145. löggjafarþing — 47. fundur
 4. desember 2015.
sérstök umræða.

vopnaburður lögreglunnar.

[14:01]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Aukin vopnvæðing lögreglubíla hefur verið í umræðunni að undanförnu og það er ástæða þeirrar umræðu sem ég hef nú óskað eftir við hæstv. innanríkisráðherra. Ég vil fyrst taka fram að það er til fyrirmyndar með hvaða hætti hæstv. innanríkisráðherra hefur almennt nálgast spurningar um vopnaburð lögreglunnar með opinberri birtingu reglna um valdbeitingarheimildir og vopnaburð lögreglu í fyrra og með hversu opnum hætti hún hefur viljað ræða það. Það er mjög mikilvægt að gagnsæi ríki að þessu leyti, því að með sama hætti og vopn geta aukið öryggi borgaranna og verið til varnar lögreglumönnum geta þau líka aukið hættu jafnt fyrir almenning og lögreglumenn, dregið úr öryggi en ekki aukið það. Þau geta kallað á harðari heim. Þau geta kallað á harkalegri viðbrögð glæpamanna og það er ekkert gefið um það að við upplifum öll öryggi þegar við sjáum þungvopnaða lögreglumenn.

Í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað undanfarið hefur verið mjög óþægilegt að svo virðist sem ákvarðanir hafi verið teknar um að setja vopn í einhvern fjölda lögreglubíla hér á höfuðborgarsvæðinu og þjálfun almennra lögreglumanna í beitingu þeirra og breyting á útbúnaði bílanna var komin á lokastig þegar fjölmiðlar greindu frá því. Mér finnst það ekki ríma við þær áherslur sem ég tel að skipti mestu máli í þessu, þ.e. gagnsæi ríki um vopnaburð og valdbeitingarheimildir, og að allir viti hvernig í pottinn er búið að þessu leyti.

Ég fagna þeim yfirlýsingum sem ég hef séð frá hæstv. ráðherra í fjölmiðlum um að hér sé ekki um að ræða breytingu á almennum vopnabúnaði lögreglumanna, en umfang og forsendur þessara ákvarðana eru um margt óljósar. Því hef ég óskað eftir þessari umræðu.

Það þarf að spyrja um lagagrunninn, því að í 19. gr. þeirra reglna sem birtar hafa verið segir að geyma skuli skotvopn á lögreglustöð, en að lögreglustjóri geti þó ákveðið í samráði við ríkislögreglustjóra að skammbyssur séu hafðar með í lögreglubifreið í sérstökum tilfellum. Mér finnst það í hæsta máta vafasamt að reglurnar rúmi það að skotvopnum sé að staðaldri komið fyrir í lögreglubílum.

Það þarf líka að spyrja: Hver eru rökin að baki breytingum að þessu leyti? Af viðtölum við hæstv. ráðherra í fjölmiðlum má ráða að hér sé að einhverju leyti um að ræða viðbrögð við atburðunum í Útey 2011. Hvaða greining liggur þá þar að baki? Hvaða umfjöllun hefur átt sér stað á vettvangi lögreglunnar, af hálfu sérfræðinga, um hvaða hættum er verið að reyna að bregðast við með þessari breytingu? Ég held að það sé óumflýjanlegt að slíkar upplýsingar liggi fyrir og séu öllum aðgengilegar.

Það má líka velta fyrir sér: Hver eru bestu viðbrögðin við vaxandi hættu? Er það aukinn vopnabúnaður lögreglu sérstaklega þegar við búum nú við þær aðstæður að lögreglumenn eru í vaxandi mæli einir í bifreið, sem hlýtur líka að bjóða hættum heim? Eða er lausnin kannski aukin sýnileg löggæsla? Fleiri lögreglumenn á göturnar? Betri aðbúnaður almennrar löggæslu að því leyti? Fjölgun í löggæslunni? Það eru allt spurningar sem við þurfum að ræða opið og ekki hrapa að ályktunum. Það er mjög mikilvægt líka þegar við horfumst í augu við aukna hryðjuverkaógn í nágrannalöndum að við metum af yfirvegun hvaða viðbúnað þurfi að hafa, en til þess þurfa staðreyndir að liggja uppi á borðum og greiningar að vera öllum ljósar, og sérstaklega þarf umræða að eiga sér stað hér á Alþingi um stefnu að þessu leyti.



