145. löggjafarþing — 56. fundur
 16. desember 2015.
fjárlög 2016, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 1. mál. — Þskj. 1, nál. 585, 599, 600 og 601, brtt. 586, 587, 588, 589, 590, 591, 592, 604, 605, 606, 607, 611, 612 og 635.

[15:02]
Árni Páll Árnason (Sf):

Herra forseti. Í þessari umræðu um fjárlög sem nú hefur staðið býsna lengi hefur höfuðáherslan af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni verið á þrjú stór meginmál: Að tryggja að lífeyrisþegar njóti kjarabóta með sambærilegum hætti og almennt launafólk og verði ekki settir skör lægra en fólk sem byggir afkomu sína á launum á vinnumarkaði.

Í öðru lagi að mætt verði eðlilegum, málefnalegum og vel rökstuddum óskum yfirstjórnar Landspítalans um fullnægjandi fjárframlög til rekstrar spítalans og til viðhalds húsnæði hans svo hann geti gegnt því burðarhlutverki sem honum er ætlað.

Í þriðja lagi að inna eftir því hvort ekki sé að vænta efnda stjórnarmeirihlutans á því fyrirheiti sem hæstv. menntamálaráðherra hefur gefið um að tekjustofnar Ríkisútvarpsins eða útvarpsgjaldið verði ekki skert frá því sem nú er, öfugt við það sem kveðið hefur verið á um í lögum.

Það hefur verið athyglisvert í þessari umræðu að sjá skort á rökstuðningi af hálfu stjórnarliða fyrir óbreyttri stefnu í þessum þremur meginmálaflokkum. Við höfum reyndar séð hvað varðar málefni lífeyrisþega, flótta bresta í lið stjórnarmeirihlutans og einstaka stjórnarþingmenn viðurkenna yfirsjón og mistök varðandi fyrri afstöðu sína. Þess vegna munum við leitast við í þeim atkvæðagreiðslum sem fram undan eru í þinginu að gefa þingmönnum stjórnarmeirihlutans færi á því að svara með skýrum hætti fyrir atkvæði sitt gagnvart þessu þjóðþrifamáli.

Það er hins vegar athyglisvert að sjá hvernig stjórnarforustan hefur forherst við þessa umræðu í viðhorfum sínum til lífeyrisþega og ber þar auðvitað hæst þau fráleitu ummæli hæstv. fjármálaráðherra að það sé sjálfstætt markmið að láta lífeyrisþega standa skör lægra en almennt launafólk og það sé með einhverjum hætti þjóðfélagslega skaðlegt að lífeyrisþegar njóti fulls jafnræðis á við fólk á lágmarkslaunum. Ég held að þau ummæli muni verða honum og stjórnarforustunni til langvarandi minnkunar. Satt að segja er það sérkennilegt að heyra slíkan málflutning þegar fyrir liggur í viðhorfskönnunum að 95% þjóðarinnar eru sammála þeim megináherslum sem við hér í stjórnarandstöðunni höfum talað fyrir um jafnstöðu lífeyrisþega á við fólk á almennum vinnumarkaði.

Við í stjórnarandstöðunni lögðum síðan fram ítarlegar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið sem koma munu til atkvæða við endanlega afgreiðslu þessa frumvarps við 2. umr. Þar mun stjórnarþingmönnum enn og aftur gefast færi á að sýna vilja sinn til þess, lykilmála til jafnstöðu lífeyrisþega við almennt launafólk og til aukinna framlaga til Landspítalans sem og ýmissa annarra þjóðfélagsverkefna eins og hækkunar á þaki greiðslna í fæðingarorlofi upp í 500 þús. kr. og hækkunar á skerðingarmörkum barnabóta. Það er athyglisvert við tillögur stjórnarandstöðunnar til breytinga á fjárlögunum, að þær eru auðframkvæmanlegar. Þær fela vissulega í sér aukin útgjöld en fjölþættar tekjuöflunartillögur eru á móti og mundu verða samfélaginu mjög til góðs og sýna að hægt er að hafa aðra stjórnarstefnu sem er auðframkvæmanleg og fjárhagslega ábyrg.

