145. löggjafarþing — 58. fundur
 18. desember 2015.
fjáraukalög 2015, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 304. mál. — Þskj. 608, nál. 630, brtt. 631.

[14:31]
Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar. Meiri hluti Alþingis hafnaði breytingartillögu minni hlutans sem lögð var fram við 2. umr. fjáraukalaga um að tryggja að aldraðir og öryrkjar fengju sambærilegar launahækkanir frá 1. maí sl. og samið var um við launþega á almenna markaðinum. Eftir að frumvarpinu var vísað að nýju til fjárlaganefndar hefur nefndin fengið til sín gesti frá Öryrkjabandalagi Íslands, Landssambandi eldri borgara, velferðarráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti og farið með þeim yfir þær forsendur frumvarpsins sem tengjast bótaflokkum þessara aðila. Minni hlutinn lýsir yfir vonbrigðum með forgangsröðun meiri hlutans sem telur það greinilega ekki forgangsmál að tryggja stöðu þeirra sem minnst mega sín.

Komið hefur í ljós að fjármála- og efnahagsráðuneytið tekur inn í útreikninga sína þá 3% hækkun launa sem féll til í upphafi árs 2015 en tengist ekki þeim kjarasamningum sem gerðir voru á almenna markaðinum í maí sl. Því vantar þá hækkun inn í bótaflokka aldraðra og öryrkja. Einnig hefur komið í ljós að við útreikningana sleppir fjármála- og efnahagsráðuneytið launaskriði sem hefur orðið og lækkar með þeim hætti kaupmátt eldri borgara og öryrkja.

Stjórnarliðar felldu við 2. umr. tillögu minni hluta fjárlaganefndar um að lífeyrir hækki frá 1. maí 2015, eins og áður sagði. Í tillögunni var miðað við samninga sem VR og Flóabandalagið gerðu við viðsemjendur sína. Lægstu laun hækka samkvæmt þeim samningum í fjórum skrefum til ársins 2018 í um 300 þús. kr. mánaðarlaun. 1. maí 2015 hækkuðu lægstu launin í um 255 þús. kr. á mánuði og frá 1. maí 2016 verða þau komin í um 270 þús. kr. á mánuði.

Landssamband eldri borgara miðar við aðra samninga í sínum útreikningi og segir að hækkunin frá 1. maí eigi að vera afturvirk 14,5% en ekki 10,9% eins og tillaga minni hlutans gengur út frá. Þrátt fyrir það eru þessi lágu laun mun hærri en þau sem öldruðum og öryrkjum er boðið samkvæmt ákvörðunum ríkisstjórnarinnar en samkvæmt henni verður lífeyrir með heimilisuppbót fyrir fólk sem býr eitt um 247 þús. kr. á árinu 2016. Bætur einstaklings sem býr með öðrum verða um 213 þús. kr. á mánuði.

Fulltrúar minni hlutans og áheyrnarfulltrúi í nefndinni leggja fram breytingartillögu en þar er lagt til 6,7 milljarða kr. framlag til að bæta öldruðum og öryrkjum þær kjaraskerðingar sem þeir verða annars fyrir. Hluti þeirrar upphæðar rennur til baka í ríkissjóð í formi skattgreiðslna.

Undir þetta nefndarálit skrifa ásamt þeirri sem hér stendur hv. þingmenn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Brynhildur Pétursdóttir og Ásta Guðrún Helgadóttir, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk álitinu.

Frú forseti. Ég vil bæta við nokkrum orðum. Hægri stjórnin sem nú er við völd á Íslandi vill ekki hækka lífeyri eldri borgara og öryrkja afturvirkt í takt við lægstu laun. Þau líta þannig á að bætur almannatrygginga eigi einungis að hækka árlega í fjárlögum og þá frá 1. janúar ár hvert en ekki á miðju ári þótt gerðir hafi verið kjarasamningar í millitíðinni. Þetta segir í nýlegu minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til fjárlaganefndar. Þau virðast líta þannig á að samkvæmt lögum eigi að skilja eftir einn hóp í samfélaginu og halda honum á verri kjörum en þeir njóta sem eru á lægstu umsömdu laununum.

Með minnisblöðum til fjárlaganefndar er reynt að gera sem mest úr hækkun á elli- og örorkulífeyri frá næstu áramótum. En það er alveg sama hvernig þau fara með prósentutölurnar, þau tala um uppsafnaðar prósentutölur og uppsafnaða milljarða á milli ára og reyna síðan að rugla öllu saman með fjölgun eldri borgara, þetta er gert til þess að rugla fólk í ríminu. Niðurstaðan verður alltaf sú sama: Kjör aldraðra og öryrkja sem hafa ekki laun annars staðar frá verða verri en annarra, bæði á árinu 2015 og árinu 2016.

Lög um almannatryggingar voru sett til að verja kjör eldri borgara og öryrkja. Þau voru sett til þess að fólk héldi reisn sinni og gæti lifað mannsæmandi lífi. Lögin voru ekki sett til þess að tryggja að aldraðir og þeir sem eru óvinnufærir vegna örorku væru allra fátækasta fólkið í samfélaginu.

Fordæmi er frá kjarasamningum árið 2011 en þá voru lægstu laun einnig hækkuð umfram önnur. Eldri borgarar og öryrkjar nutu þeirra hækkana þá og fengu þær um mitt ár eins og aðrir. Það var réttlátt og það var í anda laga um almannatryggingar. Sömu leið ættum við auðvitað að fara nú en hægri stjórnin sýnir hvorki samkennd né mannúð og skilur ekki réttlætissjónarmiðin að því er virðist. Hún virðist aðeins skilja ískaldan lagatextann og ber hann fyrir sig þrátt fyrir að fordæmi séu til um annað.

Frú forseti. Þetta er hægri stefna sem ég hafði gert mér vonir um að Framsóknarflokkurinn gæti ekki kvittað undir. Framsóknarflokkurinn hafði á sínum stóra fundi samþykkt að sá flokkur mundi standa vörð um kjör aldraðra og öryrkja en þeir beygja sig undir vilja samstarfsflokksins í málinu, hafa ekki kjark til að standa uppi í hárinu á þeim og vitna sjálfir í lagatextann og stefna formanns fjárlaganefndar virðist vera hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn.

Það er nefnilega þannig að ef menn taka tölurnar sem birtast í minnisblöðum frá velferðarráðuneytinu um stöðu lífeyrisþega á árunum 2015 og 2016 og bera saman við umsamda taxta á árinu 2015 og 2016 þá er mikill munur þarna á. Árslaun eldri borgara og ellilífeyrisþega eða lífeyrisþega sem búa einir og fá heimilisuppbót, og eru þess vegna í bestu stöðu þeirra sem ekki fá laun annars staðar frá, eru á árinu 2015 2.700.000 kr. En árslaun þeirra sem eru á lægstu töxtunum hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og Flóabandalaginu eru á árinu 2015 2.960.000. Þarna munar 260 þús. kr. yfir árið.

Hvernig í ósköpunum fær stjórnarmeirihlutinn það út að þetta sé sambærilegt? Hvað gerist svo um áramótin? Ef við skoðum árið 2016 samkvæmt hækkunum sem eru í minnisblaði frá velferðarráðuneytinu fyrir einstakling sem býr einn og er með heimilisuppbót þá eru árslaunin hans á árinu 2016 eftir hækkanir 1. janúar, sem duga þá út allt árið, 2.964.000 kr. En þeir sem eru á lægstu töxtunum hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og Flóabandalaginu verða með 3.180.000 kr. og það er líka munur þarna á sem er ekki öldruðum og öryrkjum í hag. Munurinn á árinu 2016 verður þá 216 þús. kr.

Þess vegna er ég svo hissa á umræðunni hér. Meira að segja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra stendur hér í pontu og segir að aldraðir og öryrkjar verði jafn settir lægstu launum frá 1. janúar 2016. Þetta sagði hæstv. ráðherra. Hún tók ekki fram að 1. maí 2016 hækka lægstu laun um 5,9%. Verið er að segja hálfan sannleikann til þess að blekkja okkur. Það er óþolandi. Það er ekki aðeins verið að reyna að blekkja okkur þingmenn heldur er einnig verið að blekkja almenning í málinu.

Ég leyfi mér að segja hér sem gamall stærðfræðikennari að ef fólk rifjar upp stærðfræðina sem það lærði í 12 ára bekk þá sér það að verið er að halda öldruðum og öryrkjum undir lágmarkslaunum. Það er ekki þannig að það muni einhverjum 5.000 kalli. Það munar svo hundruðum þúsunda skiptir ef horft er á árslaun.

Þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra talar um bætur almannatrygginga úr þessum ræðustól þá segir hann, frú forseti, að það sé nauðsynlegt að halda þessum hópi undir lágmarkslaunum vegna þess að það þurfi að vera hvati fyrir þau til þess að fara út að vinna. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er að tala um aldraða og öryrkja. Það er sannarlega misjöfn staða innan þess hóps, en það sem við erum að ræða hér og það sem umræðan hefur verið um í fjáraukalögum og fjárlögum er hópurinn sem hefur engin laun annars staðar frá. Það er sá hópur sem við erum að tala um.

Enn er verið að reyna að rugla umræðuna með því að vera að blanda öðrum hópum inn í málin. Og hvernig er það, frú forseti, hvers konar hvati er það fyrir gamlan mann sem kominn er af vinnumarkaði? Hvaða hvati felst í því að halda kjörum hans undir lágmarkslaunum í landinu? Hvaða hvati er það? Hvað hvati felst í því fyrir öryrkja sem getur ekki unnið að halda honum á lágmarkslaunum?

Ég skil þetta ekki en þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra var að tala um að það þyrfti að vera einhver hvati dró hann fram hóp öryrkja og sagði að í þeim hópi væru ungir menn sem hefðu flosnað upp úr framhaldsskólum og gætu ekki fótað sig. Það þyrfti að vera einhver hvati fyrir þá að fara út að vinna og hrista af sér örorkuna. Ég veit eiginlega ekki hvað hann átti við.

Það má vera að einhver hópur sé þannig staddur að það sé árangursríkt að svelta hann út á vinnumarkaðinn, þó að ég þekki ekki slíkt fólk. En hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra virðist gera það og telur að árangursríkt sé að fara þá leið að halda fólki fyrir neðan hungurmörk í framfærslu.

Nær væri að opna framhaldsskólana fyrir þennan hóp. En gerir hægri stjórnin það? Nei. Hún setur fjöldatakmarkanir í framhaldsskóla á þá sem hafa náð 25 ára aldri. Það rekst hvað á annað horn.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði í andsvari fyrr í dag að það væri sjálfsagt mál að halda öryrkjum og öldruðum undir lágmarkslaunum því að það væri miklu ódýrara að lifa ef maður væri í þeim hópi. Aldraðir ættu til dæmis ekki börn og það væri ákveðinn kostnaður þar. (Gripið fram í: En öryrkjar?) Það má vera að þeir eigi börn en einhverra hluta vegna (Gripið fram í.) telur formaður fjárlaganefndar að það sé ódýrara að lifa fyrir þá sem eru í þessum hópi.

Ég hvet alla þingmenn sem á þetta hlýða og aðra þá sem eru að horfa á Alþingisrásina að hlusta á þetta svar formanns fjárlaganefndar og hlusta þá inn í þessa pólitík framsóknarmanna sem hún hlýtur að vera að kynna með orðum sínum. Hún er talsmaður þeirra í fjárlaganefnd og þeir styðja hana og standa að baki henni þar og geta ekki afneitað henni. Það hryggir mig að Framsóknarflokkurinn skuli bera þá stefnu uppi sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gerir þegar kemur að málefnum aldraðra og öryrkja í samfélaginu.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en við erum með breytingartillögu, eins og ég sagði áðan, í minni hlutanum þar sem við gerum ráð fyrir að aldraðir og öryrkjar fái hækkun upp á 10,9% frá 1. maí og út árið. Alveg eins og í fjárlögunum erum við með tillögu um að aldraðir og öryrkjar hækki frá 1. maí 2016. Þetta er réttlætismál og ég veit að úti í samfélaginu er mikill stuðningur við þetta mál. Það er nánast hver einasti Íslendingur sem sér óréttlætið í því að horft sé á ískaldan lagatexta en ekki á anda laganna og það sem gerðist í kjarasamningum í ár þegar lægstu laun voru hækkuð.

Mér finnst ómögulegt að þurfa að hætta þessari baráttu núna og láta hægri stefnuna ráða í þessu máli, en sjálfsagt verð ég að sætta mig við hana. En baráttunni er ekki lokið því að það kemur dagur eftir þennan dag og við í minni hlutanum munum halda áfram að berjast fyrir bættum kjörum og reyna að berja á bak aftur þá öfgafullu hægri stefnu sem birtist í tillögu hæstv. ríkisstjórnar, að ætla að halda þessum hópi fátækustum á Íslandi.



[14:48]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir ræðu hennar og þær tölulegu upplýsingar um stöðu mála sem hún fór yfir í ræðunni. Ég held nefnilega að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að við hömrum á þessum tölulegu upplýsingum.

Þó svo að það líti ekki alveg nógu vel út í þessari baráttu akkúrat núna þá skipta svona ræður einmitt svo miklu máli vegna þess að það er fullt af fólki sem er að hlusta á umræðuna, það er fullt af fólki sem tekur tölulegu upplýsingarnar til sín. Þetta skiptir máli upp á samfélagsumræðuna. Við viljum auðvitað að almenningur sjái hversu rosalega ósanngjarna stefnu er verið að keyra.

Ég verð að viðurkenna að mér var ansi brugðið við andsvar hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur við hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur í andsvörum fyrir hlé þar sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði það fullum fetum að hún teldi óeðlilegt að bætur og lægstu laun væru sama talan og hélt svo áfram og talaði um bótasvik í kerfinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að nú hafa fleiri þingmenn meiri hlutans og hæstv. fjármálaráðherra talað á þessum nótum: Getur verið að hv. þingmenn séu að gára vatnið og gera lífeyrisþega tortryggilega og þar með að reyna að réttlæta það að ekki sé farið í kjarabætur til þessa hóps og reyna þar með að fá almenning til þess að kaupa það að þetta sé í lagi?



[14:50]
Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að þetta andsvar hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur var alveg með ólíkindum og þar talaði hún einmitt um bótasvik og þau væru svo stórkostleg hjá öldruðum og öryrkjum að það væri hægt að byggja heilan Landspítala á ári af því að þeir væru að svíkja svo mikið undan.

Ég kannast ekki við að hafa heyrt hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur tala svona um skattsvik og tína til hvað væri hægt að byggja marga Landspítala fyrir skattsvik. En henni finnst það bara greinilega réttlætanlegt, eða hún sagði það ekki réttlætanlegt, henni fannst það bara, það var hennar skoðun að þessi hópur ætti að vera á lægri kjörum og kannski væri hægt að bæta kjör hans ef hann mundi ekki svíkja svona mikið undan og væri ekki að svindla svona mikið.

Satt að segja á maður ekki orð yfir þessi viðhorf, það er bara þannig, sérstaklega þegar við erum að tala um hópinn sem hefur engar tekjur annars staðar frá. Það er umræðan hér, hún snýst um þá sem hafa engar tekjur annars staðar frá. Hvernig í ósköpunum eiga þeir að fara að því að svindla og svíkja? Hvernig eiga þeir að fara að því? Það væri ágætt að heyra það.

Eins og ég sagði áðan þá er þetta fjölbreyttur hópur, lífeyrisþegar eru á misjöfnum kjörum en það sem við höfum verið að ræða hér er hópurinn sem hefur engar tekjur annars staðar frá. Það er mikilvægt þegar við metum þessa umræðu um hvaða hóp við erum að tala.



[14:53]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og vil taka undir að það er alltaf mjög mikilvægt þegar við ræðum um kjör lífeyrisþega eða bara mál lífeyrisþega yfir höfuð að muna eftir því að þetta er auðvitað fyrst og fremst fólk og þetta er fólk sem er ólíkt eins og gildir um alla aðra hópa fólks. Við verðum að muna eftir því að við erum að tala um breytingar sem taka fyrst og fremst til þeirra sem eru á bótum frá almannatryggingakerfinu eingöngu.

Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður sagði um að það gengi auðvitað ekkert að ætla að svelta fólk út á vinnumarkaðinn. Það á auðvitað sérstaklega við um ellilífeyrisþega en það eru líka hópar öryrkja sem ekki geta stundað atvinnu og því miður er kerfið þannig að þeim sem þó geta stundað einhverja atvinnu er gert erfitt fyrir með tekjutengingum í kerfinu.

Það er annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í vegna þess að okkur hættir stundum til að tala bara um ein lög í einu eða eina breytingu í einu eins og það sé ekkert annað samfélag hérna sem einhver dýnamík er í. Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann varðar ákvæði í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég veit vel að það er ekki allt fatlað fólk lífeyrisþegar en þetta er stór hópur og það segir í 28. gr. þessa samnings:

„Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til handa, m.a. viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar.“

Er hv. þingmaður mér sammála í því að nú þegar við vinnum að innleiðingu á þessum samningi þá sé þetta ákvæði kannski aðeins að gleymast?



[14:55]
Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé áreiðanlegt að það sé að gleymast. En það sem mér finnst vera mikið áhyggjuefni í allri þessari umræðu er að þegar stjórnarliðið segir að þetta sé voða gott sem þeir eru að gera og það sé samkvæmt lögum og allt þetta, þá er erfitt að hrekja þessa staðreynd með lögin. Í 69. gr. almannatryggingalaga segir að bætur almannatrygginga eigi að hækka annaðhvort eftir launaþróun eða eftir vísitölunni. Síðan reikna þau launaþróunina þannig út og segja að það hafi alltaf verið gert þannig að launavísitalan sé tekin en launaskriðið dregið frá til þess að lækka þá tölu. Það þýðir auðvitað að þegar samningar eru gerðir sem eru sérstaklega um lágmarkslaun njóta aldraðir og öryrkjar ekki launaskriðs á vinnumarkaði, það bætir ekki kjör þeirra, og þeir njóta heldur ekki þessara sérstöku hækkana sem fara til láglaunafólks.

Það er réttlætið. Réttlætingin er sótt í lagabókstafinn sem settur var á sínum tíma af fólki sem vildi standa vörð um kjör aldraðra og öryrkja. Andi þeirra laga er að það á að verja kjör hópsins. Andi þeirra laga gengur ekki út á að tryggja það, þegar árar eins og nú árar, að þessi hópur sé verst settur í samfélaginu. Það gengur hreinlega gegn anda laganna og það gengur gegn samþykktum Framsóknarflokksins. En það er Framsóknarflokkurinn sem ber uppi þessa (Forseti hringir.) tillögu og réttlætir hana með því að það sé svo nauðsynlegt að halda þessum hópi á verri kjörum af því að hann noti hvert tækifæri til að svíkja og næla sér í meiri pening út úr bótakerfinu.



[14:58]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem deilurnar hér hafa mest snúist um hefur auðvitað verið málið aldraðir og öryrkjar og tillögur sem við höfum lagt fram í stjórnarandstöðunni um afturvirkar bætur til þeirra.

Nú hefur það komið fram margsinnis hjá hv. þingmönnum stjórnarliðsins, sem margir hafa grátið úr sér augun hér af samúð með þessum hópi í ræðustól, að því miður sé ekki til fé í ríkissjóði. Hver á nú að trúa því þegar sjálfir tala stjórnarliðarnir um að hér sé mesta góðæri sem sögur fara af?

