145. löggjafarþing — 71. fundur
 1. feb. 2016.
meðferð lögreglu á skotvopnum.
fsp. KJak, 392. mál. — Þskj. 538.

[16:11]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Skotvopnaeign lögreglu hefur verið talsvert til umfjöllunar á Alþingi undanfarin missiri. Hæstv. ráðherra svaraði fyrirspurn minni í fyrra um skotvopnaeign lögreglunnar þar sem kom fram að lögreglan ætti 590 skotvopn og keypt hefðu verið 145 skotvopn frá árinu 2004, og tengdist það fyrst og fremst því þegar rætt var um óskilgreinda gjöf Norðmanna til lögreglu eða Landhelgisgæslu.

Þessi umræða hefur hins vegar verið uppi síðan, þ.e. hvernig við viljum sjá lögregluna þróast á Íslandi. Það hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra að hún telji að sú meginregla eigi að gilda að lögreglan sé óvopnuð við dagleg störf. Við höfum hins vegar greint, sem fylgjumst með þessari umræðu, að það virðast talsvert skiptar skoðanir um hversu mikið lögreglan eigi að vera vopnum búin og hvaða reglur eigi gilda um það.

Ég hef lagt mjög mikla áherslu á að umræðan sé gagnsæ, að öllum sé ljóst hvaða reglur gildi um meðferð skotvopna þegar kemur að lögreglunni og sé ákveðið að vopnbúa lögregluna byggi það á gögnum og greiningu á að raunveruleg þörf sé fyrir slík vopn.

Það hefur verið, held ég, stolt margra Íslendinga að lögreglan sé almennt óvopnuð í daglegum störfum, að vopn séu ekki sýnileg. Mér finnst það sjálfri alltaf óhugnanlegt þegar maður sér þungvopnaða lögreglumenn úti á götum erlendis. Þetta hefur verið ákveðið stolt okkar enda spyr maður sig líka gjarnan hvaða gagni vopnin eigi að þjóna þegar um er að ræða almenn lögreglustörf. Við höfum sem betur fer búið við það hér á landi að vera glæpafátt land þótt sögurnar um glæpina séu margar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hverjar aðstæður þurfi að vera til að skilyrði séu uppfyllt um að lögreglu sé heimilt að grípa til skotvopna þegar búið er að taka ákvörðun um að þessi vopn verði tiltæki í lögreglubifreiðum. Þetta er umræða sem fór hér fram fyrr í vetur. Þetta er fyrirspurn frá því í nóvember um að vopn yrðu tiltæk í lögreglubifreiðum.

En ég vil spyrja hvaða reglur gildi um hvenær heimilt verði að grípa til þeirra, hver meti þá aðstæður og heimili eða hafni notkun skotvopna. Þarf að hafa samband um notkun skotvopna eða eru skýrar reglur um hvaða aðstæður það eru og hver þarf þá að samþykkja það?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún geti upplýst okkur um hversu mörg tilfelli hafi komið upp í störfum lögreglu undanfarin tíu ár sem uppfylla skilyrði um beitingu skotvopna og hvers konar tilfelli það eru. Ég spyr líka hvernig eftirliti verði háttað með skotvopnanotkun lögreglu og þeim atvikum sem verða á vettvangi þar sem skotvopnum er beitt.



[16:14]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi taka undir að afar mikilvægt er að gegnsæi sé í þessum málum og að því höfum við í ráðuneytinu unnið, að auka það af því að það er grundvöllur þess að traust ríki milli þjóðfélagsþegna, okkar allra hér, og síðan lögreglunnar í hennar mikilvægu störfum.

En svo ég vindi mér í að svara fyrirspurnum hv. þingmanns, ég vona að ég nái að gera það innan tímamarka, þá aflaði ráðuneytið vegna fyrirspurnarinnar umsagnar ríkislögreglustjóra.

