145. löggjafarþing — 66. fundur
 25. janúar 2016.
kjör aldraðra og öryrkja.

[15:27]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í lok síðustu viku bárust okkur þau ánægjulegu tíðindi að svokallaður SALEK-hópur, þ.e. aðilar vinnumarkaðarins, hefðu náð mjög mikilvægri sátt á vinnumarkaði, útfærslu á kjarasamningum sem gerðir voru síðast, og að það gildi til ársloka 2018, jafnvel fram á árið 2019. Við hljótum öll að fagna því mjög að þetta sé gert og að þessi sátt skuli vera. Frá ríkisstjórn hefur komið fram að hún ætli að bæta aðilum vinnumarkaðarins þetta með því að lækka tryggingagjald. Það er allt saman mjög ánægjulegt.

En það er einn hópur í þessu þjóðfélagi, virðulegi forseti, sem ég vil gera að umtalsefni og spyrja hæstv. forsætisráðherra út í, þ.e. kjör aldraðra og öryrkja. Við deildum mjög, bæði við fjáraukalagagerð og fjárlagagerð, um hvernig ætti að hækka greiðslur til aldraðra og öryrkja. Það voru meðal annars þessi 5,5% sem áttu að koma 1. maí á þessu ári en í umræddu samkomulagi hefur það verið fært til 1. janúar síðastliðins og 0,7% bætt við þannig að almenn laun munu hækka um 6,2% frá 1. janúar síðastliðnum.

Ríkisstjórnin er í raun og veru, ásamt okkur alþingismönnum, kjararáð aldraðra og öryrkja. Við erum viðsemjendur aldraðra og öryrkja, það erum við sem ákveðum kjör þeirra. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort það sé ekki alveg 100% klárt að ríkisstjórnin ætli að hækka greiðslur til aldraðra og öryrkja strax í upphafi árs frá 1. janúar eins og samkomulag hefur orðið um á vinnumarkaði og hvort það komi þá ekki strax hér inn.

Að mínu mati eru þetta í kringum 6.000–7.000 kr. eftir skatt og ég vil ræða þetta út frá því. Í dag, eftir þær hækkanir sem hafa komið fram, eru þetta 186.000 kr. eftir skatt og það lifir enginn mannsæmandi lífi á því. Ég veit að við forsætisráðherra erum örugglega sammála um það. Eða er ekki svo, virðulegi forseti?



[15:29]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ætli það sé ekki ástæða til að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja aftur máls á þessu atriði, stöðu eldri borgara og hvernig greiðsla lífeyris hefur þróast?

Það er gott að fá tækifæri til þess að ítreka það sem við bentum á hér fyrir áramót — mér fannst hv. þingmaður ekki vera nógu móttækilegur fyrir því þá, eða ekki alveg átta sig á því — að þrátt fyrir að lífeyrisgreiðslur séu, samkvæmt lögum, færðar upp um áramót þá er með þeirri uppfærslu tekið tillit til þeirra breytinga sem hafa orðið hjá öðrum hópum yfir árið, hvernig menn hafa samið á vinnumarkaði, hvernig verðlag hefur þróast. Þetta er gert upp um áramót.

Þetta var gert upp fyrir árið 2015 við síðustu áramót og þar af leiðandi, vegna þess að miklar kauphækkanir höfðu orðið á því ári, var óvenjuhá prósentuhækkun lífeyrisgreiðslna um síðustu áramót.

Nú lítur út fyrir að þegar þetta ár verði gert upp verði einnig mjög umtalsverðar hækkanir lífeyris vegna þess að laun fólks munu þróast með þeim hætti, þau munu hækka það mikið, að uppfærslan, til að gera upp árið 2016, verði þeim mun hærri hvað varðar örorku- og ellilífeyrisgreiðslur.



[15:31]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við forsætisráðherra erum sammála um mikilvægi kjarasamninga sem gerðir voru um sáttina, um frið á vinnumarkaði, um aukna verðmætasköpun í landinu.

En átti ég virkilega að skilja svar hæstv. forsætisráðherra þannig að aldraðir og öryrkjar eigi að bíða í tólf mánuði eftir jafnstöðu hvað varðar samkomulag á vinnumarkaði, um hækkanir á launum aldraðra og öryrkja? Ég trúi því ekki að forsætisráðherra ætli að skilja þennan hóp einan eftir óbættan. Hefur ríkisstjórnin þar fundið breiðu bökin til að jafna ríkisreikning og fjárlagahalla eða koma í veg fyrir fjárlagahalla? Ég spyr.

Afraksturinn er nú ekkert mjög mikill í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það var tæplega 3.500 kr. hækkun eftir skatt sem fór með matarskattinum og svo 11.000 kr. núna. Þessar lágmarksbætur eru 186.000 kr. í dag og eiga þá að vera út þetta ár ef forsætisráðherra ætlar ekki að beita sér fyrir þessari lagfæringu.

Ég ítreka því spurningu mína: Vill hæstv. forsætisráðherra ekki beita sér fyrir þverpólitískri sátt, (Forseti hringir.) eins og gert var hjá aðilum vinnumarkaðarins milli þeirra sem semja um kaup og kjör aldraðra og öryrkja, og hækka þessar greiðslur frá og með áramótum eins og allir aðrir fá í þessu þjóðfélagi?



[15:32]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Skelfing er þetta nú aum tilraun til popúlisma. Hv. þingmaður veit það mætavel — hann hefur setið hér á þingi lengi og meira að segja í ríkisstjórn — að lífeyrisgreiðslur hafa ætíð verið hækkaðar um áramót. Ég væri alveg opinn fyrir því að skoða það að hækka þessar greiðslur oftar eða tengja það við það þegar sem flest stéttarfélög eru að semja. Það er allt í lagi að skoða það.

Hv. þingmaður ætti að hafa í huga að eldri borgarar hafa á síðustu árum hagnast á því fyrirkomulagi að þetta skuli gert upp um áramót vegna þess að þá er farið yfir allt árið. Þá er það allt tekið með í reikninginn, verðlagshækkanir, launahækkanir og gert upp um áramótin.

Með öðrum orðum: Ef leið hv. þingmanns hefði verið farin á síðustu árum þá hefðu kjör eldri borgara ekki batnað jafn mikið og þau hafa gert með núverandi fyrirkomulagi.

Jafnframt er rétt að minna hv. þingmann á, af því að hann talar nú um þessa ríkisstjórn og þróun mála í tíð hennar, að kaupmáttur bóta hefur sjaldan aukist jafn hratt. Auðvitað er hann ekki orðinn nógu mikill en hann er að aukast miklu hraðar en í tíð síðustu ríkisstjórnar og mun halda áfram að aukast við næstu áramót.