Ég hef eina spurningu til hv. þingmanns. Sú tillaga sem hv. þingmaður talaði fyrir varðandi afturvirkar bætur til aldraðra og öryrkja kostar 6,5 milljarða. Þeir 6,5 milljarðar eru ekki til segja margir stjórnarliðar um leið og þeir segjast gjarnan mundu vilja styðja slíka tillögu. En er það ekki svo, hv. þingmaður, að stjórnarliðið hefur hér fyrr í dag verið að samþykkja tillögu um breytingar á tekjusköttum sem leiða til þess að þeir sem eru hvað tekjuhæstir, 700 þús. kr. mennirnir og þar yfir, fá langmest og er ekki rétt skilið hjá mér að sú breyting sem var samþykkt hér fyrr í dag kosti líka á ári um það bil 6,5 milljarða? Með öðrum orðum að sú breyting sem átti að ná til tveggja ára sé einhvers staðar nálægt 11–12 milljörðum eða nánast nákvæmlega sama upphæðin og hefði þurft til aldraðra og öryrkja á þessu ári og því næsta. Mig langar að fá álit hv. þingmanns á því.



[15:00]
Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg hárrétt og þetta er góð samlíking og gott mat að horfa á þetta tvennt. Það sem hægri stjórnin setur í forgang er að lækka skatta. Skattalækkanirnar á árinu 2016 og 2017 kosta einmitt um 11 milljarða eins og hv. þingmaður talaði um. Það að greiða öldruðum og öryrkjum þannig að kjör þeirra séu sömu og þeirra sem eru með lægstu launin kostar líka á tveimur árum, árunum 2015 og 2016, um 11 milljarða.

Hægri stjórnin leggur áherslu á að þeir sem eru með 700 þús. kr. fái á árinu 2017 12 þús. kr. í vasann, 6 þús. kr. á árinu 2015. Þeir sem eru með lægra fá minna. Kári Stefánsson er með meira en 700 þús. kall, hann er með meira en 850 þús. kr. Það er verið að rétta honum 3 þús. kall á mánuði eins og hann muni um það. Hann hefur beðið um að fá að borga hærri skatta.

En þetta er stefnan. Að taka út jöfnunarhlutverk skattkerfisins, greiða þeim meira sem munar ekki um það. Ef það er hægt að endurreisa millistéttina fyrir 12 þús. kall á mánuði þá segi ég bara að hún hafi ekki verið í miklum vanda fyrir. Þannig að ekki er það til þess. Við eigum ekki að mínu áliti að lækka tekjuskatta á fólk sem getur vel borgað þá á meðan velferðarkerfið er í vanda, við erum með Landspítala í vanda, við teljum okkur ekki hafa efni á að reka ríkisútvarp og við ætlum að halda öldruðum og öryrkjum fátækustum allra á landinu. Ef við höfum ekki efni á þessu þá höfum við ekki efni á því að lækka skatta á fólk sem er í góðri stöðu fyrir.



[15:02]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir þetta afhjúpa gersamlega málflutning hæstv. ríkisstjórnar.

Það hefur komið fram aftur og aftur hér í þessum ræðustól að það virðist vera skýr og góður vilji hjá mjög mörgum þingmönnum stjórnarliðsins til þess að koma til móts við hógværar óskir aldraðra og öryrkja um að þeir fái eins og allir aðrir hópar í samfélaginu afturvirkar bætur. Þessum þingmönnum hefur verið talin trú um það af hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra að það þurfi að standa í ístaðinu og ekki séu til peningar. Hvað kemur svo í ljós? Á sama degi og það er bersýnilega enginn vilji til þess af hv. þingmönnum stjórnarliðsins að koma til stuðnings við tillögu stjórnarandstöðunnar um að veita 6,5 milljarða til bóta til aldraðra og öryrkja þá er verið að samþykkja breytingar á skattalögum, á tekjuskatti, þar sem verið er að færa þeim sem langmestar tekjur hafa langmest. Það kostar nákvæmlega það sama, þ.e. það leggur sig á ári á um það bil 6–7 milljarða sem verið er að færa þeim tekjuhærri en á sama tíma eru ekki til peningar til þess að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Þetta eru nánast sömu upphæðir.

Það er ekki hægt að draga aðra ályktun af þessu en þá en að verið sé að halda öldruðum og öryrkjum niðri til þess að geta með hinni hendinni rétt þeim sem ekki þurfa á neinu að halda jafn stórar fúlgur og aldraða og öryrkja vantar. Er það ekki um þetta sem skurðlínan hér á Alþingi hverfist? Þetta er meginágreiningurinn í stjórnmálunum í dag. Á að halda áfram að láta þá sem hafa það best og hafa mest úr að spila fá meiri peninga frá ríkinu í formi skattalækkana eða á að nota það fé til þess að bæta kjör aldraðra og öryrkja? Um þetta hafa deilurnar á Alþingi snúist síðustu þrjár vikur.



[15:04]
Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hv. þingmaður orða þetta ágætlega og draga einmitt fram þessar skörpu línur.

Annað sem mér hefur fundist merkilegt í þessari umræðu er staða Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn samþykkti á sínum stóra fundi að hann ætlaði að standa vörð um kjör aldraðra og öryrkja. Það var kosningaloforð að hugsa sérstaklega um Landspítalann. Þeir voru ekki með á sinni kosningaloforðaskrá að lækka tekjuskattinn eða taka út þrepaskattinn. Það var ekki forgangsmál þeirra. Þannig að í þessu máli hafa framsóknarmenn orðið algjörlega undir og ekki nóg með það heldur reka harðari stefnu eins og kemur fram í máli formanns fjárlaganefndar og tala með skarpari hætti fyrir því að það eigi að halda þessum hópi undir lágmarkslaunum.

Ég er mjög hissa á því og spurði því formann fjárlaganefndar í dag hvar félagslega taugin væri í Framsókn, hvort hún væri bara slitin eða á henni hefði tognað þannig að ekki heyrðist frá henni jákvæður tónn. Formaður fjárlaganefndar svaraði því svo sannarlega með skýrum og skilmerkilegum hætti að það væri skoðun hennar, talsmanns Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd, að bætur öryrkja og aldraðra ættu að vera lægri en lægstu laun. Það væri kannski hægt að laga þá stöðu ef þeir mundu hætta bótasvikunum. Svona er talað af hálfu framsóknarmanna til hópsins.



[15:06]
Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Svo ber við í fjárlagafrumvarpi þessa árs að settar verða 860 milljónir í uppbyggingu ferðamannastaða, þ.e. til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Ég hef undanfarin ár gert athugasemdir við þennan lið sem stækkar umtalsvert frá ári til árs. Ef ég man rétt var hann árið 2013 eitthvað um 300 milljónir, árið 2014 eitthvað í kringum 500 og nú er hann 860 milljónir.

Það er auðvitað mjög holur hljómur í ræðum þeirra stjórnarliða og ábyrgu fjárlaganefndarmanna sem halda því fram hér og setja upp alveg sérstaklega ábyrgðarfullan svip að engum stofnunum verði liðið að fara fram úr fjárheimildum og að hinar og þessar mikilvægu stofnanir samfélagsins verði að gera svo vel að láta það fjármagn sem þeim er skammtað duga fyrir rekstri sínum og verkefnum, en á sama tíma er ríkið með rassvasabókhald yfir uppbyggingu ferðamannastaða og slumpar á hverju einasta ári fjármagni í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða eftir á. Þetta er verkefni sem virðist hafa orðið núverandi stjórnarmeirihluta fullkomlega ofviða.

Það er þannig með svona verkefni að tilhneiging er oft hjá stjórnmálamönnum og stofnunum að fara lengri leiðir að markmiðum sínum en nauðsynlegt er. Þess vegna hafa ráðamenn núverandi hæstv. ríkisstjórnar lagt af stað í mjög mikla leiðangra í því augnamiði að reyna að ná utan um þetta tiltekna verkefni, m.a. með lögum um náttúrupassa sem tók ærinn tíma að undirbúa, svo langan tíma að það hefur verið harðlega gagnrýnt í þessum sal, og loksins þegar mikill lagabálkur frá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra leit dagsins ljós um þessi efni þá var enginn pólitískur stuðningur fyrir lagasetningunni, hvorki hjá meiri hluta né minni hluta. Sú lagasetning og öll sú vinna með hugmyndum um náttúruverði og ég veit ekki hvað og hvað rann út í sandinn. Það var sorglegt að fylgjast með því, ekki síst vegna þess hversu mikil sóun er í því fólgin.

Síðan gerðist annað á þeim tíma sem tók að vinna það mál. Það varð gerbylting, svo mikil stigveldisaukning á komu ferðamanna til Íslands að menn sáu strax í hendi sér að það mundi verða unnt að innheimta með hefðbundnum skattaleiðum og gjaldaleiðum nægilegt fjármagn til að standa straum af uppbyggingu ferðamannastaða hringinn í kringum landið. Þessi mikli straumur hefur í för með sér töluverðar hættur þó að auðvitað sé fagnaðarefni að ný meiri háttar atvinnugrein hafi orðið til, en það þarf að bregðast við þeim varúðarmerkjum sem eru á lofti í þeim efnum. Þess vegna eru mikil vonbrigði að sjá að enn á ný hefur ríkisstjórninni reynst um megn að leysa þetta vandamál.

Hinn stóri leiðangurinn sem lagt var af stað í vegna þessa máls var frumvarp umhverfisráðherra um uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu, sem er meiri háttar 12 ára áætlanagerð, ekki ósvipuð samgönguáætlun með skemmri framkvæmdatíma og lengri, mikilli verkefnisstjórn og mjög óskilgreindu samspili við þær stofnanir sem fyrir eru. Þessari áætlanagerð var ætlað að taka við fjármununum sem áttu að innheimtast út af náttúrupassanum og deila þeim út til verkefna víðs vegar um landið. Frumvarpið um uppbyggingu innviða er enn í umhverfis- og samgöngunefnd og sér ekki fyrir endann á þeirri vinnu. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að hlutir séu unnir með þessum hætti, þ.e. reynt sé að setjast yfir málin og búa til langtímaáætlanir, en það sem hins vegar blasir við núna er þörfin á að bregðast skjótt við.

Ég talaði um að það væri stundum tilhneiging hjá stofnunum og stjórnmálamönnum að fara lengri leiðirnar að markmiðunum en mér sýndist unnt að fara styttri leið. Þess vegna skrifaði ég lítið þingmál sem felur í sér breytingu á sveitarstjórnarlögum og lagði fram á þingi í haust. Ég hef reyndar ekki fengið að mæla fyrir því máli enn þá, því miður. Það hefði að mínu viti leyst þessi tvö stóru mál af hólmi. Í því felst að sveitarstjórnum, sem er langlíklegast að séu í færum til að meta nauðsyn þess að standa að tiltekinni uppbyggingu ferðamannastaða, er falið það vald eða veitt sú heimild að ákveða að innheimta sérstakt gjald vegna uppbyggingar tiltekinna ferðamannastaða og standa straum af uppbyggingunni og innheimta gjaldið á meðan á uppbyggingunni stendur. Þetta fæli í sér að þeir sem fénýta ferðamannastaði mundu standa straum af gjaldinu. Þeir sem væru að selja ferðir á tiltekna ferðamannastaði mundu greiða sérstakt gjald, þ.e. þriðji aðili, ekki eigandi lands, ekki ferðamenn eða þjóðin sjálf heldur bara þeir sem selja á staðina. Þeir mundu standa straum af þessu gjaldi vegna þess að þeir eru hagsmunaaðilar. Ég held að þetta sé mjög einföld og stutt leið til að mæta vanda sem þarf að leysa.

Ég vildi koma hingað upp og gera grein fyrir því máli sem ég hef lagt fram. Ég sé þetta fyrir mér sem einhvers konar tímabundna ráðstöfun til að mæta aðsteðjandi vanda og koma í veg fyrir tjón því að við verðum að gæta þess að umgangast þá viðkvæmu staði sem mikil ásókn er í með sjálfbærum hætti þannig að ekki sé verið að skemma þá, þeir séu jafnframt öruggir og það séu þeir sem græða peninga á stöðunum sem standi straum af uppbyggingu þeirra. Auðvitað yrði það þannig á endanum að ferðamaðurinn sjálfur mundi greiða þetta gjald. Þetta er ein útfærsla af því sem kallað hefur verið nýsjálenska leiðin í innheimtu ferðamannagjalda, þ.e. að þeir sem fénýta séu með einhvers konar samning og standi straum af tilteknum verkefnum vegna þess að þeir njóta góðs af því sem allir eiga.

Sumir hafa sagt: Hvað um þá sem ferðast á bílaleigubílum, eiga þeir ekki að borga? Því ber að svara þannig að þeir greiða nú þegar í gegnum virðisaukaskattskerfið sinn skerf til samfélagsins. Það er því algjör óþarfi að vera að velta því mikið fyrir sér. Stóri fjöldinn sækir í áætlunarferðirnar og ferðafyrirtækin og því eðlilegt að þau standi straum af þessu. Það er hins vegar ekki eðlilegt að mínu mati að slík gjaldtaka geri neitt annað en að sjá til þess að byggt sé upp á stöðunum, þeim haldið við og að innifalin sé einhver verkáætlun og starfskraftar sem fylgi fjármagninu. Því miður er það þannig í þeirri uppbyggingu sem á sér stað núna, þar sem fjárlaganefnd og meiri hlutinn í þinginu dæla handahófskennt eftir á hundruðum milljóna til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, að engin áætlanagerð er um viðhald og eftirfylgni. Það er bara verið að smíða palla, sums staðar mjög ljóta palla og girðingar þar sem engin hönnum fer fram, en það eru engar áætlanir um hvernig stöðunum skuli haldið við og hvernig eigi að tryggja áframhaldandi fjármagn og þar fram eftir götunum.

Ég hef komið upp undir þessum lið nokkrum sinnum. Fyrir mér er þetta orðið þannig að það að koma og tala um þennan lið í fjáraukalögunum er að verða jólahefð. Eftir að ég hef flutt þessa ræðu mega jólin koma fyrir mér. [Hlátur í þingsal.]

Ég vil líka geta þess að ég hef skrifað annað þingmál sem tengist þessum sama málaflokki. Því er ætlað að tryggja að við umgöngumst ferðamannastaði af ábyrgð. Það mál hef ég ekki enn þá fengið að flytja í þinginu, sem er til vitnisburðar um það fyrirkomulag sem gildir því miður um þingmannamál þar sem menn komast einfaldlega ekkert að með sín mál. Í því máli felst að búin verði til einhvers konar hæfisskilyrði fyrir leiðsögumenn, sérstaklega þá sem leiðsegja fólki um hálendi Íslands, um þjóðgarða, um þjóðlendur og friðlönd, þ.e. þau svið landsins okkar sem eru dýrmætust og skipta okkur mestu máli. Það er nefnilega ekki hægt á grundvelli EES-samningsins að mismuna leiðsögumönnum eða öðru fólki sem flyst innan svæðisins eftir þjóðerni. Það er vel. Ég er mjög fylgjandi því. Manni finnst hins vegar að það þurfi með einhverjum hætti að tryggja að lágmarksþekkingu á sérstöðu náttúru Íslands svo að það verði tryggt að erlendir leiðsögumenn hér, sem koma með hópa og fara með þá annaðhvort gangandi, á bílum eða rútum um þjóðgarða, þjóðlendur og friðlönd á Íslandi, hafi lokið einhverju tilteknu námi um til dæmis hvaða áhrif það að skilja lífrænan úrgang eftir í íslenskri náttúru hefur vegna þess að afleiðingarnar af því eru allt aðrar en í skógum Suður- eða jafnvel Norður-Evrópu. Hér á landi tekur miklu lengri tíma fyrir slíkt að brotna niður o.s.frv. Það að ganga á tilteknum stöðum á sérstökum náttúrumyndunum á Íslandi getur haft miklu alvarlegri og verri langvarandi áhrif en að gera það utan stíga annars staðar, t.d. í Evrópu. Utanvegaakstur hefur sömuleiðis miklu alvarlegri afleiðingar fyrir náttúru Íslands en einhvers staðar annars staðar vegna þess að náttúran hér er mjög lengi að jafna sig. Mosinn sem hér grær er mjög lengi að vaxa. Skemmdir á honum eru langvarandi.

Ég harma að fá ekki tækifæri til þess að mæla fyrir þessu máli og enn fremur að kerfið, þingið og ríkisstjórnin, ráði ekki við svo aðkallandi verkefni, ýmist vegna þess að pólitíkin flækist fyrir eða vegna þess að menn reyna eftir fremsta megni að leysa málin með einhverjum lagabálkum þegar hægt er að fara miklu skemmri og einfaldari veg til að takast á við mjög aðkallandi verkefni.

Frú forseti. Nú mega jólin koma fyrir mér.



[15:20]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Ég var einmitt að hugsa um það sem hann ræddi síðast, að mega ekki mæla fyrir góðum málum, þau eru kannski mörg hver ekki endilega einhver svona „statement“ heldur er það vegna þess að manni finnst framkvæmdin stundum bagaleg á mörgum hlutum. Nú veit ég ekki hvenær hv. þingmaður lagði sín mál fram, en á haustþingi hefði einmitt verið hægt að ræða ótrúlega mörg mál, þingmannamál, sem fengu ekki að komast á dagskrá vegna þess að forgangsmálið var jú brennivín í búðir sem stíflaði allt vegna þess hvernig kerfið okkar er.

Þingmaðurinn tileinkaði ræðu sína núna eins og hann gerir endranær, segir hann, ferðamannastöðum og því klúðri sem hefur viðgengist af hálfu ríkisstjórnarinnar, eins og við þekkjum frá því hún tók við, varðandi þennan málaflokk. Við ræddum það einmitt mjög vel þegar fjáraukalögin voru tekin fyrir í fyrra sinn. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni að það er mjög bagalegt að ekki skuli vera til nein áætlunargerð. Nú er búið að setja á stofn eða verið er að ganga frá samþykktum um að það verði enn ein stofnunin sett sem á að gera áætlun, þ.e. stjórnstöð ferðamála. Það er einhvern veginn alltaf verið að bæta í einhverja yfirbyggingu hjá ríkisstjórn sem segist vera að draga úr útgjöldum í stjórnsýslunni, en hún er að bæta í þar. Ég tek undir með hv. þingmanni, mér finnst það mjög bagalegt sérstaklega hvað varðar ríkissvæðin sjálf sem þurfa uppbyggingu. Ferðamálaráðherra segir að staðirnir hafi ekki verið tilbúnir með svæðin sín (Forseti hringir.) til að hefja uppbyggingu á og þess vegna hafi orðið eftir peningar inni í sjóðnum, ég álít að það sé ekki rétt. Mér finnst það mjög sérstakt (Forseti hringir.) ef ríkisstaðir eru líka þar eru undir.



[15:22]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér hefur reyndar sýnst hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og ráðherra ferðamála ferðast svo mikið að henni veiti ekki af sérstakri stjórnstöð ferðamála. Auðvitað hefði maður viljað fá þá stefnumótun sem í því fólst hingað inn í þingið og fá tækifæri til þess að fara yfir það í formi þingmáls og umræðu í þingsal. Mér sýnist einfaldlega að þetta kjörtímabil allt muni líða áður en núverandi meiri hluti nái utan um uppbyggingu þessara ferðamannastaða. Þess vegna verði aftur á næsta ári sama staða uppi á fjáraukalögum næsta árs að menn slumpi eftir á þeim fjármunum sem þeim tókst að koma út í uppbyggingu á ferðamannastöðunum það árið.

