145. löggjafarþing — 66. fundur
 25. janúar 2016.
ákvæði um greiðslu sérstakrar framfærsluuppbótar í samræmi við búsetu hér á landi.
fsp. SÞÁ, 408. mál. — Þskj. 570.

[15:47]
Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef gert það sem viðkemur málefnum fólks sem fær hlutagreiðslur úr almannatryggingakerfinu að umræðuefni við hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra áður á Alþingi.

Til upprifjunar á þessu máli þá virkar kerfið þannig að einstaklingur ávinnur sér fullan rétt til greiðslna úr almannatryggingakerfinu við 40 ára búsetu hér á landi meðan hann er á aldrinum 18–67 ára. Þeir sem hafa verið búsettir erlendis hluta af starfsævinni fá hins vegar hlutagreiðslur.

Kerfið byggir á því að fólk sem hefur starfað erlendis hafi áunnið sér réttindi í fyrra búsetulandi og fái greiðslur erlendis frá sem bætast þá við þau hlutaréttindi sem fólk hefur hérlendis.

Raunin er hins vegar sú að af margvíslegum ástæðum fær fólk ekki alltaf greiðslur frá fyrra búsetulandi og hefur því aðeins hinar íslensku hlutabætur sér til framfærslu.

Þegar ég átti orðastað um þetta málefni við hæstv. ráðherra í fyrra vísaði hún til þess að hún væri að bíða eftir tillögum frá nefnd um endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Sú nefnd hefur ekki enn skilað af sér tillögum. En það sem skiptir þá fyrst og fremst máli í þessu samhengi hér er að nefndin ætlar einfaldlega ekki að leggja fram sérstakar tillögur um hlutabætur. Það gengur því ekki að vísa til þeirrar nefndar varðandi lausn á þessu málefni.

Í lögum um félagslega aðstoð segir, með leyfi forseta:

„Heimilt er að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess.“

Þar segir einnig:

„Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd …“

Það er þessi nánari framkvæmd sem ég vil ræða sérstaklega við hæstv. ráðherra í dag. Það er nefnilega svo að einstaklingar sem fá greiddar hlutabætur í almannatryggingakerfinu fá einnig greiddar hlutabætur af uppbótum á lífeyri. Útkoman verður því eðli málsins samkvæmt sú að ráðstöfunartekjur eru einungis hluti af því sem hefur verið skilgreint sem lágmarksframfærsla.

Það er hins vegar ekkert í lögum um félagslega aðstoð sem kveður á um að til þess að fá þær greiðslur þurfi viðkomandi að hafa verið búsettur hér í 40 ár.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji koma til greina að fella niður eða endurskoða 3. mgr. 15. gr. reglugerðar um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, nr. 1052/2009, sem kveður á um að sérstök uppbót til framfærslu greiðist í samræmi við búsetu hér á landi, sbr. 1. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, með tilliti til þess að tilgangurinn með (Forseti hringir.) lögunum um félagslega aðstoð er jú sá að tryggja öllum ákveðna skilgreinda lágmarksframfærslu.



[15:50]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir hefur beint til mín um ákvæði um greiðslu sérstakrar framfærsluuppbótar í samræmi við búsetu hér á landi. Þingmaðurinn spyr hvort það komi til greina að fella niður eða endurskoða 3. mgr. 15. gr. reglugerðar um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, nr. 1052/2009, sem kveður á um að sérstök uppbót til framfærslu skuli greiðast í samræmi við búsetu hér á landi.

Eins og kemur fram í fyrirspurninni er í 15. gr. reglugerðarinnar kveðið á um að sérstök uppbót skuli reiknast í samræmi við ákvæði 1. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í þeim ákvæðum er fjallað um hlutfallslega ávinnslu réttar til almannatrygginga en umrædd reglugerð varðar framkvæmd bæði laga um félagslega aðstoð og laga um almannatryggingar.

