145. löggjafarþing — 63. fundur
 19. janúar 2016.
nýjungar í opinberu skólakerfi.

[13:55]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að ræða aðeins við hæstv. menntamálaráðherra um orð sem hann lét falla á dögunum þegar hann var við opnun nýs smáforrits sem aðstoðar við lestrarnám þar sem hæstv. ráðherra sagði, samkvæmt Viðskiptablaðinu, að skólakerfið sjálft mundi ekki leysa þennan vanda, opinbera kerfið væri ekki svo gott í að koma með nýjungar og raunar væri það frekar lélegt í því, eins og haft var eftir hæstv. ráðherra. Nú veit ég ekki hvort Viðskiptablaðið hefur þetta nákvæmlega rétt eftir, en mig langaði að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort hann teldi svo vera að hið opinbera skólakerfi væri mjög lélegt að koma með nýjungar, hvort hann teldi það rangan skilning, sem ég hef til að mynda, að skólar væru í raun og veru miðstöðvar þróunarstarfs og þar færi einmitt fram mikil nýsköpun.

Ef hæstv. ráðherra telur hið opinbera almennt lélegt að koma með nýjungar eða hvort það var bara hið opinbera skólakerfi, hvaða gögn hefur hann fyrir sér í því? Þegar við skoðum sögu nýsköpunar, rannsókna og þróunar er iðulega um að ræða samvinnu hins opinbera og einkageirans. Það dugir bara að nefna tæki, sem mjög margir þingmenn eiga, sé ég á borðum, svokallaða snjallsíma sem voru ekki síst þróaðir vegna tækniþróunar hjá opinberum aðilum vestan hafs. Við getum tekið dæmi aftar úr sögunni. Allt sem lýtur að netþróun og öðru — þar hefur hið opinbera iðulega haft mjög mikið framlag. Skólakerfið er enn eitt dæmi þar sem hið opinbera hefur að sjálfsögðu komið með gríðarlega margar nýjungar. Ég hef ekki tíma til að telja þær allar upp, nýjungar í kennslu, lestrarkennslu, myndlæsi, útikennslu, náttúruskilningi, hvert sem við horfum.

Hæstv. ráðherra hefur hins vegar meira talað fyrir því að beina skólakerfinu inn á braut þar sem er meira lagt upp úr miðstýrðum prófunum, árangursmælingum og skimunum. Ég veit ekki hvort hann telur það vænlegt til nýjunga. En hvaða gögn hefur hæstv. ráðherra fyrir sér í því þegar hann segir að hið opinbera skólakerfi sé lélegt í nýjungum, eða átti hæstv. ráðherra kannski við eitthvað annað þegar hann sagði þetta?

Telur hæstv. ráðherra virkilega að rekstrarform þess staðar þar sem maður vinnur ráði því hvort maður sé hugmyndaríkur og nýskapandi í starfi? Snýst þetta ekki, herra forseti, um fagmennsku? Hvað segir hæstv. ráðherra um það?



[13:58]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Snýst þetta um fagmennsku? Svar mitt er þetta: Þetta snýst um árangur. Staðan þegar kemur að lestri íslenskra skólabarna er sú að frá árinu 2012, þegar krakkarnir okkar fóru fyrst í PISA-próf, hefur árangri okkar hrakað jafnt og þétt með einni undantekningu frá þeim tíma. Nú er svo komið þegar maður skoðar tölurnar að það er eins og krakkarnir sem tóku prófið 2012 hafi verið hálfu ári skemur í skóla en krakkarnir sem tóku prófið árið 2000, en öll vitum við auðvitað að sú er ekki raunin. Niðurstaðan er því þessi: 30% drengja við útskrift úr grunnskóla geta ekki lesið sér til gagns.

Það er árangurinn, virðulegi forseti, sem hlýtur að vera hér til grundvallar. Ég hef áhuga á að heyra það frá hv. þingmanni, fyrrverandi hæstv. ráðherra málaflokksins, hvort hún sé þeirrar skoðunar að við getum sagt við foreldra, t.d. þeirra drengja sem ekki geta lesið sér til gagns við lok grunnskóla, að við séum sátt við þá niðurstöðu og okkur finnist okkur hafa tekist mjög vel upp hvað varðar nám þessara barna eða 12% þeirra stúlkna sem geta ekki við lok grunnskóla lesið sér til gagns.

Má ég minna á að við erum sú þjóð sem setur einna mest af fjármunum til náms og til að styrkja hvern og einn einasta nemanda á grunnskólastiginu. Það er það sem ég er að vísa til að við þurfum að gera miklu betur.

Auðvitað eru nýjungar í opinbera skólakerfinu. Reyndar af því að hv. þingmaður var að telja hér upp opinber afskipti af tækninýjungum þá er það alveg rétt að hið opinbera hefur þar hlutverk, t.d. við grunnrannsóknir ýmiss konar. Margt merkilegt hefur einmitt komið á grundvelli þeirra. En við vitum líka og þekkjum það og ég get farið í langa umræðu um það við hv. þingmann að þegar kemur að framtaki einstaklinganna og þeirra hvata sem þar eru þá er mjög líklegt að síðan komi lausnir sem hægt er að nota á grundvelli slíkra rannsókna.

