145. löggjafarþing — 22. fundur
 19. október 2015.
Tónlistarsafn Íslands.
fsp. KJak, 202. mál. — Þskj. 208.

[17:10]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil vekja athygli á merkilegu safni í Kópavogi sem ber nafnið Tónlistarsafn Íslands. Það hefur verið rekið af bæjarfélaginu Kópavogi, með styrk frá ríkinu, í allmörg ár og byggir á sama líkani og ýmis önnur söfn. Ég get nefnt Hönnunarsafnið í Garðabæ, sem er rekið með sama hætti, þar sem gerðir hafa verið samningar um stuðning ríkisins við það að efla söfn sem hafi eigi að síður miðlægu hlutverki að gegna þegar kemur að menningararfinum.

Safnaumhverfið sem við búum við er einhvern veginn þannig að ríkið rekur hér svokölluð höfuðsöfn, þó með mjög mismunandi hætti — Þjóðminjasafnið, Listasafnið og blessað Náttúruminjasafnið, sem alltaf er hornkerling í þessu samhengi — en síðan kemur ríkið að rekstri safna í gegnum safnasjóð og svo með sérstökum samningum.

Ástæða þess að ég spyr sérstaklega um þetta er í fyrsta lagi sú að verksvið Tónlistarsafns Íslands skarast við ýmsar aðrar stofnanir. Ég get nefnt sem dæmi Árnastofnun sem heldur utan um allmikið safn af menningararfi á sviði tónlistar, ég er þá að vitna í handrit, og hefur líka verið í miklu samstarfi við Tónlistarsafn Íslands.

Ég vil líka nefna safn Ríkisútvarpsins en hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir, ef mig brestur ekki minni, að það þurfi að efla sérstaklega, þ.e. safnadeild Ríkisútvarpsins og þann menningararf sem við geymum þar á ýmsum sviðum og þar á meðal á sviði tónlistar.

Í ljósi þess að við ræðum hér samlegð og samstarf ólíkra stofnana langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í framtíðarsýn hans hvað varðar Tónlistarsafnið, en kannski þarf sú framtíðarsýn að vera byggð á aðeins breiðari grunni. Í raun og veru er það það sem vekur kannski umræður hér á Alþingi að við erum með söfn sem gegna mjög miðlægu hlutverki fyrir menningararfinn en eru rekin með þessum tiltekna hætti. Mér finnst áhugavert að vita hvort hæstv. ráðherra telji að þetta fyrirkomulag hafi gengið vel upp, þ.e. að einstök sveitarfélög reki söfn sem hafi miðlægt hlutverk með styrk frá ríkinu. Í ljósi þess að þetta er ekki mjög gamalt fyrirkomulag — ákveðið líkan fór af stað á árunum fyrir hrun, að hafa framkvæmdina með þessum hætti, og byggði þá á áhuga sveitarfélaganna á því að koma að rekstri safna — spyr ég hvort ráðherra telji að þetta gangi vel og hvort við eigum að halda áfram á þessu spori.

Mér finnst áhugavert að heyra sýn hæstv. ráðherra á það í ljósi þess að það er mjög mikilvægt að tryggja þennan menningararf eins og annan. Ég tek raunar Tónlistarsafnið hér sem dæmi af því að ég hef sérstakan áhuga á því viðfangsefni. Það þarf auðvitað að vinna mjög mikið með öðrum söfnum á sama sviði. Ég hef (Forseti hringir.) nefnt hér tvö og það kann vel að vera að hæstv. ráðherra geti nefnt fleiri.

Mig langaði að vekja máls á þessu, (Forseti hringir.) bæði hinu almenna fyrirkomulagi þegar um er að ræða menningararf sem er mjög miðlægur og á í raun við um allt landið.



[17:13]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt að rifja það upp að Tónlistarsafn Íslands var stofnað af Kópavogsbæ með stofnskrá samþykktri í bæjarráði Kópavogs þann 5. október 2006 og með samningi sem undirritaður var 23. janúar 2009 af þáverandi menntamálaráðherra og staðfestur af fjármálaráðherra. Þá var ákveðið að menntamálaráðuneytið mundi styrkja rekstur þess með árlegu framlagi. Aðalatriðið er að Tónlistarsafnið er í eigu Kópavogsbæjar og rekið af bæjarfélaginu með stuðningi ráðuneytisins.

Safninu er ætlað að sinna víðtækum verkefnum á sínu sviði, m.a. að skrá og miðla hvers kyns upplýsingum og munum sem tengjast tónlist á Íslandi frá upphafi, svo sem hljóðfærum, hljómtækjum o.s.frv. Því er ætlað að hafa frumkvæði og stunda rannsóknir á sögu íslenskrar tónlistar og tónminja í samstarfi við fræðimenn á þessu sviði og skapa þeim jafnframt aðstöðu til vinnu sinnar eftir því sem kostur er. Það skal leitast við að vera leiðandi og ráðgefandi í vörslu hljóðritunar á íslensku efni, bæði útgefnu sem og hljóðritana í eigu stofnana og einstaklinga o.s.frv. Af þessu má ljóst vera að hér er um nokkuð víðfeðmt starfssvið að ræða sem fellur undir þetta safn.

