145. löggjafarþing — 33. fundur
 12. nóvember 2015.
stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára, fyrri umræða.
stjtill., 338. mál. — Þskj. 405.

[13:57]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnu- og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

Framlagning þessa máls er í samræmi við þingsályktun nr. 8/143 þar sem heilbrigðisráðherra var falið að vinna að stefnu- og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum í samvinnu við félags- og húsnæðismálaráðherra og leggja fyrir Alþingi.

Í þingsályktunartillögunni er skilgreint eitt meginmarkmið og þrjú undirmarkmið. Einnig er sett fram aðgerðaáætlun til að nálgast markmiðin og tilgreind eru markmið fyrir hverja aðgerð ásamt tímasetningu á framkvæmd þeirra. Þingsályktunartillagan sjálf skiptist í þrjá kafla sem bera heitin „Samþætt og samfelld þjónusta við fólk með geðraskanir og fjölskyldur þeirra“, „Geðrækt og forvarnir“ og í þriðja lagi „Fordómar og mismunun“.

Í fyrsta kaflanum er sett fram markmið um að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir sé samþætt og samfelld. Það er ekki tilviljun að það er fyrsti kaflinn því að skortur á samhæfingu þjónustukerfa og þjónustustiga er nokkuð sem almennt er kvartað mjög yfir varðandi langvinna sjúkdóma almennt og var þetta atriði flestum ofarlega í huga við undirbúning þessarar þingsályktunartillögu. Í kaflanum er meðal annars lagt til að leiða í lög að sveitarfélög og ríki geri með sér samstarfssamninga um útfærslu samþættrar þjónustu við einstaklinga sem glíma við geðraskanir á viðkomandi þjónustusvæðum. Einnig er lagt til að auka framboð á sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni með því að ráða sálfræðinga í auknum mæli á heilsugæslustöðvar. Lagt er til að þverfaglegum geðheilsuteymum heilbrigðis- og félagsþjónustu verði komið á fót til að fólk sem glímir við geðraskanir geti sótt þjónustu í nærumhverfi en jafnframt er gerð tillaga um að efla þekkingu í félags- og heilbrigðisþjónustu á geðheilsu og geðröskunum svo að þar sé betur hægt að takast á við vægar geðraskanir. Þá er lagt til að barna- og unglingageðdeildin, BUGL, verði styrkt á næstu árum til að útrýma óhæfilega löngum biðlistum þar. Gert er ráð fyrir að innleiða sérstakt verkefni í heilsugæslu til að auka stuðning vegna barna foreldra með geðraskanir. Þá er einnig lagt til að byggja upp þekkingu á hjúkrunarheimilum til að þau séu betur í stakk búin til að þjóna fólki með geðraskanir sem þar dvelur.

Í öðrum kaflanum, um geðrækt og forvarnir, er sett fram markmið um að uppeldisskilyrði barna stuðli að vellíðan þeirra, góðri geðheilsu og félagsfærni. Því er sjónum þar með mest beint að börnum þar sem forvarnir til að draga úr hættu á að börn þrói með sér geðvanda skili mestum árangri og mestri aukningu á lífsgæðum þegar til lengri tíma er litið. Vissulega eru forvarnir líka mikilvægar fyrir fullorðna en það þurfti að forgangsraða í verkinu og við forgangsröðuðum börnum við gerð þessarar stefnu.

Aðgerðirnar sem lagðar eru til eru meðal annars að setja á fót þverfagleg teymi í nærumhverfi sem sinna fræðslu, þjálfun, ráðgjöf og stuðningi við foreldra og að fundnar og leitað verði að áhrifaríkum aðgerðum til geðræktar í skólum. Lagt er til að skimað verði fyrir kvíða og þunglyndi meðal grunnskólabarna og veitt viðeigandi meðferð í kjölfarið og einnig að settur verði á fót starfshópur til að finna árangursríkar aðferðir til að draga úr sjálfsvígum meðal ungmenna ásamt því að áætla kostnað við innleiðingu og að gera innleiðingaráætlun.

Í þriðja kaflanum er horft til fordóma og mismununar. Það er þekkt að fólk með geðraskanir verði því miður enn fyrir fordómum af hálfu samfélagsins. Markmið þessa kafla er að fólki verði ekki mismunað á grundvelli geðheilsu. Aðgerðirnar sem settar eru fram í þessu skyni eru meðal annars að fundnar verði gagnrýnar aðferðir til að draga úr fordómum í garð fólks með geðraskanir og að settar verði fram leiðbeiningar fyrir fjölmiðla um það hvernig unnt verði að fjalla um geðheilbrigðismál án þess að alið sé á fordómum.

Ein aðgerð miðar að því að ráða fólk með geðraskanir til starfa og kanna hvort vera þess á vinnustað hafi áhrif á afstöðu samstarfsfólks til fólks með geðraskanir. Einnig er lagt til að hluti af almennri heilsufarsskoðun hælisleitenda við komuna til landsins verði að leggja mat á geðheilsu þeirra.

Reynt hefur verið eftir bestu getu að meta kostnað við framkvæmd aðgerðanna. Fáeinar aðgerðir eru taldar innan almennra verkefna hins opinbera en heildarkostnaður við tillögurnar á þessum fjórum árum er um 562 milljónir kr. Þar vega þyngst kostnaður við geðheilsuteymi, kostnaður vegna ráðningar sálfræðinga á heilsugæslustöðvar og kostnaður við að efla þjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Við undirbúning og vinnu þessarar þingsályktunartillögu var tvennt aðallega haft að leiðarljósi. Annars vegar að hafa sem víðtækast samráð eftir því sem hinn naumi tími og tímarammi leyfði og hins vegar var verkefnið að vinna að því að setja fram stefnu sem væri skýr, aðgerðamiðuð og framkvæmanleg á fjórum árum. Í upphafi verkefnisins var haldinn opinn kynningarfundur um það og verklagið sem ætlunin var að vinna eftir. Á þeim fundi voru haldnar eins konar örvinnustofur þar sem fundarmenn höfðu tækifæri til að koma með ábendingar og tillögur til fulltrúa í stýrihópi verkefnisins sem hafði verið skipaður. Í kjölfarið á þessu uppleggi störfuðu fimm undirhópar og fjallaði hver hópur um einn afmarkaðan þátt geðheilbrigðismála og skilaði tillögum að aðgerðum til stýrihópsins. Í þessari vinnu komu fram fjölmargar tillögur sem allflestar áttu fullt erindi í þá tillögu sem hér er lögð fram. En til að setja fram tillögu sem er framkvæmanleg á næstu fjórum árum varð, eins og áður hefur komið fram, að velja úr og forgangsraða. Það hefur verið gert og er niðurstaða þeirrar forgangsröðunar hér lögð fram í þeirri þingsályktun sem hér er til umræðu. Drög að þingsályktunartillögunni voru sett á vef velferðarráðuneytisins til umsagnar.

Öllum sem tekið höfðu þátt í starfi hópanna eða komið á kynningarfundinn var send ábending um að tillagan væri komin á vef ráðuneytisins og alls bárust í því ferli 28 umsagnir. Ég vil við þetta tækifæri þakka öllum þeim sem hafa komið að þessu verki, báðum stýrihópnum og ekki síður því ágæta fólki öllu öðru sem kom að verkum.

Ég vil nefna það líka hér, undir lok míns máls, að ástæða er til að fagna þeirri vitundarvakningu sem hefur átt sér stað í þessum málaflokki, geðheilbrigðismálunum, og má nefna hér að ég átti þess kost í gær að funda með Heilabrotum sem er ungmennaráð UNICEF sem hefur mikinn áhuga á þessu verki og hefur í raun sett fram skýra og mjög markvissa kröfu um aðgerðaáætlun.

Virðulegi forseti. Ég hef í þessu máli mínu gert grein fyrir meginatriðum þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir. Það er von mín að hún geti orðið til þess að styrkja stöðu fólks sem glímir við geðvanda eða geðsjúkdóma en geti jafnframt stuðlað að því að styðja fjölskyldur í uppeldishlutverkum sínum og draga úr hættu á að geðvandi meðal barna og ungmenna þróist á verri veg.

Ég vil svo að lokum leggja til að tillögunni verði, að lokinni þeirri umræðu sem hér á sér stað, vísað til hv. velferðarnefndar og síðari umræðu.



[14:06]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir vel unna aðgerðaáætlun. Það fór um ár í vinnslu þessarar áætlunar og síðan hefur hún verið í eftirvinnslu þangað til hún kemur inn til okkar núna. Ég vil sérstaklega fagna því að í tillögunni er áætlun um fjármagn, sem er á fjórum árum um 562 millj. kr. Svo mun koma í ljós í meðförum nefndarinnar hvað vantar og hvað mætti betur fara, en ég er sannarlega ánægð með þessa vinnu og vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hana.

Það er tvennt sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í. Annars vegar er það liður A.6, um að þjónusta á göngudeild BUGL verði efld. Þar er gert ráð fyrir 29 millj. kr. á ári frá og með árinu 2017. Þar ríkir auðvitað alvarlegt ástand. Ég vil spyrja af hverju það hafi ekki verið strax á næsta ári áætlaðir fjármunir þarna inn.

Síðan er það liður A.9, um að mæta uppsafnaðri þörf geðfatlaðs fólks fyrir húsnæði og þjónustu. Þar er eingöngu fjárveiting á árinu 2016 upp á 33,1 millj. kr. Manni virðist sem það sé alls ófullnægjandi og ég ætlaði að fá betri útskýringu á þeirri fjárveitingu hjá ráðherra.



[14:09]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið og ánægjuleg og góð viðbrögð, kærar þakkir fyrir það. Heiðurinn af þessari vinnu á það fólk sem stýrði verkum og vann mjög vel á knöppum tíma, undir takmörkuðum tímafresti.

Það er alveg rétt að í stefnunni og aðgerðaáætluninni eru tímasett, ábyrgðarsett og kostnaðargreind markmið. Á árinu 2016 minnir mig að kostnaðurinn sé um 111 millj. kr. en í heildina 562 millj. kr. Við eigum síðan eftir að vinna úr því þegar fram líða stundir hvernig okkur gengur að fjármagna 2017, 2018 og 2019.