Almannatryggingakerfið er byggt upp með þeim hætti að þeir sem hér búa öðlast rétt í hlutfalli við búsetutímann. Þannig öðlast þeir sem búið hafa hér á landi í 40 ár full réttindi en þeir sem búið hafa hér skemur öðlast hlutfallslegan rétt. Þegar um örorkulífeyri er að ræða er tíminn fram til 67 ára aldurs umsækjanda tekinn með við útreikninginn sem leiðir til hærra réttindahlutfalls. Þannig þarf tiltekna lágmarksbúsetu til að réttindi skapist hjá almannatryggingum, enda væri það að mínu mati ekki rétt og mundi grafa undan almannatryggingakerfinu að hingað til lands gætu komið einstaklingar hvaðanæva að frá löndum sem veittu minni félagslega aðstoð en tryggð væri hér á landi til þess eins að njóta almannatryggingakerfisins og fá aðstoð. Ef full framfærsluuppbót án hlutfallslegs útreiknings yrði greidd ofan á hlutfallslega áunninn lífeyrisrétt, t.d. ofan á lágmarksrétt sem er 3/40 af fullum bótum, mundu allir lífeyrisþegar sem hér búa fá fullar greiðslur frá almannatryggingum algerlega óháð tímalengd búsetu hér á landi. Eingöngu tekjur þeirra gætu þá haft áhrif til lækkunar bótanna. Það gefur augaleið að þá værum við um leið búin að leggja af það réttindaáherslukerfi í almannatryggingum sem hefur verið við lýði frá því almannatryggingum var komið á fót.

Eins og hv. þingmaður nefnir líður að því að almannatrygginganefndin ljúki sinni vinnu. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið er það rétt sem hv. þingmaður segir að það mun ekki liggja fyrir afstaða hjá nefndinni um breytingar hvað þetta varðar. Áfram er þannig byggt á hugmyndafræðinni um réttindaáherslu í samræmi við búsetu.

Í fyrirspurn hv. þingmanns segir jafnframt að tilgangur með lögum um félagslega aðstoð sé að tryggja öllum ákveðna skilgreinda lágmarksframfærslu. Það er hins vegar mat ráðuneytisins að það sé ekki rétt. Um er að ræða sértækan stuðning við ákveðna hópa fólks, þar með taldir lífeyrisþegar, við tilteknar aðstæður. Greiðslurnar eru heimildargreiðslur og ber að leggja á það mat hverju sinni hvort uppfyllt séu skilyrði laganna fyrir þeim greiðslum, m.a. úr frá tekjum einstaklinga.

Ég legg líka áherslu á að því má ekki gleyma að almannatryggingakerfið er eitt nokkurra kerfa er saman mynda íslenska velferðarkerfið. Það er hlutverk sveitarfélaga að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúa sinna í samræmi við aðstæður þeirra. Geti einstaklingar sem hér búa ekki framfært sér með tekjum sínum, þar með talið þeim tekjum sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð og með greiðslum frá þeim lífeyrissjóði sem greitt hefur verið til, geta þeir snúið sér til félagsþjónustunnar í búsetusveitarfélagi sínu og óskað eftir frekari aðstoð.

Eins og kom fram hjá hv. þingmanni sagði ég í fyrri svörum mínum að ég hafði vonast til að nefndin mundi fjalla ítarlegar um það en raunin er en þetta er alla vega niðurstaðan. Áfram er byggt á réttindaáherslukerfinu í almannatryggingum miðað við þau drög að tillögum sem liggja fyrir varðandi nýtt almannatryggingakerfi.



[15:55]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef áður, undir þessum dagskrárlið, undrað mig á þeim svörum ráðherra sem koma fram. Svörin felast yfirleitt í því að ráðherra heldur langa ræðu og endurtekur ræðu fyrirspyrjanda sem ég held að sé óþarft, allavega fyrir okkur sem sitjum hér inni og líka út af þingtíðindunum, það má lesa þetta saman þar.