[14:06]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og ítreka mikilvæg grundvallaratriði. Almenn löggæsla er vopnlaus í störfum sínum, á því er engin breyting. Engin ákvörðun er heldur fyrirliggjandi um aukinn vopnaburð lögreglu. Þetta skiptir máli. Um heimild lögreglu til valdbeitingar er fjallað í lögreglulögum sem eru frá 1996 og þar kemur fram að lögreglumenn mega aldrei ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni. Gæta skal meðalhófs.

Í vopnalögum er það svo lagt í hendur ráðherra að setja reglur um vopn lögreglu og notkun þeirra, þar á meðal skotvopn. Slíkar reglur voru settar árið 1999. Í þeim felst stefnumörkun um meðferð, notkun og geymslu vopna lögreglunnar. Með þessu er mikið vald lagt í hendur ráðherra. Í mínum huga er ljóst að um stefnumarkandi atriði á borð við heimildir lögreglu til að bera vopn verður að hafa samráð við þingið og tryggja gagnsæi gagnvart almenningi. Í því ljósi ákvað ég að birta reglurnar. Þær setja ákveðinn ramma um vopn og valdbeitingartæki lögreglu. Það er alveg ljóst að á þessum reglum eru ytri mörk sem lögreglan má ekki fara yfir.

Lögreglan þarf á hverjum tíma að vera vel undirbúin og vel þjálfuð í störfum sínum. Það er ríkislögreglustjóri sem leggur mat á þörf lögreglu fyrir búnað hverju sinni og ákveður hverrar gerðar hann skal vera. Ríkislögreglustjóra hefur þannig verið falið það hlutverk að meta þarfir lögreglu fyrir búnað, skipulag og þjálfun innan þeirra marka sem vopnareglur segja til um. Það þarf til að mynda ekki atbeina ráðherra eða ráðuneytis með beinum hætti til að endurnýja vopnakaup, svo fremi sem fjárheimildum um kaupin séu settar reglur af sama meiði. Mat ríkislögreglustjóra um búnaðarþörf lögreglunnar byggist á áhættumati á víðtækum grunni sem tekur mið af þróun mála hérlendis og erlendis og segir til um líklega framtíðarþróun. Það er afar mikilvægt að þessi skipan mála sé mönnum ljós.

Hvað snertir búnað í lögreglubifreiðum, sem er kveikja að umræðu hv. þingmanns, eru nú geymdar skammbyssur í sex lögreglubifreiðum á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða lítinn hluta bílaflotans sem hleypur á tugum. Þá má einnig geta þess að nokkrar lögreglubifreiðar á landsbyggðinni eru nú þegar með slíkan búnað um borð. Ekki er þörf á að breyta reglunum á meðan breyttur geymslustaður takmarkast við þann fjölda bifreiða sem nú er, en telji lögregluyfirvöld nauðsynlegt að fjölga bifreiðum þar sem vopn eru geymd í læstum hirslum, þannig að ekki sé einungis um sérstök tilfelli að ræða heldur nær því að vera almenn regla, mun reyna mjög á gildissvið þessara reglna enda eru á þeim ytri mörk sem ber að túlka þröngt.

Herra forseti. Það má aldrei ganga lengra í beitingu valds en nauðsynlegt er hverju sinni. Það er grundvallarregla og það skiptir gríðarlega miklu máli að gæta hófs í meðferð valdsins. Lögreglunni ber ávallt að hafa meðalhófsregluna í heiðri við framkvæmd starfa sinna. Áherslur hv. þingmanns í þessari umræðu eru meðal annars á upplýsingagjöf til almennings og Alþingis. Ég er þeirrar skoðunar að upplýsingar sem megi birta eigi að birta. Það er alltaf gagnlegra og það á að vera leiðarljós í okkar störfum. Um sum verkefni sem lögreglan sinnir er eðli máls samkvæmt ekki hægt að tala opinberlega. Sú ákvörðun sem hér um ræðir er þó ekki ein þeirra.

Það hefði verið betra ef yfirvöld hefðu komið upplýsingunum betur á framfæri. Umræðan fór þannig af stað að fólk gat haldið að verið væri að auka vopnaburðinn. Ég er ekkert hissa á að fólki hafi brugðið við það. Það er brýnt að almenningur og við öll skiljum hvað er að gerast svo ekki myndist gjá á milli sem við vitum að er vont, ekki síst fyrir löggæsluna í landinu.