Hv. þingmaður spyr annars vegar um tillögu A.6, um þjónustuna á BUGL. Hún kom inn eftir athugasemdafrest og þegar við höfðum gengið frá ramma og tillögu inn í fjárlagagerðina og við fundum þar af leiðandi ekki stað fyrir hana. Við tókum sem sagt inn athugasemd sem við fengum í umsagnarferlinu og settum inn í tillögugerðina til þingsins. Ég tek undir það með hv. þingmanni að ekki veitir af í ljósi umræðunnar og stöðunnar. Ég skal fyrstur manna fagna því ef okkur gengur í meðförum þingsins að hraða þeirri áherslu sem þarna þarf að eiga sér stað.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um tillögu A.9, um uppsafnaða þörf fyrir búsetuúrræði, vil ég nefna sérstaklega að þar hefur verið tekið aðeins á í þessum efnum, sérstaklega hjá Reykjavíkurborg. Við vorum um tíma með mjög mörg rými á Kleppsspítala upptekin af fólki sem komst ekki þaðan út vegna þess að það vantaði búsetuúrræði. Sem betur fer hefur verið gerð bragarbót á því, sérstaklega hjá Reykjavíkurborg, og því ber að fagna og þakka fyrir það. En engu að síður töldum við ástæðu til að halda (Forseti hringir.) þessu atriði mjög stíft inni vegna þess að það hefur verið fyrirstaða, ekki bara núna heldur í gegnum tíðina, gagnvart því að fólk með geðraskanir eigi möguleika á búsetu við hæfi.



[14:11]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svörin. Það var ágæt skýring við A.6 og svo væri ánægjulegt ef okkur tækist að ná fram breytingu núna við 2. umr. fjárlaga og fengjum inn fjármuni fyrir barna- og unglingageðdeildina. En varðandi A.9 vil ég spyrja aðeins nánar. Í hvað eiga þessar 33,1 millj. kr. að fara, hvernig er það framlag hugsað? Þetta er einskiptisframlag, er þetta einhvers konar stofnframlag til aðstoðar sveitarfélögunum eða hvað er inni í þessari fjárhæð? Hvernig er hún hugsuð?



[14:12]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi búsetutillöguna í A.9 er hún hugsuð sem einskiptisaðgerð til sveitarfélaga til þess að losa spítalann sérstaklega undan því að vista fólk innan vébanda spítalans sem hefur í rauninni engan tilgang með því að búa þar. Það á miklu betra líf og betri tækifæri með frjálsri búsetu úti í samfélaginu. Þannig er þessi tillaga hugsuð.



[14:13]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa áætlun og er sammála því sem komið hefur fram, að þetta er afskaplega tímabært. Fram undan eru spennandi verkefni sem við munum glíma við þegar við framfylgjum áætluninni. Ég hef einmitt verið að velta fyrir mér búsetuúrræðum. Mér finnst þetta skammur tími ef við erum að hugsa um allt landið í því sambandi, ekki bara höfuðborgarsvæðið. Hér segir, með leyfi forseta:

„Mælanlegt markmið: Sá hópur sem nú bíður útskriftar af geðdeild hafi flust í viðeigandi húsnæði fyrir árslok 2016.“

Á þetta við bara um Reykjavík eða er þetta til dæmis líka á Akureyri eða annars staðar þar sem fólk er hjá opinberum stofnunum sem þar ætti ekki að vera miðað við ástand sitt?

Síðan langar mig að spyrja út í B. 3, þar sem talað er um að skimað verði fyrir kvíða, þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna í efstu bekkjum grunnskóla. Þar er minnst á Breiðholt þar sem skimað hefur verið fyrir þessum þáttum í samstarfi Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og grunnskólanna í Breiðholti frá 2009. Svo er talað um verkefnið Hug og heilsu, sem sögð er vera gagnreynd aðferð (e. evidence based) sem byggist m.a. á hugrænni atferlismeðferð. Síðan kemur í beinu framhaldi að skimað sé fyrir einkennum alvarlegrar geðlægðar í 9. bekk grunnskóla. Er verkefnið Hugur og heilsa alls staðar á landinu eða bara í Breiðholti?

Þetta var það sem mig langaði að spyrja um í fyrstu atrennu.



[14:15]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Varðandi spurningu hv. þingmanns um skimunina sem fjallað er um í tillögu B.3, þau tvö módel sem koma til greina og verið er að horfa til, þá er allt landið undir ef og þegar við förum til skimunarinnar, það er einfaldlega þannig.

Síðan varðandi búsetuúrræðin sem hv. þingmaður spurði út í þá er engu slíku til að dreifa nema hjá Kleppsspítala þar sem við erum í raun með fólk bundið inni sem ekki er lengur til beinna lækninga á sjúkrahúsi. Kleppsspítali er eina þjónustuúrræðið í geðheilbrigðismálum þar sem fólk læsist inni á spítala vegna þess að það kemst ekki aftur út. Við erum ekki með nein viðlíka vandamál annars staðar á landinu.

Ég er sammála hv. þingmanni í því að það eru mörg spennandi verkefni þarna og verður fróðlegt að sjá hvaða ávöxt þau bera og ánægjulegt að hafa möguleika á því að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Ég stend í þeirri meiningu að tillagan sé mjög vel unnin að því leyti að hún reynir að beina í ákveðinn farveg ýmsum sjónarmiðum sem verið hafa uppi í geðheilbrigðismálum í langan tíma en eru töluvert tvístruð í kerfinu og meðal fólks. Ég bind vonir við að það eitt að beina þeim öllum í sama stefnuskjal muni skila okkur til muna meiri og betri árangri en við höfum hingað til náð í þessum málaflokki heilbrigðisþjónustunnar.



[14:17]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég geri ráð fyrir að farið verði í alla 9. bekki. En hefur þetta einungis verið reynt í Breiðholti? Það var það sem ég var að leita eftir, hvort það hafi verið gert einhvers staðar annars staðar fram til þessa.

Síðan langar mig til að spyrja varðandi Geðheilsustöð Breiðholts. Hún var í fréttunum í sumar varðandi þetta tilraunaverkefni sem skilað hefur góðum árangri eins og raun ber vitni. Fram kom að innlögnum hefði fækkað um 25% og legudögum um 198 á ári. Þar var talað um að fjármuni vantaði til að halda áfram af því að þetta væri jú tilraunaverkefni. Hefur það verið tryggt? Mér skilst að ríkisstjórnin ætli að koma með tillögu sína til 2. umr. fjárlaga 20. nóvember. Megum við þá eiga von á einhverju varðandi þetta plagg sérstaklega?



[14:18]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um hvort hún geti átt von á einhverju meira frá ríkisstjórninni fyrir 2. umr. fjárlaga er ánægjulegt að heyra hvaða vonir eru bundnar við ríkisstjórnina og fjárlagagerðina. Við höfðum gert ráð fyrir því í vinnu okkar við fjárlögin og útdeilingu á því útgjaldasvigrúmi sem við höfum, að geta brúað þá þætti sem snúa að heilbrigðisráðuneytinu við framkvæmd þessarar stefnu, þó svo að við værum ekki búin að leggja hana fram í þinginu. En það kann að vera að sá þáttur sem hér kom til umræðu í andsvari varðandi barna- og unglingageðdeildina, BUGL, að það væri fullkomlega eðlilegt að við skoðuðum það í samstarfi ráðuneytisins og þingsins vegna fjárlagagerðarinnar að flýta því verkefni í stað þess að keyra það inn á árið 2017.

Varðandi fyrirspurn um Hug og heilsu og skimun hefur það verkefni verið keyrt áður víða um land, m.a. á Akureyri, sem er, eins og við vitum, ég og hv. þingmaður, sveitarfélag í okkar ágæta Norðausturkjördæmi.



[14:20]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga sé komin fram. Það var þannig að þegar ég var saklaus borgari, áður en ég fór á þing, þá hélt ég einfaldlega að stjórnvöld væru alltaf að vinna eftir stefnu í öllum mikilvægum málum, ekki síst í málefnum sem þessum. Það kom mér því mjög á óvart þegar ég settist á þing að sjá í hversu mörgum málaflokkum er lítil stefna og verið að taka tilviljanakenndar ákvarðanir út og suður. Þetta finnst mér þess vegna algerlega skref í rétta átt. Ég skil í rauninni að menn takmarki umfangið og setji niður tillögur og ákveði að vinna að þeim þótt ég hefði auðvitað viljað sjá meira þarna inni, en ég skil markmiðið með því.

Það sem veldur mér áhyggjum þegar ég skoða kostnaðarmatið er að þótt gott sé að fá þetta yfirlit og tilraun til kostnaðarmats finnst mér margir þættir vera inni sem rúmast innan ramma fjárlaga og ég er hrædd um að við séum alltaf að auka á álagið og bæta við verkefnum án þess að gera ráð fyrir því að það þurfi fólk til að vinna þau. Mér finnst of margir liðir og mér finnst þetta vel sloppið með 562 milljónir. Ég hefði haldið að svona átak mundi kosta kannski 2 milljarða, ef vel ætti að vera. Ég hugsa að þessi upphæð hérna, 500 milljónir, sé varla umsýslukostnaðurinn út af skuldaniðurfellingunni, bara til að setja þetta í samhengi við eitthvað annað. Ég vil spyrja hvort hæstv. ráðherra telji þetta raunhæft, hvort hann mundi ekki vilja sjá meira fé, því að eins og kemur fram í greinargerð sparast kostnaður til lengri tíma ef vel tekst til. Við erum sú þjóð sem notum hvað mest til dæmis af þunglyndislyfjum, það er mikill fjöldi í greiningum og við notum mikið af lyfjum við ofvirkni, athyglisbresti og öðru slíku. Maður hefði haldið að ef þetta væri gert af fullum krafti og almennilega mundu sparast töluverðar upphæðir til lengri tíma. Mér finnst þetta lág upphæð, ég verð að segja það, og kannski ekki alveg raunhæf.



