145. löggjafarþing — 45. fundur
 2. desember 2015.
fasteignalán til neytenda, 1. umræða.
stjfrv., 383. mál (heildarlög). — Þskj. 519.

[18:00]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um fasteignalán til neytenda. Frumvarpið er á þskj. 519 og er 383. mál þingsins. Með frumvarpinu er lagt til að sérlög gildi um veitingu fasteignalána til neytenda, en frá árinu 2001 hafa fasteignalán til neytenda fallið undir gildissvið laga um neytendalán. Verði frumvarpið að lögum færast fasteignalán til neytenda frá innanríkisráðherra til fjármála- og efnahagsráðherra til samræmis við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna, nr. 71/2013.

Markmið frumvarpsins er tvíþætt, annars vegar að tryggja neytendavernd við kynningu, ráðgjöf, veitingu og miðlun fasteignalána til neytenda og hins vegar að stuðla að ábyrgum lánveitingum og sporna gegn óhóflegri skuldsetningu neytenda.

Helstu breytingar frá gildandi rétti eru eftirfarandi:

1. Gerð er almenn krafa um að starfskjör starfsmanna lánveitenda og lánamiðlara hafi ekki áhrif á hæfi þeirra til að stunda góða viðskiptahætti, þ.e. að uppbygging starfskjara samræmist þeirri almennu aðgæsluskyldu sem lögð verður á lánveitendur og lánamiðlara um að starfskjör starfsfólks þeirra séu ekki líkleg til að skapa freistnivanda eða hagsmunaárekstra. Þessari almennu kröfu til viðbótar er gerð sértæk krafa um að starfskjör starfsfólks lánveitenda sem framkvæma lánshæfis- og greiðslumat séu ekki árangurstengd.

2. Gerðar eru kröfur um hæfni og þekkingu starfsfólks lánveitenda og lánamiðlara. Lagt er til að fram til 21. mars 2019 verði heimilt að horfa eingöngu til reynslu viðkomandi starfsmanns við mat á þekkingu og hæfni svo lánveitendum gefist svigrúm til að uppfylla þessar nýju kröfur.

3. Kveðið er á um að óheimilt sé að binda samning um fasteignalán eða lánstilboð því skilyrði að neytandi geri samning um kaup á annarri aðgreindri fjármálaafurð eða fjármálaþjónustu. Lánveitanda verður eftir sem áður heimilt að bjóða fasteignalán þar sem neytandi á kost á að gera um leið samning um kaup á annarri aðgreindri fjármálaafurð eða fjármálaþjónustu.

4. Lögð er aukin áhersla á hvernig beri að útskýra þá samninga um fasteignalán sem boðnir eru, enda skiptir afar miklu máli að neytendur fái réttar og góðar útskýringar á helstu efnisatriðum mismunandi tegunda lána svo þeir geti áttað sig á hvað hentar best miðað við aðstæður þeirra.

5. Fjallað er sérstaklega um hvernig lánaráðgjöf skuli fara fram og skýrar skilið á milli lánaráðgjafar og upplýsingagjafar um lánaframboð. Áður en lánaráðgjöf er veitt þarf lánaráðgjafi að upplýsa um hvort ráðgjöfin miðist við lánaframboð á markaði eða lánaframboð ákveðins lánveitanda. Jafnframt þarf hann að upplýsa um fjárhæð þóknunar. Lánaráðgjafa er óheimilt að kalla sig óháðan nema ráðgjöfin miðist við lánaframboð á markaði og hann þiggi ekki greiðslur frá lánveitanda, einum eða fleiri, vegna ráðgjafarinnar.

6. Gerð er krafa um að lánamiðlarar skrái sig hjá Fjármálaeftirlitinu áður en þeim er heimilt að veita þjónustu. Lánamiðlurum er jafnframt gert skylt að eiga aðild að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Gert er ráð fyrir að þessar kröfur hafi óveruleg áhrif hér á landi, enda þekkist lánamiðlun nánast ekki á markaði fyrir fasteignalán. Með lánamiðlun er átt við þjónustu í atvinnuskyni gegn fjárhagslegum ávinningi sem veitt er af aðila sem starfar ekki sem lánveitandi, sem felur í sér kynningu eða boð til neytanda á fasteignaláni, aðstoð við neytanda með því að taka að sér undirbúningsvinnu vegna samnings um fasteignalán eða það að gera samning um fasteignalán við neytanda fyrir hönd lánveitanda.

