145. löggjafarþing — 58. fundur
 18. desember 2015.
húsnæðisbætur, 1. umræða.
stjfrv., 407. mál (heildarlög). — Þskj. 565.

[19:37]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um húsnæðisbætur en frumvarpið var flutt í fyrsta sinn á síðasta þingi. Á undanförnum árum hefur farið fram mikil vinna í velferðarráðuneytinu í samráði við hagsmunaaðila um húsnæðismál hér á landi. Sjónum hefur meðal annars verið beint að húsnæðisstuðningi hins opinbera sem felst annars vegar í húsaleigubótum vegna leiguíbúða og hins vegar í vaxtabótum vegna eignaríbúða og búsetuíbúða og hvernig megi jafna húsnæðisstuðning þessara tveggja kerfa við ólík búsetuform. Menn hafa líka verið að skoða hvernig sé hægt að búa til jákvæðari og betri hvata í húsnæðisstuðningskerfinu og vil ég benda t.d. á nýjustu skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varðandi breytingar á skattkerfinu hvað þetta varðar.

Ég skipaði í september 2013 verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála sem falið var að móta tillögur að framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Ég skipaði líka í tengslum við þá vinnu samvinnuhóp sem í áttu sæti fulltrúar 32 hagsmunaaðila sem falið var að vera verkefnisstjórninni til ráðgjafar. Verkefnisstjórnin skilaði síðan tillögum sínum til mín í maí 2014, en það sem verkefnisstjórnin lagði til var að komið yrði á fót húsnæðisbótum með nýju húsnæðisstuðningskerfi hins opinbera þar sem stuðningur yrði miðaður við efnahag en ekki búsetuform. Lagt var til að byggt yrði á tillögum starfshóps um húsnæðisbætur frá 2012 og tillögum sérfræðingahóps á vegum verkefnisstjórnar frá 2014. Þannig að nú mæli ég fyrir frumvarpi til laga um húsnæðisbætur sem ég lít svo á að sé fyrsta stóra skrefið í átt að því að framfylgja tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála varðandi húsnæðisstuðning.

Meginmarkmið frumvarpsins er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda sem og að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform og stuðla þannig að því að landsmenn hafi raunverulegt val um búsetuform og búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins. Frumvarpinu er ætlað að mæta breyttum veruleika íslenskra heimila. Það er nauðsynlegt að mínu mati að auka húsnæðisöryggi leigjenda en samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hefur hlutfall húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum hækkað verulega síðustu ár hjá fjölskyldum á leigumarkaði á meðan byrði húsnæðiskostnaðar hefur lækkað hjá íbúðareigendum með húsnæðislán. Á síðasta ári var byrði húsnæðiskostnaðar að jafnaði 24,3% hjá leigjendum á almennum markaði samanborið við 16,3% hjá íbúðareigendum með húsnæðislán. Á sama tíma hefur leigjendum fjölgað verulega og eru nú um 31 þús. heimili á leigumarkaði. Árið 2008 bjuggu um 13% fjölskyldna í leiguhúsnæði en árið 2014 var það hlutfall orðið næstum því 21%. Fjölgun fólks á leigumarkaði hefur verið einna mest meðal ungs fólks á aldrinum 25–34 ára, hjá einstæðum foreldrum, einstaklingum og fólki í lægri tekjuhópum. Þá liggur fyrir að líkurnar á því að vera á leigumarkaði hækka eftir því sem ráðstöfunartekjur fólks eru lægri. Staða þessa fólks er erfið. Lífskjararannsókn Hagstofu Íslands leiddi í ljós að hlutfall þeirra sem eru undir lágtekjumörkum er næstum fjórum sinnum hærra hjá leigjendum á almennum leigumarkaði en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði. Þannig voru rúmlega 22% leigjenda á almennum markaði undir lágtekjumörkum árið 2013 samanborið við tæplega 6% þeirra sem búa í eigin húsnæði. Ég legg áherslu á að leigjendur félagslegs húsnæðis eru hér ekki meðtaldir heldur aðeins leigjendur á almennum leigumarkaði. Þá er rétt að geta þess að rannsóknin leiddi jafnframt í ljós að 60% heimila á leigumarkaði tilheyra tveimur lægstu tekjufimmtungunum samanborið við 31% heimila sem búa í eigin húsnæði. Til marks um erfiða stöðu leigjenda má einnig nefna að leigjendur eru í dag meiri hluti skjólstæðinga umboðsmanns skuldara.

Ég nefndi hér að byrði húsnæðiskostnaðar hafi þyngst hjá leigjendum á sama tíma og hún hafi lést hjá þeim sem búa í eigin húsnæði. Á það einnig við um þá sem búa við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað sem er þegar 40% eða meira af ráðstöfunartekjum er varið í húsnæðiskostnað. Þannig hefur leigjendum sem búa við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað fjölgað á meðan þeim hefur fækkað sem búa við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað og búa í eigin húsnæði. Rétt er að geta þess að leigjendur á almennum leigumarkaði eru sá hópur sem er líklegastur til að búa við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað samanborið við aðra hópa á húsnæðismarkaði. Næstlíklegastir eru aðrir leigjendur sem leigja af ættingjum á lægra verði en almennt gengur og gerist og þeir sem búa í félagslegu leiguhúsnæði. Á síðasta ári bjuggu þannig næstum 19% leigjenda á almennum markaði við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað samanborið við 6% íbúðareigenda með húsnæðislán svo dæmi sé tekið.

Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt áherslu á að bæta úr þessari erfiðu stöðu leigjenda í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Í yfirlýsingu sem var kynnt til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga í vor og fylgir með sem fylgiskjal við frumvarpið kemur fram að það verður gert með því að auka stuðning við efnaminni fjölskyldur og einstaklinga og jafna húsnæðisstuðning ríkisins vegna eignaríbúða, leiguíbúða og búsetuíbúða þannig að fólk eigi raunverulegt val á milli ólíkra búsetuforma. Fyrsta skrefið verður þetta nýja húsnæðisbótakerfi.

Virðulegi forseti. Ég tel að það hafi myndast breið samstaða um nauðsyn þess að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform en í ljósi mismunandi eðlis þess húsnæðiskostnaðar sem liggur til grundvallar húsnæðisstuðningi eftir því hvaða búsetuform á í hlut hverju sinni er hins vegar lagt til, og það var líka niðurstaðan af viðræðunum við aðila vinnumarkaðarins, að vaxta- og húsaleigubætur verði ekki sameinaðar í eitt kerfi húsnæðisbóta að svo stöddu heldur verði breytingar gerðar á báðum húsnæðisstuðningskerfunum til að jafna stuðning við ólík búsetuform.

Gert er ráð fyrir að fjármögnun og framkvæmd húsnæðisbóta verði á ábyrgð ríkisins. Er það í samræmi við tillögu nefndanna frá 2012 og 2014. Það er líka í samræmi við stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 2014–2018 en sveitarfélögin hafa fram til þessa annast framkvæmd húsaleigubóta samkvæmt gildandi lögum um húsaleigubætur. Ríkissjóður hefur fjármagnað rúmlega 60% af kostnaði vegna húsaleigubóta en sveitarfélög 40%. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga í þessu sambandi þannig að sveitarfélögin verði jafn sett eftir breytinguna.

