145. löggjafarþing — 48. fundur
 7. desember 2015.
samkeppni á bensínsölumarkaði.

[15:32]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Enn einn áfellisdómurinn yfir olíufélögunum og framgöngu þeirra á bensínsölumarkaði er kominn fram og ég spyr ráðherra samkeppnismála hvort hann taki undir það að á bensínsölumarkaðnum hafi verið óviðunandi ástand um langt árabil með óhóflegum kostnaði fyrir bíleigendur í landinu. Samkeppniseftirlitið leiðir rök að því að þetta sé umframálagning sem geti numið um 20 kr. á hvern bensínlítra sem seldur er í landinu. Það geti verið um liðlega 4 milljarða að ræða í óeðlilegri álagningu á heimilin í landinu sem eru tugir þúsunda króna fyrir hvert heimili í landinu. Ég spyr fjármálaráðherra hvort hann sé sammála þessu mati.

Vakin er athygli á því að hagnaður félaganna fylgi álagningunni á bensínið. Dregið er fram að við veikingu krónunnar aukist jafnan hagnaður félaganna því að verðlækkanirnar skili sér miklu síður til neytenda en verðhækkanirnar. Það er gengið svo langt að tala um að á þessu árabili, 2005–2012, hafi verið þegjandi samhæfing á markaði hjá félögunum sem hafi skapað þeim skjól til þessarar óeðlilegu verðlagningar.

Ég vil spyrja fjármálaráðherra til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hyggst grípa til þess að stöðva þessa óþolandi einokunartilburði á bensínmarkaði, hvernig eigi að auka þar samkeppni eða hvort ráðherrann telji koma til greina, núna þegar við höfum reynt frjálsa verðlagningu á þessum markaði frá því upp úr 1990 með litlum árangri vegna óeðlilegra samkeppnishamlandi aðgerða þessara félaga og samsæris gegn neytendum á köflum, að grípa til opinberrar verðstýringar á bensínsölumarkaði til að stoppa þetta okur á bíleigendur.



[15:34]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Nú hef ég ekki lesið alla skýrslu Samkeppniseftirlitsins en ég hef kynnt mér meginniðurstöðu hennar. Meðal þess sem þar kemur fram er að ýmislegt í innkaupum á eldsneyti hafi orðið til þess að einsleitni hafi vaxið mjög á því sviði, þ.e. að menn hafi á undanförnum árum sótt allt eldsneyti til eins og sama birgjans en það þykir eftirlitinu, ef ég skil þetta rétt, draga úr líkunum að menn séu raunverulega að keppa. Nú er það svo að enginn hefur efast um að það ríkir fákeppni á þessu sviði eins og á svo mörgum öðrum á Íslandi en það þýðir ekki að ekki geti ríkt hörð samkeppni milli fákeppnisaðilanna.

Hv. þingmaður nefnir óþolandi einokunartilburði, en ég tek eftir því að á milli þeirra félaga sem keppa á þessum markaði er töluvert mikill munur, bæði hvað varðar eðli starfseminnar þar sem hjá sumum er rétt um það bil helmingur veltunnar eldsneytissala á meðan aðrir eru eingöngu í slíkri starfsemi. Hjá sumum hefur verið ágætis rekstrarafgangur en hjá öðrum hefur hann verið mest lítill eða enginn. Ég hjó eftir því þegar ég kynnti mér þessar meginniðurstöður að ekki var að finna eiginlegar tillögur hjá Samkeppniseftirlitinu til þess að ráða bót á þeim vanda sem þar var lýst. Ég tók heldur ekki eftir því að menn hefðu komist að því að framin hefðu verið samkeppnisréttarleg brot, sem skilur okkur eftir með spurningar af þeim toga sem hér er velt upp.

Ég tel að opinber verðlagning sé afleit lausn á þeim vanda sem við okkur blasir, þ.e. hvernig við getum aukið samkeppni á þessum markaði. Það sem mér hefur (Forseti hringir.) virst að gildi á þessum markaði er gríðarlega mikil offjárfesting og það væri mjög æskilegt að skapa hvata fyrir félögin til að losa um þá offjárfestingu og skapa aukið hagræði sem ætti að geta nýst neytendum með því.



[15:37]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nú skil ég ekki alveg hvað hæstv. fjármálaráðherra er að segja okkur. Er hann að segja okkur að á fákeppnismarkaðnum, bensínsölumarkaði á Íslandi sé hörð samkeppni? Er það skoðun ráðherrans að það ríki hörð samkeppni á bensínsölumarkaði eða er hann sammála Samkeppniseftirlitinu um að það sé þögul samhæfing eða ástæða til að ætla að þögul samhæfing sé í gangi? Telur ráðherrann að bensínverð geti verið um það bil 20 kr. of hátt á hvern lítra vegna skorts á samkeppni eða telur hann að það sé hörð samkeppni? Ef hann hefur engin úrræði af hverju hafnar hann þá opinberri verðstýringu? Af hverju geta lítil lönd, frjálslynd og markaðssinnuð eins og Lúxemborg og Belgía, beitt opinberri verðstýringu til þess að koma í veg fyrir svona okur á neytendum en ekki við? Hversu lengi eigum við að una því að milljarðar séu teknir af heimilunum á hverju ári í óhóflegt okur á bensíni án þess að hafast nokkuð að hér í þinginu?



[15:38]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil hafa þá nálgun í þessu máli eins og öðrum sambærilegum að hlusta eftir rökum og gagnrökum. Af hálfu þeirra sem um er verið að fjalla hér hafa komið ýmis gagnrök. Ég hef ekki gert það endanlega upp við mig hvort hér hafi ríkt eitthvert það ástand sem hafi sýnt einhvers konar brot gagnvart neytendum eða einhverja okurálagningu. Ég spyr mig hvort okurálagning geti verið tilfellið ef félögin skila engum rekstrarhagnaði, maður hlýtur að spyrja sig að því.

Hins vegar minntist ég á offjárfestingu og það er vissulega þannig að það eru of margar bensínstöðvar, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það að dreifa olíu um landið er líka mjög kostnaðarsamt og ég held að Samkeppniseftirlitið hafi gert rétt með því að leyfa félögunum að starfa að einhverju leyti saman við slíkt. Ef það ætti að fara út í einhverja opinbera verðlagningu þá þyrftum við að fara í sameiginleg innkaup til landsins, sýnist mér, eða hvernig eiga menn sem hafa ólíkan innkaupakostnað að sitja uppi með eitt (Forseti hringir.) sameiginlegt opinbert verð? Það er mörgum spurningum ósvarað þegar þessu er slengt fram. Við þurfum áfram að fylgjast með þessum markaði, ég fagna því að skýrslan hafi komið út (Forseti hringir.) og við skulum endilega taka þessa umræðu með markvissari og málefnalegri hætti en að gera það í tveggja mínútna fyrirspurnatíma.