145. löggjafarþing — 30. fundur
 10. nóvember 2015.
sérstök umræða.

landbúnaður og búvörusamningur.

[14:29]
Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra. Ég vil þakka ráðherra kærlega fyrir að koma til þessarar umræðu við mig með svo stuttum fyrirvara sem raun ber vitni. Við þingmenn vil ég segja að það eru margar ástæður fyrir okkur til að velta fyrir okkur gerð búvörusamninga. Þótt beinar greiðslur úr ríkissjóði til bænda vegna búvöruframleiðslunnar hafi farið mjög lækkandi sem hlutfall af landsframleiðslu, eða úr 5 í 1% á 20 árum, er samt sem áður um það að ræða að yfir 10 milljarðar af ríkisfé renna til bænda auk frekari kostnaðar sem ríkið verður fyrir vegna greinarinnar. Það er því skylda þingmanna að fylgjast vel með gerð nýrra búvörusamninga og hvernig að þeim verður best staðið. Það er ekki skynsamlegt að fela ráðherra og hagsmunasamtökunum einum að gera samning og koma svo með hann fullbúinn í þingið og fara þá að hafa skoðanir og taka til máls. Miklu betra er að fram fari umræða um málið þar sem það er rætt frá öllum hliðum, öll sjónarmið reifuð, allir hagsmunir eru uppi á borðum og reynsla okkar og eigin saga og annarra þjóða höfð til hliðsjónar.

Meðal þeirra ótal sjónarmiða sem liggja til grundvallar er til dæmis neytendasjónarmið, að nægt framboð á ódýrri gæðavöru sé fyrir neytendur. Byggasjónarmið, að við uppbyggingu greinarinnar sé leitast við að efla byggð eða dreifa byggð með ákveðnum hætti, eða ekki. Ef landbúnaðurinn á ekki að koma nálægt byggðaþróun þarf að fjalla um það annars staðar og létta því af honum. Hámarkshagkvæmni, arðbær rekstur og góð lífskjör bænda, það er sjónarmið. Nýliðun, að það geti átt sér stað nýliðun og endurnýjun í stétt bænda. Fæðuöryggi, matvælaöryggi og gæðasjónarmið hvers konar. Dýravernd og umhyggja fyrir dýrum. Varðveisla og ræktun dýrastofna, að á Íslandi séu sérstakir dýrastofnar og taka þurfi sérstakt tillit til þeirra í samningagerð. Og hvaða lyf, hvaða fóður, hvaða aðkeypt aðföng við ætlum að leyfa að séu notuð í landbúnaði á Íslandi. Umhverfissjónarmið, landverndarsjónarmið, landnýtingarsjónarmið, allt eru þetta undirliggjandi þættir. Menningarbundin og félagsleg sjónarmið. Það heyrist að landbúnaðinum fylgi ákveðin menning, ákveðin félagsgerð sem beri að varðveita og huga að.

Það má þá öllum vera ljóst að mörg þessara sjónarmiða eru ósamrýmanleg, þ.e. þau rekast illa saman í flokk. Ef við göngum mjög langt í hagkvæmnikröfunni, hvernig á þá að sinna öllum hinum kröfunum? Dýravelferð kostar til dæmis, það kostar að varðveita hreinleikann. Gæði, hreinleiki, dýravernd, byggðasjónarmið og landverndarsjónarmið rekast þannig illa með hagkvæmnissjónarmiðum.

Eitt það fyrsta sem skynsamlegt kann að vera í umræðu sem þessari er að huga vandlega að því hvernig tekist hefur til hjá okkur, hvaða markmið hafi verið í gildandi samningum, hvernig hafi gengið að ná þeim. Þess vegna spyr ég í formlegri spurningu minni til ráðherra: Hefur það verið mælt með kerfisbundnum og vísindalegum hætti? Eigum við mikið af gögnum og skýrslum um það hvernig gengur að ná þessum markmiðum?

Mér finnst nefnilega áberandi í umræðunni úti um land að þegar maður byrjar að tala um þetta fara menn alltaf að ræða um einstakar greiðsluútfærslur sem eru í gildi í dag eða hafa verið í gildi og ræða um breytingar á því, oft smávægilegar, í staðinn fyrir að horfa á heildarmyndina.

Í núgildandi samningum má merkja töluverðan blæbrigðamun á annars vegar mjólkursamningi og hins vegar sauðfjársamningi. Í mjólkinni erum við meira að tala um bisness, hagkvæmni, enda hefur mikið gerst þar, búum hefur fækkað úr um 1.500 búum í innan við 700 á innan við 20 árum. Þannig virðist það ætla að ganga áfram.