7. Lögð eru til sérákvæði vegna lána sem tengjast erlendum gjaldmiðlum. Þetta atriði tengist frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu þar sem lagt er til að opnað verði á ný fyrir veitingu gengistryggðra lána. Í frumvarpi þessu er lagt til að neytandi þurfi að uppfylla strangari skilyrði við greiðslumat fasteignaláns sem tengist erlendum gjaldmiðlum en vegna fasteignalána almennt. Jafnframt er lagt til að neytandi, sem óvarinn er fyrir gjaldeyrisáhættu, eigi rétt á að breyta eftirstöðvum láns sem tengist erlendum gjaldmiðlum í annan gjaldmiðil að vissum skilyrðum uppfylltum.

8. Lagt er til að lánveitandi geti á grundvelli frekari upplýsinga frá neytanda fallist á að veita lán þrátt fyrir neikvæða niðurstöðu greiðslumats, enda sýni þær fram á að líklegt sé að neytandi geti staðið í skilum með lánið. Lánveitandi skal skjalfesta rökstuðning fyrir þessari ákvörðun, útskýra hana fyrir neytanda og varðveita gögn henni til stuðnings. Sem dæmi um tilvik þar sem lánveitandi gæti talið ástæðu til að veita lán þrátt fyrir neikvætt greiðslumat er ef neytandi hefur haft takmarkaðar tekjur tímabundið, svo sem vegna fæðingarorlofs, náms eða árstíðabundinna verkefna. Einnig væri óeðlilegt ef lánveitandi yrði að neita neytanda um endurfjármögnun fasteignaláns vegna neikvæðs greiðslumats í þeim tilvikum þegar neytandi getur sýnt fram á greiðslusögu sem sýnir að hann ræður við reglulegar endurgreiðslur fasteignalánsins. Lánveitandi getur í dag veitt fasteignalán þrátt fyrir neikvæða niðurstöðu greiðslumats að því eina skilyrði uppfylltu að virði veða eða annarra trygginga sem lántaki leggur fram sé meira á þeim tíma þegar lánið er veitt en heildarfjárhæð láns enda sé lántaki upplýstur um mat lánveitanda.

9. Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til beitingar sérstaks þjóðhagsvarúðartækis í formi reglna um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda. Eftirlitinu verði heimilt að setja reglurnar að fengnum tilmælum frá fjármálastöðugleikaráði. Hámarkið getur numið 60–90% og getur verið mismunandi eftir tegundum lána og hópum neytenda. Í reglunum skal vera aukið svigrúm vegna kaupa á fyrstu fasteign.

10. Lagt er til að hlutfallslegu hámarki uppgreiðslugjalds verði breytt úr 1% af fjárhæð endurgreiðslu í 0,2% af fjárhæð endurgreiðslu fyrir hvert heilt ár sem eftir stendur af binditíma vaxta. Með þessu er ætlunin að stuðla að auknu framboði lána með föstum vöxtum, sér í lagi á óverðtryggðum lánum.

11. Lagt er til að ákveðin úrræði verði lögfest hvað varðar lausnir til handa neytendum, bæði áður og eftir að fasteign er sett á nauðungarsölu. Hér er annars vegar lagt til að áður en lánveitandi krefst nauðungarsölu á grundvelli samnings um fasteignalán sé neytanda veitt færi á að óska eftir úrræðum sem gætu leyst greiðsluvanda hans, svo sem endurfjármögnun eða skilmálabreytingu. Hins vegar er lagt til að ef fasteign sem lögð var fram sem trygging fyrir fasteignaláni er seld á uppboði og uppgjörið hrekkur ekki til fyrir eftirstöðvum fasteignalánsins skuli lánveitandi bjóða neytanda upp á samkomulag um greiðslur á eftirstöðvum lánsins sem tekur mið af greiðslugetu hans. Vert er að taka fram að ekki er um verulega breytingu að ræða frá núverandi markaðsframkvæmd.

12. Lagt er til að Neytendastofu verði falið almennt eftirlit með ákvæðum frumvarpsins en Fjármálaeftirlitinu sértækt eftirlit með ákvæðum frumvarpsins, um starfskjör, þekkingar- og hæfniskröfur, veðsetningarhlutföll og með starfsskilyrðum lánveitenda og lánamiðlara.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. í þinginu.