Samhliða þessari breytingu er gert ráð fyrir að ákveðið verði með reglugerð hvaða stofnun verði falin framkvæmd húsnæðisbóta en lagt er til að ákvarðanir stofnunarinnar verði kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þetta er breyting frá því sem var í frumvarpinu sem kom fram á síðasta þingi. Jafnframt þykir mikilvægt, og það er eins og það var í frumvarpinu sem kom fram á síðasta þingi, að sveitarfélögin haldi áfram að annast sérstakan húsnæðisstuðning líkt og nú er gert með sérstökum húsaleigubótum. Því er lagt til að lögfest verði heimild þess efnis í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga en slíka heimild er nú að finna í lögum um húsaleigubætur. Tel ég að þetta endurspegli betur það sem felst í sérstöku húsaleigubótunum, þar er um að ræða félagslega aðstoð.

Rétt er að nefna í þessu sambandi að gert er ráð fyrir að þeirri stofnun sem falin verður framkvæmd húsnæðisbótakerfisins verði heimilt að veita sveitarfélögum upplýsingar um rétt umsækjenda til húsnæðisbóta og þá heimilismenn sem búsettir eru á viðkomandi heimili enda liggi fyrir samþykki þeirra fyrir slíkri upplýsingagjöf. Það má ætla að slíkar upplýsingar séu nauðsynlegar til að sveitarfélagið geti metið þörf hlutaðeigandi á frekari húsnæðisstuðningi frá viðkomandi sveitarfélagi á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Það sem er grundvallarbreytingin og það sem mikilvægt er að hafa í huga er að hér er verið að búa til nýtt kerfi með nýrri hugsun. Lagt er til að grunnfjárhæðir húsnæðisbóta taki mið af fjölda heimilismanna í stað fjölskyldugerðar eða fjölda barna að teknu tilliti til tekna og eigna heimilismanna 18 ára og eldri og húsnæðiskostnaðar. Gert er ráð fyrir að grunnfjárhæð húsnæðisbóta fyrir íbúðarhúsnæði þar sem heimilismaður býr einn verði 31 þús. kr. á mánuði eða 372 þús. kr. á ári fyrir skerðingu vegna tekna, eigna og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði. Er þar um að ræða verulega aukinn húsnæðisstuðning við leigjendur en grunnfjárhæð einstaklings eða barnlausra hjóna í gildandi húsaleigubótakerfi getur að hámarki verið 22 þús. kr. á mánuði eða 264 þús. kr. á ári. Sem fyrr segir er gert ráð fyrir að grunnfjárhæðirnar taki svo mið af fjölda heimilismanna óháð aldri eftir ákveðnum stuðlum eftir fjölda heimilismanna og er þannig lagt til að grunnfjárhæð húsnæðisbóta trappist þannig upp og geti orðið allt að því 54.250 kr. þegar heimilismenn eru fimm eða fleiri. Hins vegar hafa tekjur og eignir heimilisins áhrif á rétt til húsnæðisbóta og skerða þann rétt. Þó er gert ráð fyrir að tekjur og eignir barna hafi ekki áhrif á fjárhæð húsnæðisbóta en í því sambandi er litið til þess að börn eru lögum samkvæmt á framfæri foreldra sinna til 18 ára aldurs og því þykir óeðlilegt að tekjur þeirra og eignir skerði húsnæðisbætur heimilisins.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að grunnfjárhæðir húsnæðisbóta skerðist mánaðarlega um fjárhæð sem nemur 8,04% af samanlögðum árstekjum heimilismanna 18 ára og eldri umfram tiltekin frítekjumörk. Í því sambandi er líka gert ráð fyrir að frítekjumörkin taki mið af fjölda allra heimilismanna óháð aldri eftir sömu stuðlum og lagt er til að gildi um grunnfjárhæðir húsnæðisbóta. Er þar um nýmæli að ræða en í gildandi húsaleigubótakerfi eru frítekjumörkin ávallt þau sömu óháð fjölda heimilismanna sem leiðir til þess að afli fleiri en einn tekna á heimilinu skerðast húsaleigubætur til þess heimilis mjög hratt í kerfinu eða falla jafnvel niður að fullu. Þannig byrja húsaleigubætur í gildandi kerfi að skerðast fari tekjur heimilisins yfir 2.550 þús. kr. á ári, sem jafngildir rúmum 212 þús. kr. á mánuði. Með frumvarpinu er hins vegar leitast við að koma til móts við hlutfallslega hærri húsnæðiskostnað heimilis þegar fleiri búa saman með því að frítekjumörk fari eftir fjölda heimilismanna enda held ég að öllum ætti að vera ljóst að hærri tekjur þarf til að standa straum af útgjöldum heimilis, þar á meðal húsnæðiskostnaði, eftir því sem heimilismenn eru fleiri. Tel ég að með þessum breytingum, verði frumvarpið að lögum, verði um að ræða verulega réttarbót fyrir fjölda heimila.

Það má nefna sem dæmi að gert er ráð fyrir því að einhleypt foreldri með eitt barn geti haft hærri tekjur áður en til skerðingar komi vegna þeirra samanborið við gildandi húsaleigubótakerfi þar sem gert er ráð fyrir að frítekjumörk foreldris taki mið af fjölda heimilismanna og mundu því í þessu tilviki miðast við tvo heimilismenn. Samkvæmt frumvarpinu gæti foreldri þannig haft 3.240 þús. kr. í árstekjur áður en til skerðingar kæmi samanborið við núverandi kerfi þar sem árstekjur sama foreldris umfram 2.550 þús. kr. skerða húsaleigubætur.

Þar sem lagt er til að frítekjumörkin taki mið af fjölda heimilismanna eftir sömu stuðlum og gilda um grunnbætur er gert ráð fyrir að frítekjumörk fimm manna fjölskyldu verði 4.725 þús. kr. á ári í staðinn fyrir 2.550 þús. kr. í gildandi húsaleigubótakerfi. Það er hins vegar gert ráð fyrir því að frumvarpið verði innleitt í tveimur áföngum þannig að fyrsta árið eftir gildistöku laganna — sem lagt er til samkvæmt þessu frumvarpi að verði 1. janúar og ég held að það sé alveg ljóst að velferðarnefnd þarf að fara vel yfir þá dagsetningu — gildi sömu frítekjumörk fyrir alla þá sem sækja um húsnæðisbætur vegna leiguhúsnæðis það árið án tillits til fjölda heimilismanna eða 2,7 millj. kr. miðað við árstekjur allra heimilismanna, en að lögin komi síðan að fullu til framkvæmda ári síðar. Þetta er líka í samræmi við yfirlýsinguna í tengslum við kjarasamningana þar sem talað var um að þetta mundi koma til framkvæmda í tveimur áföngum. Ég hvet hv. velferðarnefnd til að fara mjög vel yfir þetta, hver sé besta dagsetningin varðandi innleiðinguna og hvort hugsanlega sé hægt að nýta þetta svigrúm til að skoða frítekjumörkin.

