145. löggjafarþing — 25. fundur
 22. október 2015.
dagskrá næsta fundar.

[10:33]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Eins og tilkynnt var á þingfundi í gær hefur forseta Alþingis borist dagskrártillaga, svohljóðandi:

„Við undirrituð gerum tillögu um, með vísan í 1. mgr. 77. gr. þingskapalaga, að fyrstu mál á dagskrá næsta fundar verði eftirfarandi liðir:

1. Óundirbúnar fyrirspurnir.

2. Sérstök umræða, kl. 12.00, um verðtrygginguna og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Málshefjandi verði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og til svara verði forsætisráðherra.

3. Alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl. (aukin skilvirkni, skipulag, Þróunarsamvinnustofnun Íslands), stjfrv. (utanrrh.), 91. mál, þskj. 91, nál. 285 og 299. — Frh. 2. umr.

4. Gjaldtaka á ferðamannastöðum, sérstök umræða kl. 13.30. Málshefjandi Ögmundur Jónasson, til svara iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

5. Greining á sameiginlegum ávinningi að vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði, þáltill. (ÍVN), 75. mál, þskj. 75. — Fyrri umr.

6. Langtímastefna fyrir samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum, þáltill. (ÍVN), 76. mál, þskj. 76. — Fyrri umr.

7. Samstarf við Grænland og Færeyjar um sjávarútvegsmál, þáltill. (ÍVN), 77. mál, þskj. 77. — Fyrri umr.“

Undir þetta skrifa hv. þingmenn Helgi Hjörvar, Svandís Svavarsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson og Páll Valur Björnsson.



[10:34]
Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Forsætisráðherra neitar að taka sérstaka umræðu um afnám verðtryggingar og vísar ábyrgð á því á fjármálaráðherra. En það var ekki Bjarni Benediktsson sem lofaði afnámi verðtryggingar, það var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og þess vegna á hann að svara fyrir það hér í þinginu.

Hafi Framsóknarflokkurinn falið Bjarna Benediktssyni, sem er yfirlýstur andstæðingur banns við verðtryggingu, ábyrgð á málinu er það ákvörðun flokksins um að efna ekki kosningaloforðið og enn ríkari ástæða til að formaður Framsóknarflokksins svari fyrir það.

Undanbrögð forsætisráðherra hafa verið þau að málið sé á borðum annarra ráðherra. Þó hefur forsætisráðherra tekið hér sérstakar umræður um Evrópusambandið og um málefni innflytjenda sem augljóslega eru á borðum annarra ráðherra.

Það er þess vegna útúrsnúningur og flótti að neita að ræða stærsta kosningaloforð eigin flokks í kosningunum og stefnumál eigin ríkisstjórnar (Forseti hringir.) þegar eftir því er leitað í þinginu og því er tillaga þessi flutt.



[10:36]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er náttúrlega vandræðalegt að Alþingi skuli þurfa að beita dagskrártillögu til að kalla fram eðlileg samskipti við hæstv. forsætisráðherra sem hann ætti að hafa sýnt manndóm sinn í að verða við, þ.e. ósk um eðlilega umræðu um eitt stærsta kosningaloforð fyrir síðustu kosningar, ef ekki stærsta kosningaloforð allra tíma.

Það er eftirtektarverður vesaldómur, virðulegur forseti, að beina síðan spjótunum að samstarfsflokknum þegar um þetta er að ræða. Ég verð að segja að mér finnst áhugaverð staðan sem komin er upp í íslenskum stjórnmálum, að hæstv. forsætisráðherra er byrjaður að segja af sér núna í fyrsta málaflokknum sem snýr að verðtryggingunni og afnámi hennar. Hæstv. forsætisráðherra getur ekki talað um þetta mál og ég spyr: Hvaða mál er næst?



[10:37]
Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra fer fyrir ríkisstjórninni, fer fyrir flokki sem lagði á það mikla áherslu að verðtryggingin yrði afnumin og þess vegna er mjög undarlegt að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki vilja standa fyrir máli sínu í sérstakri umræðu. Mér finnst full ástæða til að styðja þessa dagskrártillögu og leggja hana fram, ég sjálfur átti í miklu basli á kjörtímabilinu í að fá hæstv. forsætisráðherra til að koma hingað í þingsal og taka þátt í sérstakri umræðu. Tvær beiðnir mínar hafa mistekist í þeim efnum. Önnur var um afnám hafta og ég ákvað einfaldlega að eiga þá umræðu við annan ráðherra og það gekk snurðulaust fyrir sig. Hins vegar vildi ég að gefnu tilefni sérstaka umræðu um stöðu fullveldisins og EES-samninginn en það varð ekki og sú beiðni fjaraði út. Ég hef því fullan skilning á því að menn reyni að beita óvenjulegum aðferðum og dagskrártillögum til að reyna að fá hæstv. forsætisráðherra til að koma í þingsal og eiga sérstakar umræður við þingmenn. En það virðist einhvern veginn vera þannig að allar beiðnir um (Forseti hringir.) sérstakar umræður við hæstv. forsætisráðherra enda sem mjög sérstakar umræður um hann og viðhorf hans til þingsins.



[10:38]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það verður fróðlegt að sjá hvernig atkvæðagreiðslan fer, hvort meiri hluti þingsins sem samanstendur af ríkisstjórnarflokkum, þar af öðrum sem lofaði afnámi á verðtryggingu, muni greiða atkvæði um tillögu um að ræða afnám á verðtryggingu. Kjörtímabilið er meira en hálfnað, fregnir segja að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hyggist ekki standa að því að afnema verðtryggingu heldur breyta einhverjum tímasetningum og því um líku. Þá verður maður að velta fyrir sér hvað hafi orðið um hinn pólitíska ómöguleika sem hér var áður talað um í sambandi við Evrópusambandið og umsóknina um aðild að því. Treystir hæstv. forsætisráðherra hæstv. fjármálaráðherra til að afnema verðtryggingu, þ.e. banna hana? Er ekki best að við ræðum það? Er ekki best að við setjum á dagskrá umræðu um það?

Ég hlakka til að sjá hvernig Framsóknarflokkurinn sér í lagi greiðir atkvæði um þetta mál, eða öllu heldur kvíði ég því.



[10:39]
Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það væri hægt að hafa einhvern skilning á þessari afstöðu hæstv. forsætisráðherra ef hann væri samkvæmur sjálfum sér í þessu efni, en eins og hér hefur verið rakið af hv. þm. Helga Hjörvar þá hefur hann sjálfur margsinnis samþykkt sérstakar umræður um mál sem eru sannanlega á málefnasviði annarra ráðherra.

Síðan er það nú þannig að hann vill ekki heldur eiga orðastað við þingið um þau mál sem eru sannanlega á hans ábyrgðarsviði. Hann neitar umræðu hér við okkur hvert haust um ráðstöfun fjárveitinga til húsafriðunar og minjaverndarmála sem undir hann heyra samkvæmt hans eigin ákvörðun. Þar af leiðandi er það þannig að hæstv. ráðherra ber hvorki ábyrgð á því sem hann ber ekki ábyrgð á né því sem hann ber ábyrgð á. Það eina sem hann virðist treysta sér til að tala um við þingið sem heyrir undir forsætisráðuneytið er þjóðfáninn, skjaldarmerkið og þjóðsöngurinn. Það sýnir nokkurn veginn hvernig komið er fyrir stöðu hæstv. forsætisráðherra. Og kannski ekki að undra að samstarfsflokkurinn sé þegar farinn að máta sinn formann í stól forsætisráðherra.



