145. löggjafarþing — 28. fundur
 4. nóvember 2015.
störf þingsins.

[15:04]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Rekstrarfélag Stjórnarráðsins fékk beiðni frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu um eyðingu pósthólfa 11 fyrrverandi starfsmanna, þar með talið hjá Jónínu S. Lárusdóttur, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í viðskiptaráðuneytinu. Guðmundur H. Kjærnested, framkvæmdastjóri rekstrarfélagsins, staðfesti í tölvupósti til Morgunblaðsins að hvorki upprunalegu pósthólfin né afrit þeirra væru til. Jónína var ráðuneytisstjóri árin 2007–2009. Þetta finnst mér gríðarlega alvarlegt mál því að fram kemur að tölvupóstum Jónínu hafi verið eytt þegar sérstakur saksóknari kannaði hvort lögskilið samþykki ráðherra væri fyrir gjaldeyrisreglum Seðlabankans. Ég verð að spyrja: Hvernig stendur á því að í stjórnsýslunni sé hægt að fjarlægja gögn á þennan hátt án þess að hægt sé að bregðast við því?

Í ljósi þessa vil ég hvetja þingmenn til að kynna sér þetta því að lítið hefur verið um þetta fjallað og að við tryggjum að umboðsmaður Alþingis fái fjármuni á fjárlögum til að geta farið í frumkvæðisrannsókn um málið. Þetta er grafalvarlegt. Þetta er á þeim tíma sem hrunið er og í eftirmálum þess. Ekki er hægt að vita hvað gerist í ráðuneytinu þegar tölvupósthólf ráðuneytisstjórans hverfur.

Ég vil því skora á þingmenn að tryggja að umboðsmaður Alþingis fái þá fjármuni sem hann þarf til að geta rækt skyldu sína. Ég tel jafnframt að þetta mál hljóti að eiga erindi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og ég mun kalla eftir því að fá einhver svör, því að þó svo að komin séu til ný lög þá virðast þau ekki hafa verið innleidd enn þá, sem er líka alvarlegt mál.



[15:06]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér vexti og verðtryggingu. Sú yfirlýsing peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands að hækka vexti um 0,25% og fara með stýrivexti í 5,75% ætti ekki að koma neinum á óvart. Verðbólguhorfur hafa í raun ekki breyst og þessi ákvörðun er í fullu samræmi við fyrri yfirlýsingar og skilaboð frá peningastefnunefndinni og Seðlabankanum. Sú staðreynd að þetta er helsta stjórntæki Seðlabankans er í raun ekki aðalatriðið heldur sú vegferð sem fram undan er. Þær aðgerðir og ákvarðanir sem við tökum nú og á næstu missirum í fjármálastjórn og stefnu í gegnum fjárlögin og aðrar ákvarðanir þar að lútandi á aðra löggjöf hefur afgerandi áhrif á fjármál ríkisins. Agi og aðhald er það sem til þarf, en margir hafa bent á að nægilegt aðhald skorti nú þegar í fjárlögum.

Framtíðin mun markast mjög af bættum kjörum í kjölfar kjarasamninga og að aukinn hagvöxtur sem flestar spár gera ráð fyrir byggi meðal annars á innlendri eftirspurn. Seðlabankinn hefur þegar boðað aukið aðhald peningastefnunnar, það þýðir auðvitað bara eitt, að stýrivextir verði hækkaðir jafnt og þétt. Auðvitað mun framvinda og þróun losunar fjármagnshafta hafa áhrif og svo ákvörðun um beitingu annarra tækja en vaxta, eins og beiting bindiskyldu. Í öllu falli getum við ekki treyst á lágt olíuverð og að áframhaldandi styrking krónunnar haldi endalaust aftur af þörf á frekari stýrivaxtahækkunum í auknum og hraðari takti en hingað til.

Hæstv. ríkisstjórn er enn að fylgja tímalínu er varðar afnám verðtryggingar. En ljósin blikka á kunnuglegan vítahring, virðulegi forseti, að ráðstöfunargetan og kaupmátturinn hverfi í verðtryggðan skuldabing og enn ein uppsveiflan verði fjármögnuð á skuldahlið heimilanna.