Gert er ráð fyrir að miðað verði við sömu skilgreiningu á tekjum og gert er í tengslum við vaxtabætur. Það er hluti af því sem við erum að tala um, við erum að reyna eins og hægt er að taka skrefin í átt að því að þessi kerfi verði sem líkust. Með tekjum er því átt við allar skattskyldar tekjur ásamt launatekjum sem greiddar eru þeim sem starfa hjá alþjóðastofnunum eða ríkjasamtökum þótt um skattfrjálsar tekjur sé að ræða. Þannig er gert ráð fyrir að greiðslur almannatrygginga muni teljast til tekna í skilningi frumvarpsins en þær hafa ekki talist til tekna í skilningi laga um húsaleigubætur enda þótt aðrar greiðslur opinberra kerfa sem ætlaðar eru til framfærslu hafi talist til tekna, svo sem atvinnuleysisbætur og fjárhagsaðstoð félagsþjónustu sveitarfélaganna. Við sjáum á félagsvísunum að þeir sem eru í þessum hópi ásamt þeim sem treysta á örorkubætur hafa verið með hæsta hlutfall þeirra sem búa við fátækt á Íslandi. Atvinnuleysisbætur og fjárhagsaðstoð félagsþjónustunnar eru hins vegar lægri og þau hafa talist til tekna en greiðslur almannatrygginga hafa ekki gert það. Það er mat okkar að eðlilegt sé að jafnræði ríki í því sambandi. Því er lagt til að allar greiðslur sem ætlaðar eru til framfærslu teljist til tekna í skilningi frumvarpsins enda er um að ræða skattskyldar tekjur.

Að því er varðar eignir er gert ráð fyrir að miðað verði við að grunnfjárhæðir húsnæðisbóta skerðist hlutfallslega á ársgrundvelli séu þær umfram 6,5 millj. kr. króna uns þær falla alveg niður við 60% hærri fjárhæð eða 10,4 millj. kr. Er um að ræða sama fyrirkomulag og eignamörk og gilda um skerðingu vaxtabóta vegna eigna hjóna og sambúðarfólks en ákveðið var að miða við þau eignamörk frekar en eignamörkin sem gilda um einhleypinga og einstæða foreldra í vaxtabótakerfinu. Má til samanburðar nefna að vaxtabætur til einhleypinga og einstæðra foreldra byrja að skerðast fari eignir þeirra umfram 4 millj. kr. og falla vaxtabætur niður að fullu við 6,4 millj. kr. Jafnframt er gert ráð fyrir að miðað verði við sömu skilgreiningar á eignum og gert er í vaxtabótakerfinu. Hins vegar teljum við eftir að hafa skoðað þetta ítarlega að það sé alveg ljóst að langflestir þeirra sem eru á leigumarkaðnum eigi mjög litlar eignir. Hugsunin með því að vera með þessi einu eignamörk var meðal annars sú að reyna að einfalda kerfið eins og hægt væri. Það er líka gert ráð fyrir sömu skilgreiningum á eignum og eru í vaxtabótakerfinu. Þá er lagt til að sett verði þak á húsnæðisbætur þannig að þær geti aldrei numið hærri fjárhæð en sem jafngildir 75% af húsnæðiskostnaði vegna viðkomandi íbúðarhúsnæðis þannig að einstaklingur verði alltaf að standa fyrir 25% af húsnæðiskostnaði sínum. Hér er hins vegar um að ræða hækkun. Það hefur verið þannig í húsaleigubótakerfinu að húsaleigubætur hafa ekki getað numið hærri fjárhæð en sem nemur 50% af húsnæðiskostnaði. Það er von okkar að þetta komi að einhverju leyti til móts við þá breytingu að fella greiðslur almannatrygginga undir tekjuskilgreininguna.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að einn af heimilismönnum sæki um húsnæðisbætur og hann sé jafnframt sá sem fái greiddar húsnæðisbætur. Í því sambandi er gert ráð fyrir að viðkomandi geti óskað eftir því skriflega að húsnæðisbætur verði greiddar beint til leigusala og er þetta í samræmi við þær athugasemdir sem bárust til velferðarnefndar þegar frumvarpið var sent út til umsagnar á síðasta þingi. Þá er lagt til að húsnæðisbætur verði greiddar mánaðarlega líkt og húsaleigubætur í gildandi kerfi.

Að því er varðar skilyrði húsnæðisbóta er í fyrsta lagi lagt til að gert verði að skilyrði að umsækjandi og aðrir heimilismenn séu búsettir í viðkomandi íbúðarhúsnæði í skilningi frumvarpsins, þ.e. að viðkomandi búi sannarlega í hinu leigða íbúðarhúsnæði og eigi þar skráð lögheimili. Jafnframt er gert að skilyrði að viðkomandi teljist ekki til heimilismanna í öðru íbúðarhúsnæði enda er almennt litið svo á að hver einstaklingur haldi heimili á einum stað. Þá er gert ráð fyrir því skilyrði að umsækjandi sé 18 ára eða eldri. Þannig er ekki gert ráð fyrir að börn eigi sjálfstæðan rétt til húsnæðisbóta enda eru börn á framfæri foreldra sinna eða forsjáraðila til 18 ára aldurs samkvæmt barnalögum og verða enn fremur almennt ekki fjárráða fyrr en þeim aldri er náð. Húsnæðisstuðningurinn, í ljósi þessarar framfærsluskyldu, rennur til þeirra sem hafa börnin á framfæri sínu. Með frumvarpinu er lagt til að svo verði einnig í tilvikum þar sem um er að ræða börn sem eiga tímabundið aðsetur á heimavist, námsgörðum eða hjá fósturforeldrum vegna tímabundins fósturs samkvæmt barnaverndarlögum. Er því gert ráð fyrir að þrátt fyrir þá meginreglu frumvarpsins að til heimilismanna teljist eingöngu þeir sem búsettir eru í viðkomandi íbúðarhúsnæði skuli barn yngra en 18 ára sem hefur tímabundið aðsetur á heimavist eða námsgörðum eða hjá fósturforeldrum teljast til heimilismanna á heimili foreldra eða forsjáraðila þess.

Áfram er gert að skilyrði að um sé að ræða íbúðarhúsnæði sem feli í sér venjulega og fullnægjandi heimilisaðstöðu þar sem er að lágmarki eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða séreldunaraðstöðu, sérsnyrtingu eða baðaðstöðu. Þetta var eitt af því sem voru gerðar athugasemdir við í meðferð málsins. En það er ekki lögð til breyting á því til að koma til móts við þær athugasemdir. Það er hvorki gert ráð fyrir að húsnæðisbætur verði veittar vegna húsnæðis sem er ætlað til annarra nota en íbúðar en leigt er til íbúðar að öllu leyti eða að hluta til né heldur til leigu á hluta íbúðarhúsnæðis, svo sem vegna leigu á einstökum herbergjum.

Enn fremur er lagt til að það verði skilyrði húsnæðisbóta að fyrir liggi þinglýstur leigusamningur vegna íbúðarhúsnæðisins til að minnsta kosti þriggja mánaða. Hér er um að ræða réttarbót, þetta er breyting frá gildandi húsaleigubótakerfi þar sem gert er að skilyrði að fyrir liggi þinglýstur leigusamningur til að að minnsta kosti sex mánaða. Með þessari breytingu er því lagt til að heimili geti átt rétt til húsnæðisbóta vegna skammtímaleigu á íbúðarhúsnæði enda sé leigutíminn ekki skemmri en þrír mánuðir. Það er ástæða fyrir þessu og rökstuðningurinn sem ég legg áherslu á er að lengd leigusamnings er almennt á forræði leigusala en ekki leigjanda og hefur skilyrði um sex mánaða leigutíma því að ákveðnu leyti reynst íþyngjandi fyrir leigjendur og til þess fallið að draga úr möguleikum þeirra á húsnæðisstuðningi frá hinu opinbera.