[10:41]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég styð þessa dagskrártillögu. Ég hlýddi á hæstv. forsætisráðherra eða las öllu heldur eftir honum haft að hann væri tilbúinn að ræða verðtrygginguna við hvern sem er, þar á meðal þáttastjórnendur á Bylgjunni og jafnvel Samfylkinguna eins og það var orðað, ég veit ekki hvort rétt var eftir haft. Ég skil bara ekki af hverju það má ekki gerast í þinginu. Hæstv. forsætisráðherra átti ágæta umræðu við mig um daginn um málefni flóttamanna þrátt fyrir að þau heyri annars vegar undir hæstv. félagsmálaráðherra og hins vegar hæstv. innanríkisráðherra. Ég held að hæstv. forsætisráðherra verði að finna lausn til að hann geti rætt þetta stóra kosningaloforð sitt hér á þinginu, bæði sem forsætisráðherra, höfuð ríkisstjórnarinnar, og formaður Framsóknarflokksins. Ég legg til að hæstv. forsætisráðherra upplýsi okkur um það hvernig hann ætlar að fylgja eftir þeim eindregna vilja sínum að ræða þetta mál hér á þingi og það jafnvel við Samfylkinguna svo við getum fengið einhverja lausn á þessu máli í staðinn fyrir að vera í einhverri störukeppni um það hvað megi og hvað megi ekki undir liðnum sérstakar umræður.



[10:42]
Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég verð nú að segja að mér finnst þessi dagskrártillaga og umræða hér vera fordæmalítill, ef ekki fordæmalaus leikaraskapur. Auðvitað er það svo að ef þingmenn vilja taka mál upp þá er sérstök umræða einn vettvangurinn til að gera það en það eru fjölmargar aðrar leiðir til að taka mál á dagskrá. Ef ekki næst samkomulag milli viðkomandi ráðherra og þingmanns um það hvernig beri að haga sérstakri umræðu þá eru ótal aðrar aðferðir til að taka þau mál, eftir atvikum verðtryggingu eða hvað annað, á dagskrá í þinginu. Fyrirspurnir, munnlegar, skriflegar, óundirbúnar, fjöldamargar aðrar leiðir, flutningur þingmála og þess háttar. Ég sé ekki hvert vandamálið er og ég verð að segja það að ég velti því fyrir mér hvort tillöguflutningur af þessu tagi núna þjóni einhverjum tilgangi í sambandi við tafir á öðru máli sem er á dagskrá í dag.



[10:43]
Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Auðvitað eiga menn ekki að vera að gaspra um einhverja hluti sem þeir ætla svo ekkert að gera neitt í. Auðvitað er það sjálfsagt mál að flytja þessa dagskrártillögu og ég ætla að styðja hana. Það er mjög skiljanlegt að hver framsóknarmaðurinn á fætur öðrum sé núna farinn að skrifa í blöðin og koma hingað upp í ræðustól og undrast að það skuli ekki vera hægt að bjarga þessum málum.

Ég velti fyrir mér hvernig hæstv. fjármálaráðherra líði að vera í hlutverki Albaníu í þessu tilfelli vegna þess að auðvitað eru þingmenn framsóknarmanna ekki að skammast út í fjármálaráðherra í alvörunni í þessu máli. Þeir eru að skammast út í Kína, hæstv. forsætisráðherra, í þessum efnum.

Það er sjálfsagt mál að styðja þessa dagskrártillögu. Mér finnst hún ekkert fordæmalaus eins og hv. þm. Birgir Ármannsson segir. Mér finnst hún sjálfsögð og þó fyrr hefði verið.



[10:45]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég held að þetta hljóti að vera heimsmet, enda er hæstv. forsætisráðherra mikið fyrir það að vera í besta flokki eða alltaf í hástigi. Ég held að það sé hástig vitleysunnar (Gripið fram í: Er hann ekki …?) að forsætisráðherra neiti að koma í umræðu um helsta kosningamál síns flokks. Hann hefur neitað því síðan í febrúar síðastliðnum. Það teljast mér þá orðnir átta eða níu mánuðir og það þarf að setja þetta sem dagskrártillögu þannig að forsætisráðherrann komi og ræði kosningamál sitt við Alþingi.

Virðulegi forseti. Þetta er heimsmet.



[10:46]
Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langar að varpa þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort ekki hafi verið fundað á mánudaginn í forsætisnefnd og með formönnum þingflokka. — Þögn er sama og samþykki þannig að sá fundur virðist hafa farið fram. Því er alveg með ólíkindum að hér skuli formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar koma með dagskrárbreytingartillögu um dagskrá fundarins í dag vegna þess að á fundum þingflokka stjórnarflokkanna og í forsætisnefnd er dagskrá vikunnar skipulögð. Hvernig er hægt að eiga samstarf við svona fólk sem gengur sífellt á bak orða sinna? Dagskrá vikunnar lá fyrir með samþykki þessara aðila en auðvitað heldur þetta fólk ekki nokkurt einasta samkomulag. Þetta er lýsandi dæmi þess.



[10:47]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Málefni verðtryggingar eru á borði forsætisráðherra þegar honum hentar. En þegar hann er farinn að sjá framan í það að geta ekki staðið við loforð sín hendir hann heitu kartöflunni í fangið á fjármálaráðherranum.

Hæstv. forsætisráðherra er búinn að vera með málefni verðtryggingar í fanginu frá kosningum. Hann lét gera skýrslu. Forsætisráðuneytið gaf hana út. Hann er búinn að taka þetta mál í sínar hendur og á þess vegna að leggja í þá umræðu að koma hingað og ræða við þingmenn um verðtrygginguna. Það er ekki boðlegt, hv. þm. Birgir Ármannsson, að ráðherrar skorist undan því í nærri því ár að ræða við þingmenn um ákveðin mál sem þeir óska eftir að ræða við þá. Það eitt og sér er mjög alvarlegt og það má hrósa öðrum ráðherrum fyrir að þeir haga sér ekki þannig. Það er eingöngu einn ráðherra sem gerir það og það er forsætisráðherra Íslands.

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn lokaði leiðinni sem fyrrverandi ríkisstjórn lagði í sem var upptaka evru (Forseti hringir.) og þannig út úr verðtryggingunni. Það hefur enginn annar valkostur verið lagður á borðið og við hljótum þess vegna að kalla eftir umræðu um það.



[10:48]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er búinn að fylgjast spenntur með málflutningi hv. stjórnarandstæðinga. Ég held að það sé komið heilt bretti af hv. stjórnarandstæðingum hingað upp til að reyna að útskýra af hverju þeir fara með þessa tillögu sem þingreyndustu menn segja mér að sé fordæmalaus. (Gripið fram í.) Eins og allir hv. þingmenn veit ég að það eru náttúrlega margar leiðir til að ræða þessi mál við hæstv. forsætisráðherra og ræða þessi mál almennt, sem eru auðvitað mjög mikilvæg, en menn kjósa samt sem áður að taka tíma þingsins í þetta.

Maður hlýtur að spyrja sig: Af hverju? Gæti skýringin verið sú að hér sé um að ræða nýja tegund af málþófi út af lið nr. 2 á dagskránni? Gæti það verið og væri ekki nær að menn reyndu að útskýra mál sitt í því skrýtna máli í staðinn fyrir að fara í þennan leikaraskap, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallaði áðan? Þetta (Forseti hringir.) hjálpar ekki þingstörfunum.