[18:09]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna og það er gott að fá þetta mál fram. Það er eiginlega tvennt sem mig langar að gera að umtalsefni og spyrja hæstv. ráðherra nánar út í. Annars vegar er það sem kom fram um gerð greiðslumats og svo það sé skýrt þá er gert ráð fyrir því að þótt niðurstöður greiðslumats geti verið neikvæðar er ætlunin að taka tillit til þess ef lántakandi hefur greiðslusögu sem sýnir að hann standi undir afborgunum. Við sem erum á þingi heyrum talsvert um það að fólkið sem er á leigumarkaðnum og borgar himinháa leigu fær eigi að síður ekki greiðslumat upp á afborganir sem eru jafnvel lægri en sú leiga sem það hefur þegar staðið í skilum með. Ég velti því fyrir mér hvort það þurfi að orða þetta með skýrari hætti í frumvarpinu sjálfu en það kom þó fram hjá hæstv. ráðherra þannig að mig langar að biðja hann um að skýra þetta nánar fyrir okkur.

Hins vegar er ég með aðra fyrirspurn sem varðar veðsetningarhlutföllin. Í frumvarpinu er lagt til að Fjármálaeftirlitið fái heimild til að setja þak á veðsetningarhlutföll og er vitnað til reynslu annarra landa. Ég tel að þetta þurfi að skoða vel. Það er talað um þak upp á 60–90% sem er auðvitað breitt bil. Í greinargerð er tafla sem sýnir veðsetningarhlutfall með viðbótarlánum og það er ansi hátt og þetta eru núverandi veðsetningarhlutföll. Með viðbótarlánum eru veðsetningarhlutföllin í 85–90%.

Mig langar að spyrja: Er ætlunin að setja slíkt þak á fasteignalán með viðbótarlánum? Hæstv. ráðherra nefndi það að sérstök ákvæði mundu eiga við um þá sem væru að kaupa sína fyrstu eign og mig langar að spyrja líka: Erum við með gögn um það hvernig veðsetningarhlutföllin sem birtast hér á blaðsíðu 37 í greinargerðinni skiptast á milli þeirra sem eru með lán af sinni fyrstu eign og annarra? Það væri hjálplegt að átta okkur á þeim mun.



[18:11]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er spurt um greiðslumatið. Í 22. gr. frumvarpsins er fjallað um ákvörðun um lánveitingu. Þar segir að lánveitandi skuli vinna eftir skjalfestum innri reglum og hann skuli aðeins veita fasteignalán ef hann telur líklegt að neytandi geti staðið í skilum með lánið að teknu tilliti til niðurstöðu lánshæfis- og greiðslumats. Það er sem sagt í þeim tilvikum sem lántaki stenst ekki það greiðslumat sem þarna er verið að vísa til sem opnað er fyrir þann möguleika að hann fái engu að síður lán ef viðbótarathugun leiðir líkur að því að hann geti engu að síður staðið í skilum. Þá er tvennt sem þarf að koma til, annars vegar að varðveitt séu öll gögn um viðbótarathugunina, og það hvílir þá skylda á lánveitandanum að gera það, að halda utan um gögnin, og hins vegar að lántakinn sé upplýstur um að þetta sé staðan. Þarna er í raun og veru verið að fjalla um neytendaverndarsjónarmið sem þarf að hafa í huga þegar lánveitingar af þessu tagi eru annars vegar.

Ég sæi fyrir mér að lánveitandi sem hefði látið hjá líða að varðveita gögnin og gæti ekki sýnt fram á hvers vegna lán var veitt þrátt fyrir neikvæða niðurstöðu greiðslumats gæti orðið í vandræðum með að innheimta það lán samkvæmt skilmálum lánsins.

Hér var spurt varðandi veðsetningarhlutföllin hvort verið væri að horfa til fasteignalánanna einvörðungu eða að teknu tilliti til viðbótarlána. Hér er eingöngu verið að horfa á þau lán sem hér er fjallað um, þ.e. sjálft fasteignalánið. Ég vil vekja athygli á því að þessi veðsetningarhlutföll eru hugsuð sem þjóðhagsvarúðartæki, þ.e. ef þær (Forseti hringir.) aðstæður hafa skapast að bankar eru farnir að hækka veðhlutföll sín mjög og allir komnir upp í efstu mörk sem eru jafnvel í 90% þá kann að vera ástæða fyrir Fjármálaeftirlitið til þess að slá aðeins á útlánaþensluna. (Forseti hringir.) Þannig að þetta er þjóðhagsvarúðartæki og langt umfram það að vera einhvers konar neytendaverndarúrræði.