[14:22]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og get upplýst enn einu sinni að það er minnsta málið að ráðstafa meiri fjármunum inn í heilbrigðisþjónustuna en við höfum til ráðstöfunar. Svör við hugrenningum hv. þingmanns um kostnaðargreininguna á þessu eru einfaldlega þau að þetta er unnið af fjárlagaskrifstofunni í ráðuneytinu og er unnið eftir bestu þekkingu þar. Það má í sjálfu sér segja sem svo að þetta séu vissulega ekki stórar fjárhæðir, 560 milljónir á fjórum árum, í stóra samhenginu. En það sýnir okkur kannski líka ágætlega hversu miklu er hægt að áorka með tiltölulega litlum fjárveitingum í þessum málaflokki. Mitt mat er að þetta sé vel unnið plagg og kostnaðargreiningin það besta sem við höfum völ á í þessari greiningu. Þarna eru þættir inni sem hugsanlega kunna að rúmast innan ramma viðkomandi stofnana eða þá að þarna er verið að setja á fót starfshópa og almenna reglan hjá ríkinu er sú að það er ekki greitt fyrir setu eða störf í starfshópum.

Ég tek alveg undir það með hv. þingmanni að þetta hefur verið heldur stefnulaus málaflokkur. Við erum að taka okkur á í því. Við erum núna að leggja fram þessa stefnu í geðheilbrigðismálum, sem er sú fyrsta sem við komum fram með. Við erum að vinna að gerð stefnu í öldrunarmálum og ég vonast eftir því að geta kynnt hana í upphafi næsta árs. Við erum sömuleiðis að vinna að stefnu í krabbameinsmálum. Svo erum við að leggja drög að heilbrigðisáætlun til lengri tíma sem umfaðmar eða umvefur í rauninni allt kerfið. Hún kemur þá í lokin.



[14:24]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við séum öll sammála um að þetta sé gott skref í rétta átt. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að það sé oft hægt að gera mikið fyrir lítið, sérstaklega í þessum málaflokki, og vel hægt að nýta þekkingu og krafta sem fyrir eru í kerfinu. En mér finnst of mikið af því að það eigi allt að rúmast innan ramma fjárlaga. Þetta kemur bara í ljós og við höldum hæstv. ráðherra við efnið.

Mig langar að spyrja aðeins út í C.4 á bls. 6 þar sem talað er um að í reglubundinni heilsufarsskoðun hælisleitenda verði lagt mat á geðheilsu þeirra. Ég held að þetta sé mjög gott mál. Það vakna hjá mér spurningar varðandi málaflokk sem eru fangar sem eiga við geðheilbrigðisvandamál að stríða — við höfum haft eitt dæmi sem hæstv. ráðherra þekkir örugglega mætavel — hvort það rúmist einhvers staðar í þessari áætlun. Það er þannig að þeir sem eiga í þessum vanda leiðast kannski frekar út í glæpi og þurfa sérstaka aðstoð og þjónustu. Er það einhvern veginn skrifað inn í áætlunina?



[14:25]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég þakka fyrir það ef hv. þingmenn ætla að veita aðhald að framkvæmd þessarar stefnu. Ég mun að sjálfsögðu þiggja það með þökkum og reyna að stunda það sjálfur líka gagnvart þeim sem eiga að framfylgja því sem kemur sem afurð Alþingis út úr þeirri vinnu sem fram undan er. Ég held að við deilum öll þeirri hugsun sameiginlega í því að reyna að bæta þjónustu ríkisins í þessum málaflokki. Það eru held ég allir á einu máli um að ekki sé vanþörf á.

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um fanga sérstaklega þá er, eftir því sem ég best veit, að fara í gang starfshópur sem fer yfir geðheilbrigðismál fanga. Það er gert ráð fyrir því í þeirri vinnu sem hér er til umræðu að sett verði á fót þverfaglegt teymi, geðheilbrigðisteymi, sem muni vinna með Fangelsismálastofnun og viðkomandi heilbrigðisstofnun (Forseti hringir.) að því að vinna með málefni geðsjúkra fanga.



[14:27]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég gleðst svo sannarlega yfir því að tillaga til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í heilbrigðismálum til fjögurra ára hafi nú verið lögð fram. Ég er mjög stolt í dag yfir því að hafa flutt þá tillögu sem var grundvöllurinn fyrir þessa aðgerðaáætlunargerð. Haustið 2013 flutti ég þingsályktunartillögu um að slík aðgerðaáætlun yrði samin. Með mér á tillögunni voru hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hjörvar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Þorsteinn Magnússon.

Mig langar að fara nokkrum orðum um þessa tillögu. Nú kemur hún inn í velferðarnefnd og við munum senda hana út til umsagnar. Við eigum eflaust eftir að fá ýmsar athugasemdir þó að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem tillagan verður send út til umsagnar. Þetta var vel unnið og tekið tillit til sumra eins og fram kom í andsvari ráðherra áðan. Ég veit til þess að sumir hafa áhyggjur af því að ekki sé fjallað þarna nægilega skilmerkilega um ADHD. Eins hafa menn áhyggjur af geðheilbrigði í tengslum við fæðingar barna, sem sagt að betur þurfi að passa upp á tengsl foreldra og ungbarna í þessari áætlun.

Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að þetta er ekki hin fullkomna áætlun en ég held að hún sé vel unnin. Hún miðast við ákveðinn ramma og þetta er mjög jákvætt og gott fyrsta skref.

Ég þakka starfshópnum sem vann þetta. Hann var leiddur af Guðrúnu Sigurjónsdóttur sem vann mjög gott starf. Ég fylgdist aðeins með starfi hópsins og allt var til fyrirmyndar. Í hópnum sátu náttúrlega fleiri auk þeirra fjölmörgu sem lesa má um í fylgiskjali III að komu á fund starfshópa eða á kynningarfundi.

Frá því að þessi tillaga var lögð fram hefur orðið enn meiri vakning varðandi umræðu um geðheilbrigðismál, mikilvægi þess að við búum við gott geðheilbrigði og að við séum með skilvirka og aðgengilega þjónustu fyrir þá sem eru veikir, hvort heldur sem fólk er alvarlega veikt eða lífsgæði þess hafi minnkað vegna minni háttar geðrænna kvilla. Það er mikilvægt að mæta fólki sem fyrst svo að hægt sé að koma í veg fyrir alvarlegri sjúkleika. Við skulum hafa í huga að þessi áætlun, ef vel gengur, er mikilvæg fyrir einstaklingana sem njóta þjónustunnar, en hún er ekki síður mikilvæg þegar við lítum til þess að stærsta orsök í nýgengi örorku eru geðrænir kvillar.

Meginmarkmið geðheilbrigðisstefnunnar eru, með leyfi forseta:

„Aukin vellíðan og betri geðheilsa landsmanna og virkari samfélagsþátttaka einstaklinga sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma óháð búsetu þeirra.“

Þetta eru falleg markmið. Svo eru undirmarkmið um að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir sé samþætt og samfelld, að uppeldisskilyrði barna stuðli að vellíðan þeirra og að fólki verði ekki mismunað á grundvelli geðheilsu.

Það eru nokkrar aðgerðir sem mig langar að tala aðeins um hérna. Ég var búin að fara yfir það í andsvari að tillögunni fylgir fjárhagsáætlun. Við hefðum auðvitað öll viljað sjá meiri peninga fara þarna inn en við sjáum þó fram á að á næstu fjórum árum koma 562 nýjar milljónir í geðheilbrigðismál. Svo verðum við að sjá hvort ástæða sé til þess að við í þinginu þrýstum saman á um frekari fjárveitingar.

Það er markmið að fólk upplifi þjónustuna samþættari, að unnið verði að því að samþætta hana og að árið 2020 telji 70% af notendunum hana vera samþætta og samfellda. Það kemur ekki fram í tillögunni, ekki svo ég hafi séð, hvernig staðan er núna. Það væri mikilvægt að vita það svo að við vitum hvort þetta séu nógu metnaðarfull markmið.

Svo erum við hér með verkefnið Tölum um börnin. Þar er ekki síst markmiðið að koma í veg fyrir að geðheilsuvandi flytjist milli kynslóða. Í ræðu minni þegar við vorum að samþykkja þessa tillögu á þinginu þá fór ég nokkuð ítarlega yfir þennan þátt. Það er mjög mikilvægt að huga að börnum og fjölskyldum þeirra sem eiga við geðrænan vanda að stríða.

Ein glæsilegasta tillagan hér er þjónusta sálfræðinga á heilsugæslustöðvum, að hún verði efld. Strax á næsta ári sjáum við þess merki í fjárlögum að verið er að fjölga sálfræðingum í heilsugæslunni. Sú fjölgun á að halda áfram á komandi árum þannig að á 90% heilsugæslustöðva verði aðgengi að gagnreyndri meðferð sálfræðinga við algengustu geðröskunum svo sem þunglyndi, kvíðaröskun og áfallastreitu. Markmiðið er 50% fyrir árslok 2017, þannig að það er aldeilis þörf á átaki þarna, og að það fari upp í 90% í lok árs 2019.

Það er sannarlega ánægjulegt að þetta sé nú þegar komið inn í fjárlagafrumvarpið. Það verður mikil bót í þjónustu og lyftistöng fyrir heilsugæsluna.

Varðandi þjónustu á göngudeild BUGL er mjög mikilvægt að hún verði efld. Mér finnst koma til greina að við könnum hvort við reynum ekki núna í fjárlögum fyrir árið 2016 að hefja það átak þegar í stað.

Síðan á að mæta uppsafnaðri þörf geðfatlaðs fólks fyrir húsnæði og þjónustu. Ég held að nefndin muni skoða það nokkuð vel og hvort fjárveiting í það sé nægjanleg.

Hér eru metnaðarfull og góð markmið um geðrækt og forvarnir. Þar er meðal annars komið inn á þverfagleg teymi í nærumhverfi sem sinni fræðslu, þjálfun, ráðgjöf og stuðningi við foreldra og fjölskyldur. Þá er mikilvægt að við lítum til þess að fólki sé hjálpað þegar það er að hefja hlutverk sitt sem foreldrar og að fólki sé komið til aðstoðar eins fljótt og verða má svo að hægt sé að koma í veg fyrir að vandinn aukist með árunum. Það þarf að grípa strax inn í.

Líka er lagt til að skimað verði fyrir kvíða, þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna í efstu bekkjum grunnskóla og veittur viðeigandi stuðningur með meðferð ef viðkomandi telst í áhættuhópi. Þetta verkefni verður hafið strax á næsta ári. Ég held að allir séu sammála um að það verði mikil bót í því.

