145. löggjafarþing — 38. fundur
 23. nóvember 2015.
umferð um friðlandið á Hornströndum.

[15:25]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég drap hér á í síðustu viku fregnir af því að það virðist sem síðastliðið sumar hafi verið stundað nokkuð að hleypa hópum ferðamanna af skemmtiferðaskipum inn í friðlandið á Hornströndum. Þetta er mikið áhyggjuefni vegna þess að friðlandið á Hornströndum er líklega ein af mestu náttúruperlum sem við eigum. Það hefur tekist bærilega að takmarka þann hóp fólks sem þar fer um og þokkalegt eftirlit hefur verið, að því er virðist, með umferð fólks um þetta svæði. Þess vegna er mikið áhyggjuefni ef það er rétt að þarna sé verið að hleypa nokkrum hópum ferðamanna úr skemmtiferðaskipum upp í Hornvík þar sem þeir fara um eftirlitslausir. Hættan er sú að svæðið þarna verði fyrir skaða sem er erfitt og jafnvel óframkvæmanlegt að laga aftur.

Þess vegna langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi eða eigi yfir að ráða einhverjum úrræðum til þess að koma í veg fyrir að þetta gerist, að stemma stigu við þessum flutningum ferðamanna eiginlega bakdyramegin inn í friðlandið. Nú geri ég mér grein fyrir því að þetta kann að vera á forræði fleiri ráðherra, hugsanlega hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem fer með ferðamál og jafnvel innanríkisráðherra líka. Mig langar samt til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hyggist eða geti gripið til einhverra ráðstafana til þess að koma í veg fyrir að þarna verði unnið tjón á friðlandinu og að umferð um það verði á sama hátt og verið hefur, þ.e. undir eftirliti og takmörkuð.



[15:27]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni innilega fyrir þessa fyrirspurn. Ég held að það sé augljóst að þarna þarf fólk að vinna saman og ekki hvað síst þarf ráðuneytið hjá mér að vinna vel með innanríkisráðuneytinu vegna þess að Samgöngustofa heyrir jú undir innanríkisráðuneytið og ég tel að skemmtiferðaskipin komi þar við sögu. Ég veit af því að Samgöngustofa telur sig samt ekki hafa ráð til þess að takmarka umferð þarna.

Svo skemmtilega vill til að í þessum mánuði sendi Ágúst Ágústsson hjá Faxaflóahöfnum mér langt bréf um þetta og hvað væri hægt að gera. Hann hefur þó verið aðalhvatamaðurinn að því að geta náð í fleiri skemmtiferðaskip til Íslands, sem hefur verið mjög ánægjulegt á undanförnum árum, en er einmitt núna farinn að hafa áhyggjur af þessari umferð, ekki síst þarna á Hornströndum. Málið er að skemmtiferðaskip eða leiðangursskip sem koma til landsins eru náttúrulega alltaf tollskoðuð í fyrstu höfn. Það sem mér finnst að við þurfum að fara að gera er að vinna þannig að við setjum fólk ekki í land nema þar sem einhver aðstaða er fyrir hendi.

Þá vil ég minna á að á umhverfisþingi í október kom ungur og brattur maður, Gauti Geirsson minnir mig að sá ágæti maður heiti, sem var akkúrat með varúðarorð gagnvart Hornströndum, að við ættum að passa betur upp á friðlandið og hann vildi gjarnan stækka það svo að við gætum gætt betur að þessum hlutum.



[15:29]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þetta svar. Ég fagna því að hún hefur áhuga á því að eiga samráð við fólk til þess að reyna að stemma stigu við því sem ég vil kalla vandamál.

Ég efast ekki um að ef Samgöngustofa telur sig ekki hafa heimildir til þess að grípa inn þetta mál þá er í þessum sal vilji til að gera þær breytingar sem hugsanlega þarf að gera á lögum eða öðru til þess að koma í veg fyrir að svona nokkuð eigi sér stað. Ég vil alla vega heita ráðherranum því að ef einhverju þarf að breyta í lögum eða reglum til þess að stemma stigu við því að ferðamenn hópist flokkum saman inn í friðlandið á Hornströndum bakdyramegin þá skal ekki standa á þeim sem hér stendur að styðja hæstv. ráðherrann í því efni.



[15:30]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé einmitt mjög gott ráð að farið verði betur yfir þetta og nefnd sett í málið, kannski til að byrja með með þeim sem eiga hagsmuna að gæta eða hafa með málið að gera.

Í nýjum náttúruverndarlögum sem við erum nýbúin að samþykkja er einmitt kveðið á um að stjórnar- og verndaráætlanir skuli liggja fyrir strax 12 mánuði frá friðlýsingu þannig að það er verið að herða á okkur sem er af hinu góða svo að við stöndum okkur varðandi þetta.

Núna er einmitt í undirbúningi stjórnar- og verndaráætlun fyrir friðlandið á Hornströndum í samráði við sveitarfélög, landeigendur og hagsmunaaðila. Við viljum gera vel og erum sem sagt búin að setja áætlun í gang.