145. löggjafarþing — 60. fundur
 19. desember 2015.
ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016, 3. umræða.
stjfrv., 2. mál (breyting ýmissa laga). — Þskj. 662, nál. 678, brtt. 680 og 693.

[18:22]
Frsm. efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um ýmsar forsendur fjárlaga fyrir árið 2016. Það er að finna á þskj. 678.

Málið var kallað til nefndar fyrir 3. umr. Í nefndaráliti hv. nefndar er gerð grein fyrir umræðu og niðurstöðu þeirra mála auk þeirra breytingartillagna sem nefndin leggur til hér við 3. umr.

Vík ég þá fyrst að samkomulagi um fjármögnun þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Nefndin kallaði á sinn fund til að fjalli um málið eftirtalda aðila: Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Benedikt S. Benediktsson, Katrínu Önnu Jónasdóttur, Elínu Guðjónsdóttur og Björn Þór Jónsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Guðna Geir Einarsson frá innanríkisráðuneyti.

11. desember sl. tókst tímamótasamkomulag milli ríkis og sveitarfélaga sem felur í sér endanlega niðurstöðu um fjármögnun þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk samkvæmt lögum um málaflokkinn. Á grundvelli þessa lokasamkomulags ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk er gert ráð fyrir að framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs verði hækkuð til að tryggja fjárhagsafkomu sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk og til að koma til móts við óskir sveitarfélaga um breiðari grunn tekjustofna sveitarfélaga. Samkomulaginu er ætlað að tryggja bætta afkomu sveitarfélaga á grundvelli núverandi þjónustustigs lögbundinnar þjónustu sveitarfélaga samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks.

Samkvæmt samkomulaginu bætist við lögbundna tekjustofna sveitarfélaga framlag sem nemur 0,235% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs. Einnig hækkar hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga úr 0,95% af útsvarstekjum sveitarfélaganna í 0,99%. Á grundvelli samkomulags ríkis og sveitarfélaga frá 13. nóvember 2013 var hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í útsvarstekjum vegna málefna fatlaðs fólks hækkuð tímabundið um 0,04% árið 2014 og var sú hækkun framlengd fyrir árið 2015. Lagt er til að það hlutfall verði lögfest varanlega sem hluti af hámarksútsvari sveitarfélaga sem hækkar þá úr 14,48% í 14,52%. Samkvæmt samkomulaginu eru sveitarfélög bundin af því að 0,25 prósentustig af þeirri hækkun útsvars sem þeim er tryggð vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks renni beint til þjónustu við fatlað fólk innan viðkomandi þjónustusvæða.

Hlutföll bundinna framlaga til Sambands íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtaka sveitarfélaga eru lækkuð til að krónutala þeirra framlaga haldist óbreytt þó að 2,12% framlagið hækki. Þetta á einnig við um sérstöku framlögin vegna húsaleigubóta og jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts.

Nefndin leggur til breytingartillögu vegna framangreinds og er hana að finna á þskj. 680.

Ég ætla að fá að taka það fram sérstaklega, virðulegi forseti, að gert er ráð fyrir þessu í fjárlögum eins og við fórum yfir (Gripið fram í.) á fyrri fundi. Það ber að fagna því samkomulagi sem nú hefur náðst.

