145. löggjafarþing — 35. fundur
 17. nóvember 2015.
störf þingsins.

[14:19]
Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Samstarf Evrópuríkja um landamæraeftirlit, svokallað Schengen-samstarf, er í uppnámi. Það er ekki bara í uppnámi, það er nánast ónýtt.

Samstarfið gengur út á það að ytra eftirlit sé virkt en síðan sé lítið sem ekkert innra eftirlit eftir að fólk er komið inn á Schengen-svæðið. Staðan er sú að á degi hverjum streyma þúsundir manna óhindrað inn á Schengen-svæðið án vegabréfaáritunar og oft með fölsuð skilríki. Margir þessara einstaklinga eru að flýja stríð og því ber okkur að taka á móti þeim þó ekki sé nema af mannúðarástæðum. Aðrir nýta sér ástandið í efnahagslegum tilgangi, vilja betra líf í vestrænum löndum, hærri laun, betra bótakerfi o.s.frv.

Tölur frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, benda til þess að einungis 21% hælisleitenda sem komið hafi til ríkja sambandsins séu frá Sýrlandi. Hin 79% hafi komið frá öðrum ríkjum.

Fyrir nokkrum dögum spurði vinur minn sem býr í landi utan Schengen-svæðisins hvaða rök væru fyrir því að hann þyrfti á vegabréfsáritun að halda ef hann vildi koma sem ferðamaður til Íslands, sem tæki mánuð að fá, á meðan þúsundir annarra sem væru ekki að flýja stríðsátök eða af pólitískum ástæðum gætu gengið óhindrað inn á Schengen. Það var fátt um svör.

Staðan í Schengen er orðin sú að einstök ríki innan þess eru farin að búa sér til sínar eigin reglur, setja upp tálma á landamærum, herða reglur um vegabréf, fangelsa fólk o.s.frv. Nýjasta dæmið er Svíþjóð sem var í fararbroddi fyrir tveimur árum þegar kom að móttöku flóttamanna.

Mér finnst frábært að geta ferðast um innan Schengen-svæðisins án sérstaks vegabréfaeftirlits. Eftirlit á ytri mörkum svæðisins er hins vegar einfaldlega ónýtt. Ekkert fer að draga úr flóttamannastraumi á næstunni eða á næstu árum. Það vita allir. Af hverju tökum við ekki upp alvöruumræðu um Schengen í stað þess að ýta vandræðunum á undan okkur þar til allt er komið í óefni?



[14:21]
Lárus Ástmar Hannesson (Vg):

Herra forseti. Mig langar að ræða aðeins um traust. Við gerum okkur öll grein fyrir að við hrunið varð jafnframt hrun á trausti, þ.e. hrun á trausti til stjórnmálamanna, stofnana og annarra innviða samfélagsins.

Það er nú þannig að það er ekki síst hlutverk Alþingis að vinna að því að auka traust. Okkar öflugasta verkfæri í þeirri vinnu er að leikreglur séu gagnsæjar og miði við jafnrétti. Í því samhengi vil ég nefna vöktun á umhverfisáhrifum stóriðjunnar. Ég ætla í þessu máli ekki að taka neina sérstaka afstöðu til stóriðjunnar eða ræða það neitt sérstaklega. Ég ætla hins vegar að taka afstöðu til hvort við erum sátt, eða hvort ég er sáttur við þær leikreglur sem eru í gildi varðandi vöktun á umhverfisáhrifum stóriðju. Við þurfum að spyrja okkur öll: Erum við sátt við það að stóriðjufyrirtækin sjálf sjái um að vakta og mæla áhrif starfseminnar á nánasta umhverfi?

Tíminn, aukin þekking og kjarkur hafa hjálpað okkur fram veginn í aukinni náttúruvernd. Unga fólkið er meðvitað og gerir auknar kröfur um að náttúran fái í auknum mæli að njóta vafans. Ég vona að við séum komin á þann stað og höfum þann metnað í að byggja upp traust að við séum tilbúin til að endurskoða hver og hvernig er staðið að vöktun á umhverfisáhrifum stóriðjunnar og atvinnustarfsemi hvers konar.