Það á ekki að koma neinum Íslendingi á óvart að helsti framkvæmdatíminn á Íslandi þegar kemur að uppbyggingu, ég tala nú ekki um þegar komið er aðeins upp fyrir 100 eða 200 metra, er yfir sumarið. Það á ekki að koma neinum í opna skjöldu að þurfa að gera áætlanir sem miða við það að geta byrjað slíkar framkvæmdir að vori og nýtt sumarmánuðina og fram á haustmánuðina til að klára verkefnið. Það er eins og menn séu alltaf svo rækilega hissa á því að ná ekki að komast yfir verkefnin sem við blasa og alltaf jafn rækilega hissa á því að nauðsynlegt sé að búa til einhvers konar áætlanir og setja niður fyrir sig hvernig á að ráða við verkefnið. Ég ímynda mér að það ætti ekki að þurfa að taka svo langan tíma. Það sýnir auðvitað að það er engin almennileg verkstjórn í gangi í núverandi ríkisstjórn þegar kemur að þessum málaflokki. Þess vegna er hann í skötulíki. Það skrifast alfarið á slæleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar.



[15:24]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það að vinnubrögðin eru slæleg og fólk er kannski heldur mikið að einbeita sér að því að ferðast en að sinna innanlandsuppbyggingunni. Ég þekki klúðrið og við eflaust öll. Sýndar voru myndir einmitt, af því að hv. þingmaður talaði um palla, göngustíga og þess háttar sem gætu verið misgóðir hvar sem þeir eru, þá dettur mér í hug nærsvæði mitt eins og við Mývatn þar sem byggður var ágætispallur, en svo upphófust deilur og það mátti ekki halda honum við, sem er náttúrlega vægast sagt ömurlegt. Það er því löngu orðið tímabært að taka fast á þessum málum. Mér finnst og ég tek undir með hv. þingmanni að það á auðvitað ekki að koma neinum á óvart að sá tími sem við erum að vinna alla svona vinnu er nær alltaf, og sérstaklega á hálendinu, í þjóðgörðunum okkar, á þeim stutta tíma sem sumarið er.

Þingmaðurinn kom inn á annað þingmál sem hann hefur ekki fengið að flytja varðandi hæfisskilyrði leiðsögumanna. Ég hef velt fyrir mér af því að þegar maður ferðast erlendis er gjarnan innlendur leiðsögumaður með þeim erlenda. Nú er þetta auðvitað ekki — nú man ég ekki orðið yfir það, starfið er ekki lögvarið eða hvað það heitir, og ég þekki það svo sem ekki hvernig það er erlendis eða hvort þetta eru venjur eða reglur eða eitthvað sem verður þess valdandi, alla vega mjög víða, auðvitað ekki alls staðar, en mjög víða er það þannig að innlendur leiðsögumaður er með þeim íslenska getum við sagt í okkar tilfelli. Ég spyr hv. þingmann hvort hann viti eitthvað meira um það eða hvort hann hafi haft það í huga þegar hann var að búa til sitt mál og hvort hann telji það yfir höfuð skynsamlegt að gera það, eða hvort það sé óþarfi, það sé bara nægjanlegt að þeir þurfi að sitja námskeið, þessir erlendu, til að kynna sér málin.



[15:27]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það væri góðra gjalda vert að lögverja starfsheiti leiðsögumanna. Það er alveg ágætismenntun sem býr þar að baki og sjálfsagt mál að gefa þeim þann status að geta samið sem hópur um sín kjör og þar fram eftir götunum. Auðvitað er það þannig að mikill fjöldi fólks starfar við ferðaþjónustu með mismunandi hætti, sumir sem leiðsögumenn og aðrir sem fararstjórar. Hafi menn áhyggjur af því að geta ekki náð í það vinnuafl sem skortir í þessum efnum þá er auðvelt mál að bæta við fararstjórum þegar svo ber undir. Leiðsögumenn hafa lokið ákveðinni menntun. Það er auðvitað líka þannig með marga þá sem koma hingað frá öðrum löndum, að þeir hafa gert það í sínum heimalöndum.

Það sem ég hef kannski verið að hugsa og er að hugsa í frumvarpi mínu sem ég hef lagt fram um þessi efni felur í sér að minnsta kosti að þeir, þó þeir hafi klárað slíka menntun í sínu heimalandi, taki sérstakt námskeið í náttúru og vistfræði Íslands af því að hún er sérstök. Hún nýtur ákveðinnar sérstöðu og hana þarf að umgangast með alveg sérstökum hætti. Þetta er svona meginefni hugsunar minnar með frumvarpinu, að búa til alla vega þá tryggingu. Þó að við séum ekki að útiloka aðrar þjóðir til að sinna þeim störfum hér, þá tryggjum við hagsmuni náttúrunnar í þessum efnum. Það er það sem er svona meginefni þess frumvarps en ekki að lögverja titil, starfsheiti leiðsögumanna, þó að mér finnist það í sjálfu sér góðra gjalda vert, sérstaklega ef mikil eftirsókn er eftir því hjá leiðsögumönnum. Það eru aðrar stéttir, sú stétt sem ég tilheyrði áður en ég fór í stjórnmál, blaðamennskan, hún er ekki lögvarin. Það er mjög jákvætt fyrir þá stétt vegna þess að það felur í sér að fólk með alls konar bakgrunn og menntun vinnur þau störf (Forseti hringir.) sem er aftur mjög gott fyrir miðlana og umræðuna.



[15:29]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kann að koma haganlega að orðum og oft hefur hann dregið upp skarpar andstæður með mjög sterkum litum. Á þessum degi eru mér ofarlega í huga skarpar andstæður sem hafa skapast hérna. Við erum að ræða fjáraukalög þar sem hv. þingmaður og ég, eða flokkar okkar, erum flutningsmenn að tillögu um að aldraðir og öryrkjar fái afturvirkar hækkanir og við leggjum til 6,5 milljarða til þess. En það hefur margsinnis komið fram í umræðum síðustu daga að þingmenn stjórnarliðsins telja að engir peningar séu til til að gera það. Með öðrum orðum, í blússandi góðæri er ríkissjóði svo féskylft að hann hefur ekki peninga til þess. En í dag, á þessum degi er búið að afgreiða eða fullræða að minnsta kosti hinn svokallaða bandorm. Þar er á tveimur stöðum verið að gera breytingar á tekjuskatti sem mér sýnist að séu samtals meira en þarf til að láta aldraða og öryrkja fá þær bætur sem við erum að berjast fyrir.

Önnur breytingin, sem er breytingar á samsköttun, felur í sér tillögu sem hv. þm. Willum Þór Þórsson upplýsti í umræðum í gærkvöldi að kostuðu ríkissjóð 3,5 milljarða. Látum það nú vera. En hér fyrr í dag var líka verið að þrautræða tillögu sem felur í sér skattbreytingar og leiðir til þess að fólk sem er til dæmis með 700 þús. plús fær langmest. Þetta kostar 6,5 milljarða.

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist þetta ekki vera andstæður og hvort honum finnist ekki hér kristallast sá pólitíski ágreiningur sem hefur verið á millum stjórnarliðsins og stjórnarandstöðunnar. Ég vildi gjarnan fá hv. þingmann til að (Forseti hringir.) segja mér og þingheimi sína skoðun á þessu.



[15:31]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég hef sagt í atkvæðaskýringum og ræðum um atkvæðagreiðslur í þinginu vill svo til að landi okkar er stjórnað af meiri hluta sem vill ekki gera jafn vel við aldraða og öryrkja og aðra hópa. Það blasir við, menn þurfa ekkert að velkjast í vafa um það. Það er auðvitað fullkomið fals og fullkomlega rangt að þeir fjármunir til að gera þetta séu ekki til. Ég og minn flokkur höfum ítrekað bent á það á síðustu árum að hér er verið að setja árlega, ég held í fjárlagafrumvarpinu í ár, um 15 milljarða í leiðréttingu húsnæðisskulda mjög tiltekins hóps í landinu, 15 milljarða, sem nær ekki til allra landsmanna, langt í frá. Ég held að ég sé ekki að fara með ranga tölu þegar ég segi að minnsta kosti tveir eða þrír af þessum milljörðum fari til fólks sem borgar auðlegðarskatt, sem segir manni að verið er að eyða þeim peningum í vitleysu. Það væri að minnsta kosti hægt að nýta þá á réttlátari og sanngjarnari hátt.

Auðvitað verður þessi meiri hluti að bera ábyrgð á sínum pólitísku skoðunum og forgangsröðun, en hann getur ekki haldið því fram að þessir fjármunir séu ekki til. Það liggur fyrir. Búið er að benda á það nákvæmlega hvar hefði verið hægt að ná í þá. Það er einfaldlega þannig að meiri hlutinn sem stjórnar landinu vill ráðstafa þeim öðruvísi og hefur til þess meiri hluta í þinginu, hafði til skamms tíma til þess stuðning í samfélaginu, en það styttist nú í annan endann á þeim stuðningi og þeim dögum sem hann hefur til þess að forgangsraða með þessum hætti.



[15:33]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mæli hv. þingmaður manna heilastur. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þm. Róberti Marshall að framkoman gagnvart öldruðum og öryrkjum er sennilega síðasti nagli sem ríkisstjórnin er að reka í sína eigin líkkistu. Hv. þingmaður rifjaði það upp, sem er alveg hárrétt hjá honum, að flokkur hans hefur ítrekað bent á misræmið og ranglætið sem felst í því að með hinni svokölluðu höfuðstólsleiðréttingu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er þeim allra ríkustu í þessu samfélagi, þ.e. fólki sem á sínum tíma greiddi auðlegðarskatt, þeir sem eiga mestar eignir og hafa mestar tekjur, færðir 2–3 milljarðar á silfurfati. Fólk sem hafði meira en nóg og þurfti ekki meira, því voru samt réttir 2.000–3.000 milljarðar íslenskra króna.

Svipað sjáum við vera að gerast hér í dag. Við höfum heyrt magnaða ræðu hv. formanns fjárlaganefndar þar sem hún jós úr sér yfir aldraða og öryrkja með slíkum eindæmum að ég ef aldrei heyrt slíka ræðu á Alþingi Íslendinga. Á sama degi er sömuleiðis alveg ljóst að stjórnarliðið ætlar ekki að samþykkja tillögu stjórnarandstöðunnar, sem allir flokkar hennar standa sameinaðir að, um 6,5 milljarða til að greiða öldruðum og öryrkjum bætur afturvirkt til 1. maí. Á sama degi gerist líka að það er ekki ein heldur tvær breytingar á tekjuskatti sem báðar hníga að því að þeir tekjuhæstu hafa mest út úr því og þá einkum sú breyting sem er vegna breyttrar þrepaskiptingar skattsins þar sem er alveg ljóst að þeir sem hafa hæstar tekjur fá langmest út úr því. Þeir sem hafa 240 þús. kr. og minna fá ekkert út úr því. Svo kemur þetta lið og heldur því fram að það vanti peninga til að koma til liðs við aldraða (Forseti hringir.) og öryrkja. Í staðinn kýs það að láta þetta fé í að lækka skatta (Forseti hringir.) hjá þeim sem ekki þurfa á skattalækkunum að halda, en aldraðir og öryrkjar eru eini hópurinn sem er skilinn eftir.



[15:36]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í þessum efnum.

Það sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni áðan og er eftirtektarvert og auðvitað svolítill holur hljómur í er að halda því fram að stjórnarmeirihlutinn sé með fjárlagafrumvarpi sínu og þeim vinnubrögðum sem okkur birtast þar að umgangast ríkisfjármálin með sérstaklega ábyrgum hætti. Á sama tíma og hann er núna í fjáraukalögunum sem við ræðum hér að slumpa eftir á úr rassvasanum því sem tókst að eyða þegar kemur að uppbyggingu ferðamannastaða. Það eru auðvitað ekki vinnubrögð sem eru til fyrirmyndar. Fjárlagafrumvarpið sem var mikið rætt núna kom tiltölulega snemma fram. Síðan leið langur tími áður en það kom til umræðu. Umfangsmiklar breytingartillögur komu frá ráðherranum sem lagði málið fram og síðan komu tillögur frá meiri hluta nefndarinnar. Það er því kannski ósköp eðlilegt að málið hafi verið töluvert mikið rætt hérna. En á það skortir hins vegar töluvert að við séum að fara almennilega ofan í saumana á mörgu því sem liggur að baki, eins og til dæmis uppbyggingu ferðamannastaða sem ég gerði að umtalsefni. Það er umhugsunarefni að maður hafi ekki nein önnur tækifæri til að ræða málaflokkinn sjálfan sem brennur svolítið á manni, nema í umræðu um fjáraukalög.



[15:38]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Nú erum við að koma að lokaumræðu þessarar fjáraukalagaumræðu og margt breyttist á milli umræðna, frá því frumvarpið var lagt fram og þar til það fór í 2. umr. og en svo breyttist frumvarpið lítið milli umræðna núna. Ég fór vel í gegnum marga hluti þegar við tókum þetta fyrir síðast og gagnrýndi og fyrst og fremst vegna þess að frumvarpið á að snúa að því sem óvænt er. Við höfðum bent á tiltekna þætti sem alls ekki eru neitt óvæntir sem felast bæði í vegagerðarmálum sem ákveðin voru í sumar, sem felast í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og svo mætti áfram telja. En stórar tölur eru þarna undir sem er í raun algerlega ótækt þegar það liggur fyrir við gerð fjárlaga að það þarf að fara út í þetta.

Það má líka velta því fyrir sér, í ljósi þess sem ríkisstjórnin hefur verið að gera, að í minnisblaði frá ráðuneytinu í lok nóvember kemur fram að vísbendingar séu um þenslu í hagkerfinu og undirliggjandi verðbólguþrýsting vegna kjarasamninganna sem gerðir hafa verið, og lagt er til að stemma stigu við ríkisútgjöldum. Það hefur svo ekki orðið raunin. En það sem ég hef miklu frekar haft áhyggjur af eru tekjuöflunarleiðirnar sem við ræddum hér áðan, bæði varðandi yfirstandandi ár og eins árin fram undan. Ríkisstjórnin er að fara í tekjuskattslækkanir sem verða þess valdandi að ýta undir þær áhyggjur sem hér er lýst af hálfu fjármálaráðuneytisins, um þenslu í hagkerfinu og undirliggjandi verðbólguþrýsting. Mér finnst því ekki skynsamlega að þessu staðið.

Ég skoðaði landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins og þar kristallast sú stefna sem við höfum verið að fjalla um, þar sem kallað er eftir stórkostlegum samdrætti ríkisútgjalda. Framtíðarsýnin fyrir árið 2025 er vægast sagt gerólík því landi sem við búum í núna, þ.e. velferðarsamfélagi þar sem nokkuð góð sátt hefur ríkt um hvort tveggja, þ.e. viðskiptafrelsi og háa skatta en mikla samneyslu.

Í þeirri ályktun kemur fram að stefna skuli að því að útgjöld hins opinbera verði ekki hærri en 35% af landsframleiðslu árið 2015. Ef við lítum á tölur frá OECD, t.d. frá Danmörku, Svíþjóð, Frakklandi og Þýskalandi, á árabilinu 2000–2013 þá hefur ekkert þeirra landa rekið hagkerfi þar sem ríkisútgjöldin eru svo lág, þ.e. 35%. Mesta sveiflan hefur verið í Danmörku, þar var hlutfallið hæst tæp 59% og lægst árið 2007 þegar það var 49,6%. Frakkar og Svíar eru á svipuðum slóðum og Þjóðverjar hafa aldrei farið niður fyrir tæp 43% af landsframleiðslu. Jafnvel þótt miðað sé við útgjöld hins opinbera að frádregnum lífeyrisgreiðslum hafa flest Norðurlandanna samt verið talsvert yfir 35%.

Sjálfstæðisflokkurinn vill líka stefna að því að tekjuskattur og útsvar lækki niður í 25% á næstu árum. Því markmiði á að ná fyrir árið 2025 og þrepaskipta skattkerfið er út af borðinu, því að væntanlega er verið að boða hér flatan skatt miðað við þetta. 25% er nálægt því hlutfalli sem einstaklingur með meðaltekjur greiðir í Bretlandi og Bandaríkjunum, þannig að það má svo sem segja að þessi landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins um efnahagsmál staðfesti enn og aftur að flokkurinn hneigist ekki til þess norræna módels sem við höfum talað fyrir. Í Bandaríkjunum eru sjö þrep þannig að velta má því fyrir sér hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé miklu lengra til hægri en þeir flokkar sem þar er að finna, og hefur okkur nú oft þótt nóg um, bæði þar og í Bretlandi.

En þetta var bara hugleiðing út frá þeirri pólitík sem birtist í frumvarpinu og birtist fyrr í dag í bandorminum svokallaða. Þá fer maður að velta vöngum yfir hinum ýmsu málum sem hér hafa verið rædd. Við í minni hlutanum erum með tillögu um forgangsröðun í ríkisfjármálum sem augljóslega er ekki sú sama og ríkisstjórnarflokkarnir hafa talað fyrir, og skiptar skoðanir um það. Ég þarf kannski ekki að fara mjög djúpt ofan í það.

Mér finnst vondur bragur á þessum fjáraukalögum vegna þess hversu ofboðslega mikið kemur inn í hann af fyrirséðum útgjöldum. Við höfum talað fyrir því, mörg hver, að þetta sé bagalegt og kannski hafi verið ákveðin harmonía í því að fólki finnist að þetta eigi ekki að vera svona. En þetta ber ekki vott um góða áætlanagerð, sérstaklega þegar vakin er athygli á því við fjárlagagerðina að þetta gangi ekki upp. Þá hefur maður það á tilfinningunni að ekki sé hægt að nýta hugmyndir af því að þær komi frá minni hluta á Alþingi.

Arðgreiðslurnar — ég hef trú á því að þær hafi verið mjög vanáætlaðar í fjárlagafrumvarpinu, þar eru að koma inn háar tölur. Ég hef gagnrýnt að Landsbankinn, bankinn okkar, skilar 18 milljörðum meira í arði en frumvarpið gerði ráð fyrir. Við erum komin að lokum árs og það liggur nokkuð ljóst fyrir hver staða bankans er og hvað hann gæti greitt, og að menn námundi það ekki nær en gert er. Þó að vissulega sé gott að vera varfærinn í tekjuáætlun og raunsær í útgjöldum, þá tekst hvorugt, hvorki hér í fjáraukanum og að mínu mati ekki heldur í fjárlögunum. Þegar við tölum um þau þá fáum við margt þar inn sem var ekki í upphaflega frumvarpinu.

Ég gagnrýndi líka að áhrif kjarasamninga voru bara að hluta til í frumvarpinu, fjárlögunum, sem kom fram hér í haust. Þeir samningar voru samt sem áður klárir í ágúst. Þegar ríkið er að gera samninga þá hlýtur það að velta því fyrir sér hvað þeir kosta ríkissjóð. Það getur bara ekki annað verið. Og að ekki sé hægt að setja þá tölu inn í frumvarpið, að minnsta kosti mun nákvæmar en hér er gert — það munar gríðarlega háum fjárhæðum í frumvarpinu — ber vott um slaka áætlanagerð. Samninganefnd ríkisins veit hver kostnaðarhækkun kjarasamninganna er, eða ég gef mér það. Það er eitt af því sem hæstv. fjármálaráðherra hefur talað mikið um, hvað þessir kjarasamningar kosta. Þetta hefði átt að vera hægt að birta en ekki að taka þetta allt meira og minna, því að það var svo stór hluti sem var tekinn inn við 2. umr.