Hæstv. forseti. Það þarf að gera greinarmun á því hvort lögreglan hafi heimild til að ganga með vopn á sér eða hvort tekin sé ákvörðun um að færa geymslustaði frá lögreglustöð yfir í bifreið þar sem hirslurnar eru jafn öruggar og það þarf samþykki frá yfirmanni til að geta opnað hirsluna í neyðartilvikum, rétt eins og nú er. Þetta er mjög mikilvægt.

Enn og aftur, við erum ekki að tala um aukinn vopnaburð. Lögreglan á Íslandi er vopnlaus í almennum störfum og við viljum að svo sé áfram.



[14:11]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, fyrir að taka þetta mál upp og ég vil segja það í upphafi að ég er mjög sammála þeim áherslum sem komu fram í málflutningi hans. Reyndar sé ég ástæðu til að fagna einnig áherslum hæstv. ráðherra sem segir að hér séum við ekki að verða vitni að stefnubreytingu, hún sjái ekki fyrir sér að almennir lögreglumenn muni hafa vopn í hendi. Það finnst mér gott að heyra. Það er mjög mikilvægt að um þessi mál ríki samstaða, að umræðan um þau sé opin og það er nokkuð sem hæstv. ráðherra hefur sýnt að hún vill að sé.

Fyrr í vikunni fjallaði Fréttablaðið um vopnaburð lögreglunnar og tengdi hann vinnuvernd og vitnaði í Eyþór Víðisson löggæslufræðing sem segir, með leyfi forseta:

„Þróun á lögum og vinnuvernd hefur aukið ábyrgð vinnuveitenda. Vinnuveitendur eiga að gera allt til að tryggja öryggi starfsmanna sinna. Aukið aðgengi að vopnum snýst að miklum hluta til um öryggi lögreglumanna.“

Það kann að vera rétt að einhverju leyti en ekki öllu. Ég tek undir með málshefjanda sem sagði: Leiðin til að styrkja lögregluna er að láta meira fé til hennar renna til að efla almenna löggæslu. Ég hef oft lagt áherslu á að ég hef viljað horfast í augu við þann veruleika að eftir hrunið skárum við niður til löggæslunnar um tæpa 3 milljarða á ári. Og það er rangt að úr því hafi verið bætt. Það var þverpólitísk samstaða (Forseti hringir.) um að bæta úr því og það eigum við að gera vegna þess að veik lögregla með vopn í hendi er varasöm lögregla. En við viljum öll og ég held að fyrir því sé ríkur þverpólitískur stuðningur á Alþingi styrkja almennu löggæsluna í landinu.



[14:14]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að halda áfram þar sem frá var horfið og taka undir það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði, ég held að það sé almennur þverpólitískur vilji hér á Alþingi til að efla almenna löggæslu, að það eigi að vera forgangsatriði. Mér hefur heyrst það á mörgum.

Mér finnst alltaf svolítið erfitt að tala um löggæslumál. Ég er enginn sérfræðingur þegar kemur að löggæslumálum og lögreglunni. Í rauninni vil ég að þessi mál séu höndluð þannig að ákvarðanir um búnað lögreglunnar og hvernig hún vinnur séu teknar af þeim sem vita mest um aðsteðjandi vá og hvernig landið liggur í þeim efnum. Ég vil geta treyst lögreglunni. Það getur vel verið að hafa þurfi eftirlit með störfum lögreglunnar eins og sumir hafa lagt áherslu á. Það er mikilvægt að ræða störf lögreglunnar hér inni. Ég fagna því að reglur um vopnabúnað hafi verið gerðar opinberar. Það eyðir tortryggni. Ég fagna því líka að það er þverpólitísk áhersla á það að almenn löggæsla er ekki með vopn á Íslandi og verður ekki.

Þá bið ég bara um að ákvarðanir um vopnaburð lögreglunnar séu teknar á faglegum grundvelli, að þær séu byggðar á einhverju hættumati og það ríki gagnsæi um hvernig farið er með þessi vopn. Lögreglan hefur ekki verið vopnlaus. Auðvitað hefur hún haft aðgang að vopnum og við vitum vel að eitt sem upp getur komið í löggæslustörfum er að glíma þarf við aðila með skotvopn. Þá verðum við að búa lögregluna þannig að hún geti tekið á þeim vanda. (Forseti hringir.) Við erum því aldrei að tala um eitthvert vopnleysi en við erum heldur ekki að tala um vopnavæðingu. Mér finnst þetta í raun og veru í ágætum farvegi.