[15:08]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að greina Alþingi frá því að í október, í næstsíðustu viku, var þing Alþjóðaþingmannasambandsins í Genf. Það var meðal annars helgað flóttamönnum. Við ræddum um málefni þeirra og hvernig við gætum með einum eða öðrum hætti mætt þeim af meiri mannúð. Sú sem hér stendur, sem er formaður Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, flutti ræðu þar að lútandi.

Það sem var hins vegar merkilegra á þessu þingi var að í þriðju nefndinni, sem fjallar um mannréttindi, var Birgitta Jónsdóttir frumkvöðull og framsögumaður að ályktun ásamt þingmanni frá Suður-Kóreu. Þeirri ályktun fylgdi hv. þingmaður eftir af stakri prýði og mikilli einurð og vann í henni hér heima sem og Aðalheiður Ámundadóttir sem var með henni í Genf. Þær svöruðu ábendingum sem komu og lagfærðu ályktunina þannig að hún var ekki bara samþykkt í þriðju nefndinni og þaðan út heldur fékk hún líka samþykkt á hinu stóra sviði Alþjóðaþingmannasambandsins í Genf. Það mun vera, virðulegur forseti, í fyrsta sinn sem íslenskur þingmaður kemur ályktun áleiðis og fær hana samþykkta jafnt í nefnd og á hinu stóra sviði í Genf. Þessi ályktun Birgittu Jónsdóttur og þingmannsins frá Suður-Kóreu fjallaði um hennar stóra og mikla áhugamál, sem eru mannréttindi og friðhelgi einkalífs í stafrænum heimi jafnt á við raunheima.

Ég tel ástæðu, virðulegur forseti, að upplýsa þingið um þetta um leið og ég vil enn og aftur óska hv. þm. Birgittu Jónsdóttur til hamingju með þessa ályktun og framlag hennar fyrir hönd Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins á þessum fundi í Genf.



[15:10]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég minntist á það í vikunni að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins hefði verið samþykkt að selja RÚV. Á dögunum var kynnt skýrsla um RÚV og eru skýrsluhöfundar góðvinir hæstv. menntamálaráðherra. Það eitt gerir trúverðugleika þessarar skýrslu ekki nægjanlegan, að mér finnst. Það er til dæmis ekki gott að trúnaðarupplýsingum um rekstur RÚV sé lekið í samkeppnismiðla, ég tel það ekki eðlilegt.

Þessi ríkisstjórn hefur látið kné fylgja kviði gagnvart RÚV frá því að hún tók við. Hún reif upp stjórnina og skipaði hana pólitískt á ný sem búið var að gera breytingar á í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það virðist vera markmið hennar að reyna að veikja þessa góðu stofnun, sem hefur fylgt okkur frá 1930, svo að það komi að því að menn geti sagt: Ja, þetta er orðin svo veik stofnun að það er bara best að við losum okkur við hana og látum almenna markaðinn sjá um þetta.

Allir hollvinir Ríkisútvarpsins þurfa að vera á verði. Stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa á dögunum og undanfarnar vikur kynnt mjög metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir landsmönnum. Þar er lögð áhersla á efni fyrir börn og ungmenni, á þjónustu við hinar dreifðu byggðir og það að vinna úr þeim menningarverðmætum sem stofnunin geymir, því að þetta er mikil menningarstofnun. Þessi framtíðarsýn hefur fengið góðar viðtökur almennings í landinu. Það er þess vegna óskiljanlegt að stjórnvöld ætli að reyna að brjóta á bak (Forseti hringir.) þessa góðu og miklu stofnun, RÚV, með þessum hætti. Ég segi bara: Menn mega skammast sín.



[15:13]
Elín Hirst (S):

Herra forseti. Nú styttist í einhvern mikilvægasta fund samtímans en það er loftslagsráðstefnan í París sem hefst síðar í þessum mánuði. Það er talið að um 40.000 manns muni sækja fundinn. Það er önnur nálgun nú í París en hefur verið lögð áhersla á áður og það er sú nálgun að með þátttöku sveitarfélaga, fyrirtækja og félagasamtaka, ekki aðeins fulltrúum ríkisvaldsins, sé hægt að ná góðu samkomulagi. Þetta er að mínum dómi mun vænlegri aðferð til árangurs.

Menn muna að loftslagsfundurinn sem haldinn var í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum var því miður það sem kallað hefur verið diplómatískt slys. En nú veit allur heimurinn að við höfum ekkert um annað að velja, við verðum að draga úr gróðurhúsaáhrifum vegna útblásturs ef við ætlum ekki að granda okkur sjálfum á næstu áratugum.