[14:23]
Halldóra Mogensen (P):

Virðulegi forseti. Þessa viku er þingflokkur Pírata skipaður konum eingöngu. Okkur skilst að þetta sé í fyrsta sinn í 20 ár sem þessi skemmtilega staða kemur upp í þingflokki á Alþingi. Við þingkonur Pírata höfum af þessu tilefni haft hugann töluvert við 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna. Þessi tímamót eru ekki eingöngu sérstakt afmæli kvenna heldur miklu fremur afmæli mikils lýðræðisáfanga í sögu þjóðarinnar. Mér þykir aðeins miður að lýðræðið sjálft hafi ekki fengið meiri athygli á þessu merkilega lýðræðisafmæli. Við getum vissulega fagnað því hve rödd almennings á orðið greiða leið í hinum almennu umræðum um stjórnmál. Hinn almenni borgari hefur mun meiri aðgang að upplýsingum en áður og raddir fólks eiga greiðari leið en áður í gegnum samfélagsmiðla. En á sama tíma er kosningaþátttaka að minnka og sér í lagi á meðal ungs fólks. Hvernig eigum við að bregðast við því? Þurfum við að efla menntun og þekkingu á lýðræði? Þurfum við að efla lýðræðisvitund unga fólksins?

Það er ekki aðeins kosningaþátttaka sem hefur fallið. Traust til Alþingis hefur hríðfallið. Margir tala um fjórflokkinn með óbragð í munni. Stjórnmálafólk þarf að vera óhrætt við að velta upp mögulegum ástæðum fyrir hnignandi kosningaþátttöku. Eru það ef til vill flokkarnir sjálfir sem standa lýðræðinu fyrir þrifum? Þurfum við kannski að skoða lýðræðisfyrirkomulag okkar frá grunni nú í kjölfar upplýsinga- og tæknibyltingarinnar? Eða geta stjórnmálin og stjórnmálaflokkarnir einhvern veginn endurheimt traustið og sjálfsvirðinguna?

Mér verður hugsað til orða Krishnamurti: Að vera vel aðlagaður að sjúku samfélagi er enginn mælikvarði á heilbrigði.

Þegar kerfið er orðið sjúkt og þjónar okkur ekki lengur ber okkur að endurskoða það og endurbyggja. Stjórnmálaflokkar og starf í þeim er leið að ákveðnu marki en ekki markið sjálft. Annaðhvort þurfum við að endurheimta traust á stjórnmálum og stjórnmálaflokkum eða þeim verður hent á haugana fyrir aðra og betri lýðræðisumgjörð. Grasrót samfélagsins mun sjá til þess.



[14:25]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til að vekja athygli á áskorun Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna sem skorar á ríki heims að standa við skuldbindingar sínar um móttöku flóttamanna. Talsmaður stofnunarinnar sagði á fréttamannafundi í morgun að það mætti ekki gera flóttamenn að blórabögglum vegna hryðjuverkanna eða jafnvel að nýjum fórnarlömbum þeirra. Það er rétt að við minnum okkur á að það fólk sem nú flýr í stríðum straumum að hluta til til Evrópu er að flýja einmitt þá ógn sem heimsótti París nú á síðustu dögum og okkur ber skylda til að taka þátt í því að taka á móti því fólki sem er að flýja slíkar hörmungar.

Í haust kom upp mikil umræða um málefni flóttamanna og svo kom útspil ríkisstjórnarinnar um móttöku flóttafólks. Það hefur nánast ekkert bólað á efndum og enn er verið að deila um kostnaðarskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga út af 55 flóttamönnum. Atburðirnir í París eiga að herða okkur. Við eigum að fjölga þeim flóttamönnum sem við ætlum að taka á móti og við eigum að endurskoða kostnaðaráætlunina. Boðað var að fara ættu í það um 2 milljarðar. Á þessu ári eru áætlaðar 775 milljónir í móttöku flóttamanna, alþjóðastofnanir og hælisleitendur. Megnið af því fé er ekki nýtt fé inn í málaflokkinn, heldur fé sem er verið að bæta upp vegna vanáætlunar á kostnaði við komu hælisleitenda hingað til lands.

Hæstv. forseti. Sem siðuð þjóð meðal þjóða og ábyrg í alþjóðasamfélaginu ber okkur að gera betur. Við verðum að taka á móti fleira fólki og við verðum að leggja til það fé sem þarf.



[14:28]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú á eftir ætla fatlaðar konur á vegum Tabú og Kvennahreyfingar ÖBÍ að afhenda innanríkisráðherra, velferðarráðherra og Alþingi kröfuskjöl til þess að mótmæla hárri tíðni ofbeldis gagnvart fötluðum konum og brotalömum í réttarkerfinu.