[10:50]
Heiða Kristín Helgadóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki alveg skilning á því sem fer hér fram. Ég er með kvíðahnút í maganum og mér finnst allir hlæja einhverjum taugaveiklunarhlátri hérna. Ég skil þessa samkomu og þennan sal þannig að við eigum að vera að ræða þau mál sem eru brýn og mikilvæg fyrir samfélag okkar og ég verð að segja að það eru mér gríðarleg vonbrigði að upplifa það að finnast eins og hæstv. forsætisráðherra vilji ekki ræða við þingið. Það getur vel verið að honum finnist við öll ofboðslega óþolandi og leiðinleg, en það er hlutverk hans að eiga í samtali við okkur. Hv. þm. Birgir Ármannsson sagði áðan að það væru margar leiðir fyrir þingmenn til að eiga í samskiptum við ráðherra og aðra þingmenn og hér væri hægt að taka til ýmissa ráða ef samningar næðust ekki um ákveðna liði. Ég er með spurningu inniliggjandi um mjög mikilvæg mál, finnst mér persónulega, (Forseti hringir.) til hæstv. forsætisráðherra sem ég hef ekki fengið svar við. Ég hef ekki fengið neinar (Forseti hringir.) meldingar um að það sé á leiðinni (Forseti hringir.) eða að því hafi verið frestað eða neitt. (Forseti hringir.) Ég verð að viðurkenna að það er eins og að vera í einhverri súrrealískri hjónabandsráðgjöf að vera hérna inni með fólki sem hatar hvert annað.



[10:51]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta allt er orðið mjög pínlegt, hæstv. forsætisráðherra. Stjórnarandstaðan verður auðvitað að beita öllum ráðum og þar með þessari dagskrártillögu til að reyna að nálgast hæstv. forsætisráðherra til að ræða eitt mesta kosningaloforð Framsóknarflokksins. Ég er farin að halda að hæstv. forsætisráðherra sé að kalla eftir athygli, að allt snúist um hann, hvar hann sé og af hverju hann sé ekki í þinginu. Er þetta einhver athyglissýki sem háir forsætisráðherra? Af hverju sinnir hann ekki skyldum sínum og kemur í þær umræður sem þarf?

Það að vera að henda á milli sín þessu máli, afnámi verðtryggingar, á milli forsætisráðherra og fjármálaráðherra eins og heitri kartöflu er ekki lengur fyndið, ekki frekar en að verið sé að henda húsnæðismálunum frá upphafi kjörtímabilsins á milli hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. (Forseti hringir.) Þetta er allt orðið einhver leikþáttur sem við í stjórnarandstöðunni erum leiksoppar í.



[10:52]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í morgun kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra í útvarpinu að það væru fleiri leiðir en sérstök umræða til að ræða mál í þinginu. Það sama hefur komið fram í máli hv. þingmanna Birgis Ármannssonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Ég tel þá rétt að upplýsa, herra forseti, að á þessu kjörtímabili hef ég lagt fram fyrirspurnir til skriflegs svars, óundirbúnar fyrirspurnir og undirbúnar fyrirspurnir til hæstv. forsætisráðherra, fjármálaráðherra, menntamálaráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra um verðtrygginguna og skyld efni. Ég hef ekki fengið fullnægjandi svör og ákvað því í febrúar síðastliðnum að leggja fram beiðni um sérstaka umræðu. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki séð sér fært að verða við henni, en á sama tíma og við krefjumst umræðu í þinginu um þetta mál kýs hann að fara á útvarpsstöðina Bylgjuna og ræða þar um málefnið.

Herra forseti. Ég sætti mig ekki við að eftirlitshlutverk okkar sé hunsað á þennan hátt.



[10:54]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vildi nefna það í ljósi orða hv. 2. þm. Reykv. s., Vigdísar Hauksdóttur, að það hefur margsinnis verið kvartað undan því á þingflokksformannafundum að þessi umræða eigi sér ekki stað. Sömuleiðis verð ég að velta fyrir mér hvers vegna í ósköpunum hæstv. forsætisráðherra sé ekki spenntur fyrir því að tala um þetta. Ef ég yrði spurður út í þjóðaratkvæðagreiðslur eða aukið gegnsæi, eitthvað því um líkt, yrði ég spenntur. Ég mundi helst sjálfur vilja standa fyrir þeirri umræðu eða taka sem mestan þátt í henni, miklu frekar en að varpa þeirri umræðu á ráðherra í öðrum flokki sem talaði ekkert um slíkt í sinni kosningabaráttu.

Mér þykir þessi atburðarás segja meira en hugsanlega orðin sem féllu í umræðunni sjálfri, því miður.

Hvað varðar ummæli hv. 4. þm. Reykv. s., um að hér sé eitthvert málþóf í gangi, er til einföld lausn á því að hætta málæðinu og hún er að hlusta af og til.



[10:55]
Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur er margt til lista lagt og nú er hún farin að greina frá því hvað samþykkt var á fundum þingflokksformanna sem hún þó situr ekki. Það er auðvitað með öllu rangt að neitun forsætisráðherra hafi með einhverjum hætti verið samþykkt af þingflokksformönnum. Það er nauðsynlegt að upplýsa hér að forsætisráðherra birti í janúar 2014 skýrslu um verðtrygginguna og þá þegar var óskað eftir því á fundi þingflokksformanna að hann flytti þá skýrslu munnlega í þinginu. Hann varð ekki við því þá í janúar, ekki febrúar, ekki mars, ekki apríl, ekki maí. Þingveturinn eftir setti Sigríður Ingibjörg Ingadóttir fram beiðni um sérstaka umræðu í febrúar. Hann varð ekki við henni í febrúar, mars, apríl, maí, júní. Enn á ný var beiðnin sett fram í september og október. Nú eru að verða liðin nærfellt tvö ár þar sem við höfum reynt málefnalega á fundum þingflokksformanna með forseta að fá hæstv. forsætisráðherra til að skipta um skoðun. Það er þess vegna algert neyðarúrræði að gera Alþingi þá skömm (Forseti hringir.) til að þurfa að flytja þessa dagskrártillögu hér. En það er sannarlega ekki fordæmalaust að dagskrártillögur séu fluttar á Alþingi. Þeir þekkja lítið (Forseti hringir.) til þingsögunnar sem því halda hér fram í ræðustóli.



[10:56]
Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hversu margar fyrirspurnir, beiðnir um sérstakar umræður eða með öðrum aðferðum hafa þingmenn Framsóknarflokksins lagt til fjármálaráðherra um afnám verðtryggingar? Það er eitt að koma hérna og tala um það í störfum þingsins en annað að skila því áfram formlega eins og beðið er um í þessari dagskrárbreytingu, um sérstakar umræður. Það er tvennt ólíkt, finnst mér. Hér koma þingmenn Framsóknarflokksins upp undir liðnum um störf þingsins og krefja hæstv. fjármálaráðherra um að sinna málinu. Væri ekki eðlilegra þar sem upphaf verðtryggingarmálsins er augljóslega hjá hæstv. forsætisráðherra að hann kæmi bara sjálfur í pontu og afsalaði málinu skýrt frá sér til fjármálaráðherra í stað þess að senda þingmenn sína til þess?



[10:57]
Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það fer ekki fram hjá neinum sem fylgist með þinginu að hér á sér stað gríðarleg misnotkun á dagskrárliðum þingsins og á þingsköpunum sjálfum. Virðulegi forseti. Málæðið heldur áfram.