Síðan er það að færa fjárheimildir milli fjárfestinga og rekstrar, það var gert hér. Það er ekki vanalegt að gera slíkt og er í fyrsta skipti sem ég sé slíkt, að minnsta kosti hvað varðar þau fjárlagafrumvörp sem ég hef farið í gegnum og fjáraukalög.

Barnabæturnar og vaxtabæturnar — við höfum rætt þær ítarlega enda full ástæða til að ræða það jöfnunartæki. Það er partur af því sem ég fór yfir í ályktunum Sjálfstæðisflokksins, en forusta fjárlaganefndar og formaður hennar hefur talað á sömu nótum um það að í staðinn fyrir að jafna stöðu borgaranna um þessar fjárhæðir þá eru 800 milljónir felldar niður. Það hefði verið áhugavert að sjá einhverjar sviðsmyndir, hvernig ætlunin var að dreifa þessu fjármagni, hvernig það hefði dreifst og fara yfir það hvernig það hefði annars orðið.

Við höfum talað fyrir því að útgreiðslureglunum yrði breytt á árinu til að koma þessu fjármagni til skila, því að við teljum ekki að það sé óumdeilanlega réttlætanlegt að ríkissjóður taki þetta til sín aftur.

Framkvæmdir við ferðamannastaði — ég fór aðeins yfir það í andsvari mínu við hv. þm. Róbert Marshall. Það er hjákátlegt að við skulum standa frammi fyrir því að iðnaðar- og ferðamálaráðherra segi að ekki hafi verið hægt að úthluta fjármunum úr sjóðnum vegna þess að fólk hafi ekki verið tilbúið að hefja verkefnin, í staðinn fyrir að segja bara það sem satt er að fólk hafi ekki einu sinni vitað af þessu fjármagni, að það stæði til boða, því var úthlutað seint. Í annan stað eru reglurnar mjög stífar um mótframlag sem sveitarfélög hafa rætt við okkur í fjárlaganefnd og ráðherranum var vel kunnugt um. Til dæmis gátu lítil sveitarfélög, þrátt fyrir mikinn ferðamannastraum, ekki reitt það fram. Ég get tekið Mývatnssvæðið til dæmis. Skútustaðahreppur er lítið sveitarfélag og aðilar í ferðaþjónustu fá kannski sitt, en þeir sem þurfa svo að standa að framkvæmdunum, þ.e. sveitarfélögin, hafa kannski ekki endilega bolmagn til að borga það gjald sem þarf á móti. Auðvitað eigum við eftir að sjá það koma til framkvæmda að tekið sé tillit til þess, að breyta eigi þessum reglum, að sveitarfélögin þurfi ekki að leggja jafn mikið út. En svo varðandi staði í eigu ríkisins; það er svolítið hjákátlegt í þessu. Þeir eru líka hluti af þessu, hófu ekki framkvæmdir á tilskildum tíma eða eitthvað var ekki klárað, að sögn ráðherra. Það þykir mér verulega undarlegt.

Við höfum talað um tekjurnar, farið yfir veiðigjaldalækkun o.fl. Við höfum nefnt virðisaukaskattinn sem fyrst var lækkaður og var skýringin ótrúlega sérstök, að fyrirtæki, sem væru í rekstrarvanda í kjölfar efnahagssamdráttar, væru ekki að gera skil. Það var eins og það væri bara álitið að það væri í lagi og lá við að talað væri um svarta starfsemi.

Virðulegi forseti. Ég ætla samt sem áður að taka síðustu mínúturnar í það að segja: Við þurfum bara vilja til að gera þetta betur. Við þurfum að stoppa framkvæmdarvaldið, það á ekki að leyfa sér að koma fram með svona lélegar áætlanir. Við getum gert það með góðu aðhaldi. En ég hef áhyggjur af því að það frumvarp til fjárlaga sem við vinnum hér með verði með einhverjum öðrum hætti. Ég hef líka áhyggjur af því að fólk hafi ofurtrú á opinberum fjármálum, nýja frumvarpinu, að það leysi svo ótrúlega mörg vandamál, sem ég held að það geri ekki. Það tekur ekki að fullu gildi fyrr en á næsta kjörtímabili.

Ég ætla í lokin að segja að þegar við horfum á talnagrunn og rekstur og útstreymi og innstreymi í ríkissjóð, þegar búið er að taka Landsbankann út og setja hann í sölu, sem ágreiningur er um á milli stjórnarflokkanna, þá erum við því miður með undirliggjandi rekstur sem er mjög viðkvæmur. Bættur hagur okkar hér snýst nánast eingöngu um það að við erum að fá mikinn arð. Þess vegna væri það líka alveg galið að selja Landsbankann þrátt fyrir að við eignumst kannski fleiri banka, en þá er líka viðbúið að ef við ætlum að fara að gera það þá töpum við en græðum ekki.

Virðulegi forseti. Ég læt þetta duga í bili í þessari fyrstu yfirferð í þessari umræðu.



[15:53]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að ræða breytingartillögu minni hlutans sem við leggjum fram aftur í þeirri von að hún verði samþykkt í þetta skiptið. Ástæðan fyrir því að við gerum það er að á þessum tímum þegar ríkisstjórnin stærir sig af því að aldrei hafi gengið betur og nægir peningar séu í kassanum þá er ekki hægt að hækka bætur hjá þeim sem verst standa til jafns við þá kjarasamninga sem hafa verið gerðir um launabætur hjá öðrum hópum í samfélaginu. Jú, þetta eru vissulega háar upphæðir, en þó eru í stóra samhenginu 5–7 milljarðar eins og um er að ræða bæði með afturvirkum greiðslum á þessu ári og svo í breytingartillögu við fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár, kannski ekki há upphæð ef við skoðum þetta í samhengi. Þetta er svipuð upphæð og er verið að gefa eftir með því að lækka skatt á millistéttina. Þetta er brotabrot af þeirri upphæð sem fór t.d. í skuldaniðurfellinguna ef út í það er farið. Þannig að við viljum meina að ef menn ætla að forgangsraða rétt þá leiðrétta þeir þessi kjör.

Mig langar aðeins að ræða það sem fór fram hérna áðan eftir ræðu framsögumanns minni hluta fjárlaganefndar, hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, þar sem umræðan fór einhvern veginn út í bótasvik og þar fram eftir götunum. Ég lít á þetta sem tvö aðskilin mál, annars vegar er það hvaða upphæð við ákveðum að veita í bætur til ellilífeyrisþega og öryrkja og við hljótum að vera sammála um að það verði að vera upphæð sem fólk getur lifað af. Síðan er það bara annað mál að einhverjir séu að svíkja út úr kerfinu. Það þarf auðvitað að taka á því en við getum ekki haft bæturnar þetta lágar vegna þess að einhverjir séu hugsanlega að svindla. Mér líkar það afar illa þegar ég heyri hvort heldur er af skattsvikum eða bótasvikum eða hvað það er og auðvitað eigum við ekki að líða slíkt. En við erum ekkert að ræða það hérna. Ég hvet ríkisstjórnina til að ganga í það mál. Við erum meðal annars með breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið sem snýr að því að auka skatteftirlit og fá auknar tekjur í kassann. Ég held að við séum öll sammála um það. Eflaust eru einhverjir á bótum sem eru að svíkja út bætur og þá ganga menn bara í það mál og það á ekkert að taka á því með neinum vettlingatökum. En við skulum gefa okkur að fólkið sem er á bótum sé ekki að svíkja þær út. Það þarf bara að fá bætur sem duga þeim til framfærslu. Ég vil ekki spyrða þetta saman. Mér finnst það ekki réttlátt. Ellilífeyrisþegar geta ekki svikið út neinn ellilífeyri. Þeir eru orðnir 67 ára, það liggur nokkuð ljóst fyrir hvenær þeir byrja að taka sinn ellilífeyri. Þannig að mér finnst umræðan vera á villigötum þegar við förum út í þá sálma.

Það er vissulega ekki neinn stórkostlegur afgangur af ríkissjóði. Það sem við sjáum núna er arður af bönkum sem skilar sér til ríkissjóðs og er í raun tilfallandi tekjur, getum við sagt. En það er borð fyrir báru. Við munum væntanlega greiða atkvæði um þetta á morgun og við munum aftur reyna að fá alþingismenn til þess að samþykkja þessa tillögu okkar og í það minnsta að samþykkja breytingu á fjárlagafrumvarpinu sem snýr að hækkun á árinu 2016. Mér finnst forgangsröðunin vera mjög einkennileg þegar við lækkum tekjuskatt á jafnvel efri millistétt og mér verður líka tíðrætt um skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar sem nemur tugum milljarða. Það er hægt að senda heimilum sem eiga fasteign, og skulda jú vissulega eitthvað í henni, einhverjar milljónir frá skattgreiðendum í formi skuldaniðurfellingar, og það er röng forgangsröðun á meðan við getum ekki staðið vörð um þá sem verst hafa það í þjóðfélaginu. Markmiðið hlýtur að vera að útrýma fátækt. Við þurfum að fara öll í það sameinuð.



[15:58]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir ræðuna. Mig langar reyndar líka að nota þetta tækifæri til þess að þakka minni hluta hv. fjárlaganefndar fyrir það að flytja aftur breytingartillögu við 3. umr. þess efnis að ellilífeyrisþegar og öryrkjar fái einnig afturvirkar bætur til 1. maí líkt og allir aðrir hópar hafa fengið á almennum vinnumarkaði, þar á meðal við sem hér stöndum.

Mér fannst hv. þingmaður koma inn á mjög mikilvægan hlut þegar hún sagði að hún teldi að taka þyrfti sérstaklega á bótasvikum í kerfinu og það ætti ekki að spyrða saman umræðuna um bótasvik annars vegar og hækkun bóta hins vegar. Ég er alveg hjartanlega sammála þingmanninum um þetta og verð að segja að mér var eiginlega brugðið við andsvar hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og formanns hv. fjárlaganefndar í umræðunni fyrr í dag þar sem hv. þingmaður eiginlega setti saman í umræðunni annars vegar bótasvik þar sem hún var að vísa til lífeyrisþega og hins vegar almenn skattsvik í samfélaginu og náði þannig að teygja töluna upp í tugi milljarða og nefndi töluna 100 milljarða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Finnst henni þessi framsetning sanngjörn hjá hv. formanni fjárlaganefndar?



[16:00]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hjó eftir þessu. Mér fannst þetta ekki sanngjarnt. Mér finnst líka merkilegt af því við erum með breytingartillögu þar sem við gerum ráð fyrir 3 milljörðum aukalega á næsta ári að það hefur verið gagnrýnt af meiri hlutanum, þessir peningar liggi nú ekki á lausu, en svo í hinu orðinu er sagt að það séu 100 milljarðar þarna úti sem hægt sé að innheimta sem verið er að svíkja undan skatti á hverju ári. Þá segi ég, förum við bara í að innheimta þessa peninga, ekki stendur á mér í því.

Annað sem mér finnst skipta máli af því sem kom líka fram í umræðunni í dag er að öryrkjum er að fjölga og það er áhyggjuefni. Það segir eitthvað um okkur sem samfélag hversu margir fara á örorkubætur vegna geðheilbrigðisvandamála, það er eitthvað sem við erum ótrúlega sofandi gagnvart. Mér finnst við vera að skorast undan ábyrgð að taka á þessu vandamáli, hjálpa þessu fólki. Við getum ekki einu sinni, afsakið orðbragðið, drullast til að niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Við erum að beina peningunum í rangar áttir held ég að mörgu leyti í heilbrigðiskerfinu og þetta er eitthvað sem velferðarnefnd hlýtur að verða að skoða, vegna þess að þetta er stórt vandamál. Það óskar sér enginn að enda á örorku vegna geðheilbrigðisvandamála. Ég er ekki að segja að það sé hægt að koma í veg fyrir þetta að öllu leyti, en við hljótum að gefa okkur það að með því að grípa snemma inn í, jafnvel bara strax hjá börnum og unglingum, veita góða þjónustu, þá getum við hjálpað fólki þannig að það geti a.m.k. sinnt einhverjum hlutastörfum eða náð svona þokkalega utan um sitt líf. Mér finnst þetta mikið áhyggjuefni. Þarna eru ungir karlmenn og konur. Þetta er ekki gott. Ég vænti þess eiginlega að velferðarnefnd sé að fjalla um þessi mál.



[16:03]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég er alveg hjartanlega sammála henni í því að það óskar sér þess enginn að fara á örorku. Ég held að við getum svo sannarlega gert miklu betra í því sem samfélag að búa til úrræði og hreinlega búa til samfélag þar sem allir geta tekið þátt þó svo að þeir hafi einhvers konar skerðingu, hvort sem skerðingin flokkast sem geðheilbrigðismál eða stoðkerfisvandamál eða einhvers konar meðfædd skerðing. Við sem samfélag getum tekið utan um það og gert öllum einstaklingum kleift að lifa góðu og mannsæmandi lífi, en það kostar auðvitað. Úrræði sem gera öllum kleift að taka þátt í samfélaginu kosta, þau kosta reyndar að hluta til bara viðhorfsbreytingu og hún kostar svo sem ekki peninga. Það er eitthvað sem við þurfum öll að taka þátt í. En hún kostar líka peninga úr ríkissjóði og þá þurfum við auðvitað að afla þeirra. Ég held að það hafi einmitt komið ágætlega fram í þessari umræðu að peningarnir eru til. Meiri hluti hv. þingmanna var reyndar að afsala ríkinu talsverðu af þeim peningum í atkvæðagreiðslu í dag með því að lækka skatta á þá efnamestu. Þetta þurfum við allt að taka í samhengi.

Við vorum að ræða hérna um skattsvik og ég tel mig hafa séð ansi mikið misræmi í málflutningi annars vegar hv. formanns fjárlaganefndar og svo hv. varaformanns fjárlaganefndar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem hefur talað um það í umræðunni að allar breytingartillögur (Forseti hringir.) minni hlutans við fjárlög hafi verið vanfjármagnaðar vegna þess að það eigi að sækja þetta allt í bætt skatteftirlit. (Forseti hringir.) Getur þingmaðurinn varpað betra ljósi á þetta?



[16:05]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó einmitt eftir þessu að það var ekki samræmi þarna og velti fyrir mér hvort við hefðum ekki bara átt að gera ráð fyrir 10 milljörðum í auknar tekjur vegna bætts skatteftirlits, (Gripið fram í.) já eða 100 sem er reyndar ekki raunhæft. Mig langar aðeins að nefna það, af því að hv. þingmaður kom inn á hlutastörf og annað og það væri mikilvægt að opna vinnumarkaðinn, vera kannski opinn fyrir því að gefa öllum tækifæri, þá held ég að það strandi hreinlega að einhverju leyti á innleiðingu tilskipunar um mismunun á vinnumarkaði, minnir mig að hún heiti, sem er búin að vera á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar að ég held frá upphafi og ég hef nokkrum sinnum spurt hæstv. félagsmálaráðherra á hverju strandi og alltaf er þetta á leiðinni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að innleiða þessa tilskipun hvað þetta varðar.

Síðan held ég að við þurfum líka að hafa kjark til þess að skoða bótakerfið. Það er mjög flókið. Öryrkjabandalagið hefur gagnrýnt það og við erum einhvern veginn alltaf að púsla ofan á kerfið. Á einhverjum tímapunkti gæti verið að við vildum gera einhverja heildarendurskoðun á því og breyta. Ég held að það sé of flókið. (Gripið fram í: Hvað með borgaralaun?) Borgaralaun er hugmynd sem mér finnst vera svolítið spennandi, ég skal viðurkenna það. En ég held að við gætum aðeins stokkað upp, gert kerfið að einhverju leyti einfaldara og skilvirkara, líka bætt þjónustuna við þá sem sækja bætur, t.d. hvaða rétt fólk á, að það sé ekki alltaf eins og það sé einhvern veginn að reyna að hafa eitthvað af ríkinu. Það er margt í þessu. Það er margt sem við getum rætt og munum ræða áfram á næsta ári í þessum málaflokki.



[16:07]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þessi umræða í dag og síðustu daga hefur að mestu leyti snúist um það hvort ríkisstjórnin vilji fallast á að styðja tillögu stjórnarandstöðunnar um það að greiða afturvirkar bætur til aldraðra og öryrkja. Hv. þm. Karl Garðarsson flutti hér um daginn prýðilega ræðu um margvísleg málefni fjárlaga ríkisins og sagði m.a. að aldraðir væru lágvær hópur sem ætti erfitt með að koma fram sínum málefnum eða láta hlusta á sig. Það er algjörlega hárrétt hjá hv. þingmanni. Það er einmitt þess vegna sem auðvelt er að gera aldraða og öryrkja að afgangsstærð. Sérhver ríkisstjórn verður að varast þá freistni að feta þann stig að nota þá til þess að jafna bækurnar. Sumum hefur tekist það, sumum ekki. Mér finnst að þessari ríkisstjórn hafi tekist það ákaflega illa upp. Auðvitað er ég sannfærður um að það er fullt af mönnum og konum innan stjórnarliðsins sem meinar það þegar þau segja að þau vilji bæta hag þessa hóps, vilji í reynd leggja sitt af mörkum til þess að jafna mun þeirra gagnvart ýmsum öðrum. En staðreyndirnar í dag tala allt öðru máli. Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir nokkrum grundvallarstaðreyndum sem varða þennan slag.

Þegar hv. þm. Karl Garðarsson segir að þetta sé lágvær hópur sem eigi erfitt með að koma ár sinni fyrir borð þá skiptir það að minnsta kosti máli að hann eigi málsvara á Alþingi Íslendinga. Ég segi fyrir sjálfan mig nú þegar við erum að ræða fjáraukalög og eigum eftir að taka 3. umr. um fjárlagafrumvarpið að þá finnst mér að hér á Alþingi Íslendinga eigi að taka góðan eldhúsdag um stöðu þessara mála, hvað ríkisstjórnin hefur gert og hvað hún hefur ekki gert. Það sem mér hefur mislíkað mjög hjá mönnum úr liði stjórnarinnar í þessari umræðu er að þeir koma hér, berja sér á brjóst og stæra sig af því að hafa gert einhver sérstök ósköp fyrir aldraða og öryrkja. Á sama tíma nota þessir hv. þingmenn ræður sínar til þess að sparka í fyrri ríkisstjórn, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem tók við gjaldþrota ríkissjóði þar sem fossuðu út 217 milljarðar í einu vetfangi þegar tekjustofnar ríkisins brugðust. Svo koma menn eins og hv. þm. Karl Garðarsson og ýmsir aðrir og segja: Ja, hvað gerðuð þið? Hvað hefði hv. þm. Karl Garðarsson gert í þeirri stöðu? Þessu er ekki saman að jafna.

Þó vil ég geta þess til að vera ærlegur að hv. þm. Karl Garðarsson alveg eins og hv. þm. Brynjar Níelsson tóku báðir í ræðum sínum þó fram að sú ríkisstjórn hefði varið þá verst stöddu með því að hreyfa ekki við strípuðum bótum. En til þess að öllu sé til haga haldið þá talaði formaður fjárlaganefndar og fór með digur svigurmæli og sagði ekki rétt frá þegar hún hélt öðru fram. Það er önnur saga.