Það er mitt mat að á undanförnum árum hafi Tónlistarsafninu tekist prýðilega að vinna að þessum verkefnum. Það er að sjálfsögðu von allra sem hafa áhuga á þeim málum, og ég deili þeim áhuga með hv. þingmanni, að svo verði áfram. Safnið hefur viðurkenningu á grundvelli safnalaga og á þeim grundvelli á það rétt á að sækja um styrki úr safnasjóði til ýmissa verkefna, en safnið hefur hlotið styrki samtals að upphæð rúmlega 4,5 millj. kr. til ýmissa verkefna á undanförnum árum.

Þrátt fyrir, og þetta er mikilvægt, virðulegur forseti, að sinna verðugum verkefnum gegnir safnið ekki lögbundnu hlutverki á þessu sviði. Það er til dæmis hlutverk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns að varðveita hljóðrit á ýmsu formi samkvæmt ákvæðum 6.–9. gr. laga um skylduskil til safna, nr. 20/2002. Það er hlutverk Þjóðminjasafns Íslands að stuðla að því að varðveita menningarminjar samkvæmt ákvæðum laga um safnið, nr. 140/2011. Tónlistarsafnið hefur þó vissulega átt gott samstarf við þessi og fleiri söfn um varðveislu efnis og muna sem tengjast tónlistarsögu Íslendinga. Vænta má að svo verði áfram. Vek ég einnig athygli á ummælum hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur um samstarf þessa safns við Árnastofnun.

Það er von stjórnvalda og mín persónulega að Tónlistarsafn Íslands megi halda áfram að vinna ötullega að þeim verkefnum sem það hefur verið að sinna sem leiðandi safn á þessu sviði. Það er vonandi að stjórnvöld nái að styðja það starf áfram á verðugan hátt. Það er hins vegar tæpast viðeigandi að ég sem ráðherra lýsi með einhverjum hætti framtíðarsýn fyrir starfsemi safnsins, sem er ekki í eigu ríkisins, og er rétt að láta Kópavogsbæ, eiganda safnsins, eftir að móta stefnu fyrir starfsemi þess til framtíðar.

Ég vil þó segja að gefnu tilefni og vegna fyrirspurnar hv. þingmanns að það er sjálfsagt og allt að því sjálfgefið að leggja mat á og skoða árangurinn af þeirri stefnu og þeirri stefnumótun sem hefur verið hér að undanförnu varðandi einmitt samskipti safna við söfn sem eru í eigu sveitarfélaganna, hlutverk þeirra og hvernig þeim hefur gengið að uppfylla verkefni sín.

Þá kem ég að seinni spurningu hv. þingmanns sem er þessi, virðulegi forseti: Sér ráðherra fyrir sér aukið samstarf safna á þessu sviði? Svar mitt er að Tónlistarsafn Íslands hefur átt í góðu samstarfi við ýmis önnur söfn um varðveislu minja og efnis sem tengist tónlistarsögu Íslendinga, eins og áður var getið. Þar ber hæst samstarf safnsins við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Þjóðminjasafnið og safnadeild Ríkisútvarpsins, svo dæmi séu tekin.

Samstarf safna hefur aukist mikið á síðustu árum eins og sést til dæmis á menningarminjagrunninum sarpur.is sem er öllum aðgengilegur á vefnum. Þá er ljóst að með tilkomu verkefnastyrkja úr safnasjóði og þeim möguleika sem þar hefur verið opnaður með heimild til að styrkja sameiginleg verkefni safna megi vænta þess að samstarf safna eigi aðeins eftir að aukast þar sem þeim gefst kostur á að vinna saman að einstökum verkefnum á sviði tónlistararfsins.

Með vísan til sjálfstæðis safna er það eðli málsins samkvæmt í höndum forstöðumanna safnanna að hafa forgöngu um aukið samstarf á þessum sviðum. En það er ljóst að öll þróun í safnamálum hér á landi bendir í þá átt og má vænta þess að Tónlistarsafn Íslands verði virkur þátttakandi í slíku samstarfi hér eftir sem hingað til.



[17:18]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér heyrist að það þyrfti að samræma svolítið þá aðila sem eru í forsvari fyrir því að halda utan um þann menningararf þjóðarinnar sem tónlistin er. Tónlistarsafn Íslands er vissulega í eigu Kópavogsbæjar en hefur verið með styrki frá ríkinu og gegnt veigamiklu hlutverki. En eins og hæstv. ráðherra bendir á þá eru aðrir aðilar, eins og Landsbókasafnið, Þjóðminjasafnið og tónlistarsafn RÚV, sem hafa hlutverki að gegna.

