145. löggjafarþing — 71. fundur
 1. feb. 2016.
rannsóknir á kynferðisbrotum gegn fötluðu fólki.
fsp. KaJúl, 337. mál. — Þskj. 404.

[15:55]
Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp, má segja, í seríu af fyrirspurnum en ég hef áður rætt við hæstv. húsnæðis- og félagsmálaráðherra um þetta sama mál sem sneri þá að skýrslu sem gerð var á hennar vegum um þetta efni, þ.e. ofbeldi í víðara samhengi, gegn fötluðum konum. Þar komu fram býsna sláandi og óþægilegar niðurstöður en þær drógu líka fram mikilvægar upplýsingar fyrir okkur sem við getum síðan unnið með í framhaldinu til að standa betur vörð um rétt og heilsu og lífsgæði þessara hópa.

Ég lagði líka fram fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um fjölda fatlaðra sem hefðu lent í kynferðisbrotum og farið í gegnum dómskerfið en í því skriflega svari, og þakka ég fyrir það, kom fram að ekki hefði verið haldið sérstaklega utan um þessa hópa miðlægt og þess vegna lágu ekki fyrir upplýsingar um fjölda eða umfang slíkra brota gegn þessum hópi. Þá er í raun búið að svara fyrsta lið fyrirspurnarinnar en mér finnst skipta máli að vel sé haldið utan um þetta. Í því svari kom fram að frá og með 2. desember síðastliðnum eru kynferðisbrot gegn fötluðu fólki skráð sérstaklega. Er það vel og ber að fagna því.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra hvort til greina komi að hefja sérstaka rannsókn á umfangi slíkra brota og þá aftur í tímann. Fjölmargir fatlaðir einstaklingar hafa stigið fram og lýst því hvers lags ofbeldi þeir hafi orðið fyrir út af þeirri stöðu sem þau eru í sem fatlaðir einstaklingar í okkar samfélagi. Það er skylda okkar að standa vörð um þá hópa sem oft geta ekki einu sinni komið til skila þeim brotum sem þau hafa orðið fyrir. Við verðum að halda vel utan um þetta fólk. Þegar kynferðisbrot eiga sér stað verður að taka vel á því og þá verður að vera sérstök þekking innan kerfisins á þeim málum.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort til greina komi að setja saman sérstakt teymi til að halda utan um slík mál. Er slíkt teymi ef til vill í undirbúningi í ráðuneyti hennar?



[15:58]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að setja þetta viðkvæma mál á dagskrá í þessum fyrirspurnatíma. Ég ætla að vinda mér í að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín í þessu sambandi. Í fyrsta lagi er spurningin hvort haldið sé miðlægt utan um kærð kynferðisbrot, meint og dæmd, gegn fötluðu fólki. Eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni er þetta röð upplýsinga sem eru að koma fram. Ef við lítum til þeirra upplýsinga sem við fengum frá ríkislögreglustjóra og kynntum okkur hjá ríkissaksóknara er ekki haldið miðlægt utan um kærð kynferðisbrot gegn fötluðu fólki. Hins vegar kom fram, eins og við reyndar þekkjum núna frá embætti ríkissaksóknara, að samkvæmt beiðni embættisins hefur skráningu í málaskrá lögreglu verið breytt á þann veg að nú verður unnt að halda utan um kærð nauðgunarbrot gegn fötluðu fólki sem á við alvarlega geðsjúkdóma eða andlega fötlun að glíma, samanber 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Ég tel þetta mjög til bóta.

Að sögn embættis ríkissaksóknara var skráningin með þessum hætti tekin upp í lok ársins, 2. desember, þannig að þetta er rétt að fara af stað. Ekki er um að ræða sérstaka skráningu á öðrum kynferðisbrotum en nauðgunarbrotum gagnvart andlega fötluðum einstaklingum og ekki er haldin sérstök skrá um kynferðisbrot gagnvart líkamlega fötluðum einstaklingum. Í því þarf líka að líta til þess að ýmis skilgreiningaratriði þarf að hafa í huga þegar við tölum um hópinn fatlaðir einstaklingar.

Um skráningu í málaskrá lögreglu er rétt að taka fram að um hana gilda lögreglulög nr. 90/1996 og reglugerð þar að lútandi um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu.

