145. löggjafarþing — 51. fundur
 10. desember 2015.
hækkun launa og bóta.

[10:53]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að veiti ekki af að fleiri spyrji hæstv. félagsmálaráðherra í von um að hún sjái nú að sér. Þetta voru hörmuleg svör, það var eiginlega verra en að hlusta á fjármálaráðherra sjálfan fara með möntrurnar. Ég held að hæstv. ríkisstjórn verði að fara að gá að sér að fara rétt með tölur og vísa rétt í hluti. Það sem verið er að tala um í almannatryggingalögunum að eigi að taka hækkunum samkvæmt 69. gr. er ekki heimilisuppbót eða annað því um líkt samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, það eru grunnfjárhæðir elli- og örorkulífeyris, það er tekjutrygging samkvæmt 22. gr. og það eru greiðslur til barnafólks samkvæmt 63. gr. Ríkisstjórnin er beinlínis að reyna að villa um fyrir mönnum með því að taka inn í umræðurnar um þetta mál hækkanir á hlutum sem falla undir önnur lög.

Hagstofan birti í gær hækkun vísitölu launa á 3. ársfjórðungi þessa árs og hún er 7,9% borið saman við 3. ársfjórðung 2014. Á milli ársfjórðunga er hækkunin ein og sér 3,5% og eftir er að koma inn í vísitöluna á 4. ársfjórðungi samningar sveitarfélaga, úrskurður kjararáðs og fleira. Það er því algerlega ljóst að hækkanir árið 2014 upp á 3,6% og aftur í byrjun þessa árs upp á 3% eru svo fjarri því að hafa skilað elli- og örorkulífeyrisþegunum sömu hækkunum og aðrir hafa fengið að það þarf næstum alla 9,7% hækkunina á næsta ári til að komast aftur á núllið ef þetta er tekið eitt og sér og skoðað.

Svona rugl um milljarðasamlagningar sem ekki horfir til magnaukningar í kerfinu, fjölgunar elli- og örorkulífeyrisþega og slíkra hluta, eða prósentuþvæla breytir ekki veruleika þessa máls. Ríkisstjórnin og hennar lið ætlar að skilja þennan eina hóp eftir — þennan eina hóp. Hann á ekki að fá neinar kjarabætur á þessu ári. Það er veruleikinn. Það er þá kannski helst að leika eigi námsmenn í landinu svipað grátt. Þetta er hörmuleg frammistaða, hæstv. félagsmálaráðherra. Hér (Forseti hringir.) færðu tækifæri til að gera betur. Segðu okkur að minnsta kosti að þú hefðir viljað hafa þetta öðruvísi.



[10:56]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að hér sé að aukast kaupmáttur. Það nýtist náttúrlega öllu samfélaginu, ekki hvað síst þeim sem hafa minnst á milli handanna. Ég minni hv. þingmann síðan á það sem hann og hans félagar stóðu að, sett var í forgang strax og þessi ríkisstjórn tók við að draga úr þeim skerðingum sem bótaþegar sættu í tíð fyrri ríkisstjórnar. Strax sumarið 2013 var afnumin sú regla að lífeyrissjóðstekjur skertu grunnlífeyri, frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og öryrkja var hækkað, frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna var hækkað, víxlverkun og samkomulag vegna bóta almannatrygginga og lífeyrissjóða var framlengt, skerðingarhlutfall tekjutrygginga var lækkað í 38,35% þann 1. janúar 2014. Þannig höfum við tekið til baka þær skerðingar sem hv. þingmaður stóð að sem þáverandi fjármálaráðherra í fyrri ríkisstjórn. Það þýðir að bætur eru 7,4 milljörðum kr. hærri á ári en annars væri.

Síðan, eins og fram kom í fyrra svari mínu við hv. þm. Helga Hjörvar, munu bætur hækka um 14,2 milljarða 1. janúar 2016, sem er hækkun um 9,7%. Og eins og fram kom í því svari, því að það er endurtekið efni hér, er 3,9 milljarða hækkun vegna launaþróunar á árinu. Ofan á það bætast 4,3 milljarðar sem aldraðir og öryrkjar fengu í janúar 2014 en ekki aðrir. Hér sést áhersla okkar á að bæta kjör þessara hópa. Við munum halda því áfram. Það eru ekki orðin tóm eins og sést á þessum tölum.



