145. löggjafarþing — 26. fundur
 2. nóvember 2015.
leki trúnaðarupplýsinga á LSH.

[15:26]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það vakti athygli mína fréttaflutningur af málefnum sem falla undir eitthvað sem kalla má ástarlögregluna, en Útlendingastofnun fór þess á leit við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu að rannsaka hvort fólk væri ástfangið. Það kom síðan í ljós í öllum þeim furðulega málatilbúnaði að ástæðu rannsóknarinnar má meðal annars rekja til þess að persónulegum upplýsingum um hjónakornin var lekið frá Landspítalanum. Maður hefði haldið að enginn trúnaður væri eins mikilvægur og trúnaður á milli þeirra sem sækja þjónustu hjá Landspítalanum eða öðrum stofnunum sem halda utan um heilbrigði landsmanna og þessara stofnana.

Mig langaði því að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist í lagi þegar forsvarsmenn stofnunarinnar svara spurningum fjölmiðla um þetta mál þannig að svona geti bara gerst. Er það í lagi? Ég held að viðbrögð við þessu ótrúlega óhæfuverki hefðu verið allt önnur ef um Íslendinga hefði verið að ræða, ef ung alíslensk hjón hefðu þurft að fara í gegnum ástarlögregluna og trúnaðarupplýsingum hefði verið lekið frá félagsráðgjafa á Landspítalanum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort farið verði yfir með þeirri stofnun er undir hann heyrir hvernig þessum málum verði háttað í framtíðinni og hvort það sé ekki alveg öruggt að svona gerist ekki aftur.



[15:28]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu aldrei í lagi þegar trúnaðarupplýsingum er lekið. Það er verklag sem enginn vill sjá en ég held að það sé ekkert í mannlegu valdi sem geti komið í veg fyrir slík slys ef einbeittur brotavilji er til staðar. Það er eitthvað sem við eigum alltaf á hættu að geti gerst.

Ég tek fram að stjórnendur spítalans hafa lagt áherslu á að verið sé að rannsaka þetta tiltekna mál og þegar niðurstöður þeirrar rannsóknar liggi fyrir muni þeir taka ákvarðanir á grundvelli þeirra niðurstaðna sem þar koma fram.

Að sjálfsögðu er rík áhersla lögð á trúnaðarskyldu heilbrigðisstarfsmanna út í gegnum allt kerfið og að sjálfsögðu mun ég eiga orðastað við forstjóra spítalans vegna þessa tiltekna máls eins og um mörg önnur mál sem inn á mitt borð koma vegna umsýslu með málefni Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Af þessu tilefni vil ég undirstrika og ítreka að meginreglan og allsherjarreglan á að vera sú að trúnaðarupplýsingum sé ekki lekið út fyrir þann vörslustað sem þeim er ætlað að liggja í fullum trúnaði við skjólstæðinga. En ég ítreka að ég þekki ekki mikið til þessa máls en bíð eftir því að eiga orðastað við stjórnendur spítalans og vænti þess að sú niðurstaða sem þeir munu komast að, á grundvelli rannsóknar sinnar á málinu, verði kynnt mér og ráðuneytinu.



[15:30]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka svörin en vil upplýsa hæstv. ráðherra um að þann 27. október birtist frétt á visir.is þar sem kemur fram að það hafi verið félagsráðgjafi á Landspítalanum sem lak upplýsingum um vítetnömsku hjónin til Útlendingastofnunar. Fréttablaðið hafði heimildir fyrir því að þetta hefði komið fram í dagbókarfærslu stofnunarinnar.

En það er kannski ekki aðalmálið. Aðalmálið er það að lög og reglugerðir um bæði trúnaðarskyldu og upplýsingaskyldu opinberra starfsmanna eru ekki nægilega góð og í ráðuneyti hæstv. forsætisráðherra hafa legið lög sem bæta úr og skýra þessar reglur. En af einhverjum ástæðum hefur það ekki ratað hér inn á málaskrá Alþingis eða verið flutt. Þó hefur þetta verið tilbúið í heilt ár.

Mig langaði svo, í ljósi allra þessara viðburða um leka af ýmsu tagi úr stjórnsýslunni, að vita hvort hæstv. ráðherra styðji mig ekki í því að hvetja til þess að þetta mál komi sem fyrst á dagskrá þingsins úr forsætisráðuneytinu.



[15:32]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er nú þeirrar gerðar að styðja öll góð mál og framgang þeirra flestra. Ég get hins vegar upplýst hv. þingmann um að ég hef ærinn starfa við að vinna í þeim málum sem mér er ætlað að koma fram með hér á þingi svo að ég fari ekki að hlutast til um verkefni annarra ráðherra. Það hef ég engan áhuga á að gera. (Gripið fram í.) Ég gæti það að sjálfsögðu og þakka traustið, hv. þingmaður, sem felst í þessum orðum og þessu inngripi (Gripið fram í.) — kærar þakkir, þetta er bara að verða eitt allsherjarhól. En látum af því.

Ég vil af þessu tilefni upplýsa að ég geri ráð fyrir því og ætlast raunar til þess að stjórnendur spítalans, þegar rannsókn máls sem þessa lýkur, nýti þau úrræði allra laga og reglna sem um þessi mál fjalla og beiti þeim ef ástæða er til. Þau kunna að vera flókin en hingað til höfum við getað unnið eftir þeim og ef einhver úrræði þurfa að koma til til að þeim verði breytt og þau einfölduð þá verður það mál einfaldlega að hafa sinn gang. En eins og laga- og regluverkið er í dag þá er það tæki sem við eigum að nýta og okkur ber að nýta.