145. löggjafarþing — 71. fundur
 1. feb. 2016.
skatteftirlit og skattrannsóknir.
fsp. HHj, 389. mál. — Þskj. 526.

[16:26]
Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hvað ætlar fjármálaráðherra að gera til að minnka skattsvik á Íslandi? Þeirrar spurningar er víða spurt eftir að formaður fjárlaganefndar hefur upplýst að umfang skattsvika á Íslandi geti verið um 80 milljarðar kr. Ég hef því beint nokkrum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra.

Í fyrsta lagi: Telur hann að það að verja auknum fjármunum í skatteftirlit og skattrannsóknir muni skila sér í bættri skattheimtu og minni skattsvikum?

Í öðru lagi. Hefur hann fyrir því rannsóknir, eða þau embætti sem um þessi mál fjalla, sem sýna að aukið fjármagn í skatteftirlit og skattrannsóknir skili miklu meira fé í ríkissjóð en varið er í rannsóknirnar? Ég spyr einfaldlega: Borgar sig að setja meiri pening í að herða að skattsvikurum?

Í þriðja lagi. Hvað telur ráðherrann að hægt sé að ná miklu af þessum 80 milljörðum í ríkissjóð ef menn kappkosta að nýta allar leiðir sem til þess eru færar?

Í fjórða lagi og það er kannski mikilvægasta spurningin: Hvað ætlar fjármálaráðherra að gera til að auka og efla eftirlit og rannsóknir á skattsvikum en líka til að koma í veg fyrir þau? Við getum auðvitað með margvíslegum breytingum, bæði á reglugerðum og lögum, lokað ýmsum smugum og leiðum fyrir menn til að svíkja undan skatti og ná einhverjum hluta að minnsta kosti af þessum gríðarlegu fjármunum í ríkissjóð.



[16:28]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi það sem hér er spurt um, hvort aukin framlög til skatteftirlits muni skila sér í betri skattheimtu, þá tel ég að við höfum gert rétt með því að viðhalda auknu rekstrarfé til skatteftirlits á undanförnum árum. Erfitt er að segja um það fyrir fram og nákvæmlega að hve miklu leyti það skilar sér í beinhörðum innheimtum. Ég ætla að rekja nokkur sjónarmið um þessi efni.

Hér á landi hafa lögbundin viðbrögð skattyfirvalda annars vegar falist í almennu skatteftirliti ríkisskattstjóra og hins vegar í skattrannsóknum skattrannsóknarstjóra. Skatteftirlit ríkisskattstjóra felst meðal annars í vettvangseftirliti þar sem rekstraraðilar eru heimsóttir eftir ákveðnu vali en einnig í greiningu á frávikum í almennum skattskilum einstaklinga og lögaðila. Skattrannsóknir eru á forræði skattrannsóknarstjóra þar sem mál eiga gjarnan uppruna sinn úr skatteftirliti en einnig er um rannsóknir að eigin frumkvæði að ræða.

Af þessum málum leiða oft endurákvarðanir aftur í tímann sem ríkisskattstjóri annast og einnig fer fram refsimeðferð. Nýleg dæmi á þessu sviði eru fjárveitingar til skattrannsóknarstjóra til að kaupa skattgögn frá útlöndum þar sem vísbendingar voru um að skattskil hefðu ekki verið með réttum hætti hjá innlendum skattaðilum.

Samtímaeftirlit snertir mikinn fjölda rekstraraðila á skömmum tíma og gefur því tækifæri til að leiðrétta með heildstæðum hætti skattskil margra á stuttum tíma. Hið hefðbundna skatteftirlit í formi eftiráskoðana og síðan skattrannsóknir nær til færri aðila þar sem málsmeðferð er mun tímafrekari.

Óhætt er að fullyrða að vinnuframlag hvers starfsmanns bætir skattskil og skiptir þar leiðbeiningarhlutverk RSK til skattaðila einnig miklu máli þar sem koma má í veg fyrir mistök við skattskil með réttum leiðbeiningum.

Spurt er hvort rannsóknir svari því hversu miklu fjármunir sem varið er í skatteftirlit skili í skattheimtu. En um þetta er ekki til að dreifa neinum rannsóknum sem ég get vísað til. Hins vegar er mjög oft fjallað á alþjóðavettvangi um hugtakið skattgap, þ.e. muninn milli þess sem raunverulega innheimtist af sköttum og skilar sér í ríkissjóð og því sem ætti að skila sér ef allir mundu standa skil á þeim sköttum sem þeim ber. Hefur slík útgáfa meðal annars verið á hendi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins.

Hér var vísað til 80 milljarðanna sem er tala sem á uppruna sinn hjá ríkisskattstjóra. Þar erum við í raun og veru að tala um þetta skattgap. En samkvæmt okkar færustu sérfræðingum er erfitt að leggja mat á hversu mikið af þessu er unnt að upplýsa og síðan innheimta af þessum milljörðum. Þeir skiptast um það bil þannig að 49 milljarðar eru í tekjuskatti einstaklinga og fyrirtækja, sem sagt rétt um 50 milljarðar í tekjuskattinum, 11 milljarðar í tryggingagjaldi og rúmir 20 milljarðar í virðisaukaskatti.

