145. löggjafarþing — 54. fundur
 14. desember 2015.
hælisleitendur sem sendir eru til baka.

[10:55]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að vekja athygli á því að mín skynjun hefur verið að þá leið þegar ég hef verið að taka þátt í starfi þingmannanefndar um ný lög er varða málefni útlendinga að hæstv. ráðherra hefur áhuga á að búa til góðan lagaramma og reglugerðarramma um þau mál. Ég verð samt að segja og mér finnst það mikilvægt því að núna eru þeir hlutir að gerast að hælisleitendur eru sendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar. Ítalía er land með svo mikið af hælisleitendum sem koma þangað að Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur beint því til landa að senda fólk ekki þangað. Ítalía og Grikkland eru þau lönd ásamt Ungverjalandi sem Evrópusambandið lagði til að tekið yrði við kvótaflóttamönnum frá, þ.e. yfirflæðisflóttamönnum eða hælisleitendum. Mér finnst það mjög einkennilegt framkvæmd að senda hælisleitendur til Ítalíu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig standi á því, því að það er ekki í anda þeirrar vinnu og þeirrar umræðu sem við höfum átt í þingmannanefndinni. Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá að svo væri.

Nú er alveg vitað að Albanir sem koma hingað og til dæmis Bandaríkjamenn eru sendir strax til baka og ekki er fjallað ítarlega um þeirra málefni á einstaklingsgrundvelli, heldur er fólki hreinlega mokað héðan út, eins og sú framkvæmd núna þar sem hreinlega var komið með 20 lögreglumenn til að taka börn um miðja nótt og þau sett í leiguflug. Þetta er ekki í anda þess sem ég hélt að hæstv. ráðherra vildi að við mundum koma fram við hælisleitendur hérlendis.



[10:57]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegur forseti. Við töldum ástæðu — og ég sagði frá því hér í þingsal — til að fara sérstaklega yfir það hvernig fara skuli með málefni Ítalíu. Það var unnin skýrsla og helstu sérfræðingar fengnir til að meta það hvernig fara skyldi með þá sem kæmu frá Ítalíu þegar kæmi að svokölluðum endursendingum. Eftir að hafa farið mjög ítarlega yfir það mál, með hliðsjón af því sem nú hefur verið að gerast í nágrannalöndunum, og í samræmi við það verklag sem nú er í gangi þar, þá var það niðurstaðan í þessari skýrslu, hvað Ítalíu varðar, að óhætt sé að senda fólk til Ítalíu, enda sé hvert einstakt tilvik skoðað. Þetta er niðurstaða þeirra sem best þekkja. Þetta er ekki einhver niðurstaða sem kemur upp í höfuðið á mér, heldur er þetta gert að yfirlögðu ráði.

Jafnframt er sú niðurstaða áfram klár að það skuli ekki senda fólk til Grikklands. Til viðbótar, eins og við höfum rætt hér í þingsal, þá hefur Útlendingastofnun ekki verið að senda fólk til Ungverjalands. Við teljum að áfram þurfi að skoða það með miklu ítarlegri hætti og koma með röksemdargrundvöll fyrir því.

Svoleiðis stendur þetta mál núna. Hins vegar er það alltaf þannig að þetta þarf að meta alveg stöðugt. Þetta er gert, eins og ég segi, í samræmi við það sem gert er á nágrannalöndunum og í miklu samráði við þau. Þessi skýrsla liggur nú á vef innanríkisráðuneytisins eins og ég veit að hv. þingmaður veit.

Þegar kemur að því hvernig farið er að málum þegar verið er að senda fólk til baka þá finnst mér það líka hlutur sem við þurfum einhvern veginn að hafa meira uppi á borðum, hvernig það er gert. Nú er ég ekki bara að horfa á þessi nýjustu tilvik heldur almennt séð. Ég held að verklagsreglur, það verklag sem viðhaft er, þegar verið er að flytja fólk burtu af landinu, þurfi að vera mönnum ljósar. Ég ætla reyndar seinna í dag að hafa fund í ráðuneytinu einmitt út af þessu, (Forseti hringir.) til þess að fólk átti sig betur á því hvernig best er að gera þetta þannig að sem best traust sé á milli yfirvalda og almennings í landinu (Forseti hringir.) af því ég held að það sé afar mikilvægt að við reynum að byggja það betur upp.



[11:00]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það eru svo sem ekki neinar nýjar fréttir að hælisleitendur séu beittir harðræði. Það var nú þannig að árin 2008 og 2009 var algengt að fólk væri gripið um miðjar nætur og sent til Grikklands. Fólk sem í raun og veru hafði ekki myndað nein tengsl við Íslendinga af því að allt það fólk var geymt á Fit, og það var langauðveldast að fara með það í skjóli nætur og enginn veit um afdrif þessa fólks. Ég vil bara ítreka það að við verðum að tryggja að við sýnum hér mannúð í verki. Lengi hefur verið sagt að laga þurfi þessi mál og við erum alltaf að uppgötva nýtt og nýtt. Ef það hefði ekki verið blaðamaður sem komst að því að flytja ætti það í skjóli nætur þá mundi enginn vita hvers konar aðferðum væri beitt hér. Ég óska eftir því að ráðherra beiti sér, ekki í dag, ekki eftir viku, heldur núna til að tryggja að svona eigi sér ekki (Forseti hringir.) stað aftur.



[11:01]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegur forseti. Þessi málaflokkur er þungur, það vitum við öll. Við erum alltaf að tala um fólk, einstaklinga, og það leggur ríkar skyldur á herðar allra sem í þessu kerfi starfa. Ég held að það hljóti allir að gera sér grein fyrir því. Það verður líka þannig, ég er alveg viss um það, á næstunni, vegna þess að það er vaxandi þungi í þessari umræðu, að við munum stöðugt þurfa að vera að endurmeta þetta regluverk allt saman. Ég held að sé enginn vafi á því. Við sjáum það bara af því sem er að gerast í löndunum í kringum okkur. Ég held nú reyndar að jafnvel þótt mönnum finnist að alltaf þurfi að gera betur, og ég get alveg fallist á það, þá hafi menn þó verið að reyna að stíga skref til þess að gera þetta kerfi opnara þannig að menn skilji betur hvað verið er að gera þarna. Í eðli sínu er það mjög flókið og mjög margslungið, eins og hv. þingmaður veit mætavel. Ég held að það standi upp á okkur öll, bæði ráðherra viðkomandi málaflokks og alla þá sem í þessu starfa, innan sem utan, að reyna að auka traust á það sem verið er að gera og ekki ganga út frá því að menn séu að reyna að ganga (Forseti hringir.) lengra en nauðsynlegt er, af því það er ekki viljinn. Það er ekki þess vegna sem þetta kerfi er til. (Forseti hringir.) Ég held við verðum að reyna að taka höndum saman um að reyna að tryggja að svo sé.