145. löggjafarþing — 22. fundur
 19. október 2015.
verkföll og launakröfur ríkisstarfsmanna.

[15:14]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Nú eru enn einar kjaraviðræður ríkisins við starfsmenn sína komnar í hnút á Íslandi. Við erum að tala um fjórða verkfallið á einu ári. Öll þessi verkföll hafa haft víðtæk áhrif í samfélaginu öllu.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ber ábyrgð á þessum viðræðum fyrir hönd ríkisins. Ég spyr einfaldlega: Hvernig stendur á þessu? Hvers vegna gerist þetta aftur og aftur? Nú hafa félögin SFR – stéttarfélag, Sjúkraliðafélag Íslands og Landssamband lögreglumanna verið samningslaus í á sjötta mánuð. Krafa þeirra er sanngjörn og einföld og skýr. Þau vilja fá sambærilegar kjarabætur og aðrir hærra launaðir starfsmenn ríkisins hafa fengið. Það hlýtur að vera sanngjarnt. Hvað telur hæstv. ráðherra ósanngjarnt við þessar kröfur? Er ósanngjarnt að fara fram á sambærilegar kjarabætur og gerðardómur dæmdi BHM og hjúkrunarfræðingum á grundvelli laga sem sett voru hér að tillögu hæstv. fjármálaráðherra sjálfs þegar þau félög voru í verkfalli?

Hæstv. ráðherra til upprifjunar má líka lesa hér upp úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna þar sem segir með, leyfi forseta:

„Unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar. Það er forsenda þess að Íslendingar geti hafið nýtt skeið vaxtar og stöðugleika að íslenskt efnahagslíf njóti að nýju trausts á innlendum sem erlendum vettvangi.“

Hvað með þá staðreynd, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra og samstarfsflokknum hefur mistekist sú tilraun að ná víðtækri sátt aðila á vinnumarkaði og að þróun vinnumarkaðar hefur ekki verið endurskoðuð heldur erum við hér að horfa upp á fjórða verkfallið á einu ári?



[15:16]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil nú reyndar meina að við höfum aldrei verið jafn nærri því og við erum í dag að gera breytingar á íslenska vinnumarkaðslíkaninu. Um það snúast viðræður við opinberu félögin sem standa yfir og nú þegar við eigum þetta samtal er fundur í gangi. Samtalið er því lifandi og ég vonast að sjálfsögðu til þess að það beri ávöxt.

Ég er orðinn talsvert leiður á því að menn komi hingað upp og stilli málinu upp með þeim einfalda hætti sem hv. þingmaður gerði. Eru þetta ekki sanngjarnar kröfur? Á ekki bara að fallast á þær? Þetta var sagt þegar læknarnir voru í verkfalli og þegar við ræddum hér læknaverkfallið. Þetta var sagt í kennaradeilunni. Þetta var sagt í tilfelli hjúkrunarfræðinga. Í öllum vinnudeilum koma menn hingað upp og segja: Af hverju fellst ríkið ekki á kröfurnar? Voðalega eru menn ósanngjarnir.

Á sama tíma sjáum við að útreikningar sem kynntir eru til sögunnar í þessum viðræðum og Samtök atvinnulífsins hafa bent á — Seðlabankinn hefur hækkað vexti út af þeirri þróun sem hefur orðið á vinnumarkaði — sýna allir að ef það á að rúlla yfir allan vinnumarkaðinn mestu hækkunum sem hafa fengist í einstökum kjaraviðræðum þá erum við að sigla inn í skeið verðbólgu og hærri vaxta. Varla getur það verið eftirsóknarvert.

Við Íslendingar þurfum að lúta sömu lögmálum og aðrir þegar kemur að því að við getum ekki tekið út meiri launahækkanir yfir tíma en framleiðni vex í landinu. Þetta er svona einfalt, nema við viljum fá aukna verðbólgu og þar af leiðandi hærri vexti. Ég ætla að segja það fyrir mitt leyti að við þurfum að finna þetta jafnvægi í samtalinu sem á sér stað núna. Við þurfum að greiða úr þeirri stöðu sem upp er komin, þ.e. að við höfum nú þegar tekið út talsvert (Forseti hringir.) umfram framleiðniaukninguna, og finna nýtt jafnvægi. Fyrir mína parta skiptir einna mestu máli (Forseti hringir.) að við ljúkum þessari lotu með því að koma út úr henni (Forseti hringir.) með nýtt vinnumarkaðslíkan.



[15:18]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að spyrja í kjölfarið á svari hæstv. ráðherra hvort ráðherra telji eðlilegt að halda þeim stéttum niðri sem nú eiga í kjaradeilum og láta þær bera ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika. Hvað er ósanngjarnt við það að vilja fá sambærilegar hækkanir og aðrar stéttir sem hafa fengið hækkanir, jafnvel samkvæmt gerðardómi? Við erum að tala um að þau félög sem eru núna í verkfalli vilji einfaldlega fá kjarabætur sem þessi lög leiddu til og hæstv. ráðherra ber ábyrgð á.

Hvers vegna enda allar kjaraviðræður sem hæstv. ráðherra ber ábyrgð á í illdeilum? Hann lýsti því nýlega yfir að hann vildi koma í veg fyrir að kjaraviðræður lentu sífellt í illdeilum og verkföllum. Hvernig ætlar hann að vinna að því? Hvað ætlar hann að gera í því? Hann er augljóslega kominn út í horn því að þetta er orðið mynstur. Þegar hann kemur nálægt kjaradeilum enda þær í illdeilum. Liggur ábyrgðin ekki fyrst og fremst hjá honum sjálfum og í því að hann samdi sjálfur við lækna um kjör sem hann (Forseti hringir.) hefur síðan ekki viljað veita kvennastéttum?



[15:19]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þetta er saga deilna á vinnumarkaði, sem var þjappað hér saman í stutta spurningu til mín. Hvers vegna fá ekki bara allir eins mikla hækkun og sá sem mest fékk? Við Íslendingar eigum áratugalanga sögu þessa samtals. Menn koma sundraðir að borðinu, menn knýja fram hækkun með verkföllum, með því að taka skurðstofur á Landspítalanum í gíslingu, með því að lama samgöngur til og frá landinu, með því að lama starfsemi mikilvægra stofnana, sama hvar það er, best að forðast að nefna einstök dæmi. Þið þekkið þessi dæmi, það þarf ekki einu sinni að leita dæmanna í þeim deilum sem núna standa yfir því að við eigum áratugalanga sögu. Ég er einn af þeim sem útskrifuðust ekki eftir próf úr Menntaskólanum í Reykjavík vegna þess að verkfall hafði staðið svo lengi árið 1989 að það þurfti í fyrsta skipti í sögu skólans að fella niður próf og gefa kennaraeinkunnir. Það sama gerðist líka þegar ég var í grunnskóla, þá voru verkföll á verkföll ofan. (Forseti hringir.) Þetta er saga íslenska vinnumarkaðarins og við þurfum að komast út úr henni. Við gerum það ekki með því að spyrja: Eru þetta ekki sanngjarnar kröfur? (Forseti hringir.) Við hljótum að fallast á þær! — vegna þess að þá kemur næsti hópur og svo næsti og svo næsti, höfrungahlaupið heldur áfram.

Hvað ætla ég að gera? er spurt. Ég er með samtal í gangi, (Forseti hringir.) það er verið að funda núna. Við ætlum að leysa þetta mál.