Það eru fjórar staðreyndir sem menn þurfa að gera sér grein fyrir varðandi stöðu öryrkja og það hvað þessi ríkisstjórn hefur gert og ekki gert gagnvart þeim. Í fyrsta lagi eru aldraðir og öryrkjar í dag sem eru á strípuðum bótum nauðbeygðir til þess að lifa af 172 þús. kr. á mánuði eftir skatta. Ég spyr nú minn góða vinnufélaga hv. þm. Karl Garðarsson: Gæti hann það? Ef hann svarar því játandi væri það í fyrsta skipti sem ég efaðist um að hann mælti af heilum huga. Þetta er fyrsta staðreyndin.

Í öðru lagi. Þegar hv. þingmenn stjórnarliðsins segja að þeir hafi bætt stöðu aldraðra og öryrkja þá er staðan þessi. Á þeirra tíma, á nánast þremur árum, hafa kjör aldraðra og öryrkja batnað sem svarar skitnum 10 þús. kalli á mánuði þegar búið er að taka tillit til skatta. Það er staðreyndin. Það er að gerast í góðæri sem landsbankastjóri segir að sé blússandi. Þetta verða menn að hafa í huga.

Í þriðja lagi. Af þessum 10 þús. kalli sem búið er á tæpum þremur árum af hálfu ríkisstjórnarinnar að bæta kjör öryrkja er búið að taka tæpan 4 þús. kall til baka með matarskattinum sem tók gildi um síðustu áramót. Í reynd er staðan þannig að það eina sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert fyrir aldraða og öryrkja er að hún hefur bætt við 6 þús. kalli þegar búið er að taka tillit til skatta.

Það fjórða sem skiptir máli í þessari umræðu er sú staðreynd að aldraðir og öryrkjar eru eini hópurinn á öllu Íslandi sem ekki fá afturvirkar bætur. Tillaga okkar er um það að ríkissjóður verji 6,5 milljörðum til þess að aldraðir og öryrkjar fái afturvirkar bætur til 1. maí. Er það sanngjarnt eða ósanngjarnt? Hvað fá alþingismenn? Hvað fá ráðherrar? Þeirra launahækkanir eru afturvirkar og ná ekki einu sinni til 1. maí heldur lengra aftur, til 1. mars. Þetta eru þessar fjórar staðreyndir sem liggja eftir í þessari umræðu.

Maður hefði ætlað miðað við yfirlýsingar Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar, samþykktir á landsfundi undirstrikun á vilja þeirra í stjórnarsáttmálum þar sem ást og samúð til aldraðra og öryrkja er útausið af miklu örlæti, að meira stæði eftir. Ég hefði kannski skilning á stöðunni ef núverandi ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefði tekið við því svartholi sem fyrri ríkisstjórn tók við. Hún tók við ríkissjóði þar sem hafði verið jafn hagvöxtur í landinu frá miðju ári 2010 og nú er staðan þannig að það hefur verið hagvöxtur í fimm ár. Þegar hún tók við þá hafði staða ríkissjóðs batnað ár frá ári allt frá 2008. Hvað sjáum við hafa gerst núna? Tekjustofnar ríkisins hafa verið veiktir með þeim hætti að í blússandi góðæri er varla verið að skila afgangi sem einhverju marki nemur, tæpum 10 milljörðum. Hvert er umfangið? Tekjurnar eru 700 milljarðar. Þær aukast ekki ár frá ári, þ.e. afgangur ríkissjóðs hefur ekki verið að aukast. Þegar maður skoðar síðan ríkisfjármálaáætlun til 2019 og skoðar þau nefndarálit sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram, þá er það klárt að menn gera ekki ráð fyrir því að skuldir ríkissjóðs lækki á þessu tímabili. Hvað er þá verið að gera við vaxandi tekjur ríkissjóðs? Jú, þær fara í margvísleg útgjöld.

Ég ætla ekki að þreyta vinnufélaga mína í stjórnarliðinu með því að tala hér um Stjórnstöð ferðamála, húsameistara ríkisins, eða sendiráð í Strassborg, allt nýjar lúxusstofnanir sem er verið að búa til, auka á fitulögin utan um ríkiskerfið. Ég ætla að ræða það sem hefur gerst á þessum degi. Við höfum fyrir utan það frumvarp sem hér er verið að ræða líka verið að ræða frumvarp til ýmissa ráðstafana sem tengjast fjárlagafrumvarpinu, hinn svokallaða bandorm. Mig rak í rogastans þegar ég sat hér undir umræðum í gær og hlustaði á fyrirspurn sem beint var til hv. þm. Willums Þórs Þórssonar um hvað tiltekin skattaaðgerð kostaði þar sem verið er að breyta samsköttun sambúðaraðila og hjóna. Það kom í ljós að hún kostaði 3,5 milljarða. Afleiðingar hennar eru að það eru einkum þeir tekjuhæstu sem fá ávinning af skattalækkun upp á 3,5 milljarða. Það er helmingurinn af því sem þarf til þess að kosta tillögu um að aldraðir og öryrkjar fái afturvirkar bætur til 1. maí.

Hvað gerðist svo í morgun? Það kom fram í umræðum líka að verið er að breyta tekjuskatti með öðrum hætti, það er verið að afnema þrepaskiptinguna sem síðasta ríkisstjórn kom á. Hvað kostar það ríkissjóð? 6,5 milljarða. Hvert fara þeir peningar? Hverjir eru þeir sem njóta þeirra skattalækkana? Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir gerði ítarlega grein fyrir því í ræðu sinni fyrr í dag. Það var lærdómsríkt að hlusta á þær útlistanir. Það kemur í ljós að þeir sem eru með 700 þús. kr. í tekjur á mánuði munu, þegar breytingin er að fullu fram gengin eftir tvö ár, koma út með 12 þús. kr. meira. Þeir sem eru með 240 þús. kr., þeir sem eru á lægstu töxtunum, fá ekki neitt.

Herra trúr. Hvað er eiginlega að gerast hér? Það er verið að veikja tekjustofna ríkisins með því að breyta skattkerfinu þannig að hinir tekjuhærri fá mest út úr því, en þeir sem hafa minnstar tekjur fá ekki neitt, ekki eina krónu. Sjáum síðan til hvað þetta kostar. Jú, samanlagt kosta þessar tvær breytingar 10 milljarða kr. Það er herkostnaðurinn.

Skattkerfisbreytingin, að taka þrepaskiptinguna af, á að taka tvö ár og kostar 11–12 milljarða. Hvað kostar það ríkissjóð að greiða afturvirkar hækkanir vegna kjarasamninga á þessu ári og síðan sömu bætur á næsta ári vegna kjarasamninga? Það kostar sömu upphæð, 11–12 milljarða. Svo koma hv. þingmenn stjórnarliðsins grátbólgnir hingað í ræðustól, eins og ég er viss um að hv. þm. Karl Garðarsson gerir hér á eftir, og segja: Það vantar peninga, við viljum gjarnan hjálpa öldruðum og öryrkjum en það eru ekki til peningar í ríkissjóði. Á sama tíma og sumir þeirra hafa sagt það þá blasir við að þetta lið er að samþykkja skattalækkanir sem koma einkum þeim til góða sem hafa mestar tekjur, sem kosta um það bil sömu fjárhæð og við hefðum getað notað til þess að koma til stuðnings öldruðum og öryrkjum, sjá til þess að þeir væru ekki afgangsstærð og þeir nytu hins sama og allir aðrir í samfélaginu og fengju líka bætur sem eru afturvirkar.

Það er alveg sama hvað þingmenn eins og hv. þm. Karl Garðarsson eða Brynjar Níelsson segja, það er staðreynd að á þessu ári þá munu aldraðir og öryrkjar ekki fá krónu í afturvirkar bætur. Svo munu þeir örugglega koma þessir ágætu herramenn og segja: Fyrri ríkisstjórn stóð sig nú ekkert betur. Það er algjörlega rétt, en það var við allt aðrar aðstæður. Ríkissjóður var gjaldþrota. Það þurfti að stoppa upp í 217 milljarða gat. En hvað gerði sú ríkisstjórn samt? Jú, vitaskuld fór hún um allt samfélagið og skar niður þar sem hún gat. En hvernig beitti hún sér gagnvart bótakerfinu? Vissulega er það rétt að skerðingum vegna atvinnutekna og vegna lífeyristekna var breytt í það horf sem það hafði verið best fyrir árið 2007. En það sem sú ríkisstjórn gerði var að hún hélt varðstöðu sinni um þá sem verst voru settir og hún gerði það með því að bætur til þeirra sem höfðu hvorki lífeyristekjur né atvinnutekjur héldust óskertar hvað sem formaður fjárlaganefndar heldur fram um það. Það er staðreyndin eins og reyndar ærlegir menn í hópi stjórnarliða hafa líka bent á.

Hvað gerðist á árinu 2011? Þá voru kjarasamningar á miðju ári. Bætur aldraðra og öryrkja hækkuðu í sama mæli og laun hækkuðu í þeim kjarasamningum. Þar var meðal annars samið um eingreiðslu, 51 þús. kr. á miðju ári. Hvað gerði ríkisstjórnin? Jú, aldraðir og öryrkjar fengu þá eingreiðslu óskerta, svo að það liggi kristaltært fyrir.

Herra forseti. Til þess að súmmera upp í lokin þá stendur eftir þessa ríkisstjórn í fyrsta lagi að það eina sem hún hefur gert er að hún hefur hækkað kjör aldraðra og öryrkja í mesta góðæri síðari tíma um 10 þús. kall á mánuði. Þegar tekið er í öðru lagi tillit til matarskattsins sem kom á um síðustu áramót þá lækkar sú upphæð niður í 6 þús. kall. Það stendur eftir í þriðja lagi að í dag, undir ríkisstjórn sem býr við besta góðæri sem við höfum séð á seinni tímum, þá lifa aldraðir og öryrkjar á 172 þús. kr. á mánuði þegar búið er að taka tillit til skatta. Í fjórða lagi er það staðreynd sem ekki er hægt að mótmæla að ekki er króna á þessu ári sett í afturvirkar hækkanir á kjörum og bótum aldraðra og öryrkja. Það er það sem við höfum verið að deila um hér dögum og vikum saman. Ég get að minnsta kosti fyrir minn hatt í því sem líkast til er mín síðasta ræða um þessi mál sagt að ég er stoltur af stjórnarandstöðunni fyrir að hafa staðið í ístaðinu. Við erum kjararáð aldraðra og öryrkja. Þeir geta ekkert annað farið. Þeir eiga að koma hingað. Því miður er stjórnarmeirihlutinn þannig gerður í dag að menn fara bónleiðir búðar til.



[16:22]
Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ræðuna. Það eru tvö atriði í henni sem ég vil minnast á, í fyrsta lagi kjör aldraðra og öryrkja og í öðru lagi meint sendiráð sem á að opna í Strassborg í Frakklandi.

Við skulum byrja á öldruðum og öryrkjum í fyrra andsvari mínu. Það hefur margsinnis komið hér fram að það sem við erum að leggja til og ég hef mörgum sinnum lagt til úr þessu púlti er að laun aldraðra og öryrkja hækki í 300 þús. kr. á um það bil einu og hálfu ári héðan í frá. Það er sú raunverulega kjarabót sem aldraðir þurfa að fá.

Það er rangt að segja að síðasta ríkisstjórn hafi staðið vörð um aldraða og öryrkja. Eitt hennar fyrsta verk var að skerða ákveðna hópa aldraðra og öryrkja. Það liggur alveg fyrir. Þá segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson: Við urðum að skera niður alls staðar. Hver var forgangsröðin hjá fyrrverandi ríkisstjórn? Hún setti peninga í ESB-umsókn, það var allt í lagi. Af hverju setti hún ekki upp forgangsröð og lét aldraða og öryrkja vera síðasta? Nei, hún gerði það ekki, 1. júlí 2009 skar hún niður til þessara hópa. Það var eitt hennar fyrsta verk, ekki síðasta. Við skulum hafa það algjörlega á hreinu.

Það að halda því fram að aldraðir fái ekki neitt afturvirkt er náttúrlega bara leikaraskapur. Þeir fá 9,7% núna um áramótin og fengu 3% um síðustu áramót. Hluti af þessari hækkun núna um áramótin er í raun afturvirk hækkun. Það liggur alveg fyrir. Þeir fá hækkun.

Svona fullyrðingar, bæði um verk síðustu ríkisstjórnar og það sem núverandi ríkisstjórn er að gera, er alrangt og fyrir neðan allar hellur.



[16:24]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég gat þess í ræðu minni að tveir hv. þingmenn stjórnarliðsins verið nægilega ærlegir til að segja sannleikann í þessu máli varðandi fyrri ríkisstjórn. Annar þeirra var hv. þm. Karl Garðarsson, sem kinkaði kolli í viðurkenningarskyni því að það var það sem hann sagði, og hinn var hv. þm. Brynjar Níelsson. Eftir að þeir höfðu haldið sínar dómadagsræður um að síðasta ríkisstjórn hefði gert aldraða og öryrkja að einhverjum sérstökum fórnarlömbum þá sögðu þeir þó það (Gripið fram í.) sem mér heyrist hv. þingmaður vera að draga til baka núna, (Gripið fram í.) þ.e. að við hreyfðum ekki við kjörum þeirra sem verst voru settir. Það voru þeir sem hvorki höfðu atvinnutekjur né lífeyristekjur. Það gerðum við. Það kalla ég að standa vörð um þá sem verst eru settir. Það er minn skilningur á því.

Hitt er algjörlega hárrétt að meðal þeirra aðgerða, þó að það hafi ekki verið fyrsta aðgerðin, sem við réðumst í strax eftir að minnihlutastjórnin lauk ferli sínum og ný meirihlutastjórn tók við var að breyta skerðingarmörkunum gagnvart atvinnutekjum og lífeyristekjum þeirra sem voru í bótakerfinu. Hvernig var það gert? Þau voru tekin úr 38% og færð upp í 45%. Það var það sem best hafði verið nokkru sinni áður. Það var breyting sem Jóhanna Sigurðardóttir beitti sér fyrir í ríkisstjórninni 2007 og höfðu aldrei verið minni skerðingar í sögu kerfisins, svo að það liggi algjörlega ljóst fyrir.

Þegar hv. þingmaður spyr um forgangsröðina þá var hún svona. Við stóðum vörð um þá sem verst voru settir. Það er ástæðan fyrir því, hv. þm. Karl Garðarsson, að sú ríkisstjórn sem nú tók við tók við samfélagi þar sem jöfnuður var mestur á byggðu bóli, að ég held, og hann er það enn þá vegna þeirra aðgerða. Ég tel að vegna aðgerðanna sem nú eru að fara af stað (Forseti hringir.) kunni það að breytast á næstu 6–18 mánuðum.



[16:27]
Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, að þeir vernduðu þá sem voru með lökust kjörin. Ég er alveg sammála því, það er alveg rétt og ég hef sagt það í þessum stól. (Gripið fram í.) Það breytir því ekki að þeir skertu kjör stórra hópa aldraðra og öryrkja. (ÖS: Já, já.) Það liggur alveg fyrir.

Hitt atriðið sem ég minntist á hér áðan er að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur ítrekað komið hér upp og talað um opnun nýs sendiráðs í Frakklandi. Hann talaði áðan um lúxusstofnun í Strassborg. Hvaða lúxusstofnun er það? Það er verið að tala um að opna eina skrifstofu hjá Evrópuráðinu í Strassborg. Sú skrifstofa er til. Við borgum fyrir hana. Hún er tilbúin. Það er skrifborð þar. Það er tölva þar. Það verið að tala um að hafa einn mann þar. Er þetta lúxusskrifstofan og sendiráðið sem á að opna í Frakklandi? Af hverju förum við ekki bara rétt með, hv. þingmaður sem er þess utan fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands?



[16:28]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Á sínum tíma höfðum við ekkert sendiráð í Strassborg. Síðan gerðist það að formaður Framsóknarflokksins var stutta stund formaður Evrópuráðsins, sem trillar á millum aðildarþjóðanna, og þá var talið rétt af hálfu Íslands að setja þar upp sérstakt sendiráð með sendiherra. Það er skilgreining á sendiráði. Það vakti á sínum tíma töluvert andóf og mótmæli, menn töldu að það væri „spandans“ og lúxus. Í öllu falli, menn geta deilt um það. Hitt verður ekki umdeilt að á síðasta kjörtímabili var sendiráðinu þar lokað. Þar var sendiherra og hann var sendur í burtu. Það var sparað með þeim hætti og það var gert í samráði við fjárlaganefnd Alþingis. Það er forgangsröðun, hv. þm. Karl Garðarsson. (Gripið fram í.) Það var talið að hægt væri að vinna vinnuna gagnvart Evrópuráðinu og skrifstofum þess í Strassborg með öðrum hætti. Það fólst í því að manneskja var send úr sendiráðinu í París einu sinni í viku tvo daga í senn. Það gekk skrugguvel svo að ég segi sjálfur frá. Þeir ágætu þingmenn sem stundum dvelja í Strassborg nutu engu verri þjónustu af hálfu sendiráðsins en áður. Nú er búið að breyta þessu.

Hvað finnst hv. þingmönnum Framsóknarflokksins um að verið er að spenna þetta upp og fjölga sendiherrum? Þarna er nýr sendiherra alveg eins og þegar búið verður að breyta Þróunarsamvinnustofnun með þeim hætti sem hæstv. utanríkisráðherra knúði í gegn hér í morgun, þá verða möguleikar á að búa til þrjá nýja sendiherra. Hér er stjórnarliðið að breyta kerfinu þannig að innan skamms verða komnir fjórir nýir sendiherrar.



[16:30]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ræðuna. Ég þakka honum sérstaklega fyrir að rifja það hér upp að á meðan Ísland var enn að vinna sig út úr efnahagskreppunni greiddi vinstri stjórnin lífeyrisþegum afturvirkar bætur. Fordæmið er fyrir hendi, það er til og það er til frá því efnahagsaðstæður voru talsvert aðrar en þær eru núna. Mig langar að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þetta.

Mig langar líka að þakka hv. þingmanni fyrir pólitíska samhengið sem hann setti hlutina í í ræðu sinni, þ.e. samhengið milli þess að afla tekna í gegnum skatta, og hvernig skattar eru hafðir, og svo þess að til séu peningar í ríkissjóði til að setja í verkefni. Mér finnst stundum eins og að fólk vilji gleyma því að það sé samhengi þarna á milli; það fer saman annars vegar hvernig teknanna er aflað og hvort til séu peningar og í hvað þeir eru notaðir. Mér finnst við vera að upplifa rosalega slæmt dæmi um það hvernig þetta er gert á rangan hátt. Afleiðingin er sú að þeir græða mest sem best hafa það og þeir græða minnst sem verst hafa það.

Það hefur komið fram í þessari umræðu að sumum hv. þingmönnum finnst óeðlilegt að lífeyrisþegar hafi sömu kjör og þeir sem hafa lægstu launin. Mig langar einfaldlega að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist eðlilegt að setja þetta í þetta samhengi og hvort honum finnist eðlilegt í velferðarsamfélagi að þeir sem eru aldraðir eða búa við einhvers konar skerðingu séu með kerfisbundnum hætti hafðir undirskipaðastir í samfélaginu.



[16:32]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikilvægt að við undirstrikum að forgangsröðunin í tíð síðustu ríkisstjórnar var mjög skýr. Menn bjuggu þar við mjög þröngar og erfiðar aðstæður og það er mála sannast og við erum ekkert að reyna að víkja okkur undan því að farið var um allt skólakerfið, heilbrigðiskerfið, almannabótatryggingakerfið, alls staðar þurfti að skera niður til að ná ríkissjóði saman. Það tókst með þeim ágætum að þegar ríkisstjórnin skilaði af sér kom ný ríkisstjórn að búi þar sem búið var að ná jöfnuði, að minnsta kosti frumjöfnuði, svo að það liggi nú alveg ljóst fyrir.

