145. löggjafarþing — 25. fundur
 22. október 2015.
stöðugleikaskattur og stöðugleikaframlög.

[11:53]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um téð stöðugleikaframlög. Nú var haldinn fundur í samráðsnefnd þingflokka um losun hafta hér á þriðjudag og farið aðeins yfir stöðu mála hvað varðar stöðugleikaframlög eins af slitabúunum sem um ræðir. Það liggur fyrir, og það er ekkert óeðlilegt við það, eins og mér fannst hæstv. forsætisráðherra nánast gefa til kynna hér áðan, að sú leið sem stjórnvöld kynntu snemmsumars snerist fyrst og fremst um stöðugleikaskattinn. Við sem skoðuðum glærukynningu hæstv. ráðherra sáum allmargar glærur um stöðugleikaskattinn og stöðugleikaframlögin voru nánast kynnt sem aukaleið. Síðan ræddum við þessar leiðir hér í þinginu, báðar leiðirnar voru samþykktar.

En það skiptir hins vegar máli, og á það bentu fulltrúar minni hlutans í málsmeðferð um málið, að á meðan skattlagningin er gagnsæ leið, nokkuð borðleggjandi, fyrir liggur hvað felst í henni, þá er hin leiðin, og því hef ég engan heyrt andmæla, talsvert ógagnsærri. Það er miklu flóknara að koma upplýsingum til skila um hvað í þeim felst því að þar er um að ræða nauðasamninga við slitabú.

Stöðugleikaskatturinn, eins og við munum, var kynntur sem 850 milljarðar, sem síðan, miðað við frádrætti, átti að vera í kringum 690 milljarðar. Við vitum þá alla vega umfang vandans, aflandskrónurnar, slitabúin, þetta eru um 1.200 milljarðar kr.

Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji þau tilboð sem væntanleg hafa verið lögð fram, og upplýsingar berast um og við eigum eftir að fá nánari upplýsingar um, séu nálægt því að lagfæra þann vanda þannig að almenningur geti losnað úr höftum, ekki aðeins slitabúin. Í öðru lagi spyr ég um gagnsæið, hvort ekki standi til að birta útreikninga á muninum á þessum leiðum. Því að þó þær séu ólíkar þá er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að við hér á þinginu sem og allur almenningur í landinu fáum mjög skýra sýn á þetta því að það eru mjög stórir hagsmunir sem hér um ræðir.



[11:56]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er ekki nákvæm lýsing á kynningu málsins að við höfum kynnt stöðugleikaskattinn sem einhverja aðalleið í þessu máli. Þeir sem muna eftir því hvernig atburðarásin var frá því að kynningin fór fram minnast þess eflaust að samstundis komu öll slitabúin og sögðust vilja fara leið stöðugleikaskilyrða, þ.e. lykilkröfuhafar lýstu þessu yfir fyrir hönd einstakra slitabúa. Frá þeim tíma hefur það verið alveg ljóst í mínum huga að við höfum svona frekar verið að gera ráð fyrir því að sú leið yrði ofan á að slitabúin mundu á endanum koma með undanþágubeiðnir og gera grein fyrir því hvernig þau hygðust uppfylla stöðugleikaskilyrðin, sem eru sem sagt stöðugleikaframlag, lengingar í lánum, vegna þess að hér eru miklar kvikar eignir búanna í erlendum gjaldeyri í landinu, og síðan endurgreiðslur á erlendum lánum.

Það er eflaust rétt hjá hv. þingmanni að það er dálítið flókið að fara yfir hvern og einn þátt sem kemur til skoðunar við stöðugleikaframlag. En aðalatriðið er að við erum að leysa undirliggjandi vandamál. Við erum að tryggja að hægt sé að klára nauðasamninga og dreifa eignum búanna til kröfuhafanna án þess að við Íslendingar þurfum að horfa upp á röskun á lífskjörum vegna þess að gengi íslensku krónunnar fellur. Það verður farið yfir það nákvæmlega hvernig hver einasti þáttur í uppgjöri þessara búa mun verða núllstilltur við slíkt nauðasamningsfyrirkomulag þegar kynning fer fram á næstu dögum í þessu efni.

Nú er ég að bíða eftir bréfi frá Seðlabankanum. Mér skilst að öll búin séu búin að skila inn sínum hugmyndum til Seðlabankans. Ég vænti þess að fá, jafnvel í dag eða í síðasta (Forseti hringir.) lagi á morgun, samráðsbréf frá Seðlabankanum sem ég mun á endanum koma með hingað fyrir þingið. Það er sömuleiðis verið að vinna að kynningu. Það mun verða farið mjög nákvæmlega yfir það hvernig við erum að leysa vandann.



[11:58]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ástæða þess að ég tel mikilvægt að við ræðum þetta í þinginu er sú að það er gríðarlega mikið undir. Seðlabankastjóri hefur sjálfur sagt að það sé bara eitt skot í byssunni. Við viljum öll vera viss um — öll sem hér erum inni, ekki bara hæstv. ríkisstjórn heldur þingmenn allra flokka — að nægjanlegt púður sé í skotinu þegar því verður hleypt af. Af hverju viljum við það? Jú, af því að við erum að hugsa um hagsmuni almennings og við erum að hugsa um að almenningur losni líka úr höftum.

Hæstv. ráðherra sagði hér áðan að hann ætti von á því að fá mat Seðlabankans á framlögum þannig að ég reikna ekki með að hann geti svarað mér því hvort hann telji að framlögin uppfylli þessi skilyrði. Ég vil þá ítreka það, sem ég sagði hér áðan, að við þurfum að fá þetta mál kynnt nægjanlega fyrir þingi og þjóð því að miklir hagsmunir eru undir. Það þarf að ríkja um þetta eins mikið gagnsæi (Forseti hringir.) og unnt er þannig að við getum öll skilið nákvæmlega hvað liggur hér undir og verið viss um að hér sé verið að taka ákvarðanir fyrir framtíðina.



[11:59]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil að það sé alveg á hreinu í þessari umræðu að við höfum að störfum samráðsnefnd þar sem við sitjum saman með Seðlabankanum og fulltrúum úr forsætisráðuneytinu, svona stýrinefnd um losun fjármagnshaftanna. Að sjálfsögðu hef ég verið í samtali við okkar aðila og fulltrúa í framkvæmdahópnum. Þeir hafa lýst því yfir að miðað við framkomnar tillögur þá muni þeir styðja það fyrir sitt leyti, muni mæla með því að málið verði afgreitt. Ég hef fengið lýsingu á því hvernig þeir sjá fyrir sér að vandinn verði leystur og þess vegna erum við að undirbúa að tekin verði saman kynning á þessu.

Ég vek athygli á því að þegar eignum er dreift út úr slitabúunum þá fer hluti af eignunum til dæmis til eignarhaldsfélags Seðlabankans. Við þurfum þá ekki að hafa áhyggjur af því, það fer hreinlega beint inn í Seðlabankann og ESÍ er risastór kröfuhafi í búin. Ég bendi líka á skattana sem við erum að taka, meðal annars á þessu ári. Og ég vek athygli á því að með stöðugleikaframlagsleiðinni þá falla öll slitabúin (Forseti hringir.) frá öllum mögulegum kröfum til þess að endurheimta slíka skatta. Það er ekki niðurstaðan ef menn fara skattaleiðina, þ.e. leggja á stöðugleikaskattinn, þá gætu slík dómsmál (Forseti hringir.) staðið áfram opin. En þarna geta verið undir um 70 milljarðar. Útgáfa skuldabréfa, afhending eigna, allir þessir einstöku liðir samanlagt munu að mínu áliti leysa vandann.