145. löggjafarþing — 26. fundur
 2. nóvember 2015.
áfengis- og tóbaksneysla.
fsp. JMS, 217. mál. — Þskj. 225.

[16:09]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir tækifærið til þess að taka til máls um fyrirspurn mína. Það hefur ekki verið lítið rætt um áfengi í þessum ræðustól síðastliðinn mánuðinn, en í ársbyrjun 2014 var lögð fram stefna íslenskra stjórnvalda um áfengis- og vímuefnavarnir. Við megum ekki gleyma því að á sama tíma hefur Ísland skuldbundið sig til að vinna að samnorrænni stefnu í þeim málum. Í því samhengi vil ég spyrja ráðherrann út í nokkur markmið sem fram koma í sameiginlegri stefnu Norðurlandanna og fá vitneskju um það hvar Ísland stendur þegar kemur að þeim markmiðum sem þar eru lögð fram.

Því vil ég, virðulegi forseti, spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í samstarfið á Norðurlöndunum og hvernig honum hefur miðað í því. Hefur ráðherrann stuðlað að því eða haft áætlun um að efla gagnreyndar rannsóknir á áfengis- og tóbaksneyslu, þar með talið ólæknandi sjúkdómum, krabbameini og lífsstílssjúkdómum af völdum neyslunnar, eða stuðlað að því eða haft áætlun um að efla gagnreyndar rannsóknir á börnum og ungmennum sem alast upp hjá einum eða fleiri umönnunaraðilum sem eiga við alvarlega áfengismisnotkun að stríða? Í því samhengi vil ég benda á að Norðurlandaráð hefur upp á síðkastið verið með stefnu um það að kanna síðbúin áhrif á einstaklinga sem hafa orðið fyrir skaða í æsku. Og hefur ráðherrann stuðlað að því eða haft áætlun um að efla gagnreyndar aðgerðir til að draga úr áfengisneyslu og skaðlegum áhrifum áfengis?

Það væri fróðlegt í þessu samhengi að heyra hugmyndir hans til að fylgja eftir stefnu Norðurlandanna og hversu langt Ísland er komið í því að uppfylla þau skilyrði sem við bundum okkur til að framfylgja hvað varðar markmiðin.



[16:11]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur fyrir þá þríþættu fyrirspurn sem hún hefur beint til mín. Ég ætla að hlaupa yfir svör í því efni eftir röð þeirra spurninga sem listaðar voru upp í fyrirspurninni. Ég get sagt það í tengslum við spurningarnar að á undanförnum áratugum hefur rannsóknarstarf varðandi áfengis- og tóbaksneyslu hér á landi eflst mjög og í rauninni hefur það starf allt verið nýtt sem einhvers konar leiðarljós við alla ákvarðanatöku og stefnumótun ásamt innlendri og jafnframt erlendri sérfræðiþekkingu sem er svo reynt að nýta til þess að vinna að forvörnum, meðferðarúrræðum, fylgja eftir meðferðum, endurhæfingarvinnu og síðan nýtist öll sú þekking ríkinu, og þá sérstaklega velferðarráðuneytinu, til vinnslu við lagaumgjörð málaflokksins.

Til viðbótar þessu vil ég nefna að á vegum embættis landlæknis eru starfandi ýmiss konar fagráð, m.a. um áfengis- og vímuvarnir, og þar situr sérfræðingahópur, okkar ágætu sérfræðingar í þeim málum auk embættismanna.

Ég vil enn fremur nefna í ljósi þess sem ég sagði áðan að reynt er að byggja á nýjustu þekkingu og niðurstöðum rannsókna. Það er embætti landlæknis sem heldur utan um þá þætti fyrir okkur og hefur gert í nokkurn tíma. Það gefur reglulega út upplýsingar þar sem gerð er grein fyrir umfangi hvoru tveggja tóbaks eða áfengisnotkunar og stöðunni almennt í málaflokknum. Síðast kom út fyrir síðustu helgi Talnabrunnur frá embætti landlæknis þar sem verið var að fjalla um umfang og þróun áfengisneyslu Íslendinga á síðustu árum. Það er mjög merkilegt í rauninni að líta yfir þær upplýsingar sem þar eru birtar, þó er eingöngu um að ræða brot af þeim fjölbreyttu greiningum sem þarna er hægt að gera.