Það sem byggir einnig undir bjartsýni nú um að árangur náist er að Kínverjar eru það ríki sem losar mest af CO2 í heiminum og þeir hafa gefið yfirlýsingu um að þeir ætli að setjast að samningaborðinu. Ísland getur látið mikið að sér kveða á ráðstefnunni í París. Á fundinum verður norrænn kynningarbás þar sem Ísland mun kynna jarðhita, landgræðslu, loftslagsvísindi og fleira. Við erum með hæsta hlutfall endurnýjanlegrar orku í heiminum. Hér eru gríðarlegir möguleikar á CO2-bindingu með skógrækt og landgræðslu og síðast en ekki síst eru hér gríðarlegir möguleikar í orkuskiptum í samgöngum þar sem við gætum farið yfir í vistvæna sjálfbæra orkugjafa og sparað með því útlosun og auðvitað mjög mikinn gjaldeyri.



[15:15]
Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Bresk stjórnvöld kynntu í hádeginu frumvarp sem er ekki bara pólitískt sprengiefni heldur hefur það að gera með grundvallarmannréttindi Breta. Samkvæmt þessu nýja frumvarpi sem Theresa May innanríkisráðherra kynnti verður gerð krafa um að netfyrirtæki geymi í eitt ár allar upplýsingar um þær netsíður sem breskir einstaklingar heimsækja og að lögregla og öryggisstofnanir geti hvenær sem er kallað eftir þessum upplýsingum sé talin þörf á. Til viðbótar þrýsta bresk stjórnvöld mjög á að fá aðgang að samskiptaforritum eins og til dæmis Whatsapp þannig að hægt sé að njósna um samskipti einstaklinga í gegnum þessi forrit. Bresk stjórnvöld eru hér væntanlega að opna möguleika á einum mestu persónunjósnum sem þekkjast í vestrænu ríki. Menn leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál.

Rökin á bak við þetta frumvarp eru þau að um nauðsynlega forvörn sé að ræða til að hægt sé að hafa upp á hryðjuverkamönnum, barnaníðingum og öðrum slíkum. Með því að skoða netnotkun grunaðra einstaklinga aukist möguleiki á að hægt sé að hafa hendur í hári þeirra. Andstæðingar benda hins vegar á að mjög ríkar heimildir til persónunjósna séu þegar fyrir hendi í Bretlandi og að reynslan hafi sýnt að slíkar upplýsingar séu alls ekki öruggar hjá netfyrirtækjum. Þvert á móti hafi hakkarar margsinnis náð að komast yfir persónuupplýsingar á netsíðum og jafnvel misnotað þær í ágóðaskyni.

Nú ætla ég ekki að skipta mér sérstaklega af breskum stjórnmálum en þetta frumvarp vekur mann til umhugsunar um hvert þessi mál stefna í alþjóðlegu samhengi. Stóri bróðir teygir sig sífellt lengra og það er full ástæða fyrir okkur að fara varlega í þessu sambandi. Við viljum ekki að hvert skref okkar sé skráð og að njósnað sé um allar okkar athafnir. Þannig samfélag viljum við ekki og vonandi fylgjum við ekki fordæmi Breta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:17]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég held að staða flóttafólks víða um heim hljóti að taka á okkur öll. Nú stendur okkur nærri að bregðast við og aðstoða fjölskyldu sem verið hefur í fréttum undanfarið, síðast í dag, þ.e. sýrlensku fjölskylduna. Nú eru systurnar byrjaðar í skóla og fjölskyldan stendur frammi fyrir því að vera send aftur til Grikklands þar sem hún átti í rauninni ekki val um að fá hæli vegna þess að fólkið hefði að öðrum kosti verið handtekið. Þetta fólk vill ekki vera í Grikklandi enda vitum við að þar er ástandið hreint ekki gott og ekki góður kostur þegar við getum boðið upp á mun betra samfélag hér á Íslandi.

Ég hef því óskað eftir því við formann allsherjar- og menntamálanefndar að við komum saman til fundar og við ræðum stöðu þessara mála. Það er hægt að veita fjölskyldunni dvalarleyfi, til dæmis á grundvelli mannúðarástæðna. Við þurfum að minnsta kosti að ræða þau mál. Það er líka æskilegt að við fáum til okkar barnaverndaryfirvöld, að við fáum UNICEF til okkar og aðra þá sem koma að aðstoð gagnvart börnum, því að ég hef sérstakar áhyggjur af þeim og ég trúi því að við deilum þeim mörg. Ég tel að við getum gert miklu meira en að við gerum nú.