Sauðfjársamningurinn er með markmið um sjálfbærni, umhverfisvernd og byggðasjónarmið og sauðfjárræktin hefur þróast með ólíkum hætti þar sem fjölbreytni í búastærð er miklu meiri, tengsl við aðrar atvinnugreinar eru öðruvísi og meiri og miklu fleiri búendur vinna utan heimilis en kannski er í kúabúarekstri, sem hefur þróast þar sem stækkunaráhrifin ganga mjög hratt fram.

Ég vil spyrja ráðherra um afstöðu til nýrra samninga: Verður frjáls sala greiðslumarks áfram við lýði? Nú þegar er talið að 30% af því sem borgað er sé farið út úr greininni. Það fer núna til bænda sem eru hættir búskap og fjármálastofnana. Viljum við að þær greiðslur sem við leggjum í þetta fari í auknum mæli til fjármálastofnana? Verður greitt fyrir svipaða þætti í dag eða munum við sjá breytingar, t.d. greitt út á ræktun lands, (Forseti hringir.) búsetu, gripi eða annað slíkt?

Ég hef heyrt ráðherrann mæla fyrir því að breytingar verði gerðar. Ég vil hvetja ráðherra til að gera okkur í þinginu grein fyrir þeim breytingarhugmyndum sem hann hefur.



[14:34]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir þessa umræðu. Fyrst vil ég segja að þeir fjármunir sem fara til búvörusamninga eru til að tryggja neytendum aðgang að hollri gæðavöru á lægra verði.

Varðandi spurninguna um markmiðin þá er hér um að ræða þrjá samninga; um mjólk, kindakjöt og garðyrkju. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur að minni beiðni gert úttekt á mjólkurvöruframleiðslu frá 2004–2014. Í vor gerði Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri sambærilega úttekt á stöðu sauðfjárræktunarinnar til undirbúnings nýjum samningi og hvað garðyrkjuna varðar þá var nýleg skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 2013 unnin út frá samningnum frá 2002–2012.

Varðandi mjólkursamninginn sjálfan þá eru markmið hans eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda að almenn starfsskilyrði í framleiðslu og vinnslu og stuðningur ríkisins við greinina stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði og einnig að stuðningurinn nýtist sem best við að lækka vöruverð neytenda og að viðhalda stöðugleika sem hefur náðst á milli framleiðslu og eftirspurnar innan lands, að greinin fái svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni og hún fái að þróast þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið. Einnig er markmið samningsins að unnt sé að endurnýja framleiðsluaðstöðu og að gætt sé sjónarmiða um dýravelferð og heilnæmi afurða.

Það leikur enginn vafi ef maður vitnar til skýrslunnar frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að umtalsverð hagræðing hefur orðið í mjólkurframleiðslu og -vinnslu á samningstímanum. Frá 2004–2014 fækkaði mjólkurframleiðendum úr 905 í tæplega 650 og á sama tíma jókst mjólkurframleiðslan úr 109 milljónum lítra í 145 milljónir á síðastliðnu ári. Stækkun á meðalbúi með greiðslumark hefur aukist um 80–90% eða úr 120 þúsund lítrum í um það bil 220 þúsund. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að á samningstímanum hafa opinber framlög lækkað verulega eða úr 65 kr. á lítra í 51 kr. á verðlagi 2013. Mjólkurverð til bænda hefur haldið í við verðbólgu á samningstímanum og aðeins umfram það en vegna minni styrkja hafa heildartekjur af lítra lækkað um rúmlega 5%. Heildsöluverð mjólkurafurða hefur lækkað umtalsvert á þessum tíma og sama gildir um smásöluverð mjólkurafurða, það hefur hækkað minna en neysluverðsvísitalan á samningstímanum. Að framangreindu má því vera ljóst að þau markmið sem lúta að því að auka hagkvæmni, stuðla að lægra vöruverði og því að stuðningur ríkisins nýtist sem best til að lækka vöruverð hafa náðst eða að minnsta kosti hefur miðað í rétta átt.

Eins og ég gat um þá gætir svolítillar bjartsýni í kúabúskap og nokkur endurnýjun hefur átt sér stað. Ég legg áherslu á varðandi þann galla sem hv. málshefjandi kom inn á, þ.e. eigngeringu kvótans, að við endurnýjun á mjólkursamningnum nú verði stuðningsforminu breytt þannig að stuðningsgreiðslur eigngerist ekki með sama hætti þannig að auðveldara verði fyrir unga menn og konur að hefja búskap og það sama á reyndar við um sauðfjárræktina.