Vík ég þá að samsköttunarheimild í tekjuskatti. Við 2. umr. kallaði meiri hluti nefndarinnar breytingartillögur sem snúa að samsköttun og heimild til að færa tekjur milli skattþrepa til 3. umr. til að skoða áhrif fyrirhugaðra breytinga út frá sjónarmiðum kynjaðrar hagstjórnar. Að athuguðu máli telur meiri hluti nefndarinnar rétt að falla frá fyrri breytingartillögum sínum að því er varðar þann þátt sem átti að taka gildi að ári en leggur þess í stað til að áfram verði heimilt að færa tekjur að helmingi milli skattþrepa, eins og er í núgildandi lögum, þrátt fyrir að miðþrepið falli brott í ársbyrjun 2017, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Nefndin telur þó nauðsynlegt að ráðherra beiti sér fyrir því að skoðað verði út frá fyrirliggjandi heimild til samsköttunar og með hliðsjón af kynjaðri hagstjórn og jafnræði í skattamálum hver áhrifin kunni að verða af því að auka þá heimild. Nefndin metur það svo út frá fyrirliggjandi upplýsingum að boðaðar breytingar viðhaldi óbreyttu ástandi er varðar kynjaða hagstjórn. Nefndin leggur síðan áherslu á að úttektin skili sér í því að í framtíðinni verði hægt að meta áhrif skattbreytinga út frá meginmarkmiðum þar um, þ.e. um kynjaða fjárlagagerð.

Um breytingartillögu þessa efnis vísa ég í þskj. 680. Í ljósi þess sem ég hef nú farið yfir, virðulegi forseti, leggur hv. efnahags- og viðskiptanefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég vísa til í þskj. 680.

Undir þetta rita hv. eftirtaldir þingmenn: Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, Willum Þór Þórsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Sigríður Á. Andersen, Brynjar Níelsson, Vilhjálmur Bjarnason, Árni Páll Árnason, sem gerir það með fyrirvara, Guðmundur Steingrímsson, sem gerir það jafnframt með fyrirvara, og Katrín Jakobsdóttir, með fyrirvara.



[18:28]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég rita undir þetta álit af því að ég styð það að þær breytingar verði gerðar sem ríki og sveitarfélög hafa núna náð saman um til að leysa þá stöðu sem hefur verið uppi í málefnum fatlaðra. Eins og kunnugt er hafa ríki og sveitarfélög setið við samningaborðið undanfarna mánuði til að reyna að ná samkomulagi til að hægt sé að halda áfram í kjölfar þess að þetta verkefni var flutt yfir til sveitarfélaganna fyrir nokkrum árum. Núna hefur farið fram endurskoðun á því hvernig það hefur gengið og hver kostnaðurinn hefur verið. Ég styð það að sjálfsögðu þegar þessi lending hefur náðst.

Síðan vil ég aðeins ræða það sem hv. framsögumaður Willum Þór Þórsson fór yfir með samsköttunarákvæðin. Ég fagna því að meiri hluti nefndarinnar hafi ákveðið að draga til baka þá tillögu sem lá hér fyrir við 2. umr. og ákveðið að skoða málið betur. Það liggur fyrir að spurningarnar um ólík áhrif á kynin komu í raun ekki fram fyrr en við 2. umr. málsins. Ég vil bara segja að mér finnst það afar málefnalegt hjá meiri hluta nefndarinnar að hlýða á þau sjónarmið sem komu fram fyrir nefndinni sem benti til þess að sú breytingartillaga mundi hafa mjög mismunandi áhrif á kynin í ljósi þess að í 75% sambanda eru karlar með hærri laun en konur. Þar af leiðandi geta svona ákvæði haft mjög ólík áhrif á kynin. Þar breytir engu persónuleg reynsla hvers og eins, hvernig þeirra hjónaböndum er háttað, þarna skiptir mestu máli að nefndarmenn horfi fyrst og fremst á fyrirliggjandi gögn.

Ég fagna líka þeirri hvatningu sem hér kemur fram um að ráðherra beiti sér fyrir því að skoðaðar verði fyrirliggjandi heimildir samsköttunar sem nefndin leggur til að fái að halda sér. Sú var ekki raunin í frumvarpi ráðherra, en nefndin leggur til að þessi heimild fái að halda sér en tíminn verði notaður þar til þrepum verður fækkað til að skoða ólík áhrif samsköttunar á kynin en líka út frá almennu jafnræði í skattamálum. Ég treysti því eftir þá ágætu umræðu sem átti sér stað í nefndinni að við munum þrýsta á að þetta verði skoðað. Ef okkur er einhver alvara með að vera hér með kynjaða fjárlagagerð og kynjaða hagstjórn þarf að sjálfsögðu að skoða, ekki bara ríkisútgjöldin, þau þarf að skoða, heldur líka hvernig skattkerfið virkar á ólíkan hátt fyrir kynin.