Aukinn mannafli, hert samtímaskatteftirlit og efling skattrannsókna skilar örugglega betri skattskilum. En álagning eftir á hefur hins vegar sýnt sig að vera brothætt hvað innheimtu varðar. Því fleiri ár sem tekin eru til endurákvörðunar aftur í tímann þeim mun líklegra er að skattkrafan tapist.

Til hvaða ráða er hægt að grípa? Við höfum stutt ríkisskattstjóra mjög í þeim áherslum sem hann hefur kynnt fyrir okkur. Það sem hægt er að nefna eru aukin úrræði til að stöðva þá sem ekki vilja eða ætla sér ekki að fara að settum reglum. Lögð er áhersla á aukna samvinnu stofnana, bæði innan hvers ríkis sem og á milli landa. Við höfum nýleg dæmi um alþjóðasamninga sem ég hef undirritað um upplýsingaskipti. Aukin áhersla verði lögð á samtímaeftirlit og forvarnir en jafnframt fari fram kerfisbundin endurskoðun á skattskilum með úrtakskönnunum. Betra samspil verði á milli gildandi laga, svo sem ef atvinnurekstur er stöðvaður þá feli það sjálfkrafa í sér lokun virðisaukaskattsnúmers. Það þarf að ljúka skilgreindum minni málum á eftirlitsstigi og að heimilt verði við skatteftirlit að nota reiknilíkan á sama hátt og gildir við skattrannsóknir.

Eins og af þessari upptalningu má ráða þá eru það ýmis úrræði sem kerfið hjá okkur grípur iðulega til, þ.e. þeir sem stunda skatteftirlit og skattrannsóknir. Við höfum í mínu ráðuneyti mjög stutt við, m.a. með auknum fjárframlögum, að áfram verði haldið á þessari braut.(Forseti hringir.)

Að lokum vil ég nefna að við verðum að haga reglunum þannig að ekki sé auðvelt eða jafnvel hvati til þess að stinga undan. (Forseti hringir.) Nýlegt dæmi um það eru breytingar á endurgreiðslum vegna byggingarframkvæmda við eigið húsnæði. Breytingin sem við gerðum þar nýlega virðist ekki hafa gefið góða raun.



[16:34]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta vera eilífðarumræðuefni. Ég átti sérstakar umræður við hæstv. fjármálaráðherra um skattsvik veturinn 2013/2014. Okkur virðist einnig vera fyrirmunað að koma í veg fyrir kennitöluflakk, það er líka eitthvað sem við ræðum aftur og aftur án þess að nokkuð gerist; ég veit að það er einhverra hluta vegna ekki á forræði hæstv. fjármálaráðherra.

Mér finnst vanta að stjórnvöld komi fram með miklu skýrari stefnu: Skattsvik eru ólíðandi. Við ætlum að gera allt sem við getum til að uppræta þau. Allt.

Ég bjó í Danmörku í mörg ár. Þar var allt önnur stemning gagnvart skattsvikum. Menn lögðu mikið á sig og enginn vildi lenda í skattinum í Danmörku. Mér finnst þetta vanta hjá íslenskum stjórnvöldum og ekki bara núverandi heldur í gegnum tíðina. Miklu skýrari stefnu, meira afgerandi og að menn þori að tala skýrt og segja: Við líðum þetta ekki.

Hvað eru menn til dæmis að prenta (Forseti hringir.) 10.000 kr. seðil? Það er eitt dæmið um ruglið. Af hverju beinum við viðskiptunum ekki meira yfir í rafræn viðskipti? Ég vil sjá miklu skýrari stefnu frá hæstv. ráðherra.



[16:35]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að hafið sé yfir vafa að eflt skatteftirlit og skattframkvæmd er góð fjárfesting. En hún er meira en það, hún er réttlætismál, eins og fram kom áðan gagnvart fram þeim sem greiða sitt skilvíslega, og það er auðvitað afsiðandi að horfa upp á að aðrir geri það ekki.

Ég vil leggja áherslu á það að ég tel að sameiginlegar heimsóknir aðila vinnumarkaðarins og skattsins á vinnustaði hafi gefið ákaflega góða raun. Það gefur augaleið að það er hagkvæmt að reyna að leysa í einu lagi það sem þá er hægt að taka á, þ.e. kjarasamningabundin atriði, rétt skráning, rétt skattauppgjör, virðisaukaskattsuppgjör og að ekki sé um að ræða sýndarmennsku, verktöku eða gerviverktöku til að búa út einhverja reikninga. Ég tel að reyna ætti að efla og byggja upp áfram sameiginlegar heimsóknir í stórum stíl á vinnustaði. Svo minni ég líka á þær úrbætur sem löggjöf getur skilað í þessum efnum. Þar nefni ég líka kennitöluflakk, (Forseti hringir.) að hæstv. ráðherra reyni nú að taka á því með viðskiptaráðherra, (Forseti hringir.) og að við komum til dæmis á reglum um þunna eiginfjármögnun. Það eru allt saman liðir í því að styrkja umgjörðina (Forseti hringir.) um rétt skattskil í landinu.



