145. löggjafarþing — 54. fundur
 14. desember 2015.
vinnulag við fjárlagafrumvarp.

[10:48]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Mig langar að spyrja út í fjárlagafrumvarpið og vinnulagið við fjárlagafrumvarpið en það hefur vakið mér furðu hvernig við vinnum það. Ég vildi kannski trúa því þegar ég var bara þarna úti í þjóðfélaginu og ekki á Alþingi að vinnubrögðin væru faglegri. Mér finnst það mjög merkilegt að ráðherra sem leggur fram frumvarp geri síðan viðamiklar breytingar á eigin frumvarpi. Vissulega bætast við einhverjar tekjur þegar ný þjóðhagsspá liggur fyrir í október, en þá getur maður spurt hvort þær tekjur ættu ekki að vera borð fyrir báru og notaðar fyrir einhver óvissuatriði. Við höfum líka séð gríðarlegan fjölda af breytingartillögum núna og það liggur í rauninni ekkert fyrir í mörgum tilfellum hvernig menn komust að þeirri niðurstöðu en ekki einhverri annarri, það eru engar greiningar sem liggja fyrir eða forgangsröðun. Ef við tökum framlög sem fara t.d. til verkefna í byggðamálum þá spyr ég: Af hverju í ósköpunum er fjármögnun ekki veitt í gegnum sóknaráætlun landshluta þannig að sveitarfélögin og landshlutasamtökin taki ákvarðanir og forgangsraði? Á sama tíma erum við að samþykkja frumvarp um opinber fjármál þar sem við ætlum að taka, getum við sagt, valdið af þingmönnum og setja inn í ráðuneyti þegar kemur að þessum litlu liðum. Ég velti fyrir mér hvort hér sé síðasti séns að deila aðeins út til, ég segi nú ekki til vina og vandamanna, en allt að því. Mér finnst þessi vinnubrögð mjög sérstök.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála mér um að ekki sé gott að koma með breytingartillögur sem eru líklega komnar upp í 10 milljarða núna, voru rúmlega 8 milljarðar áður en síðan komu inn alls konar óvæntir liðir og hvort hann sé stoltur af þessum vinnubrögðum, bæði af hálfu meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar. Safnliðirnir fóru inn í ráðuneytin (Forseti hringir.) á síðasta kjörtímabili, en nú erum við að taka þá aftur inn í fjárlaganefnd. Er það í lagi?



[10:50]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég hef lengi verið talsmaður þess að við bættum vinnubrögðin við fjárlagagerðina og meðhöndlun þingsins á fjárlagafrumvarpi. Ég tel að okkur hafi tekist vel á undanförnum árum að gera bragarbót á öllu verklaginu og séum með frumvarpi til laga um opinber fjármál að stíga enn frekari framfaraskref. Það er afskaplega mikilvægt að átta sig á því hversu stór hluti fjárlaganna hverju sinni eru reiknaðar áætlaðar stærðir. Það er ekkert nema eðlilegt að frá því að fjárlagafrumvarpið er lagt fram og þar til ný þjóðhagsspá kemur í hús og menn glöggva sig betur á því hvert stefnir í þjóðarbúskapnum að breytingar komi fyrir 2. umr. áður en fjárlaganefnd afgreiðir málið. Síðan að öðru leyti getur fjármálaráðherrann í sjálfu sér ekki borið ábyrgð á niðurstöðu meiri hluta fjárlaganefndar, en það er þó þannig að ríkisstjórnin skilar tillögum til nefndarinnar um ýmsar breytingar. Að þessu sinni var meiri hluti þeirra breytinga uppreiknaðar stærðir. Þjóðhagsspá gaf tilefni til þess að endurskoða tekjuhlutann og afleiðingin var m.a. sú sem við höfum verið að ræða í morgun að bætur almannatrygginga hækka og þá þarf að taka það með í reikninginn vegna þess að kjarasamningar frá því fjárlög voru afgreidd hafa þróast með þeim hætti.

Síðan eru það öll þessi litlu atriði eða þessir smáu liðir í fjárhagslegum stærðum sem eru hér og hvar í fjárlagafrumvarpinu. Ég er sammála því að oft hefur farið of mikill tími í það í þinginu að velta fyrir sér hvernig þeim er ráðstafað, en þingið hefur frjálsar hendur um það. Þinginu verður ekki sagt fyrir um það hvernig mál eru afgreidd í þingsal eftir að tillögur koma úr nefnd eða frá öðrum þingmönnum. Það er svo sannarlega ekki einsdæmi að menn taki í einstökum tilvikum fjárveitingar til verkefna utan safnliða. Fyrir því eru svo ótal mörg dæmi að ekki (Forseti hringir.) mundi endast dagurinn til þess að þylja þau öll upp.



[10:52]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég lýsi yfir vonbrigðum með þetta. Við vorum komin með ákveðið verklag sem ég taldi að við værum sáttari við og svo erum við að fara aftur til baka í gamaldags pólitík. Mér finnst það líka áhyggjuefni sem snertir kannski ekki stóra liði en það eru a.m.k. fjórir liðir í breytingartillögunum sem snúa að því að gera upp rekstrarhalla á ákveðnum fjárlagalið eða koma í veg fyrir rekstrarhalla á næsta ári. Hver ætlar að ákveða það að einhverjir fjórir liðir fái sérmeðferð, það séu þessir liðir en ekki einhverjir aðrir? Ég hefði haldið að fyrst þyrfti greiningu, menn þyrftu að vera komnir með reksturinn í jafnvægi, það þyrfti að vera eftirlit ráðuneytis með svona halaklippingum eða hvað við köllum þetta. Mér finnst þetta mjög alvarlegt og algjörlega ekki til fyrirmyndar. Síðan erum við jafnvel að gagnrýna forstöðumenn stofnana fyrir framúrkeyrslu og á sama tíma er einn æðsti embættismaður í málaflokknum að reka Framkvæmdasjóð ferðamannastaða með eftirágreiðslum þar sem við erum alltaf að taka hlutina inn á fjáraukalög. Vinnubrögðin eru ekki nógu góð. Ég heyri hvað hæstv. ráðherra segir og ég er viss um að hann er sammála mér í mörgum málum, en ég geri kröfur um meira.



[10:53]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hér er sagt, það skiptir máli að vera ekki með handahófskenndar ákvarðanir og sérstaklega þegar um er að ræða eldri uppsafnaðan halla þá er það mín sýn, ég hef nýlega rætt það í þinginu, að til verði eins konar staðlað samningsform við viðkomandi stofnanir sem menn geti gengið út frá að haldi þannig að haldi menn sig innan fjárlagaheimilda á næstu árum þá verði gamli hallinn fellur niður með tíð og tíma.

Ég ætla síðan að lokum að nota þetta tækifæri til að vekja athygli á öðru sem er að við festumst alltaf í umræðunni um fjárlög í þessum smærri fjárheimildum. Hver hefur til dæmis við 2. umr. að þessu sinni borið saman niðurstöðuna við ríkisfjármálaáætlun sem samþykkt var á Alþingi um mitt sumar, í júní? Hver hefur velt fyrir sér útgjaldalínunni, hvernig hún hefur þróast miðað við það sem við ákváðum? Hvert stefnir með skuldirnar miðað við það sem við ákváðum? (Forseti hringir.)

Við þurfum að fara að beina sjónum okkar að þessu sviði, langtímaþróuninni, (Forseti hringir.) og spyrja okkur: Er fjárlagafrumvarpið með þeim breytingum (Forseti hringir.) sem þingið mælir fyrir að halda (Forseti hringir.) sig innan þess ramma sem við höfum áður ákveðið?