Varðandi þær rannsóknir og kannanir sem eru framkvæmdar hér á landi í samræmi við þá stefnumörkun sem hv. þingmaður nefndi má fyrst nefna að reglulega hafa verið gerðar kannanir hjá embættinu á umfangi tóbaksnotkunar. Kannanir á umfangi áfengis- og tóbaksneyslu unglinga eru í höndum Háskólans á Akureyri og Rannsóknar og greiningu sem gera reglulega kannanir meðal grunn- og framhaldsskólanema. Í könnun sem ber heitið Heilsa og líðan, sem unnin er af embætti landlæknis, er spurt um áfengisneyslu og tóbaksnotkun fullorðinna og síðan vil ég nefna að á vegum embættisins er verið að vinna að svokölluðum lýðheilsuvísum á landsvísu.

Af því að hér er tengt við krabbamein vil ég nefna að ég hef fengið í hendur drög að krabbameinsáætlun þar sem meðal annars er kveðið á um leiðir eða verður kveðið á um leiðir til þess að draga úr áfengis- og tóbaksneyslu. Ég vil nefna í því sambandi, vegna annarrar spurningarinnar um málefni barna og ungmenna, þá staðreynd að málefni sem varða börn og ungmenni undir lögaldri falla mest undir félagsmálaráðherra og Barnaverndarstofu, þannig að það er ekki á borði míns hluta ráðuneytisins að vinna með þann þátt, það er meira á verkefnasviði félagsmálaráðherra.

Ég vil síðan svara síðustu spurningu hv. þingmanns játandi, það hefur verið vísað til og er vísað til gagnreyndra aðgerða til að sporna við eða draga úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu. Ég vil í því sambandi nefna að það nýjasta sem þar hefur verið gert er að landlæknir var að opna (Forseti hringir.) nýjan vef í síðustu viku, heilsuvefinn Heilsuhegðun, þar sem er verið að koma út með upplýsingar. Þarna er (Forseti hringir.) um að ræða gagnvirka síðu sem ég hvet alla til þess að skoða og taka þátt í að byggja upp með okkur.



[16:17]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á áfengis- og vímuefnavörnum þar sem nú liggur fyrir þinginu frumvarp sem er meira en lítið umdeilt, brennivín í búðir, og er varla gott innlegg inn í það mál. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar var á þá leið að bæta ætti lýðheilsu og forvarnastarf og að það yrði eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig það getur samræmst því að setja áfengi í búðir, því að það er talið einn stærsti áhættuþátturinn í auknu aðgengi að áfengi og aukinni neyslu, og líka horfandi til þess að stutt er síðan velferðarráðuneytið lagði fram metnaðarfulla stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum til ársins (Forseti hringir.) 2020. Mér finnst þetta eitthvað sem hæstv. heilbrigðisráðherra skuldar þinginu svör við. Hver er hugur hans í þessu máli öllu saman?



[16:18]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda spurningarnar. Það er alltaf gott að ræða forvarnamál. Við höfum verið að tala mikið um afglæpavæðingu fíkniefna og þess vegna er vert að snúa sér að áfenginu, sem veldur ekki minna böli en fíkniefni. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra talað um að spurning númer tvö, sem ég hef mikinn áhuga á, heyrði undir félags- og húsnæðismálaráðherra. Ég geri ráð fyrir því að lýðheilsustefnan okkar nái þvert yfir ráðuneyti og þess vegna sé þetta á einn eða annan hátt þar undir. Ég kannast við Rannsóknir og greiningu, þ.e. þá rannsókn sem gerð er í grunnskólum reglulega og er af hinu góða og heldur svolítið utan um þetta.

Varðandi frumvarpið sem við eigum eftir að taka hér inn eina ferðina enn og ræða, brennivín í búðir, þá er eitt gott í því. Það er að mínu mati einungis eitt sem gæti staðið alveg sérstaklega og þyrfti ekki að vera þar og það er ákveðið gjald sem á að renna til forvarna. Mér finnst að við ættum að sjá sóma okkar í því að ákveða að gjaldið verði eins hátt eins og þar er lagt til óháð því hvort áfengi fer í verslanir eða ekki.



[16:19]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni, málshefjanda, fyrir þessa umræðu. Ég tek heils hugar undir það að allar rannsóknir á þessu sviði eru mjög mikilvægar til að geta áttað sig á hver vandinn er og hver lausnin er á vandanum af því að við verðum að hafa það alveg á hreinu hvað það er sem hefur mestu áhrifin. Við erum með heilt embætti sem er að skoða þetta, landlæknisembættið, og getur þá svolítið stýrt vinnu sinni eftir því hvað það telur mikilvægast í þessu, og ég hvet það til þess. Það taldi mikilvægt að fjalla um áfengisneysluna í Talnabrunni sínum sem birtist síðasta föstudag. Þar kemur í ljós að kaupmáttur fólks hefur mikil áhrif á áfengisneyslu. Það harmónerar við aðrar rannsóknir í öðrum löndum. Aukinn kaupmáttur á Íslandi er því stærsta ógnin við aukna áfengisneyslu.