Spurt var: „Hverjar þurfa aðstæður að vera til að uppfyllt séu skilyrði um að lögreglu sé heimilt að grípa til skotvopna sem ákveðið hefur verið að verði tiltæk í lögreglubifreiðum?“ — Og þá vil ég taka fram, sem sagt í afmörkuðum lögreglubifreiðum, sem er afar mikilvægt.

Ég lít svo á að reglurnar hafi verið túlkaðar mjög þröngt. Um heimild til að vopna lögreglu með skotvopnum gilda ákvæði 30. gr. reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð um notkun valdbeitingartækja og vopna frá 22. febrúar 1999 sem gefin var út á síðasta ári, nr. 256/2015, af ráðherra.

Þær reglur ber að túlka með hliðsjón af 14. gr. lögreglulaga sem kveður á um að lögregla megi aldrei ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni. Sömu reglur gilda um skilyrði fyrir heimild lögreglu til að grípa til skotvopna hvort heldur vopn eru geymd á lögreglustöð eða í þessum tilteknu lögreglubifreiðum.

Í 30. gr. framangreindra reglna koma fram þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi en þau eru:

Í fyrsta lagi. Þegar talið er að fyrirliggjandi verkefni krefjist þess eða aðstæður eru slíkar að vopnaburður telst nauðsynlegur, svo sem ef ætla má að lögreglumaður þurfi að eiga við mann sem ástæða er til að ætla að sé vopnaður og líklegur er til að nota skotvopn eða önnur banvæn vopn.

Í öðru lagi. Þegar ríkislögreglustjóri hefur samþykkt eða mælt fyrir um að vopna beri lögreglumenn til að leysa tilgreind verkefni eða við sérstakar aðstæður, svo sem við öryggisgæslu eða verkefni sérstakra sveita lögreglu. Lögreglustjóra er heimilt í samráði við ríkislögreglustjórann að gefa fyrirmæli um vopnaburð, sem gilda um ákveðinn tíma.

Ekki eru sett tímamörk fyrir þessar heimildir í reglunum enda ráðast þau af því verkefni sem er til ákvörðunar um að lögreglumenn skuli vopnast.

Í neyðartilvikum getur hæstráðandi lögreglumaður á hverjum stað gefið fyrirmæli um að lögreglumenn vopnist. Þegar verkefni krefjast vopnunar skal vopna að minnsta kosti tvo lögreglumenn hverju sinni en lögreglumenn skulu ekki starfa einir að vopnuðum aðgerðum nema í neyðartilvikum.

Í öðru lagi er spurt hver meti aðstæður og heimili eða hafni notkun skotvopna eftir atvikum og hvernig samskipta- og verklagsreglur séu um þetta.

Samkvæmt 30. gr. þessara tilgreindu reglna er það lögreglustjóri sem gefur fyrirmæli um að lögreglumenn skuli vopnast skotvopnum. Hæstráðandi lögreglumaður á hverjum stað getur, eins og fram hefur komið, í neyðartilvikum tekið þessa ákvörðun og er þá miðað við að um sé að ræða tilvik sem ætla megi að líf liggi við.

Vopn eru ávallt geymd í þar til gerðum læstum hirslum hvort sem þau eru á lögreglustöð eða í þessum afmörkuðu lögreglubifreiðum. Nánar er kveðið á um varðveislu vopna og verklagsreglur í framangreindum vopnareglum.

Í þriðja lagi er spurt um hversu mörg tilvik hafi komið í störfum lögreglu undanfarin tíu ár sem uppfylla skilyrði um beitingu skotvopna og hvernig þau lýsi sér.

Tiltæk gögn um fjölda tilfella í störfum lögreglu sem uppfylla skilyrði um beitingu skotvopna og varða almenna lögreglu ná einungis til tímabilsins frá árinu 2011 og til dagsins í dag, og verður því að miða við það tímabil hér. Á tímabilinu hefur almenn lögregla alls vopnast 43 sinnum vegna verkefna, þar af atvikatilkynninga sem bárust lögreglu. Þess skal getið að fleira en eitt lögreglulið eða lögregluembætti getur vopnast vegna sama málsins, til dæmis almenn lögregla og sérsveit, og telja þau öll til heildarfjölda tilvika.

