145. löggjafarþing — 46. fundur
 3. desember 2015.
upphæð veiðigjalds.

[10:53]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í frumvarpi til fjárlaga 2016 er veiðigjaldið samkvæmt áætlun hjá fjármálaráðuneytinu sett í 5 milljarða og 322 millj. kr. á þessu ári.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig standi á því að þetta gjald sé í sögulegu lágmarki samkvæmt áætlun fjármálaráðuneytisins þegar, eins og hann veit mætavel, sjávarútvegurinn er í blússandi uppsiglingu. Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja var 43 milljarðar í fyrra. Fyrirtækin greiddu sjálfum sér 13,5 milljarða kr. í arð í fyrra. Er þá eðlilegt að arðurinn til þjóðarinnar sé í raun 0 kr.? Eins og við vitum þá fer heilmikið frá ríkinu í sjávarútveginn sjálfan. Við rekum hér sem betur fer góðar og styrkar stoðir utan um sjávarútveginn sem kosta auðvitað sitt. Það eru stofnanir eins og Hafrannsóknastofnun sem stuðlar að sjálfbærum veiðum, það er að einhverju leyti Landhelgisgæslan sem sér um björgun og leit á hafi úti, það er Fiskistofa, það er Samgöngustofa að einhverju leyti og auðvitað sjávarútvegsráðuneytið að einhverju leyti.

Er eðlilegt að þegar svona vel gengur fari gjöldin bara í sjávarútveginn sjálfan og þjóðin fái 0 kr. í sinn vasa?



[10:55]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þetta voru vægast sagt hæpnir útreikningar sem hv. þingmaður kynnti hér. Þetta er það sem í tíð Reagans Bandaríkjaforseta var kölluð vúduhagfræði eða vúdútölfræði, að fá það út að sjávarútvegur á Íslandi skili 0 kr. vegna þess að við þurfum að reka ráðuneyti og gæta fiskimiðanna og landhelginnar og vera með Hafrannsóknastofnun til að stunda sjálfbærar veiðar.

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi spurninguna um veiðigjaldið og hvernig það er áætlað þá tekur það mið af þeim forsendum sem má gera ráð fyrir að verði á mörkuðum og hjá þessari grein almennt á komandi ári. Það er mjög erfitt að áætla slíkt af nokkurri nákvæmni en það er nú þannig með marga hluti að menn þurfa alltaf að gefa sér einhverjar forsendur og áætla út frá þeim. Sú áætlun gefur til kynna að eins og undanfarin ár muni íslenskur sjávarútvegur skila verulegu fjármagni beint í formi veiðigjalda til ríkisins.

En þar til viðbótar, og þessu virðist hv. þingmaður algjörlega gleyma, skilar sjávarútvegurinn milljörðum á milljarðatugi ofan með óbeinum hætti til samfélagsins í formi fjárfestingar, launa, alls lags umsvifa bæði sjávarútvegsfyrirtækjanna sjálfra og þeirra fyrirtækja sem á einn eða annan hátt tengjast sjávarútveginum og þau eru býsna mörg. Þar hefur verið mikill vöxtur og fjárfesting og sköpun nýrra hátæknistarfa á undanförnum árum. Þannig að sjávarútvegurinn á Íslandi skilar á margan hátt samfélaginu gríðarlegum verðmætum.

Það er ólíkt því sem aðrar þjóðir í Evrópu og raunar flestar þjóðir heims, allar þjóðir OECD svo við nefnum dæmi, búa við. Í öllum OECD-ríkjunum er sjávarútvegur ríkisstyrktur. Ríkið þarf að styðja við sjávarútveginn. Meira að segja í Noregi greiðir ríkið um 20 þús. íslenskar krónur eða sem því nemur með hverju lönduðu tonni (Forseti hringir.) meðan á Íslandi er rekinn sjálfbær sjávarútvegur í sátt við náttúruna sem skilar samfélaginu tekjum á ýmsan hátt.



[10:58]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég verð að vísa öllu tali um vúdúhagfræði eða vúdúútreikninga beinustu leið til föðurhúsanna. (Gripið fram í: Til vúdúmeistarans.) Þetta stendur beinlínis í frumvarpinu frá hæstv. fjármálaráðherra, frá þér, karlinn minn, og fjármálaráðuneytið hefur bestu upplýsingar um þessa stöðu hverju sinni.

Nú getur verið að reikningurinn verði einhvern veginn öðruvísi þegar árið er á enda, en þá vil ég benda á að árin 2013 og 2014 stóðust áætlanir eins og þær komu fram í frumvörpunum árinu áður. Þannig að við munum sjá hvernig það fer.

Er hæstv. ráðherra að segja að það sé í lagi, að það sé ásættanlegt, að ríkiskassinn komi nokkurn veginn út á sléttu? Af því að við erum ekki að ríkisstyrkja (Forseti hringir.) sjávarútveginn þá séum við bara góð að halda sjó í því? Er það í lagi þegar sjávarútvegurinn skilar sjálfum sér 13,5 milljörðum kr. í arð?



[10:59]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill biðja hv. þingmenn um að virða og tileinka sér þau ávarpsorð sem við hæfi eru og reglur eru um í þinginu.



[10:59]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég verð að ítreka það sem ég sagði áðan að það er algjörlega fráleit framsetning að halda því fram að sjávarútvegur skili engu til samfélagsins og líta fram hjá allri þeirri fjárfestingu sem á sér stað í greininni, öllum þeim tekjum í formi tekna af hagnaði fyrirtækja, í formi tekna af launum, tekna af virðisaukaskatti í formi útflutningsverðmæta, í formi veiðigjalda.

Virðulegur forseti. Maður veit ekki hvernig maður á að svara svona vitleysisfyrirspurn. En ég vísa þó hér, til þess að leiðrétta virðulegan þingmann, í fjárlagafrumvarp ársins 2016 þar sem stendur á síðu 15:

Veiðigjald fyrir veiðiheimildir, greiðslugrunnur: 9.430 millj. kr.