145. löggjafarþing — 30. fundur
 10. nóvember 2015.
Haf- og vatnarannsóknir, 2. umræða.
stjfrv., 199. mál (sameining stofnana). — Þskj. 205, nál. 327, brtt. 328.

og 

sameining Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar, 2. umræða.
stjfrv., 200. mál (breyting ýmissa laga). — Þskj. 206, nál. 327, brtt. 329.

[19:59]
Frsm. meiri hluta (Haraldur Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar. Líkt og forseti hefur kynnt verður í einu nefndaráliti gerð grein fyrir tveimur frumvörpum sem ég mun þá kynna hér. Markmið frumvarpanna er að sameina Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun í eina stofnun er beri heitið Haf- og vatnarannsóknir.

Annars vegar er um að ræða frumvarp til laga um nýja rannsókn á ráðgjafarstofnun þar sem kveðið er á um ráðgjafarnefnd forstjóra, hlutverk stofnunarinnar, samstarf við háskóla o.fl. og hins vegar frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar stofnana.

Meiri hluti atvinnuveganefndar lagði fram breytingartillögur við frumvörpin á síðasta þingi og eru þær nú endurfluttar af meiri hlutanum. Eru þær á þskj. 328 og 329. Annars vegar er um að ræða nokkrar lagfæringar á frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar. Hins vegar er lagt til að við frumvarp til laga um Haf- og vatnarannsóknir bætist ákvæði í þá veru að starfsmenn haldi kjarasamningsbundnum réttindum sem lúta að endurmenntunarleyfi og lengdum uppsagnarfresti eftir samfellt starf hjá sömu stofnun.

Í ákvæði til bráðabirgða við frumvarp til laga um Haf- og vatnarannsóknir er kveðið á um að unnt verði að skipa forstjóra við hina nýju stofnun við gildistöku laganna verði frumvarpið að lögum. Þar sem kveðið er á um gildistöku laganna 1. janúar 2016 mun forstjóri hinnar nýju stofnunar hafa tíma til að undirbúa skipulag og starfsemi hennar.

Við umfjöllun um málin voru gerðar athugasemdir við niðurlagningu starfa stofnananna. Meiri hlutinn telur mikilvægt að forstjóri hinnar nýju stofnunar hafi svigrúm til að skipuleggja starfsemi hennar og vonar að vel takist til við það verkefni. Þá bindur meiri hlutinn vonir við að sem minnst röskun verði á högum starfsmanna og mælist til þess að samráð verði haft við þá eftir því sem mögulegt er.

Meiri hlutinn telur líka brýnt að tilfallandi kostnaður vegna sameiningar stofnananna bitni ekki á starfsemi þeirra heldur verði þeim kostnaði mætt með sérstökum fjárheimildum til að standa straum af honum.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. formaður atvinnuveganefndar, Jón Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Erna Indriðadóttir, Páll Jóhann Pálsson og Þorsteinn Sæmundsson.



[20:01]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Mig langar að blanda mér lítillega í umræður um þetta mál. Það mætti ætla af asanum við þetta að hér væri á ferð smámál sem verðskuldaði ekki umræðu. Frumvörpin eru rædd hér saman sem er óvenjulegt við 2. umr., kannski ekki alveg fordæmalaust, en það hefur þó ekki verið venjan að þótt fallist sé á að mælt sé fyrir frumvörpum við 1. umr. styttu menn sér leið við afgreiðslu þeirra með því að sameina 2. umr. og væntanlega 3. umr. ef svo ber undir. Það er samt ekki hægt að greiða atkvæði um þau í einu lagi, forseti. Lögin takmarka það.