Markmið sauðfjársamningsins eru að efla sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu bænda, stuðla að nýliðun og að sauðfjárrækt sé stunduð í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og sjálfbæra landnýtingu, örva markaðsvitund bænda og afurðastöðva og halda jafnvægi milli framleiðslu og eftirspurnar og stuðla að framþróun.

Bág afkoma hefur löngum verið vandamál í sauðfjárrækt. Á hinn bóginn er það þannig að mikill minni hluti sauðfjárbænda byggir afkomu sína alfarið á sauðfjárbúskap enda er tiltölulega einfalt að stunda aðra vinnu með búskap ef slíka vinnu er hægt að hafa í skikkanlegri fjarlægð. Það er engu að síður staðreynd að umtalsverð nýliðun hefur átt sér stað í stétt sauðfjárbænda undanfarin ár, jafnvel meiri en í kúabúskap, sem gæti komið á óvart miðað við afkomuna. Nýliðunin er jafnframt meiri eftir því sem fjær dregur höfuðborginni sem trúlega skýrist af því að svæðin henta betur til sauðfjárframleiðslu sem fjær eru. Í samningnum eru reyndar notaðir nokkrir fjármunir í nýliðun og þeir hafa hugsanlega haft einhver áhrif líka til þessa.

Hvað varðar markmið sjálfbærrar landnýtingar, þ.e. gæðastýrðrar framleiðslu, þá er ekki nokkur vafi í mínum huga að þessi vottun hefur skilað árangri og vitund bænda um hóflega nýtingu og uppgræðslu hefur vaxið mikið í seinni tíð.

Varðandi garðyrkjusamninginn þá voru tollar felldir niður á tómötum, gúrkum og papriku árið 2002. Það urðu reyndar fleiri breytingar, bæði á tollum og síðan fóru menn inn í lýsingu þannig að þeir gátu stundað heils árs framleiðslu. Það hefur haft verulega breytingu í för með sér og beinn ávinningur til neytenda og skattgreiðenda er umtalsverður að mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Það ber þó að hafa í huga að innlend blómarækt hrundi við þessar breytingar og að paprikuframleiðslan er mun minni en hún var áður.

Ég mun koma að áherslum í nýjum samningi og tengslum við byggðasjónarmið í lokaorðum mínum.



[14:40]
Lárus Ástmar Hannesson (Vg):

Virðulegi forseti. Hér eru til umræðu landbúnaðar- og búvörusamningar. Ég tel að þessi umræða sé þörf. Ég vil þá velta upp þeirri spurningu hvar möguleikar íslensks landbúnaðar liggi. Liggja þeir áfram í stækkun búa? Eða í þeim möguleikum sem bændur ef til vill hafa til að auka verðmæti framleiðslu sinnar? Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum mjög skýra sýn á þá möguleika sem landbúnaðurinn í þessu landi á. Þeir liggja fyrst og fremst í gæðum, rekjanleika, hreinleika, frumleika og beinum tengslum bænda við kaupendur; þar sem varan er framleidd með sjálfbærni og dýravelferð í fyrirrúmi.

Ég skynja mikinn og aukinn áhuga hjá bændum á að feta sig í þessa átt. Víða eru komnar vinnslur sem hafa leyfi til að vinna og selja beint landbúnaðarvörur. Aukinn ferðamannaiðnaður eykur enn á þessa möguleika. Lítið sláturhús á Seglbúðum í Skaftafellssýslu hefur fengið leyfi til slátrunar, en það ferli sem fara þarf til að fá slíkt leyfi er of þungt og þarf að finna leiðir til að auðvelda áhugasömum að opna sláturhús.

Ef fer sem horfir, að búin stækka og fjársterkir aðilar kaupa í auknum mæli jarðir og hefja mikla framleiðslu, fjarlægist landbúnaðurinn þann velvilja sem hann réttilega hefur átt með þjóðinni og er mjög verðmætur.



[14:42]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir áhugaverða umræðu um þetta mikilvæga mál. Ég hef nefnilega velt fyrir mér af hverju komi ekki mun stærri hópur að búvörusamningunum en einungis landbúnaðarráðuneytið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og svo hagsmunasamtökin Bændasamtök Íslands. Ég get spurt: Hvar eru neytendur til dæmis í þessari umræðu og aðrir sem eiga hagsmuna að gæta?

Núna þegar verið er að vinna nýja búvörusamninga fyndist mér lag að draga fleiri að borðinu. Ég vonast til að ráðherra svari því hérna á eftir hvort svo verði ekki.