[10:58]
Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mér finnst ótrúlegt að kalla þetta málþóf eða málæði. Hér er lögð fram dagskrártillaga af augljósum ástæðum. Það er vegna þess að legið hefur frammi beiðni í níu mánuði um sérstaka umræðu við hæstv. forsætisráðherra um eitt hans helsta kosningamál. Það er tilefni til að leggja fram þessa dagskrártillögu og það er ærið tilefni til að útskýra af hverju maður styður hana. Þetta er ekki málæði eða málþóf. Og ég óska eftir því að þeir sem eru á móti þessari dagskrártillögu útskýri afstöðu sína líka.

Mér finnst líka undarlegt að tala um að þessi dagskrártillaga sé fordæmalaus. Hvað er fordæmalaust í þessu? Er það ekki viðhorf hæstv. forsætisráðherra til þingsins? Ef við ætlum að rannsaka hvað er fordæmalaust og hvað á sér fordæmi í þessu dæmi þá vil ég að þetta sé rannsakað. Hversu margir forsætisráðherrar hafa með jafn markvissum hætti reynt að koma sér undan því á sínum ferli að taka þátt í sérstakri umræðu við þingið um mikilvæg mál? Hversu margar beiðnir hafa verið lagðar fram um sérstakar umræður við hæstv. forsætisráðherra sem hafa síðan ekki farið fram? Af hverju erum við í þessari stöðu? Er hún ekki fordæmalaus? Þarf ekki að rannsaka það?



[10:59]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra bað mig að koma hingað til að skýra afstöðu mína í þessu máli. Það er hluti af óskráðu regluverki lýðræðislegrar stjórnskipunar að þingheimur beitir framkvæmdarvaldið aðhaldi. Hæstv. forsætisráðherra sagði í viðtali í kosningabaráttunni að það væri mjög einfalt mál að afnema verðtrygginguna. Hann lét skrifa það inn í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Síðan hefur nánast ekkert gerst nema það hefur komið skýrslufargan þar sem menn hafa farið heldur lengra frá afnámi verðtryggingarinnar en nær. Þess vegna er það fullkomlega eðlilegt að við spyrjum hæstv. forsætisráðherra hvernig framkvæmd þessa verkefnis gangi. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki kjark til að koma hingað og ræða þetta við okkur. Ég hef fulla samúð með þingmönnum Framsóknarflokksins sem þurfa að horfa upp á sinn leiðtoga kikna í hnjánum. En ég get glatt þau með því að þau eiga eftir að upplifa margar slíkar morgunstundir vegna þess að ég tel (Forseti hringir.) að það eigi að leggja fram svona dagskrártillögu á hverjum einasta degi þangað til hæstv. forsætisráðherra hlítir þingsköpum, bítur í sig kjark og horfist í augu við sjálfan sig í spegli eigin kosningaloforða.



[11:01]
Björn Valur Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Rétt fyrir kosningar 2013 sagði hæstv. forsætisráðherra í viðtali við Fréttablaðið að það væri í sjálfu sér ekki flókið mál að afnema verðtrygginguna og það yrði gert. Í morgun var haft eftir hæstv. forsætisráðherra, hann sagði það í viðtali á útvarpsstöð og má finna fréttir um þetta meðal annars á visir.is undir fyrirsögninni „Sigmundur Davíð finnur fyrir sterkum öflum sem vinna gegn afnámi verðtryggingar“. Öflin sem hann vísar til eru meðal annars í stjórnmálaflokkum, innan Sjálfstæðisflokksins, víða í þinginu, öflin eru í verkalýðshreyfingunni, stéttabaráttunni og við vitum öll að hæstv. forsætisráðherra er mjög næmur á alla slíka hluti. Ef einhver óskilgreind öfl, þessa heims eða annars, tefja hæstv. forsætisráðherra við að uppfylla þessi kosningaloforð sín að finnst mér rétt að hann komi hér og upplýsi hvar (Forseti hringir.) fyrirstaðan er. Er hún í þinginu? Greinilega ekki hjá þeim sem flytja þessa tillögu. Er hún í Sjálfstæðisflokknum? Verkalýðshreyfingunni? (Forseti hringir.) Eða er hún einhvers staðar þar sem við hin greinum hana ekki?



[11:02]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er eitthvert aumasta yfirklór sem ég hef heyrt hjá einum ráðherra, hæstv. forsætisráðherra, að hann geti ekki komið til þingsins og átt orðastað við þingmenn um stórmál, pólitískt mál, eitt sitt helsta kosningaloforð, af því að hlutum hafi skipast þannig innan ríkisstjórnarinnar að viðfangsefnið sé núna að einhverju leyti í höndum hæstv. fjármálaráðherra. Alþingi er ekki bundið af verkaskiptingu Stjórnarráðsins og Alþingi er ekki hólfað í nefndir og box sem ekki er hægt að stíga yfir. Alþingi er einn helsti pólitíski umræðuvettvangur landsins. Þetta er pólitískt mál. Það er verið að óska eftir því að eiga orðastað við forsætisráðherra sem þann sem lofaði afnámi verðtryggingar, sem stjórnmálamann. Hún heldur ekki á nokkurn hátt þessi auma afsökun hæstv. forsætisráðherra. Ef hann er eitthvað viðkvæmur gagnvart hæstv. fjármálaráðherra þá gengur hann yfir til hans og segir: „Heyrðu, Bjarni, hefur þú nokkuð á móti því að ég taki hérna umræðu um afnám verðtryggingar, því að það er óskað eftir því af stjórnarandstöðunni?“ (Forseti hringir.) Ég spái því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra segi: „Nei, gerðu það bara“. Þar með er málið leyst.



[11:04]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með öllum hv. stjórnarandstæðingum flytja sínar 20 ræður og er enn þá að velta því fyrir mér og reyna að átta mig á út á hvað þetta mál gengur. Þetta er eins og hv. þm. og skörulegasti stjórnarandstæðingurinn, Helgi Hjörvar, segir, hér er verið að gera Alþingi skömm til. Það er augljóslega mikið undir, svo maður noti þeirra orð.

Það kemur fram hjá hv. stjórnarandstæðingum að upphaf verðtryggingarmálsins sé hjá hæstv. forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, en verðtryggingin var sett á 1979 og þá var hæstv. forsætisráðherra fjögurra ára gamall, ef mér reiknast rétt til. Það getur tæplega verið ástæðan. Hér kemur hv. þingmaður upp og segir að hann hafi ekki fengið fullnægjandi svör og þess vegna sé farin þessi fordæmalausa leið.

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli manna á umræðunni á síðasta þingi. Það var ekki eins og við sem vorum þá í stjórnarandstöðu fengjum fullnægjandi svör. Það er langur vegur frá. En ég ætla ekki að halda langa ræðu um það.

Virðulegi forseti. (Gripið fram í.)(Forseti hringir.) Ég legg til að hv. stjórnarandstaða hætti þessu málþófi og noti aðra liði til að spyrja hæstv. forsætisráðherra.



[11:05]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hversu mikið lengur þarf hæstv. ráðherra að reyna á þolinmæði okkar hv. þingmanna? Ég bara spyr. Og til þess að varpa þeirri spurningu aðeins öðruvísi fram, af því að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði að þetta væri misnotkun á dagskrárlið: Er þetta misnotkun á dagskrárlið eða misnotkun á valdi hæstv. ráðherra? Hversu mikið lengur þurfum við eiginlega að bíða þæg og góð til að þetta mál komist á dagskrá? Hversu mikið lengur þurfum við að biðja fallega?