Það er líka gert ráð fyrir því skilyrði að fyrir liggi samþykki allra heimilismanna fyrir því að sú stofnun sem falið verður framkvæmd húsnæðisbótakerfisins afli þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að afgreiða umsóknir og framfylgja lögunum að öðru leyti. Þá er ekki gert ráð fyrir að réttur til húsnæðisbóta verði fyrir hendi þegar einhver heimilismanna nýtur réttar til vaxtabóta líkt og verið hefur sem og þegar einhver heimilismanna eða lögaðili sem tengist heimilismanni með nánar tilgreindum hætti er eigandi viðkomandi íbúðarhúsnæðis.

Samt sem áður eru gerðar ákveðnar undanþágur frá þeim skilyrðum sem ég hef farið hér í gegnum varðandi búsetu, íbúðarhúsnæði og þinglýsingu leigusamninga. Varðandi skilyrði um búsetu getur einstaklingur talist til heimilismanns í hinu leigða íbúðarhúsnæði enda þótt hann eigi lögheimili annars staðar á Íslandi hafi hann þar tímabundið aðsetur vegna náms, veikinda, endurhæfingar á áfangaheimili eða starfs sem unnið er fjarri lögheimili. Það má finna sams konar undanþágu í lögum um húsaleigubætur en þó er lagt til það nýmæli að undanþágan taki einnig til þeirra sem dveljast á áfangaheimilum í ljósi þess að samkvæmt lögum um lögheimili er ekki mögulegt að eiga lögheimili á áfangaheimilum. Þetta ætti að geta hjálpað þeim sem dveljast á áfangaheimilum að fá greiddar húsnæðisbætur til niðurgreiðslu á húsnæðiskostnaði sínum. Þetta er mikilvæg breyting að mínu mati.

Það er líka heimilt að greiða húsnæðisbætur vegna íbúðarhúsnæðis þar sem hlutaðeigandi á tímabundið aðsetur vegna starfs sem unnið er fjarri lögheimili til allt að þriggja ára. Hér er líka um aðra mikilvæga breytingu að ræða.

Það er síðan ákveðið nýmæli í frumvarpinu sem ég tel mjög merkt skref að þegar foreldrar eða forsjáraðilar barna búa ekki saman geti börn þeirra talist til heimilismanna á báðum heimilum þeirra enda dvelji barnið að lágmarki 30 daga á ári á heimilinu. Þetta er undanþága frá þeirri meginreglu að hver og einn geti aðeins talist til heimilismanna í einu íbúðarhúsnæði á hverjum tíma. Munu foreldrar eða forsjáraðilar sem búa ekki saman geta notið þá aukins húsnæðisstuðnings vegna barna sem eiga heimili hjá báðum foreldrum og forsjáraðilum í senn. Þetta held ég að endurspegli þá breytingu sem er að verða í samfélaginu, þá reglu sem er orðin að þegar fólk skilur deilir meginþorri foreldra forsjá eða umsjá með sínum börnum. Það er mjög mikilvægt að mínu mati að báðir foreldrar eða forsjáraðilar eigi kost á því að búa börnum sínum gott heimili þó að lögheimilisskráningin geti aðeins verið hjá öðru þeirra. Hér er ekki farið eftir tillögum sem lagðar voru til af vinnuhópi með húsnæðisbætur og verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála þar sem þeir töldu að við ættum að halda okkur við að foreldrar hefðu sameiginlega forsjá til að reglan ætti við. Ég tel að eðlilegra sé að litið sé til umgengni foreldris við barn sitt fremur en hvort það fari með forsjá þess. Það þarf að liggja fyrir samningur um umgengni sem sýslumaður hefur staðfest samkvæmt barnalögum eða úrskurður sýslumanns um umgengni samkvæmt sömu lögum. Þá getur barnið talist til heimilismanns á heimili beggja foreldra eða forsjáraðila.

Síðan er gert ráð fyrir rétti til húsnæðisbóta þrátt fyrir skilyrði frumvarpsins um íbúðarhúsnæði þegar um er að ræða sambýli einstaklinga vegna félagslegra aðstæðna og er þá átt við sambýli fatlaðs fólks í húsnæðisúrræðum samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks, sambýli einstaklinga á áfangaheimilum eða sambýli námsmanna á heimavistum eða námsgörðum sem tengjast viðurkenndum menntastofnunum. Þannig verður heimilt að greiða húsnæðisbætur vegna húsnæðiskostnaðar í þeim tilvikum þótt um sé að ræða leigu á einstökum herbergjum þar sem hluti rýmisins er sameiginlegur öðru íbúðarhúsnæði, t.d. þegar eldhúsi eða eldunaraðstöðu er deilt. Sú undanþága hefur verið til staðar í húsaleigubótakerfinu allt frá árinu 2001 að því er varðar sambýli fatlaðs fólks í sérstökum húsnæðisúrræðum og sambýli námsmanna á heimavistum eða námsgörðum en hér er nýmælið það að undanþágan verður einnig látin ná til sambýlis einstaklinga á áfangaheimilum enda er algengt að þar sé um að ræða leigu á einstökum herbergjum.

Það er líka lagt til að réttur til húsnæðisbóta geti verið fyrir hendi þótt ekki liggi fyrir þinglýstur leigusamningur þegar um er að ræða leigu á íbúðarhúsnæði í eigu ríkis, sveitarfélags eða félags sem er að öllu leyti í eigu ríkis eða sveitarfélags. Sambærileg undanþága hefur verið í húsaleigubótakerfinu frá árinu 1997. Með frumvarpinu er því lagt til að þessi undanþága verði líka látin ná til leigu námsmanna á herbergi eða íbúð á heimavist eða á námsgörðum en með því má einfalda endurnýjun leigusamninga við námsmenn á heimavistum og námsgörðum. Í því sambandi má nefna að um 1.100 leigusamningar eru endurnýjaðir árlega hjá Félagsstofnun stúdenta sem hefur tekið upp nýtt og skilvirkara kerfi þar sem endurnýjun leigusamninga fer fram með rafrænum hætti. Námsmenn sem búa á heimavist eða námsgarði munu því ekki þurfa að þinglýsa nýjum leigusamningi í hvert skipti sem samningurinn er endurnýjaður sem almennt er gert á hverju námsári til að eiga áframhaldandi rétt til húsnæðisbóta.