[18:13]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er margt áhugavert sem kemur fram í greinargerðinni með frumvarpinu og mig langar í seinna andsvari að spyrja sérstaklega út í fasteignalánin. Hér kemur fram að óverðtryggðar skuldir eru núna um 14% af fasteignaskuldum heimila. Löng verðtryggð lán eru enn vinsælasta lánaformið þar sem greiðslubyrðin af þeim er lægst, eðlilega, því að þessi löngu 40 ára verðtryggðu lán hafa nýst þeim sem lægstar hafa tekjurnar til þess að koma sér þó þaki yfir höfuðið.

Hér kemur fram að 50% nýrra lánveitinga innlánsstofnana til fasteignakaupa séu verðtryggð sem er samt lækkandi hlutfall. Telur hæstv. ráðherra raunhæft að ráðast í þær aðgerðir sem hér voru einhvern tímann boðaðar í tengslum við margboðað afnám verðtryggingar, sem eru að banna lánaflokk 40 ára verðtryggðra lána? Mig langar bara aðeins að spyrja, ég veit að mínúta er stuttur tími til að svara þessu en mér finnst þetta áhugaverðar tölur sem koma fram í greinargerðinni.



[18:15]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það væri mjög æskilegt ef hægt væri að þrengja að notkun verðtryggingarinnar á neytendalánamarkaði. Hérna takast á ýmis sjónarmið. Það þurfa að vera hagfelldar ytri aðstæður og góð skilyrði þegar slíkar breytingar eru gerðar. Varðandi Íslandslánin sem nú er til skoðunar að loka fyrir og þá ekki með þá lengri lán en 25 ára verðtryggð jafngreiðslulán er málið þannig vaxið að við erum að meta áhrifin á getu fólks til að standast greiðslumat við þær breyttu aðstæður. Þá höfum við óskað eftir því við Fjármálaeftirlitið að tekin verði saman gögn um það hversu margir þeirra sem fóru í greiðslumat og tóku 40 ára lán mundu hafa staðist greiðslumat ef eingöngu hefðu staðið 25 ára lán til boða. Það eru svona hlutir sem mér finnst mestu skipta að við skoðum vandlega. (Forseti hringir.) 40 ára lánin eru þeim eiginleikum gædd að lántakendur velta mjög á undan sér vaxtakostnaði og höfuðstólsafborgunum inn í langa framtíð (Forseti hringir.) sem mér sýnist að margir hafi ekki gert sér almennilega grein fyrir þegar þeir tóku slík lán eins og umræðan hefur verið undanfarin ár um þessa lánategund.



[18:16]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er áríðandi frumvarp sem hér liggur fyrir og efnismikið. Kannski er það svolítið yfirborðslegt sem maður nefnir í 1. umr. en ég vil segja í tilefni af síðustu orðum hæstv. ráðherra að auðvitað hefur greiðslumatið og þessi 40 ára lán verið erfið að því leytinu til, eins og hæstv. ráðherra sagði, að fólk gerði sér ekki alveg fyrir því hvernig þau virkuðu. Þess vegna fagna ég því að verið sé að skoða það einmitt í því samhengi sem hæstv. ráðherra talaði um, vegna þess að sérstaklega fyrir þá sem hafa lægri tekjur og fyrir ungt fólk getur þetta verið eina leiðin til að fjárfesta, þ.e. að fjárfesta í þessum 40 ára lánum vegna þess að þar er greiðslubyrðin hugsanlega viðráðanleg, ef það má tala um það. Þetta er mikið mál.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra. Hann talar um almenn starfskjör og almenn starfskjör þeirra sem vinna við þessar stofnanir og segir að þau verði að samræma og stuðla að traustri og skilvirkari áhættustýringu. Ég skil þetta þannig, ef ég segi það bara á mannamáli, að þetta þýði að fólk sem starfar í þessum deildum í bönkum mætti til dæmis ekki fá neina bónusa. Ég skil það þannig. Getur ráðherrann staðfest að sá skilningur minn á skilyrðum um starfskjör sé réttur?