Ég ætla ekki að endurrekja í þessari stuttu ræðu þau fjölmörgu atriði sem er að finna í tillögum okkar um breytingar á fjárlögunum. Þær eru fjölmargar og horfa til framfara. En ég ætla að ljúka máli mínu með því að minna á mikilvægi þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað. Þjóðin hefur fengið að sjá einlægan ásetning stjórnarmeirihlutans gagnvart þeim þjóðþrifamálum sem við höfum lagt áherslu á í umræðunni. Það velkist enginn lengur í vafa um það úti í samfélaginu að stjórnarmeirihlutinn hyggst tryggja það með atkvæði sínu að lífeyrisþegar njóti lakari kjarabóta en fólk á almennum vinnumarkaði og jafnt á yfirstandandi ári sem og því næsta. Það er líka orðið ljóst af umræðunni að stjórnarmeirihlutinn sinnir ekki varnaðarorðum yfirstjórnar Landspítalans varðandi rekstrarforsendur næsta árs. Fram undan er hörmungarástand á Ríkisútvarpinu og veruleg hætta á upplausn þeirrar mikilvægu samfélagsstofnunar ef ekkert verður að gert.

Við munum með tillögum okkar hér við 2. umr. fjárlaga tryggja að stjórnarþingmenn þurfi að segja hug sinn gagnvart þessum lykilmálum en við munum líka við frekari tillöguflutning við 3. umr. halda áfram að klappa steininn ef ekki verður bætt í af hálfu stjórnarmeirihlutans milli umræðna. Það er skylda okkar sem stjórnarandstöðu að leiða fram valkost í umræðu um fjárlög, mæla fyrir honum af rökfestu og halda stjórnarliðinu við efnið og tryggja að svara þurfi fyrir ákvarðanir sem ganga gegn almannahag, eins og mörg dæmi eru um í því frumvarpi sem hér er til meðferðar.



[15:10]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa við þessa umræðu um fjárlögin reifað ýmsa vankanta á því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Mér finnst mikilvægt í byrjun að segja það sem ég hef komið að í fyrri tveimur ræðum mínum um efnið að það er óheppilegt að öll pólitísk álitamál renni saman í einu frumvarpi til fjárlaga. Á meðan mikilvægum lögbundnum verkefnum eins og að leggja fram samgönguáætlun eða áætlun um þróunarsamvinnu eða hvað það nú er, er ekki sinnt, er verið að taka inn pólitískar stefnumótandi ákvarðanir í fjárlagaumræðunni. Margir hafa furðað sig á því að þessi umræða hafi staðið lengi. Fólk þarf ekki að furða sig á því því að hér er í raun og veru þjappað saman öllum helstu pólitískum álitamálum sem við hefðum átt að vera að ræða í allt haust. Og ég vil og minn þingflokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, gera alvarlegar athugasemdir við þetta vinnulag og segja það að eðlilegt er að þetta verði tekið til skoðunar því við getum ekki verið að þjappa pólitískum, risavöxnum álitamálum saman með þessum hætti. Það er hins vegar greinileg tilhneiging hjá þessari ríkisstjórn að gera það, væntanlega til að víkja sér undan erfiðri umræðu þar sem fólk er ekki reiðubúið að takast á og fá eðlilega þinglega meðferð á málum. Það er auðvitað auðveldara að safna þessu öllu saman í eitt skjal. En þá þýðir ekki að kveinka sér undan umræðunni eins og hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa sumir hverjir gert.

Á þeim stutta tíma sem ég hef til reiðu finnst mér mikilvægast að nefna það sem við þingmenn Vinstri grænna teljum helsta ranglætið í fjárlagafrumvarpinu og það er í fyrsta lagi kjör lífeyrisþega sem standa nú hér fyrir utan enn einn daginn, herra forseti, enn einn daginn stendur þetta fólk hér fyrir utan og minnir á kjör sín. Eins og komið hefur fram í því sem ég hef sagt í umræðunni þá deilir engin um það að þessir hópar fá ákveðna prósentuhækkun. Stóra málið er af hverju sú prósentuhækkun er reiknuð. Það er erfitt trúi ég fyrir hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans að horfast í augu við þá staðreynd að stór hópur lífeyrisþega sér fram á að vera með nöturlegar ráðstöfunartekjur, tekjur upp á 180 þús. kr. eða svo, sem hækka um nokkur prósentustig þegar við vitum öll sem hér erum að það dugir ekki til að komast af á mánuði. Við verðum að taka þessa umræðu upp úr því fari að við séum að ræða prósentuhækkanir sem allar verða að haldast í takt heldur verðum við að horfa á það hvort kerfið sem við búum við sé réttlátt. Það dugir ekki að segja að allir fái prósentuhækkanir ef kerfið sem við byggjum á er ranglátt. Það er ranglátt að fólk sem ekki getur valið sér sitt hlutskipti hvort sem það eru öryrkjar eða aldraðir sitji uppi með það að vera dæmt til þess að fá ekki nægjanlegar ráðstöfunartekjur til að geta framfleytt sér. Það á við um stóra hópa meðal þessa fólks að vera dæmdir til þessarar lágu framfærslu. Það á líka við um hópa þeirra á meðal að þær tekjur sem þeir reyna að vinna sér inn aukalega skerðast áfram króna á móti krónu og þar höfum við talað sérstaklega um sérstöku framfærsluuppbótina.