Búvörusamningarnir eru líka, eins og hefur verið komið inn á, nokkuð einhæfir. Ég mundi vilja sjá meiri fjölbreytni í íslenskum landbúnaði og að mönnum væri gert kleift að fara aðeins út fyrir kassann í framleiðslu sinni. Þetta er auðvitað hluti af byggðastefnu þar sem menn fá í rauninni greitt fyrir að sinna landinu, rækta það upp og sjá um það. Þannig er það í Evrópusambandinu. Það finnst mér vera eitthvað sem við ættum að skoða. Mér finnst líka svolítið áhyggjuefni, eins og ég hef upplifað það, að landbúnaðarstefnan sé einhvern veginn ígildi einhverrar byggðastefnu. Þetta hangir auðvitað saman en byggðastefna á Íslandi hefur verið mjög léleg og ómarkviss og tilviljanakenndar ákvarðanir hafa verið teknar til að reyna að bjarga hinu og þessu í staðinn fyrir að hafa eitthvert heildarplan. Ég velti fyrir mér hvort það sé af því að menn hafi alltaf litið á landbúnaðarstefnu sem hina eiginlegu byggðastefnu. Það er bara ekki nóg þó að hún sé auðvitað hluti af málinu.

Ég þakka fyrir þessar umræður og hlakka til að hlusta áfram.



[14:44]
Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis þakka hv. þm. Herði Ríkharðssyni fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir hans svör. Hér koma fram þeir punktar, í umræðum um landbúnaðarmál á Íslandi, að við erum tilbúin að hafa á þeim mjög sterkar skoðanir og hlaða á landbúnaðinn mörgum hlutverkum og verkefnum eins og hv. þm. Hörður Ríkharðsson fór yfir. Það er verið að hlaða á landbúnaðinn ýmsum þáttum sem eiga illa samleið hver með öðrum. Hann dró það mjög vel fram í spurningu sinni, sem ég vil gera að umtalsefni, til hæstv. ráðherra og leitast við að ræða það út frá þeim staðreyndum.

Höfum við náð markmiðum búvörusamninga seinni ára? Ég held að þær skýrslur sem hæstv. ráðherra vitnaði til, bæði Háskólans á Akureyri, sem kom út nýlega, og Hagfræðistofnunar háskólans, um mjólkursamninginn, hafi í aðalatriðum svarað því: Já, við höfum í aðalatriðum gert það. Við höfum náð að lækka verð til neytenda á mjólkurvörum með því að tryggja á sama tíma hlut bænda í endanlegu útsöluverði. Við höfum náð aðalatriðum í markmiðum í sauðfjársamningi og skýrsla Háskólans á Akureyri um sauðfjársamninginn er mjög athyglisverð að því leyti að þar er lögð fram með fræðilegum hætti greining á kjötmarkaðnum og sýnd áhrif annarra kjötgreina á afkomu sauðfjárbænda eða víxlverkun afkomu milli einstakra búgreina. Það sem ég sakna úr skýrslu Háskólans á Akureyri er að þeir rökstyðja mjög vel að sækja mætti 12,5% meira verð út á markaðinn fyrir lambakjöt í dag, samkvæmt þeirra greiningu, en koma svo sem ekki með neina analýsu á því hvernig hægt væri að gera það.

Síðan er það byggðahlutverkið, sem hv. þingmaður fjallaði um, sem var næstur á undan mér. Þá getum við líka sagt að við höfum náð mörgum af þeim áföngum sem við höfum rætt á undanförnum árum. Ef við horfum allt aftur til ársins 1989, þar sem er upphaf búvörusamninga af þeirri gerð sem við höfum í dag, þá voru útgjöld til landbúnaðarmála, með einföldum beinum framreikningi, úr ríkissjóði 26 milljarðar króna en eru í dag rétt rúmir 10. (Forseti hringir.) Og þá spyrjum við: Hvað varð um fjármunina sem þar skeikar?



[14:46]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég fór að hugsa um það nýverið hvernig það er þegar maður kaupir lambakjöt eða einhverjar aðrar íslenskar búvörur. Það er niðurgreiðsla og stuðningur við bændur. Hvað kostar það fyrir skattgreiðendur á endanum? Við hljótum náttúrlega að borga með skattinum okkar fyrir stuðning við landbúnaðinn. Hvað kostar það þá samanlagt að fá eitt lambalæri eða einn skrokk af rollu eða lambi?

Mér finnst einhvern veginn okkur skorta algerlega almennilega yfirsýn yfir þennan málaflokk. Ég verð að taka heils hugar undir með hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur því að það er eins með þetta kerfi og öll hin að alltaf er verið einhvern veginn að staga í göt og götin eru orðin þannig að ekki er hægt að vera með almennilega funkerandi kerfi af því að það er orðið svo stagbætt.

