145. löggjafarþing — 65. fundur
 21. janúar 2016.
um fundarstjórn.

afstaða stjórnarliða til sölu Landsbankans.

[11:43]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held nú, í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað, og þeirra upplýsinga sem komið hafa fram frá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, um afstöðu hans sem talsmanns Framsóknarflokksins í þessari umræðu, að sú staða sé uppi að óvíst sé að þingmeirihluti sé fyrir því að selja Landsbankann. Við erum með í höndunum skýrslu frá Bankasýslu ríkisins sem segir að ekki eigi að byrja á sölunni nema menn hafi gert það upp við sig hvernig þeir ætli að ljúka henni, hvað ríkið ætli að eiga til langframa mikinn hluta.

Það er verið að auglýsa eftir ráðgjöfum í dag. Hæstv. fjármálaráðherra gerir lítið úr því og segir að þeir séu að fara að ráðleggja ríkisstjórninni. Hér verður að taka hlutina í réttri röð. Er verið að ráða ráðgjafa til að ráðleggja ríkisstjórninni hversu stóran hlut hún á að eiga í Landsbankanum? Nei, er ekki verið að ráða ráðgjafa til að ráðleggja um sölu bankans? Það er allt annað mál. Það er óeðlilegt að hefjast handa við þetta ferli þvert á faglegar ráðleggingar þeirrar stofnunar (Forseti hringir.) sem að lögum á að fara með málið og ráðleggur okkur og segir að það sé fráleitt að hefja söluferlið nema stefnumörkun ríkisstjórnarinnar liggi fyrir.



[11:44]
Forseti (Þórunn Egilsdóttir):

Forseti vill benda þingmönnum á það að liðurinn um fundarstjórn forseta er ekki ætlaður til að nota sem áframhald á umræðu sem lokið er og afmarkaður var tími.



[11:45]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé samt ekki misnotkun á þingsköpum að ræða þá pólitísku stöðu sem hefur afhjúpast hér í þessari umræðu. Djúpstæður ágreiningur er milli stjórnarflokkanna um það hvert halda skuli í þessu máli. Þá er rétt að benda á að þetta eru heimildir en ekki skylduákvæði. Það er heimilt að hefja sölu í bönkunum en það er ekki skylt. Að sjálfsögðu geta menn endurskoðað það á hvaða tímapunkti sem er hvort sú heimild sé nýtt.

Varðandi bókfærslu á áætluðum sölutekjum í bókhald ríkisins þá verður eignin áfram til staðar þannig að það er ekki eins og eitthvað sé að fara í burtu frá mönnum í þeim efnum þó að það mundi hafa áhrif á áformaða niðurstöðu fjárlaga á árinu 2016.

Ég held að með einhverjum hætti verði að taka þessa stöðu málsins til skoðunar og umræðu hér í þinginu, í þingnefndum eða eftir atvikum hér í salnum, það sé ómögulegt að láta þetta standa svona, nema ef hæstv. fjármálaráðherra er einbeittur í því að setja undir sig hausinn og vaða (Forseti hringir.) áfram, jafnvel þótt hann hafi ekki þingmeirihluta og ekki hinn stjórnarflokkinn með sér í þeim leiðangri.



[11:46]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að þingmenn verði að nota það tækifæri sem gefst í þessum lið, um fundarstjórn forseta, til að ræða þetta mál áfram, eins og hér hefur verið gert.

Í þessari umræðu hefur komið fram að Framsóknarflokkurinn styður ekki áform um sölu á tæplega 30% hlut í Landsbankanum. Það kemur fram í ræðu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar. Forsætisráðherra sagði hér fyrir nokkrum dögum að það lægi ekkert á að selja hlut í Landsbankanum. Bankasýsla ríkisins er komin á fulla ferð við að undirbúa söluna. Þetta er staða málsins.

Vegna síendurtekinna ummæla framsóknarmanna, um að þeir styðji ekki söluna, efast maður um að þingmeirihluti sé fyrir þessari sölu. Það er það sem er verið að brjóta hér til mergjar. Framsóknarflokkurinn er reyndar samur við sig. Hafa skal í huga að hann samþykkti fjárlög þar sem gert var ráð fyrir sölunni og gert ráð fyrir tekjum á þessu ári af sölunni. (Forseti hringir.)

Það sem liggur hér fyrir — sem er mjög erfitt verkefni, ég geri mér grein fyrir því — er að reyna að gera sér grein fyrir því hvort Framsóknarflokkurinn meinar eitthvað með því sem hér er verið að segja eða hvort þetta er bara áframhald á því að hafa fyrirvara og geta sagt: Það er hæstv. fjármálaráðherra sem er vondi maðurinn sem ætlar að selja.