Síðan er lagt til að þessi undanþága verði látin ná til þeirra sem njóta réttar til að halda afnotum af íbúðarhúsnæði sem selt hefur verið nauðungarsölu í allt að 12 mánuði samkvæmt ákvörðun sýslumanns á grundvelli sérstakrar heimildar í lögum um nauðungarsölu og lögum um húsnæðissamvinnufélög eins og lagt er til að þeim verði breytt með frumvarpi sem ég hef lagt fram á þessu þingi og þar munu líka vera ákveðin ákvæði sem snúa að húsaleigulögunum. Þessi heimild nær til tímabundinna afnota á íbúðarhúsnæði sem selt hefur verið nauðungarsölu og aðeins til gerðarþola en í frumvarpi til laga um breytingu á húsaleigulögum og lögum um húsnæðissamvinnufélög sem ég hef lagt fram samhliða þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að umrædd heimild nái auk gerðarþola til búseturéttarhafa og leigjenda sem haft hafa íbúðarhúsnæði til eigin nota við nauðungarsölu. Að því er varðar gerðarþola er rétt að taka fram að ekki hefur tíðkast að gera húsaleigusamninga um tímabundin afnot gerðarþola af íbúðarhúsnæði sem selt hefur verið nauðungarsölu og hafa þeir því ekki átt rétt á húsaleigubótum þar sem eitt af skilyrðum laga um húsaleigubætur er að fyrir liggi þinglýstur leigusamningur. Með þessari undanþágu verður því unnt að koma til móts við þá sem greiða fyrir tímabundin afnot af húsnæði sem selt hefur verið nauðungarsölu, hvort sem um er að ræða gerðarþola, leigjanda eða búseturéttarhafa, enda er þar í raun um að ræða ígildi leigugreiðslna. Gert er ráð fyrir að umrædd undanþága verði einnig látin ná til þeirra sem búa á áfangaheimilum.

Hér er þannig verið að leggja til margvíslegar breytingar á húsnæðisstuðningi hins opinbera til leigjenda sem ég tel afar mikilvægt að gerðar verði til að auka stuðning við efnaminni leigjendur í ljósi erfiðrar stöðu þeirra á húsnæðismarkaði. Ég tel nauðsynlegt að leigjendur eigi rétt á sambærilegum húsnæðisstuðningi frá hinu opinbera og þeir sem búa í eigin húsnæði eða búsetuíbúðum þannig að landsmenn hafi raunverulegt val um búsetuform og búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins. Frumvarp til laga um húsnæðisbætur er mikilvægur liður í því að svo verði.

Ég vil líka fá að nefna hér hvort það sé ekki eitthvað sem þarf að skoða til framtíðar, þó að það sé ekki lagt til í þessu frumvarpi, hvort ekki sé eðlilegra að búseturéttarhafar í húsnæðissamvinnufélögum heyri undir húsnæðisbótakerfið í framtíðinni fremur en vaxtabótakerfið. Það kann að vera eins og verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála lagði til að til framtíðar verðum við með eitt kerfi en á meðan við erum með vaxtabótakerfið sem að mínu mati hvetur allt of mikið til skuldsetningar þurfi að skoða það hvort búseturéttarhafar í húsnæðissamvinnufélögum ættu frekar að heyra undir húsnæðisbótakerfið en vaxtabótakerfið. Í því sambandi vil ég benda á að mikilvægt er að húsnæðissamvinnufélag geti miðað búsetugjald við heildarfjármagnskostnað sinn vegna búsetuíbúða fremur en við fjármagnskostnað á hlutaðeigandi íbúð. Því hef ég lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög þar sem gert er ráð fyrir að félög geti hagað rekstri sínum með þeim hætti. Verði sú breyting gerð á lögum um húsnæðissamvinnufélög má ætla að búsetugjald og eftir atvikum vaxtagjöld búseturéttarhafa af láni sem hann hefur tekið til kaupa á búseturétti endurspegli betur húsnæðiskostnað viðkomandi en vaxtagjöld húsnæðissamvinnufélagsins sjálfs vegna skuldbindinga félagsins.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar til meðferðar þar.



[20:05]
Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég bil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ræðu. Ég kem kannski ekki beint upp í andsvar heldur kem ég til að fagna því í stuttu máli að umrætt frumvarp er komið fram. Ég átti sæti í verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála sem umrætt frumvarp er meðal annars byggt á. Það er verulega ánægjulegt að sjá þegar mikil vinna og mikið samráð hefur farið í þessa hluti. Það birtist okkur hv. þingmönnum og landsmönnum öllum í frumvarpinu.

Það sem ég vil annars fagna er að við erum, eins og hæstv. ráðherra benti á, að auka verulega stuðning við efnaminni leigjendur. Það er verulega jákvætt og algerlega í samræmi við það sem ríkisstjórnin hefur ætlað sér í húsnæðismálum. Það sem er mjög mikilvægt er að það er verið að jafna stuðning á milli ólíkra búsetuforma. Það er einstaklega mikilvægt, eins og kom jafnframt fram í ræðu hæstv. ráðherra, vegna þess að íbúum á leigumarkaði hefur fjölgað mikið. Húsnæðiskostnaður leigjenda hefur aukist undanfarin ár og því er mjög mikilvægt að jafna stuðning á milli þessara kerfa þannig að leigjendur sitji við sama borð og þeir sem búa í eigin húsnæði. Þetta er verulega gott. Við sjáum að árið 2008 voru 12,9% heimila á leigumarkaði en nýlegar tölur sýna aukningu upp í 20,8% þannig að ég bara fagna verulega að þetta sé komið fram. Málið verður síðan tekið til (Forseti hringir.) góðrar og efnislegrar vinnslu í velferðarnefnd þingsins.



[20:07]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir orð þingmannsins. Það sem hefur líka komið margoft fram í máli hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur er hversu mikilvægt er, skiljanlega — núna í kvöld er verið að mæla fyrir þremur málum, eitt mál er þegar í velferðarnefnd — að þessi mál séu skoðuð saman í heild, samspil þeirra og áhrifin þvert yfir af þessum miklu frumvörpum. Það sem við erum að reyna að ná fram með þessu er að búa til nýtt kerfi, kerfi sem á vonandi eftir að gera það sem hv. þingmaður talaði hér um, að jafna stuðning milli ólíkra búsetuforma. Að sjálfsögðu er þetta frumvarp hluti af framlagi stjórnvalda til að greiða fyrir kjarasamningum. Við stuðlum áfram að stuðningi við þá sem treysta til dæmis á framfærslu í gegnum hið opinbera eða frá sveitarfélögunum en teygjum okkur líka í átt til þeirra sem eru efnaminnstir á vinnumarkaðnum, með lægstu tekjurnar, svo að þeir hafi líka möguleika á að fá stuðning eins og þeir fengju ef þeir væru í eigin húsnæði og hefðu tekið lán til að afla sér þess.



[20:08]
Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eins og hæstv. ráðherra segir, það er afar mikilvægt, eins og ég hef líka nefnt í mörgum ræðum sem ég hef flutt um húsnæðismál í þinginu, að við horfum á heildarmynd þeirra fjögurra húsnæðisfrumvarpa sem verða líklega eftir umræðu kvöldsins komin til velferðarnefndar. Það er einstaklega mikilvægt að öll þessi frumvörp nái fram að ganga þannig að allir hafi raunverulegt val um búsetuform, hvort sem þeir vilja vera á leigumarkaði, í eigin húsnæði eða fara millileið og búa í húsnæði húsnæðissamvinnufélaga, sem eitt af þeim frumvörpum sem eru nú til afgreiðslu í hv. velferðarnefnd snýst um.

Við erum að tala um aukin húsnæðisstuðning. Mig langar aðeins að minna á að það er mjög jákvætt sem við hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar samþykktum í atkvæðagreiðslu í morgun varðandi leigutekjur og (Forseti hringir.) lækkaða skatta á leigutekjur sem er mjög mikilvægt líka upp á aukið framboð á íbúðum.