Rakið hefur verið í fjölmiðlum hvernig fjölskyldan hefur lagt sig fram um að aðlagast og reynt að læra tungumálið, og þá stuttu stund sem systurnar hafa verið á leikskóla hefur þeim verið vel tekið, þær hafa staðið sig vel og lært nokkur orð á íslensku, þannig að það er augljóst að fjölskyldan er tilbúin að leggja mikið á sig til að fá að vera hér. Nú er það undir okkur komið, íslenskum stjórnvöldum, að afgreiða mál fjölskyldunnar með farsælum hætti.



[15:19]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er einn af fjórum alþingismönnum sem sátu allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna á dögunum og við fengum þar að kynnast hinu merka starfi sem fram fer innan Sameinuðu þjóðanna. Við fengum góða kynningu á heimsmarkmiðunum, en eins og kunnugt er hafa Sameinuðu þjóðirnar, 193 ríki, öll náð saman um heimsmarkmið um sjálfbæra þróun. Heimsmarkmiðin eru 17. Þau eru stór og víð, en með hverju og einu þeirra fylgja nokkur undirmarkmið sem skýra þau enn frekar.

Mig langar til að telja upp heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun. Þau eru eftirfarandi:

Engin fátækt, ekkert hungur, góð heilsa, menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, hreint vatn og salernisaðstaða, sjálfbær orka, góð atvinna og hagvöxtur, nýsköpun og uppbygging, aukinn jöfnuður, sjálfbærar borgir og samfélög, ábyrg neysla, verndun jarðar, líf undir vatni, líf á landi, friður og réttlæti og alþjóðleg samvinna.

Þetta eru sannarlega verðug markmið. Ég segi, herra forseti, að mér finnst nánast kraftaverk að 193 ríki hafi náð saman um þessi merku markmið.

Nú er verið að vinna að viðmiðum fyrir þjóðirnar til þess að fara eftir til þess að þær geti metið hvernig þeim tekst til við að ná þessum markmiðum fram til ársins 2030. Viðmiðin verða auðvitað öll á þessum þremur sviðum sjálfbærrar þróunar, þ.e. að meta efnahagsleg, félagsleg og umhverfisleg áhrif hvers markmiðs. Við höfum þarna verk að vinna. Mér finnst það afar spennandi og hlakka til að taka á því með stjórnvöldum við að útfæra þessi markmið.



[15:21]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ákvörðun Seðlabanka Íslands frá því í morgun um að hækka stýrivexti í 5,75% er grafalvarleg. Þetta er í þriðja sinn sem bankinn hækkar stýrivextina á skömmum tíma og það er einhvern veginn eins og Seðlabankamenn séu að bíða eftir verðbólgu sem ætlar að láta bíða eftir sér. Þeir henda því einu og einu spreki á eldinn til að reyna að kynda undir verðbólgunni með þessari ákvörðun, rétt eins og þeir gerðu í vor þegar þeir bjuggu til kostnaðarverðbólgu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Málið er hins vegar að það er engin þörf á því og engin vissa fyrir því og ekkert útlit fyrir að hér verði verðbólga á næstu mánuðum sem muni um, vegna þess að við eigum enn þá inni vöruverðslækkun vegna styrkingar krónu. Það mundi til dæmis muna um það nú fyrir jólin ef fatnaður á Íslandi lækkaði um svona 5–10%, eins og krónustyrkingin gefur fulla ástæðu til að ætla, og það gæti þess vegna virkað vel inn í þær verðbólgumælingar sem hér eru. Verðbólgan er núna 1,8% á ársgrundvelli. Ef við tökum íbúðarhúsnæðishækkun frá er hún nánast á núllinu. Hagvöxtur er 4,6% og menn eru bara lafhræddir vegna þessa.