Jafnframt ætla þær að skila skömminni sem þær telja sig hafa borið alla ævi en eiga ekki. Þær beina orðum sínum að Alþingi og ráðuneyti og ætla að vera hér fyrir utan húsið klukkan fjögur. Þetta er hluti af „Beauty Tips“-byltingunni og „Free the Nipple“ sem verið hefur mikið undanfarið í umræðunni og er eitt af því sem við konur stöndum að til þess að standa saman gegn ofbeldi.

Það er inngróið í íslenska menningu að konur og stelpur eigi bara að passa sig. Ég vek athygli á því að það er „hashtag“ við þetta málefni ef fólk vill fylgjast með því, „#ég er ekki ég“.

Í gær voru úrslitin í Skrekki, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík, jafnréttisákall sem bar yfirheitið „Elsku stelpur“. Mig langar að lesa niðurlagið. Stelpurnar komust afskaplega vel að orði og ég hvet ykkur til þess að kíkja á atriðið sem er í öllum fjölmiðlum dagsins í dag. Í lokin hljómar það þannig:

Elsku feðraveldi,

veistu, þegar þú segir mér að róa mig

og halda bara kjafti

hveturðu mig áfram

til að öskra af öllu afli.

Þú getur ekki stoppað það sem þú veist að er að koma,

þú skilur ekki erfiðið, þú ert ekki kona. […]

Við höfum barist svo lengi

fyrir ótal sjálfsögðum hlutum

að baráttan í sjálfu sér

er orðin sjálfsagður hlutur.

En við biðjum ykkur, stelpur

að halda alltaf áfram,

að gleyma ekki skiltunum

sem stóðu upp úr göngum,

að gleyma aldrei konunum

sem hrópuðu í myrkri,

að gleyma síst öllum stelpunum

sem voru dónar og tíkur og fyrir.

Ég hvet ykkur enn og aftur til þess að taka á móti fötluðum konum hér fyrir utan í dag, sem ætla að skila skömminni, um leið og ég hvet ykkur til að kíkja á þetta myndband á netinu.



[14:30]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil nýta tíma minn í dag til að vekja athygli á því góða framtaki að ríkisstjórn Íslands hefur að tillögu forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, falið iðnaðar- og viðskiptaráðherra að hefja undirbúning að stofnun Markaðsþróunarsjóðs og Áfangastaðasjóðs með það að markmiði að koma á reglulegu millilandaflugi um aðra flugvelli en Keflavík. Í umræðunni um þetta góða mál hafa einhverjir haldið því á lofti að hér verði um beinar greiðslur úr ríkissjóði að ræða. En markmiðið er að sjóðirnir hafi hvetjandi áhrif á erlenda sem innlenda aðila og skal framlag þeirra vera viðbót við framlag annarra þróunaraðila og greiðast eftir að flug er hafið, nánar tiltekið þegar lágmarkstímabili hefur verið náð og svo mánaðarlega eftir það. Sem sagt, peningar þurfa að koma inn áður en þeir fara út.

Gert er ráð fyrir að framlag ríkisins til sjóðanna muni skila sér til baka í formi skatttekna, en ætla má að beinar skatttekjur af tveimur flugum á viku allt árið yrðu um 300–400 millj. kr. árlega, en ríkissjóður mundi njóta áfram að loknu þriggja ára starfstímabili sjóðanna. Þetta er annar vinkillinn á þessu ágæta máli sem ég vildi vekja athygli á. Hinn er að hér er ekki um tilviljunarkennda byggðaaðgerð að ræða heldur vandaða og vel fram setta áætlun sem unnin er af heimamönnum og þeir hafa kallað eftir. Aðferðafræðin sem unnið hefur verið eftir er vel þekkt frá nágrannalöndum okkar og hefur gefið góðan árangur í byggðamálum.

Með því að koma þessu í framkvæmd munum við efla vaxtarmöguleika fyrirtækja á Norður- og Austurlandi, nýta betur innviði ríkisins, efla hagræn áhrif á svæðinu og landinu öllu, bæta búsetuskilyrði og lífsgæði, svo eitthvað sé nefnt.