[18:18]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi 40 ára lánin má segja að miðað við þá vexti sem við höfum búið við undanfarin ár sjái menn ekki nokkra einustu lækkun á höfuðstól lánsins fyrr en eftir að minnsta kosti hálfan lánstímann. Við þekkjum öll sem höfum verið í stjórnmálum að fólk kemur reglulega til okkar og ræðir vexti og verðtryggingu og rekur dæmi þess að það hafi staðið í skilum með skilvísi í svo og svo mörg ár en höfuðstóllinn hafi ekkert lækkað. Þegar betur er að gáð þá átti það að liggja fyrir þegar lánið var tekið samkvæmt áætlun um einstaka greiðslur þetta langt fram í tímann. Þar fyrir utan má segja að óverðtryggð lán hafi marga aðra kosti umfram verðtryggðu lánin, eins og t.d. þann að þau leiða til þess að vaxtastýringatæki Seðlabankans hefur meiri virkni. Ef okkur tækist nú að bæta umhverfið, eins og við höfum svo oft verið að ræða í þessum þingsal, í þá átt að vextir mundu lækka og við gætum skapað umhverfi fyrir fasta vexti, óverðtryggða til lengri tíma, þá held ég að það væri fyrir alla mun ákjósanlegra umhverfi til lántöku en það sem við erum að ræða, 40 ára jafngreiðslulán verðtryggð. Það var spurt um starfskjörin og, já, það er réttur skilningur að þeir sem taka ákvörðun um lánveitingu eiga samkvæmt frumvarpinu ekki að vera á afkastahvetjandi starfskjörum eins og þeim sem hér var vísað til.



[18:21]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Við erum sammála um það, hæstv. ráðherra og ég, að auðvitað væri best að við gætum veitt lán á óverðtryggðum vöxtum. Það er bara einn stór galli við það sem er sá að það er ekki hægt á meðan við erum með íslensku krónuna. Þess vegna þurfum við að gera ráðstafanir til þess að við lifum hér við sömu vaxtaskilyrði og sömu kjör og fólkið í löndunum í kringum okkur.

Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að útskýra aðeins betur fyrir mér þetta með uppgreiðslugjaldið. Það hefur verið lækkað úr 1% niður í 0,2 á binditímanum. Á þetta að gera það auðveldara að greiða upp lán en nú er? Bara einföld spurning af því taginu.



[18:22]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við erum ekki alveg sammála varðandi möguleika okkar til þess að skapa hér markað fyrir fasta vexti á óverðtryggðum lánum. Það eru ýmis skilyrði sem þarf að uppfylla, m.a. þurfum við að ná betur utan um vinnumarkaðinn og það hvernig samið er um kaup og kjör þar og svo margt annað sem ég hef oft nefnt. Það er sannarlega ekki einfalt verkefni.

Varðandi uppgreiðsluna er tilgangurinn með þeirri breytingu sem hér er um að ræða að auka hvatana til þess að bjóða óverðtryggð lán. Eitt af því sem kemur í veg fyrir að lánveitendur séu tilbúnir til að gera það er þak á uppgreiðslugjaldi. Hérna er verið að breyta því þaki og miðað við þann árafjölda sem eftir stendur af láninu. Í skýringu við 36. gr. frumvarpsins eru miklir útreikningar sem sýna hvernig breytingin er á núvirði þessara lána eftir mismunandi vaxtalækkanir. Ég vonast til þess (Forseti hringir.) að sú tilraun sem er gerð til að skýra þetta með dæmum í frumvarpinu komist vel til skila vegna þess að þetta er nokkuð tæknilega snúið eða flókið mál til þess að fara yfir í stuttu máli, (Forseti hringir.) en þeim mun meira púðri var varið í að taka saman skýringar í greinargerð.



[18:23]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans. Ég vil inna hann eftir því hvort ekki væri óhætt að segja að hér væri verið að efla og styrkja lagarammann í kringum óverðtryggð en þó kannski einkum verðtryggð fasteignalán til neytenda. Ljóst er að þar hafa verið uppi ýmis álitaefni fyrir dómstólum um lagaumgjörðina og meðal annars upplýsingagjöfina sem þar var dæmd ólögmæt þó að hún hafi ekki leitt til ógildingar vaxtaákvarðana fyrir dómum, og fleiri atriði í tengslum við þá lagaumgjörð hefur reynt á fyrir rétti. Ég vildi byrja á að inna ráðherrann eftir því hvort hann teldi að með frumvarpinu væri, að því samþykktu, allri helstu lagalegri óvissu sem verið hefur uppi um einkanlega verðtryggðu lánin eytt.



