145. löggjafarþing — 65. fundur
 21. janúar 2016.
sala Landsbankans á Borgun.

[10:31]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við vissum það eftir umfjöllun á opinberum vettvangi á síðasta ári, um sölu Landsbankans á Borgun, að það fyrirtæki hafði verið selt til útvalinna kaupenda sem voru sérvaldir af Landsbankanum og fengu einir að bjóða í Borgunarhlutinn. Salan fór fram í leyni og án nokkurrar samkeppni um verð og verðið var hlálegt miðað við virði fyrirtækisins og arðgreiðslur úr því.

Það sem síðan hefur komið í ljós, þetta vissum við allt fyrir, er að Landsbankinn hefur gert alvarleg mistök við verðmat á fyrirtækinu og samningsgerðina, hefur ekki tryggt sér aðgang að þeim gríðarlegu greiðslum sem fyrirtækið mun nú að óbreyttu fá, eins og hann þó gerði við söluna á Valitorhlutnum á svipuðum tíma. Bankinn virðist líka hafa gróflega vanmetið það viðskiptatækifæri sem í fyrirtækinu Borgun fólst, ef hægt er að nýta það á einu ári til að afla gríðarlegra verðmæta umfram það sem söluverð á 20% hlut hljóðar upp á.

Hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við og endurreisa traust á Landsbankanum eftir þessa hörmungarsögu alla saman? Styður hann hugmyndir okkar um rannsókn á sölunni, fyrirkomulagi hennar og tildrögum? Mun hann standa með okkur að því að knýja fram slíka rannsókn til að allt fáist upp á borð varðandi þessi viðskipti og þá sé hægt að draga af því lærdóm þegar við höldum áfram með fyrirsjáanlega sölu ríkiseigna á næstu missirum?



[10:34]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Landsbankinn er með sjálfstæða stjórn og í þá stjórn er skipað eftir lögum, Bankasýslan fer síðan með hlutabréfið, eins konar armslengdarsjónarmið ráða för um skipan stjórnarinnar, þannig að málefni Landsbankans eru í sjálfu sér ekki á nokkurn einasta hátt, nema bara með almennum hætti eins og á við um önnur fjármálafyrirtæki, inni á borðum fjármálaráðherra. Það getur þess vegna ekki verið hlutverk fjármálaráðherrans að bera ábyrgð á trausti Landsbankans. Það er stjórnenda og stjórnar bankans og eftir atvikum Bankasýslunnar sem fer með þessi mál að fjalla um þau og bera á þeim ábyrgð. Ég ætla ekki að fara í umræðu hér um það hvernig var staðið að sölunni, enda hef ég ekki neina forsendu til þess, en mér skilst að stjórnendur Landsbankans hafi áður komið fyrir þingnefnd hér og gert grein fyrir málinu. Ég tek eftir því að Landsbankinn hefur sömuleiðis í tvígang í gær birt skýringar á heimasíðu sinni og undirstrikar með því að hann beri sjálfur ábyrgð á því að viðhalda trausti gagnvart bankanum. Það er margt þegar komið fram um þessi viðskipti, m.a. það að virðisaukinn í Borgun virðist hafa orðið til að verulegu leyti til eftir sölu Landsbankans á sínum hlut í Borgun, þ.e. vegna þess að eftir að salan átti sér stað ákvað félagið að fara í útrás á erlenda markaði sem er stór hluti þeirrar skýringar sem er að baki auknu virði hlutabréfanna eða eignarhlutarins, hlutdeildarinnar, í Visa Europe.

Að öðru leyti hef ég í sjálfu sér engar forsendur til þess að fara inn í þetta mál. En ég styð að sjálfsögðu ef menn vilja skoða með einhverjum hætti (Forseti hringir.) hvernig þessi mál hafa gengið fram í ríkisfyrirtæki. Þá verða menn að fara eftir réttum boðleiðum, óska eftir því við Bankasýsluna eða eftir atvikum stjórn bankans. Ég er ekki (Forseti hringir.) í nokkrum einasta vafa um það að stjórn bankans eða stjórnendur eru reiðubúnir að koma fyrir þingnefndina, eins og þeir hafa áður gert, og gera grein (Forseti hringir.) fyrir þessum hlutum.



[10:36]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að stjórnendur hafa sent frá sér yfirlýsingar og mætt fyrir þingnefnd, en staðreyndirnar sem liggja fyrir opinberlega ríma ekki við skýringarnar sem gefnar eru. Það er nú mergurinn málsins og vandamálið sem við er að etja. Það er þess vegna sem ég held að það sé mjög mikilvægt að alvöru rannsókn fari fram. Ég tek því þannig að hæstv. ráðherra leggist ekki gegn því og mun þá taka það upp á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins að við förum yfir það hvaða úrræði eru tiltæk.

Það skiptir máli að rannsaka þetta vegna þess að fyrir dyrum er frekari sala ríkiseigna. Hæstv. ráðherra lagði hér fram frumvarp fyrir jól sem hann leggur mikla áherslu á að verði afgreitt fyrir lok þessa mánaðar. Í því er gert ráð fyrir að eignasafn Seðlabankans fái í hendurnar 60 milljarða eignir og komi þeim áfram í sölu. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að stjórn eignarhaldsfélagsins sé ábyrgðarlaus af öllu sem gert er og að einstakir starfsmenn geti tekið ákvarðanir um sölu eigna allt að einum milljarði króna.

Ég segi bara, (Forseti hringir.) af reynslunni af Borgun: Það er kominn tími til að hemja þennan ábyrgðarleysiskúltúr og búa til fastari og agaðri umgjörð um sölu ríkiseigna. Við ættum að geta sameinast um það.



[10:38]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég veit ekki til þess að uppi sé neinn grundvallarágreiningur um það hvernig standa eigi að sölu ríkiseigna Ég bara kannast ekki við þann ágreining eða í hverju hann er fólginn efnislega.

Frumvarpið sem vísað var til hér, varðandi stöðugleikaframlagið, er einmitt hugsað til þess að stórauka gagnsæi en á endanum verða einhverjir einstaklingar að taka ákvarðanir. Við getum ekki haft þetta þannig að við höldum þjóðaratkvæðagreiðslu í hvert sinn sem á að selja eignir. Það er ekki hægt að hafa það þannig. Það mál þolir alveg umræðu hér og það er (Gripið fram í.) komið til nefndar til efnislegrar meðferðar.

Síðan er það þannig, með allar þessar eignir sem er verið að vísa til, að menn skulu bara gefa sér tíma og vera ekki með sleggjudóma, gefa þá stjórnendum bankans tækifæri til að koma fyrir nefndina, eins og þeir hafa áður gert og ég er viss um að þeir eru tilbúnir til að gera aftur. Á endanum held ég að það væri ágætt að menn hugleiddu hversu mikilvægt er, í öllu þessu ljósi, til að draga úr tortryggni, að koma þessum eignarhlutum út til almennings. Þá geta menn verið vissir um að ekki er verið að reyna að toga upp stærri spotta eins og sífellt er verið að halda fram, heldur fara hagsmunirnir þá saman með ábyrgðinni.