Hér er kafli um fordóma og mismunun. Þar langar mig sérstaklega að tala um verkefni í lið C.3 um að ríki og sveitarfélög ráði fólk sem hefur lent utan vinnumarkaðar vegna langvinnra geðraskana til starfa í stofnunum sínum. Þetta er fyrirmyndarverkefni og á að gera með myndarbrag. Það skiptir auðvitað máli að fólk sé ekki útilokað frá samfélaginu vegna veikinda heldur gefið tækifæri til fullrar þátttöku sem ýtir undir, ef vel er gert, bata eða betri líðan.

Eins og ég sagði þá hefur frá því að tillagan var lög fram haustið 2013 og síðan samþykkt í janúar 2014 aukist mjög umræða og meðvitund um geðheilbrigðismál. Sjúklingahópar hafa gert sig gildandi í umræðunni sem er vaxandi.

Það er ánægjulegt að nú þegar eru komnar fjárveitingar til heilsugæslunnar út af sálfræðiþjónustu og til Þroska- og hegðunarstöðvar út af greiningum á ADHD. Það er kannski stærsti veikleiki tillögunnar að ADHD-vandinn er ekki reifaður almennilega en í meðförum nefndarinnar munum við sjá hvort það þurfi ekki að koma honum aðeins hér inn, enda er ógreint ADHD mikið mein fyrir einstaklinga í samfélaginu, sem fá ekki notið hæfileika sinna vegna slíkra taugasjúkdóma eða (Forseti hringir.) hvað maður á að segja og eiga að fá viðunandi meðferð og lyf eftir þörfum.



[14:37]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með þessa þingsályktunartillögu og vil þakka öllum þeim sem hafa átt hlut að máli. Það er alltaf gaman að sjá að þingsályktunartillögur sem þingmenn bera fram beri ávöxt eins og hér er. Mér finnst líka gott í þessu plaggi að fá yfirlit yfir þá þjónustu sem er til staðar úti um land og það sést hvað hún er í raun fjölbreytileg og mismunandi eftir landshlutum.

Í þingsályktunartillögunni er reyndar tekið fram að kannski sé ekki allt nefnt, en mig langar aðeins til að vekja athygli á einu úrræði á Akureyri sem er Hlíðaskóli; kannski deila ráðuneytin um það hvort það sé skóli eða meðferðarúrræði, en eins og ég þekki Hlíðaskóla þá er hann í raun mjög mikilvægt meðferðarúrræði sem hefur lent á milli skips og bryggju að einhverju leyti. Það sýnir kannski hve fjölbreytt meðferðarúrræðin geta verið og farið fram á mismunandi stöðum.

Mig langar líka að benda á að á bls. 17 er liður A.7 þar sem talað er um að settur verði á fót starfshópur sem kanni hvort fjarþjónusta um internet gæti nýst til að veita fólki meðferð vegna geðraskana. Þá vil ég minna hæstv. heilbrigðisráðherra á að þingsályktunartillaga Bjartrar framtíðar var samþykkt í vor um fjarheilbrigðisþjónustu. Það hlýtur einhvern veginn að vinnast saman. (Gripið fram í.) Já, það er að fara í gang og þetta er hér, þannig að þetta vinnst allt saman, að ekki sé verið að margvinna hlutina — en ég veit að hæstv. ráðherra er með þetta allt á hreinu.

Þetta virkar vel unnið. Ég segi kannski eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem átti þingsályktunartillöguna, að ég hefði kannski viljað sjá meiri áherslu á börn og unglinga, en ég geri samt ráð fyrir að það sé fléttað inn í eftir ýmsum leiðum. Ég ætla því ekki að vera með neikvæðni hér. Ef þessi áætlun nær fram að ganga næstu fjögur árin þá erum við strax búin að stíga risastórt skref. Það eina sem ég hef áhyggjur af er að fjárveitingarnar séu of tæpar. Það snýr þá, eins og hæstv. ráðherra bendir á, kannski að okkur hér í þinginu, að reyna að eiga við það. En ég hefði kannski viljað sjá aðeins meiri metnað hvað það varðar þó að ég ætli ekki að fara að deila við starfsmenn í fjármálaráðuneytinu sem eflaust vinna þetta eftir bestu getu.

Ég kom aðeins inn á fangana í andsvari mínu sem mér þykir mikilvægt að gleymist ekki, og hæstv. ráðherra sagði að starfshópur væri að störfum um málefni fanga.

Ég held að ég sé ekkert að lengja þetta. Ég er spennt að sjá umsagnir sem berast og hvort þessi tillaga taki breytingum í meðförum nefndarinnar. Ég mundi vilja sjá að við reyndum að flýta þeim verkefnum sem ekki er gert ráð fyrir strax á næsta ári ef við gætum. Mér finnst verið að setja hér á fót mjög mörg brýn og þörf verkefni sem við hefðum átt að vera byrjuð á fyrir 20 árum, sum þeirra munu ekki að byrja fyrr en 2017 eða 2018, jafnvel 2019. Að við ýtum þessu úr vör eins fljótt og við getum, ég mundi vilja sjá fjárveitingar í það að byrja fyrr og vera komin lengra á veg 2019.

Ég þakka fyrir þetta góða mál og fylgist með því þó að ég sitji ekki í velferðarnefnd.



[14:42]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Eins og komið hefur fram þá ræðum við hér tillögu til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Um er að ræða afar mikilvæga tillögu sem hefur að meginmarkmiði að auka vellíðan og stuðla að betri geðheilsu landsmanna og virkari samfélagsþátttöku einstaklinga sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma óháð búsetu þeirra.

Mig langaði aðallega að fara í nokkur atriði er varða tillöguna. Ég fagna því verulega að þessi þingsályktunartillaga sé komin fram og þeim markmiðum og þeirri aðgerðaáætlun sem hún inniheldur.

Undirmarkmið tillögunnar er, eins og fram kom í ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra, að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir sé samþætt og samfelld, að uppeldisskilyrði barna stuðli að vellíðan þeirra og að fólki verði ekki mismunað á grundvelli geðheilsu.

Ef við skoðum aðeins undirmarkmið 1, að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir sé samþætt og samfelld, kemur meðal annars fram að bundið verði í lög að ríki og sveitarfélög geri með sér samstarfssamninga um útfærslu samþættrar þjónustu við einstaklinga með geðraskanir. Þetta er sett fram með það að markmiði að auka samstarf milli þjónustuaðila á vegum ríkis og sveitarfélaga. Þarna eru ýmsir aðilar taldir til eins og félags-, heilbrigðis- og menntakerfið og samstarfsaðilar, landlæknir, heilbrigðisstofnanir, mennta- og menningarmálaráðuneyti og sveitarfélög og þjónustusvæði í málefnum fatlaðra.

Önnur áætlun, undir lið A.3, er meðal annars að þjónusta sálfræðinga standi til boða á heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum sem sinna heilsugæslu í samræmi við samsetningu og stærð þjónustusvæða. Þetta er sett fram með það að markmiði að fólk geti fengið meðferð og stuðning sálfræðinga á heilsugæslustöðvum vegna algengustu geðraskana, svo sem þunglyndis og kvíðaraskana.

Ég fagna því verulega að skref séu stigin í þessum efnum í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 en þar kemur meðal annars fram að fjölga eigi sálfræðingum á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum um átta á árinu 2016. Þar er unnið samkvæmt bresku módeli sem hefur það að markmiði að hafa einn sálfræðing á hverja 9.000 íbúa og unnið er samkvæmt þeirri áætlun fram til 2020, til að ná því markmiði, en afar mikilvægt er að fjölga sálfræðingum til að bæta aðgengi almennings að þeim. Auk þess er nauðsynlegt að niðurgreiða þann kostnað sem einstaklingar þurfa að greiða fyrir sálfræðiþjónustu í dag, en sá kostnaður er, að ég held, um 13.000 krónur hver stakur tími.

Önnur áætlun, undir lið A.6, er að þjónusta á göngudeild BUGL verði efld með það að markmiði að stytta biðlista þannig að börn þurfi ekki að bíða eftir þjónustu. Því miður er það staðreynd í dag að börn og ungmenni þurfa að bíða í of langan tíma eftir þjónustu deildarinnar. Ég fagna því að í tímamarkmiði komi fram að árið 2019 eigi að vera búið að útrýma þeim biðlistum sem eru á göngudeild BUGL. Ég verð þó að viðurkenna að fyrir einstaklinga sem eiga í vanda, og fjölskyldur þeirra, er tíminn svolítið langur, en vert er að fagna því að skref séu stigin í þá átt að stytta og útrýma biðlistum.

Það er líklegt að einstaklingur sem fær aðstoð þegar á þarf að halda, þegar hægt er að bregðast við vanda eins fljótt og mögulegt er og eins vel og mögulegt er, nái betri líðan, geti stundað nám sitt, að fjölskyldan geti sinnt sínum daglegu hlutum og að allir þessir einstaklingar geti fyrr lagt sitt til samfélagsins í formi menntunar eða vinnu o.s.frv. En það sem skiptir mestu máli er að þessum einstaklingum líði betur.

Ég ætla að vinda mér í nokkur atriði sem falla undir undirmarkmið 2, sem er það að uppeldisskilyrði barna stuðli að vellíðan þeirra, góðri geðheilsu og félagsfærni. Þá er sett í áætlun að sett verði á fót þverfaglegt teymi í nærumhverfi sem sinni fræðslu, þjálfun, ráðgjöf og stuðningi við foreldra og fjölskyldur. Markmiðið er að styðja foreldra í uppeldis- og umönnunarhlutverki sínu og áætlað er að framkvæmd fari þannig fram að þverfaglegt teymi fagfólks verði sett á fót í samstarfi ríkis og sveitarfélaga sem veitir þjónustu í náinni samvinnu við heilsugæslu, félagsþjónustu og skóla.