[14:32]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Stýrivaxtahækkun Seðlabankans á dögunum var auðvitað fáum ánægjuefni, enda hafa ýmsir haft uppi um hana stór orð. Það er kannski ástæða til að skoða í hvaða stöðu Seðlabankinn er, á hvað er Seðlabankinn að horfa í verkum sínum og með sína ríku skyldu til að viðhalda hér verðstöðugleika. Seðlabankinn sér kjarasamninga, sem augljóslega reyna verulega á stöðugleikann, þar sem ríki og sveitarfélög ekki síður en hinn almenni vinnumarkaður gáfu tóninn. Seðlabankinn sér viðskiptahalla, vöruskiptahalla upp á 8,8 milljarða á fyrri helmingi þessa árs. Seðlabankinn sér samkvæmt eigin tölum að hrein ný útlán innlánsstofnana til heimila hafa aukist um 72% að raunvirði á fyrstu níu mánuðum ársins. Lánabók stóru bankanna þriggja til heimilanna hefur stækkað um yfir 50 milljarða á fyrstu níu mánuðum þessa árs, það er tala sem slagar upp í skuldaniðurfærsluna frægu, 72 milljarða nettó á fjórum árum. Ef heldur áfram sem horfir munu skuldir heimilanna hætta að lækka sem hlutfall af landsframleiðslu með sama áframhaldi.

Ríkisstjórnin vinnur ekki með Seðlabankanum. Seðlabankinn segir sjálfur í greiningum sínum núna að aðhald ríkisfjármálastefnunnar fari minnkandi og Seðlabankinn gagnrýnir sérstaklega misráðnar skattalækkanir við þær aðstæður í hagkerfinu. Mér finnst því koma úr hörðustu átt þegar stjórnarliðar koma hingað upp og reyna að kenna Seðlabankanum einum um og skella allri skuldinni á hann, án þess að ég geri lítið úr því að umdeilanlegt er hver virkni stýrivaxtaákvarðananna er í hagkerfi með jafn mikla verðtryggingu og hættuna á gjaldeyrismunarviðskiptum sem auðvitað geta myndað hinn skaðlega spíral sem við þekkjum svo vel.

Mín greining, herra forseti, er sú að það sé sem betur fer ekki kviknað í en hitinn sé að vaxa.



[14:34]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég mun síðar eiga orðastað við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon um Seðlabankann. En í dag langar mig til þess að ræða fréttir sem borist hafa upp á síðkastið um að færst hafi í vöxt í sumar að farþegum skemmtiferðaskipa sem fara hringinn í kringum Ísland sé siglt í smábátum í land í friðland Hornstranda.

Friðlandið á Hornströndum er ein dýrmætasta og um leið viðkvæmasta náttúruperla sem við Íslendingar eigum. Það er því mikið áhyggjuefni ef stórum hópum ferðamanna er svo að segja skákað bakdyramegin inn í friðlandið.

Það hlýtur líka að vera okkur áminning um að ef það er nauðsynlegt að við endurskoðum reglur og ef það er nauðsynlegt að Alþingi sjálft taki reglur og eða lög til endurskoðunar til þess að koma í veg fyrir þetta, þá ber okkur að sjálfsögðu skylda til þess að gera það.

Ég ítreka að það er eiginlega ekki forsvaranlegt ef verið er að skáka stórum hópum ferðamanna inn í Hornvíkina, nánast í hverri viku, og að þar séu menn að trampa niður viðkvæma náttúru. Það hefur tekist bærilega að stýra umgangi um þetta friðland og við verðum að beita öllum þeim ráðum sem við höfum til þess að koma í veg fyrir að það opnist þannig að það verði fyrir skaða sem ekki er hægt að bæta.



[14:36]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem kom fram hjá hv. þm. Þórunni Egilsdóttur varðandi opnun á nýjum gáttum inn í landið. Ég vil taka það fram að ég hef unnið með þeim hópi sem hrinti þessu úr vör og þetta er afskaplega ánægjulegt.

