145. löggjafarþing — 26. fundur
 2. nóvember 2015.
greining og meðferð barna með ADHD.
fsp. PVB, 278. mál. — Þskj. 307.

[16:25]
Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa gert átak með aukafjárveitingu til Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til að stytta bið eftir þjónustu. Jafnframt fagna ég því að skipa eigi vinnuhóp til að skoða í víðu samhengi stöðu þessarar þjónustu. Þrátt fyrir að þetta sé góðra gjalda vert er sérstaklega mikilvægt að um þennan málaflokk sé til langtímastefnumótun, sérstaklega varðandi forvarnir, greiningu og meðferð við ADHD sem er að mati sérfræðinga á því sviði ein mesta heilsuógn og einn dýrasti sjúkdómur eða geðröskun mannkynsins. Þeir telja ADHD eiga stóran þátt í ýmsu sem glímt er við í nútímaþjóðfélagi, vandamálum eins og fíkn, glæpum, námserfiðleikum, fjölskylduvandræðum, slysum og vinnutapi vegna veikinda.

Staðan er grafalvarleg þar sem það liggur fyrir að um 400 börn bíða eftir sérhæfðri og dýrri þjónustu. Ég er ekki að tala um heildarvandann í sambandi við ADHD, en eins og flestum er kunnugt þá bíða ríflega 600 fullorðnir einstaklingar eftir þjónustu ADHD-teymisins á Landspítala. Varðandi börnin er það gríðarlega mikilvægt fyrir alla sem tengjast þessu máli að koma í veg fyrir að vandi þeirra verði svo flókinn, sársaukafullur og dýr sem raun ber vitni. Þess vegna þarf að auka þekkingu og styrkja forvarnir allt frá því að barnið er á unga aldri, t.d. forvarnir innan leikskóla. Í þessu samhengi er þverfagleg samvinna mjög mikilvæg, t.d. samvinna milli leikskóla, heilsugæslu, sálfræðinga og Þroska- og hegðunarstöðvar. Stefnumótun til langs tíma um forvarnir, greiningu og meðferð ADHD þarf að taka mið af því. Þess vegna er mjög miður að í nýjum drögum að geðheilbrigðisþjónustu er hvergi að finna áherslur í stefnumótun á sviði þessarar geðröskunar.

Spurningar mínar til hv. ráðherra eru: Hvaða áform hefur ráðherra um að bæta aðgengi barna að greiningu á taugaþroskaröskuninni ADHD, þ.e. athyglisbresti og ofvirkni? Hyggst ráðherra bæta aðgengi að meðferð fyrir börn sem eru greind með ADHD?

Í ljósi átaks ráðherrans beinast þessar spurningar ekki síst að langtímaáætlunum og stefnumótun sem eru forsenda þess að okkur takist að draga úr gríðarlegum kostnaði og lífsgæðatapi barnanna, aðstandenda og samfélagsins alls, sem fylgir þessum vanda ef ekki verður gripið til fullnægjandi úrræða strax á fyrstu stigum.



[16:28]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni þær fyrirspurnir sem hann hefur beint til mín um þau efni sem hann gerði góð skil í ræðu sinni áðan og lúta í rauninni að því hvaða áform ég hafi uppi um að bæta aðgengi barna að greiningu á ADHD. Því er til að svara, eins og hv. þingmaður nefndi, að ég hef ákveðið að auka fjármuni til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til að fjölga greiningum hjá Þroska- og hegðunarstöðinni um allt að 200 á þessu og næsta ári. Við erum í dag að framkvæma á vegum Þroska- og hegðunarstöðvarinnar um 320 greiningar á ári þannig að þetta verður töluverð viðbót. Ég geri mér góðar vonir um að við þessa viðbót styttist biðin það mikið að börn eigi ekki að þurfa að bíða lengi eftir greiningu, þ.e. ekki lengri tíma en eðlilegt geti talist. Í því sambandi á ég við út frá almennu skipulagi þeirrar starfsemi og innan þeirra marka sem leiðbeiningar um hana gefa tilefni til.