Þessu ákvæði vil ég fagna sérstaklega. Ég veit af eigin reynslu hve mikilvægur þessi þáttur er. Ég hef gengið í gegnum greiningarferli með barn sem hefur fengið fötlunargreiningu. Í þeim þáttum sem ég þekkti til og kom að var þverfaglegt teymi sem tók við fræðslu, þjálfun, ráðgjöf og stuðningi eftir að greiningu lauk. Það voru foreldrar, aðstandendur, starfsfólkið sem vann með einstaklinginn og fleiri sem komu þar að. Afar jákvætt er að yfirfæra eigi þessa þjónustu yfir á geðheilbrigðismál því að sú reynsla sem ég þekki til á þessari vinnu hefur gefið góða raun, meðal annars með ákveðnum stöðufundum með aðstandendum og öllum aðilum þar í kring, um það hvernig gengið hefur með einstaklinginn og hvaða markmið eru sett í framhaldi og hvernig eigi að halda áfram til að stuðla að eins góðri líðan og mögulegt er. Þessu fagna ég verulega. Þetta mun án efa styrkja einstaklinga og aðstandendur þeirra sem standa í þessum sporum.

Næsta áætlun, sem fer undir undirmarkmið 2, liður B.3, er að skimað verði fyrir kvíða, þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna í efstu deildum grunnskóla og veittur verði viðeigandi stuðningur eða meðferð ef viðkomandi telst í áhættuhópi. Markmiðið er að grípa snemma inn í og veita börnum sem glíma við kvíða og afleiðingar áfalla stuðning til að draga úr hættu á að mál þróist á verri veg.

Vert er að geta þess, eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni, að unnið hefur verið að þessum málum í Breiðholti frá árinu 2009. Þar hefur verið skimað fyrir depurð, eða meðal annars er það eitt af þeim verkefnum, og kvíða meðal unglinga. Um er að ræða samstarfsverkefni Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og grunnskólanna í Breiðholti. Í framhaldi af fyrirlögn skimunarlista hefur verið hringt í alla foreldra barna sem mælast yfir hættuviðmiðum, þau boðuð í viðtal og námskeið og bent á leiðir. Þetta hefur gefið góða raun. Ef ákveðin alvarleg merki koma í ljós er hringt til foreldra samdægurs, upplýst um stöðuna og boðað í viðtal. Þau námskeið sem boðið er upp á varðandi þessa þætti byggjast á hugrænni atferlismeðferð sem hefur gefið mjög góða raun.

Ég vil minnast á markmið sem er byggt upp á þingsályktunartillögu hv. þm. Karls Garðarssonar sem hann lagði fram á þingi síðasta þingvetur. Mál hans hlaut afgreiðslu hér í þingsal og gekk þar næst til hv. velferðarnefndar þar sem það var tekið til afgreiðslu og vísað til ráðuneytis inn í þá vinnu sem var í gangi um að móta þá aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum sem við ræðum hér og nú.

Annað atriði, sem fellur undir undirmarkmið 2, liður B.4, er að sett verði fram áætlun um innleiðingu gagnreyndra aðferða til að draga úr sjálfsvígum ungmenna. Hér er mikilvægt að málið gangi hratt og vel og að einstaklingar sem þurfa aðstoð fái hana þegar á þarf að halda. Því ber að fagna að í fjárlögum fyrir árið 2016 er verið að fjölga sálfræðingum eins og kom fram áðan til að auka aðgengi að þeim.

Ef við skoðum undirmarkmið 3 þá er þar fjallað um fordóma og mismunun og að unnið sé að því að fólki sé ekki mismunað á grundvelli geðheilsu. Því miður hefur það verið ákveðið tabú hér á landi, ef maður leyfir sér, með leyfi forseta, að segja það. Því miður hafa of margir ekki treyst sér til að segja hvað er að ef um andleg veikindi er að ræða. Of oft hefur það verið falið undir einhverju öðru eins og að fólk komist ekki af því að það sé með magapest eða höfuðverk, ég held að við þekkjum öll einhver dæmi um það. Ég tel að það ákvæði sem kemur fram í undirmarkmiði 3 sé mjög mikilvægt, að vinna á fordómum og mismunun sem ég tel að hafi farið mjög svo minnkandi í okkar samfélagi á undanförnum árum.

Ég fagna því átaki eða vitundarvakningu sem varðar þennan málaflokk sem heitir „Ég er ekki tabú“, þar sem fólk er farið að stíga fram og segja frá sínum veikindum.

Virðulegur forseti. Ég er afar stolt af þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur. Ég tel að hún hjálpi mörgum og geti dregið úr fordómum. Auk þess sem við erum að fá fram þessa aðgerðaáætlun og fá meðal annars opinbera aðila, ýmsar stofnanir og aðila í samfélaginu með í verkefnið þá tel ég að fordómar minnki og þjónustan muni aukast. En við þurfum fjármagn inn í þetta til að geta fylgt þeirri áætlun sem fram kemur í þessari aðgerðaáætlun.

Hv. velferðarnefnd mun taka þessa mikilvægu þingsályktunartillögu til efnislegrar umræðu og afgreiðslu. Ég hlakka til þeirrar vinnu. Það er mikilvægt að málið hljóti góða afgreiðslu því að þetta varðar hagsmuni fjölda fólks.



[14:52]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að taka til máls um þingsályktunartillögu um stefnu- og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

Það er gott að leggja fram slíkar áætlanir og orð eru til alls fyrst. Það er gott að reyna að horfa yfir verkefnin sem fyrir liggja í nánustu framtíð í þessum málaflokki sem og svo mörgum öðrum. Auðvitað eru þetta mjög brýn mál sem um ræðir, um það held ég að við deilum ekki. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lagt áherslu á það við komandi fjárlagagerð að sálfræðingar standi til boða á heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum um allt land þannig að fólk geti leitað í þá þjónustu fyrr í ferlinu en verið hefur. Ég hef helst áhyggjur af því að illa geti gengið að manna stöður en ég vona svo sannarlega að svo verði ekki og að við getum veitt íbúum landsins þjónustu hvar sem er, alla vega í allra stærstu byggðakjörnunum svo fólk þurfi ekki að fara um mjög langan veg til að sækja sér slíka þjónustu.

Hér er málinu skipt niður í nokkra kafla, A, B og C, og undirmarkmið og þess háttar. Áætlunin er til fjögurra ára og mér finnst nokkur bjartsýni vera ríkjandi þar. Ég tek undir það sem fram kom í andsvörum við ráðherra áðan, ég hef áhyggjur af því að fjármagnið reynist ekki nægjanlegt. En vissulega kemur fram í lokin að yfirfara beri áætlunina í tengslum við undirbúning fjárlaga ár hvert og gera ráð fyrir þeim kostnaði sem af henni kann að hljótast. Ég lít svo sem ekki á þessar tölur sem endanlegar, enda getur margt breyst á næstu árum.

Mér finnst margt áhugavert sem hér er sett fram, til dæmis sá starfshópur sem setja á á fót sem á að kanna hvort hægt verði að sinna einhverri fjarþjónustu sem nýst gæti fólki með geðraskanir í meðferð. Mér finnst það áhugavert vegna þess að það eru auðvitað breyttir tímar og þótt maður vilji gjarnan sitja með hinn aðilann fyrir framan sig í raunheimum í svona viðkvæmum málum, getur þetta verið lausn til dæmis fyrir þann sem á erfitt með að fara út úr húsi vegna geðröskunar sinnar eða getur hreinlega ekki komist til meðferðaraðila. Þess vegna væri gott ef hægt væri að leysa svona mál með fjarþjónustu. Mér finnst það áhugavert. Þessi starfshópur á reyndar ekki að skila af sér fyrr en í janúar 2018. Ég veit ekki alveg hvers vegna hann á að taka sér svona langan tíma. Það má vera að það sé í samræmi við annað í þessari þingsályktunartillögu. Ég er ekki búin að lesa hana í gegn, þ.e. ég er búin að hraðlesa en ekki fara nákvæmlega ofan í hana.

Setja á nokkra starfshópa á fót, meðal annars til að gera tillögur um geðræktarstarf í skólum. Einhvern veginn hélt ég að búið væri að gera slíkt, en það má vera að ekki sé lengur hægt að byggja á því. Það er ef til vill þar sem nauðsynlegast er að starfið komist á hreyfingu sem allra fyrst því að þar eru vandamálin oft hvað mest, þ.e. þegar kemur að börnum og ungu fólki með einhvers konar raskanir, sem þurfa mikla aðstoð. Það getur skipt miklu máli fyrir framtíð þeirra að gripið sé inn í mjög snemma. Tillögur starfshópsins eiga ekki að liggja fyrir fyrr en í lok árs 2017, þ.e. eftir rúm tvö ár. Mér finnst það of seint og mundi vilja sjá velferðarnefnd huga aðeins betur að því hvort hægt væri að flýta þeirri vinnu.

Það er eitt og annað hér sem hægt er að velta fyrir sér. Meðal annars eru verkefni sem verið hafa í gangi víða um land og hafa tekist vel, meðal annars á Suðurlandi. Þar má nefna ART-verkefnið sem kallar á áframhaldandi stuðning af hálfu ríkisins og væri áhugavert að sjá hvort það kemur þarna inn. Það er ekki tekið sérstaklega fram þegar talið er upp í heilbrigðisumdæmunum hvað gert hefur verið og hvaða úrræði hafa verið nýtt. Það er alla vega ekki tiltekið sérstaklega. En ég vona að þar sem þetta verkefni hefur gefið afskaplega góða raun, eins og margoft hefur komið fram, eins og fleiri sem nýtt hafa verið, sparar samfélaginu stórar fjárhæðir til lengri tíma og leiðir til þess að fólk á unglingsárum og jafnvel eldra verður síður utanveltu í samfélaginu, fólk sem annars hefði ekki getað tekið þátt í samfélaginu vegna þess að það fékk ekki viðhlítandi aðstoð eða úrræði fyrr á ævinni.