Þolinmæði okkar er á þrotum. Ég styð þessa dagskrárbreytingu vegna þess að reynt hefur á þolinmæði þingsins allt of lengi og það er kominn tími til að við fáum að ræða við hæstv. forsætisráðherra um þetta mál án þess að það sé eitthvert meira vandamál en það.



[11:06]
Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar rakti hér áðan þá harmsögu sem er að baki þessu máli, ítrekaðar tilraunir til að fá efnislega umræðu í þingsölum við hæstv. forsætisráðherra um afnám verðtryggingar, sem teygir sig aftur um tvö ár. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson rakti hvernig honum hefði verið mætt af tómlæti með mál sem hann vildi ræða við hæstv. forsætisráðherra. Ég skil alveg tilfinningar stjórnarþingmanna og löngun þeirra til að bregða skildi fyrir ráðherra sína. En ég vil minna stjórnarþingmenn sem eru hér að fara að ganga til atkvæða á þá frumskyldu að þeir verji rétt þingsins til að fá svör. Ef þeir ætla að standa vörð um hæstv. forsætisráðherra í þessu máli gera þeir jafnframt lítið úr öðrum hæstv. ráðherrum sem hafa mætt öllum beiðnum stjórnarandstöðunnar málefnalega, án tafa og án undanbragða allt þetta kjörtímabil. Ég er þakklátur fyrir þau viðbrögð og ég bið hv. stjórnarþingmenn (Forseti hringir.) að átta sig á að þau viðbrögð eiga að vera sjálfsögð í lýðræðisríki.



[11:08]
Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í umræðu um þessa dagskrártillögu sem hér hefur verið flutt hefur komið fram að þetta er mjög sérstakt. Já, þetta er vafalaust mjög sérstakt og það er líka mjög sérstakt að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki viljað ræða um framkvæmdaáætlun þessa máls við þingheim og svara spurningum hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og þessu hafi verið neitað í níu mánuði. Tilurð þessarar tillögu má meðal annars rekja til umræðu nokkurra þingmanna Framsóknarflokksins í þessari viku sem hafa nú heldur betur látið í sér heyra um afnám verðtryggingar og hvað líði áætlun ríkisstjórnarinnar um að koma með frumvarp um það. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir talaði hér fyrir nokkrum dögum síðan um þetta mál og meðal annars það að Framsóknarflokkurinn hefði unnið sinn stóra kosningasigur út á þetta loforð. Við erum að ganga eftir því hvað líður áætlun ríkisstjórnar og það er auðvitað eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra skýri það, en (Forseti hringir.) hv. þingmenn Framsóknarflokksins eru núna á fullu við það að kenna hæstv. fjármálaráðherra um. Hann (Forseti hringir.) er því miður ekki í salnum, kemur ekki í þessa umræðu en ég vildi gjarnan spyrja hvort það sé rétt að málið sé strand hjá honum.



[11:09]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég velti fyrir mér hvaða sirkus hér sé í gangi. Ég velti fyrir mér hvort fulltrúar minnihlutaflokkanna hér á þingi telji að þetta auki virðingu Alþingis sem mörgum hefur svo verið annt um. Ég held ég fari rétt með það að sá forsætisráðherra sem nú situr sé sá forsætisráðherra sem oftast hefur mætt í þingsal til að svara fyrirspurnum og umræðum þingmanna frá aldamótum. Ég held að það sé líka rétt hjá mér að hér eigi að fara fram umræða um Þróunarsamvinnustofnun í dag og var byrjuð í gær og tók ótrúlega langan tíma í vor, málið var tilbúið í vor til þess að klára út úr þinginu en komið í veg fyrir það af minnihlutaflokkunum — nú á enn og aftur að búa til alls konar undarlega málþófsleiki og undarlega leiki til að reyna að koma í veg fyrir að það klárist hér með eðlilegum og lýðræðislegum (Forseti hringir.) hætti í þinginu. Ég velti því fyrir mér hvort þingið (Forseti hringir.) sé á réttri leið. Ég mun að sjálfsögðu segja nei við þessari dagskrártillögu.



[11:11]
Haraldur Einarsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég mun leitast við að fella þessa dagskrártillögu af því að miðað við málflutning stjórnarandstöðunnar hér í dag er ekki markmiðið að ræða verðtrygginguna. (Gripið fram í: Nú?) Stjórnarandstaðan vill ræða kosningaloforð Framsóknarflokksins og því ætti tillagan að hljóða í þá veru. (Gripið fram í.) Ef hins vegar ætti að ræða afnám verðtryggingar efnislega þá ætti tillagan að snúa að fjármála- og efnahagsráðherra sem er að vinna að tillögum og útfærslum í ráðuneyti sínu eftir tillögum starfshóps, hv. þm. Árni Páll Árnason, í skýrslu sem var gefin út af forsætisráðherra.



[11:12]
Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég biðst velvirðingar ef hv. þm. Guðlaugur Þór misskildi mig, en ég átti að sjálfsögðu við um málið afnám verðtryggingar, það á uppruna sinn hjá hæstv. forsætisráðherra og flokki hans.

Það væri mjög upplýsandi fyrir þessa umræðu og atkvæðagreiðsluna ef hæstv. forsætisráðherra mundi einfaldlega biðja um orðið og útskýra fyrir þingheimi hvort þetta mál eigi heima hjá honum eða hæstv. fjármálaráðherra, þannig að ég get kannski hinkrað hér aðeins þangað til hann biður um orðið.

(GÞÞ: Það er ný tegund af málþófi að þegja í ræðustól.) Hann vill ekki einu sinni taka til máls. Það væri mjög upplýsandi fyrir þessa umræðu ef þessi skilaboð kæmu frá hæstv. forsætisráðherra, en hann vill greinilega ekki einu sinni taka til máls um atkvæðagreiðsluna.



[11:13]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um atkvæðagreiðsluna um þessa dagskrártillögu. Það er einfaldlega þannig varðandi beiðnir um sérstakar umræður við ráðherra að ef ráðherra fellst á þær eru þær teknar hér í þingsalnum. Nú liggur fyrir að hæstv. ráðherra hefur vísað þessu yfir á hæstv. fjármálaráðherra. Ég vonast til þess að sá sem biður um umræðuna beini beiðninni til fjármálaráðherra. Ef ég man rétt þá spurði hv. þm. Kristján L. Möller hvort fjármálaráðherra mundi taka slíka umræðu. Ég get fullvissað þingheim um það að hér eftir sem hingað til mun fjármálaráðherra taka þær sérstöku umræður sem að honum hafa beinst enda hefur hann verið duglegur við að mæta hér til þings. Ég held að enginn geti andmælt því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, hafi sinnt þinginu vel og ég vil taka það fram að ég treysti engum betur til þess að leiða stórar umræður í þinginu og leggja það fram fyrir land og þjóð hvað er best fyrir okkur en formanni Sjálfstæðisflokksins. Það er vegna þess (Forseti hringir.) að við erum skoðanasystkin. (Forseti hringir.) Ég er í Sjálfstæðisflokknum.



[11:14]
Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er greinilegt að það er að koma landsfundur hjá Sjálfstæðisflokknum. Mjög ánægjulegt að sjá að menn eru farnir að hita upp fyrir átökin.