Vítt og breitt um landið hefur verið komið á fót mjög menningarlegum tónlistarsöfnum og arfurinn hefur verið varðveittur, hvort sem er á Siglufirði, í Reykjanesbæ; eða á Bíldudal þar sem ég þekki vel til, Jón Kr. Ólafsson hefur verið þar til fyrirmyndar. Mér finnst að það þurfi að hlúa að þessum arfi og passa að ekkert glatist. (Forseti hringir.) En það er ekki sjálfgefið að áfram sé haldið utan um þessi söfn ef eitthvað breytist hjá þeim sem hafa haldið utan um þau hingað til.



[17:19]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmanni svar og athugasemdir. Það vakna spurningar hjá mér og ég hef ekki svör við þeim sjálf. Við erum með ákveðið verkefni sem liggur mjög víða. Við erum með það hjá safni sem, eins og hæstv. ráðherra bendir á, er í eigu Kópavogsbæjar en hefur samt þessu miðlæga hlutverki að gegna og ber beinlínis nafnið Tónlistarsafn Íslands. Við erum með Landsbókasafn, Árnastofnun, Þjóðminjasafn og við erum með safn Ríkisútvarpsins, sem hæstv. ráðherra hefur væntanlega lagt til að fái 20 millj. kr. framlag í fjárlagafrumvarpinu fyrir þetta ár, þar sem sérstaklega er hugað að safnkostinum þar.

Ástæða þess að ég vek máls á þessu hér er sú að þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægur menningararfur, menningararfur sem við Íslendingar höfum varla fyrr en á síðustu árum áttað okkur á, menningararfur sem við getum heyrt ýmislegt um í ágætum sjónvarpsþáttum á ríkissjónvarpinu en líka í góðum útvarpsþáttum á Rás 1.

Það væri áhugavert fyrir ráðuneyti menntamála að skoða hvort við séum að ná markmiðunum í því að varðveita þennan menningararf og miðla honum á sem bestan hátt þegar verkefnið liggur svona víða.

Nú er ég ekki að biðja hæstv. ráðherra að ganga inn á verksvið sveitarfélagsins Kópavogs sem hafði mikinn áhuga á þessu verkefni á sínum tíma. Það er mikilvægt að sprotarnir fái að blómstra úti um allt land í þessum efnum. Það eina sem ég velti hér upp, í mínu síðara innleggi, er hvernig við getum tryggt að þessi ábyrgð sé skýr. Það er heimild fyrir því í safnalögum að tilnefna tiltekin ábyrgðarsöfn á einstökum þáttum. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur skoðað það að sú heimild verði nýtt.

Ég held (Forseti hringir.) að þetta sé mjög mikilvæg umræða fyrir okkur þingmenn sem þurfum að kunna skil á umhverfi safnamála, þ.e. hvort við teljum okkur vera að ná markmiðinu með fullnægjandi hætti í núverandi fyrirkomulagi.



[17:22]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mína til málshefjanda og annarra hv. þingmanna og vil fyrst segja þetta: Þegar kemur að lögbundnum verkefnum á þessu sviði er það, eins og ég ræddi í fyrra svari mínu, skýrt hlutverk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns að varðveita hljóðrit á ýmsu formi samkvæmt ákvæðum 6.–9. gr. laga um skylduskil til safna, þannig að sá þáttur málsins er alveg skýr. Aftur á móti er verksvið þess safns sem við ræðum hér, safnsins í Kópavogi, mun víðtækara í þeirri merkingu að þar er verið að fjalla um hvernig þessi menningararfur er kynntur o.s.frv., miklu umfangsmeiri starfsemi hvað þetta varðar, en sjálf söfnunin á hljóðritunum er skyldubundið verkefni þess safns sem ég hef nefnt áður.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður og málshefjandi nefndi í ræðu sinni, við Íslendingar höfum gert okkur tiltölulega seint grein fyrir þeim mikla menningararfi sem við eigum fólginn í tónlistinni. Rannsóknir fræðimanna hafa sýnt að til dæmis eru heilmiklar heimildir til frá miðöldum um tónlistariðkun Íslendinga, sem sennilega hefur verið meiri en okkur renndi í grun áður en þær rannsóknir birtust. Þess vegna er alveg hárrétt að mjög mikilvægt er að ná vel utan um þetta og það er sjálfsagt mál í framhaldi af þessari umræðu að skoða það.

Ég vil þó ítreka að það er auðvitað heilmikill kraftur fólginn í því að sveitarfélögin komi að þessum rekstri og fleiri safna, eins og t.d. hefur verið nefnt varðandi Siglufjörð og Keflavík eða í Reykjanesbæ. Þar er verið að virkja frumkvæði og áhuga heimafólksins á tilteknum þáttum menningararfsins þegar kemur að tónlistinni, hvort sem um er að ræða þjóðlagasöfnun, eins og menn þekkja norðan af Siglufirði sökum veru Bjarna Þorsteinssonar þar, eða (Forseti hringir.) einhverra annarra tónlistarstefna sem menn vilja halda á lofti. Ég held að mikilvægt sé að virkja það frumkvæði, virðulegi forseti.