Spurt er hvort skrá eigi öll kynferðisbrot gegn fötluðum sérstaklega í öllum tilvikum. Hafa þarf í huga að það verður aldrei hægt að skrá þau af algjörri nákvæmni, m.a. vegna þess, eins og ég sagði áðan, að skilgreining á fötlun er ekki alltaf einföld. Svo má líka velta fyrir sér hvort rétt sé að skrá þetta eitthvað frekar en brot gegn öðrum hópum ef fötlun hefur ekki lagalega eða refsiréttarlega þýðingu. Hér erum við komin svolítið lengra inn í þessa umræðu. Án þess að nokkur afstaða sé tekin til þessara álitamála er þetta álitamál. Brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga eru algengustu málin þannig að það er enginn vafi á því í mínum huga að þessi skráning er mjög til bóta.

Spurt er hvort, að mati ráðherra, komi til greina að hefja sérstaka rannsókn á umfangi slíkra brota. Ég tel þetta málefni mjög brýnt, hef lýst því yfir og fagna allri umræðu um það sem er mikilvæg. Ég vil sérstaklega nefna að í samstarfsyfirlýsingu hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess frá 18. desember 2014 kemur fram að ráðherrarnir og ráðuneytin séu einhuga um að vinna gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess. Í yfirlýsingunni segir að efnt skuli til samráðs á landsvísu milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, menntakerfisins, heilbrigðiskerfisins, lögreglu og ákæruvalds í því skyni að efla aðgerðir gegn hvers kyns ofbeldi. Átakinu er einkum ætlað að ná til ofbeldis gegn börnum, ofbeldis í nánum samböndum, kynferðislegs, andlegs og líkamlegs ofbeldis og ofbeldis gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Að hluta til áttum við þessa umræðu líka nýlega þegar við töluðum um breytingar á almennum hegningarlögum að því er varðar ofbeldi í nánum samböndum.

Í yfirlýsingu ráðherranna er lögð áhersla á að koma á svæðisbundnu samráði sem meðal annars er ætlað að bæta verklag við fyrirbyggjandi aðgerðir og rannsóknir ofbeldismála og þá sérstaklega í tengslum við ofbeldi gagnvart börnum og fötluðu fólki. Í kjölfar þessarar yfirlýsingar var skipaður stýrihópur með fulltrúum fyrrgreindra ráðherra sem hefur það hlutverk að undirbúa aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að vinna gegn ofbeldi í samfélaginu. Er það samstarf leitt af velferðarráðuneytinu og þessari vinnu miðar vel áfram.

Í síðustu viku var haldinn 100 manna samráðsfundur með öllum þeim sem koma að aðgerðum gegn ofbeldisbrotum og hefst úrvinnsla úr þeim mjög fljótlega.

Ég tel rétt að bíða niðurstöðu stýrihópsins og sjá til hvaða aðgerða hann telur nauðsynlegt að grípa. Í framhaldinu verða svo stjórnvöld að meta tillögurnar og hrinda þeim aðgerðum í framkvæmd sem líklegastar eru til að bera sem mestan árangur til að stemma stigu við þessu sannkallaða böli sem hvers kyns ofbeldi er.



[16:04]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Mig langaði bara í þessu sambandi að minna á mikilvægi rétts fatlaðra til sjálfstæðs lífs, m.a. með notendastýrðri persónulegri aðstoð. Stofnanir geta verið viðsjárverðar eða það er áskorun að hafa nógu mikið eftirlit með stofnunum eða heimilum. Auðvitað á það alltaf að vera verkefnið. Einn af kostunum við NPA sem kannski er dýrari kostur þegar allt er talið saman, ég veit það ekki, er sá að þar hefur fatlaður einstaklingur meiri yfirráð yfir eigin lífi og velur sjálfur hverjir aðstoða viðkomandi. Í ljósi þess hversu alvarleg þessi brot eru sem við höfum verið að horfa upp á finnst mér það algjörlega þess virði þótt það kosti meira. Mér finnst þreytandi hvað umræðan um NPA fer alltaf (Forseti hringir.) út í kostnað og aura því að kostnaðurinn við hitt er slíkur að við eigum ekki að láta (Forseti hringir.) það líðast.