Það er auðvitað rétt sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson segir hér í ræðu sinni. Af hverju tekur hæstv. forsætisráðherra ekki til máls um þessa atkvæðagreiðslu? Það er hægt að eyða flestum misskilningi og úlfúð á milli fólks með því að tala saman. Er ekki besta leiðin til þess að útskýra nákvæmlega hvar málið liggur? Af hverju er þetta svona erfitt? Ég tala nú ekki um hjá hæstv. forsætisráðherra sem er líklega sá forsætisráðherra í sögu Íslands sem oftast er misskilinn, sem oftast er snúið út úr fyrir, sem hvað oftast hefur þurft að koma í fjölmiðla og útskýra hvað hann nákvæmlega átti við og hvernig snúið hefur verið út úr orðum hans, sem hefur bara verið skilinn rétt í ræðu sem hann flutti í ræðu í New York einhvern tímann um loftslagsmál. Þar misskildi hann enginn. (Forseti hringir.) Af hverju kemur hæstv. forsætisráðherra ekki bara hér upp og útskýrir (Forseti hringir.) hvað er verið að gera í þessu (Forseti hringir.) stefnumáli? Hvað er hann að gera í því?



[11:15]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að það eykur ekki virðingu Alþingis að forsætisráðherra lýðveldisins hunsi Alþingi. Þetta er auðvitað orðið spurning um hvað þingið á að láta bjóða sér. Ráðherrar eiga að svara fyrir störf sín á Alþingi. Um það fjallar stjórnarskráin. Um það fjallar IV. kafli þingskapalaga og fyrir því er rík þingræðishefð. Og almennt hefur verið litið svo á að forsætisráðherra gæti svarað fyrir hvað eina sem undir ríkisstjórn hans heyrir og þurfi ekki leyfi frá fagráðherrum til. Hann er eða á að vera oddviti ríkisstjórnarinnar og verkstjóri. En sá hæstv. forsætisráðherra sem við höfum núna er það ekki. Hann hunsar Alþingi, hefur ekki áhuga á neinu nema húsavernd, gömlum húsum og hleðslum og í eina skiptið sem glóð kemur í augun á hæstv. forsætisráðherra er þegar finnast einhvers staðar gamlar hleðslur. Þetta er orðið algerlega ólíðandi. Ég hvet þá þingmenn sem eru að þvæla um að hér (Forseti hringir.) sé eitthvert leikrit í gangi að lesa stjórnarskrána, lesa þingskapalögin og átta sig á því hvers (Forseti hringir.) konar niðurlæging það er fyrir Alþingi að búa við forsætisráðherra af þessu tagi.



[11:17]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það var dapurlegt að fylgjast með ræðu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áðan. Yfirleitt fetar hann veg sannleikans í hverju því sem hann segir og hefur áunnið sér virðingu þingsins og ást mína sökum þess en það má segja í þessum leiðangri hafi hann hnotið um sannleikann í hverju spori. Nú tel ég að engum í þessum sal, nema hugsanlega honum, kæmi til hugar að menn reyndu einhvers konar klæki til að koma í veg fyrir framgang þess máls sem er síðar á dagskrá í dag og hann nefndi. Ég hafna því algjörlega að þetta mál sé með einhverjum hætti tengt því. Ég vil vekja eftirtekt hins glöggskyggna hæstv. ráðherra á því að okkur sem vissulega erum andstæð því máli hefði verið í lófa lagið að biðja um tvöfalda umræðu þegar um það mál væri fjallað. Það gerðum við ekki. Hinu skal ég lofa hæstv. ráðherra, ég mun beita sömu einurð til þess að koma vitinu fyrir hann varðandi það mál eins og ég og stjórnarandstaðan gerum í þessu máli til þess (Forseti hringir.) að reyna að kenna hæstv. forsætisráðherra mannasiði og kenna honum að standa undir skyldum sínum gagnvart þingi.



[11:18]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það virðast ýmsir stjórnarþingmenn alveg hissa á því að við viljum ræða við hæstv. forsætisráðherra um stefnumál ríkisstjórnarinnar varðandi afnám verðtryggingarinnar. Við í minni hlutanum á Alþingi viljum ræða þetta stóra hagsmunamál fyrir fólk í landinu sem og stóra efnahagsmál sem er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar við hæstv. forsætisráðherra. Málið er þannig vaxið að það er fráleitt að hann hafi ekki samþykkt að koma hér í þessa umræðu eins og hv. þm. Helgi Hjörvar fór yfir í sínu máli, annars vegar varðandi skýrsluna um afnám verðtryggingar sem hann vildi ekki ræða í þinginu við okkur og nú sérstaka umræðu um stóra kosningaloforðið. Þetta er efnisleg umræða um stórt hagsmunamál og stórt efnahagsmál.



[11:19]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Stjórnarmeirihlutinn undrar sig á þessari uppákomu og kallar hana ýmsum nöfnum en menn gætu verið lausir við svona uppákomur ef hæstv. forsætisráðherra sinnti þingskyldum sínum. Það er enginn sem segir að það sé eitthvað eftirsóknarvert að þurfa að fara þá leið að leggja fram dagskrártillögu og það er ekki svo að þingið sé að drukkna í málum og menn sé að beita málþófi af því að verið sé að moka það mörgum stjórnarmálum inn á þingið. Eða kannast hv. þingmenn við það?

Hæstv. forsætisráðherra, hvar sem hann er núna, ætti að reka af sér slyðruorðið og fara að sýna einhvern myndugleik í sínu starfi og svara spurningum um stærsta kosningamál Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar. Við hvað eru menn hræddir? Það var skoðanakönnun fyrir ekki alls löngu um hver væri vinsælasti forsætisráðherra síðustu áratugi og hver var það? Jóhanna Sigurðardóttir. (Forseti hringir.) Ætli hún standi ekki undir því, ekki er samanburðurinn góður varðandi hina sem sinna ekki þingskyldum sínum.



[11:21]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það þyrfti nú að setja upp vídeósýningu til þess að rifja upp síðasta kjörtímabil fyrir þeim þingmönnum sem hér kvarta yfir því að við leggjum fram dagskrártillögu eða ræðum yfir höfuð um störf þingsins.

Mig langar til þess að lesa upp úr þessari bók okkar hérna sem heitir Þingsköp Alþingis. Þar segir meðal annars í 3. mgr. 49. gr., með leyfi forseta:

„Eftirlitsstörf Alþingis gagnvart ráðherrum taka til opinberra málefna. Með opinberu málefni er átt við sérhvert málefni er tengist hlutverki og starfsemi ríkisins og stofnana þess, svo og félaga og annarra lögaðila …“

Þetta á við verðtrygginguna, virðulegi forseti, og forsætisráðherra á að hunskast hér til þess að svara fyrir þetta málefni.

Síðan segir í 1. mgr. 50. gr., sem er afar mikilvægt að þingmenn og ráðherrar og forsætisráðherra átti sig á, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun um þingmál, við sérstakar umræður, í svörum við fyrirspurnum þingmanna …“

Hér er það alveg kristaltært að forsætisráðherra ber að koma og tala við þingið (Forseti hringir.) um þau málefni sem snerta málefni ríkisins, stofnana og samfélagsins alls. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Það er mál (Forseti hringir.) að linni og nú á forsætisráðherra að koma hér og svara.



[11:22]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er verulega hugsi yfir þessari stöðu því hér er gríðarlegur hópur og stór hópur nýrra ungra þingmanna í þingflokki Framsóknarflokksins, fólk sem er að læra á Alþingi og læra stjórnmál og læra samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds í fyrsta sinn og sjá hvernig á að gera hlutina.