Ég hef sömuleiðis væntingar um að aðgerð sem er í drögum að tillögu að geðheilbrigðisstefnunni, um styrkingu á göngudeild Barna- og unglingageðdeildar, verði samþykkt. Þá yrði hægt að vinna niður bið eftir þjónustu BUGL, en þangað koma líka börn með ADHD, og hluta af flóknari vanda um leið. Þessi tillaga hefur að því er ég best veit ekki komið fyrir sjónir hv. þingmanns vegna þess að við erum enn að vinna með geðheilbrigðisstefnuna.

Varðandi síðari spurningu hv. þingmanns þá er ADHD, eins og ég nefndi áðan, hluti af vanda barna sem glíma við geðraskanir og styrking BUGL mun því gera meðferð fyrir þau börn aðgengilegri. Varðandi önnur börn hefur landlæknir sett fram leiðbeiningar um meðferð. Lögð er áhersla á að skólar og foreldrar grípi til aðferða athyglismótunar. Foreldrar þurfa því fræðslu og Þroska- og hegðunarstöðin er með námskeið fyrir þá um uppeldi barna með ADHD. Sú stöð er líka með námskeið fyrir börn með ADHD. Lyfjameðferð er notuð þegar annað skilar ekki árangri. Það bendir ekkert til þess að börn sem þurfa á lyfjum að halda fái þau ekki í dag.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir því að við fjölgum sálfræðingum í heilsugæslunni. Í drögum að tillögu til þingsályktunar um geðheilbrigðisstefnu, sem mér heyrist margir bíða eftir að komi fram og ég vænti þess að gæti hugsanlega orðið í þessari viku, er tillaga um að fjölga sálfræðingum í heilsugæslunni jafnt og þétt til ársins 2020. Sú aðgerð, ef hún gengur eftir, mun að sjálfsögðu bæta aðgengi að þjónustu sálfræðinga fyrir alla landsmenn og þar með talið börn.

Í drögum að geðheilbrigðisstefnu eru sömuleiðis tillögur um aukinn stuðning við barnafjölskyldur og tillögur með sama markmiði eru líka í drögum að fjölskyldustefnu sem nú er til umsagnar á vef velferðarráðuneytisins. Ef þessar tillögur ganga allar eftir er ég ekki í vafa um að allur stuðningur við börn og fjölskyldur verður meiri og aðgengilegri en nú er og hefur verið á undanförnum árum. Að því gefnu að þetta gangi allt þrautalaust fyrir sig og fari í gegnum þingið og við fáum fjármuni á komandi árum til að byggja aðgerðir á grunni þeirrar stefnumörkunar sem út úr þessu hvoru tveggja kemur þá horfi ég til þess að þjónustan í þessum efnum verði til muna betri á komandi árum en verið hefur.

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi með þessum orðum mínum svarað að mestu þeim spurningum sem hv. þingmaður bar fram.



[16:33]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda og einnig ráðherra fyrir hans svör. Ég er ánægð með þessa viðbót sem hér á að leggja til; mér skilst að þessir fjármunir fækki börnum á biðlista um 200. Ég spyr þá: Er þetta álíka fjöldi og gæti orðið á næsta ári, er þetta sama fjárveiting á báðum árunum? Af því að þetta eru nýir peningar, að mér skilst, hvaðan eru þeir teknir? Ég kom ekki auga á það í fjáraukalögunum en ég játa að ég er bara rétt búin að líta á þau.

Ég hef áhyggjur af því að okkur hefur ekki tekist vel að manna stöður sérgreinalækna úti á landsbyggðinni. Nú talar ráðherra þannig, sem er vel, að fjölga eigi sálfræðingum í heilsugæslunni. Hér er verið að byggja upp hjá Þroska- og hegðunarstöðinni og hjá BUGL, sem er mjög gott, það er mikil þörf, en þjónusta heima í héraði er annað mál. Fólk þarf að leggja land undir fót og þetta er dýrt, kostnaðarsamt og erfitt. Sér hann fyrir sér að annars staðar verði hægt að mæta (Forseti hringir.) þessum fjölskyldum, þetta eru 1000 fjölskyldur sem eru í það heila í bið í kerfinu okkar, úti á landsbyggðinni líka, ekki bara hér á stórhöfuðborgarsvæðinu — öðruvísi en til dæmis með sálfræðingana.