Svarið er: Nei, mér finnst það ekki réttlátt. Hv. þingmaður er væntanlega að vísa hér til ummæla sem féllu fyrr í dag af vörum hv. formanns fjárlaganefndar sem af einhverjum undarlegum ástæðum hverfur alltaf úr salnum þegar ég held ræður mínar. En við skulum hins vegar vera þakklát fyrir þá ræðu. Hún hrindir algjörlega rökum og stoðum undan því flími og þeirri gagnrýni sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins sérstaklega hafa sett fram á tekjutillögur stjórnarandstöðunnar við þessa fjárlagagerð. Hv. þingmenn, meðal annars hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, komu hér og hlógu að tillögum okkar um að setja meira fé í skatteftirlit og skattinnheimtu. En svo kemur formaður fjárlaganefndar og upplýsir að það séu 80 milljarðar sem liggi úti í samfélaginu í skattsvikum. Það er rétt að rifja það upp að þegar ég sat í fjárlaganefnd kom þar til fundar skattrannsóknarstjóri og tjáði okkur að það væri hans reynsla að fyrir hverja eina krónu sem væri sett í hert skatteftirlit heimtust tíu á móti.

Halda menn að hægt sé að draga úr 80 milljarða skattsvikum nema með því að verja til þess einhverju fjármagni? Svo koma þingmenn stjórnarliðsins og hlæja að því. En hv. þm. Vigdís Hauksdóttir undirstrikaði alla vega nauðsynina.



[16:35]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég tek undir það að þó svo að ég hafi ekki setið hér á þingi á síðasta kjörtímabili þá tók ég alveg eftir því að forgangsröðunin hjá þeirri ríkisstjórn var alveg skýr. Auðvitað var það svo að allir hópar fengu á sig kjaraskerðingu eftir hrun, en þær tölur sem ég hef séð sýna að kjaraskerðingin varð minnst hjá þeim tekjulægstu. Það sýnir mér svart á hvítu að forgangsröðunin var rétt. Auðvitað er það slæmt að tekjulágt fólk verði fyrir kjaraskerðingu, að sjálfsögðu, en tímarnir voru einstakir.

Varðandi þessa umræðu um að lífeyrisþegar eigi ekki að hafa sömu tekjur og lágmarkslaun eru, þá hefur það því miður komið fram í þessari umræðu að það er ekki bara hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, sem hefur látið þau orð falla, heldur kom þetta líka fram hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Því miður. Þar brá mér ansi mikið. En hæstv. ráðherra dró það einmitt inn í umræðuna að það væru ungir karlmenn sérstaklega sem væru að fara inn í bótakerfið — það eru 870 karlmenn undir 30 ára sem eru á bótum. Þar með gerði hann heilan hóp, sem telur um 45 þús. manns, á einhvern hátt tortryggilegan.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er hann sammála mér um að hér sé verið að drepa umræðunni (Forseti hringir.) á dreif með því að gera lífeyrisþega tortryggilega og þar með fá réttlætingu á því að kjör þeirra séu ekki bætt vegna þess að þetta sé hvort eð er hópur af svindlurum?



[16:37]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi á hið góða í manninum og ég vil ekki ætla neinum svo illt að menn séu meðvitað að taka út einhvern sérstakan hóp, í þessu tilviki unga karlmenn, og gera þá tortryggilegri en aðra; ég held ekki að það hafi verið meint þannig. En hugsanlegt er að menn hafi haft einhverjar tölur fyrir framan sig og þetta eru auðvitað leifar af umræðunni sem við áttum hér um skilyrðingafrumvarpið svokallaða.

Hitt er svo alveg ljóst að það eru stjórnmálaöfl sem hafa þá skoðun að nauðsynlegt sé að hafa ákveðna samkeppni, liggur mér við að segja, á millum þeirra sem eru innan almannatryggingakerfisins og hinna sem eru á vinnumarkaði, að í því felist hvati til að menn reyni að rífa sig upp og fara út á vinnumarkaðinn. Svona hefur þetta verið orðað.

Mín skoðun er sú, af því að ég þekki svolítið til þessara mála, eins og hver maður sem kominn er á minn aldur, ég þekki þessi dæmi úr umhverfi mínu. Menn eru ekki að leika sér að því, ekki þekki ég til þess, að vera á innan kerfisins til að hafa það gott. Hafa menn það gott á 172 þús. kr. eftir skatt á mánuði? Nei, menn hafa það ekki gott. Ég held að hver einasti maður, að minnsta kosti langflestir, sem ættu kost á öðru, mundu vilja það.

Aðrir eru þessarar skoðunar. Ég veit ekki hvað hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hafði fyrir sér þegar hún talaði um að það væru sex til átta milljarða bótasvik, það eru ansi háar upphæðir. Ég er sannfærður um að eins og í öllum kerfum er alltaf eitthvað um að menn spili þar á milli, en fjandinn hafi það að það séu sex til átta milljarðar.

Um forgangsröðun að endingu. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, til að forgangsröðunin sé á hreinu, lokaði sex sendiráðum og sendiskrifstofum og hún varði kjör þeirra verst settu með þeim hætti sem ég hef fyrr lýst.



[16:39]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2016 er komið til 3. umr. ætla ég að nýta mér þær 15 mínútur sem ég má tala um það í fyrri ræðu og fara aðeins yfir þá breytingartillögu sem minnihlutaflokkarnir flytja að þessu sinni. Hún er mjög einföld. Hún er einfaldlega um það að aldraðir og öryrkjar fái afturvirkar hækkanir eins og allir aðrir þjóðfélagshópar í landinu. Ég segi afturvirkar hækkanir, það má kannski segja að það séu ekki afturvirkar hækkanir á launamarkaði því að samið var um laun frá ákveðnum tíma en þannig er þetta.

Hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, sagði í morgun í aldeilis dæmalausri ræðu að 69. gr almannatryggingalaga væri kjararáð og kjaradómur þeirra hópa sem þiggja bætur. Hún talaði um að það væri skýrt ákvæði í þeirri lagagrein um hvernig þessar bætur skyldu hækka. Svo fjallaði hv. þingmaður um að í forsendum fjárlaga væri gert ráð fyrir 9,4% hækkun en þegar ný hagvaxtarspá hefði komið út varð ljóst að svigrúmið væri meira, eins og hún kallaði það í ræðunni, og þá var gert ráð fyrir 9,7% hækkun. Virðulegur forseti, þetta þýðir með öðrum orðum að í meðförum fjárlaganefndar út frá nýrri hagvaxtarspá voru lífeyristryggingar hækkaðar um 0,3 prósentustig. Hvaða upphæða skyldi það nú vera? Það eru 300 kr., segi ég og skrifa.

Þessi ríkisstjórn hælir sér alltaf af því að hafa á upphafsmánuðum sínum sumarið 2013 tekið til baka einhverjar skerðingar frá síðasta kjörtímabili. Það er kristaltært að frá og með þeirri aðgerð högnuðust ekki þeir sem minnst hafa heldur þeir sem gátu verið á vinnumarkaði eða höfðu fjármagnstekjur, í raun högnuðust aldraðir sem voru best settir. Þá höfðu greiðslur almannalífeyristrygginga hækkað um 6 þús. kr. í tíð núverandi ríkisstjórnar fram til 1. janúar á þessu ári. Ég hef alltaf sagt að þær hafi hækkað um 4 þús. kr. en það er ekki rétt, upphæðin er nánar tiltekið 3.496 kr. sem þær hækkuðu í upphafi þessa árs. Í tíð núverandi ríkisstjórnar til þess dags sem við ræðum nú þetta mál hafa þessar bætur hækkað um 9.496 kr. Það er allt og sumt.

Má ég minna á það, virðulegi forseti, að 1. janúar þegar þessar 3.496 kr. komu til aldraðra og öryrkja — það er ekki nema furða að maður fari hálfpartinn að hlæja yfir upphæðinni — var matarskatturinn hækkaður á sama tíma í boði ríkisstjórnarflokkanna og ýmislegt annað hefur hækkað. Þannig fáum við út 172 þús. kr. í dag. Það sem við erum að gagnrýna stjórnina mest fyrir er að hafa ekki fallist á að gera eins og við gerðum sumarið 2011 þegar samið var um kaup og kjör í landinu. Þá var 8% hækkun strax tekin á miðju sumri plús 51 þús. kr. eingreiðsla. Þá sýndum við í raun og veru fyrst lit eftir erfiðleikaárin okkar og hinn blóðuga niðurskurð um allt þjóðfélag. Við sögðum alltaf að um leið og áraði betur skiluðum við þessu til baka. Það er það sem er grunnurinn í málflutningi okkar núna. Af hverju í ósköpunum tekur ríkisstjórnin þann pól í hæðina að fara í stríð við aldraða og öryrkja, okkar minnstu bræður og systur, með því að neita afturvirkum hækkunum?

Í öllu fjárlagafrumvarpinu og í fjáraukalögunum er verið að setja inn peninga til að deila út til ríkisstofnana til að þær geti greitt starfsmönnum sínum afturvirkar hækkanir.

Virðulegi forseti. 9,7% ofan á tæplega 172 þús. kr. eru rétt um 17 þús. kr. fyrir skatt. Um hvaða upphæð erum við að ræða? Við erum að ræða um 11–12 þús. kr. eftir skatt sem hefðu verið greiddar frá 1. maí, sjö mánuði ársins, um 77–78 þús. kr. Ég man ekki alveg töluna sem hækkanir kjararáðs sögðu til um fyrir ráðherra en ég held að upphæðin hafi verið töluvert hærri. Eftir 1. janúar nk. verður upphæðin 186 þús. kr. Það er allt of sumt. Það segir sig sjálft, það lifir enginn á því. Um þessi mál standa þessar miklu deilur milli ríkisstjórnarflokkanna, stjórnarþingmanna og okkar sem erum í minni hluta, akkúrat um þessa tölu.

Hver er staða ríkissjóðs á þessu ári þegar loksins er búið að telja inn réttar arðgreiðslur frá Landsbankanum? Gert er ráð fyrir 22 milljörðum í fjáraukalagafrumvarpinu, en ég spái því og hef sagt það áður að þeir verði 32–33. Ég ætla að leyfa mér að halda hér á síðustu dögum þingsins að þegar við skoðum ríkisreikning fyrir þetta ár verði arðgreiðslurnar nær 35 milljörðum.

Hér hefur mikið verið talað um hvað þetta kostar. Þetta kostar um 10% af áætluðum fjárlagaafgangi sem ég hef talað um. Menn tala um 6 milljarða sem kostnaðarauka ríkissjóðs vegna þessa. Það er ekki rétt vegna þess að ríkissjóður fær skatt af þessum greiðslum þannig að nettó eru þetta ekki nema um 4 milljarðar kr. Aldraðir og öryrkjar eru um 47 þúsund talsins þannig að þetta fer nokkuð saman.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan um þessa tæplega 3.500 kr. hækkun í upphafi þessa árs þá breyttist ýmislegt annað en matarskatturinn. Það hefur orðið stórhækkun á húsaleigu og mjög margir öryrkjar eru í leiguhúsnæði. Skiljanlega hefur fólk með slíkar smánarbætur ekki efni á að kaupa sér húsnæði, hvað þá að reka það o.s.frv. Við getum rétt ímyndað okkur þegar þessar 186 þús. kr. eru teknar út og greidd húsaleiga og ýmislegt sem allir þurfa að greiða — það verður ekki mikið eftir.

Virðulegi forseti. Ég hitti öryrkja í erfidrykkju í gær í jarðarför þar sem hann lýsti kjörum sínum. Hann átti hámark 25–30 þús. kr. eftir í upphafi mánaðar til að lifa af. Viðkomandi tók sem dæmi að hann þyrfti að fá lyf sem einhverra hluta vegna féllu ekki undir greiðslukerfi lyfja sem við höfum talað um, níu lífsnauðsynleg lyf. Þessi öryrki þurfti að borga um 10 þús. kr. fyrir þau. Finnst okkur þetta boðlegt, virðulegi forseti?

Því miður hefur umræðan sem við höfum tekið hér um þessi mál ekki náð til stjórnarsinna. Sem dæmi eru nú við 3. umr. fjáraukalaga ekki margir hér í salnum að takast á um þetta mál eða útskýra fyrir okkur hvers vegna hækkanirnar voru ekki afturvirkar. Mér er það algjörlega hulin ráðgáta af hverju ríkisstjórnin, með þennan mikla afgang af fjárlögum þessa árs, hefur farið í þessa aðför gegn öldruðum og öryrkjum og neitað þeim um þær afturvirku hækkanir sem við erum að tala um og öll deilan snýst um. Það er alveg með ólíkindum.

Virðulegi forseti. Auglýsing Öryrkjabandalagsins er mjög sláandi. Hún er jafnframt mjög góð. Ég þakka Öryrkjabandalaginu fyrir að setja þetta fram á jafn skilmerkilegan hátt og birtist í blöðum að ég held í gær. Ég sá auglýsinguna í Fréttablaðinu en mér skilst að hún hafi birst í fleiri blöðum. Þar er sagt að samkvæmt könnum Gallups telji 95,4% Íslendinga að lífeyrisþegar eigi að fá jafn háa eða hærri krónutöluhækkun kjara og lægstu laun í nýliðnum kjarasamningum. Mér kemur þetta ekki á óvart vegna þess að ég held að það sé staðreynd að Íslendingar séu flestir jafnaðarmenn. Íslendingar eru þannig að þeir vilja að sínir minnstu bræður og systur sem hafa það verst fái hækkun, eins og þeir segja í auglýsingunni hjá Öryrkjabandalaginu, með leyfi forseta:

„Höfum þetta á hreinu“ og svo kalla þeir það stuttan minnislista handa stjórnvöldum frá okkur sem treystum á lífeyri almannatrygginga til framfærslu.

„Við sem það getum förum snemma á fætur og vinnum fullan vinnudag.

Mörg okkar urðu öryrkjar af því að vinna slítandi láglaunastörf áratugum saman.

Hver króna sem við þénum í laun getur valdið skerðingu lífeyriskjara.

Við greiðum skatt af lífeyrinum.“

Svo er fjallað um þá hækkun sem var í upphafi þessa árs, 3.496 kr. eftir skatta, og að eftir hækkun 1. janúar 2016 verði tekjur þeirra um 186 þús. kr. á mánuði eftir skatta. „Á því lifir enginn mannsæmandi lífi“, eða teljum við það, virðulegi forseti? Telur hv. þm. Páll Jóhann Pálsson að einhver geti lifað af 186 þús. kr. á mánuði eftir skatta? Við skulum nefnilega hætta að tala um upphæðina eins og hún er fyrir skatta vegna þess að hvorki við alþingismenn né aldraðir eða öryrkjar lifa af þeirri upphæð sem ríkissjóður tekur til sín í formi skatta. Þetta snýst allt um útborguð laun. Hv. þm. Karl Garðarsson, sem er í salnum, ætti líka að hugleiða þessi atriði eins og hv. þm. Páll Jóhann Pálsson. Um þetta vænti ég að við séum öll sammála. Hvers vegna hafa stjórnarþingmenn ekki barið í borðið í sínum þingflokkum og sagt: Ráðherrar góðir, forystumenn okkar, við getum ekki unað við það að aldraðir og öryrkjar fái ekki afturvirkar hækkanir eins og allir aðrir í þjóðfélaginu? Við verðum að greiða þetta út. Sem betur fer árar það vel núna hjá okkur Íslendingum að það er borð fyrir báru.

Virðulegi forseti. Að síðustu ætla ég að fjalla örlítið um þau orð sem féllu í ræðustól Alþingis í morgun og fara núna um netmiðlana á ljóshraða, þ.e. ræða hv. formanns fjárlaganefndar, Vigdísar Hauksdóttur, þar sem hún sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að mér finnst óeðlilegt að lægstu laun og bætur séu sama krónutala, mjög óeðlilegt. Það kostar að vera í vinnu, það kostar að hafa börn á leikskóla, þannig að ég lýsi nokkurri ábyrgð á verkalýðshreyfingu landsins fyrir að hafa ekki barist betur fyrir kjörum þeirra sem lægstu launin hafa.“

Svo er talað um að hátt í 10% vinnubærra manna séu skráðir öryrkjar á Íslandi. Virðulegi forseti, þetta er tóm þvæla. Það er mjög skrýtið að menn skuli voga sér að setja fram slíkar upplýsingar og þessar tölur. Ef þetta er það sjónarmið sem hefur ráðið för hjá hv. stjórnarþingmönnum þegar þeir láta stjórnarherrana sína neyðast til, ég leyfi mér að fullyrða að menn neyðist til þess, að fella tillögur okkar hér að viðhöfðu nafnakalli um þessar afturvirku hækkanir — ég hef sagt hér ýmis orð um skömm þeirra hvað það varðar en ég ætla ekki að gera það núna, ég ætla ekki að ítreka það enn einu sinni. Mér hefur fundist mjög slæmt að vera hér í ræðustól og tala um ýmislegt sem er að í þessum málum og skamma stjórnarþingmenn og annað sem ég hef sagt í því sambandi. Mér er svo gjörsamlega misboðið hvað þetta varðar. Þess vegna hafa þessar miklu og hörðu deilur verið á Alþingi við 2. og 3. umr. fjáraukalaga og svo vegna fjárlaga 2016.

Ríkisstjórnarflokkarnir ætla að halda áfram vegna þess að á árinu 2016 munu allflestir launþegar í landinu fá 5,5% launahækkun. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár er ekki gert ráð fyrir því að aldraðir og öryrkjar fái hækkun á sama tíma. Það var þess vegna sem ég sagði í gær í atkvæðaskýringum að það væri ekki hægt að túlka lögin á þennan hátt og ríkisstjórnin gæti ekki hagrætt hlutunum svona. Í raun og veru gæti ríkisstjórnin í þessu tilfelli barist fyrir því að skrifa ekki undir samning fyrr en 2. janúar hvers árs vegna þess að þá liðu 12 mánuðir óbættir hjá öldruðum og öryrkjum, ef menn ætla að túlka 69. gr. almannatryggingalaga á þann hátt sem ég tel rangt. Það er ekkert sem segir að þetta þurfi alltaf að vera um áramót. Á hinn bóginn væri ákaflega slæmt fyrir ríkissjóð, sérstaklega núverandi stjórnarherra, ef menn væru að semja um þessar mundir um kaup og kjör vegna þess að þá kæmu hækkanirnar miðað við þeirra túlkun til útborgunar 12 dögum seinna. Virðulegi forseti, þetta er rökstuðningur sem er ekki hægt að taka undir. (Forseti hringir.) Það er verið að notfæra sér þarna einhverja vitleysu. (Forseti hringir.) Menn hafa hafnað í einhverjum vitleysisskilningi og eru fastir í þessari þvermóðsku.



[16:55]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna og get tekið undir með honum að mestu leyti. Það er vert að halda til haga, eins og hann nefndi, gullkornunum sem fljúga hér eða öllu heldur þeim orðum sem falla sem verða væntanlega gulls ígildi og fólk ekki alveg jafn tilbúið að gleyma þegar kemur að því að velta fyrir sér hverjir eiga að sjá um stjórn landsins næst, en vonandi verða sem fyrst breytingar á því. Þingmaðurinn gerði margt að umtalsefni og ég ætla að dvelja við þá sem minna hafa og bera minnst úr býtum. Mér er svolítið hugleikið það sem kemur fram í rökstuðningi fjármálaráðuneytisins þar sem þeir segja að með því að hluta af hækkun ársins 2015 sé flýtt til 1. janúar og allri hækkun vegna ársins 2016 flýtt til 1. janúar fái lífeyrisþegar meira í sinn vasa en meðallaunþegi sem fengi borgað samkvæmt sömu launavísitölu án launaskriðs.