En ég kom hins vegar hingað til að ræða að í gær héldum við hátíðlegan dag íslenskrar tungu og sá sem er nú rótin að því öllu saman er þjóðskáldið góða, Jónas Hallgrímsson. Nú vill þannig til að við eigum skáldasetur víða um land og ég hef áður sagt að því miður hafi minningu Jónasar ekki verið gert jafn hátt undir höfði með stuðningi frá ríkinu við fæðingarstað hans. Ég tel að það væri vel við hæfi nú þegar 210 verða liðin frá fæðingu Jónasar árið 2017 að við leggjum alla okkar krafta í að búa þannig um hnútana á komandi ári og fram að þessum tíma að við getum staðið á hlaðinu á Hrauni í Öxnadal 16. nóvember 2017 og opnað þar með pompi og prakt Jónasarstað, eða hvað orð sem við viljum nota yfir það, þar sem við búum þeim sem vilja; fræðimönnum, skólamönnum, ungu fólki, náttúruunnendum og fleirum, þann stað að menn geti komið þar, hvort sem það eru landsmenn eða erlent fólk, og notið þeirrar arfleifðar sem Jónas skildi eftir, í þeirri fallegu náttúru sem þar er.



[14:39]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka fyrir þá umræðu sem átti sér stað fyrr í dag varðandi hryðjuverkin í París. Hugur okkar allra hefur verið við þessi voðaverk að undanförnu. Ég er mjög áhyggjufull yfir stöðunni sem komin er upp í Líbanon, en ég átti þess kost að heimsækja þar sýrlenska flóttamenn fyrr á árinu. Veturinn gengur senn í garð í Líbanon og menn búa þar við mjög ólíkan kost, allt frá því að vera í yfirgefnum húsum yfir í að búa í tjöldum. Veturinn er kaldur og senn fer að snjóa á fólkið sem þar býr.

Ástandið í Líbanon í haust var þannig að það var orðin mikil spenna í samfélaginu vegna þess fjölda flóttamanna sem í landinu er og var mjög kallað eftir því af öllum þeim sem við hittum að meiri stuðningur kæmi frá alþjóðasamfélaginu, sem síðan varð. Við Íslendingar, íslenska ríkisstjórnin, ákváðum að leggja meiri fjármuni til þeirra mála, m.a. til þess að styrkja heilsugæslustarf Rauða krossins í Líbanon.

Ég óttast að spennan og þrýstingurinn nú eftir þessar árásir séu orðin enn meiri. Við þurfum að gefa því gaum og fylgjast vel með hvernig staðan er. Þeir Sýrlendingar sem eru í Líbanon bíða allir eftir því að komast heim. Skilaboðin frá þeim öllum voru að heitasta von þeirra væri sú að það næðist að stilla til friðar og að þeir flóttamenn sem hafa tímabundið búið sér heimili í nágrannaríkjum Sýrlands gætu komist aftur heim.

Lítil frétt vakti því athygli mitt í þessu öllu, um að friðarviðræður færu senn af stað. Ég veit að auðvitað er langt í land með að þær muni skila árangri og breyta einhverju, en þetta þó er alla vega fyrsta skrefið og vekur vonandi von um að eitthvað sé að rofa til í þessum efnum.



[14:41]
Karen Elísabet Halldórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn. Ég stend hér á Alþingi í fyrsta skipti og flyt mína svokölluðu jómfrúrræðu, sem femínistinn í mér mótmælir að sjálfsögðu að sé kölluð svo. Ég ætla að fá að minnast langafasystur minnar, Ingibjargar H. Bjarnason, sem settist hér fyrst kvenna á þing árið 1922 og ég verð að segja að það gleður hjarta mitt að fá að feta í fótspor hennar hér.

En ég stend hérna einnig sem sveitarstjórnarfulltrúi og vil nota tækifærið og minnast á rekstur málaflokksins málefni fatlaðra og þá stöðu sem sveitarfélögin á öllu landinu standa frammi fyrir í dag. Við yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga var tilgangurinn einkum sá að bæta þjónustuna við þann hóp og stuðla þannig að samþættingu nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga, að eitt stjórnsýslustig bæri ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu, að tryggja góða nýtingu fjármuna, að einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og efla sveitarstjórnarstigið. Það er allt gott og blessað, tilgangurinn er góður og ég held að sameiginleg niðurstaða þeirra sem veita þjónustuna og þeirra sem þiggja hana sé sú að ástandið hafi batnað og þetta sé skilvirkara.