[20:10]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Hv. þingmaður nefndi að við hefðum lagt áherslu á að gera tvennt, auka framboðið og styrkja eftirspurnarhliðina. Húsnæðisbæturnar snúast um að styrkja eftirspurnarhliðina. Við erum hins vegar með tvö önnur mál sem birtast í fjárlagafrumvarpinu og tekjuöflun af bandormi fjármálaráðherra þar sem við styðjum framboðshliðina. Það er von okkar, eins og kemur fram í fylgigögnum með frumvarpinu um almennu íbúðirnar, að það muni sameiginlega leiða til fjölgunar íbúða og um leið til lækkunar leigu. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að fylgjast vel með því að lækkun á fjármagnstekjuskattinum og húsnæðisbætur skili sér til þeirra sem þurfa á að halda og leiði ekki til hækkunar á leigu sem er eitt af því sem menn hafa nefnt og haft áhyggjur af. Það er hins vegar að mínu mati (Forseti hringir.) mjög mikilvægt að við gerum hvort tveggja, eflum framboðið og styðjum (Forseti hringir.) við eftirspurnarhliðina við leigjendurna sjálfa.



[20:11]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur fyrir framsögu hennar. Þetta var svolítið hratt. Það var svolítill pakki að taka við þessu, enda er um stórt og mikið frumvarp að ræða. Ég vona að hæstv. ráðherrann virði það við mig að það hafa verið langir dagar hérna og klukkan er orðin svolítið margt.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um. Fyrst það sem hæstv. ráðherra og hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir ræddu hér í lokin, þ.e. þær áhyggjur sem heyrst hafa af því hvort eitthvað verði gert til að hækkun á húsnæðisbótum fari ekki út í leiguverðið. Mig langar að biðja ráðherrann að koma aðeins betur inn á það hvort gripið verði til einhverra ráðstafana varðandi það og þá hverjar þær séu.

Svo er annað sem mig langar að spyrja um og það kemur kannski inn á breytingu á öðrum lögum, þ.e. í 32. gr. varðandi tekjustofna sveitarfélaga og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Það hefur verið þannig að Reykjavík borgar ekki sérstakar húsaleigubætur til fólks þótt það uppfylli jafnvel tekjumörkin ef það leigir í félagslegu húsnæði, eins og til að mynda hjá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins. Hefur sá vinkill eitthvað verið skoðaður inn í vinnuna varðandi þessar breytingar? Var það rætt í viðræðunum við sveitarfélögin hvort þetta mundi eitthvað breytast? Sum sveitarfélög (Forseti hringir.) greiða leigjendum Brynju hússjóði sérstakar húsaleigubætur en önnur, eins og Reykjavíkurborg, gera það ekki.



[20:13]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það snýr að umræðunni um hækkun á leigu þá var eitt af því sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefndi, að ég held núna í sumar, að hún hafði áhyggjur af þeirri hækkun sem við höfum séð á leiguhúsnæði, og spurði hvort möguleiki væri á að taka upp sambærilegar reglur og við þekkjum í Danmörku varðandi einhvers konar þak á hækkun húsaleigu. Það sama hafa menn verið að gera í Þýskalandi. Við fórum sérstaklega til Danmerkur í danska húsnæðismálaráðuneytið til að fara í gegnum þær reglur sem Danir eru með. Þar fengum nákvæmar upplýsingar um það. Það sýnir sig að það eykur mjög flækjustigið þegar bætt er við lagaákvæðum sem snúa að hækkun. Menn þurfa þá að grípa til annarra aðgerða til að tryggja að það sé nægilegt framboð.

Þess vegna er ég svo ánægð með að í kvöld skuli ég fá að mæla fyrir frumvarpinu um almennu íbúðirnar. Ég held að það sé mjög stórt og mikilvægt skref til þess að tryggja að nægt framboð sé á félagslegu húsnæði. Við erum með mjög langa biðlista þegar kemur að félagslegu húsnæði. Það er mikilvægt að við búum til kerfi til framtíðar sem mun halda áfram að bæta við þau úrræði sem við höfum varðandi félagslegt húsnæði. Það eru þá félög sem rekin eru á grundvelli almannaheillasjónarmiða þar sem það sem rukkað er í leigu er bara kostnaðurinn við rekstur félagsins og afborgun af lánum. Það sýnir sig líka í útreikningunum að breytingarnar sem við erum að gera núna á húsnæðisbótakerfinu eru lykilatriði í því að við náum markmiði okkar, yfirlýsingunni um að greiðslubyrði leigjenda verði ekki meiri en 20–25% af tekjum. Við þurfum þetta samspil, þessar breytingar hér, til þess að við getum náð markmiðum okkar. (Forseti hringir.) Síðan er annað sem ég hef líka velt fyrir mér og það er eitt af því sem ég er að reyna að gera, þ.e. að tryggja meira gagnsæi í leiguverðinu (Forseti hringir.) þannig að upplýst sé meira um það, líka hjá félagslega húsnæðinu sem hefur ekki kannski verið (Forseti hringir.) ...



[20:16]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er ágætt að vita að það hafi alla vega eitthvað verið skoðað hér og farið til Danmerkur til þess að skoða kerfið þar. Stundum þurfa kerfi að vera flókin annaðhvort til þess að ná markmiðum sínum eða til að vera sanngjörn. Mig langar að varpa því inn í umræðuna að flókin kerfi þurfa ekki í eðli sínu að vera slæm ef þau þjóna tilgangi sínum.

En af því að hæstv. ráðherra komst ekki yfir það í fyrra svari sínu að svara að því er varðar sérstöku húsaleiguna og sveitarfélögin, og þá kannski helst Reykjavík sem ekki borgar sérstakar húsaleigubætur til öryrkja, spyr ég: Var það tekið eitthvað til skoðunar við samningu þessa frumvarps?



[20:17]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi sérstöku húsaleigubæturnar, eða þann húsnæðisstuðning sem sveitarfélögin geta komið með til viðbótar við þá framfærsluaðstoð sem þau veita í gegnum félagsþjónustuna, þá fjallar frumvarpið ekki sérstaklega um það. Það hefur verið þannig að hvert og eitt sveitarfélag hefur í raun getað sett sér reglur sem snúa að framfærsluaðstoð. Ég vonast til að koma aftur fram með frumvarp sem snýr að svokallaðri skilyrðingu eða virknifrumvarp varðandi félagslega aðstoð. Við erum að reyna að taka skref til að skilgreina betur og ramma af þær reglur sem gilda um framfærsluaðstoð. Það er eitt af því sem ég tel líka að þurfi að skoða varðandi heildarendurskoðun á félagsþjónustulögum, þ.e. hvort við eigum í auknum mæli að fara að setja skýrari reglur um þá framfærsluaðstoð sem sveitarfélög veita. (Forseti hringir.) Þar sjáum við að það er með mismunandi hætti annars staðar á Norðurlöndunum en ekki er fjallað um það sérstaklega í þessu frumvarpi.



[20:18]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra innilega til hamingju með að vera komin með þessi fjögur mál inn í þingið. Það hefði mátt gerast fyrr að mínu mati en það er sannarlega ánægjuefni og ástæða til að samgleðjast okkur öllum yfir því.