Það eru tveir þættir þessa máls sem ég vil aðeins gera að umtalsefni. Sá fyrri snýr að aðferðinni sem hér á að viðhafa við að sameina tvær ríkisstofnanir. Þær eru ekki alveg nýmæli en núverandi ríkisstjórn virðist vera að þróa það verklag hjá sér að leggja niður störf og endurráða inn á nýja stofnun í staðinn fyrir að menn færist þá til og haldi störfum sínum. Jafnvel þótt kveðið sé á um að öllum séu boðin störf, eins og hér er gert í ákvæði til bráðabirgða, breytir það ekki því að það hefur réttaráhrif að segja mönnum upp eða leggja niður störf þeirra með lögum og endurráða þá. Mér sýnist að nefndin hafi rekið sig á það, samanber þá breytingartillögu sem hún flytur hér til að tryggja að tiltekin réttindi sem eru tengd ráðningarsambandi starfsmanna við sína fyrrverandi eða enn verandi stofnun glatist ekki við yfirfærsluna. Á þetta hafa samtök starfsmanna bent, að þetta sé varhugavert við þessa aðferð af því að mönnum kunni að yfirsjást í því að einhver réttindi gætu glatast ef menn ryfu ráðningarsambandið og endurréðu menn. Hér er sérstaklega saumað í göt sem ég geri ráð fyrir að menn hafi uppgötvað við meðferð málsins, þ.e. að starfsmenn sem verða ráðnir haldi réttindum sem þeir hafa áunnið sér til námsleyfis og um lengdan uppsagnarfrest samkvæmt kjarasamningi Félags íslenskra náttúrufræðinga og fjármálaráðherra sem miðast við samfellt starf hjá sömu stofnun.

Nú vona ég sannarlega að menn hafi róið fyrir hverja vík í þessum efnum og séu fullvissir um að engin önnur réttindi kunni að vera á ferðinni sem eitthvað geti orkað tvímælis um og fari þá forgörðum við þessa aðferð. Ég er ekki í aðstöðu til að fullyrða neitt um það en veit þó að minnsta kosti svo mikið að margs konar réttindaávinnsla er tengd starfstíma og lengd í starfi. Fyrir utan önnur sjónarmið sem tengjast framgangi manna á vinnustað geta hlutir eins og orlofsréttur, eftirlaunatökuréttur, jafnvel veikindaréttur og margt fleira átt þar aðild að.

Síðan er sömuleiðis farið inn á þá braut að heimila ráðningu forstjóra hinnar nýju stofnunar sérstaklega frá og með gildistöku laganna þó að hin nýja stofnun geti eðli málsins samkvæmt ekki tekið til starfa samstundis. Ég viðurkenni fúslega að kannski hefur ekki verið nægjanleg festa og nægjanlega fastmótað verklag um þessa hluti þegar breytingar af þessu tagi eiga sér stað. Það rákumst við vissulega á á síðasta kjörtímabili þegar talsvert var verið að endurskipuleggja rekstur og stofnanagerð hins opinbera. Það var mismunandi menning, ef svo má að orði komast, innan mismunandi ráðuneyta þannig að frumvörp sem komu undirbúin frá mismunandi ráðuneytum voru ekki endilega alltaf sambærileg. Ég man að félag forstöðumanna vakti athygli okkar á því einhvern tímann á miðju síðasta kjörtímabili að þarna þyrfti að samræma hlutina þannig að ekki væri verið að gera þetta með mismunandi hætti í hverju og einu tilviki. Það væri auðvitað eðlilegast að ríkið mótaði eitt verklag um þetta sem væri almenns eðlis. Kannski er núverandi ríkisstjórn komin inn á þessa braut sem hér er boðuð og hefur víst áður séð dagsins ljós, í stofnun Menntastofnunar hygg ég vera. Þá er það auðvitað á hennar pólitísku ábyrgð en ég held að það breyti ekki skyldu okkar hinna til að velta fyrir okkur hvort þetta sé endilega rétta og skynsamlegasta verklagið.

Ef það eitt gengur mönnum til að ná fram samlegðaráhrifum með sameiningu stofnana og það er alls ekki ætlunin að það verði á einn eða neinn hátt á kostnað réttinda starfsmanna og það er ekki heldur í kortunum að fækka starfsmönnum enda verkefnin væntanlega áfram til staðar er að mínu mati ekkert sérstakt sem mælir með þessu verklagi. Í raun og veru væri eðlilegast að finna leið til að ráðningarsambandið héldist órofið inn á hina nýju stofnun. Að sjálfsögðu er hægt að ganga frá því með einföldum hætti í ákvæði til bráðabirgða ef svo ber undir, að menn héldu einfaldlega starfi sínu og teldust frá og með einhverjum tilteknum tímapunkti starfsmenn hinna nýju stofnana.

