145. löggjafarþing — 34. fundur
 16. nóvember 2015.
fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins.
fsp. JMS, 323. mál. — Þskj. 373.

[18:24]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Í október á síðasta ári lagði sú sem hér stendur fram þingsályktunartillögu um eflingu náms í mjólkurfræði. Málið komst til nefndar og var sent til umsagnar. Þær fimm umsagnir sem bárust voru allar jákvæðar í garð ályktunarinnar og talað um sem mikilvægt skref til að viðhalda þekkingu á úrvinnslu mjólkur sem hér er að finna, en einnig til að nýtast innan annarra greina. Jafnframt var í þeim umsögnum lýst yfir áhyggjum af iðnaðinum ef ekkert væri gert í þeim málum. Umsagnirnar sem komu voru frá Landssambandi kúabænda, Mjólkurfræðingafélagi Íslands, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins.

Þar sem málið er talið brýnt og komst ekki í gegnum síðasta löggjafarþing var það lagt fram aftur á yfirstandandi þingi með fleiri flutningsmönnum um miðjan september síðastliðinn. Á sama tíma fær sú sem hér stendur, fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar, fregnir af því að fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins sé umboðslaus og hafi verið það síðan í febrúar, eða milli framlagningar þingsályktunartillagna um eflingu náms í mjólkurfræði. Eins og þetta blasir við mér er sagt að menntamálaráðherra eigi að skipa formann nefndarinnar áður en aðrir séu tilnefndir í hana og það hafi ekki verið gert. Þá hafi umboð þeirra sem fyrir sátu ekki verið framlengt og því sé nefndin í raun ekki starfandi.

Með fyrrgreindri þingsályktunartillögu og umsögnum sem um hana bárust á síðasta þingi og svo með framlagningu hennar að nýju hefði hæstv. ráðherra átt að vera ljóst að áfram yrði unnið að henni. Því er mér spurn hvað hæstv. ráðherra hefur ætlað sér að gera í þessum málum.

Því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra hvert hlutverk fræðslunefndar mjólkuriðnaðarins sé, hverjir eigi fulltrúa í henni, hvort umboðið sé í raun útrunnið og ef svo er, hvort ráðherra hafi áætlað að endurnýja umboð nefndarinnar.



[18:26]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina.

Fyrst um hvert hlutverk fræðslunefndar mjólkuriðnaðarins sé, þá er það svo að samkvæmt reglum um nám í mjólkuriðnaði nr. 1150/2006 er fræðslunefnd í mjólkuriðnaði ætlað að hafa umsjón með námi nemenda í iðninni og er tilhögun námsins lýst nánar í þeim reglum. Hvað varðar umboð fræðslunefndar mjólkuriðnaðarins og þá spurningu hvort áætlað sé að endurnýja umboð nefndarinnar, þá er rétt að taka fram að skipunartími fræðslunefndar í mjólkuriðnaði er útrunninn eins og fram hefur komið og hefur verið leitað eftir tilnefningum í nefndina hjá starfsgreinaráði matvæla-, veitinga- og ferðaþjónustugreina. Nefndin verður endurskipulögð jafn skjótt og tilnefningar berast.



[18:27]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mér finnst sem hér sé upplýst að nokkur vá sé fyrir dyrum ef í ljós kemur að hæstv. ráðherra hefur forsómað það að endurskipa í fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins. Á sínum tíma gegndi sú nefnd ákaflega mikilvægu hlutverki undir forustu ágæts fyrrverandi þingmanns, sem var reyndar landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústssonar. Undir forustu hans taldi ég að sú nefnd hefði unnið mjög þarft verk. Ég minnist þess til dæmis að nefndin, að ég hygg um tólf ára skeið, kostaði sérstakan samning við landssamtökin Beinvernd á Íslandi og hafði uppi mikinn áróður gagnvart skólabörnum um gæði þess að fólk á ungum aldri neytti mjólkur, en eins og hæstv. ráðherra veit skiptir akkúrat mestu máli þegar fólk er ungt að það neyti mjólkur.

Ég tel þess vegna að hæstv. ráðherra eigi að vinda bráðan bug að því að koma nefndinni á laggir aftur því að margt hefur hún ákaflega vel gert. Ég tel að ef hann dregur það öllu lengur sé mikil vá fyrir dyrum hjá mjólkuriðnaðinum.



[18:28]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans og með þeim er áhyggjum létt af mér. Þar sem hann fór yfir hlutverk nefndarinnar hef ég skilið hlutverkið rétt, hún eigi í rauninni að fara með umönnun á þessu námi og hvet þá ráðherrann til að ýta á eftir tilnefningum til þess að geta endurskipað nefndina.

Við verðum að svara því kalli sem hefur komið frá aðilum innan mjólkuriðnaðarins, sem og atvinnulífsins í heild. Þær áhyggjur komu fram í þeim umsögnum sem ég talaði um áðan og voru allar mjög jákvæðar. Ég vonast því til þess að þegar þingsályktunartillagan kemur til umræðu í þinginu fái hún góða umfjöllun í nefndum og gott samstarf verði við fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins sem verði þá vonandi komin með umboð sitt að nýju.



[18:29]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni og öðrum hv. þingmönnum fyrir umræðuna um málið.

Hvað varðar þá stöðu sem hefur komið upp, ef nefndin hefur verið um einhverja hríð umboðslaus, þá deili ég því með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það er auðvitað áhyggjuefni. Þó skal á það minnt að önnur félög, t.d. Mjólkursamsalan, halda uppi mjög stífri fræðslustarfsemi, áróðri, ef svo má að orði komast, um mikilvægi þess að neyta mjólkurdrykkja og eins að mjólkurvörur séu aðgengilegar, sérstaklega einmitt fyrir börn. Ég tel að þannig hafi ekki orðið neitt lát á þeim áróðri þó að eitthvað hafi dregist að endurskipa nefndina. En það er sjálfsagt að hafa vaðið fyrir neðan sig og taka enga áhættu í þessum málum og tryggja að nefndin sé að sjálfsögðu með fullt umboð.

Ég vil nota þetta tækifæri til að víkja að öðru máli þessu þó nokkuð tengdu (ÖS: Við viljum fá Guðna til baka.) sem snýr að því að tryggja hér menntunartækifæri mjólkurfræðinga. Eins og rætt hefur verið um í þingsalnum hefur orðið breyting á möguleikum Íslendinga varðandi nám í Danmörku á því sviði og við höfum rætt það hér áður. Ég hef átt samtöl við forustumenn úr mjólkuriðnaðinum, og af því að hér var kallað að við vildum fá Guðna Ágústsson aftur, þá hef ég átt samtal við hann og fleiri um áhyggjur mínar af því að þrengst hafi um menntunarmöguleika þeirra sem vilja sækja sér sérfræðinám á þessu sviði, m.a. vegna breytinga sem hafa orðið hjá dönskum menntamálayfirvöldum. Ég tel nauðsynlegt að það samtal haldi áfram og vænti þess og vona að greinin styðji vel við þá (Forseti hringir.) sem vilja mennta sig á þessu sviði, styðji við þá einstaklinga með fjárhagslegum hætti þannig að sem flestir eigi tök á því að afla sér menntunar í því spennandi fagi.