Fyrirvari minn snýst fyrst og fremst um að mér finnst mjög mikilvægt að þessi úttekt fari fram en líka að í lok álitsins stendur að nefndin leggi til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum. Ég er samþykk breytingunum en hins vegar ekki frumvarpinu í heild. Ég gerði auðvitað ítarlega grein fyrir því í ræðum mínum við 2. umr. því að ég er ósammála í grundvallaratriðum þeirri skattstefnu sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Það er auðvitað sú skattstefna sem ég hef rætt ítarlega sem ég tel að skili ekki þeim tekjujöfnunaráhrifum sem ég vil að okkar skattkerfi sé nýtt til, þar með talið sérstaklega það sem er boðað í þessu frumvarpi, fyrir utan allar fyrri breytingar um að framlengja ekki auðlegðarskatt, framlengja ekki orkuskatt, hækka virðisaukaskatt á matvæli og fara svo í þá vegferð sem hér er lögð upp og á að taka tvö ár, að fækka þrepum í þrepaskipta skattkerfinu. Þessu er ég algjörlega ósammála þannig að ég tek fram að þó að ég styðji þessar breytingar mun ég ekki styðja frumvarpið í heild sinni.



[18:32]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get að verulegu leyti vísað til þess sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur rakið. Það er mjög mikilvægt að standa að baki breytingunni um fjármögnun þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Eins og ég sagði áðan í atkvæðaskýringu við afgreiðslu á fjárlögum er það hróss vert að ríkisstjórnin skuli hafa gengið til samninga við sveitarfélögin þar um. Mikilvægt er að minna á að við yfirfærsluna 2010 var útfært mjög vandlega allt er laut að fjármögnun verkefnanna, en það var alltaf vitað að síðan þyrfti að gera lokaúttekt í kjölfar reynslunnar til að fínstilla tekjustofnana. Það hefur verið gert með þessu samkomulagi. Ég tel að það hafi verið farsællega gert, að það hafi verið góð ákvörðun að flytja málefni fatlaðs fólks yfir til sveitarfélaga. Það var vandað mjög til fjármögnunar þess verkefnis og með þeirri ákvörðun á þeim tíma var málaflokknum líka forðað undan niðurskurði sem ella hefði bitnað á honum í höndum ríkisins.

Varðandi samsköttunarþáttinn get ég tekið undir það sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir segir. Mér finnst í sjálfu sér erfitt að taka jákvæða afstöðu til samsköttunarákvæðisins sem slíks en stóð að afgreiðslu málsins vegna þess að þetta var skárri lausn en sú sem var á borðinu að öðrum kosti af hálfu meiri hlutans í fyrri útgáfu. Ég veitti því tilstyrk til afgreiðslu málsins með þeim hætti en hef á því fyrirvara og tel mikilvægt að næsta ár verði notað til þeirrar greiningar sem þarf að fara fram, til að meta áhrif svona samsköttunarumgerðar á kynjaða hagstjórn. Við meðferð þessa máls í nefndinni í gær fannst mér satt að segja í fyrsta skipti maður sjá alvöruumfjöllun í þingnefnd um skattamál á forsendum kynjaðrar hagstjórnar. Ég vil hrósa þessari ríkisstjórn fyrir að hafa haldið við lýði þeirri stefnumörkun sem varð til í tíð síðustu ríkisstjórnar um kynjaða hagstjórn og að það skuli vera eining í fjármálaráðuneytinu sem ráði virkilega við efnislega umræðu um þau mál, komi og eigi rökræður við þingmenn um ákvarðanir á þessum grunni. Það er mikið fagnaðarefni.

Ég legg síðan bara til að tíminn verði nýttur betur til að vinna þetta mál enn frekar áfram.