Við höfum töluvert rætt um stöðu geðheilbrigðismála fyrir Norðurland, meðal annars vegna þess að eini starfandi barna- og unglingageðlæknirinn hefur formlega hætt störfum, að minnsta kosti á Akureyri, en hann sinnti áður mjög stóru svæði. Nú hefur verið sett á laggirnar af hálfu ráðherra faglegt teymi í tengslum við barna- og unglingageðdeildina á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Það leysir tiltekinn vanda en alls ekki allan. Það þarf ekki endilega að fara í teymisvinnu. Það getur verið nauðsyn að komast til almenns barna- og unglingageðlæknis. Það er auðvitað líka áhyggjuefni að það eru enn þá mjög fáir að læra þá sérgrein í háskólanum. Við þurfum vissulega að reyna að hvetja til þess að fleiri taki það að sér því að það er mikil þörf. Hér kemur einmitt fram að 120 börn bíða eftir þjónustu á barna- og unglingageðdeild en það er bara brot af þeim börnum sem bíða. Fram kom um daginn að í kringum 1000 fjölskyldur á hinum ýmsu stöðum í samfélaginu bíða eftir einhvers konar aðstoð vegna geðrænna vandamála.

Hér er líka rætt um það sem ég spurði hæstv. ráðherra út í áðan, þ.e. þá skimun sem lagt er til að fari fram í 9. bekk um land allt. Er meðal annars vitnað til reynslunnar í Breiðholti, þar hefur verið reynt að bæta alvarlega stöðu og hefur það gengið mjög vel. Það er reyndar borgin sem sér að mestu um geðteymið sem ég talaði um áðan og ég held að þegar við sjáum fram á fækkun innlagna upp á 200 manns á ári, eða 25–28%, hljóti það að hafa áhrif og eitthvað sem við viljum leggja áherslu á. Slík úrræði kosta samfélagið minna og dregur úr vanlíðan þeirra sem í hlut eiga.

Virðulegi forseti. Tíminn er fljótur að líða, eins og gjarnan er þegar stór mál eru rædd. Hér er margt undir. Verið er að tala um viðhorf gagnvart einstaklingum sem eiga við geðrænan vanda að stríða. Hér er lagt til bæði gagnvart fjölmiðlum og vinnuveitendum og öðrum að fólk hugsi út fyrir kassann og setji til hliðar fordóma sem oft hafa verið uppi. Þegar fjallað er um ofbeldismál í fjölmiðlum er gjarnan talað um einhverjar raskanir eða geðræn vandamál sem sett eru í sama kassa, sem er auðvitað ekki rétt að gera. Varðandi lið C.5, þar sem hvatt er til þess að ríki og sveitarfélög ráði fólk sem lent hefur utan vinnumarkaðar vegna langvinnra geðraskana vona ég svo sannarlega að atvinnurekendur taki við sér og ég hvet þá til þess að gefa því fólki tækifæri. Við þurfum að opna á það í gegnum allt kerfið að öryrkjar, fólk sem orðið hefur öryrkjar vegna geðrænna vanda gefist tækifæri til að komast í hlutastörf með stuðningi frá ríkinu eða sveitarfélögunum hjá hinum almenna atvinnurekanda og fái tækifæri til að tengjast aftur út í samfélagið þannig að fólki líði eins og það sé að gera gagn. Ég hvet því ekki bara ríki og sveitarfélög heldur líka almenn fyrirtæki til að taka fólk í vinnu sem átt hefur við þennan vanda að etja.



[15:02]
Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með öðrum hér sem hafa talað um að þetta plagg og þessi stefna sé mikið fagnaðarefni. Ég meina það í fullri alvöru vegna þess að oft kemur maður hérna upp og byrjar kannski að fagna einhverju bara af því að það fagna allir einhverju, en þetta gleður mig virkilega vegna þess að fátt varð ég meira tilfinnanlega vör við í vinnu minni sem varaformaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar í tíð síðasta meiri hluta en að það vantaði upp á stefnumörkun í málefnum geðfatlaðra og fólks með ýmiss konar geðraskanir. Það vantaði mjög mikið upp á heildstæða stefnumótun í þeim málaflokki og það hefur orðið honum til mikilla trafala í langan tíma. Mörg af þeim vandamálum sem komu upp voru oft einhvers konar bitbein á milli ríkis og sveitarfélaga um hver átti að gera hvað og hvernig átti að gera það. Sem betur fer er tekið á mörgum af þeim þáttum í þessu plaggi hérna.

Það er eitt sem mig langaði að lyfta svolítið upp og tala um hér og finnst mjög mikilvægt að rati inn í þessa stefnu með einhverjum hætti, en það eru málefni tvígreindra eða þeirra sem glíma við geðraskanir og fíknisjúkdóma. Það er sá hópur sem er hvað erfiðast að greina vegna þess að fíknin tekur svolítið yfir ýmislegt annað og þá er erfitt að greina fólk með undirliggjandi geðsjúkdóma. Þar af leiðandi fær þetta fólk ekki viðeigandi þjónustu. Þetta er einmitt sá hópur sem er hvað mest áberandi í þeim hópi sem telst til heimilislausra. Reykjavíkurborg hefur reynt að sinna honum vel að mínu mati þótt auðvitað megi alltaf gera betur, en hún hefur um langa hríð verið ein að sinna því þótt útigangsmenn komi ekki bara úr Hlíðunum eða Grafarvogi, þeir koma alls staðar að af landinu. Mig mundi langa til þess að sjá kveðið á um þetta með skýrari hætti af því að geðraskanir og geðsjúkdómar leiða oft af sér fíknisjúkdóma eða fíknisjúkdómar leiða af sér geðræn vandamál. Þannig að þetta er náskylt og þessi hópur þarf oft mikla þjónustu. Ég vil nefna í tengslum við það að í þessari stefnu er sérstök áhersla lögð á unglinga og börn, að það er hópur framheilaskaðaðra, oftast ungra manna af einhverjum sökum sem ég kann ekki að skýra, sem fær í dag undir engum kringumstæðum nægilega góða þjónustu. Þessu fylgja oft miklar geðraskanir og mikil geðræn vandamál og ofan í það koma fíknisjúkdómar. Ég hvet til þess að þetta verði tekið inn í vinnu nefndarinnar með skýrari hætti.

Mig langaði að öðru leyti að lyfta svolítið upp því sem ég tel vera gott hérna og það er áherslan á börn og fjölskyldur. Geðsjúkdómar eru í eðli sínu þannig að þeir hafa lamandi áhrif á fjölskylduna alla. Það er ekki síst börn og skyldmenni þeirra sem glíma við geðsjúkdóma sem þurfa líka mikla hjálp. Þar langaði mig einmitt að benda á Geðheilsustöð Breiðholts sem er getið í þessu plaggi sem er mjög mikilvægt og gott verkefni. Breiðholtið var það hverfi í Reykjavík þar sem flestar bráðainnlagnir á geðdeild áttu sér stað en eins og fram hefur komið hér í umræðunni hefur þeim fækkað um 28% eftir að þetta verkefni fór af stað í Breiðholti. Ef við lítum bara á kostnaðinn þá sparast þarna gríðarlegur kostnaður, svo ekki sé talað um aukin lífsgæði þeirra sem eiga í hlut því það er verið að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og hjálpa fjölskyldum við að takast á við afleiðingar sjúkdómsins og áskoranir daglegs lífs sem fylgja því að lifa við geðsjúkdóm í lengri eða skemmri tíma.

Annað sem mér finnst mjög mikilvægt er að mér finnst hér skýrt að orði kveðið um að það eigi að eyða biðlistum á BUGL. Ég vona bara að því fylgi sú fjárveiting sem þarf og þar vil ég taka undir orð hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur um fjárveitinguna sem þessu fylgir. Erum við að biðja starfsfólk um að hlaupa hraðar? Ef svo er þá er ég ekki hrifin af því vegna þess að þar held ég að sé mikið álag á starfsfólk og mikið um útbrunna starfsmenn, eðlilega. Þar er oft verið að glíma við mjög erfið mál þar sem þarf að taka alla fjölskylduna inn í vegna þess að þar er verið að eiga við börn.

Í því samhengi langaði mig líka að lyfta upp málefnum barna með alvarlegar geðraskanir og þroskaraskanir. Ég spurði hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um þjónustu við alvarlega þroskaskert og geðröskuð börn og unglinga. Í svarinu kemur fram að þessi málaflokkur hafi ekki verið fjármagnaður með yfirfærslu málaflokks fatlaðra til sveitarfélaga og að það standi til bóta í komandi fjárlagafrumvarpi. Ég held það standi ekki á fjárveitingavaldinu að bæta það upp, vegna þess að komið hefur í ljós eftir flutninginn að þessi þjónusta var fullkomlega vanfjármögnuð. Það þarf að bæta þar í.

Svo vil ég líka nefna skimun eftir þunglyndi og kvíða í 9. bekk sem hefur verið gerð í Breiðholti og skilað miklum árangri og dregið mjög úr greiningum. Ég heyrði einhvers staðar fleygt tölum um að það væri í kringum 50% sem er auðvitað ekki bara afleiðing þessarar skimunar heldur fleiri þátta líka. En í þessu kemur vel fram að mannlegu hlutirnir sem gerðir eru í kerfinu okkar eins og að þjónusta fólk þar sem það er statt hverju sinni skipta gríðarlega miklu máli. Þótt þeir kunni kannski að kosta mikið til að byrja með þá draga þeir úr kostnaði annars staðar. Þessi heildræna hugsun í því að hjálpa fólki til sjálfshjálpar hvar sem það er statt hverju sinni er gríðarlega mikilvæg. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við gleymum ekki fíknihliðinni á geðsjúkdómum, hvort sem fíknisjúkdómar koma í kjölfar geðsjúkdóma eða öfugt.

Annað sem ég vildi nefna er örorka og geðsjúkdómar. Ég greini það ekki alveg í þessu plani hvernig hugað er að því að laga örorkukerfi okkar þannig að fólk festist ekki á örorku, þ.e. ef það glímir við geðsjúkdóma í einhvern ákveðinn tíma. Ég hef ósjaldan heyrt frá fólki sem glímir við þessa sjúkdóma að það er tilhneiging til að fara á örorku og þora ekki út úr því kerfi aftur því þá missi það bætur og þar af leiðandi lífsviðurværi sitt. Það er vont kerfi vegna þess að það hvetur fólk ekki til sjálfshjálpar og hvetur það ekki til þess að standa á eigin fótum. Þessir sjúkdómar eru oft þannig að þeir koma í einhvers konar bylgjum og fara, svo koma þeir aftur. Kerfið okkar þarf að laga sig að því en ekki fólkið að því kerfi sem við erum búin að setja upp.

