145. löggjafarþing — 59. fundur
 19. desember 2015.
fullgilding bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (OPCAT), frh. síðari umræðu.
þáltill. BirgJ o.fl., 6. mál. — Þskj. 6, nál. 398.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:24]

[11:20]
Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég þakka þingheimi fyrir að vera að klára að afgreiða þetta mál, hvernig svo sem það fer. Já, það fer greinilega vel og ég er gríðarlega ánægð með að eftir 12 ára bið sé okkur að takast að fullgilda mjög mikilvæga valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, svokallaða OPCAT-aðferð. Ég vona að við verðum með mjög gott eftirlit með því hvernig þetta verður síðan framkvæmt. Ég þakka öllum þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í að gera þetta að veruleika.



[11:21]
Óttarr Proppé (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmanni sem talaði áðan og óska okkur til hamingju með að vera að fullgilda þessa bókun. Betra er seint en aldrei. Í því samhengi hvet ég sömuleiðis stjórnvöld og Alþingi til að fullgilda samning um réttindi fatlaðs fólks hið allra fyrsta. Við viljum standa okkur vel í mannréttindum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:21]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég fagna því hversu góð samstaða hefur verið á þingi um þetta mál því að vitaskuld á Alþingi Íslendinga að fullgilda bókanir um jafn mikilvæg mál og það að koma í veg fyrir pyndingar. Mér finnst mikilvægt að segja við þessa afgreiðslu að það er gaman að sjá svona þingskjöl þar sem meiri hluti í öllum nefndum sameinast um að leggja málinu lið.



[11:22]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tek þátt í hamingjuóskunum en legg áherslu á að hamingja okkar á ekki að vera fólgin í forminu heldur innihaldinu. Við unnum að þessu máli á síðasta kjörtímabili og ég veit að enn er unnið að þessu máli í innanríkisráðuneytinu af hálfu hæstv. núverandi innanríkisráðherra. Það sem staðið hefur á í þessu efni er ekki viljinn til að tryggja að ekki séu stundaðar pyndingar á Íslandi eða að fangar eða aðrir sem eru sviptir frelsi sínu sæti ómannúðlegri meðferð, heldur að hinn stofnanalegi eftirlitsþáttur er enn ekki til staðar. Hins vegar er unnið að því að svo verði.

Ég vil leggja áherslu á að þetta mál er ekki að fæðast í dag.



[11:23]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hinu háa Alþingi fyrir að leiða þetta mál til lykta. Mér þykir þessi afgreiðsla hljóta að sanna að Alþingi er ekki ónýt stofnun eins og margir halda. Við getum gert góða hluti hér í mikilli samstöðu, jafnvel þótt frumkvæðið sé ekki endilega frá stjórnarmeirihlutanum.

Ég vil ekki bara óska hinu háa Alþingi og föngum landsins til hamingju með málið sjálft heldur einnig það hvernig Alþingi hefur farið með það. Það er til sóma og þegar við lítum til framtíðarinnar skulum við líta aftur til þessa tíma.



Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Till.  samþ. með 52 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁstaH,  BÁ,  BirgJ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KJak,  KÞJ,  KLM,  LínS,  OH,  ÓÞ,  ÓP,  PVB,  PJP,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SÁA,  SII,  SigrM,  SilG,  SÞÁ,  SSv,  UBK,  VBj,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÖJ,  ÖS.
11 þm. (ÁsmD,  ÁsF,  BP,  BN,  GStein,  KaJúl,  LRM,  SIJ,  SJS,  ValG,  ÞórE) fjarstaddir.