[16:34]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þakkir til hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir það átak sem nú er að fara í gang varðandi greiningar á börnum sem eru mögulega með ADHD, þetta er gríðarlega mikilvægt skref að stíga. Ég vil líka fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur unnið myndarlega vinnu varðandi mótun geðheilbrigðisstefnu en ég var í hópi fjölda þingmanna sem fluttu þingsályktun um að hún yrði mótuð. Það er með geðheilbrigðismálin eins og svo margt annað, við horfum í peningana sem við látum í málaflokkinn en um leið skiptir þetta gríðarlega miklu máli því öflugt starf á þessu sviði eflir lífsgæði fólks og sparar okkur afar mikla fjármuni á móti þótt þeir komi yfirleitt ekki fram í beinhörðum tölum á sama fjárlagaári.

Ég vildi nefna að ég mun leggja fram fyrirspurn til munnlegs svars varðandi stöðu fullorðinna með ADHD, þannig að þó að hér sé ástæða til að fagna (Forseti hringir.) góðum skrefum þá eigum við eftir að taka mörg og mikilvæg skref á næstu missirum.



[16:36]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn sem er mjög mikilvæg og ég gæti ekki verið meira sammála um það hversu mikilvægt er orðið að fram komi langtímastefnumótun í þessum málaflokki. Þá tel ég að við þurfum að nýta okkur þær upplýsingar sem við höfum til að veita fræðslu, bæði fyrir kennara á öllum skólastigum og foreldra því að börnin eru á ábyrgð fullorðinna. Það er okkar að búa til verkfærin til að hægt sé að aðstoða þau áður en í óefni er komið og efla þannig lífsgæði þeirra. Ég tel mjög ánægjulegt að geðheilbrigðisstefnan sé núna að koma fram í dagsljósið og vonandi er að finna í henni áætlanir um þau skref sem við þurfum að taka til þess að efla enn frekar starf á þessu sviði.



[16:36]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem talað hafa í þessari umræðu um mikilvægi þess að veita aukið framlag til Þroska- og hegðunarstöðvar, m.a. til greiningar á athyglisbresti með ofvirkni en einnig á öðrum vanda sem börn eiga við að glíma. Greiningin er mjög mikilvæg en það er náttúrlega enn mikilvægara það sem á eftir kemur, ráðgjöfin og stuðningurinn þannig að hver og einn einstaklingur fái tækifæri til að vera besta útgáfan af sjálfum sér á hverjum degi. Því vil ég leggja áherslu á það að kostnaður getur verið mikill við að taka á vandamálum eftir á en ef hver og einn getur leitað eftir upplýsingum, þekkingu og ráðgjöf eftir því sem þroskanum vindur fram þá getum við sparað ótrúlega mikið fjármagn til lengri tíma.



[16:38]
Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir átakið og greinargóð svör. Ég hjó eftir í máli ráðherra að hann talaði um fræðslu til foreldra, atferlismótun og um mikilvægi þess að upplýsingar um stöðuna, meðferðina og allt sem tilheyrir þessu væru sem gleggstar. Ég vildi leggja áherslu á þann þátt og hvetja hann til þess að starfa sem mest að því að þessir þættir verði efldir. Í grunnskólunum á síðustu árum, tugum ára, höfum við séð að þeir foreldrar ná langmestum árangri sem virkilega leggja sig í verkefnið. Úti á landi höfum við dæmi um foreldra sem keyra hingað suður til að vera á námskeiðum, til að afla sér allrar mögulegrar þekkingar, vera svo í teymisvinnu með skólanum og þannig næst árangur. Þó að læknar og lyf séu mjög oft nauðsynleg og gagnleg þá er ekki síður nauðsynleg vinnan þar sem allir aðstandendur og kennarar koma saman með reglubundnum hætti, þar næst langbestur árangur.



