145. löggjafarþing — 65. fundur
 21. janúar 2016.
skert póstþjónusta í dreifbýli.

[10:49]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það hefur komið fram að Póst- og fjarskiptastofnun hefur heimilað Íslandspósti að fækka dreifingardögum í dreifbýli í annan hvern virkan dag í stað daglegrar dreifingar og er það gert samkvæmt heimild í reglugerð innanríkisráðuneytisins.

Sveitarstjórnir hafa mótmælt þessu harðlega og er ég hér með erindi frá bæði Dalabyggð og Strandabyggð þar sem þeim áformum er mótmælt. Í ályktun frá Dalabyggð segir að sem dæmi megi taka, um þær skerðingar sem verði við þetta, að bændur hafi getað pantað lyf hjá dýralækni í símatíma að morgni og fengið þau með póstinum samdægurs. Sama gildi að einhverju leyti um sendingar frá apóteki og um varahluti í búvélar sem eiga til að bila og þarf þá skjótrar þjónustu við.

Í erindi frá sveitarstjóra Strandabyggðar segir að skert póstþjónusta bitni á þeim sem hafa ekki kost á annarri þjónustu af sama toga þar sem ekki sé um aðra dreifingaraðila að ræða, auk þess sem sömu svæði búi við lítið sem ekkert netsamband. Önnur afleiðing skertrar póstþjónustu sé enn meiri fækkun starfa á landsbyggðinni og megi líkja ákvörðun sem þessari við að enn einn naglinn sé rekinn í líkkistu dreifbýlis á landsbyggðinni.

Ég vil því spyrja hæstv. innanríkisráðherra út í þessi áform sem innanríkisráðuneytið, með breyttri reglugerð, opnar á; að Íslandspóstur geti tekið þá ákvörðun að fækka dreifingardögum til sveita og í dreifðum byggðum, en sú ákvörðun var tekin árið 2005 af þáverandi samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssyni, að bjóða upp á fimm daga póstþjónustu út um land allt, samanber það sem er innan Evrópusambandsins. Mér finnst þetta vera mikil aðför að þessum dreifðu byggðum.



[10:52]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki fallist á að með þessari heimild í reglugerð sé verið að reka nagla í líkkistu landsbyggðarinnar. Mér finnst heldur djúpt í árinni tekið þegar svo er sagt. Ég skil alltaf þær áhyggjur sem þingmenn hafa af dreifðum byggðum, að sjálfsögðu. Ég veit að þjónusta þar skiptir mjög miklu máli. En ég held að það sé fulllangt gengið að segja að þó að heimild sé í reglugerð til að fækka póstburðardögum í þrjá, að það sé einhver sérstök aðför að landsbyggðinni. Ég fellst ekki á það.

Hér er um að ræða heimild í reglugerð sem síðan þarf að vinna áfram til að ákvörðun sé tekin um fækkun póstburðardaga. Innanríkisráðuneytið ákvað, í tengslum við breytingu á þessari reglugerð, að gera könnun á því, almenna könnun meðal landsmanna, hvernig menn litu á þjónustu póstsins, hversu oft þyrfti að dreifa pósti í hús. Niðurstaðan var satt að segja sú að töluvert miklar breytingar eru orðnar á því hvernig menn nálgast póst. Þetta hefur færst mikið á internetið eins og við þekkjum. Það kom ekki fram í þeirri könnun að almenn andstaða væri við því að meiri sveigjanleiki sé í póstburðardögum. Ég hef ekki orðið vör við þessi miklu mótmæli sem hv. þingmaður nefnir, að minnsta kosti ekki að svo komnu máli.

Ég held að menn eigi aðeins að anda rólega út af þessu. Hér er um að ræða heimild í reglugerð sem ég sé enga ástæðu til að hafa þvílíkar áhyggjur af og hv. þingmaður hefur.



[10:54]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Talsmönnum hinna dreifðu byggða fer fækkandi og þá veitir ekki af fyrir okkur hin að standa í lappirnar með að vera talsmenn þeirra hér á Alþingi. Það eru einmitt sveitarfélög sem hafa dreifðar byggðir innan sinna marka sem eru að senda okkur þingmönnum bréf og lýsa áhyggjum sínum og óánægju með að enn eina ferðina eigi að bjóða upp á annars flokks þjónustu hjá ríkisfyrirtæki, Íslandspósti, á þessum svæðum sem eru mjög veik fyrir. Þetta ýtir undir að búsetuskilyrði á þessum svæðum veikjast.

Samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og Fjórðungssamband Vestfjarða, sem hefur komið að þessu máli, er lítið sem ekkert. Á þeim vettvangi töldu menn að þetta væri ekki í bígerð. En síðan er þessu skellt svona fram, það er opnað á þetta með reglugerð, og Íslandspóstur er búinn að segja upp (Forseti hringir.) verktökum í landpóstsþjónustu og er að fara að keyra á þetta plan á fullri ferð. Ég lýsi mikilli óánægju með það skilningsleysi á þessu máli sem hér kemur fram.



[10:55]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég hafna því algerlega að hér sé um að ræða eitthvert sérstakt skilningsleysi á aðstæðum landsbyggðarinnar hjá mér, ég hafna því algerlega. Það er þannig vegna bögglaþjónustu — hv. þingmaður nefndi það sérstaklega í fyrri spurningu sinni að menn þyrftu stundum á tilteknum hlutum að halda — að ekkert kemur í veg fyrir það með þessari breytingu að menn fái slíka þjónustu samstundis. Það er mikill misskilningur ef hv. þingmaður heldur að svo sé. Mér finnst, og ætla að ítreka það, býsna langt gengið þegar því er haldið fram að með því að gera breytingar af þessu tagi sé með sérstökum og nánast skipulegum hætti verið að ráðast gegn landsbyggðinni. Það er algerlega fráleitt og ég hafna því alfarið. (LRM: Lakari þjónusta.)