[14:16]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að koma þessu mikilvæga máli á dagskrá. Sú staðreynd að lögregla landsins hefur alltaf verið vopnum búin er okkur öllum ljós eins og það viðhorf langflestra að vilja búa hér í þessu landi frjáls og með friði.

Reglur um meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna hafa verið birtar. Í þeim kemur fram stefnumörkun stjórnvalda um meðferð, notkun og geymslu vopna lögreglunnar. Þar kemur til dæmis fram að skotvopn skuli geymd í læstum hirslum eða í aðstöðu á lögreglustöð. Þó getur lögreglustjóri ákveðið að hafa skammbyssur í lögreglubifreiðum við sérstök tilfelli. Einn þáttur í störfum lögreglu úti um land er aðkoma að slysum þar sem ekið er á skepnur. Í mínu kjördæmi er auk þess leiðinlega algengt að ekið sé á hreindýr og þá oft á stóra hópa. Aðkoma að slysum sem þessum getur verið svakaleg þar sem skepnur eru oft illa farnar og sárþjáðar. Við slíkar aðstæður er ekki fýsilegur kostur að aka þurfi um langan veg til að sækja vopn til að aflífa þjakaðar skepnur. Ég reikna með að almenn sátt sé um að hafa skotvopn í lögreglubílum til þessara nota, en ég reikna ekki með að aðstæður sem þessar séu mörgum efst í huga við þá umræðu sem snýr að öryggi borgaranna. Engu að síður er þetta raunveruleiki sem vert er að hafa í huga því að á öllum málum eru nokkrar hliðar. Veröldin breytist og við verðum að aðlaga okkur að því upp að því marki sem við sættum okkur við. Sú sem hér stendur er alfarið á móti því að lögregla beri vopn á sér við dagleg störf og tekur heils hugar undir þau sjónarmið að farið sé stranglega eftir öllum reglum. Eðli málsins samkvæmt er ýmislegt í störfum lögreglu sem ekki er hægt að opinbera en ákveðnir þættir þurfa þó að vera opinberir til að viðhalda trausti. Skilningur okkar á því sem er að gerast þarf að vera sameiginlegur því að öll viljum við treysta á það frjálsa og örugga samfélag sem við lifum í.



[14:18]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að minna á mikilvæga forsendu þessarar umræðu, en hún er sú að valdbeitingarheimildir lögreglu séu birtar opinberlega eins og nú er gert, þökk sé hæstv. innanríkisráðherra, og ber að þakka sérstaklega fyrir það. Það er alveg þess virði að minnast þess sérstaklega að núna getum við rætt saman um það. Hér fer fram efnisleg umræða um 19. gr. reglnanna og fór sú umræða strax af stað í innleggi hv. fyrirspyrjanda.

Fólki bregður við þá fyrirhuguðu breytingu sem lýst hefur verið í fjölmiðlum, vegna þess hvernig fór síðast þegar byssur komu til tals hér þegar kaupa átti 150 MP5 hríðskotabyssur til landsins og jafnvel setja þær í bíla samkvæmt sumu af því sem maður heyrði. Öll umræða var mjög ómarkviss. Hún var ónákvæm, jafnvel villandi, hvort sem það var viljandi eða ekki, hvort sem það var hér á þingi, hjá lögreglu eða hvar sem er. Umræðan núna er mun yfirvegaðri og nákvæmari og ég þori að segja vægari, enda er um miklu vægari breytingu að ræða núna en síðast. Þannig eigum við að ræða þetta. Við þurfum að hafa umræðuna í þingsal vegna þess að valdbeitingarheimildir og vopnabúnaður lögreglunnar eru háð lýðræðislegu umboði. Það verður að vera þannig í lýðræðisríki og reyndar alls staðar ef út í það er farið.

Mér þykir mjög áhugavert það sem hæstv. innanríkisráðherra nefnir, að ef það eigi að gera það að almennri reglu að skammbyssur séu í hverjum bíl lögreglunnar reyni mjög á túlkun 19. gr. Ég er sammála því. En ég fagna því að sú umræða eigi sér stað hér og nú á opnum vettvangi fyrir opnum dyrum og að við getum rætt það opinskátt við kjósendur okkar í kjölfar þess að þessar reglur hafa verið opnaðar. Ég kem að fleiri punktum í síðari ræðu minni en þakka að lokum enn og aftur hæstv. innanríkisráðherra fyrir hennar góðu viðbrögð í þessum málum.