Samfélög eru dæmd út frá því hvernig þau fara með sína viðkvæmustu hópa. Okkur hefur orðið tíðrætt hér um málefni barna eðlilega út frá nýliðnum atburðum. En við getum alveg tekið í þann hóp öryrkja og aldraða og hvernig við förum með okkar viðkvæmustu hópa. Það segir sitthvað um okkur sem samfélag. Hv. þingmenn meiri hlutans hafa tækifæri til að gera eitthvað í þessum málum. Við höfum lagt fram tillögu um kjarabætur handa þessum hópum í takt við það sem hefur gerst á hinum almenna vinnumarkaði þannig að tekjur þeirra verði sambærilegar við lægstu laun, þ.e. 300 þús. kr. á mánuði. Ég hef heyrt suma hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans lýsa vilja sínum í þá átt en viljann verður að sýna í verki og það væri mikilvægt að fá eitthvert slíkt merki frá hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum stjórnarmeirihlutans nú þegar stefnir í lok þessarar umræðu.

Í öðru lagi langar mig að nefna Landspítalann sem eðlilega hefur verið hér til umræðu. Það er ekki brugðist við þeirri staðreynd að álag mun aukast á spítalann. Forustumenn spítalans hafa lagt fram gögn þar að lútandi sem eingöngu snúast um lýðfræðileg rök, aukið álag og breytta aldurssamsetningu í samfélaginu, sem sagt fleira eldra fólk sem er líklegra til að þurfa að nýta sér þjónustu spítalans. Einungis lýðfræðilegu rökin kalla á 1,7% aukningu í rekstri á umfangi spítalans. Það er heldur ekki brugðist til fulls við þeim kjarabótum sem hafa orðið innan spítalans og þar stendur yfir deila milli velferðarráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Ekki er heldur komið til móts við viðhaldsþörfina. Við í stjórnarandstöðunni erum sammála um að þarna eigi að forgangsraða, þarna eigi að setja aukna fjármuni og þar erum við sammála þjóðinni líka að ég tel. Þarna hafa hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar stjórnarmeirihlutans tækifæri til að gera eitthvað, til að samþykkja einhverjar af þeim tillögum sem hér liggja fyrir eða kynna sínar eigin.

Að lokum langar mig að nefna þriðja málið sem hefur kannski borið hvað hæst í málflutningi okkar og það er Ríkisútvarpið. Það mál vekur mér mikla furðu eftir að hæstv. menntamálaráðherra kynnti það í vor og lofaði því að horfið yrði frá lækkun útvarpsgjaldsins sem lækkaði á síðasta ári en þá var ákveðið að það ætti að lækka aftur með þeim fjárlögum sem við samþykkjum hér. Hæstv. ráðherra kom svo fram í vor og sagðist telja það óráð að halda áfram að lækka gjaldið, færði fyrir því ýmis rök þá og hefur í þessari umræðu mætt og tekið þátt í umræðunni og fært fyrir því áfram ágætisrök. Þau snúast til að mynda um að þegar hefur verið hagrætt mjög í rekstri Ríkisútvarpsins. Hæstv. ráðherra talaði um 5% hagræðingu. Hann benti líka á þá staðreynd að lóðin hefur verið seld til að bæta skuldastöðu útvarpsins en bætti líka við og útskýrði það hvernig kostnaður við dreifikerfið hefði reynst meiri en fyrirsjáanlegt hefði verið þó að einnig sé ljóst að erfitt var fyrir stjórn Ríkisútvarpsins á þeim tíma að taka einhverja aðra valkosti þegar henni var gert að færa útsendingu sína yfir á stafrænt form. Hún fékk þá tiltekinn fjölda tilboða í það verk þannig að það var kannski enginn augljós valkostur á þeim tíma en það er ljóst að sá kostnaður hefur orðið meiri.

Ríkisútvarpið hefur lagt fram framtíðarsýn, stefnumótun sem hefur verið í takt við það, eða ég heyri alla vega ekki betur, sem hv. þingmenn hafa gert að umtalsefni, t.d. um að þjónusta betur hinar dreifðu byggðir og framleiða og bæta efni fyrir börn og í því býr auðvitað gríðarlega mikið menningarhlutverk. Eigi að síður virðist hæstv. ráðherra af einhverri meinbægni ekki fá frumvarp sitt afgreitt úr ríkisstjórn. Ég get ekki skilið það öðruvísi en að einhverjir innan stjórnarmeirihlutans séu einfaldlega á móti hugmyndinni um almannaútvarp. Við áttum ágæta umræða í gær um almannaútvarpið og ég varð svo sem ekki vör við annað en að þeir hv. þingmenn stjórnarliðsins sem tóku þátt í þeirri umræðu væru hlynntir hugmyndinni um almannaútvarp. Hæstv. ráðherra ítrekaði það í umræðunni. En hann er skilinn eftir með allt niður um sig og ekki von á neinum úrbótum eftir því sem fram hefur komið.

Ég segi það líka í þessu máli að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans hafa tækifæri hér og nú til að greiða úr þessu og láta af þessari einkennilegu meinbægni í garð almannaþjónustumiðilsins sem enginn treystir sér í raun og veru almennilega til að útskýra.

Þessi þrjú mál hefur borið hvað hæst. Það væri ósk mín að við fengjum undirtektir við málflutningi okkar. Þetta eru mál sem varða annars vegar réttlæti, þ.e. hvernig við skiptum gæðunum, hvernig við teljum að eigi að búa að þeim hópum sem eru viðkvæmastir í samfélaginu og hins vegar eru þetta mál sem varða gríðarlega mikilvæga innviði, þ.e. Landspítalann, og að heilbrigðiskerfið geti staðið undir því hlutverki og þeim kröfum sem við leggjum á það. Í þriðja lagi er þetta mál sem varðar stærstu menningarstofnun þjóðarinnar. Það eru engin smámál sem hér er undir. Þau eru misútlátamikil fyrir stjórnarmeirihlutann en ég vil segja það að lokum, herra forseti, að mér þykir það dapurlegt að hafa ekki fengið neinar vísbendingar í þessari umræðu um að menn vilji hlusta eftir þessum breytingartillögum né öðrum þeim breytingartillögum sem minni hlutinn hefur fært fram og rökstutt með ágætum hætti í þessari umræðu.



[15:20]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ágætt að hefja þessa ræðu á því að tala aðeins um vinnubrögðin við fjárlagagerð, vinnubrögð sem munu vonandi og væntanlega batna í kjölfar þess að frumvarp um opinber fjármál verði samþykkt og gert að lögum, vegna þess að að mínu mati eru vinnubrögðin við fjárlagafrumvarpið ekki endilega þau bestu í heimi og jafnvel þótt þau væru best í heimi, þá vil ég meina að það sé fyrst og fremst áfellisdómur yfir umhverfinu sem vinnan á sér stað í sem lýsir sér í deilum um vinnubrögð hér á bæ. Ég held ekki að svo undarlega vilji til að akkúrat fólk sem vinni illa lendi á Alþingi, ég held ekki að það sé þannig. Ég held miklu frekar að það sé umhverfið og ramminn utan um það hvernig fjárlög eru gerð, hvernig lagasetningarferlið er sem veldur hatrömmustu deilunum hérna og tilgangslausustu deilunum. Oft fer sú umræða út í vinnubrögð af því að það liggur vel við.

Ég vona vissulega að frumvarp um opinber fjármál komi til með að laga mikið af þeim vandamálum, væntanlega verða einhverjir hnökrar samt í kjölfarið á því eins og við er að búast þegar hlutum er breytt á sama tíma, en burt séð frá því eru nokkur mál sem mér þykir mikilvægt að ítreka hér og impra á í lok umræðunnar. Fyrst og fremst eru það auðvitað hagsmunir öryrkja og aldraðra, sem eru að mínu viti alltaf skildir eftir með einum eða öðrum hætti og það er óþolandi. Öryrkjar geta flestir ekki einfaldlega hætt að vera öryrkjar. Þeir geta ekki fengið launahækkun, þeir geta ekki lagt harðar að sér og þeir sem geta það þó, þeim er yfirleitt hegnt fyrir það með skerðingum. Að mínu mati eru tekjuskerðingarnar hvað versti þátturinn af almannatryggingakerfinu, hvort sem um ræðir ellilífeyrisþega eða örorkubótaþega. Ástæðan fyrir því er að ég tel það kerfi einfaldlega letja og draga úr hvata til vinnu. Ég sé ekki fram á það að með afnámi til tekjutengingar mundi kostnaður við þennan málaflokk aukast, alla vega ekki mikið. Ég held að hann mundi aukast mjög lítið, ef nokkuð yfir höfuð. Hins vegar held ég að það mundi auka frelsi fólks til athafna. Ég held að það mundi auka efnahagsleg umsvif. Ég held að það mundi taka fólk út úr ákveðinni fátæktargildru. Ég vil meina að fátækt sé mjög dýr vegna þess að í henni felst gríðarleg sóun, bæði á þeim hluta vilja einstaklingsins sem lýsir sér í efnahagsumsvifum og því vali sem síðan stýrir framboði og eftirspurn en sömuleiðis einfaldlega því hvernig fólk geti lifað lífi sínu hvað frjálsast.

Að því sögðu tel ég mjög mikilvægt að endurskoða það kerfi og verið er að endurskoða það. En nú hef ég haft þá möntru í nokkuð langan tíma þegar ég ræði við öryrkja og aðra sem eiga bágt að alltaf þarf maður að segja einhvern veginn að það sé nefnd að störfum og hún komi til með að skila bráðum. Þetta lykilorð „bráðum“ er auðvitað mjög teygjanlegt þegar verið er að lofa einhverju inn í framtíðina, það er eiginlega orðið þannig. En ég vil taka fram sérstaklega að ég vona að sú nefnd skili fyrst og fremst góðu verki og ef það krefst tíma þá krefst það tíma. Stundum er það bara þannig. En við þurfum þá að bregðast við þangað til og að mínu mati þurfum við að bregðast við með því að auka útgjöldin í þeim málaflokki, sem ég veit að nýtist ekki eins vel og maður mundi vilja. En í bili finnst mér verða að hafa það vegna þess að öryrkjar geta ekki sett örorku sína á pásu, þeir eru áfram öryrkjar á meðan þeir bíða eftir nefndinni, og einnig ellilífeyrisþegar.

Þegar kemur að Ríkisútvarpinu hef ég löngum haft blendnar tilfinningar til þess að hafa ríkisútvarp en ég hef hins vegar alltaf endað á þeirri hlið að vera hlynntur tilvist ríkisútvarps á Íslandi. Ef við værum í miklu stærra samfélagi þar sem hagfræðikenningarnar virkuðu til hlítar væri ég líklega á móti ríkisútvarpi, nema reyndar ef ég byggi í Bretlandi vegna þess að ég er sérlegur aðdáandi BBC ef út í það er farið, en það er meira svona persónuleg skoðun en einhver hagfræðikenning á bak við það.

Hins vegar í svona litlu samfélagi tel ég eðlilegt og nauðsynlegt reyndar, því miður, að einkaaðilar séu að einhverju leyti í samkeppni við ríkið á einstaka sviðum og þá sér í lagi þegar kemur að fjölmiðlum. Það er auðvitað óvenjulegt en það er margt sem verður óvenjulegt í svo smáu hagkerfi og margt sem einfaldlega stenst ekki þær klassísku kenningar sem ég annars aðhyllist í kenningunni. Raunveruleikinn getur oft orðið mjög frábrugðinn.

Nefskattur er þó sú skattheimta sem mér er hvað verst við. Mér finnst hún mjög vond, eiginlega að öllu leyti, nema því einu að hún aflar tekna. Meðan þetta nefskattsfyrirkomulag er þykir mér mjög mikilvægt að nefskatturinn dugi fyrir rekstri Ríkisútvarpsins en að því sögðu mundi ég frekar líta í framtíðinni til þess að því nefskattsfyrirbæri væri hætt og helst að það væri bannað ef það væri mögulegt. Mér finnst þetta afspyrnuvond tegund af skattheimtu og hún bitnar mest á þeim sem hafa minnstar tekjurnar og sérstaklega þeim sem hafa engar tekjur en þurfa samt að borga einhvern skatt allt í einu.

Ekki verður hjá því komist að nefna tvö mál — ég mundi nefna fleiri ef ég hefði meiri tíma og svo vill fólk náttúrlega fara að ljúka þessari umræðu fyrr en síðar — en það eru fangamálin. Meiri hlutinn leggur til minna en algera nauðsyn. Minni hlutinn leggur til algera nauðsyn, 80 milljónir, meiri hlutinn leggur til 45 milljónir, sem er auðvitað þó nokkuð mikið meira en núll en samt ekki nóg að mínu mati til að koma til móts við lágmarksþarfir fangelsiskerfisins. Ég vona að ekki verði stórslys í þeim málaflokki er fram líða stundir en ég verð að viðurkenna að ég hef áhyggjur af því, einfaldlega sökum fjárskorts. Það er ekki einu sinni spurning um stefnu þó að ég hafi aðrar áhyggjur í þeim efnum líka sem ég ætla ekki út í hérna.

Síðast en ekki síst vil ég nefna eitt af því sem ég tel með því mikilvægara að við fjármögnum með sóma. Það er umboðsmaður Alþingis. Í kenningunni um lýðræðið sem gildir á Íslandi er Alþingi yfirmaður ríkisstjórnarinnar. Alþingi hefur eftirlitshlutverki að gegna og það beitir þessu eftirlitshlutverki með ýmsum leiðum, þar á meðal með hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en einnig hinni ágætu stofnun, umboðsmanni Alþingis. Umboðsmaður Alþingis, eins og ég sé embættið, er framlenging á Alþingi og ef við fjármögnum þá stofnun ekki nógu vel þá þykir mér það grafa undan trúverðugleika Alþingis, með því að grafa undan trúverðugleika þeirrar hugmyndar að Alþingi eigi að ráða þessu landi en ekki ríkisstjórnin. Nú er það hins vegar þannig að ríkisstjórnin ræður einfaldlega landinu því miður, en það er eitthvað sem við ættum að breyta og ein leiðin til að hjálpa til við að breyta því, alla vega að einhverju leyti yfir eitthvert tímabil, er að hafa umboðsmann Alþingis fjármagnaðan eftir þörfum.

Breytingartillaga minni hlutans kveður á um 15 millj. kr. aukningu til umboðsmanns Alþingis til að hann geti staðið að frumkvæðisathugunum hvað best. Gleymum því ekki að frumkvæðisathuganir reyndust gríðarlega mikilvægar í umfjöllun um hið svokallaða lekamál á sínum tíma og ég veit að það var óþægilegt fyrir ríkisstjórnina en það verður að hafa það. Það er þess vegna sem umboðsmaður Alþingis er til, það er til að vera óþægilegur þegar eitthvað bjátar á og þá bjátaði á og þá þurfti frumkvæðisathugun til. Í sögunni mun það enda að mínu mati sem eitt merkilegasta mál á þeim tilteknu tveimur árum eða svo.

Meiri hlutinn leggur hins vegar til að skorið verði niður um 13 milljónir til umboðsmanns Alþingis og rökstyður það með því að umboðsmaður Alþingis sé núna í húsnæði Alþingis en hafi áður verið í leiguhúsnæði fyrir um 13–14 milljónir, 13,5 millj. kr., upp eða niður eins og gengur og gerist. En í því felst að hunsað er að því fylgir hellingskostnaður að vera í eigin húsnæði. Það er viðhald, kostnaður við mat og við öryggisgæslu. Það er ekki, enn sem komið er, aðgengi fyrir fatlaða hjá umboðsmanni Alþingis, sem er að mínu viti fullkomin hneisa og á ekki að viðgangast. Þetta er sú stofnun sem á að taka við kvörtunum frá borgaranum til Alþingis til að hafa eftirlit með yfirvöldum og ekki er aðgengi fyrir fatlaða. Mér þykir það algerlega fráleitt. Það kostar peninga. Það kostar peninga og hugsunin var meðal annars að nýta þá peninga í sem annars fóru í leigu.

Umboðsmaður Alþingis hefur skýrt sagt frá því margsinnis á mörgum vettvanginum að Alþingi þarf að kveða skýrt á um hver ætlunin er til þeirrar stofnunar. Ég legg til að ætlunin til stofnunarinnar, umboðsmanns Alþingis, sé að hún geti staðið vel að frumkvæðisathugunum og tekið við kvörtunum borgaranna án þess að það sé neitt vandamál. Ég lít á það sem grunnstoð lýðræðisins á Íslandi, hvorki meira né minna, eða eina af þeim. Allur sá gangur mála í sambandi við umboðsmann Alþingis eins og þetta ætlar að reynast, ef atkvæðagreiðslan fer eins og ég vona að hún geri ekki en gerir sennilega, þá þykir mér það grafa undan trúverðugleika Alþingis og mér finnst að þingheimur allur ætti að taka það vandamál mjög alvarlega.



[15:30]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Nú fer að síga á seinni hlutann og jafnvel að hilla undir lok á þessari ágætu umræðu um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í annarri umferð. Ég vil ekki lengja umræðuna að óþörfu en ástæða er til að súmmera hana aðeins upp. Þann 8. desember — fyrir einhverjum dögum, við erum hætt að bera skynbragð á tímann og telja dagana hér í umræðunni — kynntu minnihlutaflokkarnir breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið. Þar lögðum við áherslu á nokkur atriði sem við höfum rætt mikið í þessari umræðu. Aðaláherslurnar þar voru að tryggja að örorku- og ellilífeyrisþegar mundu njóta sambærilegra hækkana og þeir sem lægst hafa launin. Það er fullkomlega sjálfsögð tillaga, það er ekki nema eðlilegt og við lítum á það sem eðlilegar lagfæringar eða tillögu til að standa við algjört grundvallarréttlætismál. Það hefur komið fram í umræðunum hér að fulltrúar stjórnarflokkanna eru ekki sammála um þetta og það er miður.

Við lögðum einnig til, í breytingartillögum minni hlutans, að bæta í fjármagn til Landspítalans. Kannanir hafa sýnt að almenningur er sammála því að hann sé lykilstofnun í íslensku heilbrigðiskerfi sem við viljum standa við bakið á. Þetta er lykilstofnun sem hefur þurft að glíma við mikinn niðurskurð hin seinni ár sem að mörgu leyti hefur bitnað á getunni til að halda starfseminni sterkri og byggja hana upp. Í breytingartillögu minni hlutans er verið að leggja til það fjármagn sem stjórnendur spítalans telja algjört lágmark til að standa undir óbreyttri þjónustu.

Í þessum breytingartillögum gerum við ráð fyrir að bæta inn í fjárfestingarverkefni til menntunar. Til að mynda, þó að það séu ekki háar fjárhæðir, til málefna innflytjenda á Íslandi þar sem örfáar krónur eða milljónir — sem eru mjög lágar upphæðir í stóra samhenginu, þegar við tölum um fjárlög — geta breytt svo miklu í að hjálpa fólki við að verða sjálfstæðir þátttakendur í íslensku samfélagi sem hlýtur að vera keppikefli okkar allra.

Það virðist vera nokkuð ljóst, og hefur orðið skýrara í umræðunum, að stjórnarmeirihlutinn og hæstv. ríkisstjórn hefur aðrar áherslur en minni hlutinn. Áherslurnar eru ekki síst á tekjuhliðinni. Mögulega er, eins og við höfum orðað það, verið að afsala sér eða lækka tekjur ríkisins á sama tíma og ekki er verið að byggja upp til framtíðar. Ekki er verið að endurstyrkja mikilvægustu stofnanir velferðarkerfisins sem hafa átt undir högg að sækja og hafa þurft að þola mikinn niðurskurð eftir hrun; niðurskurð sem allir skildu að var eðlilegur á þeim tíma.

Hugmyndir minni hlutans — þegar við leggjum fram þessar breytingartillögur, sem vissulega eru ekki nýtt frumvarp heldur einungis lagfæringar á því allra helsta — eru að troða inn í fjárlagafrumvarpið, eins og það kemur af kúnni, þ.e. frá hæstv. ríkisstjórn, hugsun um réttlæti og um mennskara samfélag. Í 2. umr. hefur því miður ekki borið á miklum skilningi á því að þessar tillögur séu ekki stundargaman eða sérstakt áhugamál minnihlutaflokkanna, heldur séu hugsaðar sem almannamál og komi samfélaginu öllu til góða. Hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafa því miður flestir gert sitt til að tala þessar tillögur niður. Sá sem hér stendur er bjartsýnismaður að eðlisfari og telur enn talsverðar líkur á því að menn sjái að sér þegar kemur að atkvæðagreiðslu. Og ég verð að segja að ég hlakka til hennar.

Það er eiginlega ekki hægt að súmmera upp þessa umræðu sem vissulega er orðin löng enda er fjárlagafrumvarpið og 2. umr. um fjárlög helsta mál þingvetrarins. Þetta er stærsta og flóknasta mál hverrar ríkisstjórnar og hér sjást allar pólitískar áherslur hennar. Ekki er hægt að súmmera þetta upp án þess að tala um hvernig umræðan hefur þróast og hvernig vinnubrögðin hafa verið. Því miður virðumst við vera föst í þeim árlega hring að fjárlagafrumvarpið er unnið og lagt fram af hæstv. ríkisstjórn. Þá fyrst taka aðrir flokkar og alþingismenn við að rýna frumvarpið, skoða málin, reyna að átta sig á stöðunni, koma með tillögur um betrumbætur og gagnrýna það sem er gagnrýnisvert o.s.frv. Síðan koma breytingartillögur, bæði frá hæstv. ríkisstjórn og hv. fjárlaganefnd, og það verður að segjast eins og er að í ár voru þessar breytingartillögur óvenjumargar, fleiri tugir ef ekki öðrum hvorum megin við hundraðið, óvenjuháar fjárhæðir, fleiri milljarðar, og það hefur flækt umræðuna.

Kannski er það þessi mikli fjöldi breytingartillagna sem gerði að verkum að frumvarpið tafðist mjög lengi á leið sinni inn í þingið. Það hefur líka haft slæm áhrif á umræðuna vegna þess að við höfum verið að ræða málin í kapphlaupi við jólin, ef svo má segja, og er mjög slæmt yfirbragð á því. Umræðan hefur síðan einkennst af þeim vinnubrögðum sem við í Bjartri framtíð höfum viljað gagnrýna hér á Alþingi, að það er meiri hlutinn sem ræður, telur ekki þörf á því að leita samráðs eða eiga samtal við aðra. Minni hlutinn er argur og vill þetta samtal, vill í það minnsta vita hvar hann stendur, en þegar umræðan fer alltaf á þann pólinn að það sé ekkert við menn að ræða o.s.frv. þá er ekki nema eðlilegt, því miður, að upp úr sjóði. Þessi vinnubrögð eru Alþingi til vansa. Auðvitað berum við öll einhverja ábyrgð á þeim en það verður að segjast eins og er að meiri hlutinn og yfirstjórn þingsins ber ábyrgð á því að vinnubrögðin verði betri, að við náum einhvern veginn að standa undir þeirri umbótakröfu sem er í samfélaginu.

Samfélagið vill umbætur, ekki bara í störfum okkar á þingi heldur almennt í samfélaginu. Ef það er eitthvað sem hrunið og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kenndi okkur þá er það að við viljum, þurfum og treystum okkur í umbætur. Því miður tel ég að þessi vinnubrögð, þessi skortur á umbótum hér á Alþingi, séu merki um að þingheimur sé eftirbátur annarra í samfélaginu og er ástæða til að gagnrýna það.

Við í Bjartri framtíð erum mjög stolt og sátt við innlegg okkar í umræðuna, við stöndum heils hugar á bak við breytingartillögur minni hlutans. Við höfum flutt einar sjö stórskemmtilegar, fróðlegar og stórmerkilegar þingræður í umræðunni og teljum þær vera mikilvægt innlegg. Eins og ég segi þá líður væntanlega að atkvæðagreiðslu. Sá sem hér stendur, bjartsýnismaðurinn eins og ég lýsti hér áður, hlakkar til þeirrar atkvæðagreiðslu og vonast til þess að niðurstaðan úr henni verði jákvæð og samfélaginu öllu til heilla.