145. löggjafarþing — 70. fundur
 1. feb. 2016.
framlög til barnabóta.

[15:17]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í Fréttatímanum um liðna helgi gat að líta úttekt á samanburði á velferðarkerfinu á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. Sú greining var byggð á nýrri samanburðarskýrslu norrænu hagtölunefndarinnar um félagsleg málefni og byggir því á opinberum gögnum.

Það sem er athyglisvert þegar horft er yfir þessa úttekt, og í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu um samanburð heilbrigðiskerfisins á Íslandi við heilbrigðiskerfi í öðrum nágrannalöndum, er að sama hvar borið er niður á sviði félagslegrar velferðar, þjónustu við börn, aðbúnað eldri borgara, þá er himinn og haf á milli þess sem raunveruleikinn á Íslandi hljóðar upp á og þess sem fólk má vænta í grannlöndunum.

Eina sviðið þar sem við gerum þokkalega vel og jafnvel betur en önnur lönd er á sviði vaxtabóta en það kemur ekki til af góðu heldur er það til að niðurgreiða íslenska krónu og dugar samt ekki til því að húseigendur væru betur settir með norræna vexti án vaxtabóta en með íslenska vexti og vaxtabætur.

Það er sláandi að sjá samanburðinn þegar kemur að barnabótum og fæðingarorlofi. Það eru svo til aðeins börn einstæðra foreldra og hinna allra tekjulægstu sem njóta barnabóta hér á Íslandi eins og við þekkjum svo vel og munurinn er þannig að hann skiptir tugum milljarða. Það er sérstaklega athyglisvert að barnabætur með tveimur börnum fólks í sambúð eru 5.800 kr. á Íslandi en ættu að vera 35.000 kr. ef íslensk börn sætu við sama borð og á Norðurlöndunum.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er ekki ástæða til að endurskoða þá sveltistefnu sem ríkisstjórnin hefur tekið upp í barnabótakerfinu (Forseti hringir.) og gagnvart fæðingarorlofinu sérstaklega og endurskoða þær áherslur sem stjórnarmeirihlutinn sýndi hér við fjárlagagerðina að þrengja svið þessara bóta og taka þær almennt af fólki á meðaltekjum?



[15:19]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er þannig með samanburðarskýrslur að þær gefa hver sína myndina. Nú hef ég ekki kynnt mér þessa tilteknu skýrslu sem hv. þingmaður vísar til en ég þekki aðrar skýrslur, ég þekki skýrslur frá OECD til dæmis af ráðstefnu sem ég sótti á síðasta ári sem kemur út undir enska heitinu How is life? þar sem kemur fram að almennt hafi Íslendingar það mjög gott í alþjóðlegum samanburði, t.d. hvað varðar aðgengi að heilbrigðisþjónustu, það þykir vera til fyrirmyndar á Íslandi og á það við um marga aðra þætti sem skipta daglegt líf fólks máli.

Hér er sérstaklega spurt um barnabætur. Það er kölluð sveltistefna, stefna sem ríkisstjórnin hefur fylgt um hækkun barnabóta. Við hækkuðum barnabætur verulega fyrir tveimur árum og færðum niður tekjuskalann með auknum tekjutengingum. Þannig tryggðum við að auknar bætur mundu betur nýtast þeim sem minna hafa milli handanna. Þeir sem eru í þeirri stöðu eru í betri málum, ef svo mætti að orði komast, í dag en gilti þegar hv. þingmaður var í ríkisstjórn.

Hér er því haldið fram að barnabætur hafi verið skertar um of. Þó er það svo að einstætt foreldri með tvö börn, annað undir sjö ára aldri, missir ekki að fullu rétt sinn til barnabóta fyrr en viðkomandi hefur náð einni milljón í tekjur. Það má svo sem velta fyrir sér hvort kerfi sem er þannig uppbyggt að jafnvel þeir sem hafa eina milljón í tekjur fái barnabætur, hvort skerðingar séu í slíku kerfi of miklar. Ég get tekið undir með hv. þingmanni um að við getum gert betur (Forseti hringir.) og eigum að gera það, fyrst og fremst með verðmætasköpun, en ég tel hins vegar ekki að við höfum verið með skerðingarhlutföll rangt stillt þegar þeir sem hafa jafn miklar ráðstöfunartekjur og ég hef hér rakið njóta enn barnabóta.



[15:21]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er greinilega ástæða fyrir hæstv. fjármálaráðherra að kynna sér þessa skýrslu vegna þess að niðurstaða hennar er akkúrat sú að það séu aðeins börn einstæðra foreldra og hinna allra tekjulægstu sem njóti barnabóta en ekki börn fólks í sambúð, og að barnabætur á hvert barn á Íslandi séu þess vegna einungis um tveir þriðju af því sem mætti búast við annars staðar á Norðurlöndunum.

Hann getur tekið dæmi, eitt einstakt dæmi, af einstæðu foreldri en hann forðast að taka dæmi af foreldri í sambúð þar sem skerðingarmörkin hjá foreldri með eitt barn byrja rétt við 200 þús. kr. og skerðingin verður full við 409 þús. kr. Það er auðvitað sá veruleiki sem er vandamálið. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækka ekki skerðingarmörk og breyta þessum stuðningskerfum, sem alls staðar á Norðurlöndunum eru við allan þorra (Forseti hringir.) fólks, í lágtekjustuðning. Það er sú grundvallarbreyting sem veldur því að fólk þarf að flytja af landi brott til að fá velferðarstuðning sem ætti að vera í boði á Íslandi. Það er algjör óþarfi að flytja fólk út til að það upplifi að það geti fengið eðlilegan stuðning við framfærslu barna sinna.



[15:23]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Samfylkingin hefur fylgt þeirri stefnu að allir eigi að fá barnabætur óháð tekjum, hefur boðað þá stefnu. Á sama tíma segir Samfylkingin að það megi ekki og ætti ekki að lækka skatta á millitekjufólk. Ég er þeirrar skoðunar að bótakerfi eins og barnabótakerfið, svo að dæmi sé tekið, eigi fyrst og fremst að beinast að þeim sem eru í þörf fyrir auknar ráðstöfunartekjur. Að öðru leyti eigum við að stilla sköttum í hóf. Sú leið sem Samfylkingin boðar — sem er að hafa háa skatta, líka á þá sem eru með millitekjur og svo þriðja skattþrepið á þá sem eru með 700 þús. kr. og meira og nota síðan þá skatta til að dreifa aftur út eftir reglum sem menn telja hér í þessum sal að þeir geti fullkomnað og haft svo sanngjarnar að allir eigi að vera sáttir — er stefna sem ég fylgi ekki. Ég tel að bótakerfin eigi fyrst og fremst að gagnast þeim sem hafa ekki nægar ráðstöfunartekjur og við getum lyft undir með. Að öðru leyti eigum við að láta fólk í friði með lágum sköttum.