Því vil ég skora á þá sem hafa áhuga á að búa í samfélagi þar sem kerfin þjóna öllum, að fara í þá nauðsynlegu vinnu þar sem við tökum og skoðum öll þessi kerfi okkar og skoðum kostnaðarliðina á heildrænan hátt, hvað er gott og gagnlegt fyrir samfélagið og mótum alvöru nútímalega stefnu um stjórnarhætti í landinu. Það á jafnt við um þennan málaflokk og alla aðra.



[14:48]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nýverið var tilkynnt um niðurstöður úr samningaviðræðum, sem hafa staðið lengi yfir, við Evrópusambandið um tollfrelsi á viðskiptum með landbúnaðarafurðir. Það vekur athygli að bæði hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. landbúnaðarráðherra hafa hins vegar sagt að þeir samningar eigi ekki að koma til framkvæmda fyrr en búið verði að ganga frá búvörusamningum og með því gefinn ádráttur um að þeir séu með einhverjum hætti skiptimynt í þeim búvörusamningum sem fram undan eru.

Ég velti því fyrir mér, í ljósi þess að við höfum ekki fengið að sjá hér á spil og heyrðum ekkert frá hæstv. ráðherra um samningsmarkmið ríkisins í þessum búvörusamningum, með hvaða hætti er verið að halda á samningum að þessu leyti. Hvaða hagsmuna er verið að gæta? Eru það hagsmunir bænda? Eru það hagsmunir af nýliðun, eða er það varðstaða um óbreytt ástand sem öllu ræður? Ég efast um að í nokkrum öðrum málaflokki væri það þannig að engin samningsmarkmið væru rædd opinberlega í stórum samningum sem fram undan væru af hálfu ríkisins.

Ég bendi líka á að fyrir rúmu ári var óskað eftir tilnefningum fulltrúa allra flokka í nefnd um endurskoðun búvörulaga. Ég er þar fulltrúi Samfylkingarinnar tilnefndur. Sú nefnd hefur aldrei verið kölluð saman. Ég hlýt auðvitað að kalla eftir því að hæstv. ráðherra sýni á spilin hvað varðar framtíðarstefnu í landbúnaðarmálum og treysti sér til að ræða hana þvert á flokka.

Stóra markmiðið núna ætti auðvitað að vera að auðvelda bændum að búa jafnt við afkomuöryggi, sem og aukið atvinnufrelsi, möguleika á að framleiða það sem þeir vilja og að sækja aukin verðmæti á opna markaði. Áhersla þjóðarinnar og ríkisins ætti að vera að opna landbúnaðinn upp með þeim hætti. En því miður virðist hann allt of fastur í varðstöðu um fámennar vel tengdar (Forseti hringir.) afurðaklíkur sem öllu virðast ráða og geta haldið þessari atvinnugrein í helgreipum, algjörlega að ósekju.



[14:51]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hefur um margt verið mjög góð. Það er alveg augljóst að landbúnaður á Íslandi stendur á tímamótum, bæði hvað varðar hinn nýja samning við Evrópusambandið, sem mun taka gildi á næstu árum, og eins vegna endurnýjunar á búvörusamningi. Það er mjög mikilvægt að menn noti þau tækifæri sem gefast við þessi tímamót og meti áhrif beggja samninga á til dæmis byggðaþróun í landinu. Þá verður mér hugsað til hins mikla landbúnaðarhéraðs sem ég er fulltrúi fyrir á Alþingi, þ.e. Suðvesturkjördæmi, en stórhætta er á því ef menn vanda sig ekki að það verði nokkur héraðsbrestur út af tollabreytingunum.

Ég vil líka segja að það eru út af fyrir sig vonbrigði að sú mikla hagræðing sem náðst hefur í landbúnaði, sérstaklega í mjólkuriðnaði, hafi ekki skilað sér að fullu til neytenda. Maður gerir sér ekki alveg grein fyrir því hvar þetta strandar en böndin berast að þeim sem ráða versluninni í landinu því að greinilegt er að hagræðingin, sem hér hefur verið farið mjög vel yfir, hefur ekki skilað sér.

Það er hins vegar sem betur fer þannig á Íslandi að hér um bil hvert einasta mannsbarn getur gert sér grein fyrir því þegar það fer út í búð hversu mikil beingreiðsla er á hvern unnin lítra eða kíló vegna þess að ólíkt því sem er í Evrópusambandinu, þar sem landbúnaðarstyrkir eru mjög ógagnsæir og almennir og erfitt að henda reiður á þeim, er mjög auðvelt á Íslandi að gera sér grein fyrir því til dæmis hversu mikil beingreiðslan er á hvert kíló af lambakjöti.