Enn og aftur, hér er verið að ræða um árangur. Ég ætla í það minnsta að segja að ég er ósáttur við þá niðurstöðu að 30% drengjanna okkar geti samkvæmt niðurstöðum PISA-rannsóknanna ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla. Ég er ekki að segja að það séu hin heilögu sannindi en það gefur sterka vísbendingu. Ég er ósáttur við að 12% stúlknanna geti það ekki. Ég er ósáttur við þessa stöðu. Það er sá mælikvarði sem stýrir því hvort ég verð ánægður með þá niðurstöðu, (Forseti hringir.) m.a. af nýsköpun þegar kemur að (Forseti hringir.) lestrarkennslu barna og ungmenna.



[14:00]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég skil svör hæstv. ráðherra þannig að hann sé mjög ósáttur við hið opinbera skólakerfi eins og hann talar hér. Hann talar um lélegan árangur í lestri. Það er alveg rétt að við hefðum viljað sjá betri árangur í lestri. Við höfum náð mjög góðum árangri á ýmsum öðrum sviðum sem hæstv. ráðherra kýs að nefna ekki.

En ég spurði ráðherra skýrt og klárlega spurningar, hvað hann teldi að réði mestu um árangur í nýjungum, hvort það væri rekstrarformið eða hvort það væri fagmennska. Þegar hæstv. ráðherra svarar því til að hið opinbera hafi þar fyrst og fremst eitthvað til málanna að leggja, t.d. í grunnrannsóknum, þá er það ekki svo því að þegar kemur að þeirri tækniþróun sem ég nefndi þá snýst hún ekki bara um grunnrannsóknir af hálfu hins opinbera, heldur betur ekki, heldur þróun og nýsköpun á endanlegri framleiðslu.

Ég áttaði mig ekki á því hvort hæstv. ráðherra var að tala fyrir því, af því að hann tiltók sérstaklega hið opinbera en ekki bara skólana almennt eða starfsfólk þeirra, að það næðist betri árangur ef skólakerfið væri einkarekið að stærri hluta. Er það það sem hæstv. ráðherra er að vísa í þegar hann kvartar undan því að ekki séu nægilegar nýjungar í hinu opinbera skólakerfi? Hvað á hæstv. ráðherra nákvæmlega við þegar hann talar um að hið opinbera skólakerfi standi sig ekki? Telur hann að sú miðstýrða skólastefna (Forseti hringir.) sem hann talar hér fyrir, þ.e. árangursmælingar (Forseti hringir.) á tilteknum mjög afmörkuðum sviðum, sé líkleg til að leiða til frekari nýjunga á breiðu sviði í skólastarfi?



[14:02]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi að það væru dæmi um að hið opinbera hefði fundið upp tækni og þróun nýjunga sem almenningur nýtti. Það er alveg hárrétt. Reyndar fann hið opinbera líka upp kjarnorkusprengjuna svo að líka séu nefnd dæmi um vonda hluti sem hið opinbera hefur fundið upp.

Málið snýst enn og aftur bara um eitt. Erum við að ná þeim árangri sem við þurfum að ná þegar kemur að menntun barnanna okkar? Um það snýst þetta og umræðan hlýtur að taka mið af því.

Það er mikill misskilningur að það sé verið með einhverjum hætti að vega að fagmennsku einstaklinga með slíkum orðum þegar ég kalla eftir því að við náum betri árangri. Þess vegna réðumst við í sérstakt átak hvað varðar læsi og héldum fjölda funda um allt land til þess að ræða þetta mál við nemendur, foreldra og skólafólk. Þetta er óásættanleg staða fyrir Ísland.

Ég hefði viljað heyra hv. þingmann, fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra, ræða þau mál af meiri alvöru og taka undir með mér að við verðum að breyta þessu. Við látum það ekki spyrjast um íslenska þjóð að við sitjum aðgerðalaus við þá stöðu (Gripið fram í.) óbreytta, hvort við ætlum að … (Gripið fram í.) — Ja, af því að hér er spurt, svarið liggur í þessu: Niðurstaðan er sú að börnunum okkar hefur hrakað verulega í læsi á síðustu árum.

Þá kemur spurningin: Erum við að gera nóg þegar kemur að nýsköpun og uppgötvun á nýjum kennsluaðferðum til að snúa því við? Niðurstaðan (Forseti hringir.) liggur fyrir. Þess vegna þurfum við að breyta (Forseti hringir.) og nýta sem best alla krafta og allar hugmyndir og alla möguleika bæði innan kerfis og (Forseti hringir.) utan til að láta þessa stöðu ekki standa.

Virðulegi forseti. Hún er óásættanleg.