Á Írlandi er hagvöxtur 6% um þessar mundir. Verðbólgan er undir núlli eða við núllið. Við hvaða stýrivexti búa Írar? 0,025% eða eitthvað slíkt. Ég skil bara ekki hvernig menn tala um verðbólgu hér, þar á meðal seðlabankastjóri, sem segir: Hún kemur nú samt þótt hún sé ekki komin, og í leiðinni er enn verið að bjóða erlendum aðilum til vaxtamunarveislu. Það á að fara að selja aflandskrónur í janúar upp á tvöhundruð og eitthvað milljarða, en hvað er búið að gerast á síðustu mánuðum? Það er að safnast upp önnur snjóhengja. Hún er reyndar bara skafl núna, 40 milljarðar, en hún heldur áfram að vaxa. Ætla menn að safna í aðra snjóhengju? Hvenær ætli þessir 40 milljarðar og fleiri sem á eftir fylgja verði boðnir upp? Þetta er algerlega óþolandi ákvörðun, algerlega.



[15:24]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum líklega flest slegin yfir Kastljósi í gærkvöldi þar sem fjallað var um mál tveggja kvenna með þroskahömlun sem beittar voru kynferðislegu ofbeldi. Erlendar rannsóknir sýna að fatlaðar konur eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi en aðrar konur og nýjar íslenskar rannsóknir sýna að það sama á við hér á landi. Það er nefnilega til heilmikil þekking á því ofbeldi sem fatlaðar konur eru beittar og við sem löggjafarvald hljótum að taka mið af því í vinnu okkar.

Mig langar í þessu samhengi að benda á skýrslu sem unnin var fyrir velferðarráðuneytið árið 2013 og nýja skýrslu, Ofbeldi gegn fötluðum konum og aðgengi þeirra að stuðningsúrræðum. Í viðauka með skýrslunni er að finna tillögur að aðgerðum, m.a. að stefnumörkun stjórnvalda. Mig langar að tæpa á nokkrum þessara tillagna:

Aukið fjármagn til sérhæfðra stuðningsúrræða, þar sem fatlaðar konur eiga oft erfitt með að nýta sér þann stuðning sem ófatlaðir þolendur ofbeldis eiga kost á. Það á ekki hvað síst við um fatlaðar konur sem búa á strjálbýlum svæðum. Þetta er kannski nokkuð sem hv. fjárlaganefnd ætti að skoða. Aukin kynfræðsla. Stjórnvöld verða að tryggja kynfræðslu fyrir fatlað fólk í skólum. Þá þarf að semja ný lög eða bæta eldri löggjöf í því skyni að auðvelda fötluðum konum þátttöku í málarekstri, efla þekkingu lögfræðinga, lögreglu og dómara á sviði fötlunar og ofbeldis gegn fötluðum konum. Allt eru þetta verkefni fyrir hæstv. menntamálaráðherra og hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Síðast en ekki síst er bent á að tryggja þarf að löggjöf gegn mismunun taki í meira mæli á því að tryggja rétt fatlaðra kvenna.

Hv. alþingismenn. Það er fjölmargt sem bæta þarf í þessum málaflokki og það er okkar að sjá til þess að það verði gert, það er til nóg af fræðilegum efniviði sem leiðbeinir okkur í þeirri vinnu.



[15:26]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú er að vaxa úr grasi kynslóð neytenda sem alist hefur upp við mun meiri umræðu um umhverfismál en áður var. Þetta er ný kynslóð sem tengir gæði við sjálfbærni og gerir ríkar kröfur á því sviði. Fyrirtæki finna sífellt fyrir auknum kröfum um hreint umhverfi og rekjanleika vara. Það er því ánægjulegt að umhverfisdagur atvinnulífsins, sem haldinn var í fyrsta sinn nú á haustdögum, tókst með miklum ágætum. Þar komu saman rúmlega 200 manns úr atvinnulífi, stjórnmálum og stjórnkerfi og ræddu sjálfbæra nýtingu auðlinda og samspil umhverfismála og einstakra atvinnugreina. Þrátt fyrir að aðila innan samtakanna greini oft á um ýmislegt þar sem hagsmunir fara ekki alltaf saman má þó finna mikinn samhljóm meðal þeirra þegar kemur að umhverfismálum.

Þá hafa stofnanir ríkisins í auknum mæli unnið að umhverfisvænni rekstri og vistvænum innkaupum frá árinu 2013. Helstu niðurstöður könnunar sem gerð var í mars síðastliðnum á vegum stýrihóps um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur, sem skipaður var af umhverfis- og auðlindaráðherra, eru að almennt hefur hvers konar umhverfisstarf aukist. Stofnanir hafa sett sér umhverfisstefnu og markmið auk þess sem þær flokka sorp í meira mæli en áður var. Þá hefur mikil aukning orðið í gerð samgöngusamninga.