Hins vegar standa nú yfir viðræður Sambands íslenskra sveitarfélaga við fjármálaráðuneytið um alvarlega stöðu þessa viðkvæma málaflokks. Alls staðar á landinu, vil ég leyfa mér að segja, er verulegur halli á þessum málaflokki og er morgunljóst að það fjármagn sem ákveðið var við yfirfærsluna dugar ekki. Skýrsla Ríkisendurskoðunar árið 2009 varaði reyndar við yfirfærslunni á sínum tíma þar sem ýjað var að því að hvorki fjármagn né þjónusta væru nægilega vel skilgreind og þar af leiðandi væri yfirvofandi vandi, sem hefur því miður orðið raunin. Og raddir heyrast jafnvel frá sveitarstjórnarmönnum og embættismönnum sveitarfélaga þess efnis að réttast væri að skila þessum málaflokki aftur til ríkisins þar sem skuldsett sveitarfélög geti illa skorið niður í grunnþjónustu til að mæta þeim halla sem orðið hefur í rekstrinum. Það er þyngra en tárum taki að hafna jafnvel beiðnum foreldra langveikra, fjölfatlaðra barna sem biðja um einfalda liðveislu. Við ræðum hér um okkar minnstu bræður og systur og ég held að ef skattgreiðendur fengju að ráða og forgangsraða verkefnum ríkisfjármála mundi enginn skilja að aðstoð við þá sem ekki geta fyllilega hjálpað sér sjálfir væri skorin við nögl. Það hefur margsinnis sýnt sig (Forseti hringir.) að íslensk þjóð er velviljuð og stendur saman þegar á reynir og hvað þá þegar kemur að því að hjálpa þeim um aðstoð sem eru í neyð. Ég er ekki að segja að fatlað fólk sé alls staðar í neyð, en það er frumskylda okkar, sem höfum andlega og líkamlega heilsu (Forseti hringir.) til að hjálpa okkur sjálfum, að hjálpa þeim sem geta það ekki sjálfir.



[14:44]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða mál sem er mér hugleikið. Það er skortur á þekkingu á störfum þingsins úti í þjóðfélaginu. Mér finnst Alþingi og stjórnmálin fá gríðarlega mikla umfjöllun og margar eru nú klippurnar úr þessum sal. En ég finn að það er lítil þekking á því sem er í gangi hér, og ég tala bara út frá sjálfri mér, ég vissi mjög lítið um Alþingi áður en ég settist á þing. Ég fann það þegar ég kom hér inn.

Mér finnst að sjónvarpsstöð eins og RÚV, sjónvarpið okkar, ætti að vera með fréttaskýringaþætti eða fræðsluþætti um það sem er í gangi hér. Til dæmis velti ég fyrir mér hvort að fólk almennt viti hver munurinn er á þingsályktunartillögu og frumvarpi. Í hvaða feril fara mál þegar þau koma í þingið? Hver má flytja mál á Alþingi? Hver er munurinn á þingmannamálum og stjórnarfrumvörpum? Af hverju skiptir máli að þingmálin komi snemma fyrir þingið? Af hverju vorum við að kvarta yfir því um daginn að ráðherrar kæmu ekki upp og töluðu um málin? Hvernig vinna nefndirnar? Hvað er umsagnaferli? Er það gríðarlega mikilvægt fyrir okkur? Veit fólk að allir geta sent inn umsagnir við þingmál? Hvers vegna er svona mikið óskipulag á íslenska þinginu? Það væri reyndar hægt að taka þrjá þætti bara um það, hvernig væri hægt að bæta það og hvað sé til ráða.

Svo er annað. Ég hef orðið vör við ákveðinn misskilning. Mér finnst margir oft ekki gera mun á framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu. Ég hef orðið að benda fólki á að ég er 10. þm. Norðausturkjördæmis og sit í minni hluta. Ég get ekki búið til lagafrumvarp og komið því í gegnum þingið. Það er hlutverk framkvæmdarvaldsins sem eru ráðherrarnir sem sitja hérna fyrir aftan mig.

Mér finnst við þurfa að gera miklu betur hér. Mér finnst umræðan vera yfirborðskennd og mér finnst jafnvel oft gæta misskilnings í máli þeirra sem segja fréttir af þinginu. Mér finnst þetta vera hluti af ástæðunni fyrir því að traust (Forseti hringir.) á Alþingi er ekki nægilegt að við erum oft ekki að tala um sömu hlutina.