Við höfum haft fyrirvara á um þennan þátt málsins og ég hygg að það sé komið í ljós að það var ástæða til að fara betur yfir þennan hlut starfsmanna. Fulltrúi okkar í atvinnuveganefnd, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, skilaði sérnefndaráliti um þetta á Alþingi í vor sem leið og vakti þá athygli á því sem sneri að starfsmönnum ekki síst og að ekki hefði verið haft fullnægjandi samráð við starfsmenn og stéttarfélög þeirra til að tryggja þannig að hafið væri yfir vafa að kjör starfsmanna skertust ekki. Það má líka ýmislegt segja um aðdragandann að þessu þó að ekki hafi legið fyrir beinlínis fagleg úttekt á ávinningi þessarar sameiningar, en það er gert ráð fyrir því í því verklagi sem ríkið hefur reynt að móta sér. Nú vitna ég í skýrslu fjármálaráðuneytisins frá árinu 2008 um að það eigi að ganga út frá því að „ætlunin sé að byggja nýja stofnun á mannauði þeirra stofnana sem verða sameinaðar“ og að það þurfi „að hugleiða vandlega á öllum stigum ferlisins hvaða áhrif sameiningin hefur á starfsmenn og hvað þeir bera úr býtum“. Það er ekki nóg að skoða eingöngu og þröngt hverju breytingarnar eiga að skila hlutaðeigandi stofnun, ríkissjóði eða notendum þó að það sé að sjálfsögðu allt mikilvægt.

Þá aðeins að seinna atriðinu sem ég vildi gera að umtalsefni, faglegum rökum fyrir þessari sameiningu. Kannski getur framsögumaður nefndarinnar upplýst okkur betur um það, ef hann vildi bregðast við, hvaða gögn nefndin hafði um það hvernig var komist að þeirri niðurstöðu hjá hæstv. ríkisstjórn að sameina nú Veiðimálastofnun og Hafrannsóknastofnun, fyrir utan að ég er ekkert upprifinn yfir þessu nafni sem á að reyna að setja á hana, Haf- og vatnarannsóknir. Ég get frekar séð fyrir mér að við Íslendingar, sjávarútvegsþjóðin, ættum okkar Hafrannsóknastofnun áfram, Hafró, að hún sem miklu stærri hluti af þessum verkefnum og stofnunum hefði alveg verðskuldað að halda nafninu án þess að ég sé að gera lítið úr hlutverki Veiðimálastofnunar á nokkurn hátt sem er hin merkasta stofnun og hefur unnið gott starf í rannsóknum á lífríki og vistkerfum áa og vatna í landinu.

Hér að baki er ákveðin forsaga sem mér finnst ástæða til að rifja upp og hún tengist uppstokkun í Stjórnarráðinu á síðasta kjörtímabili þegar verið var að byggja upp annars vegar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, sameina málefni allra atvinnuvega í vonandi einu burðugu ráðuneyti og færa þar sömuleiðis málefni nýsköpunar undir sem ég tel að hafi verið mikið framfaraskref og eigi ekki að fara að bakka með þótt segja megi að það sé að hluta til gert nú þegar með því að skipta að hluta til ráðuneytinu í tvennt og setja það undir tvo ráðherra. Þá komu upp ýmis álitamál sem þurfti að fara vel yfir og eitt af þeim var hvar Veiðimálastofnun ætti að vistast í þessu nýja landslagi þegar til yrðu annars vegar atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti og hins vegar umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þessi tvö ráðuneyti og ráðherrarnir sem unnu að þessari sameiningu þurftu að fara vel yfir ýmis álitamál í þeim efnum og það gerðum við hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra.

Ein af þeim stofnunum sem kannski var ekki ljóst hvar ætti að vistast var Veiðimálastofnun. Ýmsir sáu eftir því að hún færðist undan hatti atvinnuveganna og töldu að hún ætti áfram að vera til hjá hinu nýja atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Satt best að segja blönduðust hugmyndir um sameiningu stofnunarinnar við eitthvað annað ekki mikið inn í þetta mál. Niðurstaðan varð sú í góðu samkomulagi ráðuneytanna að setja óháða, faglega greinargerð um það hvar væri eðlilegast í hinu nýja landslagi Stjórnarráðsins að vista Veiðimálastofnun. Það var gert, fengnir voru aðilar til að gera úttekt á starfseminni, eðli starfanna sem þarna voru unnin, og reyna að lesa úr því inn í hið nýja samhengi. Niðurstaðan varð sú að rökin mæltu með staðsetningu í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu af því að þarna væri að uppistöðu til unnið grunnrannsóknarstarf, vissulega ákveðið þjónustustarf líka við veiðifélögin, en eðli starfseminnar og tilgangur ætti miklu meira skylt með hugsuninni um grunnrannsóknir í þágu sjálfbærrar auðlindanýtingar en beinlínis um hagnýtar nýtingarrannsóknir, eða stjórnun nýtingar eins og að sjálfsögðu Hafrannsóknastofnun vinnur upp í hendurnar á ráðherra varðandi ákvörðun um afla og annað í þeim dúr. Í raun og veru var hið nýja landslag, og er vonandi að einhverju leyti enn, hugsað á þeim grunni að við værum með tvö ráðuneyti sem auðvitað ynnu mjög náið saman þar sem annars vegar væri auðlindanálgunin, að rannsaka, kortleggja og passa upp á auðlindina og leggja viðmið um sjálfbæra nýtingu, og hins vegar væri ráðuneyti sem stýrði nýtingunni, tæki ákvarðanir um afla og stjórnaði nýtingunni, veitti þá einstökum aðilum leyfi til til nýtingar o.s.frv.