Til að bregðast við óskum forstöðumanna um aukna fræðslu og einföld verkfæri til að geta unnið að vistvænum rekstri var verkefnið Græn skref í ríkisrekstri sett á fót. Nú þegar hafa 23 stofnanir skráð sig í það og ánægjulegt er að sjá að 78% stofnana þekkja nú þegar til verkefnisins og 56% þeirra segjast ætla að taka þátt í verkefninu. Þá sögðu forstöðumenn jákvæð áhrif umhverfsstarfs vera mörg, svo sem að starfsánægja starfsfólksins hafi aukist, fjármunir hafi sparast, samgöngusamningar hafi hvatt til vistvænni ferðamáta og aukinnar hreyfingar og að ímynd stofnunarinnar hafi batnað. Þetta eru allt liðir í því að móta langtímahugsun og heildræna sýn á nýtingu auðlinda okkar (Forseti hringir.) og skila auðlindum í jafn góðu eða betra ástandi til komandi kynslóða.



[15:28]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins hefur talsvert verið til umfjöllunar og það var athyglisvert að heyra Eyþór Arnalds, formann úttektarnefndarinnar, sem hefur mikla reynslu af rekstri sem kunnugt er, fara yfir það í útvarpinu í morgun að ekki væri verið að eyða þar miklu í efnisframleiðsluna í sjálfu sér, að nefndin teldi ekki að verið væri að verja neitt óeðlilega miklu til efnisframleiðslunnar.

Ég dreg það fram hér vegna þess að auðvitað er ákaflega mikilvægt að fá staðfestingu á því að dagskrárefni hjá Ríkisútvarpinu sé framleitt með hagkvæmum og eðlilegum hætti. Það kann hins vegar vel að vera að gerð hafi verið mistök við stofn efnahags félagsins, við það að hlaða að lífeyrisskuldbindingum eða við ákvarðanir um einhverjar fjárfestingar í tæknilegum efnum, en það eru þá ákvarðanir sem teknar eru af stjórn Ríkisútvarpsins á ábyrgð Alþingis og fjárveitingavaldsins. Og það er mikilvægt að hin eðlilega og heilbrigða dagskrárgerð, sem ekki er verið að kosta óeðlilega miklu til að mati nefndarinnar, sé ekki látin líða fyrir það, að sparað sé fyrir offjárfestingum í dreifikerfi í dagskránni. Fjárveitingavaldið verður auðvitað að axla ábyrgð á þeim ákvörðunum sem menntamálayfirvöld og stjórn Ríkisútvarpsins hafa tekið í þessum efnum og tryggja að hægt sé að halda áfram hagkvæmri og eðlilegri dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu fyrir alla landsmenn.

Það er líka mikilvægt fyrir lýðræðið að fyrirheit menntamálaráðherra í því efni nái fram að ganga, en að tilraunum formanns fjárlaganefndar til að kúga fjölmiðla til hlýðni með því að leggjast fyrir tillögur menntamálaráðherra verði ekki haldið uppi af öðrum þingmönnum hér í salnum.



[15:31]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mörgum hefur þótt erfitt að finna gagnrýni á nýútkomna skýrslu um Ríkisútvarpið, skýrslu sem skilaði fullri sátt þriggja háskólamenntaðra einstaklinga sem eru með mikla reynslu, (Gripið fram í.)skýrslan var í fullri sátt. Gagnrýnin sem hefur komið á skýrsluna hefur kannski einna helst falist í því að einn nefndarmanna sé sellóleikari. Hvað er það sem við eigum að vera að ræða hér? Er það ekki hvert mikilvægasta hlutverk Ríkisútvarpsins er, hvernig því er náð og hvernig best sé að ná því? Er aðalatriðið samt ekki það að við erum að tala um almannafé og hvernig ætlum við að verja því almannafé? Hvorum megin við Bústaðaveginn ætlum við að verja fénu? Í áframhaldandi uppbyggingu á Ríkisútvarpinu, bara til þess að vernda þá stofnun, eða hinum megin við Bústaðaveginn við uppbyggingu heilbrigðiskerfisins? Ég held að það sé umræðan sem við eigum að taka, hvernig við ætlum að nota almannafé.



