145. löggjafarþing — 22. fundur
 19. október 2015.
loftslagsráðstefnan í París.

[15:21]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Á dögunum birtist í bandaríska stórblaðinu Washington Post frétt þess efnis að hitastig sjávar suður af Íslandi og Grænlandi væri í sögulegu lágmarki. Þeirri frétt fylgdi mynd af hnettinum sem sýndi hvar þetta svæði væri nákvæmlega og hvernig hitastig væri að mælast í höfunum í heiminum öllum. Þetta rímar við kenningar sem settar voru fram í heimildarmynd og fyrirlestri fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, Als Gores, An Inconvenient Truth, fyrir nokkrum árum um áhrif bráðnunar Grænlandsjökuls á Golfstrauminn og þar af leiðandi höfin í kringum Ísland.

Um þetta var fjallað eins og ég sagði í Washington Post og á bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN en þetta vekur auðvitað spurningar og er áminning fyrir Íslendinga um þær alvarlegar afleiðingar sem hnattræn hlýnun gæti haft fyrir Íslendinga. Það eru fá tækifæri í þeirri mynd fyrir Íslendinga og því er spurt hér: Hver eru skilaboð íslenskra stjórnvalda á loftslagsráðstefnunni í París? Á dögunum sagði hæstv. forsætisráðherra frá því að Ísland ætlaði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40%, eins og er markmið Evrópusambandsins en óljóst er hvort Ísland ætlar að gera það sjálfstætt, eitt fyrir sig, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% eða hvort Ísland ætlar að gera það í samfloti með Evrópusambandinu sem er nú býsna skuldbindingarminni aðgerð fyrir hönd Íslands.

Hver eru skilaboð hæstv. umhverfisráðherra í París í vetur?



[15:23]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að tala um þetta mál. Sex ráðuneyti undirbúa nú loftslagsráðstefnuna í París. Ég lít svo á að það sé áskorun til okkar allra að gera eitthvað nýtt. Við getum litið þannig á að nú séum við að fara í nýtt upphaf, að við stöndum á tímamótum þar sem við þurfum öll að taka okkur saman og jafnvel að breyta hugsunarhætti og umgengni okkar almennt.

Arctic Circle ráðstefnan um helgina endaði nú svo ágætlega. Ég held að það hafi verið Færeyingur sem sagði þar: Steinöldinni lauk ekki af því að steinarnir kláruðust heldur af því að ný tækni tók við. Það er það sama og við leggjum höfuðáherslu á, við þurfum að taka loftslagsmálin sem áskorun og ég er sammála því að heimurinn finni nýjar leiðir. Við höfum sett það fram að við ætlum að minnka jarðefnaeldsneytisnotkun og þá þurfum við að kalla eftir öðrum orkugjöfum. Við erum fyrirmynd í þeim efnum, finnst allflestum þeim útlendingum sem ég hef rætt við undanfarna daga. Þeir líta til okkar sem fyrirmyndar, enda viljum við vera í fararbroddi í umhverfismálum. Það ætlum við okkur að gera vel og við erum að vinna að sóknaráætlun, Íslendingar, sem við munum leggja fram á Parísarfundinum í byrjun desember.



[15:25]
Róbert Marshall (Bf):

Herra forseti. Þar er spurt eins og gert er hér: Hvert er markmið Íslands í þeim efnum? Ætlar það að vera í samfloti með Evrópusambandinu eða ætlar það að draga úr losun sjálfstætt um 40%? Að því er spurt hér.

Það er síðan sjálfstætt efni í sjálfstæða fyrirspurn sem mig langar til að beina til hæstv. umhverfisráðherra: Er þetta mynd sem hefur verið rædd á vettvangi ríkisstjórnarinnar? Hafa menn, eins og ég mundi gera ef ég væri í ríkisstjórn, spurt vísindamenn okkar um þýðingu þessarar myndar, hvaða áhyggjuefni eru hér á ferðinni, hvaða tímaramma erum við að tala um?

Ég mundi gjarnan vilja heyra það frá hæstv. ríkisstjórn að svona hlutir væru teknir alvarlega. Ég er reyndar dálítið undrandi á því hversu lítil umræða hefur verið um þau válegu tíðindi sem í þessu gætu falist hér innan lands en kannski er þetta svo óþægilegur samningur að við viljum helst ekki ræða hann. En við þurfum að gera það.



[15:26]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að ríkisstjórn Íslands geri sér fullkomlega grein fyrir því að hafið er okkar dýrmæti og að því þurfum við að huga og reyna að gæta þess og minnka mengun.

Varðandi Evrópusambandið þá tilkynnti Ísland markmið sín 30. júní sl., ríkisstjórnin samþykkti þann dag að við stefndum að sameiginlegu markmiði um 40% losun fyrir 2030 miðað við 1990 í samvinnu við Noreg og ríki ESB. Það er það sem ríkisstjórnin er búin að samþykkja. Jafnhliða erum við, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að undirbúa sérstaka sóknaráætlun þar sem við Íslendingar leggjum fram markmið okkar.

Það er hægt að skipta þeim verkefnum í þrjú svið. Það eru í fyrsta lagi aðgerðir til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Annað er verkefni sem við vinnum á alþjóðavísu og hið þriðja er efling stjórnsýslu og vöktunar í loftslagsmálum. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt að við reynum að efla þá innviði til að við getum borið saman (Forseti hringir.) hvernig þróunin verður. Eitt er mjög ánægjulegt og það er að tekist hefur góð samvinna við atvinnugreinarnar í landinu um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.