Um er að ræða verkefni sem metin voru þess eðlis að nauðsynlegt væri að vopnbúa lögreglumenn ýmist vegna upplýsinga um að í viðkomandi tilvikum væru vopnaðir menn á ferð eða um var að ræða öryggisgæslu, sem verður að hafa í huga að eru inni í þessum tölum.

Sérsveit ríkislögreglustjóra hefur frá 1. janúar 2011 til 18. desember 2015 vopnast 393 sinnum vegna verkefna og atvikatilkynninga sem bárust lögreglu. Sveitin starfar samkvæmt reglugerð 774/1998 um sérsveit ríkislögreglustjórans og (Forseti hringir.) er eina lögreglusveit landsins sem alltaf hefur skotvopn tiltæk.



[16:19]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör af því að þetta er eitt af því sem okkur hefur verið hugleikið, þ.e. vopnaburður í almennum lögreglubílum.

Áhugavert var að heyra einmitt þessar tölur. Þær ná yfir bæði sérsveitina og hina almennu lögreglu og það er kannski óþægilegt að hafa þetta ekki sundurliðað því að við erum svolítið að leita eftir því.

Ég fékk ítarleg svör við spurningum um vopnamál sem ég lagði fyrir ráðherra. Mig langar að spyrja: Það eru 18 bílar nú þegar búnir vopnum. Stendur til að endurnýja í bílunum eða á að bæta við, sem sagt auka bílafjöldann sem í eru vopn ef bílarnir eru 18 nú þegar?

Síðan kemur fram í svarinu, og mig langar til að spyrja ráðherrann um afstöðuna til þess, að fram kemur að (Forseti hringir.) vopn séu nauðsynleg til að ná árangri með samningatækni. Ég á pínu erfitt með að fallast á að það geti verið svo.



[16:20]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér þykir rétt að árétta við þessa ágætu fyrirspurn og ágætu umræðu að þegar kemur að því að auka völd lögreglunnar, hvort sem það er í formi valdbeitingarheimilda eða vopnaburðar eða hvað eina, verðum við að hafa það í huga að við þurfum í okkar samfélagi þótt lítið sé, kannski sérstaklega vegna þess hversu lítið það er, aðhald og mótvægi þegar kemur að stofnunum sem fara með vald.

Þess vegna þykir mér mikilvægt að það sé rætt og þakka fyrir þá umræðu sem á sér stað hér. En minni enn og aftur á að brýn þörf er á að efla eftirlit með lögreglu. Mér finnst að öll áhersla í þeim málum ætti að vera sú að koma þeim málaflokki í lag áður en við íhugum einhverjar frekari heimildir ýmist til vopnaburðar eða hvað eina.

Að því sögðu þakka ég hæstv. ráðherra fyrir svörin og enn og aftur fyrir að opna þessar valdbeitingarreglur sem voru á sínum tíma leynilegar því að það hefur gert umræðuna mun auðveldari en ella.



[16:22]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin.

Þetta eru allmörg tilfelli sem hæstv. ráðherra nefndi, þ.e. frá árinu 2011, og sýnir auðvitað mikilvægi þess að halda bókhald í raun og veru yfir þau tilfelli sem uppfylla skilyrði um beitingu skotvopna þannig að við höfum sem mest gögn og aðgengilegust í umræðunni.

Þetta eru allmörg tilfelli. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún þekki til þess eða geti aflað gagna um það hvað af þessum 43 tilvikum sem upp hafa komið, tilfelli sem uppfylla skilyrði um beitingu skotvopna hjá almennu lögreglunni og svo þau 393 sem hún nefndi hjá sérsveit lögreglustjóra sem lýtur aðeins öðrum lögmálum, fela í sér bara eitthvert hefðbundið eftirlit og hvað getum við sagt, er meira út úr hinu venjubundna ferli. Hvaða tilfelli eru óvænt, ef svo má að orði komast?