[14:20]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir þakka ég þessa umræðu. Vopnaburður lögreglu er mál sem varðar líf og öryggi samborgaranna en ekki síður lögreglunnar. Þetta mál er af því tagi að það vekur eiginlega stórfurðu að ekki skuli vera um það skýr rammi í íslenskri löggjöf. Þess í stað eru til reglur sem nú hafa verið birtar um vopnaburð þar sem ráðherra framselur vald sem honum hefur verið fengið til ríkislögreglustjóra sem að hluta til framselur áfram vald til einstakra lögreglustjóra til að taka ákvarðanir um vopnaburð og meta aðstæður.

Þessar reglur eru á köflum mjög almennt orðaðar. Ég vek athygli á c-lið 34. gr. sem heimilar að beita vopnum til að koma í veg fyrir að verulegu tjóni sé valdið á þjóðfélagslega mikilvægum hagsmunum eða stofnunum, eins og þar segir. Það hlýtur hver maður að sjá að þetta er allt of almennt orðalag fyrir yfirmann óbreytts lögreglumanns til að taka ákvörðun um hvort hann beiti byssu sinni eða ekki. Það nær engri átt að Alþingi skuli ekki sjálft setja lagaramma um mál af þessu tagi með þeirri faglegu umfjöllun og sérfræðiráðgjöf sem slík lagasetning útheimtir. Það er stór og afdrifarík ákvörðun að útsetja íslenska lögreglumenn fyrir auknu ofbeldi á götum úti því að við vitum að vopnabúnaður kallar á viðbúnað glæpamanna sem eykur stigmögnun hörku, ótta og ógnar í samskiptum.

Sjálf óttast ég þá þróun sem nú er hafin með auknum vopnaburði lögreglu því að hún hlýtur líka að kalla á stóraukið og sjálfstætt eftirlit með lögreglunni eins og þingmenn hafa bent á, t.d. hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, (Forseti hringir.) og hlýtur að útheimta líka aukna fjármuni sem ég tek undir með málshefjanda að ég hefði frekar viljað sjá renna til aukinnar þjónustu lögreglunnar, fjölgunar lögreglumanna og bættra kjara þeirra.



[14:23]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir fagna ég allri umræðu um lögregluna og hennar störf. Umræðan mun upplýsa samfélagið um hvernig lögreglan starfar og af hverju. Allt slíkt mun bara tryggja að lögreglan fái aukið traust. Hún hefur þó mjög mikið traust í dag. Umræðan er til upplýsingar og fræðslu um hvernig þetta er.

Eins og sagt hefur verið mun almenningur ekki fara að sjá þungvopnaða lögreglumenn við skyldustörf samkvæmt því sem við erum að ræða hér. Ef lögreglumenn eru þungvopnaðir hefur mikið gengið á á undan eins og kemur fram í birtum vopnareglum. Það er enginn að fara að sjá þungvopnaða lögreglumenn við störf eftir þetta.

Þá skulum við fara yfir það af hverju við erum í þessari umræðu. Ég tek heils hugar undir það sem hér hefur komið fram og spyr líka: Hvernig styrkjum við lögregluna best? Jú, með því að fjölga almennum lögreglumönnum, auka sýnileika þeirra, auka hverfalöggæslu sem þekkir nærumhverfi sitt. Þannig tökum við best á því. Á sama tíma og við gerum það, og við höfum verið að forgangsraða í það með auknum fjármunum til lögreglunnar, með því að fjölga lögreglumönnum og það hefur verið markmiðið, getum við ekki horft fram hjá því að ýmisleg hætta getur komið upp og þá verðum við líka að vera tilbúin að takast á við hana. Það er ekki nóg að efla heilsugæsluna til að tryggja heilbrigði landsmanna ef við búumst ekki við að það geti orðið hópslys. Við þurfum að hafa viðbúnað við því þótt við eigum ekki von á slíku á hverjum tíma. Það er það sem hér er í gangi.