Nú er það svo að það eru mjög ítarlegar umsagnir fjármálaráðuneytisins með þessum frumvörpum. Þar bendir ráðuneytið á fjóra þætti sem það dregur saman sem gagnrýni. Í fyrsta lagi telja þeir að ekki sé búið að gera viðhlítandi samkomulag varðandi breytingar á fjárstreymi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til fjármögnunar á núverandi húsaleigubótakerfi og ganga þurfi í það. Svo telja þeir að verið sé að gera breytingar þar sem fólk þurfi að fara á tvö stjórnsýslustig til að fá annars vegar húsnæðisbætur og hins vegar sérstakar. Þeir gagnrýna það. Það er vissulega dálítið vandasamt. Í þriðja lagi telja þeir að aukning á niðurgreiðslu húsaleigu verði hlutfallslega meiri eftir því sem tekjur heimila eru hærri. Það sé ekki í samræmi við markmið frumvarpsins. Svo telja þeir í fjórða lagi að sá munur sé ekki til staðar á greiðslum úr húsaleigubótakerfinu og vaxtabótakerfinu sem látið er í veðri vaka. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hverju hún svari þessari gagnrýni fjármálaráðuneytisins.



[20:20]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður bendir á er kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins mjög ítarleg varðandi þetta frumvarp. Allt að því 17 blaðsíður þar sem er farið nákvæmlega í gegnum efnisatriði málsins. Hvað varðar athugasemdir um fjárstreymi til sveitarfélaganna eða þá fjármuni sem má segja að séu skildir eftir miðað við þetta hjá sveitarfélögunum þá er það okkar niðurstaða að ef menn telja ástæðu til að breyta þeim fjármunum sem eiga að fara til sveitarfélaganna sé það eitthvað sem fellur undir önnur ráðuneyti. Það er innanríkisráðuneytið sem fer með sveitarstjórnarmálin og svo fjármálaráðuneytið sjálft sem hefur leitt viðræður um skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga.

Það má hins vegar líka benda á að í frumvarpinu um almennu íbúðirnar er verið að ramma af og setja ákvæði í lög um að sveitarfélög eigi að koma með allt að því 12% mótframlag inn í almennu íbúðirnar, sem hefur ekki verið lögbundið á sama hátt og verið er að gera þar. Að einhverju leyti gætu þeir fjármunir komið til móts við þann aukna kostnaðarauka sem kemur þar inn. En það er ekki fjallað sérstaklega um það í þessari umsögn.

Varðandi gagnrýni á tvö stjórnsýslustig er það þannig að það sem verður kallað sérstakar húsaleigubætur er í mínum huga framfærsluaðstoð. Fólk þarf hvort sem er að leita til félagsþjónustunnar og fá stuðning þar, ef það er að leita eftir framfærsluaðstoð frá sveitarfélaginu. Það er engin breyting hvað það varðar. Hér erum við að tala um almennan stuðning varðandi húsnæðiskostnað, hitt er hins vegar félagsleg aðstoð. Þar leita menn að sjálfsögðu til sveitarfélaganna ef þeir þurfa á félagslegri aðstoð að halda.

Ég fæ að koma að þriðja og fjórða atriðinu sem hv. þingmaður nefndi í seinna andsvari mínu.



[20:22]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Umsögn fjármálaráðuneytisins er mjög ítarleg og mjög góð að mörgu leyti, en maður skynjar líka í henni svolitla andstöðu. Nú hafa húsaleigubætur ekki hækkað neitt á þessu kjörtímabili og frumvarpið mun augljóslega ekki taka gildi 1. janúar en segjum sem svo að við gætum afgreitt það hratt og vel í nefndinni og afgreitt það út, ef við höfum stuðning í það, þá er ég með tvær svolítið ólíkar spurningar sem skipta máli hvor fyrir aðra. Annars vegar: Telur ráðherra sig hafa fullan stuðning Sjálfstæðisflokksins til að afgreiða eitthvað af þessum málum út úr þingflokki sínum með fyrirvara? Og hvað tekur það langan tíma fyrir nýtt kerfi að byrja að funkera þegar búið er að samþykkja lögin?(Forseti hringir.) Þessar breytingar gerast ekki yfir eina nótt, en sirka hversu langan tíma þarf til þess að kerfið geti byrjað að virka eftir að lögin hafa verið samþykkt á Alþingi?



[20:24]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný fyrir spurningarnar. Varðandi þriðja atriðið sem bent er á, að hlutfallslega sé aukningin meiri gagnvart þeim sem eru með hærri tekjur, þá er ástæðan fyrir því einfaldlega að viðkomandi hafi ekki átt neinn rétt hingað til. Þar verður meginmismunur milli vaxtabótakerfisins og húsaleigubótakerfisins, fólk hefur átt mun víðtækari rétt til vaxtabóta ef það hefur átt eigið húsnæði og hefur skuldsett sig og þar með hefur verið ákveðinn hvati til skuldsetningar. Aftur á móti þegar kemur að því fólki sem hefur verið á leigumarkaðnum þá hefur það fengið lítið sem ekki neitt. Þar er kannski verið að bæta við 1.000 kr., 4.000 kr., sem viðkomandi fær þá aukalega í bætur á mánuði og að fara frá því að vera með núll upp í þessa upphæð er í prósentum miklu hærra en þeir sem hafa verið með fullan stuðning í húsaleigubótakerfinu. Hins vegar eru upphæðirnar að sjálfsögðu alltaf hæstar gagnvart þeim sem hafa minnstu tekjurnar og eiga minnstu eignirnar.

Varðandi þennan mun. Munurinn sem við bendum á er að þeir sem eru á leigumarkaðnum, (Forseti hringir.) ástæðan fyrir því að þeir fá aukinn stuðning er eins og félagsvísarnir segja okkur og tölur Hagstofunnar: Fólkið sem er á leigumarkaðnum er einfaldlega efnaminna. (Forseti hringir.) Það hefur lægri tekjur. Það eru meiri líkur á að það búi við fátækt. Þar af leiðandi á það rétt á meiri stuðningi en þeir sem eru í (Forseti hringir.)



[20:25]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa ánægju með að frumvarpið skuli vera komið hér til umræðu og að það takist að mæla fyrir því og koma því til nefndar og til umsagnar. Við höfum lengi beðið eftir útfærslu á hækkun húsaleigubóta og umgjörð utan um húsnæðisbætur. Vinna við þetta hefur staðið yfir gríðarlengi, svo að segja lungann af síðasta kjörtímabili og allt þetta kjörtímabil. Það er afar mikilvægt að við sjáum þetta frumvarp koma hér til umræðu.

Þegar maður flettir yfir frumvarpið eru nokkur atriði sem ég hefði áhuga á að staðnæmast við og nefna. Það er mjög margt sem horfir til bóta. Ég nefni sérstaklega, frá því sem nú er, þá nýju reglu að börn teljist heimilismenn jafnt hjá umgengnisforeldrum og forsjárforeldrum eða hjá báðum foreldrum ef um er að ræða foreldra með deilda forsjá. Það er í samræmi við kröfur nútímans. En þegar maður horfir á stuðulinn sem byggt er á hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort hann taki nægjanlegt tillit til þess viðbótarkostnaðar sem fylgir heimilisrekstri með börn. Það er nú þannig í vaxtabótakerfinu, ef ég man rétt, að þar er stuðullinn fyrir einstætt foreldri með barn 1,5 en 2 fyrir hjón með barn. Oft hefur því verið hreyft að þar þyrfti að gera betur við einstæða foreldra. Það má segja að það sé ósköp lítill munur á því húsnæði sem þarf til eftir því hvort um hjón eða einstætt foreldri er að ræða. Það er kannski frekar barnafjöldinn sem ræður stærð húsnæðisins.