[16:37]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Já, það er ljóst að þessi miklu skattsvik. er mikið og stórt vandamál í þjóðfélagi okkar.

Svo er það þessi tala, 80 eða 83 milljarðar, ríkisskattstjóri sagði að ljóst væri að það mundi aldrei allt innheimtast. En það má nú á milli vera, nóg er eftir samt. Þó að það væri bara helmingurinn sem innheimtist er það fullt, og ef 2/3 innheimtust væri það heill hellingur.

Ég nota þetta tækifæri til að hvetja ráðherrann til dáða í þessum efnum. Eins og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir sagði þurfum við náttúrulega að koma þeirri hugsun að hér að skattsvik eru ólíðandi.

En fyrst og síðast vil ég hvetja ráðherrann til dáða um að efla skatteftirlit og skattheimtu eftir því sem kostur er.



[16:38]
Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Skildi ég fjármálaráðherra rétt? Er það þannig að nýlegar lagabreytingar hafi verið afturför í skatteftirliti og aðhaldi með skattsvikum? Er það þannig að breytingar á endurgreiðslu og virðisaukaskatti af framkvæmdum við eigið húsnæði hafi ýtt tekjum undir borðið og leitt til aukinnar svartrar atvinnustarfsemi? Sýna endurgreiðslur eftir að fallið var frá 100% endurgreiðslu og farið niður í 60% að þær tekjur sem verða við framkvæmdir af þessu tagi skili sér síður?

Ég bið ráðherrann um að fara betur ofan í það. Ég þakka honum að öðru leyti fyrir svörin en spyr hvort unnið sé eftir heildstæðri áætlun um það að vinna gegn skattsvikum. Hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því að allar þær stofnanir sem að málinu koma og ólík ráðuneyti vinni eftir einu heildstæðu plani til að hámarka árangur í þessu mikilvæga verkefni?

Ráðherra minnist réttilega á að reglur skipta hér miklu máli. Hefur hann látið gera yfirlit yfir þær reglur sem bæta má og taka má á til þess að minnka skattsvik? Liggur slíkt yfirlit fyrir, virðulegur ráðherra?

Og síðast en ekki síst af því að ráðherrann á náttúrulega eftir að leggja fram eitt frumvarp til fjárlaga á þessu kjörtímabili áður en kemur að næstu alþingiskosningum: Gerir ráðherrann ráð fyrir því að leggja til meiri fjármuni í skatteftirlit og skattrannsóknir á næsta fjárlagaári en hugsaðir eru til þess í dag?



[16:40]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hér er snert á mjög mikilvægu máli. Það er rétt sem fram hefur komið og ég fór yfir. Þarna er um verulegar upphæðir að tefla. Skattagapið, 80 milljarðar, við vitum öll hverju það mundi skipta í samhengi ríkisfjármála. Gríðarlega háar fjárhæðir.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður segir að það er mikilvægt að skýr lína komi frá stjórnvöldum um að hart verði tekið á skattsvikum. Þar er ég innilega sammála þingmanninum um að við þurfum að haga regluverkinu og framkvæmd skatteftirlits þannig að við ætlum ekki að líða fólki að skjóta sér undan þeirri borgaralegu skyldu sinni að greiða skatta og skyldur eins og allir aðrir og taka þar með þátt í þeim sameiginlega kostnaði sem við ætlum að bera af því að reka þetta samfélag.

Hvernig verður því best náð? Mér hafa ekki borist upplýsingar um að við glímum við mun umfangsmeiri vanda en aðrir. Að sumu leyti er vandinn hér umfangsminni en víða annars staðar. En engu að síður óþolandi að sjá hin miklu undanskot sem eru til dæmis vegna svartrar atvinnustarfsemi, eins og hér hefur aðeins verið til umræðu.

Ég ætla að nota þá hálfu mínútu sem ég hef hér til viðbótar til þess að fara aftur yfir dæmið um endurgreiðslur virðisaukaskatts á viðgerðir eða endurbætur á eigin húsnæði. Hér höfum við sagt annars vegar: Fólk á að fá skýr skilaboð um að skattsvik verði ekki liðin. Hins vegar, þegar við lækkum endurgreiðsluna úr 100% niður í 60% sjáum við talsverða breytingu á hegðun.

Þá er spurningin þessi: Þurfum við að senda skýrari skilaboð um að við ætlum ekki að líða það að þessum skattpeningum sé ekki skilað (Forseti hringir.) eða eigum við að haga reglunum þannig að fólk skili skýrslu um hvað átt hefur sér stað á viðkomandi vinnustað, þ.e. inni á heimili viðkomandi?

Skilaboðin sem við fáum frá kerfinu eru sem sagt þau að það sé minna um að virðisaukaskattsskýrslum sé skilað eftir að við lækkuðum endurgreiðsluna úr 100 niður í 60%.