145. löggjafarþing — 30. fundur
 10. nóvember 2015.
NPA-þjónusta við fatlað fólk.

[14:12]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og kannski lengi hefur verið fyrir séð er nú allt í uppnámi varðandi yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga og sérstaklega gengur illa með NPA-samstarfsverkefnið. Samband íslenskra sveitarfélaga mætir ekki á fundi um verkefnastjórn um NPA vegna deilna um kostnaðarskiptingu og bíður enn svars við erindi sínu til ráðherra frá því í ágúst sl.

Lögum samkvæmt á að lögfesta NPA sem eitt meginform þjónustu við fatlað fólk. Alþingi er búið að taka ákvörðun um það og hefur falið framkvæmdarvaldinu að vinna að því.

Þær deilur sem nú eru milli ríkis og sveitarfélaga snúast að sjálfsögðu um peninga. Á meðan þær deilur standa þurfa einstaklingar með NPA-samninga að minnka við sig þjónustu og jafnvel eru dæmi um fólk sem hefur þurft að minnka við sig vinnu þar sem NPA-þjónustan þeirra er forsenda atvinnuþátttöku. Þar að auki er mikið óöryggi hjá þeim sem eru með NPA-samninga því að þjónustan er forsenda þess að þau hafi frelsi til að stjórna eigin lífi. Enginn vill missa slíkt frelsi.

Hvað hyggst hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra gera til að leysa þessa kostnaðardeilu við sveitarfélögin? Má fólk með NPA-samninga treysta því að það haldi frelsi sínu til að stjórna eigin lífi áframhaldandi?



[14:14]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir fyrirspurnina. Við vorum að vonast til, varðandi heildarendurrmatið á yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks, að niðurstaða um tekjuskiptinguna milli ríkis og sveitarfélaga mundi liggja fyrir. Það liggur hins vegar fyrir að svo verður ekki þannig að ég mun á næstu dögum fá skýrsluna frá endurmatsnefndinni þar sem rammað verður af hver er hinn aukni kostnaður sem hefur raunverulega orðið á þessu tímabili frá því að málaflokkurinn fór yfir til sveitarfélaganna.

Eins og hv. þingmaður nefndi í fyrirspurn sinni þá er NPA tilraunaverkefni og settir voru sérstakir fjármunir í það. Tilraunaverkefnið fór síðan hægar af stað en vonir stóðu til og þar af leiðandi tók þingið ákvörðun um að framlengja tilraunaverkefnið. Við vorum að vonast til þess að svigrúm væri innan fjárlaganna til að bæta við samningum, en hins vegar hefur komið fram krafa frá sveitarfélögunum um að auka hlutdeild ríkisins í tilraunaverkefninu.

Nú hefur það verið þannig að ríkið hefur borgað 20% og komið hefur krafa um að sú kostnaðarþátttaka fari upp í 30%. Það hefur jafnframt verið talað um að það sé fyrir fram ákveðin upphæð, föst upphæð, sem sveitarfélögin setja inn í verkefnið, óháð því hvort fram undan séu launahækkanir til starfsmanna sem sinna þessum verkefnum.

Ég á von á því á næstu dögum að setjast niður með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fara yfir þessi ágreiningsmál. Ég vil jafnframt minna á að fjárlagafrumvarpið er í meðferð (Forseti hringir.) þingsins, er í fjárlaganefnd, þannig að ekki liggur fyrir niðurstaða fyrr en Alþingi afgreiðir það um hvernig þessu verður háttað varðandi næsta ár.



[14:16]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er ánægð að heyra að hæstv. ráðherra sé að fara að setjast niður með sveitarfélögunum og ég vona að þar verði fundin viðunandi lausn. Ég endurtek að það er búið að taka ákvörðun um það á Alþingi Íslendinga að NPA verði eitt meginform þjónustu við fatlað fólk þannig að sú ákvörðun liggur fyrir og við fólum framkvæmdarvaldinu að tryggja að svo gæti orðið. Deilur sem þessar um fjármuni milli ríkis og sveitarfélaga eru algengar en í þessu tilviki er um frelsi 50 einstaklinga til að stjórna lífi sínu að ræða og það mál verður að leysa. Slíkt óöryggi er ekki hægt að bjóða fólki upp á.

Þess vegna hvet ég ráðherra til að leggja sig alla fram um að eyða óvissu sem fyrst og lýsa yfir að fólki verði áfram tryggt frelsi yfir eigin lífi.



[14:17]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi NPA-þjónustunnar. Þetta er eitt af því sem Alþingi hefur lagt mikla áherslu á. Tilraunaverkefnið hefur gengið vel að meginefni til og ég ítreka það sem ég sagði að við fundum, stundum finnst manni daglega, með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarstjórnarmönnum.

Ég var nýlega á fundi með félagsmálastjórum þar sem ég fór yfir þennan málaflokk. Við munum halda áfram að funda með þeim um þetta mál sem og önnur. Ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að við ljúkum þessu tilraunaverkefni og þetta verði hluti af því lagaumhverfi sem muni þá finnast í lögum um málefni fatlaðs fólks og hugsanlega þá innan félagsþjónustulaganna eins og verið er að vinna að.