Áhugavert væri að fá slík gögn og ég ítreka að það er mjög mikilvægt til þess að umræðan sé sem upplýstust að við höfum góða yfirsýn yfir þetta. Kannski ætti það að vera meiri hluti af starfi þingsins, bara svo ég nefni það, til dæmis hv. allsherjar- og menntamálanefndar að fylgjast sérstaklega með þessum málum með reglubundnum hætti til að umræðan geti verið þannig að hún taki sem mest mið af gögnum og upplýsingum.

Svo langar mig að ítreka síðustu spurningu mína, sem hæstv. ráðherra gafst ekki tími til að svara, um eftirlitið með skotvopnanotkun lögreglu, hvernig því verði háttað, og þeim atvikum sem verða á vettvangi þar sem skotvopnum er beitt.

Það sem væri áhugavert og tengist því sem ég nefndi áðan, um aðgengi að gögnum, að það eru atvik sem uppfylla skilyrði um beitingu skotvopna. Væntanlega er þeim sjaldnast beitt í þeim atvikum þannig að það er auðvitað líka áhugaefni fyrir þingið að átta sig á því hvenær skotvopnum hefur verið beitt, eða hve oft. Ég nefni það hér í lokin hvernig við getum (Forseti hringir.) einhvern veginn gert aðkomu þingsins reglubundnari en að það sé í formi einstakra fyrirspurna þegar þingmönnum dettur það í hug, herra forseti.



[16:24]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil svara núna þeirri spurningu sem mér gafst ekki tími til að svara áðan. Í fjórða lagi var spurt hvernig háttað verði eftirliti með skotvopnanotkun lögreglu og þeim atvikum sem verða á vettvangi þar sem skotvopnum er beitt.

Það er skráð hvenær vopn eru tekin úr vopnakistum og hvers vegna. Um atvik þar sem lögreglan vopnast eru skráðar skýrslur. Ríkissaksóknari fer með rannsókn mála á grundvelli 1. mgr. 35. gr. lögreglulaga ef þörf krefur þar sem lögregla beitir skotvopnum.

Tekið skal fram að nú stendur yfir vinna á vegum ráðuneytisins um endurskoðun laga og reglna um eftirlit með lögreglu og það er nokkuð sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom inn á áðan og skal tekið undir það með honum að nauðsynlegt er að því máli sé komið áfram.

Ég er ekki með á takteinum niðurbrot á þeim tölum sem ég nefndi í svari mínu. Eins og ég sagði áðan höfum við í fyrsta lagi ekki tölur nema þetta langt aftur í tímann. Mér finnst algjört grundvallaratriði að um þessi mál séu góð gögn til, en vera kann í einstaka tilvikum að um sé að ræða trúnaðargögn. En að gögnin séu að minnsta kosti til sem grundvöllur að réttum ákvörðunum og slíku. Ég get spurst fyrir um hvort hægt sé að fá nánari útlistun á þessu.

Ég vil líka í lokin nefna og ítreka það hér sem ég sagði í fyrra svari mínu að við í ráðuneytinu teljum þegar litið er til þessara lögreglubifreiða, sem var kannski rótin að þessari fyrirspurn og hefur verið nokkuð til umræðu undanfarið, að þeim sjónarmiðum hefur alveg verið skýrt komið til skila af okkar hálfu að þær reglur sem menn hafa tækifæri til að kynna sér og er brýnt, á þeim eru ytri mörk (Forseti hringir.) skýr. Það er ekki þannig að hægt sé að teygja þær, það þarf að túlka þær þröngt. Þá er ég að líta til fjölda lögreglubifreiða, hæstv. forseti.