Hvernig eigum við að túlka 19. gr.? Hver er þessi sérstaka ástæða fyrir því að vopn eru sett í nokkra lögreglubíla, ekki alla, og með ströngum reglum? Jú, ríkislögreglustjóri hefur verið að reyna að átta sig á hinni raunverulegu hættu. Það er erfitt fyrir almenning og yfirvöld á hverjum tíma að átta sig á raunverulegri hættu. Þess vegna eru öll gögn (Forseti hringir.) ríkislögreglustjóra um áhættugreiningar og veikleikagreiningar birt árlega. Þessi hætta sem við verðum að átta okkur á er hin sérstaka ástæða fyrir því að vopnin þurfa að vera í lögreglubílum.



[14:25]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Líkt og aðrir þakka ég fyrir þessa umræðu sem ég tel mjög mikilvæga. Ég verð að segja að mér fannst einstaklega gott að heyra hæstv. ráðherra ítreka að lögreglumenn ættu ekki að vera vopnaðir við almenn löggæslustörf.

Ég tek líka undir það sem hér hefur verið sagt, mesta öryggið er fólgið í því að styrkja almenna löggæslu. Ég tel það gilda bæði fyrir almenna borgara þessa lands sem og lögreglumennina sjálfa. Það vantar fleiri lögreglumenn og líkt og hér hefur komið fram eru lögreglumenn oft einir í bílum. Það finnst mér mikið áhyggjuefni. Of fáliðað lögreglulið sem hefur jafnframt greiðan aðgang að vopnum er blanda sem ég tel stórhættulega.

Hér er búið að tala um að setja byssur í sex bíla. Rökin eru þau að bæta viðbragðstíma lögreglu. Ég hef áhyggjur af því að þetta geti leitt til stigmögnunar. Glæpamenn sem lögreglan fæst við geta auðvitað ekki vitað nákvæmlega í hvaða bílum skotvopnin eru. Ég hef áhyggjur af því að þeir muni bregðast við eins og skotvopn séu í öllum bílum. Ég hef áhyggjur af að það muni kalla á næsta skref sem verði að setja byssur í enn fleiri bíla og þannig koll af kolli.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi: Mesta öryggið er fólgið í því að styrkja almennu löggæsluna. Til að það sé hægt verður Alþingi vitanlega að setja fjármagn í það.



[14:27]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Umræðan um vopnaburð lögreglunnar sem skýtur upp kollinum síendurtekið hér inni, í fjölmiðlum og víðar sýnir að þjóðin er mjög á varðbergi gagnvart öllum hugmyndum um að auka vopnaburð lögreglunnar. Það gleður mig við þessa umræðu að mér heyrist flestir leggja sig fram um að eyða allri tortryggni í þeim efnum. Það stendur ekki til að almennir löggæslumenn beri vopn. Allur slíkur vopnaburður er háður skýrum reglum.

Að því sögðu finnst mér mikilvægt að ræða líka aðra þætti löggæslustarfa en vopnaburð. Mér finnst það hafa verið gert undanfarið og í þessari umræðu. Við erum að ræða hér þörfina á því að auka almenna löggæslu. Þetta er einfaldlega fjársveltur málaflokkur eins og svo margt í okkar samfélagi eftir mörg þrengingarár. Vinnuálag er mikið. Við verðum líka að skoða þjálfun lögreglumanna og aðbúnað að öðru leyti en vopnaburð, bílakost og þar fram eftir götunum. Það þarf að fara heildstætt í þetta.

Eitt áhugaverðasta innleggið í þessi mál las ég í viðtali við Karl Steinar Valsson, sem ég held að vinni hjá Europol núna, í Fréttablaðinu um daginn þar sem hann sagði að eðli svona viðureigna við glæpastarfsemi breyttist hratt. Hann talaði um mikilvægi þess að gera skipulagsbreytingar og breytingar á því hvernig lögreglan vinnur. Glæpasamtök núna eru ekki einskorðuð við einhvern einn hlut. Þau eru ekki bara í mansali eða eiturlyfjainnflutningi, þau eru farin að gera alls konar hluti í einu, jafnvel farin að nota verktaka til að gera hluti fyrir sig. Þetta er orðið mjög flókið og umfangsmikið, og mikilvægt að lögreglan geri skipulagsbreytingar til að geta nálgast þetta, ekki í hólfum (Forseti hringir.) eða með veggjum innan borðs heldur heildstætt. Þetta finnst mér mjög áhugavert. Mig langar til að ræða þetta einhvern tíma en ekki bara löggæslumál þegar hörmuleg dæmi koma upp úti í heimi sem varða skotvopn og þá ræðum við vopnaburð. Við þurfum líka að ræða aðbúnað, þjálfunarmál og skipulag löggæslunnar.