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af hlutverki hæstv. forsætisráðherra sem fyrirmyndar þessara ungu þingmanna, vegna þess að hæstv. forsætisráðherra eins og allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar situr í umboði Alþingis og ber að koma til Alþingis og ræða mál sem þingið óskar eftir, meira að segja minni hlutinn. Þetta skilur hver einasti ráðherra ríkisstjórnarinnar. Hver einasti ráðherra ríkisstjórnarinnar mætir hér og talar við Alþingi þegar eftir því er óskað nema einn, nema einn ráðherra ríkisstjórnarinnar sem er forsætisráðherra, (Forseti hringir.) sem er verkstjóri eða á að heita verkstjóri ríkisstjórnarinnar. Hann stendur ekki undir því, er Alþingi til skammar, (Forseti hringir.) ríkisstjórninni til skammar og Framsóknarflokknum til skammar.



ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:44]

Dagskrártillaga  felld með 32:24 atkv., að viðhöfðu nafnakalli, og sögðu

  já:  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  BjörgvS,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  BVG,  SSv,  VBj,  ÖJ,  ÖS,  ÁPÁ,  ÁstaH,  BLG,  BjG,  HKH,  PrP,  HR,  GStein,  HHG,  HHj.
nei:  KG,  KÞJ,  LínS,  FHB,  REÁ,  SDG,  SÁA,  SigrM,  SIJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  SKjær,  ÞórE,  EKG,  SDH,  BÁ,  BjarnB,  BN,  ELA,  FSigurj,  GÞÞ,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  ÞorS.
7 þm. (ÓP,  RR,  ÁsmD,  ElH,  EyH,  GBS,  IllG) fjarstaddir.
13 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[11:25]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég segi já við þessari dagskrártillögu vegna þess að ég tel ekki boðlegt okkur þingmönnum að forsætisráðherra hunsi beiðnir okkar um umræðu um jafn mikilvæg mál og þetta. Þegar menn lofa jafn stórum og miklum hlutum eins og að afnema verðtryggingu þá er verið að gefa loforð til allra landsmanna sem eru með verðtryggð lán og finna fyrir þeim á hverjum einasta degi. Þau eru þungur baggi á hverju heimili. Ekki nóg með það heldur hefur ríkisstjórnin sent þau skilaboð til þessara sömu heimila og var lofað að verðtrygging yrði afnumin að það eigi að loka einni færri leið sem er upptaka evru og afnema þannig verðtryggingu og koma okkur inn í lægri fjármagnskostnað. Það er ekkert gefið upp eða sýnt á spilin um það hvað eigi þá að koma í staðinn, ekki neitt. (Forseti hringir.) Það er umræða um það sem við erum að kalla hér eftir, (Forseti hringir.) forsætisráðherra skuldar fólki svör um það hvernig hann ætlar að afnema verðtrygginguna ef ekki með upptöku evru.



[11:27]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Þessi dagskrártillaga er eins og hálfgerður neyðarhemill, notaður þegar Alþingi er sýnd óvirðing eins og hér hefur verið rætt um. Hæstv. sjávarútvegsráðherra talaði um virðingu Alþingis hér áðan og mér er líka mikið í mun að hún sé höfð í heiðri. En virðing Alþingis er ekki virt þegar hæstv. forsætisráðherra neitar því í níu mánuði að gera grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar og áætlun um afnám verðtryggingar eins og hann lofaði og vann kosningasigur á árið 2013. Það er óvirðingin. Þess vegna neyðist maður til þess að styðja svona tillögu til þess að reyna að fá forsætisráðherra til að skýra stefnu ríkisstjórnarinnar.

Ég minni líka á það að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa oft notað þessa aðferð, m.a. til að koma í veg fyrir umræðu um stjórnarskrána á síðasta kjörtímabili. (VigH: Það er rangt.) Ég segi já við þessari tillögu.



[11:29]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Það eru dásamleg forréttindi að búa í samfélagi með þá stjórnskipan sem við búum við með innbyggðan vélbúnað, ef svo má að orði komast, í sínu lýðræðisfyrirkomulagi sem tryggir að minni hlutinn hefur rétt. Það eru ákveðin verkfæri sem minni hlutinn í þinginu hefur til þess að taka mál upp. Það er auðvitað réttur hæstv. forsætisráðherra að neita að koma til umræðu í þinginu. Auðvitað er það réttur hans. Það er enginn sem mun neyða manninn til þess að koma hérna og tala við stjórnarandstöðuna ef hann vill ekki gera það. En það er líka réttur okkar að vekja athygli á því að hæstv. forsætisráðherra lofaði ákveðnum hlutum sem er ekki verið að standa við, alla vega verður ekki komið auga á það, og það er réttur okkar í minni hlutanum að fá að ræða það og taka það upp og leggja fram tillögu um að það verði sett á dagskrá. Sjálfsagt mál. Það eina sem er ekki eðlilegt í þessari umræðu er þegar stjórnarmeirihlutamenn koma hingað og segja: Hættið að tala. (Forseti hringir.) Hættið að tala um þetta. Það er óeðlilegt. Ég segi já.



[11:30]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég segi já enda er hér um stórt hagsmunamál fyrir almenning að ræða, áhugamál og kosningamál hæstv. forsætisráðherra og stefnumál ríkisstjórnar hans. Við í minni hlutanum sættum okkur ekki við að hæstv. forsætisráðherra hunsi eðlilega beiðni okkar um að ræða jafn stórt mál og verðtrygginguna í sérstakri umræðu. Við höfum þurft að sæta því að hann hunsi algjörlega vilja okkar mánuð eftir mánuð og nú ár eftir ár.

Herra forseti. Þetta er óþolandi og ég vara þá almennu þingmenn hér í þingsal sem neita þessari dagskrártillögu við því að þeir eru að taka þátt í því að veikja eftirlitshlutverk þingsins með framkvæmdarvaldinu.



[11:32]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég segi já við þessari dagskrártillögu vegna þess að Alþingi á ekki að líða forsætisráðherra þessa framkomu. Það er rétt hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að það eykur auðvitað ekki virðingu Alþingis að forsætisráðherra hunsi það, þ.e. ef Alþingi lætur bjóða sér það. Þess vegna vek ég athygli þeirra þingmanna sem hafna þessari dagskrártillögu á því að þeir eru að taka afstöðu með framkomu forsætisráðherra. Þeir eru að taka afstöðu með því að forsætisráðherra í landi sem byggir á þingræði og forsætisráðherra sem leiðir þingbundna ríkisstjórn hunsi þá skyldu sína að svara fyrir störf sín á Alþingi. Þeir eru að grafa undan þingræðinu. Þeir eru að taka afstöðu með hegðun sem gengur gegn hefðum og lögum og stjórnarskrá þessa lands. (VigH: Icesave?) Forsætisráðherra ber að svara fyrir störf sín á þingi. Þess vegna er ég hryggur yfir því ef menn ætla að bakka forsætisráðherra upp í þessu. (Forseti hringir.) Lítill er nú orðinn metnaðurinn. Hvar eru menn þá? Eru menn sjálfstæðir þingmenn sem þurfa (Forseti hringir.) ekki að fara eftir neinu nema sannfæringu sinni eða eru þeir eitthvað annað?



