12]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vona að við komumst yfir þessa nálgun á málinu í þinglegri meðferð. Ég vonast til þess að við getum á þessum dögum og vikum fram undan, þar sem menn leggja mat á það sem er að gerast hér, komist yfir þann augljósa freistnivanda sem mér finnst hv. þingmaður eiga erfitt með að komast yfir, sem er að segja: Skoðum stærstu krónutöluna, hún hlýtur að vera best fyrir okkur Íslendinga og okkar hagsmuni. — Þetta er ekki þannig mál. Málið var rætt hér á eðlilegum forsendum í sumar og staðreyndin er sú að við gripum inn í atburðarás sem við gátum ekki þolað lengur og sögðum: Við munum leggja skatt nema menn uppfylli tiltekin stöðugleikaskilyrði, þá munum við láta skattinn leysa úr vandanum. Stöðugleikaskilyrðin elta hins vegar vandamálið. Þetta var nokkuð skýrt í sumar og er enn þá alveg ljóst. Við erum að leysa greiðslujafnaðarvandann. Menn skulu ekki láta sér detta það í hug að menn séu komnir á þann stað (Forseti hringir.) sem við erum í í dag án þess að hafa metið áhrif þessara mála á greiðslujöfnuð til framtíðar. (Forseti hringir.) Hvernig dettur mönnum í hug að láta slíkt út úr sér?