[14:30]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda eins og aðrir fyrir þessa þörfu umræðu. Eitt er það sem við skulum gera okkur grein fyrir, hinn almenni íslenski lögreglumaður vill ekki vopnbúast. Hann hefur ekki áhuga á því. Hann gerir það ef honum eru gefnar skipanir í þá átt en það er ekki almennur vilji lögreglumanna að vopnbúast.

Við skulum hins vegar horfa á það að á Íslandi er skotvopnaeign mjög almenn. Það væri því fásinna að hafa ekki hér vel þjálfað lögreglulið sem getur gripið til vopna ef nauðsyn ber til. Þegar talað er um að vopnabúnaður lögreglu sé til þess fallinn að stigmagna vopn í umferð má benda á þá staðreynd að í mjög mörgum húsleitum sem farið hefur verið í, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, í sambandi við skipulagða glæpastarfsemi, fíkniefnainnflutning o.fl., hafa menn fundið vopnabúr. Auðvitað sendum við ekki lögreglumenn berhenta í baráttu við slíka glæpamenn. Það sem hins vegar gerist við það að hafa skotvopn í afmörkuðum fjölda lögreglubíla er að viðbragðstíminn styttist. Ef atburðir verða alvarlegir þarf ekki að bíða eftir því að sérsveitin komi á vettvang einhverjum mínútum seinna. Þessar mínútur geta skorið úr um heill og hamingju og velferð.

Við skulum ekki ala á ótta við lögregluna. Það er algjör óþarfi. Lögreglan nýtur fullkomins trausts landsmanna sem betur fer og að verðugleikum og við skulum styðja við lögregluna eins og við mögulega getum. Við höfum gert það. Ríkisstjórnin sem nú situr hefur varið drjúgu fé eftir mjög mörg mögur ár. Við þurfum meira til, við þurfum almenna uppbyggingu og (Forseti hringir.) við skulum gera okkar besta til að styrkja starfsumhverfi hinnar almennu lögreglu.



[14:32]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nú vildi ég að ég hefði aðeins meiri tíma, m.a. til að svara hv. þingmanni sem talaði á undan mér um að ala á ótta gagnvart lögreglunni en ég ætla að sleppa því sökum tímaskorts í bili. Það sem er að mínu mati hættulegast við þá þróun að lögreglan hafi meiri aðgang að vopnum eða fjölgi þeim, sem ég veit að er ekki hér til umræðu, er að mannekla, skortur á þjálfun, lág laun, ósanngjörn starfsskilyrði og því um líkir brestir eru enn til staðar. Ef þeir eru til staðar og farið er í að auka vopnaburð — ég er ekki að tala um það sem fyrirhugað er núna heldur það sem var í umræðunni tiltölulega nýlega og ég geri ráð fyrir að komi upp aftur — er mikilvægast að við séum búin að laga þær brotalamir sem ellegar kalla á meiri vanda. Ef fleiri lögreglumenn eru til staðar eru minni líkur á að beita þurfi að valdi, sér í lagi einhvers konar skotvopnavaldi.

Ég tek undir með hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, við ættum að endurskoða lagaumgjörðina í kringum þetta. Í meginatriðum er lögreglan undanskilin vopnalögum. Vissulega sér ráðherra um þau mál og svo vill til að akkúrat núna er mjög ágætur hæstv. innanríkisráðherra í því. Það verður hins vegar ekkert alltaf endilega þannig. Samkvæmt núgildandi löggjöf getur vel stefnt í óefni ef annarlegir hvatar eru á bak við sem er ekki tilfellið núna en getur orðið seinna. Mér finnst alveg þess virði að endurskoða löggjöfina með hliðsjón af því að til sé betri lagarammi utan um það hvað sé heimilt og hvað ekki.

Síðast en ekki síst vil ég nefna að lögreglan fundar núna með hv. allsherjar- og menntamálanefnd um þörf sína á skotvopnum og valdbeitingarheimildum. Það er til bóta en enn vantar að alþingismenn hafi góða leið til að segja frá því sem gerist á þeim fundum vegna þess að þeir eru lokaðir. Sömuleiðis þykir mér að við ættum að hafa einhverja leið til að taka þátt (Forseti hringir.) í ákvörðununum, jafnvel þótt það væri bara til að veita umsagnir. Nú hef ég ekki tíma fyrir meira og harma það mjög.