[11:47]
Forseti (Þórunn Egilsdóttir):

Forseti vill árétta orð sín og minna hv. þingmenn á það að þessi liður, um fundarstjórn forseta, er ekki ætlaður til efnislegrar umræðu um mál sem umræðu hefur verið lokið um.



[11:48]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér þykir að jafnaði fínt að þingmenn séu ósammála, jafnvel þótt þeir tilheyri báðir ríkisstjórnarflokkum.

Ég vil enn og aftur gera athugasemd við tímalengd svona umræðna. Hér koma menn upp undir liðnum um fundarstjórn forseta og taka einhverja efnislega umræðu og það er gagnrýnt, alveg með réttu að mínu mati, en mér þykir það vera ákall um að þessar sérstöku umræður þurfi að vera lengri. Mér finnst okkur vanta einhvers konar leið til að halda svona umræðum áfram.

Oft verða sérstakar umræður sem varða ekki beinlínis þingmál til umræðu og þá er mjög erfitt að ræða svona mál til mergjar á þingi. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við gerum þetta.

Að því sögðu, ég ætla ekki út í neina efnislega umræðu um málið, finnst mér að til að laga svona hluti eigum við að breyta þingsköpum í þá átt að við getum meira rætt svona mál.



[11:49]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta því að þetta er sá liður sem maður á að nota til að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta. Hann er hins vegar misnotaður eins og virðulegur forseti hefur bent á. Ég tel rétt að virðulegur forseti slái þá í bjölluna og það verði almenn regla ef við ætlum að halda svona áfram. Við erum búin að vera hér í nokkra daga, þetta er fyrsta vikan, og vissir hv. þingmenn hafa nú þegar hafið málþóf (Gripið fram í.) með því að misnota þennan lið. Það vita allir (Gripið fram í: Þú ert ekki í …) sem eru hér inni. (Gripið fram í.) Ef við ætlum að gera það skulum við að minnsta kosti ekki segja á opinberum vettvangi að við viljum breyta starfsháttum þingsins og auka virðingu þess. Við skulum segja eins og er, að allir þeir liðir sem hægt er að misnota verði misnotaðir í þágu einhvers málstaðar.

Það eru næg önnur tækifæri fyrir þingmenn til að koma skilaboðum áleiðis þótt við tökum ekki þennan lið í gíslingu.



[11:50]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek eftir því að hér virðist ætla að halda áfram umræða sem er nýlokið. Menn vísa til þess að eitthvað sé óskýrt varðandi framtíðaráform ríkisins um eignarhluti og það kalli á frekari umræðu. Ég ætla bara að segja um það og hefði kannski betur komið fram í umræðunni áðan: Það þarf að uppfæra eigendastefnu ríkisins. Það er alveg hárrétt. Það verður gert og þar verður kveðið á um hvernig þessi ríkisstjórn sér fyrir sér að eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum verði til framtíðar. Ég tel að það sé hárrétt hjá Bankasýslunni að það skipti mjög miklu fyrir áhuga nýrra aðila að hafa skýrar línur um það hvað ríkið hyggst fyrir í náinni framtíð með eignarhluti sína og það mun þá eiga við bæði um Íslandsbanka og Landsbankann.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með þeirri umræðu hér. Hér eru ríkisbankasinnar sem vilja að ríkið eigi (Forseti hringir.) þessi fyrirtæki eins og mörg önnur og síðan eru hinir sem vilja í grundvallaratriðum að ríkið losi sig undan eignarhaldinu en vilja tryggja að farið sé varlega og vel með þær eignir sem er verið að setja í sölu. Ég ætla að stilla mér upp í þeim hópi.



[11:51]
Forseti (Þórunn Egilsdóttir):

Forseti vill enn ítreka orð sín varðandi þennan lið og hvernig við nýtum hann hér, hv. þingmenn.



[11:52]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hér komu fram hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni. Það er svo mikilvægt, þegar við erum að ræða um svona stór og flókin mál, að við fáum að gera það þannig að maður upplifi að það komi eitthvað alvöru út úr því og maður geti náð utan um málaflokkinn. Ég vil jafnframt ítreka síendurtekna ósk okkar þingmanna Pírata um að nefndarfundir séu opnir og sér í lagi þegar við erum að fjalla um svona mál þannig að allir þingmenn geti notið góðs af því sem kemur fram á þeim fundum því það að geta tekið þátt í upplýstri umræðu um svo flókin mál eins og þetta er óumdeilt. Ég lít svo á að hér sé ég algerlega að fjalla um fundarstjórn forseta og óska eftir því að forseti beiti sér fyrir því að nefndarfundir séu að öllu jafnaði opnir.