[15:32]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Stundum er sagt að heimurinn fari minnkandi. Ég er ósammála því, ég vil meina að heimurinn fari stækkandi. Hann stækkar hratt og hann stækkar mikið og það er mikið gleðiefni. Það sem er að gerast núna á 21. öldinni er með gleðilegri þróunum sem ég veit til að hafi orðið í mannkynssögunni og það er að við erum öll að verða tengdari, þjóðir og fólk úti um allan heim. Það þýðir að við höfum meiri tilhneigingu til þess að kynnast fólki fyrir utan landsteinana og höfum meiri tilhneigingu til þess að flytja milli landa.

Við forvitna fólkið lendum hins vegar oft í því þegar við flytjum á milli landa að vera ekki velkomin. Við erum ekki velkomin vegna þess að í landinu sem við fluttum til er löggjöf sem er beinlínis hönnuð til þess að halda fólki frá því. Við búum við slíka löggjöf hér á landi.

Það er mikill munur á upplifun hins almenna Íslendings á innflytjendalöggjöf eða útlendingalögum á Íslandi og því sem raunin er. Fólk heldur jafnvel að það sé til eitthvað sem heitir almennt dvalarleyfi, en það er ekki til. Það heldur jafnan að ef fólk kemur hingað, borgar skatta, vinnur og forðast afbrot og því um líkt þá geti fólkið verið hér. Það er ekki tilfellið nema það komi frá EES-svæðinu. Eina auðvelda leiðin til að flytja til Íslands er að vera frá EES-svæðinu, að öðru leyti er það erfitt. Það er óháð því hvort við erum að tala um flóttamenn eða hælisleitendur eða bara fólk sem kynntist einhverjum eða langar að læra tungumálið. Það er til fólk sem flytur hingað til þess að læra íslensku, til þess að aðlagast íslensku samfélagi, vegna þess að því þykir landið okkar fallegt og skemmtilegt og þjóðin okkar furðuleg og skemmtileg í kjölfarið. En það má ekki vera hérna. Af hverju? Af því bara, virðulegi forseti. Af því bara. Það er löggjöfin sem við búum við í dag.

Mig langar að hvetja hið háa Alþingi og almenning til þess að ræða útlendingalögin með miklu opnari hug en við gerum núna og ekki af einhverri ölmusu heldur vegna þess að við trúum því að stækkandi heimur sé í grundvallaratriðum jákvæð þróun sem við eigum að styrkja frekar en hitt.



[15:34]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að fagna þverfaglegu samráði á landsvísu til að bæta samvinnu og verklag í málum sem tengjast ofbeldi og afleiðingum þess í samfélaginu. Samstarfið hófst formlega með sérstökum fundi í síðustu viku. Samstarfið byggir á yfirlýsingu sem félags- og húsnæðismálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og innanríkisráðherra undirrituðu í desember í fyrra. Þar lýsa ráðherrarnir einhug um að vinna saman gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess, að auka fræðslu og forvarnastarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsóknir ofbeldismála.

Samræðunni á landsvísu er ætlað að ná til félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds. Í yfirlýsingunni er tilgreint að samstarfið muni beinast að aðgerðum til að sporna við ofbeldi gegn börnum, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi og ofbeldi gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Þá tekur starfið líka til hatursfullrar orðræðu sem hvetur til ofbeldis eða annarrar refsiverðrar háttsemi sem er lítillækkandi eða ógnandi í garð einstaklinga eða hópa.

Á síðustu árum höfum við vissulega komist áfram í umræðunni um ofbeldi eða frá því að ræða það ekki, eiga ekki orð yfir það og jafnvel að trúa því að ofbeldi eigi sér aldrei stað í nágrenni okkar yfir í að ræða hinar ólíklegustu birtingarmyndir bæði í fjölmiðlum og við eldhúsborðið heima. En staðreyndin er sú að við eigum enn þá langt í land í vinnunni gegn ofbeldi, samanber umfjöllun Kastljóss þessa viku og ræðu hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur áðan.

Um leið og ég fagna samráðinu sem nú er hafið tel ég mjög mikilvægt að löggjafinn fylgist með framvindu vinnunnar og fái upplýsingar um hugsanlega hnökra á löggjöfinni sem kunna að koma (Forseti hringir.) í ljós samhliða markvissri vinnu á breiðum grunni gegn ofbeldi.