[16:05]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Á síðustu vikum höfum við farið í gegnum ansi margar fyrirspurnir og svör sem lúta að kynferðislegu ofbeldi gagnvart fötluðu fólki. Þetta er alveg gríðarlega mikilvæg umræða og ég tel mjög mikilvægt að halda vel utan um skráningarnar, sérstaklega kannski til að byrja með vegna þess að staða fatlaðs fólks er almennt veikari í samfélaginu. Þessi hópur er berskjaldaðri fyrir ofbeldi en aðrir.

Ég hef fengið nokkur svör frá ráðherrum sem ég hef beint fyrirspurnum til. Það er að tínast til alls konar þekking á þessum málum. Ég held að það sé rosalega mikilvægt fyrir okkur í framhaldinu að gera eitthvað með þetta, að taka þetta saman. Ég velti því upp hvort það eigi að vera í formi skýrslu, a.m.k. að við (Forseti hringir.) tökum þessar upplýsingar saman nú þegar öll þessi svör eru komin og við sem þing höldum utan um þetta sameinað.



[16:06]
Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er líka ánægð með að menn séu að stíga einhver skref fram á við í því að reyna að ná betur utan um þetta. Það verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr þessum stýrihópi.

Þó að hópurinn fatlað fólk sé gríðarlega víður og ólíkur innbyrðis, og það er heiti á mjög fjölbreyttum hópi einstaklinga, vil ég brýna hæstv. ráðherra til að við látum ekki vandann við að skilgreina hvernig hópurinn lítur út tefja okkur eða koma í veg fyrir að við söfnum mikilvægum upplýsingum. Það má safna þessum upplýsingum án þess að þær séu endilega persónugreinanlegar. Ég hef trú á, og veit að ráðherrann er sammála mér um það, að upplýsingar séu grunnurinn að því að við getum ráðist í alvöruaðgerðir og tekið upplýstar ákvarðanir um framhaldið.

Eins og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir nefndi áðan er möguleiki að valdeflingin sem felst í því fyrir einstaklinginn að fá notendastýrða persónulega þjónustu geti valdið því að staða hans innan samfélagsins verði sterkari. Þar af leiðandi ætti að draga úr ofbeldi en við vitum það samt ekki. Það er nokkuð sem væri líka mjög áhugavert fyrir okkur að skoða.

Til að taka þessa meðvituðu ákvörðun þurfum við þessar upplýsingar og ég held að það sé verið að stíga rétt skref hér. Það er komin ákveðin skilgreining á bæði hvers lags ofbeldi og hvaða hópur það er sem hæstv. ráðherra nefndi áðan sem á að halda utan um. Það er ágæt byrjun. Síðan skulum við taka næstu skref, stækka hópinn, fjölga líka tegundum ofbeldis og fá þannig ítarlegri upplýsingar þannig að við getum í fyrsta lagi varið þennan hóp betur fyrir ofbeldisfólki og síðan aftur brugðist rétt við þegar ofbeldi (Forseti hringir.) á sér stað.



[16:08]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega sammála því hjá hv. þingmanni að mikilvægi upplýsinga verður seint ofmetið í hvaða málaflokkum sem er. Svo sannarlega á það við þarna.

Við erum að taka tiltekin skref og þurfum að sjálfsögðu að taka frekari skref. Ég hjó líka eftir því sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði um þær upplýsingar sem hafa verið að berast okkur undanfarnar vikur sérstaklega því að þetta hefur nokkuð verið til umræðu í þinginu í formi fyrirspurna til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra og við höfum komið með lagafrumvörp eins og ég nefndi áðan.

Við bíðum eftir niðurstöðu stýrihópsins. Það var áætlun sem var hugsuð til fjögurra ára. Það er hins vegar forvitnilegt að vita í hvaða átt sú vinna fer. Það getur verið áhugavert fyrir þingið að eiga þá umræðu. Mér finnst alveg koma til greina að skoða með hvaða hætti, með skýrslu eða öðruvísi, megi ná utan um þá ólíku þætti sem þó eru undir þessum sama hatti. Við erum að tala um réttindamál fatlaðs fólks og ég vil líka nefna þá hrikalega viðkvæmu málaflokka þegar við erum að tala um ofbeldi í nánum samböndum.

Ég tek með mér héðan þessa umræðu sem mér hefur þótt góð og uppbyggileg. Stundum vill maður geta gert hlutina hraðar en það er líka mikilvægt að það sem við gerum gagnist og sé gert rétt.