En mér skildist þó á ráðherranum að svarið við spurningunni sem lögð var fyrir hana væri nei. Nefndin sem hefur verið að störfum leggur ekki til neinar breytingar hvað varðar þennan hóp, sem vissulega þarf að taka á. Þetta er vandamál sem er uppi. Það er alveg ljóst að ekki er hægt að vísa fólki á félagsþjónustu sveitarfélaganna. Það er bara eins og í gamla daga að vísa fólki á sveit. Það þarf að sjá fyrir þessu fólki líka og ég skil það þannig að ráðherrann ætli ekki að gera neinar tillögur í þessu efni fyrst að nefndin gerði það ekki.



[15:56]
Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég skildi svar hæstv. ráðherra einnig þannig að í raun væri hún að segja nei, að í hennar huga komi ekki til greina að endurskoða 3. mgr. 15. gr. reglugerðar um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri.

Það eru mér vonbrigði því að þó svo að það sé tæknilega rétt, sem hæstv. ráðherra segir, að mögulega gæti hingað komið fólk frá löndum þar sem er verra almannatryggingakerfi þá er kerfið sem við búum við í dag þannig að Íslendingar sem búa á Íslandi búa við alveg rosalega kröpp kjör, meðal annars vegna þessa reglugerðarákvæðis.

Ég hef verulegar áhyggjur af þessum hópi og tel algjörlega nauðsynlegt að við hugum að því hvernig við getum bætt stöðu hans í samfélaginu. Það er að mínu mati einfaldlega verulega brogað almannatryggingakerfi sem er þannig úr garði gert að hópur fólks í samfélaginu dæmist til að búa við kjör sem eru langt undir öllum viðmiðum um framfærslu.

Í lögum um félagslega aðstoð segir að bætur félagslegrar aðstoðar greiðist eingöngu þeim sem eru með lögheimili hér á landi. Ég vil hins vegar ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að það er ekkert í þessum lögum um að viðkomandi hafi þurft að hafa hér búsetu í 40 ár (Forseti hringir.) til að eiga rétt á þessum bótum.

Ég tel einfaldlega að við hér á Alþingi verðum að einhenda okkur í þá vinnu að laga stöðu þessa fólks. (Forseti hringir.) Það gengur ekki að hér sé hópur sem sé með kerfislægum hætti þannig undirskipaður að hann verði að búa við fátækt.



[15:59]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Í tengslum við þær athugasemdir sem féllu hér vil ég bara segja að ég held að það sé mjög mikilvægt að við tölum ekki niður þau stuðningskerfi sem við erum með í samfélaginu. Það er mjög fagleg og góð þjónusta sem sveitarfélögin veita á grundvelli laga um félagsþjónustu og vinna að því að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúa í samræmi við lög og aðstæður hverju sinni. Ég held að það sé mikilvægt að við tökum skrefið til baka gagnvart þeim neikvæðu viðhorfum sem hafa verið í gegnum tíðina til þeirrar aðstoðar sem sveitarfélög hafa verið að veita.

Almannatryggingakerfið er, eins og ég nefndi, aðeins einn hluti af þeim kerfum sem við erum með og höfum búið til sem mynda íslenska velferðarkerfið. Það sem hv. þingmaður spurði um var eitt af því sem nefnd á mínum vegum, sem vinnur að endurskoðun almannatryggingakerfisins, skoðaði. Fjölmargar góðar tillögur liggja nú fyrir og er að myndast samstaða um varðandi breytingar á almannatryggingakerfinu til hagsbóta fyrir ýmsa hópa.

Ég tel að það hljóti að vera mitt hlutverk, af því að ég hef falið stórum og öflugum hópi að koma með tillögur til þess að huga að bættu kerfi, að vinna með þær tillögur eins vel og ég mögulega get innan þess ramma sem Alþingi veitir mér. Það mun ég gera.