Þá er auðvitað 3% hækkun í byrjun þessa árs tekin með áður en samningar voru gerðir. Jafnvel þótt þeir væru teknir úr er það ósvífni að mínu mati að setja þetta fram á þennan hátt því að við vitum það öll að það er ekki þannig að fólk á hinum lægstu bótum beri meira úr býtum.

Mig langar til að benda á eitt, af því að það hefur gjarnan verið talað um alls konar lífeyri, uppbætur og guð má vita hvað. Ef til dæmis öryrki fær barnalífeyri þá skerðist lífeyrissjóðsgreiðsla hafi viðkomandi einhverja. Ég spyr: Er eðlilegt að mati þingmannsins að markmið laganna séu tekin til baka í gegnum lífeyrissjóðina? Ég spyr þingmanninn, af því að ég þekki það ekki: Heldur hann að við getum breytt þessu?



[16:57]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sem svar við þessari spurningu má vísa til áralangrar vinnu sem menn hafa unnið varðandi tryggingakerfið. Sífellt eru skipaðar nefndir og skrifaðar skýrslur en lítið verður úr framkvæmd hvað það varðar. Ef ég skildi þingmanninn rétt með barnalífeyrinn er það þannig að ef hann er greiddur út skerðast lífeyrissjóðsgreiðslur. Við þurfum ekki annað en að fara inn í reiknivél Tryggingastofnunar og leika okkur svolítið með hana. Hún er afar flott þessi greiðsluáætlun og reiknivél og það er mjög gaman að sjá hvernig þetta fer allt saman. Til dæmis ef menn eru ekki með lífeyrissjóðsgreiðslur og slá inn ákveðna upphæð og sjá að upphæðin sem greidd er út er nákvæmlega sú sama en það lækkar bara það sem Tryggingastofnun greiðir út fyrir ríkið. Eins og hv. þingmaður sagði um barnalífeyrinn þá skerðast lífeyrisgreiðslur, ef þær eru þá til staðar. Við skulum hafa í huga að það eru mjög margir örorkuþegar sem hafa engar lífeyrissjóðsgreiðslur og hafa ekki úr neinu að spila þar.

Það er auðvitað það fólk sem við erum að berjast hvað mest fyrir. Ég kvíði því ekkert voðalega mikið eftir nokkur ár eða áratug hvernig lífeyrissjóðakerfið hefur þróast. Það er stórt og öflugt hjá okkur þótt maður sé ekki ánægður með allt þar inni. En það mun að sjálfsögðu spila miklu meira inn í þessar greiðslur hjá okkur sem yngri erum og erum á þeim aldri sem við erum í dag heldur en við erum að tala um.

En alltaf þurfum við samt sem áður að hugsa um þá sem eru ekki með neinar lífeyrisgreiðslur, þar sem barnalífeyririnn skerðir ekkert hjá þeim. En hefur stjórnarmeirihlutinn ekki verið að fikta eitthvað í barnalífeyrinum líka á þessu hausti?



[16:59]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með þingmanninum. Eins og ég sagði eru það þeir sem fá lífeyrisgreiðslur en það eru margir sem fá þær ekki. Við erum að tala um þá sem hafa lægstu tekjurnar. Forsætisráðherra sagði að það þyrfti skynsemi við stjórn landsins til að bæta úr og samkvæmt Talnakönnun sem ríkisstjórnin notar sjálf við útreikninga er áberandi kjaragliðnun í þessum hópi, sem við í stjórnarandstöðunni höfum verið að reyna að rekja til að koma þessu sjónarmiði á framfæri og hrekja það sem hefur verið lagt fram.

Við vorum að ræða fyrr í dag ýmsar forsendur fjárlaga en áður en ég tala um það ætla ég að segja að það fyrsta sem við þyrftum að gera væri að skerða krónu á móti krónu í þessu kerfi. Varðandi lyf og hjálpartæki, hefði þingmaðurinn ekki viljað sjá virðisaukaskattinn afnumin eða í það minnsta færðan í lægra þrepið á þessum lyfjum og hjálpartækjum? Það var gert við brennivínið.



[17:01]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alltaf spurning hvernig á að fara með hlutina í virðisaukakerfinu og lagfæringar sem menn telja sig stundum vera að gera til að gera skilvirkni greiðslna meiri eru auðvitað mikilvægar. Ég held að aðalatriðið sé að koma vel til móts við þá sem þurfa til dæmis mikið af lyfjum og annað slíkt. Það er hægt að gera í gegnum kerfið, eins og við gerum reyndar í dag þótt ef til vill þurfi mikið að laga það miðað við dæmið sem ég tók áðan.

Af því að hv. þingmaður vitnaði í hæstv. forsætisráðherra sem sagði að það þyrfti skynsemi við stjórn landsins — já, hana hefur alltaf þurft. En ég ætla að leyfa mér að halda því fram, virðulegi forseti, að sá ávinningur sem er að koma inn í íslenskt samfélag og við sjáum í fjárlagafrumvarpinu og fjáraukalögunum er ekki eingöngu vegna starfa og stefnu þessarar ríkisstjórnar. Við skulum aðeins rifja það upp að heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um 70% (Forseti hringir.) á ekki löngum tíma, það er lág verðbólga, mjög mikið af ferðamönnum, metár hjá sjávarútveginum. Nú eru þau skilyrði fyrir hendi sem við sögðum í síðustu ríkisstjórn að mundu koma og þá ætti að skila til baka (Forseti hringir.) til aldraðra og öryrkja. Við það stöndum við.



[17:02]
Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil spyrja hv. þingmann út í hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans misskilji eitthvað þegar þeir tala um að kjör aldraðra og öryrkja séu í góðu lagi og í samanburðinum við lægri laun verði þeir hópar komnir með það allt saman 1. janúar 2016. Hv. þm. Karl Garðarsson sagði í andsvari við hv. þm. Össur Skarphéðinsson fyrr í umræðunni eitthvað á þá leið að með hækkuninni upp á 9,7% væri afturvirknin komin. En heildarlaun þeirra sem fá greiddan lífeyri á árinu 2015 með 3% hækkuninni sem kom 1. janúar 2015 eru 2.700 millj. kr. Það eru 260 þús. kr. lægri árslaun en hjá þeim sem eru á lægstu laununum, þannig að það munar um 260 þús. kr. á árinu 2015. Svo kemur árið 2016 og þeir sem fá lífeyri hækka um 9,7% 1. janúar og þau kjör haldast út árið. Heildarárslaunin verða 2.964 millj. kr., en hjá þeim sem lægstu launin hafa verða árslaunin 3.180 millj. kr. með hækkuninni 1. maí 2016. Þarna munar 216 þús. kr. Samt halda stjórnarliðar því fram að afturvirknin verði komin 1. janúar og þess vegna sé í lagi að samþykkja þá áætlun (Forseti hringir.) sem upp er sett.



[17:04]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, það er alveg rétt, hv. þm. Oddný G Harðardóttir fór mjög vel yfir þessar tölur í morgun. Hún spyr mig hvort ég telji að stjórnarliðar misskilji annars vegar lögin og hins vegar hækkanir á hinum almenna markaði. Ég verð að segja já við því. Ég geri mér ekki grein fyrir hvernig í ósköpunum svona misskilningur getur orðið til. Ég held að þetta sé frekar þráhyggja og að þessir tveir flokkar séu bara ekkert að hugsa um aldraða og öryrkja. Mér finnst það alveg með ólíkindum að þeir skuli hanga á því umræðu eftir umræðu, mínútu eftir mínútu að 69. gr. almannatryggingalaga segi að þetta eigi bara að hækka bætur um áramót, eins og mér finnst rökstuðningurinn alltaf vera. Það er ekkert í lögunum sem segir að það eigi bara að gera það um áramót. Það er ekkert sem bannar að gera það á miðju ári.

Ég ætla ekki eitt augnablik að halda því fram að síðasta ríkisstjórn hafi brotið lög sumarið 2011 þegar við hækkuðum allar þessar bætur um 8% og 51 þús. kr. eingreiðsluna. Við vorum ekki að brjóta lög með því. Alls ekki. Við tókum bara strax á málunum. Sem rökstuðning fyrir því tek ég aftur dæmin um það hvenær kjarasamningar eru gerðir. Þá er alveg útilokað að leggja þetta fram. Ég verð bara að segja það, virðulegi forseti, sem svar við þessu. Ég skildi heldur ekki svarið áðan hjá hv. þm. Karli Garðarssyni um að þá væri afturvirknin komin, eins og hv. þingmaður sagði. Ég segi það bara enn og aftur: Það þarf ekki að bæta við það sem hv. þingmaður sagði í morgun, að munurinn á lægstu launum og greiðslum almannatrygginga verður sá munur sem hv. þingmaður er að fjalla um.



[17:07]
Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að umræðan í þingsal um þessi mál hafi orðið til þess að það renni upp fyrir hv. þingmönnum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins að það sé ekki alveg rétt að búið sé að þvæla með tölurnar fram og til baka og það er ekki rétt þegar við skoðum krónutöluna. Annað sem haldið hefur verið fram af formanni fjárlaganefndar er að hlutfall öryrkja af íbúum Íslands séu 10% og það sé hærra en annars staðar á Norðurlöndunum. Það er rangt. (Gripið fram í.) Hlutfall öryrkja af íbúum 18–66 á Íslandi er 10% á meðan það er 11–14% annars staðar á Norðurlöndunum. Raunin er sú að hún er lægst hér en það hefur verið að fjölga í þeim hópi og auðvitað eigum við að skoða hvernig á því stendur og bregðast við því með stuðningi. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki líka áhyggjur af því að formaður fjárlaganefndar fari enn með rangt mál hvað þetta varðar.



[17:08]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að svo sé. Ég ber þá von í brjósti að það renni upp fyrir stjórnarþingmönnum hver raunin er og þeir sjái ljósið hér við atkvæðagreiðslu á morgun við 2. umr. fjárlaga og viðurkenni það bara að þeir hafi lent í einhverju fúafeni, að einhverjir hafi tekið fyrir þá ákvörðun sem er kolröng og að menn samþykki afturvirka hækkun til öryrkja og aldraðra. Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það, væntanlega umræðu við nafnakall á morgun, að þeir ætli að halda þessu áfram. Ég held að öll umræðan hér hafi sýnt vel fram á annað. Hv. þingmaður ræddi um það sem fram kom í morgun hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að hátt í 10% fólks hér á landi væru skráð öryrkjar. Ég verð bara að viðurkenna að ég hef ekki haft tækifæri til að skoða þetta dæmi og hef ekki gögn um það, en ég segi fyrir mitt leyti að ég var svo rasandi hissa á þessari umræðu í morgun. Mér datt í hug eitt augnablik að ef þetta eru (Forseti hringir.) sjónarmiðin sem lögð hafa verið fyrir stjórnarþingmennina og þeir hafa ekki kynnt sér hlutina betur, óbreyttir þingmenn, þá skil ég vel af hverju ríkisstjórnin er komin í þetta fúafen.



[17:09]
Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar til að benda hv. þingmanni á muninn á Samfylkingunni og Framsóknarflokknum, hann er kannski sá að Samfylkingin er sífellt að reyna að bregðast við einhverjum skoðanakönnunum, hvernig málin standa akkúrat, hvað er vinsælast í það og það skiptið, á því augnabliki. Þeir hafa verið að státa sig af því að fyrri ríkisstjórn hafi hlíft þeim verst settu og ekki ætla ég að þræta fyrir það, eflaust rétt. En hvað er þessi ríkisstjórn að gera? Er ekki verið að hlífa þeim verst settu? Núna 1. janúar verða þeir verst settu, þeir sem búa einir, einstæðingur sem býr einn, með tæplega 2 þús. kr. hærri laun eða bætur eða hvað við köllum það en sá sem er í fullri vinnu á lægstu launum. Þannig að ég er alla vega á því að bætur hjá þeim verst settu fylgi lægstu launum. Ég get tekið undir að það eru ekki háar upphæðir, ég skal taka þann slag með hv. þingmanni að hækka lægstu laun. Varðandi þróunina næstu árin er stefnt að því að lægstu laun verði komin í 300 þús. kr. árið 2018 og bætur munu fylgja þeim þannig að ég spyr hv. þingmann: Er það ekki ágætismarkmið að láta þetta fylgjast að? (Forseti hringir.) Núna er það þannig að bæturnar verða hærri fyrri part árs en lægri seinni part árs.



[17:12]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hirði ekki um það að gera einhvern mun á Samfylkingu, Framsókn og skoðanakönnunum, ég geri það ekki, en hv. þingmaður spyr mig hvað þessi ríkisstjórn er að gera og þá væntanlega í málefnum aldraðra og öryrkja. Hún hefur gert þetta. Hún hækkaði frá fyrstu dögum sínum til síðustu áramóta launagreiðslur til aldraðra og öryrkja um 6 þús. kr. eftir skatt. Hún hækkaði þær launagreiðslur um síðustu áramót um 3.496 kr. á mánuði og tók þær allar til baka í formi hækkaðs virðisaukaskatts á matvæli og ýmsu öðru sem dundi þá yfir. Núna ætlar hæstv. ríkisstjórn að svíkja aldraða og öryrkja um afturvirkar hækkanir um 11–12 þús. kr. eftir skatt frá og með 1. maí síðastliðnum að minnsta kosti og setja það inn núna þannig að af hendi ríkisstjórnarinnar verða lágmarksbætur almannatrygginga 186 þús. kr. í upphafi næsta árs. Hver getur lifað af því, virðulegi forseti? Ég ætla ekki að spyrja hv. þingmann hvort hann geti það því ég veit svarið. Við getum það ekki. Þess vegna segi ég, þetta er einn mesti smánarbletturinn á þessu landi hvað við gerum í þessum málaflokki og það er okkar að breyta því.

Mér er það algjörlega hulin ráðgáta eins og ég hef áður sagt, af hverju þingmaður eins og Páll Jóhann Pálsson beitir sér ekki fyrir þessu sanngjarna atriði að afturvirka hækkunin komi á þessu ári. Ég er sammála hv. þingmanni og það hefur þá eitthvað náðst fram því ég hef heyrt það sama á nokkrum framsóknarmönnum um þær kjarabætur sem samþykktar voru sem miða að 300 þús. kr. lágmarkslaunum 1. maí 2018, hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa lofað því hér. Ég hef ekki heyrt marga sjálfstæðismenn tala um það en ég veit alveg hvað ég get talað um við næstu fjárlagagerð við hv. þingmenn ef þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) verður við völd þá, sem ég vona auðvitað ekki.



[17:14]
Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það veit enginn, en eins og ég sagði áðan þá erum við ekki að spila eftir skoðanakönnunum akkúrat á líðandi stundu, það er dómur kjósenda sem sker úr um það hverjir verða við völdin 2018. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki verið sammála mér um að það sé hagstæðara til lengri tíma að bæta þeim upp þessa afturvirku hækkun þannig að við hækkum prósentuna frá því sem hún var í frumvarpinu, úr 9,4% í 9,7%, þannig að í staðinn fyrir að skipta hækkuninni í tvennt og vera með lægri prósentu um áramótin er prósentan hærri þannig að á einhverjum tímapunkti (Forseti hringir.) er búið að vega þessa afturvirku hækkun upp. Getum við ekki verið sammála um að til lengri tíma sé hagstæðara að hafa hærri prósentu nú um áramótin en að hafa hana lægri?



[17:16]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú hefði ég gjarnan viljað eiga meiri tíma í andsvar en eina mínútu til að fara yfir þessa hagfræði. Þetta snýst einfaldlega um það að af öldruðum og öryrkjum er verið að hafa um 11–12 þús. kr. eftir skatt í sjö mánuði á ári, tæplega 80 þús. kr. eftir skatt. Það er sú upphæð sem aldraðir og öryrkjar hefðu átt að fá í eingreiðslu núna um þessar mundir, greidda út. Um það sem hv. þingmaður talar svo um, meðferð fjárlaganefndar og hækkun frá frumvarpi ríkisstjórnar úr 9,4% í 9,7% og þá hagfræði, þá verð ég bara að spyrja eins og áðan, hvað er þetta mikil upphæð? Þetta eru 300 kr. Hvað kostar kók og pylsa í dag? Ég veit það ekki en ég held að það kosti meira. Þetta er nú þær ölmusugjafir sem ríkisstjórnin telur sig vera að koma með milli umræðna um fjárlögin. Hækkunin þarna sem er út frá einhverri annarri hagvaxtarspá en ríkisstjórnin hafði er 300 kr.

Aðalatriðið er þetta: Ríkisstjórnarflokkarnir hafa neitað að greiða afturvirkar (Forseti hringir.) greiðslur til þessara hópa eins og annarra og það er verið að hýrudraga þá um um það bil 80 þús. kr. eftir skatt í dag.



[17:17]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar í upphafi ræðu minnar við 3. umr. um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015 að segja að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum hér í dag þegar fram kom að ekki væri breytingartillaga frá meiri hluta hv. fjárlaganefndar. Ég hafði satt að segja leyft mér að vera svo bjartsýn að vona að það kæmi tillaga frá meiri hluta nefndarinnar um að endurskoða málin og bæta við peningum svo að hægt væri að veita öldruðum og öryrkjum kjarabætur afturvirkt fyrir árið 2015.

Ég ætla einmitt að nota ræðutímann minn við 3. umr. til að ræða kjör aldraðra og öryrkja. Meiri hluti Alþingis hafnaði tillögu minni hlutans, sem lögð var fram við 2. umr., um að tryggja að öryrkjar og aldraðir fengju sambærilegar launahækkanir frá 1. maí sl. og samið hafði verið um við launþega á hinum almenna vinnumarkaði.

Í nefndaráliti minni hluta hv. fjárlaganefndar kemur fram að í ljós hafi komið að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi í útreikningum sínum 3% launahækkun sem kom í byrjun árs 2015, en sú hækkun tengist ekki þeim kjarasamningum sem hafa verið gerðir á hinum almenna vinnumarkaði, eins og segir í nefndaráliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„Því vantar þessa hækkun inn í bótaflokka aldraðra og öryrkja. Einnig hefur komið í ljós að við útreikningana sleppir fjármála- og efnahagsráðuneytið launaskriði sem hefur orðið og lækkar með þeim hætti kaupmátt eldri borgara og öryrkja.“

Sú sýn eða það viðhorf hefur komið fram hjá þó nokkrum þingmönnum meiri hlutans, sem og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við þessa umræðu, að bætur og lægstu laun eigi ekki að vera sama tala. Mig langar að ræða það út frá nokkrum hliðum. Það fyrsta sem ég vil segja er að lágmarkslaun eru allt of lág. Þau þarf að hækka. Það er alveg sérverkefni sem ég tel að við sem heilt samfélag þurfum að ráðast í. Hins vegar er ég í prinsippinu ósammála því að kjör þeirra sem eru á lífeyri, annaðhvort sökum þess að vera með einhvers konar skerðingu sem leiðir til fötlunar sem leiðir til þess að fólk getur ekki verið þátttakendur á vinnumarkaði eða vegna þess að fólk getur ekki verið á vinnumarkaði sökum aldurs — ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að ég vil ekki búa í samfélagi þar sem kerfisbundið er ákveðið að þessir hópar eigi að vera lægst settir í samfélaginu.