[10:58]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þær skerðingar sem ráðist var í á miðju ári 2009, sem voru auðvitað sársaukafullar en voru einfaldlega vegna þess að menn horfðust í þann veruleika að ekkert svið þjóðarbúskaparins eða ríkisrekstrarins gætu verið með öllu undanskilið, voru útfærðar þannig að þær voru fyrst og fremst bornar af þeim elli- og örorkulífeyrisþegum er höfðu miklar aðrar tekjur, voru í formi hækkaðra skerðingarhlutfalla, og þar með var sú lækkun sem komið hafði til framkvæmda 2007 færð aftur til fyrra horfs tímabundið til ársloka 2013. Það hefði fallið úr gildi án nokkurs atbeina þessarar ríkisstjórnar hvort sem er vegna þess að það var lögfest tímabundið. Grunnfjárhæðirnar voru hins vegar að fullu varðar. Þessi deila snýst um þær. Þessi deila snýst um þá sem ekkert hafa annað eða sem reiða sig fyrst og fremst á greiðslur frá tryggingakerfinu og hafa ekki aðrar tekjur. Þeir liggja enn þá óbættir hjá garði í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Þegar kjarasamningar voru gerðir á miðju ári 2011, sem eru mjög sambærilegar aðstæður við þær sem við stöndum frammi fyrir á þessu ári, var þeim skilað til elli- og örorkulífeyrisþega að fullu samtímis (Forseti hringir.) öðrum launamönnum og meira að segja var 50 þús. kr. eingreiðsla samkvæmt kjarasamningum greidd til elli- og örorkulífeyrisþega, þannig að full hækkun í samræmi við hækkun lægstu (Forseti hringir.) launa, ekki bara meðallaunavísitölu, var þá skilað í þá átt. Það er nærtækasti (Forseti hringir.) samanburðurinn við það (Forseti hringir.) sem fyrri ríkisstjórn gerði í þessum efnum. (Forseti hringir.) Og nú á ekki að taka hana til fyrirmyndar að þessu leyti.



[10:59]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn á ný fyrir útskýringarnar á því hver rökin voru fyrir því að standa að skerðingu bóta til öryrkja og ellilífeyrisþega. En ég ítreka það sem ég sagði; við munum halda áfram að bæta kjör þessara hópa eins og við höfum verið að gera.

Ég vil fá að nýta tækifærið og minna á aðrar aðgerðir sem finna má í fjárlagafrumvarpinu sem snúa einmitt að þeim sem minna hafa. Við erum með tillögur sem snúa að verulega breyttum húsnæðisstuðningi, en fram kemur í rannsókn Hagstofunnar að leigjendur eru mun líklegri til þess að vera fyrir neðan lágtekjumörk en húseigendur. Það hefur að vísu batnað í tíð þessarar ríkisstjórnar, þ.e. það hlutfall hefur lækkað. Öryrki sem býr einn mun í nýju húsnæðisbótakerfi fá um 9 þús. kr. meira en í núverandi kerfi, skattfrjálst. Síðan er áætlað að fjárveiting til opinbers húsnæðisstuðnings til leigjenda muni aukast um 2 milljarða á ári í tveimur skrefum, verði frumvarpið að lögum. Við gerum ráð fyrir 1,1 milljarði kr. árið 2016 í hækkun húsnæðisbóta.

Svo vil ég líka fá að nota tækifærið og minna á nýja félagslega leiguíbúðakerfið sem lesa má um í fjárlagafrumvarpinu. Með því er ætlunin (Forseti hringir.) að eignaminni leigjendur, þeir sem minnst hafa milli handanna, (Forseti hringir.) greiði ekki meira en 20–25% af tekjum sínum í húsnæðiskostnað, eða, miðað við tölur sem við höfum verið að ræða hér, um 50–60 þús. kr. á mánuði í húsaleigu. (Forseti hringir.) Gert er ráð fyrir 1,5 milljörðum í stofnframlög til þess.