[14:35]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og þakka svör hæstv. ráðherra. Það er gott að hún hefur skýrt það að ekki er um almenna vopnvæðingu lögreglu að ræða. En jafnvel þótt hún sé afmörkuð þarf að taka afstöðu og velta upp þeirri spurningu hvað fjölgun vopna í lögreglubílum kallar á. Hver verða viðbrögð glæpamanna? Verða þau einhver? Þetta eru allt þættir sem eiga erindi í opinbera umræðu og lögreglan hlýtur að hafa tekið afstöðu til áður en farið var fram á þessa fjölgun geymslustaða.

Ég fagna líka ummælum hæstv. ráðherra um mörk 19. gr. Ég er sammála henni um að þar eru mjög ákveðin mörk. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það að setja vopn að jafnaði í ákveðna bíla reyni mjög á þanþol greinarinnar og jafnvel gangi lengra en hún heimilar. Í öllu falli erum við ráðherra þó sammála um að lengra verði ekki gengið að óbreyttum reglum. Það er mjög mikilvægt að ráðherra segi það skýrt því að það bindur jafnt hendur hennar og eftirmanna hennar á stóli hvað þetta atriði varðar.

Ég vil síðan segja að ég tel ástæðu til að hættumat sem lögreglan gerir að þessu leyti komi fyrir þjóðkjörna fulltrúa. Ég tel að það þurfi að búa þannig um hnútana að allsherjar- og menntamálanefnd geti fengið í trúnaði aðgang að slíku hættumati og upplýsingar um það. Það er ekki í lagi að þjóðkjörnir fulltrúar viti ekki um viðbúnað lögreglu eða hættu sem lögregla telur steðja að samfélaginu. Slíkt er ekki í nokkru lýðræðisríki á vitorði lögreglu einnar og eins (Forseti hringir.) ráðherra. Slíkt er í öllum lýðræðisríkjum líka kynnt fulltrúum annarra stjórnmálaflokka og þannig þarf það að vera.



[14:37]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Allsherjar- og menntamálanefnd fær áhættumat ríkislögreglustjóra til kynningar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að nefndin sé mjög vel upplýst um það sem þar er að finna. Ég ítreka líka það sem ég hef þegar sagt og áður sagt í umræðu um lögreglumál að það er mjög brýnt að þeim sem gerst til þekkja, til að fjalla um þetta málefni sem er auðvitað ríkislögreglustjóri sem fer yfir grundvöll þess yfir hverju lögreglan þarf að ráða, sé treyst til að leggja það mat fram. Að sjálfsögðu þurfum við öll að hafa skoðanir á því hversu langt skuli ganga í hverju einstaka tilviki. Það er langbest að þeir sem til málsins þekkja sem best hafi það með höndum.

Ég ítreka það sem ég hef sagt að það er klárt mál að það eru ytri mörk á þessum reglum. Það er það góða við að geta rætt reglurnar að menn sjá hvernig þær líta út og hvar mörkin eru. Ríkislögreglustjóri verður að fara að reglunum. Hann getur ekki farið út fyrir þær. Komi til þess að menn séu í vafa um það hvort of langt sé gengið ber ráðuneytinu að sjálfsögðu að grípa inn í það með því að segja að þetta rúmist ekki innan reglna eða leggja til breytingar á reglum. Ef slíkar breytingar yrðu gerðar þyrfti að gera það að mjög yfirveguðu máli.

Svo vil ég að endingu taka undir það sem hér hefur komið fram, málefni löggæslunnar þarf að ræða heildstætt. Við erum alltaf að tala um afmarkaða þætti málsins. Það er alveg ljóst að umræða um vopn er óskaplega viðkvæm á Íslandi. Við erum öll viðkvæm fyrir henni. En við þurfum að gera okkur grein fyrir því að lögregluliðið þarf að vera vel þjálfað, vel menntað og vel undirbúið í öllum sínum störfum. Að sjálfsögðu skiptir sýnileiki löggæslunnar þar ekki síst máli en þetta þarf allt að koma til. Það þarf bæði að gæta þess að sýnileiki hennar sé sem mestur og við þurfum að gera betur þar og átta okkur á því að vel menntað, vel þjálfað lögreglulið (Forseti hringir.) er það sem við viljum.