[16:39]
Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svörin og eins þeim sem tóku þátt í umræðunni. Þetta er mjög gagnleg og góð umræða. Ég hvet ráðherrann eindregið til þess að leggja þessum málaflokki áframhaldandi stuðning með langtímaáætlun í huga. Eins og hefur komið fram í málflutningi þingmanna þá er gríðarlega mikilvægt að vera með langtímaáætlun í þessum efnum. Hann þarf að berjast að mínum dómi með kjafti og klóm fyrir því að inn í þennan málaflokk fáist það fjármagn sem dugar til þess að vinna á allt of löngum biðlistum á sem skemmstum tíma. Hann þarf að kalla að borðinu alla þá góðu sérfræðinga sem við höfum á sviði þessa sjúkdóms — menn greinir á um hvort þetta er sjúkdómur en þetta er geðröskun — og eins þá sem tengjast velferð barna á einn eða annan hátt til að auka þekkinguna, forvarnir og þverfaglega samvinnu á sviðinu svo að langir biðlistar eftir sérhæfðri og dýrri þjónustu heyri sögunni til. Það er lykilatriði.

Það er alltaf spurning hvað er eðlileg bið. Ég held að engin bið eigi að vera í þessum málaflokki eins og kannski mörgum öðrum. Af eigin reynslu við að vinna í skóla og eftir að hafa séð hvernig þetta gengur fyrir sig þá finnst mér ekki mega vera nein bið því að það kostar okkur gríðarlega mikla peninga.

Ég lagði líka fram fyrirspurn í vor til hæstv. innanríkisráðherra um ADHD í sambandi við afplánun fanga. Í ljós kom að um 60% fanga voru með þessa röskun, ADHD og geðraskanir á öðru sviði og jafnvel málþroskaraskanir. Þetta eru ungir einstaklingar sem hafa farið út af brautinni vegna þess að þeir fengu ekki þá aðstoð sem þeir þurftu strax á fyrstu stigum. Það er lykilatriði.

Ég vil líka hvetja hæstv. ráðherra til þess að hlutast til um að í nýrri stefnu í geðheilbrigðisþjónustu verði sérstaklega tekið mið af málefnum sem snerta ADHD. Hvað sem mönnum kann að finnast um þetta, sumir kalla þetta tískufyrirbrigði, ég er ekki einn af þeim vegna þess að ég er sjálfur með ADHD, þá er gríðarlega mikilvægt að við tökum sérstaklega á þessu ásamt öllum öðrum geðsjúkdómum.



[16:41]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna um þetta mál og þær spurningar sem hv. þingmaður varpaði hér fram.

Vissulega og skiljanlega eru skiptar skoðanir um alla skapaða hluti í þessum efnum. Ég heyri að það eru miklar væntingar til geðheilbrigðisstefnunnar sem kemur innan tíðar í þingið. Það er fagnaðarefni að þingmenn vilji fá að vinna með hana. Ég er á sama tíma fullviss um að hún mun ekki svara óskum eða þörfum allra sem um hana fjalla. Það verður þá þingsins að gera á henni þær breytingar sem það kann og vill gera. Þó að geðheilbrigðisstefnan hafi verið unnin í mjög víðtæku samráði þá gildir það sama um hana og öll mannanna verk að þau eru misjafnlega úr garði gerð.

Ég vil leggja áherslu á það að sú aðgerð sem gripið var til hér til að stytta biðlistana tekur lengri tíma en bara tvo mánuði fram að áramótum. Við horfum til þess að þessi aðgerð muni stytta biðlistana ef við vinnum að minnsta kosti 200 fleiri greiningar en til stóð.

Þegar þessi umræða kom upp leituðum við í skúffunum og skröpuðum saman fyrir þessu í ráðuneytinu frekar en að koma fram með einhverja fjáraukalagabeiðni. Ég vildi skoða alla möguleika á því að fjármagna þetta af safnliðum ef við ættum eitthvert svigrúm þar. Það gekk sem betur fer.

Ég vil nefna það líka að BUGL og Þroska- og hegðunarstöðin þjóna öllu landinu. Ég er algjörlega meðvitaður um kostnað fólks við að sækja þetta sérhæfða úrræði um langan veg. Við verðum að gera ráð fyrir að okkur takist að byggja upp á einhverjum tíma þverfaglega teymisvinnu sem geri það mögulegt að fólk geti fengið meiri þjónustu heima í héraði. (Forseti hringir.) BUGL hefur tekist í ágætri samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri að koma fyrir sérhæfðri þjónustu (Forseti hringir.) þar.

Enn og aftur: Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu.