145. löggjafarþing — 57. fundur
 17. desember 2015.
upphæð útvarpsgjalds og rekstrarstaða RÚV.

[11:31]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til þess að ræða við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og eins og þingmaðurinn sem var hér á undan mér hef ég áhyggjur af stöðu Ríkisútvarpsins. Nú kom það í ljós í gær eða var alla vega samþykkt í 2. umr. fjárlaga að ekki yrði horfið frá lækkun útvarpsgjalds sem lækkar vissulega tekjur útvarpsins og gerir rekstur þess erfiðan. Ég, eins og hæstv. ráðherra að ég held, er mikill áhugamaður um Ríkisútvarpið og af mörgum ástæðum, ekki síst sem mikilvæga menningarstofnun. Ég vil meina að íslenska ríkisútvarpið sé framvörður íslenskrar menningar og tungu og ekki síst íslenskrar tónlistar. Ég hef áhyggjur af rekstrarstöðunni sem mun koma upp þegar tekjur til stofnunarinnar lækka.

Nú vitum við að Ríkisútvarpið hefur átt í fjárhagslegum erfiðleikum. Það er búið að skera talsvert mikið niður. Nýir stjórnendur og ný stjórn hafa staðið saman og að því er virðist gengið vel að aðlaga reksturinn. Það virðist hafa gengið óvenjuvel að gera það farsællega að hafa starfsfólkið samtaka í vinnunni, þó svo maður finni auðvitað mun, án þess að það bitni of illa á dagskrá eða setji allt í loft. Nú hefur þverpólitísk stjórn Ríkisútvarpsins sammælst um að það verði mjög sársaukafullt að fara í breytingarnar ef svo fer sem horfir og gefið þær yfirlýsingar til okkar. Þess vegna langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann deili ekki áhyggjum af þessum síðustu breytingum og hvort hann sé ekki sammála mér að það skipti máli að Ríkisútvarpið sé sterkt í menningarlegu tilliti.



[11:34]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum sammála um það og ég held reyndar að ágætt samkomulag sé um að Ríkisútvarpið hafi mjög mikilvægu hlutverki að gegna, einkum og sér í lagi þegar kemur að menningarlífi þjóðarinnar. Ég hef áður nefnt það í þessum ræðustól að þær áhyggjur sem við höfðum á árum áður vegna áhrifa hins svokallaðra Kanasjónvarps á þróun tungumáls og menningu þjóðarinnar ættu að vera okkur til umhugsunar þar sem það voru hreinir smámunir á við það sem við er að fást nú á tímum. Það er sérstök ástæða til þess að halda vöku sinni hvað varðar tungumál okkar, máltöku barna og íslenskt menningarlíf, ekki út frá þeirri hugsun að við eigum að einangra okkur og loka af heldur einmitt að vera opin, hafa þetta sem fjölbreyttast, opin fyrir sem flestum straumum og stefnum, en gæta vel að því sem er okkar, okkar menningu og okkar sögu. Og Ríkisútvarpið er auðvitað stærsta menningarstofnun þjóðarinnar, þess vegna skiptir máli að það geti sinnt því hlutverki sem lög og reglur kveða á um. Ef við viljum draga verulega úr fjármagninu þá verðum við að gæta þess á sama tíma að þau verkefni sem við felum Ríkisútvarpinu séu í takti þar við.

Ég vil líka taka undir það sem hér hefur verið sagt að núverandi stjórn Ríkisútvarpsins og stjórnendur hafa náð markverðum árangri í hagræðingu í rekstri. Það kemur fram í Eyþórs-skýrslunni svokölluðu að á síðasta ári hefur verið dregið úr rekstrarkostnaði upp undir 5%. Leigt hefur verið út húsnæði sem ekki er notað, lóðinni hefur verið komið í verðmæti, byggingarréttinum, og allt er þetta til hins betra. En það breytir ekki því að þessi fjölmiðill þarf að sjálfsögðu eins og aðrir fjölmiðlar í landinu að standa frammi fyrir breyttu umhverfi. Ég er ekki í hópi þeirra sem segja að Ríkisútvarpið eigi að vera óbreytt um aldur og ævi, það hlýtur að þróast í takti við það sem er að gerast á fjölmiðlamarkaði.



[11:36]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég og hæstv. ráðherra deilum þeirri skoðun að Ríkisútvarpið eigi að þróast og breytast, það segir sig eiginlega sjálft og það mundi væntanlega hætta að geta staðið undir skilgreindu hlutverki sínu og líka sem menningarstofnun ef ekki væri þróun þar. Það er kannski dálítið augljóst fyrir mér sem kem úr tónlistarbransanum hvað uppeldishlutverk Ríkisútvarpsins er ómetanlegt og er hluti af því sem hefur gert það að verkum hvað íslensk tónlist er orðin stór bransi og stór alþjóðlegur bransi.

Nú hefur stjórnin og núverandi stjórnendur Ríkisútvarpsins sett fram áætlanir um breytingar og komið mörgum þeirra til leiða, en ég hef áhyggjur af því að sú lækkun tekna sem nú verður muni setja þær áætlanir í uppnám. Ég hef áhyggjur af því og vona og (Forseti hringir.) biðla til hæstv. ráðherra að standa með mér og öðrum í því að reyna að koma í veg fyrir að þær áætlanir renni allar út í sandinn.



[11:37]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Auðvitað þarf að setja allar stærðir hér í samhengi. Ríkisútvarpið hefur úr umtalsverðum fjármunum að spila. Þjónustutekjurnar eru einhvers staðar í kringum 3,5 milljarðar, auglýsingatekjur upp á 12,2. Það sem við erum að ræða hér er mismunurinn á milli 17.800 kr. og 16.400 kr., sem þýðir ef ég man rétt lækkun upp á 460 millj. kr. En þá þarf auðvitað að horfa til þess að á undanförnum árum, allt frá 2008 hefur orðið samdráttur í framlagi ríkisins ef við miðum við það ár.

Stofnunin hefur farið í gegnum heilmikla endurskipulagningu og það sem skiptir okkur máli er sú hugsun sem felst í því að við setjum lög þar sem við ætlum þessari stofnun ákveðið hlutverk. Þess vegna hef ég þá skoðun reyndar, og það er þessu máli skylt, að skynsamlegt sé að stefna að því að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði. Ég tel að það sé óheppilegt að auglýsingar verði alltaf stærri og stærri hluti af heildartekjunum. Þess vegna finnst mér við svolítið stefna í öfuga átt. Ég held að (Forseti hringir.) skynsamlegra sé að setja upp áætlun um það hvernig við komumst með Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði vegna þess ef ríkið setur lög um að það eigi að gera eitthvað (Forseti hringir.) þá tel ég að þá eigi að fylgja því fjármagn, en ekki ætla þessum aðila að vera í harðri samkeppni við aðra fjölmiðla um að ná í fjármagn til að uppfylla bókstaf laganna sem við höfum (Forseti hringir.) sjálf sett hér. Mér finnst það ganga gegn því markmiði að hafa fjölbreytta fjölmiðlaflóru.