Annars ítreka ég að ég vænti þess að gerðar verði enn þá betri viðbætur við þetta plagg í vinnu velferðarnefndar, en ég þakka kærlega fyrir og þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sérstaklega fyrir að hafa lagt málið fram á sínum tíma og það gleður mig mjög að þessi stefna sé að líta dagsins ljós.



[15:10]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil líkt og aðrir sem hér hafa tekið til máls í dag fagna því að þessi tillaga til þingsályktunar um stefnu- og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sé komin fram. Mér finnst sérlega jákvætt að með tillögunni, þar sem fram kemur að meginmarkmið geðheilbrigðisstefnunnar sé aukin vellíðan og betri geðheilsa landsmanna og virkari samfélagsþátttaka einstaklinga sem glíma við geðraskanir til lengri eða skemmri eða lengri tíma óháð búsetu þeirra, fylgir kostnaðarmat eða kostnaðaráætlun. Það segir hreinlega í tillögutextanum, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að unnið verði samkvæmt eftirfarandi stefnu og aðgerðaáætlun til fjögurra ára í geðheilbrigðismálum og að gert verði ráð fyrir framkvæmd hennar við gerð fjárlaga.“

Mér finnst þetta gríðarlega jákvætt og mikill kostur að gert sé ráð fyrir því að þetta muni kosta peninga í framkvæmd, en svo verður tíminn að leiða í ljós hvort þetta séu nægilegir fjármunir sem hér er verið að setja í málin. Mér finnst það alla vega góð og jákvæð byrjun að verkefninu fylgi tæpar 563 millj. kr.

Það eru nokkur atriði í þessu sem mig langar að draga út og gera að umræðuefni af því sem ég tel alveg sérstaklega jákvæð. Það ber þá fyrst að nefna liðinn A.3 sem fjallar um það að þjónusta sálfræðinga standi til boða á heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum sem sinna heilsugæslu. Það held ég að sé gríðarlega mikilvægt og mikið jöfnunartæki því kostnaður við það að fara til sjálfstætt starfandi sálfræðinga er mjög mikill og er sennilega ofviða mörgu fólki sem þarf svo sannarlega á sálfræðiþjónustu að halda. Ég held að það að færa sálfræðiþjónustuna út í nærumhverfið á fyrstu viðkomustaðina muni einnig gagnast öllum líkt og er tekið fram í greinargerð.

Annað sem ég er sérstaklega ánægð með er markmiðið sem sett er fram í A.6 sem fjallar um að þjónusta á göngudeild BUGL verði efld. Markmiðið er að stytta biðlista þannig að börn þurfi ekki að bíða lengi eftir þjónustu. Eins og hér hefur verið rætt þá er biðtíminn núna allt of langur, meðalbiðtími er níu mánuðir en getur verið allt að 18 mánuðir. Það er gríðarlega mikilvægt að börnum og ungmennum sé sinnt þannig að þau komist að sem allra fyrst.

Svo langar mig líka að nefna að í A.8 er talað um að byggð verði upp þekking á hjúkrunarheimilum til að veita öldruðu fólki þjónustu ef það á við geðræna erfiðleika að etja. Ég held að þetta sé mál sem þjóðin sé að vakna til vitundar um, um að eldra fólk geti einnig átt við geðræna erfiðleika að stríða. Í samfélagi þar sem meðalaldur fólks fer hækkandi og öldruðu fólki fjölgar er náttúrlega gríðarlega mikilvægt að á þessu sé tekið og þetta sé partur af geðheilbrigðisstefnunni.

Svo langar mig að eyða megninu af tíma mínum í að ræða aðgerðir í C-hluta áætlunarinnar sem ber yfirskriftina Fordómar og mismunun. Undirmarkmiðið sem þar er sett, undirmarkmið 3, er að fólki verði ekki mismunað á grundvelli geðheilsu. Í skýrslu sem heitir Fatlað fólk og öryrkjar sem íbúar sveitarfélaga og kom út árið 2013 var gerð könnun á viðhorfi almennings til fatlaðs fólks. Þar kemur fram að svarendur, sem er sem sagt almenningur, eru ósáttir við að fólk með þroskahömlun eða geðsjúkdóm sitji á Alþingi fyrir þeirra kjördæmi, sinni umönnun barna, afgreiði í verslunum eða starfi með þeim að félagsmálum. Fólk er almennt ósáttara við að fólk með þroskahömlun eða geðsjúkdóma sinni slíkum verkefnum en eru hins vegar jákvæðara gagnvart því að hreyfihamlað fólk, heyrnarlaust eða blint fólk sinni þeim. Að auki kom meira að segja í ljós að svarendur voru ósáttari við það að karlmaður með geðsjúkdóm starfaði að umönnun barna en kona með geðsjúkdóm. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að hafa þetta atriði í huga þegar við tölum um fordóma og mismunun og ég held að því miður sé hér mikið verk að vinna til að útrýma fordómum svo fólki sé ekki mismunað á grundvelli geðheilsu.

Af því að þetta atriði tengist vinnumálum þá langar mig til að hoppa næst yfir í lið C.3 þar sem fjallað er um að ríki og sveitarfélög ráði fólk sem hefur lent utan vinnumarkaðar til starfa í stofnunum sínum. Þar segir að markmiðið sé að draga úr fordómum og mismunun. Framkvæmdin er, með leyfi forseta:

„Sett verði á fót tilraunaverkefni á ákveðnum opinberum vinnustöðum þar sem hlutastörfum verður fjölgað til að gera þau aðgengilegri fyrir fólk sem hefur verið án vinnu vegna geðraskana.“

Mig langar að vísa í skýrslu sem heitir Fordómar og félagsleg útskúfun og er frá árinu 2014 en þar er gerð samantekt á stöðu fatlaðs fólks eins og hún birtist í íslenskum rannsóknum frá árunum 2000–2013. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fatlað fólk óttast að fá ekki starf á almennum vinnumarkaði og festast í aðgreinandi úrræðum eða einhæfum störfum.“

Þar segir jafnframt:

„Fatlað fólk vill fremur vinna á almennum vinnumarkaði en í aðgreindum úrræðum, svo sem vernduðum vinnustöðum.“

Mér finnst mjög mikilvægt að þessu sé veitt athygli því það er svo mikilvægt að gefa atvinnumálum mikinn gaum því þátttaka á vinnumarkaði er mikilvægur partur af lífi fullorðinna einstaklinga og stór liður í því að vera virkur þátttakandi í samfélaginu. Þar gildir auðvitað það sama um fólk sem glímir við geðræna erfiðleika og alla aðra. Það er ýmislegt í þessu sem þarf að hafa í huga. Um leið og verið er að beina því til ríkis og sveitarfélaga að ráða fatlað fólk til starfa og í því tilfelli sem við ræðum sérstaklega um hérna, fólk með langvinnar geðraskanir, verður að muna og hafa þessa þætti í huga.

Mér finnst líka mjög jákvætt sem kemur fram í lið C.2 um að setja eigi fram leiðbeiningar fyrir fjölmiðla um það hvernig unnt sé að fjalla um geðheilbrigðismál án þess að ala á fordómum. Við höfum náttúrlega nýlegt dæmi um það úr fjölmiðlum þar sem efnistökin hefðu að mínu mati verið öðruvísi ef einhverjar leiðbeiningar hefðu legið fyrir eða starfsfólk fjölmiðlanna hefði haft betri upplýsingar og verið betur frætt um það hvernig best væri að fjalla um málefni fólks með geðræna erfiðleika án þess að ala á fordómum um leið.

Nú þegar tíminn er að renna frá mér þá langar mig að nefna lið C.4, um að fram eigi að fara reglubundin heilsufarsskoðun á hælisleitendum. Þá er gríðarlega mikilvægt að slík skoðun verði gerð í þeim tilgangi að aðstoða fólk en ekki notuð til að vísa fólki frá, sem sagt notuð í neikvæðum tilgangi. Það er ekki það sem er hægt að lesa út úr þessu en mér finnst mikilvægt að nefna að það má ekki vinna með það þannig. (Forseti hringir.)

Tími minn er búinn. Ég er sem sagt frekar jákvæð gagnvart þessu máli og hlakka til að sjá það þegar það kemur aftur til okkar til síðari umr.



[15:21]
Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Eins og aðrir sem hafa tekið til máls í þessari umræðu held ég að hér sé um góða tillögu að ræða og ég held að ég geti tekið undir með öllum þeim hv. ræðumönnum sem hafa talað á undan mér.

Verið er að ræða aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir fjölskyldur og geðrækt, forvarnir og er sjónum sérstaklega beint að börnum og ungmennum. Þetta má reyna að leysa eða bæta með ýmsum leiðum, með geðheilsuteymi, þjónustu sálfræðinga, þjónustu á göngudeild BUGL o.s.frv.

En ég ætla ekki að tala mikið um efni þessa frumvarps af því að mér finnst vanta gríðarlega stóran þátt inn í það. Ég ætlaði að vera vonsvikinn yfir því en ég held að það sé ekki hægt eftir að hafa lesið fylgiskjölin með frumvarpinu þar sem maður sér að gríðarlega margir umsagnaraðilar og þátttakendur, stofnanir og aðrir sem þetta mál varða, hafa komið að því. Líklega er það ekki almenn vitneskja hvað mataræði getur haft góð og mikil áhrif á geðheilbrigði fólks og þá sérstaklega barna. Ég held að það sé ekki almenn vitneskja en núna nýlega, á síðustu fimm til sjö árum, hafa verið gerðar rannsóknir í bæði Bretlandi og Ameríku sem sýna að mikið af þeim sjúkdómum og vandamálum sem við glímum við er hægt að draga úr, ég segi kannski ekki alveg fullleysa en í sumum tilvikum draga úr með góðu mataræði.