Það fylgir því auðvitað kostnaður að reka velferðarkerfi. Þetta hef ég rætt um í ræðum mínum bæði um fjárlög og í fyrri ræðum um fjáraukalögin. Þetta kom glögglega í ljós í morgun þegar greidd voru atkvæði um bandorminn svokallaða þar sem meiri hluti þingsins samþykkti skattalækkanir sem lækka mest skatta hjá hátekjufólki. Þessar skattkerfisbreytingar skila sér síst til þeirra sem hafa lægstu ráðstöfunartekjurnar. Með þessum breytingum meiri hluta þingsins er verið að minnka tekjurnar sem ríkissjóður hefur um 11 milljarða. Það er reyndar talað um að þetta muni gera að verkum að tekjurnar lækki um 11 milljarða á næstu tveimur árum. Það er nákvæmlega það sem mundi kosta að fjármagna breytingartillögur minni hluta hv. fjárlaganefndar. Þarna getur fólk bara vegið og metið. Hvort finnst því sanngjarnara að ríkissjóður afsali sér tekjum og geti þar með gert minna, m.a. fyrir þennan hóp, eða sleppi því að fara í þessar breytingar á skattkerfinu og eigi þar með fyrir því að bæta kjör þeirra sem hvað verst eru settir í samfélaginu? Þetta er önnur hlið á málinu sem mig langar að ræða hér.

Annar vinkill sem mér finnst mikilvægt að nefna er að ég fæ ekki betur séð en að verið sé að reyna að gára vatnið eða drepa einhvern veginn umræðunni á dreif með tali um fólk sem sé að svindla eða bótasvik. Fyrst gerði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra það þegar hann talaði um unga karlmenn sem væru á lífeyri. Þá hefur stundum í því samhengi verið talað um unga menn sem flosna upp úr námi og finna sér ekki stað í tilverunni og fara á bætur. Í fyrsta lagi vil ég segja að auðvitað þurfum við að hafa kerfi sem getur brugðist við því að hópur manna finni sér ekki samastað, ef svo má segja, í samfélaginu. Það gerum við meðal annars með því að hafa greiðan aðgang inn í framhaldsskólana, nokkuð sem hefur verið skert í tíð þessarar ríkisstjórnar með því að setja aldurstakmark þannig að framhaldsskólarnir eru ekki lengur opnir fyrir þeim sem eru 25 ára og eldri. Það væri eitt skref að taka þessa breytingu til baka til að auka möguleika þessara ungu manna og jafnvel alls ungs fólks sem einhverra hluta vegna hefur flosnað upp úr námi og finnur ekki alveg sína fjöl í samfélaginu. Í þessu dæmi nefndi hæstv. ráðherra sérstaklega unga karlmenn. Ég fór af því tilefni inn á vef Tryggingastofnunar ríkisins og fletti því upp. Karlmenn yngri en 30 ára sem eru á lífeyri eru 870. Hins vegar eru allir lífeyrisþegar á landinu, ef mér reiknast rétt til, yfir 45 þúsund. Það er því verið að gera ansi stórum hóp óleik með því að vilja ekki hækka ráðstöfunartekjur þeirra með vísan í að mögulega séu einhverjir ungir karlmenn að misnota kerfið með því að fara á lífeyri. Mér finnst verulega ósanngjarnt að setja málið í þetta samhengi.

Málin hafa verið sett í ansi skrýtið samhengi í umræðunni hér. Þess vegna verð ég að koma inn á ummæli hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur fyrr í dag þegar hún sagðist alltaf hafa verið þeirrar skoðunar að henni fyndist óeðlilegt að lægstu laun og bætur væru sama krónutala. Hún benti á að það kostaði að vera í vinnu. Það er alveg rétt, það er ýmis kostnaður sem fellur til við að vera í vinnu, en það kostar líka að búa við einhvers konar skerðingu. Alls konar kostnaður leggst á lífeyrisþega í þyngri mæli en á fullfrískt fólk eða yngra fólk. Við getum nefnt lyf og hjálpartæki sem dæmi því að bæði lyf og hjálpartæki kosta svo sannarlega mikið.

Svo leyfði hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sér, sem einnig er formaður hv. fjárlaganefndar, að grauta saman bótasvikum, sem eru auðvitað til, við almenn skattsvik og tókst þannig að toga upphæðirnar upp í svimandi tölur sem hlupu á tugum milljarða og nefndi hreinlega að það gæti verið að tæplega 100 milljarðar skiluðu sér ekki inn í kerfið. Það er nokkuð ljóst að það er ekki vegna bótasvika lífeyrisþegar sem þessir 100 milljarðar skila sér ekki inn í kerfið. Það held ég að sé nokkuð ljóst. Mér finnst gríðarlega ósanngjarnt að setja hlutina í þetta samhengi.

Ég velti fyrir mér hvort sé verið að reyna að drepa málunum á dreif vegna þess að stemmningin í samfélaginu er sú að lífeyrisþegar eigi að fá sömu kjarabætur og aðrir hópar í samfélaginu, og vegna þess að það er stemmningin í samfélaginu sé allt tínt til til að gára vatnið og gera þessa hópa tortryggilega. Ég ætla rétt að vona að almenningur falli ekki fyrir þessum ódýru trixum.

Tíminn er alveg að fljúga frá mér. Ég hef svo oft talað úr þessum ræðustól um að alltaf þegar við erum að ræða málin verðum við að hugsa þau í samhengi. Það á ekki hvað síst við þegar kemur að fötluðu fólki. Ég átta mig á að allt fatlað fólk er ekki lífeyrisþegar en öryrkjar eru svo sannarlega partur lífeyrisþega og þeir búa við skerðingar sem margar hverjar leiða til fötlunar. Þess vegna langar mig að minna á að hæstv. ríkisstjórn vinnur að því að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar fjallar ein greinin um viðunandi lífskjör. Þegar ég lýk máli mínu langar mig að minna hæstv. ríkisstjórn og þingmeirihlutann á að það er ekki hægt að gera eitthvað í einum lögum en gera svo eitthvað allt annað með öðrum lögum. (Forseti hringir.) Það hlýtur að þurfa að hugsa þetta í samhengi.

Að lokum af því að tími minn er búinn: Takk, kæri minni hluti hv. fjárlaganefndar, fyrir að (Forseti hringir.) leggja breytingartillögu ykkar aftur fram.



[17:33]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eins og kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni er gerð önnur atlaga að því að reyna að ná fram leiðréttingu á kjörum aldraðra og öryrkja með því að leggja fram þessa breytingartillögu við 3. umr. um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015. Við sem styðjum þá breytingartillögu höfum í þessari umræðu allri, við 2. umr. og nú við 3. umr., dregið fram rök fyrir því að það sé svo sannarlega réttlætanlegt og sanngjarnt að þeir hópar séu ekki skildir eftir eina ferðina enn og að þeir fái sömu kjarabætur á þessu ári og aðrir launþegar í landinu.

Mér fannst það ágætt hjá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur að draga hér fram í krónutölum hver lægstu laun væru árið 2015 og hverjar bæturnar væru til samanburðar. Bæturnar eru 260 þús. kr. lægri en lægstu laun á ársgrundvelli 2015. Það er ekki flóknara en það. Lægstu laun fyrir þetta ár eru 2,7 millj. kr. og 260 þús. kr. vantar upp á að öryrkjar og eldri borgarar fái sömu grunnbætur. Á næstu ári munar þetta enn þá miklu, þó að stjórnarliðar séu sífellt að reyna að telja okkur trú um að svo sé ekki. Það er orðið svolítið þreytandi að fylgjast með þessari umræðu og taka þátt í henni á þeim forsendum að einhver ágreiningur sé um hvað er satt í þeim efnum, hverjar séu staðreyndir, hvernig verið er að villa um fyrir fólki í þessari umræðu. Á næsta ári verða lægstu laun 3.180 millj. kr. en það vantar 216 þús. kr. upp á að elli- og örorkulífeyrisþegar nái þeirri upphæð, þeir sem eru á lágmarksgrunnlífeyri, eins og ég skil þetta.

Umræðan hefur líka snúist um það að öryrkjar séu orðnir allt of margir á Íslandi, það sé bara orðið til vandræða. Þess vegna verði menn að stíga niður fæti og stemma stigu við þeirri fjölgun. Ég get alls ekki tekið undir orð hv. formanns fjárlaganefndar sem talar í þessa átt og raunar líka hæstv. fjármálaráðherra og fleiri innan stjórnarliðsins. Mér finnst það vera umræða á lágu plani að tala með þessum hætti.

Fram hefur komið í samantekt hjá Stefáni Ólafssyni prófessor hvernig þetta hlutfall er á Íslandi miðað við önnur Norðurlönd. Vísað er til ársins 2013 og þar segir Stefán Ólafsson í samantekt sinni, með leyfi forseta:

„Ísland er árið 2013 með lægst hlutfall fólks á vinnualdri sem er á einhverjum lífeyri, eða um 10%, á meðan hinar norrænu þjóðirnar eru með 11% til 14%.

Langflestir þessara lífeyrisþega á vinnualdri eru með örorkulífeyri, en aðrir eru á endurhæfingarlífeyri, örorkustyrk eða hafa farið snemma á ellilífeyri.

Ísland er sem sagt með hlutfallslega færri örorkulífeyrisþega en hin Norðurlöndin, á heildina litið.”

Mér finnst mjög gott að fá svona samantekt þar sem þessar staðreyndir eru dregnar fram.

Svo er þessi umræða sem er svo sem ekki bara bundin við hv. formann fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur, að eitthvað óeðlilegt sé við það að bætur aldraðra og öryrkja fari fram úr lægstu launum. Sú sem hér stendur hefur frá því hún fór að hafa eitthvert vit í kollinum barist fyrir bættum kjörum þeirra sem eru á lægstu launum og heldur því vonandi áfram það sem eftir er. En þetta er bara ekki alveg sambærilegt. Það verða alltaf einhverjir launataxtar lægstir. Þannig er það bara. En sem betur fer er það ekki alltaf sama fólkið sem er bundið við þá taxta. Það er hreyfing á því fólki. En þeir sem eru orðnir eldri borgarar og njóta ellilífeyris og þeir sem eru orðnir öryrkjar hafa alla jafna ekki möguleika á að hreyfa sig neitt til að afla aukinna tekna og eru fastir á þessum bótum það sem eftir er. Auðvitað eru til sem betur fer einhverjir öryrkjar og jafnvel ellilífeyrisþegar sem hafa einhverja möguleika á að afla sér einhverra tekna og auðvitað eru til í þessum hópum einhverjir sem eru betur staddir fjárhagslega og eiga fjármagn á reikningum og allt það. Við vitum allt um það. En sá hluti sem getur ekki og hefur ekki þá möguleika eða tekjur, á ekki eignir og lifir á þessum grunnlífeyri, hann er bara pikkfastur þar og verður það sem eftir er. Mér finnst að þarna þurfi að horfa á þetta með sanngirnissjónarmiðum. Þetta er ekki sambærilegt. Auðvitað á að halda áfram að berjast fyrir hærri lægstu töxtum, þeir eru náttúrlega bara til skammar eins og við vitum öll, þó að náðst hafi sá áfangi að hækka upp í 300 þús. kr. og á árinu 2018 verði lægstu laun komin þangað. En að vera alltaf að etja þessum hópum saman er svo ómerkilegt, finnst mér. Mér finnst það vera svo sorglegt að það fólk sem hefur meira en nóg með að reyna að halda utan um það litla sem það hefur á milli handanna, að ekki þurfi að fara að etja þeim saman í samanburði og það sé svona aðalmálið að hugsanlega séu einhverjir öryrkjar sem hafa það eitthvað betra en þeir sem eru á lægstu töxtum hverju sinni. Þá undirstrika ég að sem betur fer hafa einstaklingar möguleika á því að hækka sig upp í töxtum, njóta launaskriðs og afla sér menntunar og fá betri kjör í framhaldinu eins og við þekkjum í þeim efnum.

En það er líka rétt að mikið áhyggjuefni er fjöldi ungra öryrkja. Ég hef áhyggjur af því og það hafa fleiri. Við eigum að gera allt sem við getum til að styðja það unga fólk sem verður öryrkjar, hvort sem það er vegna geðrænna sjúkdóma eða líkamlegs tjóns eða hvað það er. Hluti þessa hóps hefur möguleika á að fá stuðning og að geta komist jafnvel aftur út á vinnumarkaðinn. Sumir hafa ekki nokkra möguleika til þess. Þetta er auðvitað mjög ólíkur hópur innbyrðis. Það er ekki eitthvert samasemmerki þar á milli. Það að búið sé að skella í lás fyrir nemendur 25 ára og eldri í bóknámi í framhaldsskólum kemur líka illa við þá hópa. Ungt fólk sem einhverra hluta vegna hefur fallið út úr námi og hefur svo tækifæri til þess að öllu jöfnu að fara aftur og ljúka námi sínu og afla sér tækifæra í framhaldinu, því er gert miklu erfiðara fyrir með því að loka framhaldsskólunum fyrir 25 ára og eldri. Svo að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar beinast svona með neikvæðum formerkjum gagnvart þeim hópi, finnst mér. Það þarf að vera aukinn almennur stuðningur við þennan hóp sem hefur möguleika á atvinnuþátttöku. Það þarf að vera jákvæðara viðhorf, bæði innan atvinnulífsins og af hálfu stjórnvalda. Það þarf líka að vera fjárhagslegur ávinningur öryrkja að fara aftur út í atvinnulífið og vera þátttakendur, þó það sé ekki nema að hluta til, með því þá að ríkisvaldið dragi úr skerðingum örorkulífeyris vegna eigin atvinnutekna. Sá sveigjanleiki sem þarf að vera á vinnustöðum fyrir fólk með skerta vinnugetu þarf líka að vera til staðar. Þannig er það í fæstum tilfellum í dag, því miður, þó að undantekningar séu á því.

Við í stjórnarandstöðunni höfum, þótt ég segi sjálf frá, verið óþreytandi undanfarnar vikur að tala fyrir þeim sjónarmiðum, að það sé rétt, eðlilegt og sjálfsagt að eldri borgarar og öryrkjar fái að lágmarki þessar afturvirku hækkanir til samræmis við aðra launþega í landinu. Við höfum talað fyrir daufum eyrum stjórnvalda en sjáum auðvitað ekki eftir einni mínútu í þá umræðu. Það er líka svo gott að finna að í þjóðfélaginu eru sömu sjónarmið uppi og eru hér á þingi hjá stjórnarandstöðunni. Yfir 90% landsmanna vilja að kjör lífeyrisþega verði með sama hætti og annarra launþega og að þeir fái afturvirkar hækkanir frá 1. maí á þessu ári. Þess vegna er alveg furðulegt að ríkisstjórnin ákveði að setja undir sig hausinn og gera ekkert með það, að vilji landsmanna og stjórnarandstöðunnar er svona. Og auðvitað eru aldraðir og öryrkjar búnir að sanna og sýna fram á í málflutningi sínum að þeir eiga svo sannarlega skilið að fá þessa leiðréttingu. Þegar menn eru að hrósa sér af 10 þús. kr. eftir skatta, sem kjör þessara hópa hafi batnað um á síðustu þrem árum, er það nú létt í vasa. Ef menn mundu fá þessar hækkanir aftur í tímann væri verið að tala um 80 þús. kr. eftir skatta, eins og ég skil það. Fólk munar um það.

Í þessum útgjaldamánuði flestra þar sem fólk reynir að gleðja sitt fólk og gera sér einhvern dagamun um jólahátíðina þá er það sorglegt í stóra samhenginu þegar verið er að lækka skatta á þá tekjuháu eins og kom hér fram í dag í frumvarpinu um forsendur fjárlaga. Enn eina ferðina er haldið áfram að lækka skatta og það þýðir ekkert annað en það að menn eru að forgangsraða í þágu hinna efnameiri, auka misskiptingu í landinu á kostnað þeirra sem minna mega sín, hvort sem um er að ræða hópa aldraðra eða öryrkja. Þetta er nú bara, eins og sagt hefur verið, dólgahægristefnan sem keyrir hér um þverbak og kemur svona fram. Við því verður að bregðast og reyna að koma þessum stjórnvöldum frá sem fyrst áður en þau hafa eyðilagt meira í velferðarkerfinu.



[17:48]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna og baráttuna hér undanfarna daga. Ég get ekki litið öðruvísi á en að þær tillögur sem fréttir eru fluttar af að séu komnar frá ríkisstjórninni, vegna 3. umr. fjárlaga, um meira en einn milljarð króna til Landspítalans, séu sannarlega tengdar því að málflutningur okkar hér í stjórnarandstöðunni hafi verið að skila sér og það sé að minnsta kosti komið til móts við þær óskir sem stjórnendur spítalans settu fram. Ég vona líka að komið sé til móts við sjónarmið í ríkisútvarpsmálinu. En tekur þingmaðurinn ekki undir að það sé kannski mikilvægast, af þeim atriðum sem við höfum verið að halda stjórnvöldum við efnið í, að aldraðir og öryrkjar fái þá afturvirku hækkun sem þeim mun gefast kostur á að styðja í breytingartillögu okkar varðandi fjáraukalagafrumvarpið? Að þar sé þessi mikilvæga spurning um jafnræði fólksins í landinu, að aldraðir og öryrkjar fái kauphækkanir frá sama tíma og aðrir?

En sem sagt: Ég fagna því, ef þetta er rétt sem frá hefur verið greint, að náðst hafi fram milljarður í Landspítalann. Það munar nú um minna til að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem þar eru. En hefur þingmaðurinn trú á því að ríkisstjórnin muni sömuleiðis koma til móts við þau sjónarmið sem við höfum haft hér uppi um aldraða og öryrkja og þá afturvirku hækkun sem hefði auðvitað átt að vera í þessu fjáraukalagafrumvarpi?



[17:50]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Maður á auðvitað aldrei að gefa upp vonina. Lengi er von á einum milljarði, eins og sagt er. Hann er þá kominn í höfn. Hann hefði nú ekki komið hefði ekki verið talað fyrir því úr þessum ræðustól af stjórnarandstöðunni. Það er bara gott að heyra að menn hafa þá samvisku til að reyna að gera betur í þeim efnum. Það munar um þetta. Auðvitað verður maður þá bara að vera bjartsýnn á að nú þegar þessi tillaga liggur fyrir í fjáraukanum, um að koma til móts við aldraða og öryrkja, að menn skilji þá þann hóp ekki eftir eina ferðina enn og horfi á þær staðreyndir sem liggja fyrir, að það er ekki verið að bæta öldruðum og öryrkjum sambærilega og öðrum hópum þó að menn hafi talað þannig úr þessum ræðustól af stjórnarmeirihlutanum. Þessi 9,7% gera það ekki, sem koma til hækkunar 1. janúar á næsta ári. Meðaltal þeirra hækkana sem hafa komið hjá launþegum á þessu ári er 14,1%, hef ég séð einhvers staðar. En það er bara búið að reikna þetta út fram og til baka og það skortir mikið upp á að þessir hópar séu að fá sambærilegt, hvað sem hver segir. Ég bara trúi því ekki að menn ætli að láta einhverjar talnaflækjur flækja þetta endalaust fyrir sér þegar þetta er klárt reiknisdæmi. Við höfum nú stærðfræðing hér í þingsalnum, hv. þm. Oddnýju Harðardóttur og ég treysti hennar útreikningum. Það vantar upp á að kjör aldraðra og öryrkja séu sambærileg lægstu launum og það munar um 260 þús. kr. á þessu ári.