Að öðru leyti þurfum við líka að taka til í þessum umræðum, taka til aðfangakosti bænda, þ.e. orkukostnaðinn, orkuafhendinguna, og að sjálfsögðu þurfum við að aðgæta vel að hér séu aðföng (Forseti hringir.) vistvæn. Ég vil sérstaklega nefna þar að við höfum möguleika á að framleiða á Íslandi áburð með (Forseti hringir.) sjálfbærri nýtingu vatnsfalla og það ætti að vera okkur mikil hvatning til þess og liður í því að við eigum hér og eignumst alvöru vistvæna framleiðslu.



[14:53]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu og þó lengri væri. Það er þarft að taka hér fyrir stöðu innlendrar landbúnaðarframleiðslu. Ég er reyndar með fyrirspurn, sem ég lagði fram fyrir alllöngu um þetta mál, sem hefur dregist nokkuð að svara, en vonandi kemst nú að í næstu viku.

Það er að mínu mati orðið mjög aðkallandi, og í sjálfu sér gagnrýnisvert, hversu stutt er orðið eftir í samningunum. Ef ég man rétt þá er garðyrkjusamningurinn í þann veginn að renna út, eitt ár er eftir af mjólkursamningnum og tvö af sauðfjársamningnum. Við bætist veruleg óvissa sem hefur fylgt í kjölfar þess að tveir ráðherrar Framsóknarflokksins gerðu samning við Evrópusambandið sem gerbreytir starfsumhverfi nokkurra greina og dregur verulega úr þeim stuðningi sem þær hafa haft af tollvernd, og hefur auðvitað afleidd áhrif á allar greinar íslensks landbúnaðar.

Það er því mjög brýnt að það skýrist fyrr en seinna hvernig starfsumhverfi innlendrar landbúnaðarframleiðslu verði hagað næstu árin. Það þarf að vera fyrirsjáanleiki í þessu eins og öðru og þar á meðal hvers konar aðlögun eða stuðning þær greinar fá þá í nýjum búvörusamningi sem verða fyrir mestum áhrifum af tollasamningnum komi hann í gildi.

Ég held í öðru lagi, varðandi fyrirkomulag stuðnings hér, að ekki verði undan því vikist að taka til skoðunar og svara spurningum um hversu mikla samþjöppun eða þróun í átt til verksmiðjubúskapar við viljum sjá í íslenskum landbúnaði, t.d. í mjólkurframleiðslu. Þeim spurningum er ekki seinna vænna að svara. Og það er hárrétt, sem hv. þm. Lárus Ástmar Hannesson nefndi, að menn skulu stíga varlega til jarðar gagnvart þeirri velvild sem innlend framleiðsla hefur notið meðal landsmanna, m.a. vegna þess að fjölskyldubúið hefur verið grunneiningin og þetta hefur um leið verið stuðningur við búsetu í sveitum. Það er ekki víst að sá velvilji verði til staðar ef framleiðslurétturinn með stuðningi ríkisins sópast saman í örfá verksmiðjubú.

Ég held því að það sé ekki seinna vænna að reyna að svara þessum grundvallarspurningum í komandi samningum.



[14:56]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka sérstaklega fyrir þessa umræðu, hún er mikilvæg, og ég vil taka sérstaklega undir með þeim þingmönnum sem hafa lagt á það áherslu að mikilvægt sé að taka opna umræðu og opna ferlið og það þurfi aðkomu fleiri, ekki síst neytenda.

Ég er sjálfur mikill áhugamaður um landbúnað eða landbúnaðarafurðir og íslenskur landbúnaður er vissulega besti landbúnaður á Íslandi enda sá eini, en í heimssamhengi þá er hann afskaplega lítill. Ég vil meina að það séu bullandi möguleikar í íslenskum landbúnaði, ekki bara hér á landi heldur ekki síður í útflutningi en til þess þarf sérhæfingu. Tilhneigingin á Íslandi hefur verið sú að landbúnaðurinn er alltaf að verða einhæfari og einhæfari. Kannski er það að einhverju leyti vegna þess að hann er svona framleiðslumiðaður. Þetta er vissulega „trend“ sem við höfum séð í flestum löndum, t.d. öllum löndum á norðurhjaranum á Norðurlöndum, að búum fækkar en þau stækka og framleiðslan hefur tilhneigingu til að verða einhæfari. Við höfum séð þetta hér að ákveðnir aðilar í afurðastöðvum o.s.frv. hafa orðið gríðarlega sterkir. Við fundum það í þingflokki Bjartrar framtíðar þegar við heimsóttum mjólkurbúið Örnu í Bolungarvík um daginn að það er næstum því prómill af íslenskri landbúnaðarframleiðslu sem fer í fjölbreyttari afurðaframleiðslu, fer beint frá bændum o.s.frv. Jafnvel þeir sem eru mikilvirkastir í þeirri framleiðslu framleiða úr litlum hluta af sinni framleiðslu.