Það er líka hægt að velta þeirri spurningu upp af hverju húsnæðisbæturnar megi ekki taka til útleigu einstakra herbergja, í ljósi þess skorts sem er á húsnæði nú, sérstaklega fyrir stúdenta. Hvort ástæða sé til að girða sérstaklega fyrir það í lögum.

Varðandi spurninguna um hækkun leigu í kjölfar húsaleigubótakerfis, sem mikið er rætt um í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins, þá er það áreiðanlega þannig að engin leið er að koma í veg fyrir að leiga hækki eitthvað í kjölfar breytinga eins og þeirra sem hér er gert ráð fyrir. En það er auðvitað markmiðið með þeim að auka framboð leiguhúsnæðis á móti og það er kannski mikilvægasti árangurinn.

Það má líka ráða, af kostnaðarumsögninni, ákveðna gagnrýni á að stærri hluti nýju húsnæðisbótanna renni til tekjuhærri einstaklinga en áður. Mér finnst felast í því ákveðið skilningsleysi á eðli húsnæðisbótanna sem var ávallt ætlað að verða líkari vaxtabótunum og mæta öðrum en bara lágtekjufólki. Maður veltir hins vegar fyrir sér samhenginu með þeirri aðgerð að koma hér með húsnæðisbótafrumvarp, sem felur í sér að færa stuðninginn upp tekjustigann, á sama tíma og fjármálaráðherra er í óða önn að passa að verðbæta ekki fjárhæðir í vaxtabótakerfinu þannig að það er alltaf að færast neðar og neðar í tekjustiga.

Að síðustu vildi ég drepa á hlutverk sveitarfélaga í þessari nýju umgjörð, sem mér þykir nokkuð óljóst. Í kostnaðarumsögninni kemur réttilega fram að ekki er kveðið á um skyldur sveitarfélaga til að veita sérstakar húsaleigubætur. En í greiningunni á áhrifum á sveitarfélög er talað um 800 millj. kr. útgjöld hjá sveitarfélögum. Það er þá væntanlega bara hjá sumum þeirra. Ég vil kannski beina einni spurningu til hæstv. ráðherra, þ.e. með hvaða hætti tryggt verði að sveitarfélög muni almennt veita þann stuðning sem felst í sérstökum húsnæðisbótum til viðbótar. Því að ég óttast að framhald verði á því sem gætt hefur hingað til, að sum sveitarfélög kjósi ósköp einfaldlega að bjóða ekkert upp á sérstakar húsaleigubætur eins og gert hefur verið í fortíðinni í ýmsum sveitarfélögum og þau komi þar með velferðarbyrði og framfærslubyrði yfir á nágrannasveitarfélög. Við þurfum að binda enda á slíka aðskilnaðarstefnu milli sveitarfélaga hér á höfuðborgarsvæðinu.

Það væri kannski helsta spurningin: Hvernig sér ráðherra fyrir sér að útfæra — það kemur fram í greinargerðinni að það á eftir að fara í slíka samninga við sveitarfélögin — skyldu sveitarfélaganna til að bjóða upp á sérstakar húsnæðisbætur?

Að síðustu vil ég ítreka ánægju með að þetta frumvarp skuli komið fram. Það er efnisríkt og vel unnið, sýnist mér, að öllu leyti. Það verður gaman að takast á við það hér í þinginu.



[20:31]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ræðu hans. Ég held að það sé mikilvægt að hafa í huga er að við erum hér að búa til nýtt kerfi húsnæðisstuðnings. Við erum ekki að bæta við upphæðum inn í núverandi kerfi heldur að búa til nýtt kerfi með nýrri hugsun. Það sem hefur til dæmis verið gagnrýnt í núverandi kerfi að í núverandi húsaleigubótakerfi sé of mikið verið að búa til einhvers konar stuðning við barnafjölskyldur, sérstaklega þá einstæða foreldra. Hér horfum við hins vegar til þess að búa til kerfi sem bætir húsnæðiskostnað hjá fjölskyldum. Við höfum séð að það stundum hefur orðið verulegt áfall fyrir fjölskyldur sem haft hafa miklar barnabætur í gegnum kerfið, að þegar börnin verða átján ára missa foreldrarnir bæturnar en börnin eru áfram á framfæri þeirra og búsett þar. Það ætti svo sannarlega að taka á því.

Flest börn eiga tvo foreldra og báðir foreldrar eiga að bera áfram ábyrgð á framfærslu barna sinna óháð því hvort foreldrarnir búa saman eða ekki. Hér kemur inn nýtt ákvæði til að mæta því að það er raunverulegur húsnæðiskostnaður sem felst í því að vera foreldri.

Síðan varðandi útleigu á einstökum herbergjum. Við fórum yfir það fram og til baka hvort við ættum að gera eitthvað varðandi gagnrýni á það því að hún var ein af þeim stóru atriðum sem tekin voru upp í umsagnarferlinu í vor. En niðurstaða okkar er sú að það er mikilvægt að halda inni ákveðnum kröfum um viðmið á gæðum húsnæðis. Það er fyrst og fremst hugsunin á bak við þetta. Ég tel hins vegar líka, af því að bent hefur verið á það (Forseti hringir.) sérstaklega hvað varðar námsmenn sem eru á almennum leigumarkaði, að við þurfum síðan í auknum mæli (Forseti hringir.) að fjölga námsmannaíbúðum hjá námsmannafélögunum (Forseti hringir.) til þess að það verði sambærilegt við það sem við þekkjum annars staðar á Norðurlöndunum.



[20:34]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka góð svör ráðherrans. Hún náði bara ekki að svara öllu sem ég spurði að þannig að ég ætla að gefa henni færi á að svara aftur, en ég hef engu fleiru við að bæta.



[20:34]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki þannig að með þessu frumvarpi séum við að skerða að einhverju leyti framlög til sveitarfélaganna heldur standa sveitarfélögin betur við þessar breytingar, eins og fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytisins og aðeins er komið inn á í umsögn sveitarfélaganna. Það er líka að sjálfsögðu í samræmi við stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga að gera þessa breytingu með þessum hætti. Þá vonum við líka að til framtíðar getum við verið með eitt húsnæðisstuðningskerfi varðandi húsnæðiskostnaðinn.

Um 30 sveitarfélög, ég er ekki með nákvæma tölu, eru með sérstakan húsnæðisstuðning. Þá eru öll stærstu sveitarfélögin komin með það fyrirkomulag. Við höfum ekki og ekki er tillaga um það í frumvarpinu að setja sérstakar reglur varðandi útfærsluna á því. Það er eitt af því sem ég tel ástæðu til að við skoðum varðandi breytingu á lögum um félagsþjónustuna. En það er ekki lagt til í þessu frumvarpi enda snýr það raunar að því að búa til nýtt kerfi, þ.e. stuðningur vegna húsnæðiskostnaðar, en ekki sérstakri framfærsluaðstoð. Við höfum líka lagt áherslu á að mikilvægt sé að standa vörð um sjálfræði sveitarfélaganna til að móta sína eigin stefnu um hvernig þau standa að þeim stuðningi.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.