Nú sýnist mér núverandi ríkisstjórn vera að hverfa frá þessu að einhverju leyti og spóla til baka. Ég hef ekki heyrt nein ný rök eða í reynd nein sérstök rök færð fyrir þessu nema þá kannski þau að þetta eigi bara að fara til baka til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Ég veit ekki til að það hafi háð stofnuninni á neinn hátt að vera vistuð hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu þó að ég hafi haft skilning á báðum sjónarmiðum. Ég lét sannfæra mig áður en ég, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra og starfandi iðnaðarráðherra á þeim tíma, féllst á þær niðurstöður sem menn komust að með faglegri nálgun, að Veiðimálastofnun tilheyrði betur og ætti meira skylt með hugsuninni sem var lagt upp með í stofnunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Ég verð því miður að hafa á þessu allan fyrirvara. Ég hef enga bjargfasta sannfæringu fyrir því að það sé rétt að fara þarna aftur til baka og það er almennt ekki góður kostur að stofnanir þurfi að búa við það að þær séu færðar fram og til baka innan Stjórnarráðsins með þessum hætti. Í stofnun eins og Veiðimálastofnun sem er ekkert mjög stór, með tæplega 20 starfsmenn giska ég á, reyndar að hluta til störf sem eru dreifð um landið sem er gott af því að verkefnin liggja þar, geta vissulega verið samlegðaráhrif í því að sameina hana stærri einingu. En þá kemur spurningin um hvar hún væri þá best komin, í sambúð við hvaða verkefni. Er endilega víst að það sé Hafrannsóknastofnun? Fljótt á litið kunna menn að halda að þetta eigi mjög vel saman, þarna vinni fiskifræðimenntaðir menn á báðum stöðum, en þegar betur er að gáð er þarna unnið í dálítið aðskildum heimum að aðskildum verkefnum. Í reynd mælir margt alveg eins með sameiningu Veiðimálastofnunar við Umhverfisstofnun eða Náttúrufræðistofnun Íslands eins og við Hafrannsóknastofnun.

Þetta hefði ég gjarnan viljað sjá að menn væru búnir að fara vel í gegnum aftur ef menn ætla að fara í ferðalag á nýjan leik með þessa stofnun. Ég hef heldur ekki heyrt í sjálfu sér að það væru nein sérstök vandkvæði við að starfrækja hana ósköp einfaldlega áfram sem sjálfstæða stofnun. Það hefur líka sína kosti að hún er sjálfstæð eining, ekki stórt bákn og hefur verið sveigjanleg í starfsemi sinni. Ég held að almennt hafi verið ágætisandrúmsloft í sambúð hennar og samskiptum við aðila eins og veiðifélögin og bændur og þá aðra sem eðli málsins samkvæmt hafa haft með starfsemi hennar að gera eða tengst henni, notað sér niðurstöður rannsókna hennar og vinnu.

Mín afstaða er sú sama og fulltrúi okkar í atvinnuveganefnd hafði á síðasta kjörtímabili, að ekki hafi verið færð fullnægjandi rök fyrir þessari breytingu, að standa hefði mátt betur að þessu máli hvað varðar réttindi og hagsmuni starfsmanna og þó að nefndin hafi greinilega reynt að bæta úr því að hluta til með breytingartillögum hef ég enga aðstöðu til að kveða upp úr um það eða hafa sterkar skoðanir á því hvort það sé gert með fullnægjandi hætti.

Þetta voru þau sjónarmið, frú forseti, sem ég vildi láta koma hér fram.