Svo verð ég að minnast á það sem sérstakur áhugamaður um íslensku geitina að geitaafurðir virðast vera fyrir utan íslenska landbúnaðarkerfið að mörgu leyti. (Forseti hringir.) Búvörusamningarnir eru mjög miðaðir að stóru framleiðslugreinunum og ég held að með víðari aðkomu gætum við séð meiri fjölbreytni í landbúnaðinum öllum.



[14:58]
Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda og hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir innganginn að þessari umræðu. Ég vil nefna í upphafi að sé vilji til þess að ríkið tryggi tilvist tiltekins landbúnaðar hér á landi óháð eftirspurn eða hagkvæmni, og ég hef mínar skoðanir á þeirri spurningu sem ekki gefst tækifæri til að ræða hér og nú, er rétt að gera það með beinum og gagnsæjum hætti, eins og t.d. með samningu stjórnvalda um millifærslu á fé með skattgreiðendum til bænda. Búvörusamningur eða samningar eru sem slíkir ágætir í þeim tilgangi.

Það er hins vegar alveg ótækt að mínu viti að stuðningur við landbúnað, eða hvaða atvinnugrein sem er, sé einnig með óbeinum hætti eins og með aðgangshindrunum, þ.e. hindrunum inn á markaðinn fyrir erlendar samkeppnisvörur. Það skiptir þá engu máli að mínu áliti þótt önnur lönd svíni á sínum þegnum með þeim hætti. Og þótt ég telji farsælast og eðlilegast að Ísland sem fullvalda og sjálfstætt ríki taki einhliða ákvörðun um afnám tolla og annarra aðgangshindrana á íslenskum markaði og renni þannig stoðum undir þau mannréttindi sem felast í frjálsum viðskiptum, þá fagna ég nýgerðum samningi við Evrópusambandið um afnám tolla á landbúnaðarafurðum og aukningu á tollfrjálsum innflutningskvótum. Hins vegar hefur komið fram í máli hæstv. utanríkisráðherra að samningurinn verði ekki lagður fyrir Alþingi fyrr en nýr búvörusamningur hefur verið undirritaður og það má nokkuð taka undir þau sjónarmið sem þar liggja að baki, svo lengi sem ekki dregst úr hófi fram að ljúka gerð nýs búvörusamnings. Vinna við gerð nýs búvörusamnings eða samninga má ekki hindra þau skref sem ákveðið hefur verið að taka í átt að frjálsræði, í átt að meira frelsi í viðskiptum og þá má samningurinn við Evrópusambandið ekki heldur vera syndaaflausn stjórnvalda í þeim skilningi að frekar verði ekki aðhafast í þágu viðskiptafrelsis.



[15:00]
Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka öllum sem hafa tekið hér til máls. Það eru allir í spreng, þetta er enginn tími sem við höfum fyrir þetta. Það er alveg ljóst að við getum tekið langa umræðu um sauðfjársamninginn einn og sér, um mjólkina eina og sér, og ég nefndi ekki garðyrkjubændur. Það er ekki af virðingarleysi við þá, það er bara ekki tími til, við sjáum að þetta er enginn tími. Svo þurfum við sérstakan tíma fyrir byggðaumræðuna sem að sjálfsögðu er fléttuð inn í þetta sama.

Þá er nú Steingrímur farinn úr salnum. Ég ætlaði að segja honum að mjólkin væri farin, hann þarf ekki að hugsa svo mikið um það. Hún er farin í bisnessinn, þar er ekki fjölskyldubúastærð lengur og fjármagnið er orðið stærsti þátturinn.

Brynhildur veltir fyrir sér aðkomu neytenda og enn fremur byggðasjónarmiðum og þetta er umræða sem þarf að taka, sérstaklega um byggðasjónarmiðin. Á landbúnaðurinn að bera ábyrgð á byggðinni eða ætlum við að fást við byggðamálin sérstaklega? Haraldur veltir þarna upp …(Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Ég bið hv. þingmann um að nefna hv. þingmenn með fullu nafni.)