Ég hef sjálfur lesið bók eftir breskan höfund sem heitir Natasha Campell-McBride. Bókin var þýdd á íslensku árið 2008 og heitir Meltingarvegurinn og geðheilsa. Hún fjallar um náttúrulega meðferð við einhverfu, þunglyndi, ofvirkni, geðklofa, lesblindu, athyglisbresti og verkstoli. Bókinni er einnig ætlað að hjálpa börnum og fullorðnum að forðast eyrnabólgu, astma, ofnæmi og exem. Allt þetta tengir höfundur við betra mataræði og vitnar í margar rannsóknir sér til stuðnings. Þetta er mjög ítarleg bók og fræðileg, svolítið torlesin en mjög gagnleg. Ástæðan fyrir bókinni er sú að höfundurinn á sjálf einhverft barn og nær gríðarlega góðum árangri með náttúrulegu mataræði en bókin byggir líka á rannsóknum á meðferð skjólstæðinga hennar.

Ég las við undirbúning minn að þessari þingsályktunartillögu að hvað varðar ADHD, sem er athyglisbrestur með ofvirkni, er hægt að draga úr eða nánast lækna 63% þeirra sem greinast með ADHD með breyttu mataræði. Ég tel að hægt sé að fullyrða að þetta sé gríðarlega hátt hlutfall. Mér hefur fundist talsvert mikið um að leysa eigi vandamál með lyfjum, sérstaklega í þessum málaflokki. Ég hef í huga mínum gagnrýnt, og ekki farið með það neitt út á við fyrr en hér og nú, að fræðasamfélagið og læknasamfélagið hafi ekki nægilega þekkingu á næringu og á þeim áhrifum sem næring getur haft á líkamann. Því til stuðnings vil ég segja að sú sem þýddi fyrrnefnda bók á íslensku og skrifaði lokaritgerð um áhrif mataræðis á börn með ADHD segir, með leyfi forseta:

„Ég vona að smám saman verði meiri vakning innan heilbrigðiskerfisins um hvað rétt mataræði hefur mikið að segja fyrir fólk með einhverfu, ofvirkni, athyglisbrest, þunglyndi og geðklofa.“

Þá vil ég einnig fjalla um skaðleg efni sem eru í matvælum en fyrir 1997 voru svokölluð E-efni eða litarefni bönnuð í matvælum. Nú þekki ég það ekki hvort tengsl geti verið á milli aukinna geðrænna vandamála og þessi að þau efni hafi verið leyfð að nýju.

Mig langar að fjalla um tvennt úr bókinni í restinni af ræðu minni. Annað varðar tvær gerðir af próteini sem heita glúten og casein. Þau brotna niður í tveimur stigum í meltingarveginum og leggur höfundurinn áherslu á að hægt sé að hvíla meltinguna, en glúten og casein finnst í kornvörum, hveiti og mjólk, og tekur höfundur m.a. dæmi um ástæður þess að fólk geti verið með mjólkuróþol. Ef meltingarvegurinn er orðinn mjög óheilbrigður geta þessi tvö prótein haft sömu áhrif á heilastarfsemina og ópíum hefur. Ég veit að þetta eru stór orð en þetta er það sem hún hefur komist að í rannsóknum sínum.

Svo vil ég koma að öðru sem snýr að mataræði okkar Íslendinga en það er nýtt að maður verði að sleppa fitu og fita sé slæm í mataræði. Campell-McBride færir mörg rök fyrir því að kólesteról sé það versta og segir að 70% af öllu kólesteróli í blóði sé framleitt í lifrinni úr einföldum kolvetnum. Ég les út úr því að verið sé að styðja það að egg séu ekki óholl, eins og áður var talið. Kólesteról í eggjum hefur ekki bein áhrif á kólesteról í blóði en hins vegar hækka einföld kolvetni, sem eru t.d. í gosdrykkjum, sætindum og í sykri almennt, sem er því miður orðinn allt of stór hluti af fæðu okkar, kólesteról í blóði og valda þar af leiðandi miklu fleiri sjúkdómum en við erum að fjalla um hér og tengjast geðheilsu, en þetta tengist allt.

Ég vildi koma inn á þennan mikilvæga þátt og vona að hv. velferðarnefnd, þar sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er formaður, taki athugasemdir mínar til greina og fjalli um þær og skoði hvernig megi bæta mataræði inn í þessa ályktun. Að öðru leyti vil ég fagna þessu.



[15:31]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um stefnu- og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára þar sem Alþingi ályktar að unnið verði samkvæmt þeirri stefnu sem birtist í þessari tillögu og að gert verði ráð fyrir framkvæmd hennar við gerð fjárlaga.

Fyrst vil ég segja að það er alltaf ánægjulegt þegar stefnumótandi áætlanir, og vandaðar eins og sú sem við ræðum hér er, eru settar fram og byggja á faglegum grunni, fela í sér markmið sem eru sundurgreind í meginmarkmið, undirmarkmið, langtímamarkmið, skammtímamarkmið og tímasettar og ábyrgðarvæddar áætlanir. Sett eru viðmið og ætlast er til að þeim sé fylgt eftir og greint frá því með hvaða hætti það verði gert. Mér finnst mikilvægt að draga það fram, en það er auðvitað ekki síður efni tillögunnar og innihald þeirrar áætlunar sem vert er að ræða.

Áður en ég kem að efni og innihaldi tillögunnar finnst mér full ástæða til að hrósa fólki fyrir vinnuna, framsetninguna og hrósa öllum þeim sem komið hafa að vinnunni og taka þar með undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls. Fram hefur komið að tillagan byggir á þingsályktun sem samþykkt var á vorþingi 2014. Þá þegar var skipaður stýrihópur með erindisbréfi ráðherra. Ég leyfi mér jafnframt að fullyrða að allir í þessum hópi og aðrir sem komið hafa að þessari vinnu og greint er frá í tillögunni hafa ekki setið auðum höndum því að tíminn er ekki mjög mikill. Þetta er frekar skammur tími miðað við gæðin í tillögunni. Það er gjarnan þannig þegar umfangið er mikið að víða er hægt að bera niður og þá um leið hægt að bæta við hlutum og gagnrýna eitthvað. En í heild lítur þetta mjög vel út. Ég er ekki í vafa um að þetta á eftir að nýtast okkur mjög vel á komandi missirum.

Ég ætla að ræða helstu atriði tillögunnar út frá framsetningunni. Þegar stefnumótandi áætlun liggur fyrir er uppröðunin á tillögunni með þeim hætti að þægilegt er að ræða hana út frá framsetningu. Og af því að þetta er stefnumótandi áætlun ætla ég að koma inn á markmiðin. Fram kemur þegar í upphafi tillögunnar að meginmarkmið geðheilbrigðisstefnunnar sem unnið er eftir er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Aukin vellíðan og betri geðheilsa landsmanna og virkari samfélagsþátttaka einstaklinga sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma óháð búsetu þeirra.“

Þessu meginmarkmiði fylgja þrjú undirmarkmið. Það fyrsta er að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir sé samþætt og samfelld. Það er eitt af stóru verkefnunum og raunar rauði þráðurinn í tillögunni, sem er vel, vegna þess að þessir sjúkdómar, allt eftir því hvernig þeir eru skilgreindir, skarast á við fjölmarga aðila og stofnanir og er mikilvægt að ná fram samvinnu og samþættingu í þeim efnum.

Annað undirmarkmið tillögunnar snýr að uppeldisskilyrðum barna og því að stuðla að vellíðan þeirra. Þriðja markmiðið er að fólki verði ekki mismunað á grundvelli geðheilsu. Þetta eru allt verðug markmið og þau eru vel uppsett. Ég ætla að skoða þessi markmið eilítið, aðallega undirmarkmið 2 sem snýr að uppeldisskilyrðum barna og unglinga og að stuðla að vellíðan þeirra.

Mikilvægt er að hlúa að forvörnum í þessu máli eins og mörgum öðrum á heilbrigðissviði og það eru mjög margir jákvæðir þættir og verkefni sett fram í þessum forvarnaþætti. Ég sakna þó eilítið meiri áherslu á hreyfingu og þátttöku barna og unglinga í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Reyndar er komið inn á það í lið B.2. Þar er sagt að settur verði á fót starfshópur til að gera tillögur um geðræktarstarf í skólum, sem er vel. Þar eru nefnd dæmi um samstarfsaðila. Meðal annars er íþróttahreyfingin nefnd þar. Ég vil koma því á framfæri í þessari ræðu og vísa til hv. velferðarnefndar að skoða aðkomu mismunandi aðila, eins og samstarfsaðila að öllum þeim þáttum sem heyra undir markmiðið um geðrækt og forvarnir.

Það er hins vegar tekið fram í greinargerð með tillögunni og er mikilvægt að draga fram að það eru svo margir aðilar sem þessi málaflokkur snertir að oft er sagt í tillögunni að um sé að ræða stofnanir eða félagasamtök. Ég held að varðandi flokkinn undirmarkmið 2 sé mjög mikilvægt að huga að hreyfingu og skipulögðu íþrótta-, félags- og tómstundastarfi.

Ákveðin þróun hefur átt sér stað undanfarið, við munum sjá hana á næstu árum og er gerð er ágætisgrein fyrir henni í greinargerð með tillögunni. Hún er að geðheilsuvandi verður æ minna feimnismál og er það vel. Því verður sá vandi sýnilegri. Þannig mun verkefnum og viðfangsefnum á þessu sviði fjölga og þau munu jafnvel verða flóknari. Þá reynir enn frekar á þann þátt sem er raunar eitt af meginmarkmiðunum með tillögunni og áætlunarinnar, sem er að samþætta aðgerðir hinna ýmsu aðila, sérfræðinga, fagaðila, stofnana, skóla — skólar eru auðvitað mjög mikilvægur þáttur í uppeldi barnanna okkar — og sveitarfélaga, félagasamtaka, vinnumarkaðar, íþróttafélaga og félagasamtaka allra sem standa að skipulögðu félags- og tómstundastarfi. Við getum nefnt alla þessa hagsmunaaðila í þessari vegferð sem er að stuðla að bættri líðan, vellíðan almennt og þátttöku í leik og starfi eins og meginmarkmið tillögunnar segir til um.

Það er vel að hér er lögð áhersla á samþættingu þjónustu bæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur og með áherslu á geðrækt og forvarnir og sjónum beint sérstaklega að börnum og unglingum.

Ég ætla að leyfa mér að ítreka hrós og þakkir til hæstv. ráðherra sem fór vel yfir málið í framsögu. Ég fagna þessari tillögu og hef mikla trú á að hún eigi eftir að færa okkur framar á þessu sviði á komandi árum.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.