[14:46]
Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Nú liggur fyrir að um 5.500 erlendir gestir sóttu tónlistarhátíðina Airwaves í byrjun þessa mánaðar og samanlagt skildu þessir gestir eftir sig nálægt 1,7 milljarða kr. í gjaldeyri. Þá er ekki talinn sá fjöldi innlendra gesta sem mættu á hátíðina, um 3.500 manns. Hátíðin setur góðan og mikilvægan blæ á borgarlífið yfir háveturinn og gæðir það lífi. Hátíðin hefur einnig átt þátt í því að teygja ferðamannatímabilið yfir á vetrarmánuðina og þannig lagt sitt af mörkum við að gera ferðamannaiðnaðinn að heilsársstarfi. Hátíðin er styrkt um 9 millj. kr. frá Reykjavíkurborg og hefur iðnaðarráðuneytið styrkt hátíðina um 2,5 millj. kr. til þess að standa straum af viðburðum í útlöndum.

Hátíð eins og Airwaves er ekki síður mikilvæg til að lyfta upp því sem er að gerast í íslensku tónlistarlífi því að það er fátt sem borið hefur hróður landsins víðar en menningin okkar; tónlistin, myndlistin, bókmenntir og aðrar listir. Það er nefnilega þar sem hið litla og viðkvæma verður til.

Í góðri bók segir að við eigum að koma fram við hið litla sem stórt og það er þess vegna sem ég nefni það hér. Hvernig við lifum lífinu okkar, hvar við kjósum að búa og hvað við höfum fyrir stafni verður ekki stýrt með misráðnum ákvörðunum stjórnmálamanna. Fólk á að taka ábyrgð á eigin lífi og skapa sér tækifæri þar sem hæfileikar þeirra bera þá.

Dæmið hér að ofan sýnir að eitthvað sem getur í fyrstu virst lítið og ómerkilegt sprikl getur orðið mjög stórt og mikilvægt þegar það fær tækifæri til þess að blómstra. Mörg störf sem tengjast menningu og listum eru nákvæmlega af þeim meiði. Við eigum að sýna því virðingu og skilning og reyna að styrkja það með miklu virkari hætti en við gerum í dag.



[14:48]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mesti vandi sem Evrópa stendur frammi fyrir og hefur hugsanlega staðið frammi fyrir allt frá því að Evrópusambandið var stofnað, er sá mikli fjöldi flóttamanna sem nú knýr dyra í Evrópu. Fjöldinn er svo mikill að því má beinlínis líkja við þjóðflutninga sem þar er að gerast.

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði hér fyrir örfáum mínútum að það eina sem þessir flóttamenn vildu væri að komast aftur til síns heima. Það er hárrétt. Ég tel þess vegna að Evrópa, bæði Evrópusambandið og Evrópuráðið, sem á sérstaklega að berjast fyrir mannréttindum t.d. flóttamanna og þeirra sem leita hælis í ýmsum löndum, hafi fullkomlega brugðist í þessum efnum. Það sama má segja um Atlantshafsbandalagið. Snemma árs 2013 komu fram hugmyndir, sem meðal annars voru studdar á alþjóðavísu af Íslendingum, um að beitt væri afli til að skapa stór griðasvæði í norðurhluta Sýrlands þar sem flóttamenn sem flosnað hefðu upp frá heimilum sínum gætu fundið griðastað í búðum sem kostaðar væru af Evrópusambandinu og vestrænum ríkjum. Þar væri sömuleiðis hægt að sjá til þess að þeir sem hlotið hefðu sár eða meiðsl eða örkuml gætu leitað sér lækninga. Við því var á sínum tíma skellt eyrum skolla. Það olli því að milljónir Sýrlendinga hafa þurft að flýja sitt eigið land.

Evrópa brást líka í öðru lagi með því að hún sinnti lítið stuðningi við þau ríki sem lögðu upp flóttamannabúðir, eins og til dæmis í Tyrklandi, þar sem 1,8 milljónir Sýrlendinga hafa hafst við. Þar hefur aðbúnaður verið slíkur og svo ömurlegur og Evrópusambandið svo fullkomlega blint á nauðsyn þess að leggja þar til með tyrkneskum stjórnvöldum, að þar töldu flóttamenn sínum hag betur borgið með því að leggja í sína miklu göngu sem þeir eru nú á um Evrópu.

Herra forseti. Ég tel að Evrópa hafi brugðist og ég tel að hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) og íslenska ríkisstjórnin eigi að beita sér fyrir því að griðasvæði af þeim toga (Forseti hringir.) sem ég nefndi hér fyrst og aukinn stuðningur við flóttamannabúðir, til dæmis í Tyrklandi, verði á forgangslista Evrópu.