[18:24]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel reyndar að frumvarpið sé tiltölulega hlutlaust hvað þetta atriði snertir, þ.e. frumvarpið gerir ekki mikinn mun á milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána með þeim hætti sem hér er rakið. Reyndar er það svo að dómstólar hafa nýlega komist að þeirri niðurstöðu að verðtryggðu lánin eins og þau hafa verið veitt standist lög, að þeir almennu lánaskilmálar sem hafa staðið neytendum til boða séu ekki ólögmætir. Það hefur verið látið reyna á það af ýmsum forsendum með ýmsum málsástæðum, bæði hvað varðar skuldbindingar okkar samkvæmt EES-samningum og á grundvelli annarra íslenskra laga. En það er hins vegar rétt að töluvert er um það fjallað í frumvarpinu hvernig þeim upplýsingaskiptum eigi að vera háttað og hvaða kvaðir eru lagðar á lánveitendur varðandi upplýsingagjöf. Meira að segja, eins og hér hefur aðeins verið til umræðu, er gengið nokkuð langt í því að fjalla í lögum um það hvaða aðbúnaður skal vera tryggður þeim starfsmönnum sem mega taka ákvarðanir um þessi lán.

Þetta er feiknaefnismikið frumvarp sem við erum með fyrir í þinginu. Þar er meðal annars brugðist við athugasemdum út af fortakslausu banni við gengistryggingu. Það er líka komið inn á erlendu lánveitingarnar sem eru heimilar í dag án hindrana en í frumvarpinu eru settar töluvert miklar skorður við veitingu erlendra lána. Það er því komið inn á fjölmörg atriði en ekki svo mjög gert upp á milli einstakra lánaforma eins og hv. þingmaður spyr um.



[18:26]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem að hlýtur að vekja athygli er að hér sé ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Framsóknarflokksins að leggja fram nýjan lagaramma um fasteignalán, verðtryggð, til íslenskra neytenda. Látum vera að flokkurinn hafi ekki getað undið ofan af því sem var, en að hann skuli beita sér fyrir nýrri löggjöf um verðtryggð íbúðalán er auðvitað eftirtektarvert og ekki síður þegar verið er að leyfa í raun og veru fleiri form verðtryggingar, þ.e. gengistrygginguna sem menn töldu almennt að slæm reynsla væri af. Talandi um það þá hefur verið spurt um 40 ára verðtryggðu lánin, sem ríkisstjórnin hefur boðað í eitt og hálft ár að ætti að afnema með lögum og ráðherrann hefur haft á málaskrá sinni ef ég hef tekið rétt eftir. Nú er orðið hálft annað ár liðið og ég hlýt að spyrja hvers vegna það sé ekki hluti af þessu máli, að taka fyrir þau lán. Er ekki einboðið fyrir formann efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Frosta Sigurjónsson, að nýta tækifærið og breyta málinu í meðförum (Forseti hringir.) og uppfylla þetta samkomulag stjórnarflokkana að banna 40 ára lánin?



[18:28]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég rakti það í fyrri ræðu minni í andsvari að það væri á margan hátt æskilegt að draga mjög úr eða losna alfarið við 40 ára verðtryggðu jafngreiðslulánin. Meginástæðan er sú að eignamyndunin samkvæmt því lánaformi er svo gríðarlega hæg, hún er í raun og veru engin framan af lánstímanum. Það er rétt sem spurt er um að þau mál, að þrengja að þessu lánaformi, Íslandslánunum, hefur verið til skoðunar í ráðuneyti mínu. Þau gögn sem við erum núna að viða að okkur og ég hef ekki enn fengið til skoðunar snúast sem sagt að því hvaða áhrif það mundi hafa við núverandi aðstæður að skrúfa fyrir þessi 40 ára jafngreiðslulán. Það höfum við reynt að gera með því að fá samanburð og spyrja hreinlega hversu margir af þeim sem tóku slík lán hefðu staðist greiðslumat af 25 ára láni. Ef við sjáum mjög neikvæða niðurstöðu úr þeirri skoðun þá er það stór ákvörðun að taka núna, (Forseti hringir.) að banna 40 ára lánin við þær aðstæður sem í dag eru uppi, þar sem fáum finnst þeir eiga möguleika á að koma inn á húsnæðismarkaðinn.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.