Fyrirgefðu. Hv. þm. Haraldur Benediktsson nefnir áhugaverðan punkt þegar hann veltir fyrir sér: Ef við vörðum 4% af landsframleiðslu í þetta áður, 1% núna, hvar eru þeir peningar? Ef á þeim tíma var litið á þá sem byggðaaðgerð til dæmis, þá höfum við stórlega dregið úr því án þess að hafa tekið um það meðvitaða ákvörðun, eða hvað? Við höfum ekki hugmynd um það. Þannig að það er fullt af þáttum sem þarf að ræða. Jarðalögin hafa ekki verið nefnd hérna. Ég studdi þau á sínum tíma. Við fórum í mjög frjálsleg jarðalög. Kannski gerðum við mistök þar. Kannski þurfum við að binda jarðirnar meira við búskap og landnotkun. Það er eitt sjónarmið sem við eigum algerlega eftir að ræða líka og þarf að taka mikinn tíma til.

Ég vil að endingu segja að í nýútkominni skýrslu Háskólans á Akureyri er verið að velta fyrir sér útflutningi á sauðfjárafurðum. Ég er búinn að fylgjast með þeirri umræðu í tuttugu ár og mér finnst þeir svolítið djarfir í að ýta undir að þar sé bjart eina ferðina enn. Ég heyri það ekki á afurðastöðunum að þær séu að raka saman fé (Forseti hringir.) á útflutningi sauðfjárafurða. En að öðru leyti vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa umræðu.



[15:03]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu. Ég ætla að reyna að ljúka því að fara yfir markmiðin en það er rétt að tíminn er nokkuð knappur.

Í samræmi við minnisblað sem ég fór með fyrir ríkisstjórn á sínum tíma þá eru þau markmið sem við höfum sett í nokkrum atriðum. Gerður verði langtíma sóknarsamningur til tíu ára að minnsta kosti um starfsskilyrði bænda sem byggist á fjárstuðningi og tollvernd og ætlað er að efla samkeppnishæfni, auka fjölbreytni, stuðla að nýliðun og vera í sátt við umhverfið. Dregið verði úr vægi kvótakerfis í mjólk og það lagt af í áföngum, dregið enn frekar úr vægi núverandi greiðslumarks í sauðfé, þak verði sett á stuðning til einstakra framleiðenda til að tryggja fjölskylduvænan landbúnað og byggðasjónarmið og hugað að fjölbreyttara fyrirkomulagi á stuðningi. Gerðir verði gagnkvæmir samningar um aukin tollfrjáls viðskipti, stuðningur verði aukinn við lífræna framleiðslu, gæðastýringarkerfi þróuð og umhverfisgreiðslur teknar til skoðunar. Átak verði gert til að bæta ásýnd sveita, auka nýframkvæmdir og efla menntun og rannsóknir í landbúnaði. Geitfjárbændur verði hluti af búvörusamningi, skógarbændur verði jafnframt hluti af samningnum. Með verkefninu Matvælalandið Ísland verði átak gert í markaðssetningu á íslenskum matvælum í tengslum við ferðaþjónustuna. Með öðrum orðum er stefnt í átt til almennra stuðningsforma, óháð búgrein, til að opna möguleika á nýtingu nýrra tækifæra. Í því sambandi hefur verið rætt um nautgriparækt, geitfjárrækt, útiræktað grænmeti o.fl.

Það er með öðrum orðum horft til þess hvað gagnast íslenskum landbúnaði til lengri tíma fremur en hagsmunum núverandi bænda án þess þó að kippt verði undan þeim fótunum. Með vísan til áherslna ríkisstjórnarinnar hefur verið unnið út frá því markmiði að efla búsetu í dreifðari byggðum landsins. Ákveðnar greinar landbúnaðarins sem við þekkjum gegna mikilvægu hlutverki til að tryggja byggðafestu hér á landi og í því sambandi er rétt að vísa til skýrslunnar um sauðfjárbúskapinn. Í stuttu máli sagt mun byggð um allt land eflast með eflingu innlendrar matvælaframleiðslu.

Það er ótímabært að svara að hve miklu leyti byggðasjónarmið munu hafa áhrif í nýjum búvörusamningum en þau eru sannarlega höfð til hliðsjónar. En við munum geta eflt innlenda framleiðslu (Forseti hringir.) og þar með byggð um allt land með sjálfbærum hætti. Það er mikilvægt að horfa til þess sjónarmiðs sem kom fram hjá hv. málshefjanda um jafnvægi á (Forseti hringir.) milli gæðanna og kostnaðarins því ekki viljum við sitja uppi með það að flytja inn vörur, t.d. kjöt sem er mengað af fúkkalyfjum. Það er 60–80 sinnum meira magn notað af fúkkalyfjum víða í Evrópu í framleiðslu á kjöti sem flutt er inn til landsins (Forseti hringir.) miðað við þá gæðavöru sem hér er framleidd.