145. löggjafarþing — 26. fundur
 2. nóvember 2015.
málefni Ríkisútvarpsins.

[15:20]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um málefni Ríkisútvarpsins. Nú var það þannig að í síðustu viku var kynnt niðurstaða skýrslu um stöðu Ríkisútvarpsins og fjárhagsstöðu þess. Það má hafa ýmis orð um þá skýrslu en það sem stingur í augun er að mikilvægi fjölmiðils í almannaþágu er staðfest í þessari skýrslu. Þetta er eini fjölmiðillinn sem fólki býðst aðgangur að, að fá þjónustu frá, fyrir 17.800 kr., þarf ekki að kaupa sér nettengingu eða síma eða eitthvað slíkt til að fá menningu og fræðslu hvar sem er á landinu.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann deili með mér þeirri skoðun að það sem nú skipti mestu, í ljósi þessarar skýrslu, sé að standa vörð um Ríkisútvarpið, menningarhlutverk þess, almannaþjónustuhlutverk þess; og að til þess að gera það sé þrennt mikilvægast. Í fyrsta lagi að tryggja að Ríkisútvarpið fái notið útvarpsgjaldsins óskipts. Í annan stað að útvarpsgjaldið verði ekki lækkað á næsta ári eins og gert er ráð fyrir og eins og hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra hafa gefið ádrátt um. Í þriðja lagi að létt verði af Ríkisútvarpinu lífeyrisskuldbindingum sem þessari stofnun er einni gert að bera af öllum ríkisstofnunum og er vitað mál að ekki nokkur einasta önnur ríkisstofnun gæti borið. Er hæstv. forsætisráðherra sammála mér um að þetta sé eitt mikilvægasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir núna til að tryggja stöðu Ríkisútvarpsins og er hann tilbúinn að byggja almenna sátt um nákvæmlega þessi skref til þess að treysta stöðu Ríkisútvarpsins áfram?



[15:22]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að því menningarhlutverki sem hann lýsti sé vel sinnt og að Ríkisútvarpinu sé gert kleift að gera það vel. Eins má nefna hluti eins og mikilvægi þess að það mikla safn menningarefnis sem Ríkisútvarpið heldur utan um sé varðveitt og farið vel með það. Ég hef reyndar sjálfur, virðulegi forseti, reynt að leggja mitt af mörkum við að vernda þessar menningarminjar í Ríkisútvarpinu. Þetta og ýmislegt fleira eru mikilvæg hlutverk sem Ríkisútvarpið hefur gegnt og mikilvægt að það hafi aðstöðu til þess, en þá er líka mikilvægt um leið að huga að öllum þeim breytingum sem eru að verða á fjölmiðlum og fjölmiðlamarkaði og hvernig fjölmiðlar eru reknir og laga Ríkisútvarpið og hlutverk þess að því. Þess vegna ber að fagna því að hæstv. menntamálaráðherra skuli hafa lagt í þá vinnu að meta stöðu Ríkisútvarpsins, möguleika þess á að sinna hlutverki sínu, fara yfir fjárhagsstöðuna og kortleggja hana og hæstv. menntamálaráðherra hefur boðað það að í framhaldinu muni hann setjast að vinnu við að fara yfir hlutverk Ríkisútvarpsins. Ég þykist vita það að hæstv. menntamálaráðherra sé sammála mér og hv. fyrirspyrjanda um mikilvægi þess að leggja áherslu á menningarþáttinn, hluti sem menn hafa kannski ekki aðgang að annars staðar, hluti sem fjölmiðlar í samkeppnisrekstri hafa kannski ekki sett í forgang, og að þar geti þurft að hafa forgöngu ríkisins og fjárveitingar frá ríkinu til þess að þeim þáttum sé sinnt.



[15:24]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka spurninguna til hæstv. forsætisráðherra um tvö lykilatriði, að útvarpsgjaldið verði ekki lækkað, renni óskipt til Ríkisútvarpsins, og að lífeyrisskuldbindingunum verði létt af stofnuninni.

Vegna þess að hæstv. forsætisráðherra hefur sýnt sig að vera bæði hugmyndaríkur og kraftmikill þegar kemur að friðun menningarverðmæta vil ég minna hann á að Ríkisútvarpið var stofnað sem vagga íslenskrar þjóðmenningar sem undir hann heyrir nú. Ríkisútvarpið hefur verið með okkur nokkurn veginn jafn lengi og hafnargarðurinn sem friðaður var hér fyrir nokkrum dögum síðan, en það hefur verið okkur sýnilegt alla tíð og skilið mikil verðmæti eftir hjá þjóðinni alla tíð og gegnt miklu hlutverki fyrir fólk úti um allt land alla tíð.

Ég vil þess vegna hvetja hæstv. forsætisráðherra til að hjálpa okkur líka við að friða Ríkisútvarpið fyrir atlögu öfgamanna úr hans eigin ranni (Forseti hringir.) og stjórnarliðsins og standa vörð um Ríkisútvarpið.



[15:25]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður þarf ekkert að minna mig á uppruna Ríkisútvarpsins. Það var ríkisstjórn Framsóknarflokksins sem stofnaði Ríkisútvarpið árið 1930 til þess að vera vettvangur lýðræðislegrar umræðu og menningar í landinu. Ég er hins vegar ekki sammála hv. þingmanni um að friða eigi Ríkisútvarpið með þeim hætti að það eigi að standa alltaf alla tíð nákvæmlega eins og það er núna. Ríkisútvarpið vegna eðlis þess rekstrar sem þar fer fram þarf að geta lagað sig að breytingum í samfélaginu, í tækni o.s.frv. Það þarf að hafa mikla aðlögunarhæfni og geta metið stöðuna hverju sinni og brugðist við henni. Þess vegna er það fagnaðarefni, eins og ég gat um áðan, að hæstv. menntamálaráðherra skuli hafa haft frumkvæði að því að meta stöðu fyrirtækisins. Eitt af því sem verður væntanlega metið í framhaldinu er með hvaða hætti best er að standa að rekstri stofnunarinnar, hvort ohf.-fyrirkomulagið (Forseti hringir.) hafi reynst farsæl tilhögun eða hvort annað fyrirkomulag sé betra, (Forseti hringir.) og inn í það hljóta menn að taka þætti eins og þá sem hv. þingmaður spurði um.