[16:21]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í þessu formi er ekki mikill tími til að ræða efnislega allar ágætar spurningar hv. þingmanns. En ég sá mér ekki fært annað en að gera stutta athugasemd við það sem hér er nefnt um bús í búðir eins og við köllum það frumvarp sem varðar áfengi í búðir, það er auðvitað málefni sem við komum til með að ræða miklu meira, eðlilega, enda stórt og mikið málefni, og hér ekki bara lýðheilsusjónarmið á ferð heldur líka spurningar sem varða menningu okkar hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Í því samhengi langar mig að nefna að það er ekki bara magn áfengis sem skiptir máli, það skiptir máli hvernig neyslan er, hvert mynstur hennar er, hvernig vandamálin brjótast út og hvernig hægt er að tækla hvert vandamál.

Þá vil ég einnig nefna annað vegna þess að mér þykir svolítið skrýtið hvernig almenningur og þingmenn líta einhvern veginn ekki á áfengi sem vímuefni, fíkniefni eða dóp. Áfengi er ekkert minna vímuefni eða fíkniefni eða dóp heldur en hass eða kókaín, það er það ekki. Áfengi veldur miklum skaða. Það eru margar hættur við efnið. Við skulum bara horfast í augu við staðreyndir þegar við tölum um þennan málaflokk. En að því sögðu skulum við öll fagna því að það sé þó alla vega löglegt.



[16:22]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hans í umræðuna sem og öðrum hv. þingmönnum sem hér hafa komið upp. Okkar starf, þ.e. Íslands, í þessum málum hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og því tel ég að mjög mikilvægt sé að við höldum rétt á spilunum gagnvart skuldbindingum okkar þar. Landlæknisembættið, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, hefur verið leiðandi í þessum málum hérlendis og á það skilið þökk fyrir okkar árangur að miklu leyti.

Hvað varðar annan lið í fyrirspurn minni er varðar börn og ungmenni sem alast upp hjá einum eða fleiri umönnunaraðilum sem eiga við áfengismisnotkun að stríða þá mun ég taka það til greina og mun setja þá spurningu fram að nýju og beina henni til hæstv. félagsmálaráðherra. Ég þakka umræðuna.



[16:23]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis þessa umræðu, hún er gagnleg og góð. Ég vil hvetja þingmenn til þess að ræða allar hliðar málsins. Það er margt mjög merkilegt í rauninni sem hefur gerst í þessum málaflokki eins og hv. þingmaður hafði orð á hér. Embætti landlæknis heldur og hefur haldið mjög vel utan um þessa þætti. En ef við berum saman t.d. áfengi og tóbak er tóbak í frjálsri sölu alls staðar um allt samfélagið, í hverri búðarholu sem fyrir finnst, en þar höfum náð mjög markvisst að draga úr neyslu, mjög massíft, svo til fyrirmyndar er eins og hv. þingmaður nefndi að árangur Íslendinga í þeim efnum hefur vakið gríðarlega athygli.

Þegar maður horfir síðan á áfengisneyslu, hvernig hún er að breytast, í Talnabrunni sem kom út núna fyrir helgina þá er mjög merkilegt að sjá þar að áfengisneysla hefur dregist saman frá árinu 2007 þegar hún var 7,5 lítrar af hreinum vínanda á mann, en á árinu 2014 er hún 7,2 lítrar af hreinum vínanda á mann. Þetta gerist þrátt fyrir fjölgun útsölustaða, miklu fleiri vínveitingaleyfi og fjölgun ferðamanna. Fyrst og fremst erum við að ná þessu að mínu mati með markvissri vinnu þeirra sem starfa að forvörnum og meðferð þeirra sem glíma við vanda í þessum efnum. Ég tel skilyrðislaust að við getum gert betur í þeim efnum. Hluti af því að ná betri tökum á þessu, fyrir utan forvarnir og meðferðarstarfið, eru líka atriði sem lúta að því hvernig við stýrum neyslu og er þá nærtækast að horfa til verðlagningar eða gjaldtöku af sölu þessa löglega vímuefnis sem ríkið hefur lagt blessun sína yfir.