[11:33]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég segi já við þessari tillögu sem er eins konar neyðarúrræði þingsins til þess að freista þess að kalla alla alþingismenn að borðinu til þess að taka ákvörðun um dagskrá. Þetta er tillaga sem hefur verið í umræðunni á fundum þingflokksformanna mánuðum saman. Mánuðum saman hafa þingflokksformenn þrýst á að þessi umræða færi fram að beiðni þingmanns Samfylkingarinnar. Það er mikilvægt að þessi umræða fari fram. Ég vil biðja hæstv. forseta og raunar líka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ef einhver ágætur ráðherra mundi vilja skila því til hans, að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra og fara aðeins yfir það hlutverk sem hann gegnir gagnvart þinginu vegna þess að allir aðrir virðast skilja það, þ.e. allir aðrir ráðherrar þingsins og forseti þingsins virðist skilja það að forsætisráðherra á að koma og tala við (Forseti hringir.) Alþingi ef Alþingi óskar eftir því. Ef hann gerir það ekki þá er hann að misskilja sitt hlutverk.



[11:35]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér verðum við vitni að nýrri misnotkun á dagskrá þingsins. Núna er verið að misnota nafnakallið því hér er óskað eftir nafnakalli um dagskrárbreytingartillögu. Hingað til hefur verið hefð fyrir því í þinginu að nafnakalli er einungis beitt í mjög umdeildum málum, [Frammíköll í þingsal.] þeim sem jafnvel snúa að yfirráðum annarra ríkja yfir rekstri þjóðarinnar. (Forseti hringir.) Ég heyri, hæstv. forseti, að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon á bágt með þessi orð mín (Gripið fram í.) þannig að ég haldi áfram með ræðu mína, eins og um umsóknina að ESB og Icesave-samningana alla.

Það er nokkuð ömurlegt að horfa upp á þetta málæði hjá stjórnarandstöðunni og þessa gríðarlegu misnotkun sem á sér stað á öllum dagskrárliðum þingsins og þar með þingsköpum Alþingis Íslendinga. Ég segi nei.



[11:36]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er grundvallarregla í lýðræðisríki að stjórnmálaflokkar leggja fram stefnu sína, fá fylgi í kosningum út á hana og þurfa svo að svara fyrir hana. Hæstv. forsætisráðherra hefur, eins og hér hefur komið fram, forðast með skipulegum hætti í tvö ár að svara fyrir loforð sem hann gaf fyrir síðustu kosningar, loforð sem fleytti honum í stólinn sem hann situr í. Og nú gerist það að þingmenn Sjálfstæðisflokksins standa um hann vörð og koma honum undan því að svara þjóðinni til um efndir á þessu stóra kosningaloforði, hafandi sjálfir ákveðið að efna það ekki. Ekkert sýnir betur hráskinnaleikinn sem ríkir hjá þessari ríkisstjórn og ekkert sýnir betur að sjálfstæðismönnum er ekkert heilagt þegar kemur að því að ná völdum og halda völdum fyrir sig og vini sína. Þá skiptir hvorki máli heiður né sómi.



[11:39]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Í þessum fjölmörgu ræðum hv. stjórnarandstæðinga fannst mér eitt standa upp úr sem segir allt um málið, þegar því var lýst yfir að þessi tillaga gerði Alþingi skömm til. Þau orð féllu í ræðu hv. stjórnarandstæðings. Ég hef engan áhuga á því að taka þátt í því. Ég segi að sjálfsögðu nei.



[11:39]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það sem mér finnst blasa við í þessari stöðu er einfaldlega það að þvergirðingsháttur, hunsun á eðlilegum beiðnum, virðingarleysi, það að segja ekki neitt, mæta ekki til sérstakrar umræðu ef um hana er beðið af augljósum ástæðum, það viðhorf mun alltaf leiða til sóunar á tíma okkar allra og leiðinda. Ég vil leyfa mér að biðja hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson af því að hann hlær að þessu að ímynda sér aðra sviðsmynd. Hvað ef hæstv. forsætisráðherra hefði bara mætt til umræðunnar þegar um hana var beðið? Hún hefði tekið hálftíma, farið hér fram og eflaust verið mjög fróðleg og hæstv. forsætisráðherra hefði getað útskýrt viðhorf sitt til þessara mála og við stæðum ekki hér og værum að fara yfir það af hverju níu mánuðir hafa liðið frá því þessi beiðni var lögð fram. Aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa (Forseti hringir.) komist að þeirri niðurstöðu að auðvitað borgar sig fyrir alla, til þess að við séum ekki að sóa tíma fólks, að verða (Forseti hringir.) fljótt og vel við beiðni um sérstaka umræðu og auðvitað á hæstv. forsætisráðherra að gera það líka. Ég segi já.



[11:41]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég segi að sjálfsögðu já. Að sjálfsögðu. Ef við hefðum tekið þessa umræðu þá hefðum við verið búin með hana fyrr en við ljúkum hér umræðu um atkvæðagreiðsluna. Það er sjálfsagt að ræða þetta mál.

Sömuleiðis verð ég að nefna að það er mjög þreytandi að hlusta á hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans leggja það sífellt til að menn hætti að tala, menn hætti að tala um hlutina, þegar reyndin er sú að ef við tölum meira um hlutina samkvæmt þingsköpum þá mundum við spara tíma með því. Þessi umræða hefur tekið lengri tíma, mun lengri tíma, heldur en ef umræðan hefði verið efnisleg. Og aftur furða ég mig á því að hæstv. forsætisráðherra sé ekki viljugur til þess að ræða þetta. Ég væri æstur í að ræða þetta ef ég væri hann. Þetta er fráleitt, virðulegi forseti. Að sjálfsögðu segi ég já. Að sjálfsögðu.



[11:42]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég segi já því að maður á að vera samkvæmur sjálfum sér og standa undir þeim kröfum sjálfur sem maður gerir til annarra. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson krafði forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur um að ræða í sérstakri umræðu skuldamál heimilanna. Auðvitað hefði þáverandi forsætisráðherra getað farið undan í flæmingi og sagt að málið væri á sviði annars ráðherra, hjá félagsmálaráðherra eða efnahagsráðherra, en auðvitað gerði Jóhanna Sigurðardóttir það ekki. Hún virti þingmanninn, mætti til þingsins, sýndi því virðingu og flúði ekki umræðuna af því að þannig eiga forsætisráðherrar að vera. Þannig vill þjóðin að forsætisráðherrar séu. Það má skilja það að forsætisráðherra vilji ekki ræða svikið loforð um afnám verðtryggingar en það er aldrei hægt að sætta sig við það. Ég segi þess vegna já.



[11:43]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er ekki endilega sammála síðasta ræðumanni um að fyrrverandi forsætisráðherra sé dæmi um hvernig eigi að stýra landinu. En ég vil þó benda á, vegna þess að hér hefur verið vísað í þingsköp, að samkvæmt 60. gr. þingskapalaga er hægt að biðja um sérstaka umræðu en samkvæmt venju verður að beina þeirri beiðni til þess ráðherra sem fer með málaflokkinn sem rætt er um. Það á alveg jafnt við um okkur í meiri hlutanum og þingmenn stjórnarandstöðunnar. Ég gæti óskað eftir umræðu við hæstv. innanríkisráðherra um utanríkismál, það er algjörlega af sama meiði og það sem mér heyrist umræðan núna snúast um, en ég mundi fá neitun vegna þess að málaflokkurinn heyrir að sjálfsögðu undir utanríkisráðherra. Þess vegna þýðir ekkert að berja hausnum við steininn og segja að hér verði komið dag eftir dag til að biðja um þetta. Það er eingöngu til marks um það sem hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi svo ágætlega hér áðan, það er ekkert annað en leikrit. Það er verið að búa sér til (Forseti hringir.) einhverja stöðu og það er hluti af málþófi, virðulegi forseti. Þess vegna segi ég að sjálfsögðu nei við þessari dagskrártillögu.